Fara í efni

Fundargerð - Stjórn Eyþings - 07.06.2017

07.06.2017

Árið 2017, miðvikudaginn 7. júní, kom stjórn Eyþings saman til fundar í Hafnarstræti 91, Akureyri. Mætt voru Guðmundur Baldvin Guðmundsson formaður, Arnór Benónýsson, Eiríkur H. Hauksson, Eva Hrund Einarsdóttir, Gunnar I. Birgisson og Sif Jóhannesdóttir. Elías Péturssonar boðaði forföll sem og varamaður hans. Einnig var framkvæmdastjóri, Pétur Þór Jónasson, mættur.

Fundur hófst kl. 17:15.

 

Þetta gerðist helst.

1. Sameining Eyþings og atvinnuþróunarfélaganna á Norðurlandi eystra. Skýrsla RHA, maí 2017.
Á fundinn voru mættir skýrsluhöfundar, þeir Hjalti Jóhannesson og Arnar Þór Jóhannesson sérfræðingar á RHA. Einnig hlýddu framkvæmdastjórar atvinnuþróunarfélaganna, Reinhard Reynisson og Sigmundur Ófeigsson, á kynningu á efni skýrslunnar.

Hjalti og Arnar kynntu skýrsluna sem í megindráttum miðar að því að draga fram kosti og galla sameiningar Eyþings og atvinnuþróunarfélaganna tveggja. Meðal annars er fjallað um lagaumgjörð, skipulag í öðrum landshlutum, ásamt því að ræða mögulegt framtíðarfyrirkomulag atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, bæði í óbreyttu fyrirkomulagi og með sameiningu Eyþings og atvinnuþróunarfélaganna.

Stjórnin tekur á þessu stigi enga afstöðu til skýrslunnar en hún mun verða kynnt á ný og rædd á fundi fulltrúaráðs sem haldinn verður á morgun, 8. júní. Ítarlegri umfjöllun verður síðan á aðalfundi Eyþings í haust.

2. Ársreikningur Eyþings 2016, ásamt endurskoðunarskýrslu.
Níels Guðmundsson endurskoðandi hjá Enor mætti á fundinn undir þessum dagskrárlið og var hann boðinn velkominn. Níels fór yfir ársreikninginn og svaraði fyrirspurnum ásamt framkvæmdastjóra.

Rekstartekjur ársins 2016 námu kr. 321,7 millj. samanborið við tekjur að fjárhæð kr. 341,4 millj. samkvæmt áætlun. Tekjur ársins 2016 námu kr. 277,4 millj. Frávik í tekjum frá áætlun liggur í fyrirfram innheimtum tekjum sem eru óúthlutaðir styrkir úr uppbyggingarsjóði. Rekstrargjöld ársins námu kr. 306,6 millj. samanborið við gjöld að fjárhæð kr. 332,1 millj. samkvæmt áætlun. Helstu frávik koma fram í úthlutuðum styrkjum og öðrum rekstrarkostnaði. Rekstrarniðurstaða ársins 2016 var jákvæð um kr. 16,5 millj. samanborið við kr. 9,9 millj. jákvæða afkomu skv. áætlun. 

Heildareignir í árslok 2016 námu kr. 161,2 millj. samanborið við kr. 145,4 millj. í ársbyrjun og hefur efnahagur sambandsins stækkað töluvert á síðustu árum.

Eigið fé var í árslok neikvætt um kr. 53 millj. samanborið við kr. 69,6 millj. neikvæða stöðu í ársbyrjun. Uppsafnað tap samgönguhlutans hafði í árslok 2016 lækkað í 73,6 millj. úr 83,7 millj. í árlok 2015.

Hlutur Eyþings í áætluðum lífeyrisskuldbindingum hjá B-deild LSR vegna starfsmanna skólaþjónustu Eyþings hækkaði um 3,0 milljónir á árinu 2016 og nema nú tæpri 24 millj. kr.

Endurskoðandi fór í framhaldi yfir endurskoðunarskýrsluna.

Stjórn Eyþings staðfesti ársreikninginn með undirskrift sinni og vísar honum til aðalfundar.

3. Bréf frá Norðurþingi, dags. 8. maí, með bókun Óla Halldórssonar og Sifjar Jóhannesdóttur vegna bókunar stjórnar Eyþings frá 294. fundi um orkunýtingu landsvæða.
Í bókun sinni andmæla Óli og Sif harðlega  bókun stjórnar Eyþings frá 294. fundi.

4. Almenningssamgöngur. Tilkynning (tp) frá Vegagerðinni, dags. 23. maí, um viðbótarframlög á árinu 2017.
Í tilkynningunni kemur fram að 32 mkr. komi í hlut Eyþings vegna rekstrarvanda og að auki fær Eyþing 5 mkr. í þróunarstyrk.

5. Svar heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Bjarna Jónssonar um skipun ráðgjafarnefnda heilbrigðisumdæma.
Í svarinu kemur fram að ráðherra muni skipa ráðgjafarnefndir, sbr. 5. gr. reglugerðar um heilbrigðisumdæmi nr. 1084/2014.

6. Þingmál.

(a)   Frumvarp til laga um landgræðslu, 406. mál
http://www.althingi.is/altext/146/s/0537.html
Lagt fram. 

(b)   Frumvarp til laga um skóga og skógrækt, 407. mál.
http://www.althingi.is/altext/146/s/0538.html
Lagt fram. 

(c)    Frumvarp til laga um skipulag haf- og strandsvæða, 408. mál.
http://www.althingi.is/altext/146/s/0539.html
Lagt fram.

7. Fundur í fulltrúaráði Eyþings 8. júní.
Lögð var fram dagskrá fundarins sem haldinn verður á Húsavík. Meginefni fundarins verður kynning á skýrslu RHA um kosti og galla sameiningar Eyþings og atvinnuþróunarfélaganna á Norðurlandi eystra.

8. Aðalfundur Eyþings 2017.
Stjórnin samþykkir að fundurinn verði haldinn dagana 27. og 28. október. Hann verður haldinn á Siglóhótel Siglufirði.

9. Starfsemi Eyþings og stoðstofnana. Greinargerð samþykkt af stjórn 22. september 2016 og lögð fram á aðalfundi 2016.
Frestað til næsta fundar.

10. Önnur mál.
Samþykkt var að næsti fundur stjórnar verði fimmtudaginn 29 júní nk.

 

Fundi slitið kl. 19:20.

Pétur Þór Jónasson ritaði fundargerð.

 

Getum við bætt síðuna?