Fara í efni

Fundargerð - Skýrsla stjórnar 2017

11.11.2017

 

 

AÐALFUNDUR EYÞINGS 10. og 11. nóvember 2017

Skýrsla stjórnar starfsárið 2016 - 2017. 

 

Aðalfundur Eyþings var haldinn 11. og 12. nóvember 2016 í Félagsheimilinu Þórsveri, Langanesbyggð. Í stjórn voru kosin Guðmundur Baldvin Guðmundsson formaður, Akureyri, Eva Hrund Einarsdóttir, Akureyri, Sif Jóhannesdóttir, Norðurþingi, Eiríkur H. Hauksson, Svalbarðsstrandarhreppi, Gunnar I. Birgisson, Fjallabyggð, Arnór Benónýsson, Þingeyjarsveit og Elías Pétursson, Langanesbyggð.

Fastráðnir starfmenn Eyþings eru þrír, Linda Margrét Sigurðardóttir verkefnastjóri, Pétur Þór Jónasson framkvæmdastjóri og Vigdís Rún Jónsdóttir hefur verið ráðin í starf verkefnisstjóra menningarmála og mun hefja störf á næstu dögum. Þá hefur Hulda Jónsdóttir unnið við verkefnið Creative Momentum. Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir menningarfulltrúi lét af störfum í maí sl.

Stjórnin hefur á starfsárinu haldið 14 bókaða stjórnarfundi og tekið til umræðu og afgreiðslu um 175 mál. Hér fer á eftir samantekt um helstu atriði í starfsemi Eyþings á liðnu starfsári. Vakin er athygli á að í fundargerðum stjórnar og fundargerðum fulltrúaráðs er að öllu jöfnu gerð ítarleg grein fyrir þeim málum sem eru til umfjöllunar.

 

Nefndir, ráð og starfshópar
Stjórn Eyþings skipar eða tilnefnir fulltrúa í nokkrar nefndir. Skipunartími þeirra er all misjafn.

Skólanefnd Framhaldsskólans á Laugum. Samkvæmt tilnefningu Eyþings voru skipaðir sem aðalmenn Dagbjört Jónsdóttir Þingeyjarsveit og Bjarni Höskuldsson Þingeyjarsveit og til vara Sigurður Böðvarsson Mývatnssveit og Guðrún María Valgeirsdóttir Mývatnssveit (293. fundur).

Fjallskila- og markanefnd í Eyjafirði. Í nefndinni sitja Ólafur G. Vagnsson Eyjafjarðarsveit sem er formaður, Árni Sigurður Þórarinsson Dalvíkurbyggð og Þórarinn Ingi Pétursson Grýtubakkahreppi (287. fundur).

Minjaráð Norðurlands eystra. Af Eyþingi voru tilnefnd sem aðalmenn: Steinunn María Sveinsdóttir, bæjarfulltrúi Fjallabyggð og Sif Jóhannesdóttir, bæjarfulltrúi Norðurþingi. Til vara: Logi Már Einarsson, þá bæjarfulltrúi Akureyri og Daníel Pétur Hansen, sveitarstjórnarfulltrúi Svalbarðshreppi. (260. fundur).

Norðurslóðanet Íslands. Framkvæmdastjóri hefur setið sem áheyrnarfulltrúi á stjórnarfundum í samræmi við stofnskrá. Rétt er að minna á að stofnun Norðurslóðanetsins var fyrsta verkefnið sem ráðist var í á grunni sóknaráætlunar á Norðurlandi eystra árið 2012.

Fagráð menningar fyrir uppbyggingarsjóð (5 fulltrúar). Eftirtaldir voru skipaðir: Arnór Benónýsson, formaður, Þingeyjarsveit, Hildur Stefánsdóttir, Svalbarðshrepp, Valdimar Gunnarsson, Eyjafjarðarsveit, Andrea Hjálmsdóttir, Akureyri   (291. fundur)   og   Sólveig  Elín  Þórhallsdóttir,   Akureyri   (293 . fundur) Varamenn: Guðrún Kristín Jóhannsdóttir, Húsavík og Gunnar I. Birgisson, Siglufirði (291. fundur).

Fagráð atvinnuþróunar og nýsköpunar fyrir uppbyggingarsjóð (5 fulltrúar). Eftirtaldir voru skipaðir: Sigurður Steingrímsson formaður, Akureyri, Heiðrún Óladóttir, Þórshöfn, Snæbjörn Sigurðarson, Húsavík, Sigríður María Róbertsdóttir, Siglufirði og Eiríkur H. Hauksson, Svalbarðsstrandarhreppi (291. fundur). Varamenn: SigríðurBjarnadóttir, Eyjafjarðarsveit (292. fundur) og Rúnar Sigurpálsson, Akureyri (291. fundur).

Úthlutunarnefnd uppbyggingarsjóðs (5 fulltrúar). Formenn fagráða taka sæti í úthlutunarnefnd skv. samþykktu stjórnskipulagi uppbyggingarsjóðs, þeir Arnór Benónýsson og Sigurður Steingrímsson. Auk þeirra skipa eftirtaldir úthlutunarnefnd: Eva Hrund Einarsdóttir formaður, Akureyri, Birna Björnsdóttir, Raufarhöfn og Sigrún Stefánsdóttir, Akureyri (291. fundur). Varamenn: Dagbjört Bjarnadóttir, Skútustaðahreppi og Valdemar Þór Viðarsson, Dalvík (291. fundur).

Vinnumarkaðsráð Norðurlands eystra Eftirtaldir voru skipaðir: Gunnlaugur Stefánsson, Húsavík og LindaMargrétSigurðardóttir, Eyjafjarðarsveit (varamaður) (267. fundur).

Verkefnisstjórnir í verkefninu „Brothættar byggðir“. Pétur Þór Jónasson framkvæmastjóri Eyþings situr í verkefnisstjórnum Raufarhafnar og Öxarfjarðar. Gunnar Gíslason bæjarfulltrúi Akureyri siturí verkefnisstjórnum Grímseyjar og Hríseyjar. (270. fundur).

Samstarfsverkefni um bætta nýtingu orkuauðlinda.  Félag um verkefnið fékk nafnið Eimur. Arnór Benónýsson var skipaður í stjórn verkefnisins. Sigurður Ingi Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs og Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands voru skipuð í fagráð verkefnisins. Einn varamaður var skipaður frá hvoru atvinnuþróunarfélagi (279. fundur).

Bakhópur verkefnisins Staða og framtíð íslenskra sveitarfélaga. Sif Jóhannesdóttir sat í bakhópnum. (277. fundur). Bakhópurinn var fimm manna verkefnisstjórn til samráðs, en hún hefur skilað ráðherra áliti sínu.

Starfshópur til undirbúnings ráðstefnu um menningarmál.Eyþing tilnefndi Arnór Benónýsson, stjórnarmann og Ragnheiði Jónu Ingimarsdóttur, menningarfulltrúa. (292. fundur).

Verkefnaráð vegna Hólasandslínu 3. Eyþing tilnefndi Guðmund B. Guðmundsson og Evu Hrund Einarsdóttur (300. fundur). Hvort þeirra verður skipað ræðst af því að hlutfall kynja í ráðinu verði sem jafnast.

Verkefnisstjórn áfangastaðaáætlunar (DMP) - fyrir Norðurland. Pétur Þór Jónasson framkvæmdastjóri Eyþings situr í verkefnisstjórninni.

