Fara í efni

Fundargerð - Skýrsla stjórnar 2016

12.11.2016

 

 

AÐALFUNDUR EYÞINGS 11. og 12. nóvember 2016

Skýrsla stjórnar starfsárið 2015 - 2016.

 

 

Aðalfundur Eyþings var haldinn 9. og 10. október 2015 í Félagsheimilinu Hlíðarbæ, Hörgársveit. Í stjórn voru tveir nýjir kosnir, þeir Bjarni Th. Bjarnason bæjarstjóri Dalvíkurbyggðar sem sat sem varamaður stærsta hluta ársins 2015 og Karl Frímannsson sveitarstjóri Eyjafjarðarsveitar.

Fastráðnir starfmenn Eyþings eru þrír, Linda Margrét Sigurðardóttir verkefnastjóri, Pétur Þór Jónasson framkvæmdastjóri og Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir menningarfulltrúi. Þá hefur Hulda Jónsdóttir unnið við verkefnið Creative Momentum.

Stjórnin hefur á starfsárinu haldið 15 bókaða stjórnarfundi og tekið til umræðu og afgreiðslu um 155 mál. Hér fer á eftir samantekt um helstu atriði í starfsemi Eyþings á liðnu starfsári. Starfsemin hefur haldið áfram að vaxa að umfangi, einkum og sér í lagi fjármálaleg umsýsla. Vakin er athygli á að í fundargerðum stjórnar og fundargerðum fulltrúaráðs er að öllu jöfnu gerð ítarleg grein fyrir þeim málum sem eru til umfjöllunar.

 

Nefndir, ráð og starfshópar

Stjórn Eyþings skipar eða tilnefnir fulltrúa í nokkrar nefndir. Skipunartími þeirra er all misjafn.

Skólanefnd Framhaldsskólans á Laugum. Samkvæmt tilnefningu Eyþings voru skipaðir sem aðalmenn Dagbjört Jónsdóttir Þingeyjarsveit og Guðrún María Valgeirsdóttir Mývatnssveit og til vara Bjarni Höskuldsson Þingeyjarsveit og Kolbrún Ívarsdóttir Mývatnssveit (241. fundur).

Fjallskila- og markanefnd í Eyjafirði. Í nefndinni sitja  Ólafur G. Vagnsson ráðunautur sem er formaður, Árni Sigurður Þórarinsson Dalvíkurbyggð og Þórarinn Ingi Pétursson Grýtubakkahreppi (287. fundur).

Minjaráð Norðurlands eystra. Af Eyþingi voru tilnefnd sem aðalmenn: Steinunn María Sveinsdóttir, bæjarfulltrúi Fjallabyggð og Sif Jóhannesdóttir, bæjarfulltrúi Norðurþingi. Til vara: Logi Már Einarsson, bæjarfulltrúi Akureyri og Daníel Pétur Hansen, sveitarstjórnarfulltrúi Svalbarðshreppi. (260. fundur).

Norðurslóðanet Íslands. Framkvæmdastjóri á seturétt sem áheyrnarfulltrúi á stjórnarfundum í samræmi við stofnskrá. Rétt er að minna á að stofnun Norðurslóðanetsins er fyrsta verkefnið sem ráðist var í á grunni sóknaráætlunar á Norðurlandi eystra árið 2012.

Ráðgjafarnefnd heilbrigðisumdæmis Norðurlands. Af Eyþingi voru tilnefnd Sigríður Huld Jónsdóttir, bæjarfulltrúi á Akureyri sem aðalmaður og Þorsteinn Ægir Egilsson, sveitarstjórnarmaður í Langanesbyggð sem varamaður (261. fundur).      Nefndin mun ekki hafa  verið kölluð saman.

 

Fagráð menningar - Menningarráð fyrir uppbyggingarsjóð (5 fulltrúar). Eftirtaldir voru skipaðir: Arnór Benónýsson, formaður, Þingeyjarsveit, Hildur Stefánsdóttir, Svalbarðshrepp, Kjartan Ólafsson, Akureyri, Valdimar Gunnarsson, Eyjafjarðarsveit og Þórgunnur Oddsdóttir, Akureyri (276. fundur). Varamenn: Guðrún Kristín Jóhannsdóttir, Húsavík og Kristinn Kristjánsson, Siglufirði (278. fundur).

Fagráð atvinnuþróunar og nýsköpunar fyrir uppbyggingarsjóð (5 fulltrúar). Eftirtaldir voru skipaðir: Sigurður Steingrímsson formaður, Akureyri, Heiðrún Óladóttir, Þórshöfn, Snæbjörn Sigurðarson, Húsavík, Sigríður María Róbertsdóttir, Siglufirði og Ögmundur Knútsson, Akureyri (265. fundur). Varamenn: BrynhildurBjarnadóttir, Eyjafjarðarsveit og Rúnar Sigurpálsson, Akureyri (278. fundur).

Úthlutunarnefnd uppbyggingarsjóðs (5 fulltrúar). Formenn fagráða taka sæti í úthlutunarnefnd skv. samþykktu stjórnskipulagi Uppbyggingarsjóðs, þeir Arnór Benónýsson og Sigurður Steingrímsson. Auk þeirra skipa eftirtaldir úthlutunarnefnd: Eva Hrund Einarsdóttir formaður, Akureyri, Birna Björnsdóttir, Raufarhöfn og Hulda Sif Hermannsdóttir (265. og 267. fundur). Varamenn: Dagbjört Bjarnadóttir, Skútustaðahreppi og Valdemar Þór Viðarsson, Dalvík (278. fundur).

