Fara í efni

Fundargerð - Stjórn Eyþings - 11.12.2012

11.12.2012

 

Stjórn Eyþings

237. fundur

 

Árið 2012, þriðjudaginn 11. desember, kom stjórn Eyþings saman til fundar að Strandgötu 29 Akureyri. Mætt voru Geir Kristinn Aðalsteinsson formaður, Dagbjört Bjarnadóttir, Guðný Sverrisdóttir, Gunnlaugur Stefánsson og Sigurður Valur Ásbjarnarson. Einnig var framkvæmdastjóri, Pétur Þór Jónasson, mættur. 

Fundur hófst kl. 15:00.

Þetta gerðist helst.

 

1.        Fundagerð nefndar um skipulag Eyþings, dags. 23. nóvember, 3. fundur, ásamt tillögum í fylgiskjali.

Hanna Rósa Sveinsdóttir varaformaður nefndarinnar sat fundinn undir þessum lið í forföllum Bergs Elíasar Ágústssonar formanns sem tók þátt í hluta umræðunnar í síma.

Hanna Rósa greindi frá vinnu nefndarinnar en innan hennar komu til umræðu margar hugmyndir að nýju stjórnskipulagi Eyþings og varðandi vinnu að sóknaráætlun landshlutans. Í stuttu máli felst eftirfarandi í tillögu nefndarinnar að stjórnskipulagi Eyþings: Aðalfundur verði með óbreyttum hætti, stjórn verði sjö manna (fjölgað um tvo), sett verði á fót 20 manna fulltrúaráð til að tryggja lýðræðislega aðkomu allra sveitarfélaga að veigamiklum málum sem snerta landshlutann. Gerð er tillaga um hvernig fjöldi fulltrúa deilist á sveitarfélögin. Loks leggur nefndin til að starfsmönnum Eyþings verði fjölgað úr tveimur í þrjá.

Nefndin leggur einnig fram tillögu um fyrirkomulag vinnu að sóknaráætlun landshlutans. Lagt er til að atvinnuþróunarfélögin verði Eyþingi til aðstoðar og dragi fram áherslur hvort á sínu svæði sem síðan verða samþættar.

Stjórn Eyþings þakkar nefndinni fyrir mjög góða vinnu og skýra framsetningu.

Stjórnin lýsir sig í meginatriðum sammála tillögu nefndarinnar að stjórnskipulagi en leggur til að stjórn verði áfram fimm manna en lögð verði áhersla á að koma á virku fulltrúaráði til að efla tengsl Eyþings við sveitarfélögin í samræmi við tillögu nefndarinnar. Stjórnin telur að stærri stjórn yrði þyngri í vöfum og mundi draga úr vægi fulltrúaráðs. Þörf sé þó á að skilgreina nánar hlutverk og starfsemi fulltrúaráðsins. Stjórnin leggur til að sveitarstjórnir kjósi fulltrúaráðið úr hópi aðalfundarfulltrúa. Aðalmenn í stjórn verði sjálfkjörnir sem hluti fulltrúaráðsins.

Varðandi afstöðu stjórnar til tillögu að skipulagi um sóknarráætlun er vísað til dagskrárliðar 2a.

Í greinargerð nefndarinnar kemur fram að ekki hafi unnist tími til að fjalla ítarlega um annars vegar tengsl Eyþings við stoðstofnanir og hins vegar um greinargerð nefndar um umhverfismál sem lögð var fyrir aðalfund 2012. Að mati stjórnarinnar hefur nefndin skýrt ágætlega tengsl við stoðstofnanir í skipuriti en

 

telur ekkert í vegi fyrir því að nefndin skoði þau frekar ef hún kýs. Þá væntir stjórnin þess að nefndin fjalli um þær hugmyndir sem fram koma í greinargerð um ýmis umverfismál.

 

2.        Sóknaráætlun.

(a)      Vinnulag og samráðsvettvangur.

Pétur lagði fram tillögu að vinnuferli við gerð sóknaráætlunar sem í öllum meginatriðum fellur að tillögu nefndar um skipulag Eyþings. Jafnframt lagði hann fram tillögu að skipan samráðsvettvangs sem rík áhersla er á að skipaður verði í öllum landshlutum. Farið var yfir tímasetningar einstakra verkþátta í vinnuferlinu. Stjórnin samþykkir vinnuferlið og skipan samráðsvettvangs. Þá samþykkir stjórnin að halda aukafund Eyþings í lok þessa ferils þannig að tillaga að sóknaráætlun verði lögð fyrir fundinn auk tillagna að skipulagsbreytingum. Framkvæmdastjóra er falið að kalla framkvæmdastjóra atvinnuþróunarfélaganna í upphafi nýs árs.