Helstu þættir í starfi Eyþings/Ályktun aðalfundar

Veigamikil breyting var gerð á aðalfundi fyrir ári síðan í ályktun fundarins. Í stað þess að fundurinn sendi frá sér margar ályktanir um hin ólíkustu málefni þá afgreiddi fundurinn eina ályktun um þau mál sem fundurinn ákvað að setja á oddinn. Ályktunin sem hafði skírskotun til sóknaráætlunar landshlutans rúmaðist á einu A4 blaði. Efnisþættir ályktunarinnar voru sóknaráætlanir landshluta, samgönguáætlun, almenningssamgöngur, verkefnið „Ísland ljóstengt“, orkumál, menntamál og heilbrigðismál. Þessari breyttu framsetningu og skýrari forgangsröðun var fagnað m.a. í hópi þingmanna. Þá voru minnispunktar með ábendingum og hugmyndum sem fram komu í umræðu málefnahópa fundarins sendir áfram til sveitarstjórna til umfjöllunar. Hér verður gerð grein fyrir helstu þáttum í starfi Eyþings og verkefnum sem unnið hefur verið að frá síðasta aðalfundi án þess að um sé að ræða tæmandi lista.

  1. Sóknaráætlun Norðurlands eystra.

Umfangsmesti þáttur í starfsemi Eyþings tengist samningi milli Eyþings og ríkisins um sóknaráætlun Norðurlands eystra 2015 – 2019. Vel hefur gengið og nýtt verklag sem felst í samningnum verið að slípast til með aukinni reynslu. Haldnir hafa verið þrír samráðsfundir landshlutasamtakanna og stýrihóps Stjórnarráðsins þar sem aðilar hafa miðlað af reynslu sinni og verklagið þróað áfram. Einnig áttu framkvæmdastjóri og verkefnastjóri fund með fulltrúum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins um verkskipulag uppbyggingarsjóðs og sóknaráætlunar í heild.

Í grófum dráttum má segja að samningurinn um sóknaráætlun taki til þriggja meginþátta sem eru: hin eiginlega sóknaráætlun sem er stefnuskjal fyrir landshlutann, uppbyggingarsjóður landshlutans og áhersluverkefni. Við úthlutun var gengið út frá að framlag ríkisins til samningsins árið 2017 yrði það sama og árið 2016 eða 108.540.659 kr. Að auki leggja sveitarfélögin 11,1 mkr. til samningsins í ár. Í apríl var 100 mkr. aukaframlag veitt til sóknaráætlana og þar af komu kr. 17.319.397 í hlut Eyþings. Þeirri upphæð var heimilt að veita óskiptri í áhersluverkefni og kemur fram í óúthlutað 2017 í töflunni hér að neðan. Samtals framlag ríkisins til Sóknaráætlunar Norðurlands eystra árið 2017 nemur því 125.860.056 kr. sem er 15,96% hækkun milli ára. Auk þessa annast Eyþing greiðslu á 6.400.000 kr. framlagi til Urðarbrunns skv. samningnum.

Stjórn Eyþings samþykkti þann 15. mars sl. eftirfarandi skiptingu á 108.540.659 kr. framlagi ríkisins og 11.100.000 kr. framlagi sveitarfélaga að auki var 23.920.484 kr. frá fyrri árum með í skiptingunni, samtals 143.561.143kr:

                        

Uppbyggingarsjóður Norðurlands eystra úthlutaði 34.8 mkr. í atvinnuþróun og nýsköpun og 44.1 mkr. í menningarmál. Í áhersluverkefni var úthlutað 32.4 mkr.

Í samningnum er heimild til að nota allt að 9 mkr. til að kosta umsýslu samningsins. Stjórnin samþykkti að skipta þeirri upphæð með eftirfarandi hætti í ár:

Umsýsla skv. samningum við atvinnuþróunarfélögin, 2.000.000 kr.

Umsýsla vegna menningarstyrkja og umsjón sóknaráætlunarsamnings (Eyþing), 7.000.000 kr. Fram til þessa hefur kostnaður við umsýslu verið nokkuð umfram þær 9 mkr sem í hana hafa verið ætlaðar. Þann umframkostnað hefur Eyþing borið. Í fjárhagsáætlun 2018 er gert ráð fyrir að kostnaður við umsýslu rúmist innan 9 mkr. sem leiðir af skýrara og skilvirkara skipulagi.

Eins og staðan er í dag lítur út fyrir að töluverðum fjárhæðum verði óráðstafað í lok árs 2017 eða 62.279.983 kr. (57.779.983 kr. + 4.500.000 kr.) Í ársreikningi 2016 kemur fram að 45.659.927 kr. voru fluttar til ársins 2017. Stjórn Eyþings ráðstafaði 23.920.484 kr. af þeirri upphæð til úthlutunar 2017. Á árinu 2017 voru 40.540.540 kr. ekki úthlutað, inní þeirri upphæð eru 17.319.397 kr aukaframlag frá ríkinu. Því flytjast 57.779.983 kr. til ársins 2018 og 4.500.000 kr. til ársins 2019 skv. ákvörðun stjórnar Eyþings á fundi sínum 15. mars sl. Athygli er vakin á því að niðurfelldir og lækkaðir styrkir eru ekki inn í þessum fjárhæðum sem og vextir ársins 2017.

 

*Menning, annað-Fjárhæðir sem eftir stóðu þegar verkefnunum, Þróunarstarf og Aftur heim, var lokið.

Umræða hefur verið í stjórn og hjá starfsmönnum um aðgerðir til koma uppsöfnuðum fjárhæðum í vinnu og hefur þá bæði verið horft til uppbyggingarsjóðs og áhersluverkefna. Framkvæmdastjóri og verkefnastjóri boðuðu formenn fagráða og úthlutunarnefndar ásamt ráðgjöfum atvinnuþróunarfélaganna til fundar 20. október til að fara yfir verklagsreglur uppbyggingarsjóðs og þá sérstaklega að skoða áherslur og  viðmið fyrir úthlutun styrkja. Gerðar voru nokkrar breytingar í því augamiði að rýmka reglurnar og draga úr takmörkunum, þó með það að leiðarljósi að gera faglegar kröfur til þeirra verkefna sem styrkt verða. Það mun skýrast við næstu úthlutun hvort þessar breytingar skila fleiri og/eða stærri umsóknum. Þá hafa nokkrar hugmyndir sem fram hafa komið um áhersluverkefni verið til umræðu innan stjórnar. Þær hugmyndir hafa einkum komið fram í samstarfi Eyþings við atvinnuþróunarfélögin og Markaðsstofuna um framkvæmd verkefna sem sett eru fram í aðgerðahluta sóknaráætlunar. Áform eru um að kynna sóknaráætlunina fyrir fleiri aðilum, s.s. Háskólanum og símenntunarmiðstöðvunum, og kanna áhuga þeirra á að standa fyrir verkefnum sem falla að markmiðum sóknaráætlunar. Áhersluverkefni eru alla jafna mun umfangsmeiri en þau verkefni sem styrkt eru úr uppbyggingarsjóði og ekki á færi einstaklinga að framkvæma. Nánar verður fjallað um áhersluverkefni hér aftar.

Stefnumörkun - stefnuskjal. Hin eiginlega sóknaráætlun er þróunaráætlun eða stefnuskjal með framtíðarsýn og markmiðum, ásamt þeim leiðum sem menn vilja fara að þeim. Áform ríkisins eru að taka mið af þeim áherslum og markmiðum sem hver landshluti hefur sett fram í sinni sóknaráætlun þegar forgangsraða þarf verkefnum og úthluta fjármunum.