Vinnumarkaðsráð Norðurlands eystra Eftirtaldir voru skipaðir: Gunnlaugur Stefánsson, Húsavík og LindaMargrétSigurðardóttir, Eyjafjarðarsveit (varamaður) (267. fundur).

Verkefnisstjórnir í verkefninu „Brothættar byggðir“. Pétur Þór Jónasson framkvæmastjóri Eyþings situr í verkefnisstjórnum  Raufarhafnar og Öxarfjarðar. Gunnar Gíslason bæjarfulltrúi Akureyri situr  í verkefnisstjórnum Grímseyjar og Hríseyjar. (270. fundur).

Samstarfsverkefni um bætta nýtingu orkuauðlinda.  Félag um verkefnið fékk nafnið Eimur. Arnór Benónýsson var skipaður í stjórn verkefnisins. Sigurður Ingi Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs og Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands voru skipuð í fagráð verkefnisins. Einn varamaður var skipaður frá hvoru atvinnuþróunarfélagi (279. fundur).

Bakhópur verkefnisins Staða og framtíð íslenskra sveitarfélaga. Logi Már Einarsson og Sif Jóhannesdóttir voru skipuð, en óskað var eftir tilnefningu á bæði karli og konu (277. fundur). Bakhópnum er ætlað að vera fimm manna verkefnisstjórn til samráðs.

 

Helstu þættir í starfi Eyþings/Ályktanir aðalfundar

Ályktanir síðasta aðalfundar voru að venju sendar þeim aðilum sem þær varða og eftir atvikum fylgt frekar eftir t.d. við þingmenn kjördæmisins. Stjórnin varð sammála um að leggja sérstaka áherslu á fjögur lykilmál sem ályktað var um á aðalfundinum, þ.e. ályktanir um almenningssamgöngur, um heildstæða sýn í ferðamálum, um menntun fyrir atvinnulífið og um Háskólann á Akureyri. Hér verður gerð grein fyrir helstu þáttum í starfi Eyþings og verkefnum sem unnið hefur verið að frá síðasta aðalfundi án þess að um sé að ræða tæmandi lista.

  1. Sóknaráætlun Norðurlands eystra.

Umfangsmesti þáttur í starfsemi Eyþings tengist samningi milli Eyþings og ríkisins um sóknaráætlun Norðurlands eystra 2015 – 2019. Vel hefur gengið og nýtt verkalag sem felst í samningnum verið að slípast til með aukinni reynslu. Haldnir hafa verið þrír samráðsfundir landshlutasamtakanna og stýrihóps Stjórnarráðsins þar sem aðilar hafa miðlað af reynslu sinni og verklagið þróað áfram. Í grófum dráttum má segja að samningurinn um sóknaráætlun taki til þriggja meginþátta sem eru: hin eiginlega sóknaráætlun sem er stefnuskjal fyrir landshlutann, uppbyggingarsjóður landshlutans og áhersluverkefni.

Framlag ríkisins til samningsins árið 2016 hækkaði umtalsvert frá fyrra ári eða um 13,8% og nemur 108.540.659 kr. Að auki leggja sveitarfélögin 10,6 mkr. til samningsins sem er óbreytt frá fyrra ári. Fyrir landið í heild hækkaði framlag ríkisins til sóknaráætlunar um 80 mkr. eða í 630.700.000 kr.

Stjórn Eyþings samþykkti þann 9. mars sl. eftirfarandi skiptingu á 108.540.659 kr. upphæð sóknaráætlunar (tölur fyrir 2015 til samanburðar):

                                                2015                2016

         Atvinnumál, styrkir    42.750.000      42.750.000     

         Menning, styrkir         31.875.000      36.273.750     

         Áhersluverkefni          11.752.917      20.516.909     

         Umsýsla                        9.000.000        9.000.000     

         Samtals:                     95.377.917   108.540.659     

Eins og kveðið er á um í samningi um sóknaráætlun þá greiða sveitarfélögin framlag til samningsins. Framlag þeirra, 10.600.000 kr. leggst við upphæð til áhersluverkefna, sem verður því alls 31.116.909 kr. í ár. Auk þessa þá annast Eyþing greiðslu á 6.400.000 kr. framlagi til Urðarbrunns skv. samningnum. Ákveðið var að styrkupphæð til atvinnumála skiptist jafnt milli svæða atvinnuþróunarfélaganna tveggja.

Í samningnum er heimild til að nota allt að 9 mkr. til að kosta umsýslu samningsins. Stjórnin samþykkti að skipta þeirri upphæð með eftirfarandi hætti í ár:

Umsýsla vegna styrkja í atvinnumál (atvinnuþróunarfélögin) 4.750.000 kr.

Umsýsla vegna menningarstyrkja (menningarfulltrúi)            2.125.000 kr.

Umsýsla vegna sóknaráætlunarsamnings (Eyþing)                 2.125.000 kr.  

