Fara í efni

Fundargerð - Stjórn Eyþings - 16.03.2012

16.03.2012
Stjórn Eyþings
229. fundur

Árið 2012, föstudaginn 16. mars, hélt stjórn Eyþings símafund. Mætt voru Bergur Elías Ágústsson formaður, Geir Kristinn Aðalsteinsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir,  Sigurður Valur Ásbjarnarson og Siggeir Stefánsson varamaður Dagbjartar Bjarnadóttur. Einnig var framkvæmdastjóri, Pétur Þór Jónasson, mættur. Fundur hófst kl. 11:00.

 

Á fundinum var tekið fyrir mál sem var frestað á 228. fundi.
 

 

1. Almenningssamgöngur.
(a) Fundargerðir nefndar um almenningssamgöngur, dags. 24. febrúar, 1. mars og 13. mars, 6. - 8. fundur.
Sigurður Valur fór yfir fundargerðirnar. Greindi frá að komin væri tillaga að leiðakerfi þar sem búið væri að stilla saman leiðum og miðað væri við að akstur hæfist að morgni bæði frá Siglufirði og Húsavík. Framundan væri að kynna verkefnið og nýtt leiðakerfi fyrir sveitarstjórnum sem væntanlega verður gert með heimsóknum til þeirra.
(b) Bókun bæjarráðs Fjallabyggðar frá 28. febrúar.
Í bókuninni er lögð áhersla á að akstur milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar hefjist strax.
(c) Afrit af bréfi frá Samabandi ísl. sveitarfélaga, dags. 27. febrúar, til Leiðar ehf. um samnýtingu ökutækja og almenningssamgöngur.
Lagt fram.
(d) Afrit af bréfi SASS til mennta- og menningarmálaráðuneytis, dags. 16. febrúar, varðandi samnýtingu skólaaksturs og almenningssamgangna.
Lagt fram.
(e) Drög að viðaukasamningi vegna almenningssamgangna milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar á árinu 2012.
Sigurður Valur gerði grein fyrir samningnum sem byggir á upplýsingum frá verktaka. Sigurður gerði jafnframt grein fyrir forsögunni. Vegagerðin féllst ekki á að greiða fyrir akstur milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar, þar sem greiðslur hennar til Eyþings miðast við óbreytt akstursfyrirkomulag. Miðað við það er endastöð á Ólafsfirði. Af hálfu bæjarstjórnar Fjallabyggðar hefði verið gengið út frá því að fé yrði flutt úr leiðinni Sauðárkrókur-Siglufjörður sem er hluti samnings við SSNV. Taka þurfi því upp viðræður við SSNV um tilflutning fjármagns úr leiðinni Sauðárkrókur-Siglufjörður í leiðina Siglufjörður-Ólafsfjörður.
Í greiðsluáætlun er gert ráð fyrir afgangi sem nemur um 900 þúsund kr. til að mæta umsýslu og ófyrirséðu. Vonir standa til að afgangur verði meiri, en hann er háður óvissu vegna útboðs. Þar sem greiðslur vegna viðaukans rúmast innan þessara marka leggur nefnd um almenningssamgöngur til að viðaukinn verði samþykktur.
Stjórnin samþykkir viðaukasamninginn og felur framkvæmdastjóra að hafa samband við verktakann og undirrita samninginn.
(f) Minnisblað frá Smára Ólafssyni VSÓ-ráðgjöf, dags. 16. febrúar, um almenningssamgöngur á Vesturlandi og akstur milli Reykjavíkur og Akureyrar.
Lagt fram. Hafinn er undirbúningur að útboði á akstri milli Akureyrar og Reykjavíkur miðað við að samningur taki gildi 1. september nk. Áformaðar eru talsverðar breytingar á akstursfyrirkomulagi.

Fundi slitið kl. 11:35
Pétur Þór Jónasson ritaði fundargerð.
Getum við bætt síðuna?