Fara í efni

Fundargerð - Stjórn Eyþings - 14.09.2015

22.09.2015

Árið 2015, mánudaginn 14. september, kom stjórn Eyþings saman til fundar í gamla Sauðaneshúsinu í Langanesbyggð. Mætt voru Logi Már Einarsson formaður, Arnór Benónýsson, Bjarni Theodór Bjarnason, Hilma Steinarsdóttir, Jón Stefánsson og Sif Jóhannesdóttir. Gunnar Gíslason mætti í stað Evu Hrundar Einarsdóttur sem boðaði forföll. Einnig var framkvæmdastjóri, Pétur Þór Jónasson, mættur.

Fundur hófst kl. 13:15.

Þetta gerðist helst. 

  1. Aðalfundur 2015.

Framkvæmdastjóri fór yfir drög að dagskrá fundarins sem verður haldinn 9. og 10. október í félagsheimilinu Hlíðarbæ í Hörgársveit. Eftir smávægilegar breytingar var framkvæmastjóra falið að ganga frá dagskrá fundarins. 

   2. Sóknaráætlun.

(a)     Áhersluverkefni 2015.

Lögð fram greinargerð um sex áhersluverkefni. Rætt var um tilurð nokkurra þeirra og að þau hefðu fengið of litla umfjöllun. Fram kom að mikilvægt sé að breyta þessu ferli í ljósi reynslunnar. Hafa ber þó í huga að þrjú stærstu verkefnin eiga sér langan aðdraganda og öll byggja verkefnin á áherslum sóknaráætlunar landshlutans. Eftirfarandi áhersluverkefni voru samþykkt:

  1. Norðurland – hlið inn í landið (flutt úr eldri samningi)            kr. 15.000.000
  2. Þróun og ráðgjöf í menningarmálum                            kr. 10.600.000
  3. Skapandi skólastarf                                                      kr.   3.500.000
  4. „Birding Iceland“                                                         kr.   3.253.000
  5. Grunngerð og mannauður í menningarstarfi                 kr.   3.000.000
  6. Matartengd ferðaþjónusta                                            kr.   2.000.000

Stýrihópur Stjórnarráðsins mun fjalla um áhersluverkefnin á næsta fundi sínum. 

(b)     Yfirlit um skipulag Eyþings og annarra landshlutasamtaka vegna uppbyggingarsjóða.

Lagt fram til upplýsingar. 

(c)      Fundur stýrihóps Stjórnarráðsins með fulltrúum Eyþings um framkvæmd samnings um sóknaráætlun.

Fundurinn verður haldinn mánudaginn 28. september á Akureyri og hefst kl. 13:30. Af hálfu Eyþings er óskað eftir að stjórn og framkvæmdastjóri ásamt umsjónaraðilum Uppbyggingarsjóðs mæti. 

(d)     Fundargerðir stýrihóps, 15. og 16. fundur.

Lagðar fram. Fram kemur í 16. fundargerð að sóknaráætlanir landshlutanna hafi verið samþykktar og ítrekað að áhersluverkefni Eyþings berist stýrihópnum til staðfestingar. 

(e)      Greiðslustaða.

Framkvæmdastjóri gerði grein fyrir svonefndri framvinduskýrslu sem felur í sér beiðni um næstu greiðslu til Eyþings. Beiðnin hefur verið samþykkt.

Þá fór framkvæmdastjóri yfir útlagðan kostnað Eyþings vegna umsýslu en ljóst er að hann er þegar kominn talsvert fram yfir hlutdeild Eyþings í heildarframlagi vegna umsýslu sóknaráætlunar.

    3. Greinargerð um starf flugklasans Air66N frá Hjalta Páli Þórarinssyni verkefnastjóra Air66N.

Lögð fram. 

   4. Almenningssamgöngur.

Borist hefur svar við beiðni stjórnar um fund með innanríkisráðherra og fundurinn bókaður 23. september.

Lögð voru fram gögn um akstur og fargjöld Sternu og SBA milli áfangastaða á leiðum 56, 57 og 79.

