Fara í efni

Fundargerð - Stjórn Eyþings - 07.10.2011

07.10.2011
Stjórn Eyþings
225. fundur

Árið 2011, föstudaginn 7. október, kom stjórn Eyþings saman til fundar í Stjórnsýsluhúsinu Húsavík. Mætt voru Bergur Elías Ágústsson formaður, Hanna Rósa Sveinsdóttir og Sigurður Valur Ásbjarnarson. Þá voru mættir varamennirnir Siggeir Stefánsson og Halla Björk Reynisdóttir. Einnig var framkvæmdastjóri, Pétur Þór Jónasson, mættur. Fundur hófst kl. 11:00.

 

Þetta gerðist helst.

 
1. Fundargerð menningarráðs, dags. 26. september, 33. fundur.
Lögð fram.
 
2. Samgönguáætlun 2011 - 2014. Forgangsröðun verkefna.
Lögð var fram niðurstaða um megináherslur í samgönguáætlun fyrir Norðurland eystra sem tekin var í framhaldi af samráðsfundi með fulltrúum sveitarfélaganna 15. september sl. Gerð var grein fyrir niðurstöðu stjórnar 16. september sl. í bréfi til samgönguráðs, en þar segir m.a.:
„Í framhaldi af fyrrnefndum fundi með fulltrúum sveitarfélaganna er niðurstaða stjórnar Eyþings að leggja áherslu á eftirfarandi verkefni sem telja má mikilvæg fyrir framþróun og hagsmuni landshlutans í heild:
1.-2.  Iðnaðarvegur milli Húsavíkurhafnar og iðnaðarsvæðis að Bakka.
1.-2.  Flughlað á Akureyrarflugvelli.
3-.5.  Dettifossvegur frá Dettifossi í Ásbyrgi.
3.-5.  Snjóflóðavarnir (og endurbætur) milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar.
3.-5. Ný brú á Jökulsá á Fjöllum (Hringvegur).
Rétt er að geta verkefna sem ekki eru á listanum en hefðu að sumra mati sérstaklega átt að vera þar, en það eru einkum annars vegar ný brú á Skjálfandafljót á vegi 85 og hins vegar nýr eða endurbyggður vegur um Brekknaheiði.
 
Nokkur umræða varð einnig um hafnir og varð það niðurstaðan að horfa til vinnu Siglingastofnunar varðandi forgangsröðun þeirra framkvæmda.“
Siggeir gerði athugasemd við ofangreinda forgangsröðun og telur að vegurinn á milli Þórshafnar og Bakkafjarðar eigi að vera á listanum. Hann óskaði eftir að bókað yrði: „Þessi vegur er ónýtur malarvegur sem tengir saman tvo þéttbýliskjarna í sama sveitarfélagi og það ætti að vera forgangsatriði að leggja mannsæmandi vegi á milli allra þéttbýliskjarna í landinu.“
Aðrir stjórnarmenn staðfestu ofangreinda ákvörðun um megináherslur í samgöngumálum.

3. Aðalfundur 2011- Skýrsla stjórnar, fjárhagsáætlun, starfsmenn fundarins (tillaga um tvo fundarstjóra og ritara) og störf nefnda.
(a) Skýrsla stjórnar.
Skýrsla stjórnar og framkvæmdastjóra fyrir starfsárið 2010 – 2011 hafði áður verið send stjórnarmönnum. Samþykkt að leggja hana fyrir aðalfund.

 

(b) Fjárhagsáætlun.
Lagðar voru fram tillögur að endurskoðaðri fjárhagsáætlun fyrir árið 2011 og fjárhagsáætlun fyrir árið 2012.
Samþykkt var að leggja áætlanirnar fyrir aðalfund. Í endurskoðaðri áætlun felst megin breytingin í hækkun útgjalda vegna verkefna á vegum samtakanna, s.s. skattaverkefnisins (greining fjárlaga) sem unnið er að.
Í áætlun fyrir árið 2012 er gert ráð fyrir að framlög sveitarfélaganna verði 1,5 milljón kr. en að auki bera sveitarfélögin kostnað vegna fulltrúa sinna á aðalfundi.
(c) Starfsmenn fundarins.
Gerð var tillaga um fundarstjóra og ritara sem lögð verður fyrir aðalfundinn. Valtýr Sigurbjarnason hefur verið ráðinn ritari fundarins.
(d) Nefndir aðalfundarins.
Farið var lauslega yfir umræðupunkta nefnda aðalfundarins, en auk kjörnefndar verða þrjár málefnanefndir starfandi.

 

4. Ályktanir aðalfunda SSV og SSA sem haldnir voru 30. september til 1. október sl.
Lagðar fram til kynningar.
 
5. Tölvubréf frá sveitarstjóra Hörgársveitar, dags. 26. september, varðandi útbreiðslu skógarkerfils.
Samþykkt að vísa erindinu til aðalfundar.

 

6. Bréf frá Leið ehf., dags. 4. október, um vegstyttingar í Austur-Húnavatnssýslu og Skagafirði.
Samþykkt að vísa erindinu til aðalfundar.

 

7. Tölvubréf frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, dags. 3. október, um Taiex-málþing (Evrópsk byggðamál) í landshlutunum.
Kynntar voru hugmyndir um málþing í nóvember nk. Meðal annars er gert ráð fyrir fyrirlesurum frá Danmörku og Finnlandi.

 

8. Önnur mál.
Sigurður Valur greindi frá 1. fundi nefndar Eyþings um almenningssamgöngur og hver yrðu næstu skref nefndarinnar.

Fundi slitið kl. 12:05.
Pétur Þór Jónasson ritaði fundargerð.
Getum við bætt síðuna?