Stefnumörkun - stefnuskjal. Hin eiginlega sóknaráætlun er þróunaráætlun eða stefnuskjal sem felur í sér stöðumat landshlutans, framtíðarsýn og markmið ásamt þeim leiðum sem menn vilja fara að þeim. Þegar ríkið úthlutar fjármunum í tiltekin verkefni á landsbyggðinni, hyggst það taka mið af þeim áherslum og markmiðum sem hver landshluti hefur sett fram í sinni sóknaráætlun.

Eyþing vann og sendi frá sér sóknaráætlun fyrir Norðurland eystra á árinu 2015. Í henni voru ekki skilgreindar leiðir að þeim markmiðum sem fram voru sett. Því var nauðsynlegt að fara í frekari vinnu til að fullgera hana og endurbæta framsetningu markmiða og setja fram sérstaka aðgerðaáætlun til að starfa eftir. Sóknaráætlunin sem gerð var 2015 byggði á efnivið frá fjórum opnum fundum sem haldnir voru á svæðinu.

Í samningi um sóknaráætlun er kveðið á um skipan samráðsvettvangs sem gert er ráð fyrir að starfi á gildistíma áætlunarinnar og fái að fylgjast með framvindu hennar. Áður en ráðist var í framhaldsvinnu við sóknaráætlun var skipaður samráðsvettvangur með 41 fulltrúa sem ætlað er að starfa til ársloka 2019. Leitast er við að ná fram ólíkum sjónarmiðum úr landshlutanum. Óhjákvæmilega mun verða einhver endurnýjun meðal fulltrúa á tímabilinu.

Þann 28. janúar var haldinn fundur í samráðsvettvangnum til að hefja þá vinnu sem eftir var til að fullgera sóknaráætlun landshlutans. Fundinn sátu einnig fulltrúar stoðstofnana án þess að þeir væru beinir þátttakendur í samráðsvettvangnum. Á fundinum var umræðan um sóknaráætlun dýpkuð og hún þróuð frekar. Sérstaklega var rætt um hvaða leiðir væru heppilegastar til að vinna að þeim markmiðum sem sóknaráætlun skilgreinir. Björg Ágústsdóttir MPM, ráðgjafi hjá Alta var fengin til að stýra fundinum og hún vann síðan áfram með framkvæmdastjóra út frá efnivið fundarins að því að fullgera nýja útgáfu af sóknaráætlun landshlutans.

Í september sl. var ný útgáfa af sóknaráætlunar, 2. útgáfa, í heild sinni lögð fyrir stjórn og í framhaldi send stýrihópi Stjórnarráðsins. Með stefnuskjali sóknaráætlunar fylgja í viðaukum viðamikil aðgerðaáætlun og yfirlit um áhersluverkefni. Fyrir lokafrágang var aðgerðaáætlunin send fulltrúum samsráðsvettvangsins og stoðstofnana og þeim gefið færi á að koma á framfæri ábendingum. Aðgerðaáætlunin er megin vinnuskjal við framfylgd sóknaráætlunar og grunnur að forgangsröðun verkefna og samstarfi við ýmsa aðila. Meðal annars er mikilvægt að sveitarstjórnir leggist á árar við að fylgja áætluninni eftir.

Uppbyggingarsjóður. Áfram hefur verið unnið að því að bæta starfshætti og faglega umgjörð sjóðsins en mikið er í húfi að stjórnsýsla sjóðsins sé vönduð. Umsýsla sjóðsins hefur einkum verið í höndum menningarfulltrúa Eyþings og fulltrúa atvinnuþróunarfélaganna. Þá gegna fagráð og úthlutunarnefnd mikilvægu hlutverki og mikilli ábyrgð við úthlutun úr sjóðnum.

Meðal atriða sem rædd hafa verið varðandi stjórnsýslu uppbyggingarsjóðs eru hæfisreglur fyrir þá sem koma að úthlutun úr sjóðnum, hvernig hægt er að setja skýrari mörk varðandi starfsár sjóðsins og um eftirfylgni verkefna. Þá er mikilvægt að mati stjórnar að hafðir séu viðtalstímar á stöðum sem liggja fjarri skrifstofu Eyþings til að veita upplýsingar um sjóðinn. Einnig hefur stjórnin lagt áherslu á að auglýst væri á sama tíma fyrir menningarverkefni og atvinnuþróunarverkefni. Til þessa hefur því verið haldið opnu að hægt væri að auglýsa aftur síðar á árinu ef talin væri þörf á. Unnið er að því að einfalda umsókn í sjóðinn og um leið að minnka vinnu við úrvinnslu umsókna. Þá er enn til umræðu hvort einfalda megi nefndaskipan vegna sjóðsins. Af hálfu Eyþings er lögð áhersla á að haga umsýslu sjóðsins með eins hagkvæmum hætti og kostur er og innan þess ramma sem markaður er í samningi um sóknaráætlun.

Aðalfundur 2015 samþykkti samþykktir fyrir nýtt menningarráð en hlutverki þess hafði í raun lokið þegar menningarsamningur rann út í árslok 2014. Með samþykktunum fékk menningarráð hlutverk fagráðs menningar. Þessi breyting var gerð til eins árs til reynslu og kemur því til umfjöllunar hér á fundinum. Í kjölfar þessarar breytingar féll eldri skipun í fagráð menningar úr gildi og stjórnin skipaði því fulltrúa í menningarráð. Skipan þess kemur fram hér fyrr í skýrslunni.

