Fara í efni

Fundargerð - Stjórn Eyþings - 15.10.2014

22.01.2015

 

Stjórn Eyþings

259. fundur

 

Árið 2014, miðvikudaginn 15. október, kom nýkjörin stjórn Eyþings saman til fundar í Hafnarstræti 91 (3. hæð) Akureyri. Mætt voru Logi Már Einarsson formaður, Arnór Benónýsson, Eva Hrund Einarsdóttir, Hilma Steinarsdóttir, Jón Stefánsson, Sigurður Valur Ásbjarnarson og Örlygur Hnefill Örlygsson varamaður Sifjar Jóhannesdóttur sem boðaði forföll. Einnig var framkvæmdastjóri, Pétur Þór Jónasson, mættur.

Fundur hófst kl. 14:00.

Þetta gerðist helst.

 

Formaður bauð nýja stjórn velkomna til starfa í spennandi og krefjandi viðfangsefni og setti fund.

  1. Punktar fyrir nýja stjórn, dags. 15. október 2014.

Pétur fór yfir nokkur atriði sem lúta að starfi og starfsumhverfi stjórnar.

 

  1. Kosning varaformanns stjórnar.

Arnór Benónýsson var kosinn varaformaður.

 

  1. Ályktanir aðalfundar 2014.

Farið var yfir allar ályktanir fundarins og rætt hvernig einstökum ályktunum verður fylgt eftir.

Stjórnin samþykkir að taka ályktun um menntun fyrir atvinnulífið til umfjöllunar á fundi fulltrúaráðs en þessari ályktun var sérstaklega beint til stjórnar. Með ályktuninni er stjórninni falið að láta vinna aðgerðaáætlun fyrir eflingu menntunar fyrir atvinnulífið á starfssvæðinu.

Í samþykktri fjárhagsáætlun fyrir árið 2015 felst heimild til að ráða í viðbótarstarf. Miðað er við hlutastarf (62,5% eða 5 klst. á dag). Samþykkt að heimila framkvæmdastjóra að auglýsa starfið á næstu vikum í samræmi við starfslýsingu. Evu Hrund var falið að undirbúa málið með framkvæmdastjóra.

  1. Drög að reglugerðum um ný umdæmi lögreglu- og sýslumannsembætta til umsagnar, http://www.innanrikisraduneyti.is/frettir/nr/29079 .

Halla Bergþóra Björnsdóttir og Svavar Pálsson sem skipuð hafa verið í umdæmi lögreglustjóra og sýslumanns í nýju umdæmi Norðurlands eystra mættu á fundinn undir þessum lið, ásamt Daníel Guðjónssyni yfirlögregluþjóni.

Halla og Svavar fóru yfir innihald reglugerðanna og skýrðu frá verkefnastjórnum sem eru að störfum til að undirbúa hin nýju embætti. Í nýju lögregluumdæmi er gert ráð fyrir að aðalstöð lögreglustóra verð á Akureyri en lögreglustöðvar verði á Húsavík, Siglufirði, Dalvík og Þórshöfn. Í umdæmi sýslumanns er gert ráð fyrir aðalskrifstofu á Húsavík, sýslumannsskrifstofu á Akureyri (sama þjónusta veitt og á aðalskrifstofu) og að útibú verði á Siglufirði og Dalvík.

 

 

Svavar vakti athygli á mismunandi þjónustustigi og sagði fjárveitingar munu algerlega stýra því hvaða þjónustu verður hægt að veita. Á Dalvík og Siglufirði væri gert ráð fyrir skrifstofum með takmarkaða þjónustu og ljóst að fjárveitingar skortir til að hægt verði að veita þar sambærilega þjónustu og áður var. Hann taldi að veigamesta breytingin sem sneri að íbúunum væri sú að þeir muni ekki lengur hafa sama aðgang og áður að löglærðu starfsfólki sem þeir gætu leitað ráðgjafar hjá en þetta hefði til þessa verið veigamikill þáttur í þjónustu sýslumannsembætta úti um land.

