Fara í efni

Fundargerð - Stjórn Eyþings - 10.08.2010

10.08.2010
Stjórn Eyþings
215. fundur

Árið 2010, þriðjudaginn 10. ágúst, kom stjórn Eyþings saman til fundar á skrifastofu Þingeyjarsveitar að Laugum. Mætt voru Sigrún Björk Jakobsdóttir formaður, Árni K. Bjarnason, Bergur Elías Ágústsson, Marinó Þorsteinsson og Ólína Arnkelsdóttir. Einnig var framkvæmdastjóri, Pétur Þór Jónasson, mættur.
Fundur hófst kl. 14:00.

 

Þetta gerðist helst.
 
1. Skýrsla um heildarendurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Útgefin af samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu í maí 2010.
Sjá
http://www.samgonguraduneyti.is/utgefid-efni/nr/3186
Að mati stjórnarinnar er skýrslan vel unnin og tillögur hennar vel ígrundaðar. Tillögurnar fela í sér róttækar breytingar og því óskar stjórnin eftir ítarlegri kynningu á skýrslunni og áhrifum hennar á einstök sveitarfélög á svæði Eyþings.  Þær upplýsingar eru m.a. grundvallarupplýsingar í umræðu sveitarfélaganna um eflingu sveitarstjórnarstigsins og stækkun sveitarfélaga.

 

2. Fundargerð frá fundi formanna og framkvæmdastjóra landshlutasamtaka sveitarfélaga 3. júní sl. í Borgarnesi, ásamt tengdu efni.
Framkvæmdastjóri gerði grein fyrir fundinum en þar voru m.a. til umfjöllunar:
• Efling sveitarstjórnarstigsins og stækkun sveitarfélaga.
• Niðurstöður skýrslu nefndar samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis um hlutverk landshlutasamtakanna.
• Myndun samráðsvettvangs EES og EFTA þar sem formenn landshlutasamtakanna skipta með sér sætum 4 aðal- og 4 varafulltrúa.
• Menningarsamningar ríkis og sveitarfélaga.
• Staða Sóknaráætlunar 20/20.
• Námskeið fyrir sveitarstjórnarfulltrúa.

 

3. Erindi frá Önnu Guðrúnu Björnsdóttur Sambandi ísl. sveitarfélaga, dags. 8. júlí,  um aðlögunaraðstoð ESB vegna aðildarumsóknar.
Kynnt er annars vegar svonefnd TAIEX-aðstoð og hins vegar IPA-aðstoð og á minnisblaði ræddar nokkrar verkefnishugmyndir.

 

4. Aðalfundur Eyþings 2010.
Framkvæmdastjóri kynnti hugmynd að dagskrá fundarins, sem haldinn verður á Siglufirði 8. og 9. október, og var falið að ganga frá tillögu eftir samtöl við ráðuneyti sveitarstjórnarmála og við Samband ísl sveitarfélaga. Samþykkt var að þiggja boð utanríkisráðuneytisins um að Stefán Haukur Jóhannesson aðalsamningamaður Íslands í aðildarviðræðum við ESB flytji erindi á aðalfundinum og geri grein fyrir samningaferlinu.
Þá samþykkti stjórnin að yfirfara helstu samþykktir, þ.e. lög Eyþings, samþykkt um menningarráð Eyþings og samstarfssamning um skipan  heilbrigðisnefndar og rekstur heilbrigðiseftirlits.

 

5. Þingmál.
(a) Frumvarp til laga um stjórn vatnamála (EES-reglur, heildarlög), 651. mál.
www.althingi.is/altext/138/s/1206.html
Lagt fram.
 
(b) Frumvarp til laga um verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og háhitasvæða (heildarlög), 660. mál.
www.althingi.is/altext/138/s/1280.html
Að mati stjórnar Eyþings er vinna verkefnisstjórnar um gerð rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma, og sú aðferðafræði sem hún hefur þróað, til mikillar fyrirmyndar. Með frumvarpinu er ætlunin að skapa lagaumgjörð um þá vinnu, ásamt því að skapa grundvöll fyrir áframhaldandi vinnu við mat og flokkun á virkjunarkostum.
Stjórn Eyþings leggur áherslu á að verkefnisstjórninni verði áfram falið það verkefni að taka afstöðu til nýtingarsjónarmiða og til verndarhagsmuna einstakra svæða út frá þeirri aðferðafræði sem hún hefur þróað og lagt til grundvallar mati sínu. Mikilvægt er að samstaða sé milli ríkisvaldsins og þeirra sveitarfélaga sem hagmuna eiga að gæta við verndun og nýtingu svæða.
Þá mótmælir stjórn Eyþings því hvernig enn einu sinni er vegið að skipulagsvaldi sveitarfélaga eins og skýrt kemur fram í skýringum með 7. grein. Þeirrar tilhneigingar hefur gætt í vaxandi mæli að undanförnu að ríkisvaldið og löggjafinn reyni að skerða skipulagsvald sveitarfélaganna með ýmsum sérlögum.
Stjórn Eyþings lýsir sig því andvíga samþykkt frumvarpsins að óbreyttu.

(c) Frumvarp til laga um iðnaðarmálagjald (ráðstöfun gjaldsins 2010 og afnám þess), 661. mál.
www.althingi.is/altext/138/s/1281.html (10/8)
Lagt fram.

 

6. Til kynningar.
(a) Bréf frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, dags. 13. júlí, með kynningu á námskeiði um lýðræði í sveitarfélögum.
Lagt fram.