Eyþing vann og sendi frá sér Sóknaráætlun fyrir Norðurland eystra á árinu 2015. Á árinu 2016 var síðan unnin sérstök aðgerðaáætlun með skilgreindum leiðum og verkefnum til að vinna að þeim markmiðum sem fram koma í stefnuskjali sóknaráætlunar. Aðgerðaáætlunin er megin vinnuskjal við framkvæmd sóknaráætlunar og grunnur að forgangsröðun verkefna og samstarfi við ýmsa aðila.

Í samningi um sóknaráætlun er kveðið á um skipan samráðsvettvangs sem gert er ráð fyrir að starfi á gildistíma áætlunarinnar og fái að fylgjast með framvindu hennar. Samráðsvettvangur Eyþings er skipaður 41 fulltrúa. Leitast er við að ná fram ólíkum sjónarmiðum úr landshlutanum. Um helmingur fulltrúa kemur úr röðum sveitarstjórnarmanna. Athygli hefur vakið að vel hefur tekist að fá ungt fólk úr framhaldsskólum og háskóla til þátttöku. Samráðsvettvangurinn var kallaður til fundar þann 25. október sl. á Húsavík þar sem farið var yfir framvindu sóknaráætlunar bæði á landsvísu og í landshlutanum. Tími vannst því miður ekki til að fara yfir framgang þeirra aðgerða sem tilgreindar eru í aðgerðaáætlun eins og áformað hafði verið.

Uppbyggingarsjóður. Hér á undan hefur verið gerð grein fyrir fjárhag uppbyggingarsjóðs og sóknaráætlunar í heild. Áfram hefur verið unnið að því að bæta starfshætti og faglega umgjörð sjóðsins til að tryggja vandaða stjórnsýslu. Verkskipulag  við umsýslu sjóðsins hefur verið endurskilgreint. Mikilvægt er að hafa í huga að allur stjórnsýsluþáttur sjóðsins, ásamt fjármálaumsýslu er hjá Eyþingi. Sá þáttur er í höndum framkvæmdastjóra og verkefnastjóra Eyþings. Verkefnisstjóri menningarmála og ráðgjafar atvinnuþróunarfélaganna annast kynningu á sjóðnum og aðstoð við umsækjendur ásamt því að annast ráðgjöf og eftirfylgni við styrkþega. Þá taka þeir við lokaskýrslum til yfirferðar.

Þá gegna fagráð og úthlutunarnefnd mikilvægu hlutverki og mikilli ábyrgð við úthlutun úr sjóðnum. Fagráðunum er ætlað að fara yfir allar umsóknir og gera tillögur til úthlutunarnefndar um styrkveitingar. Til að mæta miklu vinnuframlagi fulltrúa í fagráðum samþykkti stjórnin á fundi 25. október nýtt fyrirkomulag á greiðslum. Annars vegar að greitt verði fyrir tiltekinn fjölda bókaðra funda og hins vegar að greidd verði ákveðin upphæð fyrir yfirlestur hverrar umsóknar. Með þessu fyrirkomulagi væntir stjórnin þess að fulltrúar fái viðunandi þóknun fyrir störf sín samhliða því sem stjórnin getur gert kröfu um vandaða yfirferð umsókna.

Stjórn Eyþings ákvað (291. fundur) að vísa til aðalfundar að taka til skoðunar hvernig standa beri að skipun fulltrúa í fagráð og úthlutunarnefnd. Meðal annars verði skoðað hvort setja eigi mörk á það hversu lengi fulltrúar geti átt þar sæti. Sömuleiðis verði seta stjórnarmanna í fagráðum og úthlutunarnefnd tekin til skoðunar.

Unnið hefur verið að því á vegum stýrihóps Stjórnarráðsins um skeið að einfalda umsóknir í sjóðinn og hefur nú verið tekin í notkun rafræn umsóknargátt. Bæði á hún að verða umsækjendum til hægðarauka og að einfalda úrvinnslu umsókna. Almenn ánægja virðist vera með þetta rafræna umsóknarform. Auglýst var eftir umsóknum í Uppbyggingarsjóð Norðurlands eystra vegna úthlutunar 2018 þann 30. október og opnað fyrir umsóknir 1. nóvember í nýju rafrænu umsóknarkerfi. Umsóknarfrestur er til 29. nóvember. Áætlað er að úthlutunarhátíð verði um mánaðamót janúar/febrúar. Þetta ár er sérstakt að því leyti að auglýst var fyrr á þessu ári eftir umsóknum í sjóðinn vegna 2017 og var úthlutunarhátíð uppbyggingarsjóðs haldin 28. apríl sl. í Menningarhúsinu Bergi á Dalvík. Stefnt er að því að framvegis verði úthlutað sem fyrst á árinu og því kemur auglýsing vegna 2018 einnig á þetta ár.

Áhersluverkefni. Svokölluð áhersluverkefni eiga að hafa beina skírskotun til sóknaráætlunar landshlutans og miða að því að uppfylla markmið sem fram koma í sóknaráætlun. Um er að ræða samningsbundin verkefni. Aðgerðahluti sóknaráætlunar er gunnur að vali og skilgreiningu áhersluverkefna.

Hér á eftir verður reynt að rekja í mjög stuttu máli þau áhersluverkefni sem ráðist hefur verið í frá og með 2015 á grundvelli gildandi samnings um sóknaráætlun 2015 – 2019. Öll verkefnin svara með afgerandi hætti áherslum sem fram koma í aðgerðahluta sóknaráætlunar. Upptalning á markmiðum verkefna er ekki tæmandi.

Árið 2015 voru samþykkt sex áhersluverkefni.

Norðurland – hlið inn í landið. Framlag úr sóknaráætlun 15.000.000 kr.
Framkvæmd/ábyrgð: Markaðsstofa Norðurlands.
Meginmarkmið: Koma á millilandaflugi um Akureyrarflugvöll til lengri tíma og fjölga erlendum ferðamönnum á Norðurlandi og lengja dvalartíma þeirra. Fram kemur í Sóknaráætlun Norðurlands eystra að stærsta forgangsmál landshlutans í heild sé millilandaflug um Akureyrarflugvöll.
Verkefni lauk 2017.

Þróun og ráðgjöf í menningarmálum. Framlag úr sóknaráætlun 10.600.000 kr.
Framkvæmd/ábyrgð: Eyþing.
Meginmarkmið: Að starfandi verði verkefnisstjóri menningarmála sem sinni þróun og ráðgjöf í menningarmálum og framfylgi þeirri stefnu sem fram kemur í Sóknaráætlun Norðurlands eystra með það að markmiði að Norðurland eystra verði leiðandi á sviði menningar, lista og skapandi greina.
Verkefnið mun standa til ársloka 2019.

Skapandi skólastarf. Framlag úr sóknaráætlun 3.500.000 kr.
Framkvæmd/ábyrgð: Háskólinn á Akureyri.
Meginmarkmið: Að ýta undir þátt sköpunar í skólastarfi, að virkja þá ólíku eiginleika sem nemendur búa yfir og að virkja áhuga á verk- og tækninámi. Verkefnið fellur að áherslum sem fram koma í umfjöllun um menntun og mannauð í sóknaráætlun.
Verkefni enn ólokið.

Birding Iceland.  Framlag úr sóknaráætlun 3.253.000 kr.
Framkvæmd/ábyrgð: Markaðsstofa Norðurlands.
Meginmarkmið: Markmiðið er að fá ferðaþjónustufyrirtæki og fuglaáhugafólk á öllu Norðurlandi til að sameinast um þróun og kynningu á fuglaskoðun á Norðurlandi. Verkefnið fellur vel að áherslum í kafla sóknaráætlunar um ferðaþjónustu. Afurð þessa verkefnis var einstaklega áhugaverð.
Verkefni lauk 2016.

