Fara í efni

Fundargerð - Stjórn Eyþings - 08.12.2015

21.12.2015

Árið 2015, þriðjudaginn 8. desember, kom stjórn Eyþings saman til símafundar. Í fundarsíma Hafnarstræti 91 voru Logi Már Einarsson formaður, Karl Frímannsson, Sif Jóhannesdóttir og Gunnar Gíslason varamaður Evu Hrundar Einarsdóttur sem boðaði forföll. Arnór Benónýsson og Hilma Steinarsdóttir voru í síma. Bjarni Theódór Bjarnason forfallaðist. Einnig var framkvæmdastjóri, Pétur Þór Jónasson, mættur.

Fundur hófst kl. 16:05.

Þetta gerðist helst.

1.   Sóknaráætlun. Drög að samningi við Alta.

Framkvæmdastjóri fór yfir samninginn og helstu verkþætti sem lúta að samráðsfundi og framhaldsvinnu við sóknaráætlun. Björg Ágústsdóttir ráðgjafi mun stýra verkefninu fyrir hönd Alta. Þá fór framkvæmdastjóri yfir fjármögnun samningsins í samræmi við fjárhagsáætlanir 2015 og 2016.

Stjórn Eyþings samþykkir samninginn og felur framkvæmdastjóra að undirrita hann.

 2.   Þingmál.

(a)     Frumvarp til laga um tekjustofna sveitarfélaga (sérstakt framlag úr Jöfnunarsjóði), 263. mál.

Framkvæmdastjóra falið að afla upplýsinga hjá Guðjóni Bragasyni lögfræðingi sambandsins.

(b)     Frumvarp til laga um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur og verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu (sameining stofnana), 371. mál.

Lögð var fram tillaga að umsögn. Tillagan samþykkt með smá viðbót í samræmi við umræður á fundinum. Endanleg umsögn hljóðar svo:

Stjórn Eyþings leggst eindregið gegn sameiningu Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn (RAMÝ) og þar með gegn frumvarpinu. Stjórn Eyþings leggur áherslu á að faglegt starf innan svæðisins verði eflt. Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að með sameiningunni er horft til samnýtingar á húsnæði, búnaði og starfsfólki, ekki verður annað séð út frá þessum orðum en með sameiningu muni starfsemi RAMÝ að endingu flytjast frá Skútustaðahrepp til Höfuðborgarsvæðisins og þar með fjarri viðfangsefni RAMÝ.

Stjórn Eyþings hvetur til þess að leita lausna í samráði við heimamenn og Náttúrustofu Norðausturlands. Að mati stjórnar Eyþings kemur til álita að verkefni RAMÝ, sem að mati stjórnar eru mjög mikilvæg, verði flutt til Náttúrustofu Norðausturlands með þjónustusamningi. Stjórn Eyþings vekur einnig athygli á bókunum þeirra sveitarfélaga, sem verndarsvæði Mývatns og

Laxár nær til, sem leggjast hart gegn sameiningu RAMÝ og Náttúrufræðistofnunar Íslands. Eðlilegt er að horft sé til afstöðu þeirra sveitarfélaga.

Í gildandi lögum er gert ráð fyrir að stofnunin byggist upp af dreifðri starfsemi. Frá því er horfið með þessu frumvarpi og farið yfir í miðlæga starfsemi. Stjórn Eyþings vekur athygli á nauðsyn þess að tryggja beina aðkomu Akureyrardeildar að yfirstjórn stofnunarinnar til að tryggja að hún verði ekki afskipt, t.d. með því að annað hvort verði þar starfandi yfirmaður fagsviðs eða forstöðumaður fyrir starfsstöðinni. Að undanförnu hefur starfmönnum á Akureyrardeild fækkað.

 3.   Önnur mál.

(a)     Svæðisskipulag í ferðaþjónustu.

       Rætt var um framkvæmd og skipulag verkefnisins sem áformað er að skilgreina sem áhersluverkefni innan sóknaráætlunar.

(b)     Almenningssamgöngur.

       Í áliti fjárlaganefndar fyrir 2. umræðu fjárlaga er gerð tillaga um 75 mkr. hækkun framlags til að styrkja almenningssamgöngur á landinu sem mun bæta rekstrarskilyrði umtalsvert.

(c)      Greið leið ehf.

       Framkvæmdastjóri fór yfir stöðuna í 40 mkr. árlegri hlutafjáraukningu félagsins til að uppfylla ákvæði í lánasamningi ríkisins og Vaðlaheiðarganga hf.

 

Fundi slitið kl. 16:45.

Pétur Þór Jónasson ritaði fundargerð.

Getum við bætt síðuna?