Fram kom í máli Höllu og Daníels að lögregluumdæmið muni geta veitt sömu þjónustu og veitt er í dag. Sú skerðing sem varð í kjölfar efnahagshrunsins hafi gengið til baka að hluta. Þá greindu þau frá stöðu mála á einstökum stöðum í umdæminu.

Í máli Svavars kom fram að ekki standi til að segja upp starfsfólki vegna breytinganna sérstaklega í samræmi við yfirlýsingar stjórnvalda. Lítið hefði hins vegar enn komið fram af nýjum verkefnum sem hægt væri að flytja til sýslumannsembættanna, eins og stjórnvöld gáfu fyrirheit um.

Stjórn Eyþings gerir ekki athugasemdir við drög að reglugerðum og treystir því að fjárveitingar verði nægar til að þjónusta skerðist ekki. Þar með talin er þjónusta löglærðra starfsmanna. Stjórnin væntir þess að stjórnvöld muni standa við þær yfirlýsingar sem gefnar voru á kynningafundum  um ný umdæmi lögreglu og sýslumanna um að starfsmönnum muni ekki fækka og að ný verkefni verði flutt til sýslumannsembætta. 

  1. Almenningssamgöngur.

(a)     Áfangaskýrsla um almenningssamgöngur (drög).

Drögin gefa gott yfirlit um stöðu verkefnisins í heild og í einstökum landshlutum. Framkvæmdastjóra var falið að koma á framfæri ábendingum og nýjum upplýsingum til nefndarinnar.

(b)     Yfirlit um stöðu og framhald verkefnisins.

Lagðar voru fram nýjar upplýsingar um rekstrarstöðu verkefnisins og áætlun til ársloka, dags. 15.10.2014. Fram kom að ekki er komin niðurstaða í starfi sáttanefndar.

  1. Þingmál.

(a)     Tillaga til þingsályktunar um bráðaaðgerðir í byggðamálum, 19. mál.

       www.althingi.is/altext/144/s/0019.html

Stjórn Eyþings mælir með samþykkt tillögunnar. Þau verkefni sem upp eru talin eru í fullu samræmi við áherslur Eyþings og sem flest hafa ítrekað verið tilgreind á aðalfundum samtakanna.

(b)     Tillaga til þingsályktunar um jafnt aðgengi að internetinu, 28. mál.

       www.althingi.is/altext/144/s/0028.html     

       Stjórn Eyþings mælir með samþykkt tillögunnar. Hér er um að ræða mikið jafnréttismál og brýnt mál í nútímasamfélagi. Tillagan er í samræmi við áherslu Eyþings á uppbyggingu háhraðatenginga og hringtengingu ljósleiðara um allt land.

(c)      Frumvarp til laga um ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi (heildarlög), 11. mál.          www.althingi.is/altext/144/s/0011.html       

Lagt fram.

(d)     Frumvarp til laga um breytingu á jarðalögum (landnotkun og sala ríkisjarða), 74. mál. www.althingi.is/altext/144/s/0074.html     

Lagt fram.

(e)      Tillaga til þingsályktunar um útreikning nýrra neysluviðmiða fyrir íslensk heimili, 18. mál. www.althingi.is/altext/144/s/0018.html     

Lagt fram.

  1. Ályktun um framtíð menningarsamninga frá fundi menningarfulltrúa landshlutanna 9. og 10. október.

Lögð fram.

  1. Önnur mál til kynningar.

(a)     Póstþjónusta framtíðarinnar. Fundur Íslandspósts í Hofi Akureyri fimmtudaginn 23. október.

(b)     Námskeið á vegum Sambands ísl. sveitarfélaga, á Akureyri 27. október og á Húsavík 28. október.

(c)      Alþjóðleg ráðstefna um jafnréttismál á norðurslóðum, haldin á Akureyri 30. og 31. október.

(d)     Ráðstefna á vegum Nordregio Forum: Nordic Bioeconomy and Regional Innovation. Haldin í Keflavík 12. og 13. nóvember.

 

Fundi slitið kl. 16:20.

Pétur Þór Jónasson ritaði fundargerð.

Getum við bætt síðuna?