Grunngerð og mannauður í menningarstarfi. Framlag úr sóknaráætlun 3.000.000 kr.
Framkvæmd/ábyrgð: Eyþing.
Meginmarkmið: Að til verði heildstæður gagnagunnur um grunngerð og mannauð í menningu sem verður gerður aðgengilegur á einfaldan hátt á heimasíðu Eyþings.
Verkefni enn ólokið.

Matartengd ferðaþjónusta. Framlag úr sóknaráætlun 2.000.000 kr.
Framkvæmd/ábyrgð: Markaðsstofa Norðurlands.
Meginmarkmið: Uppbygging matartengdrar ferðaþjónustu á Norðurlandi og samstarf á öllu svæðinu í að markaðssetja matarmenningu Norðlendinga.
Verkefni lauk 2015.

Árið 2016 samþykkti stjórn Eyþings þrjú veigamikil áhersluverkefni sem öll falla að mikilvægum áherslum sóknaráætlunar og eiga sér augljósan stað í aðgerðaáætlun hennar. Verkefnin eru þessi:

Samstarf um fjölnýtingu orkuauðlinda á Norðurlandi eystra. Framlag úr sóknaráætlun 9.000.000 kr.
Framkvæmd: Félagið Eimur.
Ábyrgð: Eigendur Eims, þ.e. Landsvirkjun, Eyþing, Norðurorka og Orkuveita Húsavíkur.
Meginmarkmið: Að auka og bæta nýtingu orkuauðlinda landshlutans. Að auka verðmætasköpun og sjálfbærni. Að styðja við nýsköpun, rannsóknir og þróun í orku-, umhverfis- og ferðamálum. Að stuðla að öflugum og sjálfbærum samfélögum á starfssvæði Eyþings – með áherslu á samspil auðlinda, umhverfis, orku og ferðaþjónustu landshlutanum til framdráttar í efnahagslegu og umhverfislegu tilliti. Fjölnýting orkuauðlinda er eitt af meginmarkmiðum sóknaráætlunar.
Verkefnið mun standa til 2019.

Þróun og ráðgjöf í menningarmálum. Framlag úr sóknaráætlun 10.600.000 kr.
Sjá upplýsingar hér að framan.

Svæðisskipulag fyrir ferðaþjónustu á Norðurlandi eystra. Framlag úr sóknráætlun 9.000.000 kr.
Framkvæmd/ábyrgð: Eyþing í samræmi við ályktun aðalfundar 2015.
Meginmarkmið: Að stuðla að heildstæðri stefnu um ferðaþjónustu á Norðurlandi eystra til grundvallar markaðssetningu og uppbyggingu ferðamannastaða.
Verkefnið er áætlað til 2019.

Upphæðirnar miðast við framlag ársins.

Verkefnið Samstarf um nýtingu orkuauðlinda birtist í félagi eða verkefni sem hlaut nafnið Eimur og hefur vakið heilmikla athygli. Fulltrúum er bent á að kynna sér viðfangsefni Eims nánar á heimasíðu félagsins eimur.is og á facebook síðu þess. Verkefnið er til þriggja ára og munu bakhjarlar þess leggja verkefninu til 100 milljónir króna á því tímabili.

Verkefnið Þróun og ráðgjöf í menningarmálum felur í sér starf verkefnisstjóra menningarmála (menningarfulltrúa) hjá Eyþingi sem ætlað er að vinna að áherslum í menningarmálum sem fram koma í sóknaráætlun og útfærð eru í samningi um áhersluverkefnið. Meðal annars hefur Eyþing verið  þátttakandi í erlendum samstarfsverkefnum á sviði menningar. Eyþing er þannig þátttakandi í verkefni (NPA-verkefni) undir heitinu Creative momentum ásamt stofnunum í Finnlandi, Svíþjóð, Norður-Írlandi og Írlandi. Megininntak verkefnisins er að þróa leiðir til að stuðla að vaxandi hlut skapandi greina í hagkerfinu. Verkefnið er á lokastigi.

Svæðisskipulag fyrir ferðaþjónustu. Ákvörðun var tekin um að tvískipta verkefninu. Fyrri áfanginn fólst í að skilgreina og afmarka viðfangsefnið í verkefnislýsingu og er þeim hluta lokið. Hann var unnin af ráðgjafafyritækinu Alta.  Seinni áfanginn felst í hinni eiginlegu skipulagsgerð á grundvelli verkefnislýsingar. Lögð hefur verið sérstök áhersla á samþættingu og tengingu við áfangastaðaáætlun ferðaþjónustunnar (Destination Management Plan, DMP) sem nú er unnið að. Hér á aðalfundinum verður rætt um að fresta vinnu við seinni áfanga skipulagsgerðarinnar, þar sem í ljós hafa komið vankantar við að vinna hana á sama tíma og unnið er að endurskoðun á svæðisskipulagi Eyjafjarðar.

Á árinu 2017 var veitt framlag til þriggja verkefna sem samþykkt höfðu verið 2015 og 2016 og ná til loka samningstímans 2019.

Samstarf um fjölnýtingu orkuauðlinda á Norðurlandi eystra. Framlag úr sóknaráætlun 9.000.000 kr.

Þróun og ráðgjöf í menningarmálum. Framlag úr sóknaráætlun 10.900.000 kr.

Svæðisskipulag fyrir ferðaþjónustu á Norðurlandi eystra. Framlag úr sóknaráætlun 9.000.000 kr.

Gerð hefur verið grein fyrir þessum þremur verkefnum hér á undan. Þá hafa að auki verið samþykkt tvö verkefni í ár.

Úttekt á kostum og göllum sameiningar Eyþings og atvinnuþróunarfélaganna á Norðurlandi eystra. Framlag úr sóknaráætlun 3.500.000 kr.
Framkvæmd/ábyrgð: RHA
Meginmarkmið: Að draga fram kosti og galla þess að sameina Eyþing og atvinnuþróunarfélögin tvö á starfssvæði Eyþings. Að tengja atvinnuþróun betur við þá pólitísku stefnumótun sem fram fer á vettvangi Eyþings.
Verkefni lokið í maí 2017.

GERT – grunnmenntun efld í raunvísindum og tækni. Framlag úr sóknaráætlun 9.000.000 kr.
Framkvæmd/ábyrgð: AFE og AÞ.
Meginmarkmið: Að mæta þörfum vinnumarkaðarins fyrir vel menntað starfsfólk á sviði raunvísinda og tækni.
Verkefnið samþykkt í október 2017 og áætlað til ársloka 2019.

Á undanförnum vikum hafa verið lagðar voru fram tillögur og verkefnislýsingar að nýjum áhersluverkefnum:

Smávirkjanir á Norðurlandi eystra – frumúttekt. Framlag úr sóknaráætlun 6.500.000 kr.
Framkvæmdaaðilar: AFE og AÞ.
Verkefnið bíður staðfestingar stýrihóps.

Raforkuöryggi á Norðurlandi eystra. Framlag sóknaráætlunar áætlað 5 mkr.
Framkvæmdaaðilar verða atvinnuþróunarfélögin.
Eftir er að skilgreina nánar þau gögn sem áætlað er að afla. Þá leggur stjórn áherslu á að hið pólitíska samráð verði á vettvangi Eyþings, þannig að meginhlutverk stoðstofnana séu virt.

Markaðsrannsókn fyrir ferðaþjónustu á Norðurlandi.
Framkvæmdaaðili Markaðsstofa Norðurlands.

