Fara í efni

Fundargerð - Stjórn Eyþings - 07.09.2011

07.09.2011
Stjórn Eyþings
224. fundur

Árið 2011, miðvikudaginn 7. september, kom stjórn Eyþings saman til fundar að Strandgötu 29 Akureyri. Mætt voru Bergur Elías Ágústsson formaður, Dagbjört Bjarnadóttir, Geir Kristinn Aðalsteinsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir og Sigurður Valur Ásbjarnarson. Einnig var framkvæmdastjóri, Pétur Þór Jónasson, mættur. Fundur hófst kl. 13:05.

 

Þetta gerðist helst.

 

1. Fundargerð menningarráðs, dags 29. júlí, 32. fundur.
Stjórnin lýsir yfir ánægju með vinnu að menningarstefnu Eyþings en ekki kemur fram í fundargerðinni hvernig hún rúmast innan fjárhagsáætlunar.
 
2. Samgönguáætlun 2011 - 2014. Svör sveitarstjórna um forgangsverkefni.
Birgir Guðmundsson og Guðmundur Heiðreksson frá Vegagerðinni á Akureyri mættu á fundinn undir þessum lið.
Lögð var fram samantekt úr svörum sveitarstjórna við bréfi, dags. 13. júlí, þar sem óskað var eftir ábendingum þeirra um forgangsverkefni í samgöngumálum á svæðinu. Fulltrúar Vegagerðarinnar upplýstu um stöðu þeirra vegaframkvæmda sem bent var á, s.s. undirbúning og kostnaðaráætlun. Þá vöktu þeir athygli á að sú vegaáætlun sem nú er unnið eftir hefur aldrei verið samþykkt. Þá greindu þeir frá þeim verkefnum sem áætluð eru á árinu 2012, en talsverð áhersla er á að ná áföngum í endurbótum héraðs- og tengivega á svæðinu.
Stjórnin samþykkir að boða framkvæmdastjóra og oddvita sveitarfélaganna til samráðsfundar til að ræða umboð stjórnar og leita eftir sameiginlegri niðurstöðu um tillögu að 3 – 5 megin verkefnum fyrir svæðið eins og samgönguráð hefur óskað eftir. Horfa ber til stærri verkefna sem talin eru mikilvæg fyrir framþróun landshlutans í heild. Óskað er eftir að fulltrúi Vegagerðarinnar mæti á fundinn þó tillögurnar einskorðist ekki við vegaframkvæmdir.

 

3. Til kynningar
(a) Efni frá landshlutasamtökunum.
Lagðar voru fram ályktanir 19. ársþings SSNV 26. og 27. ágúst og ályktanir 56. Fjórðungsþings Fjórðungssambands Vestfirðinga 2. og 3. september. Einnig lagðar fram stjórnarfundargerðir nokkurra landshlutasamtaka.

 

4. Ísland 2020 – sóknaráætlun landshlutans.
(a) Minnisblað frá fundum í Brussel 11. – 12. maí sl. um byggðaþróun og svæðisbundna stjórnsýslu byggðamála.

Lagt fram.
 

 

(b) Bréf frá Byggðastofnun, dags. 21. júlí, um aðkomu Byggðastofnunar að sóknaráætlunum landshluta og þróun matskvarða.
Í bréfinu kemur fram að ráðgert er að Byggðastofnun fylgist með framvindu sóknaráætlana landshluta og leggi mat á gengi þeirra. Með bréfinu fylgir kynning á tillögu að matskvörðum eða viðmiðslíkani sem byggir á kerfi sem unnið hefur verið fyrir danska og sænska landshluta.
Stjórnin lýsir yfir ánægju með þær hugmyndir að marskerfi sem hér eru kynntar. Stjórnin hvetur til áframhaldandi vinnu og að kvarðarnir verði aðlagaðir að íslenskum aðstæðum.

 

(c) Fundargerð frá vinnufundi innanríkisráðuneytisins um landshlutaáætlanir 29. ágúst.
Lögð fram. Á fundinum var sérstök áhersla á að kynna verklag við fjárfestingaráætlun ríkisins.

 

(d) Staða verkefnahópa.
Lögð var fram fundargerð frá fundi um almenningssamgöngur sem haldinn var hjá VSÓ í Reykjavík 29. ágúst sl.  með fulltrúum SSV, FV, SSNV og Eyþings um sameiginlegar meginleiðir. Einnig var til umræðu um mögulegt samstarf við Strætó.
Stjórn Eyþings leggur til að ríkið annist og beri ábyrgð á meginleiðinni um þjóðveg 1 umhverfis landið. Landshlutarnir annist síðan skipulagningu almenningssamgangna út frá meginleiðinni hvert á sínu svæði.
Pétur Þór greindi frá samtölum sínum við forvarsmenn þeirra stofnana sem einkum tengjast verkefnahópunum.

 

Sigurður Valur yfirgaf fundinn kl. 15:55.

