Fara í efni

Fundargerð - Stjórn Eyþings - 12.07.2011

12.07.2011
Stjórn Eyþings
223. fundur

Árið 2011, þriðjudaginn 12. júlí, kom stjórn Eyþings saman til fundar að Strandgötu 29 Akureyri. Mætt voru Bergur Elías Ágústsson formaður, Dagbjört Bjarnadóttir, Geir Kristinn Aðalsteinsson og Hanna Rósa Sveinsdóttir. Sigurður Valur Ásbjarnarson mætti ekki. Einnig var framkvæmdastjóri, Pétur Þór Jónasson, mættur. Fundur hófst kl. 10:10.

 

Þetta gerðist helst.
 
1. Fundargerð menningarráðs, dags 31. maí, 31. fundur.
Lögð fram. Fram kemur að menningarráðið hefur orðið við ósk stjórnar um að leiða vinnu við mótun menningarstefnu innan sóknaráætlunar landshlutans.
 
2. Fundargerð sumarfundar landshlutasamtaka sveitarfélaga að Gauksmýri, V-Hún., dags. 23. júní.
Formaður og framkvæmdastjóri gerðu grein fyrir fundinum, en helstu mál til umfjöllunar þar voru sóknaráætlanir landshluta, samstarf sveitarfélaga í Skandinavíu og sveitarstjórnarvettvangur EFTA. Talsverð umræða varð um að ekki skuli fylgja fjármagn þeim auknu verkefnum sem verið er að setja á landshlutasamtökin innan sóknaráætlunar. Einnig komu til umræðu almenningssamgöngur og hugmynd um fræðslufundi um atvinnu- og byggðamál á svæðisbundnum grundvelli í Evrópu.

 

3. Þingmál.
(a) Frumvarp til laga um stjórn fiskveiða (heildarlög), 827. mál.

http://www.althingi.is/altext/139/s/1475.html
Stjórnin tekur ekki efnislega afstöðu til frumvarpsins en leggur áherslu á að reynt verði að ná sem víðtækastri sátt um stjórn fiskveiða.
 
(b) Frumvarp til laga um stjórn fiskveiða (uppboð aflaheimilda), 839. mál.
http://www.althingi.is/altext/139/s/1510.html 
Stjórnin tekur ekki afstöðu til frumvarpsins.
  
4. Ísland 2020 – sóknaráætlun landshlutans.
(a) Bréf frá innanríkisráðuneytinu, dags. 10. maí, varðandi samgönguáætlun og tengsl við sóknaráætlun.
Fram  kemur að samgönguráð vinnur að tillögum að samgönguáætlun 2011-2022 og 2011-2014 og er áhersla lögð á tengingu við sóknaráætlanir landshluta.
Stjórnin felur framkvæmdastjóra að senda bréf til sveitarstjórna og óska eftir ábendingum þeirra um áherslur á fjögurra ára samgönguáætlun.

 

(b) Minnisblað forsætisráðuneytisins um samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 31. maí um Ísland 2020 áætlunina.
Greint er frá samþykkt ríkisstjórnarinnar um skipulag, tímaáætlun og vinnulag þriggja aðgerða í tengslum við Ísland 2020. Um er að ræða sóknaráætlanir landshluta, fjárfestingaáætlun og samþættingu opinberra stefna og áætlana. Í sóknaráætlunum landshluta verður dregin fram forgangsröðun helstu verkefna á næstu árum.

(c) Staða verkefna.
Rætt var um skipun verkefnahópa og verkefni framundan til skemmri og lengri tíma.
• Efling sveitarstjórnarstigsins: Vinnuhópur er til, skipaður fulltrúum allra sveitarfélaganna þrettán.
• Almenningssamgöngur - samgöngumiðstöð: Skipuð hefur verið þriggja manna nefnd sem síðan kallar til fulltrúa sveitarfélaganna.
• Menntamál: Í undirbúningi, en hópurinn mun hafa verkefni sem falla undir þekkingarmiðstöðvar og rannsóknarsetur til umfjöllunar. Þar á meðal er Háskólinn á Akureyri sem er eitt af fjórum forgangsverkefnum frá þjóðfundi landshlutans.
• Heilbrigðismál: Í undirbúningi, en gert er ráð fyrir að heilbrigðismálahópur Eyþings hafi umsjón með höndum.
• Samgöngur: Stjórn Eyþings mun hafa umsjón a.m.k, fyrst um sinn en leita samráðs beint við sveitarfélögin.
• Menningarmál: Menningarráði Eyþings hefur verið falið að vinna að mótun menningarstefnu í samræmi við tilmæli í Ísland 2020.
• Ferðamál: Rætt hefur verið við Markaðsskrifstofu ferðamála á Norðurlandi um vinnu við ferðamálamálastefnu í samræmi við tilmæli í Ísland 2020. Samstarf verður við SSNV en unnin verður sameiginleg stefna fyrir Norðurland allt. Markaðsstofan mun væntanlega  taka að sér umsjón verkefna frá þjóðfundi landshlutans sem falla undir ferðamál.
• Íþróttabærinn Akureyri: Þetta var eitt af forgangsverkefnum frá þjóðfundi landshlutans og hefur verulega sérstöðu. Umræða varð um hvernig skipa ætti hóp um þetta verkefni og mikilvægi þess að koma á tengslum við nágrannabyggðir. Geir var falið að skoða málið frá sjónarhóli Akureyrarbæjar.
• Önnur verkefni frá þjóðfundi: Rætt verður við framkvæmdastjóra atvinnuþróunarfélaganna um umsjón þeirra verkefna sem komu frá þjóðfundi landshlutans og ekki hefur verið getið um hér á undan. Um er að ræða verkefni sem falla undir orkunýtingu, þjónustu við norðurslóð og matvælaframleiðslu.
Í greinargerð Íslands 2020 eru talin upp allmörg verkefni sem sóknaráætlunum landshluta er ætlað að taka á. Að mati stjórnarinnar er óráðlegt að ráðast í fleiri verkefni en þegar hefur verið ákveðið fyrst um sinn.
Óskað hefur verið eftir að Eyþing leggi fram 5 – 7 verkefni sem forgangsmál á Norðurlandi eystra vegna fjárlagagerðar nú í haust.
 