Samstarf og framtíðarskipulag um úrgangsmál á Norðurlandi.
Hugmyndin er að um verði að ræða sameiginlegt áhersluverkefni Eyþings og SSNV. 

Til skoðunar er að halda málþing á komandi vori til kynningar á áhersluverkefnum. Slíkt málþing var haldið í lok apríl 2014 þar sem kynnt voru þau verkefni sem unnið var að skv. samningum um sóknaráætlun 2013 og 2014. Það málþing var fjölsótt og tókst vel í alla staði. Ekki er síst mikilvægt að fara yfir það hverju verkefnin eru að skila í raun.

Greinargerð til stýrihóps Stjórnarráðsins. Eyþing skilaði ítarlegri greinargerð til stýrihópsins um framkvæmd samningsins um sóknaráætlun á árinu 2016. Stýrihópurinn tók líkt og árið áður saman mjög áhugaverða skýrslu þar sem dregnar eru saman upplýsingar úr einstökum landshlutum. Hluti þessara upplýsinga var kynntur í samráðsvettvangi sóknaráætlunar þann 25. október á Húsavík.

2.      Almenningssamgöngur.

Erfiðleikar í rekstri almenningssamgangna hafa kallað á mikla vinnu, einkum frá miðju sumri. Sérstaklega er ástæða til að geta framlags formanns Eyþings í þeirri vinnu. Hann mun gera ítarlega grein fyrir verkefninu í erindi hér á eftir. Hér verður því aðeins stiklað á stóru.

Tvær leiðir eru reknar af Eyþingi innan landshlutans: Leið 78 (milli Akureyrar og Siglufjarðar) og leið 79 (milli Akureryar og Húsavíkur). Þá eru tvær leiðir milli landshluta reknar í samstarfi með öðrum landshlutasamtökum: Leið 56 (milli Akureyrar og Egilsstaða) og leið 57 (milli Akureyrar og Reykjavíkur).

Allt frá því að Eyþing tók við verkefninu í ársbyrjun 2013 í kjölfar útboðs þá hefur reksturinn reynst erfiður og í raun vonlaus. Vissulega var of bratt af stað farið en byggt var á ráðgjöf frá verkfræðistofunni VSÓ sem reyndist fjarri öllum raunveruleika varðandi tekjumöguleika. Veigamikil skýring á erfiðum rekstri liggur einnig í því að framlög ríkisins hafa reynst fjarri öllum raunveruleika. Engin úttekt var gerð á rekstrarskilyrðum í einstökum landshlutum, s.s. akstursvegalengdum og íbúafjölda og þar með tekjumöguleikum. Því má halda því fram að framlögum hafi verið mjög misskipt og Eyþing farið mjög illa út úr fjárframlögum samanborið við þá landshluta sem liggja að höfuðborgarsvæðinu. Þrátt fyrir það hefur sú breyting orðið að aðrir landshlutar eru nú einnig farnir að glíma við rekstrarerfiðleika.

Strax 2013 var brugðist við hallarekstri með því að skera niður í akstri eins og samningar heimiluðu án bótaskyldu, þ.e. um 25%. Á árunum 2013 – 2015 varð niðurstaðan sú að Vegagerðin ákvað að brúa bilið þannig að Eyþing gæti staðið við samninga. Í árslok 2015 var skuldin við Vegagerðina orðin um 59 milljónir.

Ákveðin kaflaskil verða árið 2016 en þá var veitt 75 mkr. aukaframlagi til almenningssamgangna vegna rekstrarvanda og að hluta til í frekari þróun. Í hlut Eyþings komu 37 mkr. (32 + 5) og vonir bundnar við að talsverður hluti gæti gengið upp í skuldina við Vegagerðina. Raunin varð liðlega 10 mkr. og skuldin lækkaði í um 49 mkr. Árið 2017 fékkst sama framlag, 37 mkr. Nú hallaði hins vegar enn undan fæti. Greiðslur frá Vegagerðinni af aukaframlaginu námu 14,7 mkr. (2.450 þkr. að meðaltali á mánuði) fyrstu 6 mánuði ársins. Þegar greiðslubeiðni upp á 4,3 mkr. var send í júlí sagði Vegagerðin stopp og krafðist lausnar af heimamönnum. Hærri greiðslubeiðni stafaði af akstri skv. sumaráætlun auk ferjuleiðar og að fargjaldatekjur sumarsins voru ekki teknar að berast.

Skrúfað var fyrir aukagreiðslur Vegagerðarinnar frá því í júní og Eyþing þar með komið í greiðsluþrot. Formaður og framkvæmdastjóri sömdu um 5 mkr. yfirdráttarlán til að bjarga brýnustu greiðslum. Í ljósi þessarar stöðu og kröfu Vegagerðarinnar um aðgerðir samþykkti meirihluti stjórnar Eyþings að leita samkomulags við verktakann um að hætta akstri milli Húsavíkur og Þórshafnar (um Raufarhöfn og Kópasker) og falla frá bótakröfu vegna þess. Samkomulag náðist þar um en með því sparast liðlega 12 mkr. á ári. Vegagerðin samþykkti þetta samkomulag og féllst samhliða því á áframhaldandi fyrirgreiðslu. Áður höfðu verið fundir með Vegagerðinni og samgönguráðherra um stöðuna.

Megin skýring á versnandi afkomu í ár liggur í fækkun farþega og þar með lækkandi tekjum samhliða hækkun aksturskostnaðar sem fylgir vísitölu. Fækkun farþega er ekki aðeins á leiðum Eyþings heldur einnig veruleg á leið 57 um Vesturland og milli Akureyrar og Reykjavíkur. Bakslag á leið 57 veldur stóru um versnandi hag Eyþings. Á árunum 2014 og 2015 fékk Eyþing í sinn hlut 12 mkr. í tekjur hvort ár. Þær féllu niður í tæpar 3,6 mkr. árið 2016 og lækkuðu um tæpar 8,5 mkr. milli 2015 og 2016. Að óbreyttu hefði þessi upphæð gengið upp í skuldina við Vegagerðina. Samkvæmt nýjustu upplýsingum má búast við að halli verði á rekstri leiðar 57 í fyrsta skipti í ár. Þá ber þess að geta að SSA hefur ekki tekið á sig sinn hlut í tapi af leið 56.

Loks skal hér getið um stöðu tveggja mála í tengslum við almenningssamgöngur og hafa verið reglulega til umfjöllunar. Lög um farþegaflutninga og farmflutninga á landi, nr. 28/2017  voru samþykkt sl. vor.  Lengi hefur verið beðið eftir þessum lögum en þess er vænst að þau tryggi einkaleyfi landshlutasamtakanna til almenningssamgangna eins og kveðið er á um í samningi þeirra við Vegagerðina. Yfir sumarmánuðina þegar tekjumöguleikar eru mestir hafa aðrir aðilar fleytt rjómann ofan af í beinni samkeppni á sömu leiðum og strætó. Þar með hafa landshlutasamtökin orðið af tekjum. Breyting á afsláttarkjörum. Allt frá árinu 2013 hefur Eyþing beitt sér fyrir einföldun og breytingum á afsláttarkjörum. Tillögur þar um hafa ekki náð fram að ganga. Nú síðast lagði Strætó bs. fram tillögu sem hrundið yrði í framkvæmd samhliða upptöku apps sem greiðslumáta í landsbyggðarvögnum líkt og er á höfuðborgarsvæðinu. Í tillögunni fólst einnig að notkun miða yrði hætt. Tillagan hefur ekki náð fram að ganga og appið hefur enn ekki litið dagsins ljós.