Formenn og framkvæmdastjórar landshlutasamtakanna hafa verið boðaðir til fundar með stýrinetinu þann 14. desember og munu tímarammi og fleiri atriði skýrast að loknum þeim fundi.

(b)     Skipting 400 mkr. framlags milli landshluta. Sjá fréttatilkynningu:    http://www.stjornarrad.is/rikisstjorn/frettir/nr/500

Ríkisstjórnin samþykkti 27. nóvember að úthluta 400 milljónir kr. í sóknaráætlanir landshluta fyrir árið 2013. Fjármagninu er deilt á átta landshlutasamtök og er þeim ætlað að ákvarða á grundvelli sóknaráætlana hvernig fjármagninu verður varið.

Við skiptingu fjármuna var horft til þess að árið 2013 er reynsluár. Ekki var horft til annarra samninga og ekki gert ráð fyrir fastri grunnfjárhæð fyrir hvern landshluta. Skiptingin var ákveðin á grundvelli fimm viðmiða skv. tillögu stýrinets stjórnarráðsins, þ.e. íbúafjölda, íbúaþróunar, atvinnuleysis, íbúaþéttleika og hagvaxtar. Kvarði allra viðmiðanna er 0-15 og vægi þeirra eftirfarandi: íbúafjöldi 35% , íbúaþróun 20%, atvinnuleysi 15%, íbúaþéttleiki 15%, hagvöxtur 15%. Þessi fimm viðmið endurspegla þær breytur sem ríkisstjórnin taldi helst skipta máli við mat á stöðu landshluta. Viðmiðin eru skýr og hægt að mæla með reglubundnum hætti þannig að auðvelt er að fylgjast með breytingum á stöðu þeirra. Viðmið um skiptingu gilda fyrir árið 2013 en verða tekin til endurskoðunar við ráðstöfun fjár 2014. Í hlut Norðurlands eystra koma 50.595.000 kr.

Fram hafa komið skiptar skoðanir á vægi þeirra viðmiða sem notuð eru og á því hversu skýr þau eru.

(c)      Staða verkefna 2012.

Pétur fór yfir stöðu þeirra tveggja verkefna sem samþykkt voru frá Eyþingi.

Norðurslóðamiðstöð Íslands: Skipulagsskrá fyrir Norðurslóðanet Íslands – þjónustumiðstöð norðurslóðamála hefur verið samþykkt og auglýst hefur verið eftir forstöðumanni. Eyþing er stofnaðili ásamt félagasamtökunum Norðurslóðamiðstöð Íslands.

Athygli vekur að í dagblöðum 8. desember auglýsir Háskóli Íslands eftir forstöðumanni nýs rannsóknaseturs um norðurslóðir. Það kemur stjórninni á óvart ef þetta fellur að markmiði stjórnvalda um gerð sóknaráætlana landshluta.

Fjarskipti og gagnaflutningar á Norðurlandi eystra: Í ljós kom að nauðsynlegt reyndist að endurskipuleggja verkefnið með hliðsjón af ýmsum lagaákvæðum og vinnur innanríkisráðuneytið að því. Tryggt verður að fjárveitingar haldist og verður samningur gerður milli Eyþings og innanríkisráðuneytis.

(d)     Starfsmannamál.

Stjórnin samþykkir ráðningu Valtýs Sigurbjarnarsonar í hálft starf tímabundið vegna aukinna verkefna Eyþings. Pétur fór yfir hvernig kostnaði yrði mætt.

 

3.        Fundargerð Menningarráðs Eyþings, dags. 19. nóvember, 41. fundur.

Lögð fram. Í fundargerðinni kemur fram úthlutun ráðsins á stofn- og rekstrarstyrkjum árið 2012, samtals að upphæð 9,0 milljónir kr. Umsóknir voru samtals að upphæð tæpar 36,5 milljónir kr.

 

4.        Almenningssamgöngur

(a)      Tilboð í leiðina milli Akureyrar-Mývatns-Egilsstaða.