5. Fundargerð frá fundi fulltrúa landshlutasamtaka með formanni fjárlaganefndar 29. júní í Reykjavík.
Á fundinum var fjallað um áformaðar breytingar á úthlutun ríkisstyrkja á safnliðum fjárlaga, en nefndin mun ekki úthluta styrkjum til einstakra verkefna frá og með fjárlögum 2012. Áformað er að færa úthlutunarvaldið að hluta út í landshlutana. Þannig mun hluti þeirra fjárveitinga sem veitt hefur verið af safnliðum færast inn í menningarsamninga landshlutanna, auk sjóða sem starfa á landsvísu s.s. Safnasjóð, Tónlistarsjóð og Húsafriðunarsjóð.
Stjórnin leggur áherslu á að hún fái til umsagnar tillögu að reiknireglu um skiptingu fjármagns sem getið er um í fundargerðinni.

 

6. Til kynningar.
(a) Minnisblað, dags. 7. júní, með frásögn af 3. fundi sveitarstjórnarvettvangs EFTA 31.5. – 1.6. í Hamar, Noregi.
(b) Greinargerð rýnihópa um byggðastefnu ESB vegna aðildarviðræðna Íslands og ESB.
(c) Fundargerðir landshlutasamtaka sveitarfélaga.
(d) Bréf frá Þjóðskrá Íslands, dags. í júní, með upplýsingum um fasteignamat 2012.

 

7. Bréf frá umhverfisráðuneytinu, dags. 31. maí, með drögum að nýrri byggingarreglugerð.
Óskað er umsagnar um drögin. Stjórnin samþykkir að senda ekki umsögn.

 

8. Bréf frá umhverfisráðuneytinu, dags. 3. júní, með drögum að nýrri reglugerð um framkvæmdaleyfi.
Óskað er umsagnar um drögin. Í 11. grein draganna er að finna alvarlegan ágalla. Fella verður út úr greininni að leyfi landeigenda þurfi að liggja fyrir áður en sveitarstjórn getur veitt framkvæmdaleyfi. Krafa um að leyfi landeigenda liggi fyrir getur ekki gengið upp ef samkomulag næst ekki um landverð og taka þarf land eignarnámi. Véfengt hefur verið að eignarnám geti farið fram liggi framkvæmdaleyfi ekki fyrir.

 

9. Bréf frá umhverfisráðuneytinu, dags. 20. júní, með drögum að reglugerð um stjórnun vatnsmála.
Óskað er umsagnar um drögin. Stjórnin samþykkir að senda ekki umsögn.

 

10. Bréf frá umhverfisráðuneytinu, dags. 4. júlí, með drögum að landsskipulagsstefnu.
Óskað er umsagnar um drögin. Stjórnin felur framkvæmdastjóra að senda athugasemdir við einstakar greinar reglugerðarinnar í samræmi við umræður á fundinum.

 

11. Bréf frá Northern Research Forum og Háskólanum á Akureyri um ráðstefnu Rannsóknarþings norðursins 3. – 6. september nk, í Hveragerði.
Lagt fram. Formaður áformar að sitja ráðstefnuna.

12. Önnur mál.
Formaður greindi frá fundi í svonefndri NAUST-nefnd og helstu tíðindum í um uppbyggingu orkufreks iðnaðar í Þingeyjarsýslu. Eitt fyrirtæki hefur sótt um lóð, annað sent fyrirspurn til Skipulagsstofnunar og fleiri fyrirtæki eru að skoða aðstæður. Verið er að greina innviði s.s. vegi, hafnir, skóla og heilbrigðisþjónustu. Fyrir liggur að leggja verður áherslu á Vaðlaheiðargöng og nýja brú á Skjálfandafljót. Þá gerði hann grein fyrir orkurannsóknum og að unnið væri að hönnun á þremur virkjunum.
Formaður varpaði að lokum fram þeirri hugmynd að Eyþing haldi fund í haust um fyrirhugaða uppbyggingu og boði ýmsa hagsmunaaðila, s.s verktaka á svæðinu, til fundarins.

Fundi slitið kl. 12:00.
Pétur Þór Jónasson ritaði fundargerð.
Getum við bætt síðuna?