Samningar landshlutasamtakanna við Vegagerðina gilda til ársloka 2018 og framlengjast um tvö ár verði þeim ekki sagt upp fyrir marslok 2018. Þriggja manna nefnd á vegum landshlutasamtakanna hefur verið að störfum frá því í ágúst til að meta stöðu verkefnisins og hvort forsendur eru fyrir endurnýjun samninga. Guðmundur Baldvin Guðmundsson formaður Eyþings er í nefndinni.

3.      Vaðlaheiðargöng.

Eyþing er hluthafi í Greiðri leið ehf. ásamt öllum sveitarfélögum í landshlutanum og nokkrum fyrirtækjum, alls 23 hluthafar. Á sínum tíma samþykktu hluthafar að Eyþing fengi afhentan einnar milljón króna hlut í félaginu fyrir umsýslu, bæði við stofnun félagsins og eftir það. Eyþing hefur síðar nýtt forkaupsrétt sinn í félaginu og nemur hlutur Eyþings nú 5.423.037 kr. Því skal haldið til haga að verkefnið um Vaðlaheiðargöng er sprottið upp úr mikilli vinnu á vettvangi Eyþings sem formlega hófst árið 2002.

Þeir aðilar sem standa að Greiðri  leið tóku að sér skuldbindingar vegna lánasamnings Vaðlaheiðarganga hf. um árlega 40 mkr. aukningu hlutafjár til og með árinu 2017. Lokaáfanga hlutafjáraukningar er því u.þ.b. að ljúka og verða 40 milljónir greiddar í aukið hlutafé í Vaðlaheiðargöngum hf. fyrir árslok. Mikilvægum áfanga var náð í gangagreftrinum þann 28. apríl sl. þegar síðasta haftið var sprengt. Allir stórir óvissuþættir við framkvæmdina urðu  þar með úr sögunni. Vonir standa enn til að hægt verði að opna göngin fyrir umferð í ágúst á næsta ári.

Framkvæmdastjóri Eyþings gegnir formennsku í Greiðri leið og situr í stjórn Vaðlaheiðarganga hf. fyrir hönd hluthafa í Greiðri leið.

4.      Fulltrúaráð Eyþings.

Tveir fundir voru haldnir í fulltrúaráði. Sá fyrri var haldinn 8. júní á Húsavík og var aðalmálefni fundarins kynning á skýrslu RHA um kosti og galla sameiningar Eyþings og atvinnuþróunarfélaganna. Síðari fundurinn var haldinn 20. september á Akureyri og var meginefni þess fundar að kynna afstöðu einstakra sveitarstjórna á svæðinu til skýrslu RHA og þess hvort stefna beri að fyrrnefndri sameiningu. Á fundinum var einnig farið yfir stöðu almenningssamgangna og hugmynd um frestun á seinni áfanga verkefnisins um svæðisskipulag fyrir ferðaþjónustu á Norðulandi eystra. Öll þessi mál eru til umfjöllunar hér á aðalfundi.

5.      Fjölmenningarstefna.

Stjórn Eyþings samþykkti á fundi sínum 15. febrúar að skipa þriggja manna starfshóp til að endurskoða fjölmenningarstefnu Eyþings frá 2009 ásamt handbók um móttöku innflytjenda í skóla. Í starfshópnum sátu Gunnar Gíslason, ráðgjafi, Helga Hauksdóttir, kennsluráðgjafi hjá fræðslusviði Akureyrar og Linda Margrét Sigurðardóttir, lögfræðingur og verkefnastjóri hjá Eyþingi.

Stjórnin samþykkti endurskoðaða fjölmenningarstefnu á fundi 14. ágúst. Hún er aðgengileg á heimasíðu Eyþings. Þá samþykkti stjórnin að bjóða sveitarfélögum upp á kynningu og umræðu um stefnuna og leita eftir að þau tilnefni ábyrgðaraðila í innflytjendamálum. Eyþing stefnir á að kalla árlega saman ábyrgðaraðila sveitarfélaganna til að vega og meta þjónustu við innflytjendur.

6.      Raforkumál.

Eitt af þremur forgangsmálum sem fram komu við gerð sóknaráætlun landshlutans var raforkumál. Bágt ástand í raforkumálum landshlutans og þá ekki síst dreifikerfi raforku hefur verið mjög til umfjöllunar að undanförnu. Sérstaklega hefur umræða um fjölgun díselrafstöðva á Akureyri vakið athygli.  Eyþing sem pólitískur samráðsvettvangur sveitarfélaga og hagsmunasamtök þeirra hlýtur því að láta sig málið varða.

Stjórnir Eyþings og SSNV héldu 20. febrúar sameiginlegan fund í Varmahlíð með forstjórum Landsnets, Orkustofnunar og Rarik til að fara yfir stöðuna og áformaðar úrbætur í raforkumálum á Norðurlandi í heild. Þann 7. júní hélt Eyþing málþing á Akureyri um raforkumál í samstarfi við SSNV og atvinnuþróunarfélögin. Ávörp fluttu iðnaðarráðherra, fulltrúi umhverfisráðherra og erindi fluttu formaður Eyþings, forstjóri Landsvirkjunar og forstöðumaður MS á Akureyri.

Orkustofnun leitaði í mars eftir samstarfi við Eyþing um að leita eftir hugmyndum frá sveitarfélögunum um smávirkjanakosti. Áform Orkustofnunar voru að velja einn smávirkjunarkost til frekari útfærslu. Verkefninu var komið á framfæri við atvinnuþróunarfélögin. Í ljósi þess að hugmyndin féll afar vel að aðgerðum sem skilgreindar eru í sóknaráætlun þá var ákveðið að útfæra áhersluverkefni innan sóknaráætlunar undir heitinu Smávirkjanir á Norðurlandi eystra – frumúttekt, eins og getið er um hér að framan. Framkvæmd verkefnisins verður á ábyrgð atvinnuþróunarfélaganna.

Annað áhersluverkefni undir heitinu Raforkuöryggi á Norðurlandi eystra er í vinnslu og mun einnig verða á hendi atvinnuþróunarfélaganna í samstarfi við nokkra aðila, þar á meðal væntanlega Eyþing um hinn pólitíska þátt. Stjórnin bókaði um raforkuöryggi á Norðurlandi á 289. fundi stjórnar.

7.      Úttekt á kostum og göllum sameiningar Eyþings og atvinnuþróunar-félaganna.

Aðalfundur 2016 samþykkti að fela stjórn að kanna kosti og galla sameiningar Eyþings, Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga og Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar. Niðurstöður af vinnu stjórnar og tillögur skyldu liggja fyrir í sumarbyrjun og verða kynntar í fulltrúaráði tímanlega fyrir aðalfund Eyþings árið 2017.

Stjórn Eyþings tók um það ákvörðun að semja við RHA um verkefnið sem samþykkt var og þar með fjármagnað sem áhersluverkefni innan sóknaráætlunar. Sérfræðingar RHA kynntu skýrslu um Sameiningu Eyþings og atvinnuþróuanrfélaganna á Norðurlandi eystra á fundi stjórnar þann 7. júní og síðan á fundi fulltrúaráðs daginn eftir. Skýrslan var í kjölfarið send öllum sveitarstjórnum á svæðinu, en afstaða þeirra var kynnt á fundi fulltrúaráðs 20. september. Í skýrslunni eru ekki lagðar fram beinar tillögur en ýmsir kostir viðraðir. Málefnið verður til frekari umfjöllunar hér á aðalfundinum.

