Fara í efni

Fundargerð - Stjórn Eyþings - 09.03.2016

31.03.2016

Árið 2016, miðvikudaginn 9. mars, kom stjórn Eyþings saman til fundar í Hafnarstræti 91 Akureyri. Mætt voru Logi Már Einarsson formaður, Arnór Benónýsson, Bjarni Theodór Bjarnason, Eva Hrund Einarsdóttir, Karl Frímannsson. Sif Jóhannesdóttir mætti undir lok 1. dagskrárliðar. Hilma Steinarsdóttir boðaði forföll og ekki barst svar frá varamanni hennar. Einnig var framkvæmdastjóri, Pétur Þór Jónasson, mættur.

Undir 1. dagskrárlið sátu fundinn Guðjón Bragason lögfræðingur Sambandi ísl. sveitarfélaga og Þórarinn V. Þórarinsson lögmaður.

Fundur hófst kl. 16:15. 

Þetta gerðist helst. 

Formaður setti fund og bauð gesti velkomna.

   1. Almenningssamgöngur.

(a)     Rekstraruppgjör fyrir árið 2015.

Lagt fram. Fram kemur að rekstrarliðir eru nær samhljóða því sem var árið 2014 eins og áætlað hafði verið.

(b)     Bréf frá innanríkisráðuneytinu, dags. 26. janúar, ásamt tölvupósti frá Vegagerðinni, dags. 4. mars, um fjárframlög til almenningssamgangna.

Framkvæmdastjóri gerði grein fyrir meginefni bréfsins og tölvupóstsins þar sem fram kemur hvernig staðið verður að úthlutun á 75 mkr. viðbótarframlagi til almenningssamgangna á landsbyggðinni. Þar af verður 50 mkr. varið til að koma til móts við rekstrarvanda þeirra landshlutasamtaka sem verst standa og 25 mkr. verður varið til þróunarverkefna sem hafa það að markmiði að bæta kerfið og/eða til kynningar og markaðsmála. Í bréfinu kemur einnig fram að fallið hafi verið frá áformuðum breytingum á þróunarstyrkjum skv. núgildandi samningum sem kynntar voru í mars 2015. Framkvæmdastjóri greindi frá að undirbúningur umsóknar vegna rekstrarvanda Eyþings væri þegar hafinn.

Formaður spurði Guðjón um rök fyrir því að falla frá áður boðuðum breytingum á úthlutun þróunarstyrkja en þeim hefði sérstaklega verið haldið á lofti í viðræðum Eyþings við IRR og Vegagerð.

Guðjón svaraði því til að á árinu 2015 hefði orðið mikil breyting til hins verra í rekstri þeirra landshlutasamtaka sem liggja umhverfis höfuðborgina og í ljósi þess að fengist hefði viðbótarfjármagn þá hefðu breytingarnar verið taldar ótímabærar. Að því kæmi hins vegar væntanlega. Þá brást Guðjón við gagnrýni sem fram hefur komið um að hann og fulltrúi landshlutasamtakanna í samráðsnefnd um almenningssamgöngur hefðu ekki gætt hagsmuna Eyþings sem  skyldi. Hann  taldi  mikinn  misskilning  hér  á  ferð  og  dreifði   ýmsum gögnum máli sínu til stuðnings. Benti á að hins vegar hefði skort mjög á pólitískan stuðning við verkefnið fram undir þetta. Lagaumhverfið væri óviðunandi og fjármagn ekki nægilegt. Í ofanálag kæmu vandkvæði við að koma á nauðsynlegum breytingum á gjaldskrá. Guðjón benti á að það hefði umfram allt verið eftirfylgni Eyþings vegna hinnar alvarlegu stöðu samtakanna sem hefði kallað á þau viðbrögð og aðgerðir sem nú væru að líta dagsins ljós.

Fram kom að Eyþing hefur bent á að grunnframlagið hafi frá upphafi verið of lágt og ekki tekið mið af aðstæðum.

Þórarinn benti á nokkur atriði sem halda þarf til haga við gerð umsóknar.