Úthlutunarhátíð uppbyggingarsjóðs var 18. maí sl. að Breiðumýri í Þingeyjarsveit.

Áhersluverkefni. Svokölluð áhersluverkefni eiga að hafa beina skírskotun til sóknaráætlunar landshlutans eins og segir í samningi um sóknaráætlun. Um er að ræða samningsbundin verkefni. Stjórn Eyþings samþykkti í ár þrjú veigamikil áhersluverkefni sem öll falla að mikilvægum áherslum sóknaráætlunar og eiga sér augljósan stað í aðgerðaáætlun hennar. Verkefnin eru þessi:

1.  Samstarf um fjölnýtingu orkuauðlinda á Norðurlandi eystra      kr.   9.000.000

2.  Þróun og ráðgjöf í menningarmálum                                            kr. 10.600.000

3.  Svæðisskipulag fyrir ferðaþjónustu á Norðurlandi eystra                       kr.   9.000.000

Upphæðirnar miðast við yfirstandandi ár. Áætlað er að öll þessi verkefni nái til loka samningstímans, þ.e. ársloka 2019. Af þeirri upphæð sem stjórnin samþykkti til áhersluverkefna í ár er enn óráðstafað 2.516.909 kr. Stýrihópur Stjórnarráðsins hefur staðfest verkefnin.

Verkefnið Samstarf um nýtingu orkuauðlinda birtist í verkefni sem hlaut nafnið Eimur og hefur vakið heilmikla athygli enda um að ræða afar áhugavert verkefni. Fulltrúum er bent á að kynna sér verkefnið nánar á heimasíðu félagsins eimur.is og á facebook síðu þess. Stofnun félagsins átti sér talsverðan aðdraganga og hefur Eyþing komið að þeirri vinnu frá því í febrúarbyrjun. Viljayfirlýsing um verkefnið var undirrituð á málþingi sem aðilar verkefnisins stóðu fyrir 9. júní í Hofi. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir var í sumar ráðin sem framkvæmdastjóri félagsins. Félagsform og samþykktir fyrir félagið voru samþykktar nú nýverið. Að baki verkefninu standa: Eyþing, Landsvirkjun, Norðurorka og Orkuveita Húsavíkur. Verkefnið er til þriggja ára og munu bakhjarlar þess leggja verkefninu til 100 milljónir króna á því tímabili. Auk bakhjarla hafa Íslenski jarðvarmaklasinn og Íslenski ferðaklasinn aðild að verkefninu.

Verkefnið Þróun og ráðgjöf í menningarmálum var einnig meðal áhersluverkefna árið 2015 en verkefnið felur í sér starf menningarfulltrúa Eyþings sem ætlað er að vinna að áherslum í menningarmálum sem fram koma í sóknaráætlun og útfærð eru í samningi um áhersluverkefnið. Meðal annars hefur menningarfulltrúi tekið þátt í erlendum samstarfsverkefnum. Eyþing er þannig þátttakandi í verkefni (NPA-verkefni) undir heitinu Creative momentum ásamt stofnunum í Finnlandi, Svíþjóð, Norður-Írlandi og Írlandi. Megininntak verkefnisins er að þróa leiðir til að stuðla að vaxandi hlut skapandi greina í hagkerfinu.

Verkefnið Svæðisskipulag fyrir ferðaþjónustu hefur verið í undirbúningi síðustu mánuði. Ákvörðun var tekin um að tvískipta verkefninu og velja skipulagsráðgjafa í hvorn áfanga um sig. Fyrri áfanginn felst í að skilgreina og afmarka viðfangsefnið í verkefnislýsingu. Seinni áfanginn felst í hinni eiginlegu skipulagsgerð á grundvelli verekefnislýsingar. Leitað var eftir verði og upplýsingum frá tveimur aðilum í fyrri áfangann og mun stjórnin væntanlega ganga frá samningi við annan þeirra. Þess ber að geta að undir stjórn Ferðamálastofu er að hefjast vinna við gerð stefnumótandi stjórnunaráætlana fyrir ferðaþjónustu í hverjum landshluta (Destination Management Plan, DMP). Viðræður hafa farið fram milli Eyþings og Ferðamálastofu og er niðurstaðan sú að þessu verkefni séu nátengd en rekist ekki á og áhersla er á að þau verði unnin í nánu samstarfi.

Árið 2015 samþykkti stjórnin alls sex áhersluverkefni ein og skýrt var frá í fyrra. Áður hefur verið getið um verkefnið Þróun og ráðgjöf í menningarmálum en hin verkefnin eru: Norðurland – hlið inn í landið, Skapandi skólastarf, „Birding Iceland“, Grunngerð og mannauður í menningarstarfi og Matartengd ferðaþjónusta. Framlög til þessara verkefna eru á bilinu 2 – 3,5 milljónir kr. nema í flugverkefnið Norðurland – hlið inn í landið sem 15 milljónum var veitt til. Þessum verkefnum átti að vera lokið snemma þessa árs nema flugverkefninu. Aðeins verkefninu Matartengd ferðaþjónusta er hins vegar lokið. Þetta veldur nokkrum áhyggjum.

Greinargerð til stýrihóps Stjórnarráðsins.

