Fara í efni

Fundargerð - Stjórn Eyþings - 17.05.2013

17.05.2013

 

Stjórn Eyþings

242. fundur

 

Árið 2013, föstudaginn 17. maí, kom stjórn Eyþings saman til fundar á skrifstofu Skútustaðahrepps. Mætt voru Geir Kristinn Aðalsteinsson formaður, Dagbjört Bjarnadóttir, Guðný Sverrisdóttir, Sigurður Valur Ásbjarnarson og Soffía Helgadóttir varamaður Gunnlaugs Stefánssonar sem boðaði forföll. Einnig var framkvæmdastjóri, Pétur Þór Jónasson, mættur. 

Fundur hófst kl. 13:05.

Þetta gerðist helst.

 

1.        Ársreikningur Eyþings 2012, ásamt endurskoðunarskýrslu ENOR.

Samkvæmt rekstrarreikningi námu rekstrartekjur sambandsins á árinu 134,3 millj. kr. en voru 51,2 millj. kr. árið 2011. Á árinu 2012 tók sambandið við rekstri almenningssamgangna í landshlutanum fyrir hönd aðildarsveitarfélaganna og ók það umsvif rekstrarins. Tap ársins nam 3,9 millj. kr. í samanburði við 175 þúsund kr. árið 2011 og samanborið við 634 þús. kr. jákvæða afkomu samkvæmt áætlun.

Samkvæmt efnahagsreikningi eru eignir sambandsins bókfærðar á 78,4 millj. kr. Þar af eru veltufjármunir 76,1 milljón kr. Skuldir sambandsins nema 72,7 millj. kr., þar af eru fyrirframinnheimtar tekjur vegna menningarráðs 31,7 millj. kr. og ógreiddir stofn- og rekstrarstyrkir og verkefnastyrkir menningarráðs 13,8 millj. kr. Bókfært eigið fé nemur 5,7 millj. kr. í árslok 2012 sem er 7,2% af heildarfjármagni. Í árslok 2011 nam bókfært eigið fé 9,5 millj. kr.

Menningarráð Eyþings og almenningssamgöngur eru reknar sem sjálfstæðar rekstrareiningar í starfsemi sambandsins.

Óráðstafað eigið fé nam 5,7 millj. kr. í árslok, þar af 0 millj. kr. vegna menningarráðs og 2,4 millj. kr. neikvæð staða vegna almenningssamgangna. Í árslok 2011 nam bókfært eigið fé 9,5 millj. kr.

Hlutur Eyþings í áætluðum lífeyrisskuldbindingum hjá B-deild LSR vegna starfsmanna skólaþjónustu Eyþings nam 16,0 millj. kr. en nam 15,2 millj. kr. í árslok 2011.

Stjórn Eyþings staðfesti ársreikninginn með undirskrift sinni og vísar honum til aðalfundar.

 

2.        Almenningssamgöngur.

(a)      Fundargerð nefndar um almenningssamgöngur, dags. 8. maí, 19. fundur.

Sigurður Valur fór yfir fundargerðina. Meðal annars greindi hann frá fundi sem þeir Geir áttu með vegamálastjóra og fulltrúa Vegagerðarinnar 23. apríl sl. um fyrirliggjandi rekstrarvanda. Fram kom góður skilningur á erfiðum aðstæðum Eyþings og varð að samkomulagi að flýta greiðslum frá Vegagerðinni.

 

 

 

(b)     Rekstraryfirlit.

Lagt var fram rekstraryfirlit janúar til apríl sem sýnir umtalsverðan halla. Stjórnin beinir því til nefndarinnar að óska eftir samanburði og áætlunum og rauntölum frá ráðgjafa. Þá telur stjórnin nauðsynlegt að fara vel yfir stöðuna og mögulegar aðgerðir þegar tölur vegna júnímáðar liggja fyrir en áætlanir hafa gert ráð fyrir mjög auknum tekjum yfir sumarmánuðina.

(c)      Sumaráætlun.

Lögð fram tillaga að sumaráætlun sem stjórnin samþykkir. Þá samþykkir stjórnin tillögu að akstri yfir sumarmánuðina í tengslum við Hríseyjar- og Grímseyjarferjur en miðað er við að leiðin standi undir kostnaði. Samið verður beint við verktakann á grunni tilboðs hans. Talið er mögulegt að akstur til Grenivíkur verði hluti leiðarinnar án aukakostnaðar.