Stjórnin samþykkir að fela framkvæmdastjóra og Þórarni að ganga frá bréfi með umsókn vegna rekstrarvanda til Vegagerðarinnar. 

(c)      Frumvarp til laga um farþegaflutninga á landi í atvinnuskyni,

https://www.innanrikisraduneyti.is/frettir/drog-ad-lagafrumvorpum-um-farthegaflutninga-og-farmflutninga-a-landi-til-umsagnar

Lögð var fram umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga, dags. 3. mars 2016. Guðjón vakti athygli á nokkrum atriðum í umsögninni og gat þess að miklar endurbætur hefðu verið gerðar frá fyrra frumvarpi. Frumvarpið mun síðan fara í umsagnarferli þegar það verður komið til nefndar Alþingis. Guðjón vakti sérstaklega athygli á ákvæði í VII kafla frumvarpsins um að binda hámarksgildistíma samninga við 5 ár sem hann taldi allt of stuttan og vísaði m.a. til Danmerkur til hliðsjónar.

Að loknum 1. dagskrárlið voru Guðjóni og Þórarni þakkaðar greinargóðar og gagnlegar upplýsingar.

   2. Samstarfsverkefni um bætta nýtingu orkuauðlinda – fjármögnun. Áður á dagskrá 277. fundar.

Fyrir fundinum lá tillaga að kostnaðarskiptingu þeirra aðila sem óskað hefur verið eftir að standi að baki verkefninu. Áætlað er að verkefnið spanni þrjú ár og nema áætluð fjárframlög 101 mkr. eða tæpum 33,7 mkr. á ári.

Stjórn Eyþings samþykkir þátttöku í verkefninu og nemur framlag Eyþings 9 mkr. á ári. Verkefnið verður skilgreint sem áhersluverkefni innan sóknaráætlunar Norðurlands eystra enda fellur það beint að markmiðum og áherslum sem þar koma fram.

Þá samþykkti stjórnin að heimila formanni að ræða við framkvæmdastjóra atvinnuþróunarfélaganna um vinnu félaganna að verkefninu í umboði Eyþings.


   3. Sóknaráætlun.

(a)     Framlög ríkisins árið 2016.

Á árinu 2016 hækkar framlag ríkisins til samninganna um sóknaráætlun um samtals 80 milljónir kr., eða í 630.700.000 kr. Hækkunin nemur 13,80% milli ára. Til sóknaráætlunar Norðurlands eystra renna 108.540.659 kr.

(b)     Fundargerðir stýrihóps Stjórnarráðsins, dags. 9. og 21. desember, 19. og 20. fundur.

Lagðar fram. 

(c)      Greinargerð Eyþings til stýrihóps Stjórnarráðsins vegna 2015.

Lögð fram greinargerð sem send var stýrihópnum 22. febrúar sl.  Endanleg greinargerð verður send þegar upplýsingar um umsóknir og úthlutanir uppbyggingarsjóðs hafa verið teknar saman. 

(d)     Tillaga að skiptingu fjárframlags og umsýslukostnaðar fyrir árið 2016.

Stjórnin samþykkti að ráðstafa framlagi ríkisins með eftirfarandi hætti (tölur fyrir 2015 til samanburðar):

                                

                                             2015                2016   

         Atvinnumál, styrkir                         42.750.000      42.750.000     

         Menning, styrkir                            31.875.000      36.273.750     

         Áhersluverkefni                             11.752.917      20.516.909     

         Umsýsla                                       9.000.000        9.000.000     

         Samtals:                                         95.377.917   108.540.659     

             

Eins og kveðið er á um í samningi um sóknaráætlun og samþykkt var í fjárhagsáætlun Eyþings fyrir 2016 þá leggja sveitarfélögin 10.600.000 inn í samninginn. Framlag þeirra leggst við upphæð til áhersluverkefna, sem verður því alls 31.116.909 kr. 

(e)      Skipun varamanna í fagráð og úthlutunarnefnd (tveir varamenn í hverja nefnd).

