Fara í efni

Fundargerð - Stjórn Eyþings - 15.03.2017

16.03.2017

 Árið 2017, miðvikudaginn 15. mars, kom stjórn Eyþings saman til fundar í Hafnarstræti 91, Akureyri. Mætt voru Guðmundur Baldvin Guðmundsson formaður, Arnór Benónýsson, Eiríkur H. Hauksson, Elías Pétursson, Eva Hrund Einarsdóttir, Gunnar I. Birgisson og Sif Jóhannesdóttir. Einnig var framkvæmdastjóri, Pétur Þór Jónasson, mættur. Þá mætti Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir menningarfulltrúi undir 1. lið dagskrár.

Fundur hófst kl. 16:00. 

Þetta gerðist helst.

  1. Sóknaráætlun Norðurlands eystra.

(a)     Tilkynning um fulltrúa Háskólans á Akureyri í fagráð menningar.
Háskólinn á Akureyri tilkynnti í tölvupósti 15. febrúar um  skipun aðal- og varafulltrúa sinn í fagráðinu.

Aðalmaður:
Sólveig Elín Þórhallsdóttir verkefnastjóri á hug- og félagsvísindasviði.

Varamaður:
Finnur Friðriksson dósent við kennaradeild.

(b)     Ráðstöfunarfé sóknaráætlunar 2017.
Samkvæmt tölvupósti frá stýrihópi Stjórnarráðsins, dags. 14. mars, þá liggja endanlegar upplýsingar ekki fyrir, en ganga má út frá sama framlagi og árið 2016. Gengið er því út frá því að 108.540.659 kr. komi í framlag frá ríkinu.

Stjórnin samþykkti að ráðstafa framlaginu með eftirfarandi hætti:                                

                                    2016             Flutt og niðurfellt      Samtals
                                                         frá fyrri árum              2017

Atvinnumál, styrkir  42.750.000      10.645.000                   53.395.000

Menning, styrkir      36.273.750      19.758.575                   56.032.325

Áhersluverkefni       20.516.909        2.516.909                   23.033.818

Umsýsla                     9.000.000                                             9.000.000   

Samtals:                108.540.659     32.920.484                 141.461.143             

Eins og kveðið er á um í samningi um sóknaráætlun og samþykkt var í fjárhagsáætlun Eyþings fyrir 2017 þá leggja sveitarfélögin 11.100.000 kr. inn í samninginn. Framlag þeirra leggst við upphæð til áhersluverkefna, sem
verður því alls 34.133.818 kr. 

Stjórnin samþykkir að 13.5 mkr. af þeim 19.758.575 kr sem flytjast frá fyrri árum til menningar deilist á þrjú ár, þ.e. 2017, 2018 og 2019. Framlag til menningarmála árið 2017 er því 47.032.325 kr.

Heildarupphæð til ráðstöfunar í sóknaráætlun á árinu 2017 er því áætluð kr. 143.561.143. 

(c)      Fundargerð stýrihóps Stjórnarráðsins, dags. 14. febrúar, 33. fundur.
Lögð fram.                                                      

(d)     Uppbyggingarsjóður.
Menningarfulltrúi gerði grein fyrir umsóknum sem bárust sjóðnum, en umsóknarfrestur rann út 15. febrúar sl.

Heildarfjöldi umsókna er 155. Þar af eru 45 í atvinnuþróun og nýsköpun og 110 í menningu. Umsóknir í menningu skiptast þannig að 89 eru í verkefnastyrki og 21 í stofn- og rekstrarstyrki.

Umsóknum fækkar nokkuð frá árinu 2016 eða um 35 umsóknir.

Stefnt er að úthlutunarhátíð í síðustu viku apríl og verður hún haldin á Dalvík.

  2.  Aðalfundur 2017.

Aðalfundurinn verður haldinn á Siglóhóteli Siglufirði og samþykkir stjórnin að fela Gunnari og framkvæmdastjóra að finna heppilega dagsetningu. 

