Fara í efni

Fundargerð - Stjórn Eyþings - 07.04.2015

15.04.2015

Árið 2015, þriðjudaginn 7. apríl, kom stjórn Eyþings saman til fundar í Hafnarstræti 91, Akureyri. Mætt voru Logi Már Einarsson formaður, Arnór Benónýsson, Bjarni Theodór Bjarnason, Eva Hrund Einarsdóttir, Jón Stefánsson og Sif Jóhannesdóttir. Hilma Steinarsdóttir boðaði forföll og varamaður hafði ekki tök á sitja fundinn. Einnig var framkvæmdastjóri, Pétur Þór Jónasson, mættur.

Fundur hófst kl. 15:00.

Þetta gerðist helst. 

     1.   Sóknaráætlun Norðurlands eystra.

(a)     Skipun í fagráð menningar fyrir Uppbyggingarsjóð (3 fulltrúar).

Stjórnin samþykkir tilnefningar úr Menningarráði Eyþings sem enn er starfandi. Eftirtaldir eru skipaðir:

Arnór Benónýsson formaður, Þingeyjarsveit
Sóley Björk Stefánsdóttir, Akureyri
Kjartan Ólafsson, Fulltrúi Háskólans á Akureyri 

(b)     Skipun í fagráð atvinnumála og nýsköpunar fyrir Uppbyggingarsjóð (5 fulltrúar).

Stjórnin samþykkir að fara að tilnefningum sem borist hafa frá atvinnuþróunarfélögunum. Eftirtaldir eru skipaðir:

Sigurður Steingrímsson formaður, Akureyri
Heiðrún Óladóttir, Þórshöfn
Snæbjörn Sigurðarson, Húsavík
Sigríður María Róbertsdóttir, Siglufirði
Ögmundur Knútsson, Akureyri

 (c)      Skipun í úthlutunarnefnd Uppbyggingarsjóðs (5 fulltrúar).

Formenn fagráða taka sæti í úthlutunarnefnd skv. samþykktu stjórnskipulagi Uppbyggingarsjóðs, þeir Arnór Benónýsson og Sigurður Steingrímsson.

Þá samþykkir stjórnin að skipa eftirtalda:

Erlu Björgu Guðmundsdóttur formann, Akureyri
Evu Hrund Einarsdóttur, Akureyri
Birnu Björnsdóttur, Raufarhöfn

 (d)     Vinnuferill sóknaráætlunar 2015.

Framkvæmdastjóri lagði fram tillögu um vinnuferil sóknaráætlunar og fór yfir meðfylgjandi skýringar. Þar kemur m.a. fram hverjir skipa vinnuhópa. Einstakir verkhlutar eru enn ódagsettir.

Stjórnin samþykkir tillöguna og felur framkvæmdastjóra að setja í gang vinnu í samræmi við hana. Af hálfu Eyþings mun menningarfulltrúi taka þátt í vinnunni með framkvæmdastjóra og Linda Margrét verða ritari vinnuhópa. Þá mun formaður starfa með vinnuhópum og sjá um tengsl við stjórn.

Rætt var um fundarstjórn á svæðisfundum sem alls verða fjórir og framkvæmdir í samstarfi við atvinnuþróunarfélögin. Samþykkt að fela framkvæmdastjóra að ræða við Albertínu Elíasdóttur um að stýra fundunum.


     
2.   Krafa Landverndar um nýtt umhverfismat vegna raflína að Bakka.

Sif gerði grein fyrir stöðu uppbyggingar á Bakka. Lögð var fram tillaga að bókun í samræmi ákvörðun á síðasta stjórnarfundi vegna kröfu Landverndar. Eftirfarandi bókun var samþykkt:

Landvernd hefur sett fram kröfu til Skipulagsstofnunar um nýtt umhverfismat fyrir fyrirhugaðar línulagnir Landsnets frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka. Stjórn Eyþings gerir alvarlegar athugasemdir við þessa kröfu, ekki síst að hún skuli fyrst koma fram núna þegar hyllir loks undir að framkvæmdir hefjist við fyrsta áfanga kísilmálmverksmiðju PCC. Langur aðdragandi hefur verið að þeirri framkvæmd.

Fyrirliggjandi umhverfismat frá árinu 2010 miðast við mun stærri framkvæmd en nú er stefnt að í fyrsta áfanga. Talið er ákjósanlegt að byggja iðnaðarsvæðið upp í áföngum. Áætlanir Norðurþings, Landsnets og Landsvirkjunar miða að áframhaldandi uppbyggingu á Bakka á komandi árum. Það er í samræmi við þá orkuþörf sem fjallað var um í gildandi umhverfismati. Öll uppbygging innviða á svæðinu tekur mið af þeim áætlunum. Hafa ber einnig í huga að uppbygging raflínunnar er mikilvægur liður í að styrkja flutningskerfi raforku á Norðausturlandi.

Krafa Landverndar um nýtt umhverfismat er því ekki til annars fallin en að valda samfélaginu í Norðurþingi og nágrannabyggðum stórfelldum skaða. Stjórn Eyþings leggst alfarið gegn því að fyrirhuguð uppbygging háspennulínanna verði sett í nýtt umhverfismat. 

Logi Már og Eva Hrund yfirgáfu fundinn vegna fundar í bæjarstjórn Akureyrar. Arnór varaformaður tók við fundarstjórn.


   
 3.   Aðalfundur Norðurslóðanets Íslands 15. apríl 2015.

Boðað er til aðalfundar í Háskólanum á Akureyri kl. 14 þann 15. apríl. Eyþing var stofnaðili að Norðurslóðaneti Íslands sem var sett á fót fyrir styrk úr sóknaráætlun. Styrkurinn nær til áranna 2012 – 2015.

Stjórnin samþykkir að fela framkvæmdastjóra og Evu Hrund Einarsdóttur að sitja aðalfundinn fyrir hönd Eyþings.
 

     4.  Önnur mál.

(a)     Hugmyndir um vistvæna endurvinnslustöð fyrir skip.

Bjarni greindi frá hugmyndum sænskra aðila um uppbyggingu endurvinnslustöðvar við Hauganes. Áformað er að óska eftir umhverfismati. Áætlaðar framkvæmdir nema um 20 milljörðum ef af verður og munu skapa um 150 margháttuð störf. 

(b)     Staða framkvæmda við Vaðlaheiðargöng.

Framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga hf. mætti á fundinn undir þessum lið og fór yfir stöðu framkvæmda ásamt Pétri Þór stjórnarformanni félagsins. Framkvæmdir ganga samkvæmt áætlun Fnjóskadalsmegin. Ekki hefur enn náðst samkomulag um að verktakinn komi með annað borgengi eins og áætlanir gerðu ráð fyrir. Margt er enn óljóst á þessu stigi um verklok. Fyrir liggja kröfur frá verktaka um viðbótargreiðslur vegna vatns og hita í göngunum og margra annarra þátta. Enn sem komið er, eru greiðslur vegna verksins innan lánsheimilda.

 Fundi slitið kl. 17:00

Pétur Þór Jónasson ritaði fundargerð

 

Getum við bætt síðuna?