Eftirfarandi var samþykkt.

              Í fagráð atvinnuþróunar og nýsköpunar:

                        Brynhildur Bjarnadóttir, Eyjafjarðarsveit.   

                        Rúnar Sigurpálsson, Akureyri.

              Í fagráð menningar:

                        Guðrún Kristín Jóhannsdóttir, Húsavík.

                        Kristinn Kristjánsson, Siglufirði.

              Í úthlutunarnefnd:

                        Dagbjört Bjarnadóttir, Skútustaðahreppi.

                        Valdemar Þór Viðarsson, Dalvík.

Gert er ráð fyrir karl komi í stað karls og kona í stað konu ef því verður við komið þegar forföll verða.


   4. Þingmál.

(a)     Frumvarp til laga um sveitarstjórnarlög (fjöldi fulltrúa í sveitarstjórn), 296. mál.

Lagt fram.

(b)     Frumvarp til laga um sveitarstjórnarlög (uppbygging ferðamannastaða), 219. mál.

Stjórn Eyþings fagnar því að um beinan tekjustofn til sveitarfélaga sé að ræða. Stjórnin gagnrýnir hins vegar að leyfisgjaldið eigi eingöngu að renna til uppbyggingar ferðaþjónustuinnviða. Með fjölgun ferðamanna reynir einnig á aðra innviði, s.s. sorphirðu, sem nauðsynlegt er að sveitarfélög hafi svigrúm til að viðhalda. Að mati stjórnar Eyþings er eðlilegt að sveitarfélög ættu þess kost að greiða þann kostnað sem hlýst af umsýslu vegna leyfisveitinganna sem og eftirlit á ferðamannastöðum af leyfisgjaldinu. Stjórn Eyþings telur eðlilegt að gjaldtaka miðist við uppbyggingu og veitta þjónustu á ferðamannastöðunum og sé háð leyfi viðkomandi sveitarfélags. Stjórnin tekur því undir grunnhugmynd frumvarpsins en getur ekki mælt með því óbreyttu.

(c)      Tillaga til þingsályktunar um uppbyggingu áningarstaða Vegagerðarinnar við þjóðvegi, 150. mál.

Lagt fram.

(d)     Tillaga til þingsályktunar um áhættumat vegna ferðamennsku, 326. mál. Lagt fram.


   5. Bréf frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, dags.1. febrúar, um áætlað framlag árið 2016.

Í bréfinu kemur fram að áætlað bundið framlag til landshlutasamtaka sveitarfélaga á árinu 2016 nemur um 26,8 mkr. á hver samtök.


   6. Önnur mál.

(a)     Gerð svæðisskipulags ferðaþjónustu á Norðurlandi eystra.

Á aðalfundi Eyþings 2015 var stjórn falið að hefja undirbúning að gerð svæðisskipulags í ferðaþjónustu á svæði Eyþings. Sif var í framhaldi falið að móta fyrstu skref í vinnunni.

Sif kynnti hugmyndir að framkvæmd við gerð svæðisskipulagsins, sem m.a. byggja á samtölum hennar við Bjarna Reykjalín skipulagsstjóra í Þingeyjarsveit og Skútustaðahreppi. Hún fór yfir ýmsa þætti svo sem ákvæði skipulagslaga, samspil við landsskipulag og áætlanir sem taka þarf mið af.

Nokkur umræða varð um skipan verkefnisstjórnar og um samráðsaðila. Vakin var athygli á að taka þurfi mið af Vegvísi í ferðaþjónustu, en eitt af forgangsmálum í stefnu um ferðaþjónustu árin 2016 – 2017 er að gera vandaðar stefnumótandi stjórnunaráætlanir fyrir ferðaþjónustu í hverjum landshluta (Destination Management Plan, DMP).

Samþykkt var að taka svæðisskipulagið á dagskrá næsta fundar stjórnar og að það verði áhersluverkefni innan sóknaráætlunar.

  

Fundi slitið kl. 18:10.

Pétur Þór Jónasson ritaði fundargerð.

Getum við bætt síðuna?