Fara í efni

Fundargerð - Stjórn Eyþings - 07.09.2016

07.10.2016

 Árið 2016, miðvikudaginn 7. september, kom stjórn Eyþings saman til fundar í Hafnarstræti 91 Akureyri. Mætt voru Logi Már Einarsson formaður, Arnór Benónýsson, Bjarni Theódór Bjarnason, Eva Hrund Einarsdóttir, Sif Jóhannesdóttir og Eiríkur H. Hauksson varamaður Karls Frímannssonar sem boðaði forföll. Olga Gísladóttir boðaði forföll. Einnig var framkvæmdastjóri, Pétur Þór Jónasson, mættur.

Fundur hófst kl. 16.05. 

Þetta gerðist helst. 

1. Aðalfundur Eyþings 2016.

Lögð voru fram drög að dagskrá á grundvelli umræðu á síðasta fundi. Lagðar voru fram nokkrar breytingar og áhersla á að enda dagskrá með samtali við þingmenn kjördæmisins að lokinni málefnavinnu fundarins. Framkvæmdastjóra var falið að ganga frá dagskrá.

2. Svæðisskipulag fyrir ferðaþjónustu á Norðurlandi eystra. Val á skipulagsráðgjafa.

Formaður dró saman upplýsingar frá fundi stjórnar með skipulagsráðgjöfum þann 24. ágúst sl.

Stjórnin samþykkti að skipta verkefninu í tvo áfanga:
(a)    Fyrri áfanginn felst í að skilgreina og afmarka viðfangesefnið í verkefnislýsingu.
(b)   Seinni áfanginn felst í hinni eiginlegu skipulagsgerð á grundvelli skipulagslýsingar.

Samþykkt var að leita eftir verðtilboði í hvorn áfanga um sig en það felur í sér að ekki er gefið að samið verði við sama aðila um báða áfanga. Stjórnin áskilur sér rétt til að semja við hvaða aðila sem er.

Þá samþykkti stjórnin að fela framkvæmdastjóra að tilkynna þeim skipulagsráðgjöfum sem rætt hefur verið við um þessa niðurstöðu, ásamt því að leita eftir verðtilboði frá tveimur aðilum í fyrri áfangann. Þessir aðilar eru Alta ehf. og Teiknistofa arkitekta – Gylfi Guðjónsson og félagar ehf.

3. Þingmál.

(a)     Frumvarp til laga um námslán og námsstyrki, 794. mál.
http://www.althingi.is/altext/145/s/1373.html

Stjórn Eyþings telur jákvætt að stefnt sé að því að koma upp námsstyrkjakerfi á Íslandi en stjórnin telur miðað við áætlað fyrirkomulag í frumvarpinu að styrkurinn sé of dýru verði keyptur t.d. með verulegri hækkun vaxta og afnáms tekjutengingar   (jafngreiðslulán).    Að   mati   stjórnar    Eyþings   mismunar frumvarpið námsmönnum eftir búsetu og efnahag þar sem námsmenn af landsbyggðinni munu þurfa að taka dýrari námslán þar sem styrkurinn dugar ekki vegna þess aukakostnaðar sem felst í að sækja menntun fjarri heimabyggð s.s. húsaleiga og ferðakostnaður.

Í frumvarpinu felst ekki jöfnun með tilliti til búsetu og efnahags. Að mati stjórnar Eyþings væri hægt að mæta þeim aðstöðumun með styrkjakerfi og/eða afsláttarkerfi þar sem veittur yrði hlutfallsafsláttur af endurgreiðslum námslána fyrir þá sem búa á landsbyggðinni og skortur er á háskólamenntuðu fólki líkt og gert er í Noregi.

Þá þarf að fara ítarlega yfir áhrif þess að afnema tekjutengingu á endurgreiðslu lána. 

(b)     Frumvarp til laga um Umhverfisstofnun (heildarlög), 674. mál.
http://www.althingi.is/altext/145/s/1102.html
Lagt fram.

4. Sóknaráætlun.

Framkvæmdastjóri gerði grein fyrir vinnu við útgáfu 2 af sóknaráætlun landshlutans en stefnt er að því að hún liggi fyrir á næsta fundi stjórnar.

Þá greindi hann frá þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust í umsagnarferli við aðgerðaáætlun sem fylgir stefnuskjali sóknaráætlunar.

5. Starfsemi Eyþings og stoðstofnana.

Formaður greindi frá stöðu í úttekt á innra starfi Eyþings og að unnið væri að frágangi greinargerðar. Hann sagðist telja eðlilegast að ný stjórn sem tæki við að loknum aðalfundi tæki við greinargerðinni og stýrði hvernig unnið yrði úr málum. Talsverðar umræður spunnust um það hvort flýta ætti umfjöllun eða vísa málinu til nýrrar stjórnar. Samþykkt var að lokinni umræðu að fela Loga, Arnóri, Evu og Karli að fara yfir málið og ljúka greinargerð sem lögð verði fyrir stjórn á fundi sem boðað verði til í tengslum við Fjármálaráðstefnu sveitarfélaga.

6. Önnur mál.

(a)     Framkvæmdastjóri fór yfir lista af fundum sem boðað hefur verið til næstu vikurnar. Ekki eru tök á að sækja nema hluta þessara funda og mun framkvæmdastjóri nú í september sækja Byggðaráðstefnuna 2016, haustfund landshlutasamtaka og Fjármálaráðstefnu sveitarfélaga.

(b)     Arnór greindi frá alvarlegri stöðu varðandi línulögnina milli Þeistareykja og Bakka vegna kæru Landverndar á framkvæmdaleyfinu og kröfu um nýtt umhverfismat.

 Fundi slitið kl. 18:45.

Pétur Þór Jónasson ritaði fundargerð.

Getum við bætt síðuna?