Fara í efni

Fundargerð - Stjórn Eyþings - 08.04.2014

22.01.2015

 

Stjórn Eyþings

253. fundur

 

Árið 2014, þriðjudaginn 8. apríl, kom stjórn Eyþings saman til fundar á veitingahúsinu Sölku á Húsavík. Mættir voru allir aðalmenn: Geir Kristinn Aðalsteinsson formaður, Dagbjört Bjarnadóttir, Guðný Sverrisdóttir, Gunnlaugur Stefánsson, Halla Björk Reynisdóttir, Sigurður Valur Ásbjarnarsonar og Siggeir Stefánsson. Einnig var framkvæmdastjóri, Pétur Þór Jónasson, mættur.

Fundur hófst kl. 15:10.

 

Þetta gerðist helst.

 

  1. Almenningssamgöngur.

Lögð fram óstaðfest fundargerð frá fundi í innanríkisráðuneytinu 3. apríl. Farið var yfir þá umfjöllun sem var á nýloknum fundi fulltrúaráðs. Alger einhugur kom þar fram um að ekki verði lengra haldið með verkefnið á vegum Eyþings nema til komi gagngerar breytingar á rekstrarskilyrðum og framlagi ríkisins.

Stjórnin samþykkir að bíða viðbragða ráðuneytis og Vegagerðar eftir fund Geirs, Sigurðar og Péturs í ráðuneytinu 3. apríl. Stjórnin samþykkir jafnframt heimild til að segja samningum um almenningssamgöngur upp skriflega og felur framkvæmdastjóra að hafa samráð við lögfræðing samtakanna.

 

  1. Bréf frá áhugahópi um framtíð Hríseyjar, dags. 27. janúar, með niðurstöðum málþings.

Bréfið var sent nefnd um almenningssamgöngur með afriti á Vegagerðina, en nefndin hefur ekki komið saman til fundar. Miðað við stöðu verkefnisins um almenningssamgöngur hefur stjórn Eyþings engin tök á að mæta þeim tilmælum sem fram koma í bréfinu.

 

  1. Minjastofnun Íslands og minjaráð. Tilnefning í minjaráð.

Sigurður Bergsteinsson minjavörður var boðinn velkominn til fundarins. Sigurður lagði fram kynningu á minjaráði og kynnti lög um menningarminjar og drög að reglugerð um minjasvæði og minjaráð. Kynnti hugmynd um að Eyþing tilnefni 3 fulltrúa og menningarráð einn að auki. Reiknað er með tveimur fundum á ári en hugsanlega aukafundi í sérstökum tilvikum. Ráðgert er að Eyþing greiði kostnað fyrir sína fulltrúa. Sagði tilganginn með minjaráði góðan og ávinning fyrir ríkið að fá sveitarfélögin að verkefninu. Sigurður óskaði eftir að fá sendar ábendingar frá stjórn um reglugerðardrögin.

Bent var á að e.t.v. væri betra að orða það svo að Eyþing tilnefni fjóra og þar af komi a.m.k. einn frá menningarráði. Þá gerir stjórnin verulegar athugasemdir við það að Eyþingi sé ætlað að greiða fyrir fulltrúa í minjaráði sem sinni verkefni á vegum ríkisins. Einnig bent á að óheppilegt sé að hafa ráðið mjög fjölmennt.

Stjórnin samþykkti að fresta tilnefningum til næsta fundar. Sigurði var að lokum þakkað fyrir komuna og greinargóðar upplýsingar.

 

 

  1. Fjarskipti.

(a)     Bréf frá Póst- og fjarskiptastofnun, dags. 26. febrúar, vegna áskorunar um aukin gæði fjarskipta á svæði Eyþings.

       Lagt fram.

 

(b)     Efni frá kynningarfundi um stefnumótun og framtíðaruppbyggingu fjarskiptakerfisins, í Reykjavík 26. mars.

       Lagt fram.

 

  1. Málefni norðurslóða.

Pétur og Siggeir skírðu frá efni ráðstefnunnar Ísland á Norðurslóð sem haldin var í Háskólanum á Akureyri 14. mars á vegum Norðurslóðanets Íslands og var mjög áhugaverð og fjölsótt.