8.      Ýmsir fundir og verkefni

Úrgangsmál hafa af og til komið til umræðu á vettvangi Eyþings. Á stundum hefur virst sem málaflokkurinn sé hálf munaðarlaus. Í janúar komu Eiríkur Björn Björgvinsson og Kristján Þór Magnússon á fund stjórnar en þeir sitja í þriggja manna starfshópi um úrgangsmál á Norðurlandi ásamt fulltrúa Norðurlands vestra. Fram kom að áhersla væri á að formgera samstarf sveitarfélaganna á Norðurlandi ásamt því að skoða kosti einnar brennslu fyrir Norðurland. Þá kom fram að mikið vantaði á að ríkið væri tilbúið að koma að málinu eins og nauðsynlegt væri. Kristján Þór mætti á ný á fund stjórnar 25. október sl. Hann greindi frá hugmyndum um að Norðurland sameinist um að fá ráðgjafa til að kortleggja æskilegt samstarf og skipulag á grundvelli Svæðissáætlunar um meðhöndlun úrgangs á Norðurlandi. Mikilvægt væri að fá fram hvað skynsamlegast er að gera í úrgangsmálum til lengri tíma litið bæði á Norðurlandi og á landinu í heild. Horfa þurfi sérstaklega til þeirrar aðstöðu sem þegar er til staðar í fjórðungnum. Þá sé óhjákvæmilegt að ríkið komi að verkefninu eigi það að ganga eftir.

Framkvæmdsstjóra var falið að kanna vilja SSNV til að skilgreina verkefnið sem áhersluverkefni með Eyþingi innan sóknaráætlana landshlutanna. Vilji er til að fara þessa leið og freista þess að koma úrgangsmálum Norðurlands í viðunandi farveg.

Framkvæmdastjóri, og eftir atvikum formaður og einstaka stjórnarmenn, hafa sótt ýmsa fundi og viðburði fyrir samtökin auk þeirra sem tengjast einstökum málum sem getið er hér í skýrslunni. Má þar nefna fund með forsvarsmönnum Arnarlax og með nefnd um endurskoðun byggðakvóta, ársfund Norðurorku, málþing um tækifæri í ferðaþjónustu, 30 ára afmælishátíð Háskólans á Akureyri og ráðstefnu HA um byggðamál. Þá sótti framkvæmdastjóri vorfund atvinnuþróunar sem haldinn var í Varmahlíð í apríl sl. og hluta haustfundar sem haldinn var á Akureyri og Siglufirði í síðastliðinni viku.

Þá styrkti Eyþing og/eða kom að undirbúningi nokkurra ráðstefna. Nefna má kynningarfundi nefndar um stöðu og framtíð ísl. sveitarfélaga sem haldnir voru á Akureyri og Húsavík og fund um skipulag haf- og strandsvæða. Eyþing boðaði til opins fundar á Akureyri með SSNV undir yfirskriftinni „Kemstu til Reykjavíkur á rafbílnum þínum?“. Þá héldu Eyþing og Orkustofnun fund fyrir tæpu ári síðan um raforkumál á Norðurlandi eystra.

9.      Aðsend þingmál.

Á dagskrá stjórnar komu 25 þingmál til umsagnar. Haft var samráð við Samband ísl. sveitarfélaga í nokkrum tilvikum. Þá tók stjórnin nokkur mál til ítarlegrar umfjöllunar. Meðal mála sem stjórnin veitti umsögn um var tillaga til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, frumvarp til laga um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, tillaga til þingsályktunar um opnun neyðarbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli og Samgönguáætlun 2015-2018. Umsögn um tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða hafði þá sérstöðu að einn stjórmarmanna féllst ekki á hana og skilaði séráliti (294. fundur). Umsagnirnar í heild sinni er að finna í fundargerðum stjórnar.

10.     Samgönguáætlun.

Samgöngumál hafa alla tíð verið eitt af veigameiri málum á borði Eyþings og samgönguáætlanir jafnan verið til ítarlegrar meðferðar. Stjórnin hefur byggt áherslur sínar á því sem fram kemur í ályktun aðalfundar 2016. Þar segir að tryggja verði fé til þeirra mikilvægu verkefna sem bætt var inn við endurskoðun á samgönguáætlun 2015 – 2018. Bent var á Dettifossveg og flughlað á Akureyrarflugvelli. Þessar áherslur eru í samræmi við þá forgangsröðun sem fram kemur í sóknaráætlun. Þá var í ályktun aðalfundar vakin athygli á að fyrir löngu væri orðið brýnt að koma uppbyggingu vegar um Langanesströnd og Brekknaheiði með bundnu slitlagi inn á framkvæmdaáætlun.  Upplýsingar um fjármagn til þessara framkvæmda eru óljósar og áfram er verk að vinna við að tryggja fjármagn til þessara framkvæmda. Stjórnin bókaði um fjárframlög til samgönguáætlunar á 293. fundi.

Að beiðni formanns umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis í ágúst sl. aflaði Eyþing upplýsinga frá einstökum sveitarfélögum um áhersluatriði þeirra í samgöngumálum.

 

Starfsmannamál

Nokkrar breytingar hafa orðið á starfsmannahaldi Eyþings í ár.

Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir menningarfulltrúi lét af störfum í maí. Stjórn Eyþings gerði við hana starfslokasamning en í honum fólst m.a. að greidd voru laun í þriggja mánaða uppsagnarfresti frá 1. júní til 31. ágúst.  Að auki voru greiddir þrír mánuðir vegna orlofs og ógreiddrar yfirvinnu.

Linda Margrét Sigurðardóttir verkefnastjóri kom í fullt starf 1. október sl. Hún mun sinna fjármálum og umsýslu uppbyggingarsjóðs auk annarra verkefna í samstarfi við framkvæmdastjóra.

Auglýst var eftir verkefnisstjóra menningarmála og bárust alls 35 umsóknir en umsóknarfrestur var til 14. september. Í starfið var ráðin Vigdís Rún Jónsdóttir listfræðingur. Hún mun starfa innan ramma áhersluverkefnisins Þróun og ráðgjöf í menningarmálum sem áætlað er til ársloka 2019. Vigdís mun hefja störf nú um miðjan nóvember.

 

Samstarf við þingmenn

Stjórn og framkvæmdastjóri hafa að venju átt margháttað samstarf við þingmenn Norðausturkjördæmis um ýmis málefni landshlutans. Að frumkvæði þingmanna var fallið frá því að hafa sameiginlegan samráðsfund Eyþings og stjórnar og framkvæmdastjóra SSA með þingmönnum. Þess í stað var brugðið á það ráð að halda fund þingmanna með fulltrúum sveitarstjórna og Eyþings. Fundurinn var á Akureyri 15. febrúar. Með þessu móti var reynt að draga fram forgangsmál einstakra sveitarfélaga sem og landshlutans í heild.

 

Samstarf við ráðuneyti sveitarstjórnarmála, Samband ísl. sveitarfélaga og við önnur landshlutasamtök

Margháttað samstarf var við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, Samband ísl. sveitarfélaga, önnur landshlutasamtök sveitarfélaga á síðasta starfsári og sama á við um stýrihóp Stjórnarráðsins og Byggðastofnun. Þau samskipti hafa m.a. tengst vinnu við sóknaráætlanir landshluta, brothættar byggðir og almenningssamgöngur.  Einkum hafa samskipti við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið aukist í kjölfar þess að byggðamál og sóknaráætlun fluttust þangað frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

Að venju hafa verið margháttuð samskipti við Samband ísl. sveitarfélaga um ýmis málefni. Formaður og framkvæmdastjóri sátu landsþing í mars sl. og nýliðna fjármálaráðstefnu. Árlega er haldinn a.m.k. einn samráðsfundur formanna og framkvæmdastjóra með stjórn sambandsins og sviðsstjórum þess. Formaður sat fundinn að þessu sinni. Þá hafa talsverð samskipti verið við Guðjón Bragason lögfræðing sambandsins, einkum um mál tengd almenningssamgöngum og ýmsum þingmálum. Þá ber þess að geta að framkvæmdastjóri sambandsins situr að jafnaði fundi formanna og framkvæmdastjóra landshlutasamtakanna þannig að mjög góð tengsl hafa skapast milli þessara aðila.

Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) hafa leitt samstarf formanna og framkvæmdastjóra landshlutasamtakanna undanfarna mánuði, eða þar til á nýliðnum haustfundi að Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV) tóku við. Haldnir hafa verið nokkrir samráðsfundir, bæði óformlegir og formlegir. Vorfundur var haldinn í mars og sumarfundur var haldinn í Kópavogi 1. og 2. júní. Á þessum fundum bar hæst ýmis mál tengd almenningssamgöngum og sóknaráætlun, auk ýmissa lagabreytinga og stjórnvaldsaðgerða sem áhrif hafa á innviði landshlutanna. Á haustfundi landshlutasamtakanna sem haldinn var 4. október sl. í Reykjavík var sú nýbreytni að öllum aðalmönnum í stjórnum landshlutasamtaka var boðið að sitja fundinn. Þetta mæltist vel fyrir og var vel mætt af stjórnarmönnum víðs vegar að af landinu. Áhersla var á að kynna öll landshlutasamtökin, sérstaklega skipulag þeirra og samstarf í hverjum landshluta fyrir sig. Þá ræddi Jón Gunnarsson samgönguráðherra um sveitarstjórnarstigið og samstarf sveitarfélaga. Hann greindi m.a. frá vinnu sem væri hafin í því skyni að styrkja lagalegan grunn landshlutasamtaka sveitarfélaga. Rétt er að geta þess sérstaklega að formenn og framkvæmdastjórar hittust á heils dags vinnufundi hjá SSH í desember með það að markmiði að deila reynslu og læra hver af öðrum. Áform eru uppi um að halda annan slíkan fund.

Þann 19. janúar héldu formenn og framkvæmdastjórar landshlutasamtakanna fund í Reykjavík með formönnum þeirra stjórnmálaflokka sem áttu fulltrúa á Alþingi. Rætt var um afstöðu stjórnmálaflokkanna til byggðaáætlunar og sóknaráætlunar og fjármögnun þessara verkefna til framtíðar. Einnig um skilgreiningu á því hvað telst grunnþjónusta á landsbyggðinni og um fjárveitingar til hennar. Þar á meðal áhrif laga um ríkisfjármál og nýs verklags við gerð fjárlaga.

Formenn landshlutasamtakanna, fjórir í senn, skiptast á að vera aðalfulltrúar á sveitarstjórnarvettvangi EFTA tvö ár í senn. Formaður Eyþings tók sæti í vettvangnum fyrir um ári síðan og mun sitja í honum fram á mitt næsta ár. Að jafnaði hafa fundir verið haldnir tvisvar á ári.

Loks ber að nefna að stjórn og framkvæmdastjóri SASS heimsóttu Eyþing 2. og 3. mars og kynntu sér starfsemi Eyþings og skipulag samstarfs sveitarfélaga á svæðinu, auk þess sem skipst var á upplýsingum.

 

Starfsemi Eyþings og stoðstofnana

Eyþing hefur átt margvíslegt og gott samstarf við svokallaðar stoðstofnanir sveitarfélaga, þ.e. atvinnuþróunarfélögin tvö og Markaðsstofu Norðurlands. Eins og komið hefur fram hefur talsverð umræða átt sér stað um samstarf og/eða mögulega sameiningu, einkum Eyþings og atvinnuþróunarfélaganna. Umræða um sameiningu stoðstofnana er ekki ný  af nálinni, t.d. hefur sameining atvinnuþróunarfélaganna tveggja reglulega komið til umræðu á undanförnum árum. Rætt hefur verið um að verkefni stoðstofnana  skarist um of og að dæmi séu um að þau séu í samkeppni um verkefni og hefur verið bent á ferðaþjónustu og raforkumál. Vakin hefur verið athygli á, m.a. í áðurnefndri skýrslu RHA, að samþykktir AFE séu um margt sérstakar þar sem hlutverk félagsins er skilgreint með sama hætti og landshlutasamtakanna.

Ástæða er til að geta þess að Eyþing hefur átt mjög farsælt samstarf við ofangreindar stofnanir um ýmsa þætti sóknaráætlunar. Þannig hafa framkvæmdastjórar þeirra reglulega farið yfir aðgerðaáætlun fyrir sóknaráætlun með það að sameiginlegu markmiði að fylgja eftir þeim verkefnum sem þar er að finna. Afrakstur þess samstarf endurspeglast m.a. í áhersluverkefnum sem hafin eru eða eru í undirbúningi. Þá hefur skapast gott samstarf um skilgreinda verkþætti í umsýslu vegna uppbyggingarsjóðs. Stjórn Eyþings væntir þess að áfram verði aukið og gott samstarf við stoðstofnanir. Mikilvægt er að Eyþing og atvinnuþróunarfélögin skilgreini hlutverk sín eins skýrt og kostur er óháð því hver niðurstaðan verður um sameiningu þeirra. Í grófum dráttum hefur verið litið svo á að landshlutasamtökin séu pólitískur samráðsvettvangur sveitarfélaga og einbeiti sér að samfélagslegum málum og uppbyggingu innviða en atvinnuþróunarfélögin einbeiti sér að atvinnulífinu. Veigamikil ákvæði um hlutverk landshlutasamtakanna er að finna í lögum um byggðaáætlun og sóknaráætlanir nr. 69/2015 auk sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, 97. grein.

 

Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra (HNE)

Að venju verður gerð grein fyrir störfum heilbrigðisnefndar og starfsemi eftirlitsins hér á fundinum eins og kveðið er á um í samstarfssamningi sveitarfélaganna sem síðast var endurskoðaður árið 2010.

 

Aðalfundur Eyþings 2017

Kjörnir fulltrúar á aðalfundi Eyþings eru 40 talsins úr 13 sveitarfélögum með alls  29.686 íbúa m.v. 1. desember 2016 (voru 29.351 árið 2015). Sveitarfélögin eru sjö í Eyjafirði og sex austan Vaðlaheiðar.

Yfirbragð aðalfundar nú er með líku sniði og í fyrra en það mæltist vel fyrir. Framsöguerindi eru fá og lúta beint að starfi Eyþings. Reynt er að gefa gott tóm til málefnavinnu og samræðna milli fulltrúa. Í fyrra var stigið það skref að óska eftir samtali við þingmenn kjördæmisins í sérstökum dagskrárlið í lok aðalfundarins eftir að áherslur fundarins lágu fyrir. Ákveðið var að hafa sama hátt á í ár og fer vel á því nú að nýafloknum kosningum líkt og var í fyrra.

Sem kunnugt er þá var aðalfundur áformaður 27. og 28. október en líkt og í fyrra reyndist nauðsynlegt að fresta fundinum vegna óvæntra kosninga til Alþingis.

Stjórn, framkvæmdastjóri og aðrir starfsmenn Eyþings þakka sveitarstjórnarmönnum og starfsmönnum sveitarfélaga á starfssvæði sínu gott samstarf á liðnu starfsári og væntir áfram góðs samstarfs.

 

Akureyri 8. nóvember 2017

Stjórn og framkvæmdastjóri Eyþings.

Getum við bætt síðuna?