Eyþing skilaði ítarlegri greinargerð til stýrihópsins um framkvæmd samningsins um sóknaráætlun á árinu 2015. Stýrihópurinn tók síðan saman mjög áhugaverða skýrslu þar sem dregnar eru saman upplýsingar úr einstökum landshlutum. Þessar upplýsingar eru gagnlegar til samanburðar milli landshluta.

  1. Almenningssamgöngur.

Fjölmargir fundir, einkum framan af starfsárinu, voru haldnir til að koma rekstri verkefnisins um almenningssamgöngur á vegum Eyþings í viðunandi horf og komast út úr skuldasöfnun vegna verkefnisins. Sú vinna var í samræmi við mjög afdráttarlausa ályktun aðalfundar fyrir ári síðan. Á liðnu ári bætti enn í skuldir Eyþings við Vegagerðina eins og við var búist. Þar til á þessu ári hefur vantað mikið uppá að verkefnið hafi verið rekstrarhæft eða sjálfbært. Sú breyting varð á síðasta ári að aðrir landshlutar voru þá einnig farnir að glíma við rekstrarerfiðleika.

Óhætt er að fullyrða að þessi vinna Eyþings hafi skilað árangri þó ekki hafi allt gengið eftir. Þess ber að geta að auk funda í innanríkisráðuneytinu, með vegamálastjóra og hjá Strætó bs. þá var leitað til Þórarins V. Þórarinssonar hrl. um lögfræðilega ráðgjöf og yfirferð samninga auk þess sem Guðjón Bragason lögfræðingur sambandsins hefur verið til margháttaðrar aðstoðar.

Tvær leiðir eru reknar af Eyþingi innan landshlutans: Leið 78 (milli Akureyrar og Siglufjarðar) og leið 79 (milli Akureyar, Húsavíkur og Þórshafnar). Þá eru tvær leiðir milli landshluta reknar í samstarfi með öðrum landshlutum: Leið 56 (milli Akureyrar og Egilsstaða) og leið 57 (milli Akureyrar og Reykjavíkur).

Hér verður stuttlega gerð grein fyrir helstu þáttum varðandi rekstur almenningssamgangna sem hafa verið til umfjöllunar á fyrrnefndum fundum en þeir eru uppgjör á leið 57, frumvarp um farþegaflutninga, rekstrarframlag og þróunarfé, gjaldskrármál og loks meðferð skuldar við Vegagerðina.

Uppgjör á leið 57. Sem kunnugt er þá var ágreiningur við SSV um uppgjör á leiðinni og hlutdeild Eyþings í tekjum af henni. Umrædd leið er gríðarlega mikilvæg í almenningssamgöngukerfi Eyþings og því var lögð áhersla á að hún væri gerð upp sérstaklega og að hægt væri að fylgjast með þróun hennar. Viðræður voru teknar upp sl. haust í því skyni að ljúka heildarsamkomulagi. Að þeirri vinnu kom Geir Kristinn Aðalsteinson fyrrum formaður Eyþings, ásamt framkvæmdastjóra. Gengið var frá samkomulagi í byrjun febrúar. Fyrir lá eldra samkomulag frá nóvember 2014 um uppgjör fyrir árin 2014 og 2015, en nýtt samkomulag tók einnig til áranna 2016 til ársloka 2018 og til reksturs leiðarinnar árin 2012 og 2013. Samningur Vegagerðarinnar við landshlutasamtökin nær til ársloka 2018. Tekjur Eyþings af samningnum um leið 57 eru nokkru minni en vænst var en mótast af afkomu leiðarinnar eins og Eyþing hafði lagt áherslu á.

Frumvarp til laga um farþegaflutninga á landi í atvinnuskyni. Frumvarpi sem m.a. er ætlað að tryggja einkaleyfi landshlutasamtakanna til almenningssamgangna eins og kveðið er á um í samningi Vegagerðarinnar við þau hefur verið á dagskrá með hléum um tveggja til þriggja ára skeið. Yfir sumarmánuðina þegar tekjumöguleikar eru mestir eru aðrir aðilar að aka í beinni samkeppni á sömu leiðum og strætó. Innanríkisráðherra kynnti drög að nýju frumvarpi sl. vetur. Í umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga um drögin kom fram að miklar endurbætur hefðu verið gerðar frá fyrra frumvarpi. Miklar vonir voru bundnar við að frumvarpið mundi nú ná fram að ganga. Frumvarpið var ekki lagt fram sem eru mikil vonbrigði.

Rekstrarframlag og þróunarfé. Á fjárlögum 2016 var 75 milljón kr. viðbótarframlagi veitt til almenningssamgangna á landsbyggðinni. Samkvæmt ákvörðun innanríkisráðuneytisins var upphæðinni skipt þannig að 50 mkr. var ætlað að koma til móts við uppsafnaðan rekstrarvanda þeirra landshlutasamtaka sem verst standa og 25 mkr. varið til þróunarverkefna sem hafi það að markmiði að bæta kerfið og/eða til kynningar og markaðsmála. Umsóknum um styrki var skilað til Vegagerðarinnar. Í svarbréfi Vegagerðarinnar 11. maí var tilkynnt að Eyþingi væri veittur 32 mkr. viðbótastyrkur vegna rekstrarvanda. Þá var veittur 5 mkr. styrkur til tiltekinna þróunarverkefna, þ.e. til að koma á tengingu leiðar 78 við kvöldferð Grímseyjarferju í sumaráætlun sem og að leita leiða til að tengja við ferðir Hríseyjarferju. Þá var veittur styrkur til að breyta akstri leiðar 79 þannig að ekið sé um Aðaldal og Fljótsheiði í stað Köldukinnar.