(e) Tölvubréf frá samráðshópi ráðuneyta um sóknaráætlanir landshluta, dags. 26. júlí, með eyðublaði fjárfestingaráætlunar (val á 5 – 7 áhersluverkefnum fyrir fjárlög 2012).
Landshlutasamtökunum er ætlað að gera tillögur um 5 – 7 verkefni fyrir fjárfestingaáætlun ríkisins sem komi til skoðunar við gerð fjárlaga 2012 og samræmast áherslum Íslands 2020. Litið er svo á að þessi verkefni fari í tilraunaútgáfu að sóknaráætlunum landshluta og að framvegis verði undirbúningsferlið skýrara.
Fyrir fundinum lágu tillögur að áhersluverkefnum sem byggja á niðurtöðum frá „þjóðfundi“ landshlutans 2010 og ályktunum síðasta aðalfundar. Stjórnin er sammála um eftirfarandi verkefni:

1. Uppbygging innviða vegna orkunýtingar og orkufreks iðnaðar.
Verkefnið er þríþætt:
- Iðnaðarvegur milli Húsvíkurhafnar og iðnaðarsvæðis á Bakka.
- Hafnargerð.
- Ný brú á Skjálfandafljót og vegstytting (vegur 85).

2. Heilbrigðisþjónusta – Sjúkrahúsið á Akureyri (FSA).
Verkefnið er tvíþætt:
- Ný legudeildaálma við sjúkrahúsið.
- Viðbygging við endurhæfingardeild sjúkrahússins að Kristnesi

 

3. Norðurslóðamiðstöð Íslands.
Markmið Norðurslóðamiðstöðvar Íslands er að vera miðstöð norðurslóðarannsókna og samstarfsvettvangur norðurslóðastofnana og samtaka. Verkefnið er í samræmi við stefnu utanríkisráðuneytisins um áframhaldandi uppbyggingu norðurslóðamiðstöðvar á Akureyri og í samræmi við samstarfssamning ráðuneytisins við Háskólann á Akureyri.
 
4. Flughlað á Akureyrarflugvelli.
Verkefnið er forsenda fyrir millilandaflugi um Akureyrarflugvöll. Áhersla er á að nýta efni sem fellur til úr Vaðlaheiðargöngum en í því felst stórfelldur sparnaður miðað við að síðar þurfi að kaupa allt efni í fyllingar.

5. Dettifossvegur.
Lokið hefur verið við nýjan veg frá Hringvegi að Dettifossi en eftir er að leggja veg frá Dettifossi í Ásbyrgi. Með því yrði svonefndum Demantshring lokað sem er baráttumála ferðaþjónustunnar á svæðinu.

6. Fjarskipti og gagnaflutningar.
Fyrir liggja margar ábendingar um staði eða svæði í landshlutanum þar sem íbúarnir búa ekki við fullnægjandi þjónustu. Meðal annars verkar það hamlandi í uppbyggingu ferðaþjónustu.

 

Verkefni til lauslegrar kynningar:

7. Íþróttabærinn Akureyri.
Þetta verkefni, sem á uppruna sinn í þjóðfundi landshlutans, snýst í fyrstu lotu að miklu leyti um áframhaldandi uppbyggingu Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands sem er samstarfsverkefni ríkisins og Akureyrarbæjar. Við nánari skoðun kom í ljós að vegna kostnaðarskiptingar ríkisins og sveitarfélagsins í verkefninu þá þarfnast það mun meiri skoðunar og undirbúnings til að hægt sé að skilgreina það sem eitt af forgangsverkefnum landshlutans að þessu sinni. Til upplýsingar um verkefnið fylgir skýrslan Hlíðarfjall – Úr bæjarbrekku í fjallaparadís. 
Framkvæmdastjóra er falið að annast frágang umbeðinna gagna og senda fjármálaráðuneytinu. Fram kom að leitað verður aðstoðar atvinnuþróunarfélaganna, Markaðsskrifstofu ferðamála og þeirra stofnana sem verkefnin varða við frágang eyðublaða vegna verkefnanna.

 

5. Upplýsingar frá fundi á Akureyri með Susanne Kirkegaard 10. ágúst um svæðisbundið samstarf og stjórnsýslu í tengslum við byggðasjóði ESB.
Geir Kristinn og Hanna Rósa sóttu fundinn og greindu frá því helsta sem fram kom á fundinum sem þau sögðu hafa verið mjög fróðlegan.

 

6. Bréf frá nefnd um eflingu sveitarstjórnarstigsins, dags. 10. ágúst, ásamt gátlista og umræðuskjali.
Stjórnin lýsir yfir ánægju með þennan umræðugrundvöll og telur þær hugmyndir sem kynntar eru um yfirfærslu verkefna til sveitarfélaganna allrar athygli verðar. Stjórnin væntir þess að ötullega verði unnið að yfirfærslu verkefna.
Stjórnin tekur undir tillögu nefndarinnar um að reglum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verði breytt þannig að landshlutasamtök sveitarfélaga geti fengi greiddan kostnað vegna verkefna sem þau taka að sér með samningum við ríkið.

 

7. Aðalfundur 2011.
Rætt var um skipulag aðalfundar og efnistök og var samþykkt að megin umfjöllunarefni fundarins verði Ísland 2020 – sóknaráætlanir landshluta. Samþykkt að fela framkvæmdastjóra og formanni að ganga frá dagskrá fundarins.

 

8. Önnur mál.
Bergur greindi frá nýjustu fréttum af áformum um uppbyggingu orkufreks iðnaðar á Bakka og greindi sérstaklega frá viðræðum við þýska fyrirtækið PCC.

Fundi slitið kl. 16:17.
Pétur Þór Jónasson ritaði fundargerð
Getum við bætt síðuna?