   3. Samgönguáætlun 2015 – 2018.

Talsverðar umræður urðu um málið og að henni lokinni var samþykkt eftirfarandi bókun:

Stjórn Eyþings gagnrýnir Alþingi fyrir að nýsamþykkt samgönguáætlun hafi ekki verið fjármögnuð að fullu við gerð fjárlaga 2017. Áætlunin er vanfjármögnuð um 10 milljarða króna á árinu 2017 og því hefur samgönguráðherra lagt til mikinn niðurskurð á þeim verkefnum sem til stóð að framkvæma á árinu.   Eyþing hefur í takt við sóknaráætlun landshlutans lagt ríka áherslu á að uppbygging Dettifossvegar verði kláruð auk þess sem tryggt verði fjármagn í flughlað á Akureyrarflugvelli.   Nú hefur fjármagn til Dettifossvegar verið skorið niður og er hluti af fjármögnun framkvæmdanna byggður á niðurskurði á öðrum brýnum samgönguverkefnum í landshlutanum.   Ekkert fjármagn er ætlað í flughlað. Þessar framkvæmdir eru lykilatriði í því að ferðamenn dreifist sem víðast um landið. Af sömu ástæðu er aðkallandi að vegi um Brekknaheiði og Langanesströnd verði komið á framkvæmdaáætlun.

Stjórn Eyþings fagnar áformum ríkisstjórnarinnar um að setja nú aukið fjármagn til samgöngumála og skorar á Alþingi að tryggja fjármögnun þessara framkvæmda.

   4. Bréf frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, dags. 2. mars, tilnefning tveggja aðalfulltrúa og tveggja til vara í skólanefnd Framhaldsskólans á Laugum til fjögurra ára.

Í bréfinu er óskað eftir að stjórnin tilnefni fjóra einstaklinga, tvo karla og tvær konur. Ráðherra skipar í nefndina og velur úr tilnefningum svo kynjaskipting sé sem jöfnust.

Stjórn Eyþings samþykkir eftirfarandi tilnefningar:

Dagbjört Jónsdóttir, Þingeyjarsveit
Bjarni Höskuldsson, Þingeyjarsveit
Guðrún María Valgeirsdóttir, Mývatnssveit
Sigurður Böðvarsson, Mývatnssveit 

   5. Áformaðir fundir.

Framkvæmdastjóri gerði grein fyrir fundum á vegum eða með þátttöku Eyþings sem áformaðir eru á næstu vikum. Kynningarfundur með AFE og Verkís um skipulagsmál haf- og strandsvæða verður 22. mars, vorfundur landshlutasamtakanna 23. mars, vinnufundur í svæðisskipulagi ferðaþjónustu 5. apríl, fundur um raforkumál og fundir í fulltrúaráði og samráðsvettvangi sóknaráætlunar eru enn ótímasettir.

   6. Þingmál.

(a)     Tillaga til þingsályktunar um úttekt á starfsemi fjölmiðla utan höfuðborgarsvæðisins og leiðir til að tryggja stöðu þeirra, 77. mál. (16/3)
http://www.althingi.is/altext/146/s/0134.html
Lagt fram.

   7. Önnur mál.

Framkvæmdastjóri greindi frá heimsókn stjórnar og framkvæmdastjóra SASS 2. og 3. mars. Þá skýrði hann frá stöðu nokkurra mála sem unnið er að eins og endurbótum á heimasíðu, almenningssamgöngum, brothættum byggðum, endurskoðun fjölmenningarstefnu, svæðisskipulaginu, verkefni RHA og félaginu Eim.

Formaður greindi frá fundum sem hann hefur átt með sveitarstjórum í Eyjafirði um raforkumálin í framhaldi af fundi stjórna Eyþings og SSNV í Varmahlíð 20. febrúar sl.

          Fundi slitið kl. 18:20.

          Pétur Þór Jónasson ritaði fundargerð.

Getum við bætt síðuna?