 

  1. Flutningskerfi raforku.

Umræða varð um flutningskerfi raforku til landshlutans og um hann. Að mati stjórnar er flutningskefið í algerum ólestri og brýnt að ná niðurstöðu um úrbætur.

 

  1. Sóknaráætlun. Afrit af bréfi innanríkisráðuneytis, dags. 31. mars, til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis um skipan byggðamála og landshlutaáætlanir.

Í bréfinu kemur fram að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra muni skipuleggja og stýra nýjum samráðsvettvangi ráðuneyta. Samráðsvettvangurinn mun taka við öllum þeim verkefnum sem stýrineti Stjórnarráðsins voru falin, en innanríkisráðuneytið hefur farið þar með formennsku. Samskipti landshlutasamtakanna vegna sóknaráætlunar munu því færast til nýs samráðsvettvangs og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis.

Einnig var lagt fram fundarboð til landshlutasamtakanna, en fundurinn verður haldinn 11. apríl í Reykjavík.

 

  1. Bréf frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, dags. 3. apríl, um endurskoðað framlaga til landshlutasamtakanna.

Framlagið mun nema 23,4 mkr. á hver samtök á árinu 2014.

 

  1. Þingmál.

(a)      Frumvarp til laga um eflingu tónlistarnáms (nám óháð búsetu), 414. mál. http://www.althingi.is/altext/143/s/0751.html

       Lagt fram.

 

  1. Fundur með þingmönnum NA-kjördæmis (undirbúningur).

Ekki hefur enn orðið af árlegum fundi en stjórnin telur rétt að freista þess að koma honum á. Nefnd voru nokkur mál sem rétt væri að ræða á þeim fundi.

 

  1. Aðalfundur 2014.

Í ljós hafa komið vandkvæði við fyrri áform um tímasetningu. Framkvæmdastjóra falið að skoða mögulega breytingu.

 

 

  1. Önnur mál.

(a)     Gjaldtaka á ferðamannastöðum.

       Stjórn Eyþings samþykkti eftirfarandi bókun:

       Stjórn Eyþings tekur undir ályktanir Markaðsstofu Norðurlands frá 2. apríl og sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá 4. apríl  þar sem lýst er yfir áhyggjum af fyrirhugaðri, ótímabærri gjaldtöku á ferðamannastöðum í Skútustaðhreppi.

       Stjórn Eyþings harmar að landeigendur Reykjahlíðar hyggist rukka aðgangseyri af ferðamönnum án þess að aukin uppbygging hafi átt sér stað eða þjónusta veitt. Það að einstök náttúrusvæði verði lokuð almenningi á háannatíma nema gegn greiðslu, eftir áratuga athugasemdalausa notkun, er ekki ásættanlegt fyrirkomulag og mun skaða ímynd Mývatnssveitar og ferðaþjónustunnar.

       Sjálfsagt er að landeigendur Reykjahlíðar setji upp ferðaþjónustu og taki þóknun fyrir veitta þjónustu, þegar þeir hafa lagt í uppbyggingu á svæðinu og þjónustan veitt.

       Stjórn Eyþings vonar að landeigendur Reykjahlíðar fresti fyrirhugaðri gjaldtöku við Dettifoss, Hveri og Leirhnjúk þar sem verið er að vinna að lausn þessara mála á landsvísu. Óskipulögð gjaldtaka eins og nú er boðuð skaðar orðspor Íslands erlendis og er úr takti við þá ímynd sem ferðaþjónustuaðilar hafa lagt mikla vinnu í að kynna. Mikilvægt er að standa saman um leið sem byggir á áframhaldandi opnu aðgengi að náttúruperlum og sjálfbæri uppbyggingu á ferðamannastöðum.

 

(b)     Starfsemi Eyþings.

       Siggeir tók upp umræðu um hvernig best sé að haga störfum Eyþings og vísaði í álit nefndar um starf og skipulag Eyþings sem m.a. fjallaði um starfsmannamál. Ekki hefði verið farið að tillögum nefndarinnar.

       Umræða varð um verkefni Eyþings og þróun starfseminnar sem og hjá öðrum landshlutasamtökum. Niðurstaða stjórnar er að tímabært sé að Eyþing bæti við starfsmanni.

 

Fundi slitið kl. 16:50.

Pétur Þór Jónasson ritaði fundargerð.

Getum við bætt síðuna?