(d)     Drög að frumvarpi til laga um fólksflutninga.

Með frumvarpinu er ætlunin að skýra einkaleyfi til alamenningssamgangna.

Stjórnin telur brýnt að frumvarpið verði að lögum sem fyrst.

 

3.        Menningarráð Eyþings.

(a)      Fundargerðir menningarráðs, dags. 20. og 21. janúar og 18. febrúar, 42. - 44. fundur.

Lagðar fram.

(b)     Sjálfsmatsrammi vegna úttektar á menningarsamningum.

Lagður fram. Áformaður er rýnifundur á næstunni og á hann verða m.a. boðaðir fulltrúar stjórnar.

 

4.        Kynnisferð til Ulricehamn í Svíþjóð í mars 2013.

Geir fór yfir kynningu sem hann flutti á málþingi 14. mars sl. í Reykjavík. Með honum í námferðinni voru Dagbjört og Pétur Þór. Samdóma mat þeirra er að ferðin hefði verið mjög gagnleg og frábærlega að henni staðið. Áhersla var á að kynna mismunandi svæðisbundið samstarf, stýringu verkefna, markvissa nýtingu Evrópustyrkja, tengsl við sóknaráætlunarvinnuna auk þess sem einstök verkefni voru sérstaklega kynnt.

 

5.        Aðalfundur 2013.

Guðný skýrði frá þeirri aðstöðu sem verður til staðar á Grenivík, en fundurinn verður haldinn þar 27. og  28. september. Rætt var um tillögur að lagabreytingum sem leggja þar fyrir fundinn. Umræða varð um hvaða áherslumál skuli hafa á fundinum en engin ákvörðun tekin.

 

6.        Bréf frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, dags. 4. apríl, varðandi bundin framlög og framlög til sérstakra verkefna.

Fram kemur að bundið framlag á árinu 2013 sé nú áætlað 21.575.000 kr. á hver landshlutasamtök. Þá verða til ráðstöfunar hjá sjóðnum 25 milljónir kr. vegna umsýslu sóknaráætlunar landshluta og verður það greitt í áföngum.

 

7.        Sóknaráætlun.

Pétur greindi frá fundum með framkvæmdaaðilum þeirra verkefna sem unnin verða undir merkjum sóknaráætlunar. Undirbúningur margra verkefnanna er vel á veg kominn og verða samningar undirritaðir um þau í framhaldi.

 

8.        Niðurstöður umræðuhópa á landsþingi sambandsins 2013.

Lagðar fram.

 

9.        Áform um Norðurljósarannsóknarstöð.

Pétur kynnti minnisblað frá 6. maí sem lagt var fram í stjórn Norðurslóðanets Íslands. Nokkrir aðilar hafa unnið að stofnun Norðurljósamiðstöðvar í samstarfi við Heimskautastofnun Kína og er áformað að hún verði staðsett í Reykjadal. Jafnframt er unnið að stofnun sjálfseignarstofnunar sem eigi land og mannvirki og leigi hinum erlenda samstarfsaðila. Meðal þeirra sem áformað er að myndi sjálfseignarstofnunina eru AFE og AÞ. Eins og fram kemur í minnisblaðinu er Eyþingi boðin þátttaka.

Stjórn Eyþings telur ekki ástæðu til þátttöku, enda ná atvinnuþróunarfélögin tvö yfir öll sveitarfélögin innan Eyþings auk þess sem Eyþing er stofnaðili að Norðurslóðaneti Íslands.

             

10.    Fundargerðir og efni frá landshlutasamtökum.

Lagt fram til kynningar.

 

11.    Önnur mál.

Dagbjört upplýsti að fram hefði komið gagnrýni á tilnefningu Eyþings í skólanefnd Laugaskóla (sjá 241. fundargerð). Sú gagnrýni er greinilega á misskilningi byggð þar sem stjórnin hafði áður tilnefnt fulltrúa (236. fundur) sem ráðuneytið gerði að sínum fulltrúum og óskaði eftir nýjum tilnefningum frá Eyþingi.

                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                            

 

Fundi slitið kl. 15:30.

Pétur Þór Jónasson ritaði fundargerð.

Getum við bætt síðuna?