Uppgjör á eldri skuld. Áætlanir gera ráð fyrir því að með auknu rekstrarfé verði hægt að lækka skuld við Vegagerðina umtalsvert. Unnið er að því í samstarfi við Vegagerðina. Upphæðin mun ekki liggja fyrir fyrr en rekstrarárið hefur verið gert upp.

Gjaldskrárbreyting og afsláttarkjör. Í janúar samþykkti stjórnin tillögu til einföldunar og samræmingar á afsláttarkjörum á þann veg að afsláttur verði í öllum tilvikum sá sami, eða 50% af fullu gjaldi. Eftir standa afsláttarkjör fyrir „stórnotendur“ í formi persónulegra tímabilskorta. Tillagan byggði á eldri tillögu sem formenn og framkvæmdastjórar landshlutasamtakanna sameinuðust um 2013 en náði þá ekki fram að ganga. Fyrir liggur ákveðið samþykktarferli hjá landshlutasamtökunum sem samþykkt var í fyrra um afgreiðslu tillagna sem varða gjaldskrá. Ekki náðist full sátt um tillöguna á sameiginlegum fundum landshlutasamtakanna í vor og sumar og var nokkrum úr hópi framkvæmdastjóranna falið að vinna málið áfram. Það féll  í hlut framkvæmdastjóra Eyþings að kalla þá saman til fundar með fulltrúum Strætó bs. auk þess sem Guðjón Bragason sat einnig fundinn. Ræddar voru mögulegar leiðir að einföldun gjaldskrár og til að losna við miðakerfi. Niðurstaðan var að fela Strætó bs. að útfæra valmöguleika sem gætu verið í boði til að einfalda gjaldskrá, auka tekjur og skapa samstöðu. Strætó bs. lagði til þrjá möguleika sem komu til umræðu á haustfundi landshlutasamtakanna 21. september.

Samstaða varð um það á fundinum að leggja til við stjórnir landshlutasamtakanna að samþykkja tillögu sem felur í sér að samhliða fyrrnefndri einföldun á afsláttarkjörum verði tekin upp svonefnd frístundakort, sem ætlað er að mæta hækkun hjá yngri notendum. Stefnt er að því að gjaldskrárbreytingin taki gildi um áramót, en að því gefnu að app Strætó sé orðið virkt í landsbyggðarstrætó. Appið hefur verið virkt sem greiðslumáti á höfuðborgasvæðinu um nokkurra mánaða skeið og reynst afar vel. Stjórn Eyþings hefur samþykkt tillöguna fyrir sitt leyti og þess er vænst að niðurstaða liggi fyrir frá öllum landshlutasamtökunum á næstu dögum.

  1. Vaðlaheiðargöng.

Eyþing er hluthafi í Greiðri leið ehf. ásamt öllum sveitarfélögum í landshlutanum og nokkrum fyrirtækjum. Á sínum tíma samþykktu hluthafar að Eyþing fengi afhentan einnar milljón króna hlut í félaginu fyrir umsýslu, bæði við stofnun félagsins og eftir það.  Því skal haldið til haga að verkefnið um Vaðlaheiðargöng er sprottið upp úr mikilli vinnu á  vettvangi Eyþings.

Þeir aðilar sem standa að Greiðri  leið tóku að sér skuldbindingar vegna lánasamnings Vaðlaheiðarganga hf. um árlega 40 mkr. aukningu hlutafjár til og með árinu 2017. Aukning hlutafjár vegna ársins 2016 hefur staðið yfir að undanförnu. Á næsta ári verður lokaáfangi þessa samkomulags uppfylltur. Senn líður að mikilvægum áfanga í gangagreftrinum en eftir fáeinar vikur er þess að vænta að síðasta haftið í göngunum verði sprengt. Þar með verða allir stórir óvissuþættir við framkvæmdina úr sögunni, en óvissuþættir hafa óneitanlega sett mark sitt á framkvæmdina það sem af er.

Framkvæmdastjóri Eyþings situr í stjórn Vaðalheiðarganga hf. fyrir hönd hluthafa í Greiðri leið þar sem hann situr einnig í stjórn  og gegnir formennsku.

  1. Fulltrúaráð Eyþings.

Einn fundur var haldinn í fulltrúaráði og var hann 28. janúar. Á dagskrá fundarins voru almenningssamgöngur, fyrirkomulag aðalfundar Eyþings og önnur mál.

  1. Ýmsir fundir og verkefni

Eins og fjallað var um á aðalfundi á síðasta ári þá setti menntamálaráðherra á fót starfshóp um stöðu og framtíð framhaldsskólanna á norðaustursvæði. Tveir fulltrúar tilefndir af Eyþingi sátu í starfshópnum. Starfshópurinn var settur á fót eftir að kynntar voru hugmyndir í nafni menntamálaráðherra um sameiningu framhaldsskóla á Norðurlandi eystra. Þær hugmyndir sköpuðu óróa og áhyggjur og kölluðu á mikil viðbrögð. Hópurinn skilaði af sér skýrslu til ráðherra í desember sl. Í framhaldi mynduðu skólameistarar samstarfsnefnd sem vinnur að framgangi mála sem samþykkt voru í skýrslunni. Fulltrúar Eyþings sátu fund 4. nóvember sem boðað var til af verkefnisstjóra samstarfsnefndarinnar. Fundurinn var til undirbúnings ársfundar þar sem ætlunin er að marka stefnu til næsta árs um samstarf skólastofnana á svæðinu.