(b) Bréf frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, dags. 5. júlí, með boðun landsþings sambandsins 29. september – 1. október á Akureyri.
Lagt fram.

(c) Afrit af bréfi Leiðar ehf., dags. 6. júlí, með athugasemdum við tillögur að aðalskipulagi Blönduósbæjar 2010 -2030 og Húnavatnshrepps 2010 – 2022 vegna svonefndrar Húnavallaleiðar (Svínavatnsleiðar).
Umræða varð um auglýsingar Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar þar sem m.a. var boðið upp á samræmt athugasemdaform. Borið hefur á þeim misskilningi meðal sveitarstjórnarmanna á Norðurlandi vestra að um sé að ræða aðgerð af hálfu Eyþings. Stjórn Eyþings kom á hinn bóginn á framfæri eigin athugasemd í samræmi við viðræður sem hún hefur átt við stjórn SSNV.

(d) Bréf, dags. 2. júlí, um boð á Fjórðungsþing Vestfirðinga 3. og 4. september, ásamt dagskrá.
Lagt fram.

(e) Samantekt frá Sambandi ísl. sveitarfélaga um nýtingarhlutfall einstakra sveitarfélaga á fasteignasköttum árið 2010.
Lagt fram.

 

7. Erindi frá Byggðastofnun, dags. 29. júní, vegna vinnu að skýrslu um byggðarlög með viðvarandi fólksfækkun.
Í bréfinu er óskað eftir athugasemdum og ábendingum. Stjórnin gerir engar athugasemdir við þær hugmyndir sem kynntar eru í bréfinu og lýsir yfir ánægju með þessa vinnu Byggðastofnunar.

 

8. Erindi frá samgönguráðuneytinu, dags. 15. júní, með ósk um fund um almenningssamgöngur, ásamt umræðuskjali ráðuneytisins frá maí 2010.
Í umræðuskjalinu er að finna tillögu að stefnu samgönguráðuneytisins í almenningssamgöngum og mjög gagnlega samantekt um almenningssamgöngur á landinu og á þeim skýrslum sem unnar hafa verið, m.a. á svæði Eyþings.
Formanni og framkvæmdastjóra er falið að mæta á fund með fulltrúum ráðuneytisins og Vegagerðarinnar.

 

9. Bréf frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, dags. 6. júlí, um eflingu sveitarstjórnarstigsins – nýja leið til sameiningar.
Í bréfinu er gerð grein fyrir störfum samstarfsnefndar  sem meta á sameiningarkosti sveitarfélaga í hverjum landshluta. Samstarfsnefndin óskar eftir fundi til að fara yfir sameiningarkosti sveitarfélaga á starfssvæði Eyþings fyrir 20. september nk.
Framkvæmdastjóra falið að ræða við fulltrúa ráðuneytisins.

 

10. Málefni Greiðrar leiðar ehf.
Framkvæmdastjóri gerði grein fyrir kynningafundi Greiðrar leiðar og samgönguráðherra sem haldinn var 9. ágúst sl. Þar voru m.a. kynnt áhrif nýrra laga nr. 97/2010 um stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir. Með 2. grein laganna er Vegagerðinni heimilað að taka þátt í stofnun hlutafélags sem hefur það að markmiði að standa að gerð jarðganga undir Vaðlaheiði og er Vegagerðinni heimilt að eiga allt að 51% hlutafjár í félaginu.
Á fundinum voru kynntar hugmyndir um aukningu hlutafjár í félaginu. Stjórn Eyþings mun taka afstöðu til hlutafjáraukningar þegar formlegt erindi hefur borist, en Eyþing á 1,33% hlut í Greiðri leið.

 

11. Önnur mál.
(a) Opinber störf  í landshlutanum.
Fram komu áhyggjur af fækkun starfa á vegum ríkisins, bæði vegna starfa sem verið er að leggja niður og ekki síður vegna starfa sem verið er að flytja til höfuðborgarinnar, sem stjórnin telur með öllu óviðunandi.
Stjórnin mun taka þetta mál upp við þingmenn kjördæmisins.

(b) RÚV – svæðisútsendingar.
Stjórn Eyþings samþykkir að setja á fót vinnuhóp og bjóða eftirtöldum aðilum að eiga fulltrúa: starfsstöð Ríkisútvarpsins á Akureyri, Háskólanum á Akureyri, SSNV og SSA. Samþykkt að Bergur verði fulltrúi Eyþings í vinnuhópnum og hann kalli hópinn saman þegar tilnefningar hafa borist. Vinnuhópnum er falið að gera tillögur um svæðisútsendingar af Norður- og Austurlandi sem skilað verði til stjórnar Ríkisútvarpsins.

(c) Yfirfærsla málefna fatlaðra til sveitarfélaganna.
Farið var yfir stöðuna í landshlutanum og fram kom að ekki liggur fyrir endanleg niðurstaða um þjónustusvæði.

(d) Námskeið fyrir sveitarstjórnarmenn.
Samþykkt að auk þeirra námskeiða sem verða í boði á vegum Sambands ísl. sveitarfélaga muni Eyþing í samstarfi við Símenntun HA bjóða upp á grunn- og framhaldsnámskeið um ársreikninga sveitarfélaga.

Fundi slitið kl. 16:30.
Pétur Þór Jónasson ritaði fundargerð.
Getum við bætt síðuna?