Miklar umræður urðu um langvarandi rekstrarvanda og skuldasöfnun Eyþings vegna verkefnisins og hægagang af hálfu ríkisins við lausn þeirra mála sem einnig snerta reksturinn í öðrum landshlutum. Stjórnarmenn voru sammála um að forgangsverkefni væri að koma verkefninu á rekstrarhæfan grunn og ljúka síðan uppgjöri vegna fortíðar. Lykilatriði sé að innanríkisráðuneytið beiti sér fyrir lausn. 

   5. Fundargerð Menningarráðs Eyþings, dags. 7. apríl, 52. fundur.

       Samþykkt. 

   6. Tillaga að kerfisáætlun Landsnests 2015 – 2024 ásamt umhverfisskýrslu.

Nokkur umræða varð um áætlunina með hliðsjón af ónógri flutningsgetu í landshlutanum. Stjórnin mun ekki senda inn athugasemdir. 

   7. Ákvörðun Skipulagsstofnunar, dags. 31. ágúst, um kröfu Landverndar um endurskoðun umhverfismats háspennulínu frá Kröflu að Bakka.

Í bréfi Skipulagsstofnunar kemur fram að stofnunin vísar frá beiðni Landverndar um endurskoðun á áliti stofnunarinnar frá 24. nóvember 2010 um mat á umhverfisáhrifum háspennulína frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka.

Stjórn Eyþings hafði komið á framfæri athugasemdum við beiðni Landverndar, sbr. bókun á 265. fundi stjórnar. 

   8. Efni frá landshlutasamtökum sveitarfélaga.

Lagðar voru fram nokkrar fundargerðir landshlutasamtaka. Í fundargerð SSV frá 10. júní 2015 er fjallað um erindi Eyþings um samþykktarferli vegna gjaldskrárbreytinga í almenningssamgöngum landshlutanna. Erindið byggir á minnisblaði Guðjóns Bragasonar og Péturs Þórs Jónassonar sem var til umfjöllunar á vorfundi formanna og framkvæmdastjóra landshlutasamtakanna 16. apríl sl.

Formanni og framkvæmdastjóra falið að ganga eftir afgreiðslu annarra landshlutasamtaka á væntanlegum haustfundi þeirra.

    9. Bréf frá fjárlaganefnd Alþingis, dags. 10. september.

Í bréfinu er boðið upp á viðtalstíma með nefndinni. Framkvæmdastjóra falið að óska eftir tíma 5. eða 7. október til að ræða sérstaklega fjárveitingar til almenningssamgangna.

    10. Önnur mál.

(a)     Sölustaðir farmiða vegna strætó.

Með vísan til umræðu á 270. fundi stjórnar greindi Hilma frá að starfsfólk skrifstofu Langanesbyggðar vinni að því að finna sölustað fyrir farmiða á Þórshöfn.

(b)     Tillaga að samþykktum fyrir Menningarráð Eyþings – fagráð menningar.

Arnór lagði fram og gerði grein fyrir tillögu sem hann og Ragnheiður Jóna menningarfulltrúi hafa samið að nýju menningarráði. Menningarráð Eyþings hefur verið starfrækt á grundvelli menningarsamnings sem rann út um sl. áramót. Framlög til menningarmála og til nýsköpunar og atvinnuþróunar (áður vaxtarsamninga) voru sameinuð undir merkjum sóknaráætlunar í nýjum samningi.

Samkvæmt tillögunni, sem byggir á eldri samþykktum, er nýju menningarráði ætlað að efla menningarstarf á svæðinu auk þess að taka yfir hlutverk fagráðs menningar sem starfar í tengslum við Uppbyggingarsjóð Norðurlands eystra (sjá 264., 265. og 268. fundargerð stjórnar) sem kveðið er á um í samningi um sóknaráætlun landshlutans.

Formaður gerði grein fyrir minnisblaði sem umsjónarmenn Uppbyggingarsjóðs hafa tekið saman fyrir áformaðan fund með stýrihópi Stjórnarráðsins. Settar eru fram tillögur að breytingum á umsýslu sjóðsins.

Framkvæmdastjóra var falið að senda minnisblaðið til stjórnarmanna og einnig þau gögn sem samþykkt hafa verið um stjórnsýslu Uppbyggingarsjóðs. 

Fundi slitið kl. 15:25.

Pétur Þór Jónasson ritaði fundargerð.

Getum við bætt síðuna?