Tilboð voru opnuð 23. nóvember og bárust tvö tilboð. Gengið hefur verið til samninga við Hópferðabíla Akureyrar sem samið hefur verið við um akstur á þeim leiðum sem áður höfðu verið boðnar voru út innan svæðis. Fyrirtækið Hópbílar annast akstur milli Akureyrar og Reykjavíkur.

(b)     Kynningarfundir.

Ákveðið hefur verið að halda kynningarfundi þriðjudaginn 18. desember á Akureyri og Húsavík. Auk nefndar um almenningssamgöngur munu fulltrúar Strætó mæta og fjalla um leiðakerfið og þá þjónustu sem Strætó veitir.

(c)      Umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga, dags. 26. nóvember, við drög að frumvarpi.

Lögð var fram ítarleg og vönduð umsögn sambandsins.

             

5.        Þingmál.

(a)      Frumvarp til laga um sölu á sjávarafla o.fl., 205. mál.

 www.althingi.is/altext/141/s/0212.html

Lagt fram.

(b)     Frumvarp til laga um gatnagerðargjald (framlenging gjaldtöku-heimildar), 290. mál. www.althingi.is/altext/141/s/0323.html

Lagt fram.

(c)      Frumvarp til laga um tekjustofna sveitarfélaga (hlutverk Jöfnunarsjóðs), 291. mál.  www.althingi.is/altext/141/s/0324.html

Lagt fram.

(d)     Frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, 468. mál.

 www.althingi.is/altext/141/s/0602.html

Lagt fram.

 

 

 

6.        Til kynningar.

(a)      Afrit af bréfi bæjarráðs Akureyrar, dags. 23. nóvember, til Vegagerðarinnar vegna niðurfellingar vega af vegaskrá.

(b)     Fundargerðir landshlutasamtaka sveitarfélaga.

-            Fundargerð 43. aðalfundar SASS 18. og 19. október.

-            Fundargerð stjórnar SASS 29. nóvember, 462. fundur.

-            Fundargerð stjórnar SSV 28. nóvember.

-            Fundargerð stjórnar FV 26. nóvember.

-            Fundargerð stjórnar SSNV 19. nóvember.

-            Fundargerð stjórnar SSA 22. nóvember.

 

7.        Drög að stöðuskýrslu fyrir vatnasvæði Íslands, 07-12-2012.

Kynning á drögunum mun standa yfir til og með 7. maí 2013 og er leitað eftir athugasemdum við þau.

Samþykkt að óska eftir að Jónas Vigfússon fulltrúi í vatnasvæðisnefnd komi á fund stjórnar til að ræða efni skýrslunnar.

 

8.        IPA-umsóknir.

Pétur greindi frá að hann hefði aflað upplýsinga um að umsóknum hefði verið skilað um öll þau fimm verkefni sem Anna Margrét Guðjónsdóttir kom að því að skilgreina og kynnt voru á 234. fundi stjórnar og aðalfundi Eyþings. Einnig væri vitað um fleiri umsóknir af svæðinu, m.a. á vegum Þekkingarnets Þingeyinga.

 

9.        Önnur mál.

(a)      Vaðlaheiðargöng.

Pétur greindi frá að samningar Vaðlaheiðarganga hf. við ríkið hefðu nú verið undirritaðir, þ.e.a.s. annars vegar lánssamningur við Endurlán ríkissjóðs og hins vegar samningur um gerð og rekstur jarðganga undir Vaðlaheiði við innanríkisráðuneytið. Þess er vænst að hægt verði að hraða samningum við verktakann í framhaldi. Hlutafé Greiðrar leiðar ehf. í Vaðlaheiðargöngum hf. verður greitt fyrir áramót. Öll sveitarfélögin, að einu undanskildu, tóku fullan þátt í aukningu hlutafjár.

(b)     Stjórnarfundir og fundargögn.

Rætt var um hvernig best væri að miðla fundargögnum og hvort mögulegt væri að miðla þeim eingöngu á rafrænu formi eins og gert var fyrir þennan fund. Fram kom að aðstaða stjórnarmanna er nokkuð mismunandi.

 

 

Fundi slitið kl. 17:50.

Pétur Þór Jónasson ritaði fundargerð.

 

Getum við bætt síðuna?