Á aðalfundi í fyrra var einnig greint frá því að Eyþing átti fulltrúa í starfshópi um millilandaflug til Akureyrar og Egilsstaða. Hópurinn skilaði af sér í október í fyrra. Í stuttu máli þá setti ríkisstjórnin í gang vinnu á grundvelli tillagana starfshópsins og settur var á fót svonefndur flugþróunarsjóður. Staðfest var í apríl sl. að búið væri að fjármagna sjóðinn sem áformað er að starfrækja til ársins 2019. Flugfélög sem tilbúin eru til að hefja flug á þessa flugvelli geta sótt um stuðning úr sjóðnum.

Framkvæmdastjóri hefur setið stjórnarfundi í Norðurslóðaneti Íslands sem áheyrnarfulltrúi. Þá hefur framkvæmdastjóri sótt ýmsa fundi og viðburði fyrir samtökin auk þeirra sem tengjast einstökum málum sem getið er hér í skýrslunni.

Fulltrúar Eyþings hafa mætt á tvo samráðsfundi í innanríkisráðuneytinu um verkefnið „Ísland ljóstengt“. Á fundunum var fjallað um framkvæmd ljósleiðaravæðingar og fyrirkomulag við úthlutun styrkja. Fyrir liggur að landshlutasamtökin munu áfram verða kölluð til samráðs. Ein af megin áherslum landshlutasamtakanna hefur verið að finna byggðasjónarmiðum farveg við úthlutun styrkja þannig að byggðarlög í varnarbaráttu sitji ekki sjálfkrafa eftir.

Haldin var ráðstefna um samstarf sveitarfélaga á Norðurlandi um úrgangsmál. Ráðstefnan var haldin í byrjun maí á vegum Eyþings og SSNV. Hér á fundinum verður staðan í samstarfi sveitarfélaganna kynnt.

Framkvæmastjóri og eftir atvikum formaður og einstaka stjórnarmenn sátu ýmsar ráðstefnur sem haldnar voru, s.s. ráðstefnuna Sveitarstjórnarstigið á 21. öldinni sem fjallaði um norræn umbótaverkefni og haldin var í Reykjavík fyrir liðlega ári síðan, málþing Háskólans á Akureyri um sveitarstjórnarstigið í apríl, ársfund Byggaðstofnunar í apríl, Byggðaráðstefnuna 2016 sem haldin var á Breiðdalsvík í september og samgönguþing Markaðsstofu Norðurlands.

Eyþing styrkti ráðstefnu sem haldin var í HA í lok maí  um “vandamálavæðingu eða starfsþróun í skólum“. Þá styrkti Eyþing eitt af samgönguþingum Markaðsstofu Norðurlands.

  1. Aðsend þingmál.

Á dagskrá stjórnar komu 31 þingmál til umsagnar. Haft var samráð við Samband ísl. sveitarfélaga í mörgum tilvikum. Þá tók stjórnin nokkur mál til ítarlegrar umfjöllunar. Meðal mála sem stjórnin veitti umsögn um var frumvarp til laga um námslán og námsstyrki, tillaga til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun 2015 – 2018, frumvarp til laga um sveitarstjórnarlög (uppbygging ferðamannastaða) og frumvarp til laga um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur og verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu (sameining stofnana). Þá gaf stjórnin umsögn um drög að rammaáætlun III. Umsagnirnar í heild sinni er að finna í fundargerðum stjórnar.

Fulltrúar Eyþings voru kallaðir til funda við nefndir Alþingis varðandi samgönguáætlun, frumvarpið um námslán og námsstyrki og einnig um frumvarpið um Náttúrufræðistofnun o.fl. Loks má nefna að formaður og framkvæmdastjóri fóru á funda fjárlaganefndar vegna fjárveitinga til almenningssamgangna og sóknaráætlunar.

  1. Samgönguáætlun.

Getið er um umfjöllun um samgönguáætlun hér á undan. Rétt er að greina nánar frá aðkomu Eyþings að fjögurra ára samgönguáætlun 2015 – 2018 sem samþykkt var nú í október rétt fyrir þinglok. Samgöngumál hafa alla tíð verið eitt af veigameiri málum á borði Eyþings og samgönguáætlanir jafnan verið til ítarlegrar meðferðar. Stjórnin tók um það ákvörðun um vera með skýra forgangsröðun í athugasemdum sínum við tillögu að samgönguáætlun og leggja þunga áherslu á tvö mál í stað þess að dreifa umræðunni. Annars vegar á að fé yrði veitt til áframhaldandi framkvæmda við Dettifossveg og hins vegar til áframhalds við gerð flughlaðs á Akureyrarflugvelli og þannig hægt að nýta allt það efni sem kostur væri á að nýta úr Vaðlaheiðargöngum. Þessi skýra forgangsröðun vakti athygli nefndarmanna í samgöngunefnd, en því var einnig haldið á lofti að bæði þessi verkefni væru meðal áhersluatriða sóknaráætlunar Norðurlands eystra.

