Fara í efni

Fundargerð - Stjórn Eyþings - 13.11.2013

27.11.2013

Stjórn Eyþings
248. fundur

Árið 2013, miðvikudaginn 13. nóvember hélt stjórn Eyþings símafund. Mætt voru Geir Kristinn Aðalsteinsson formaður, Dagbjört Bjarnadóttir, Guðný Sverrisdóttir, Gunnlaugur Stefánsson, Halla Björk Reynisdóttir, Siggeir Stefánsson og Sigurður Valur Ásbjarnarson. Einnig var framkvæmdastjóri, Pétur Þór Jónasson, mættur.
Fundur hófst kl. 12:30.
Þetta gerðist helst.

Formaður bauð Höllu Björk Reynisdóttur sérstaklega velkomna en þetta er hennar fyrsti fundur í stjórn.

1. Almenningssamgöngur.
(a) Gjaldskrárbreytingar.
Lagt fram minnisblað frá Strætó bs. um ákvörðun stjórnar Strætó um hækkun á gjaldskrá en almenningssamgöngur á landsbyggðinni byggja á henni. Hækkunin sem tekur gildi 1. desember nk. nemur að meðaltali 7% og nær til tímabilskorta, farmiða og staðgreiðslu, þar sem stakt gjald hækkar mest en langtímakort minnst. Af þessari breytingu leiðir að verð fyrir hvert gjaldsvæði eða hverja „sónu“ hækkar úr 350 kr. í 400 kr.
Samkvæmt tölvupósti frá Strætó b.s. (Einar Kristjánsson), dags. 21. október, kom í ljós að ekki var full eining meðal landshlutasamtakanna um að breyta og einfalda afsláttarkjör. Þessari breytingu er því slegið á frest þar til ný beiðni kemur frá öllum landshlutasamtökunum. Ekki hafa borist svör frá landshlutasamtökunum við áskorun stjórnar Eyþings um málið frá síðasta stjórnarfundi.
Pétur fór yfir tillögur Strætó b.s. (Smári Ólafsson) um breytingar á gjaldsvæðum. Um er að ræða leiðréttingar sem stafa af því að gjaldsvæðakerfið var sett upp sem radíus frá Reykjavík og í ljós hefur komið að í vissum tilvikum er verið að keyra verulegar vegalengdir langs innan sama gjaldsvæðis. Tillögurnar eru eftirfarandi:
• Leið 57 (Akureyri-Reykjavík) verði 26 gjaldsvæði. Eru 22 í dag. Allar breytingarnar eru norðan Staðarskála. Tvö af fjórum gjaldsvæðum bætast við milli Akureyrar og Sauðárkróks og eitt milli Sauðárkróks og Blönduóss.
• Leið 56 (Akureyri-Egilsstaðir) verði 18 gjaldsvæði. Eru 15 í dag. Eitt gjaldsvæði bætist við milli Akureyrar og Mývatns og tvö milli Mývatns og Egilsstaða.
• Leið 78 (Akureyri-Siglufjörður) óbreytt.
• Leið 79 (Akureyri-Húsavík-Þórshöfn): Milli Akureyrar og Þórshafnar verði 17 gjaldsvæði. Eru 14 í dag. Breytingin er austan Húsavíkur og því engin breyting milli Akureyrar og Húsavíkur.
Leggurinn til Raufarhafnar kemur einnig til skoðunar.

Stjórn Eyþings samþykkir breytingarnar á fjölda gjaldsvæða fyrir sitt leyti. Leita þarf samþykkis SSA varðandi leið 56 og varðandi leið 57 hjá þeim landshlutasamtökum sem aðild eiga að þeirri leið. Samkvæmt upplýsingum frá Strætó liggur fyrir samþykki frá SSV varðandi leið 57.

(b) Ferðareglur fyrir börn.
Lagður fram tölvupóstur frá Strætó b.s. (Júlía Þorvaldsdóttir), dags. 10. október, þar sem kynnt eru drög að ferðareglum fyrir ung börn í strætó á landsbyggðinni. Haft var samráð við Umboðsmann barna og Barnaverndarstofu. Áformað er að innleiða reglurnar 1. desember nk.
Stjórn Eyþings lýsir yfir ánægju með reglurnar.

(c) Hagræðingaraðgerðir og næstu skref.
Pétur fór yfir tillögu að breyttri ferðatíðni í vetraráætlun sem miðað er við að taki gildi um næstu áramót:
• Leið 56 (Akureyri-Egilsstaðir): 4 ferðir í viku, eru í dag 6 ferðir. Ekki eru gerðar athugasemdir af hálfu SSA við þessa breytingu.
• Leið 57 (Akureyri-Reykjavík): óbreytt, 2 ferðir á dag nema 1 ferð á laugardögum.
• Leið 78 (Akureyri-Siglufjörður): óbreytt, 3 ferðir virka daga, engin á laugardögum og ein á sunnudögum.
• Leið 79 (Akureyri-Húsavík): 3 ferðir á dag virka daga, eru í dag 4 ferðir. Ekki er ekið á laugardögum en tvær ferðir á sunnudögum.
• Leið 79 (Húsavík-Þórshöfn): óbreytt, 3 ferðir í viku (pöntunarþjónusta).
Taka þarf á næstunni til skoðunar viðbótarakstur yfir sumarmánuðina (júní-ágúst) þannig að breytingar verði innan ramma samnings við verktaka en í honum er ákveðið svigrúm til breytinga.
Stjórn Eyþings samþykkir þessar breytingar.

2. Önnur mál.
Samþykkt að næsti stjórnarfundur verði fimmtudaginn 21. nóvember kl. 15 á Akureyri.


Fundi slitið kl. 13:20.
Pétur Þór Jónasson ritaði fundargerð.

Getum við bætt síðuna?