Bæði þessi verkefni fengu brautargengi við samþykkt samgönguáætlunar. Til að ljúka gerð Dettifossvegar eru áætlaðar 1.600 milljónir kr. sem skiptist jafnt milli áranna 2017 og 2018. Í gerð flughlaðs eru áætlaðar 90 milljónir árið 2017 og 70 milljónir 2018. Framundan er verk að vinna við að tryggja fjármagn til þessara framkvæmda.

 

Samstarf við þingmenn

Stjórn og framkvæmdastjóri hafa að venju átt margháttað samstarf við þingmenn Norðausturkjördæmis um ýmis málefni landshlutans. Árlegur samráðsfundur var haldinn  9. febrúar í Mývatnssveit sameiginlega með stjórn og framkvæmdastjóra SSA. Áhersla var á mál sem snerta báða landshluta, s.s. almenningsamgöngur, ljósleiðaravæðingu, heilbrigðismál og þá sérstaklega geðheilbrigðismál, millilandaflug, háskólaþjónustu á landsbyggðinni og uppbyggingu innviða vegna ferðaþjónustu.  Þá ber þess að geta að fulltrúar þingmanna fóru með formanni og framkvæmdastjóra á tvo fundi síðast liðið haust í innanríkisráðuneytinu um þá erfiðleika sem Eyþing og fleiri landshlutar glíma við í rekstri almenningssamgangna. Síðari fundurinn var með innanríkisráðherra.

 

Samstarf við ráðuneyti sveitarstjórnarmála, Samband ísl. sveitarfélaga og við önnur landshlutasamtök

Margháttað samstarf var við innanríkisráðuneytið, Samband ísl. sveitarfélaga, önnur landshlutasamtök sveitarfélaga á síðasta starfsári og sama á við um atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, stýrihóp Stjórnarráðsins og Byggðastofnun. Þau samskipti hafa m.a. tengst vinnu að sóknaráætlunum landshluta, undirbúningi nýrrar byggðaáætlunar og almenningssamgöngum. 

Að venju hafa verið margháttuð samskipti við Samband ísl. sveitarfélaga um ýmis málefni. Formaður sat landsþing í apríl sl. og formaður og framkvæmdastjóri sátu  nýliðna fjármálaráðstefnu. Árlega er haldinn a.m.k. einn samráðsfundur formanna og framkvæmdastjóra með stjórn sambandsins og sviðsstjórum þess. Þá hafa talsverð samskipti verið við Guðjón Bragason, einkum um mál tengd almenningssamgöngum og ýmsum þingmálum. Þá ber þess að geta að framkvæmdastjóri sambandsins situr að jafnaði fundi formanna og framkvæmdastjóra landshlutasamtakanna þannig að mjög góð tengsl hafa skapast milli þessara aðila.

Samband sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) hefur leitt samstarf formanna og framkvæmdastjóra landshlutasamtakanna undanfarna mánuði, eða þar til að loknum nýliðnum haustfundi að Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) tóku við. Haldnir hafa verið nokkrir samráðsfundir, bæði óformlegir og formlegir. Vorfundur var haldinn í apríl og sat formaður fundinn, sumarfundur var haldinn á Fljótsdalshéraði 10. og 11. júní og sat framkvæmdastjóri fundinn og loks var haustfundur haldinn í september þar sem formaður og framkvæmdastjóri voru mættir. Þau mál sem hæst hafa borið eru rekstrarumhverfi almenningssamgangna og gjaldskrármál, framkvæmd og fjármögnun sóknaráætlunar, byggðaáætlun 2017 – 2023, ljósleiðaravæðing, stjórnsýsluleg staða landshlutasamtakanna, efling sveitarstjórnarstigsins, heilbrigðisþjónusta í dreifðum byggðum og starfsemi Stjórnstöðvar ferðamála.

Í tengslum við gerð fjárlaga fyrir árið 2016 sendu landshlutasamtökin frá sér sameiginlega áskorun með greinargerð til ráðherra og þingmanna um aukið framlag til fimm málaflokka, þ.e. þjónustu við fatlað fólk, samninga um sóknaráætlun, samgöngumála, almenningssamgangna og ljósleiðaravæðingar. Þá sendu landshlutasamtökin sameiginlega áskorun í júní sl. til þingmanna og yfirvalda um að tryggja aukna fjármuni til verkefnisins „Ísland ljóstengt“ sem litið er á sem mikilvægasta hagsmunamál landsbyggðanna.

Formenn landshlutasamtakanna, fjórir í senn, skiptast á að vera aðalfulltrúar á sveitarstjórnarvettvangi EFTA tvö ár í senn. Formaður Eyþings mun taka sæti nú strax að loknum aðalfundi en fundur hefur verið boðaður 14. og 15. nóvember í Brussel. Að jafnaði hafa fundir verið haldnir tvisvar á ári.

 

Starfsemi Eyþings og stoðstofnana

Eyþing hefur átt margvíslegt og gott samstarf við svokallaðar stoðstofnanir sveitarfélaga, þ.e. atvinnuþróunarfélögin tvö og Markaðsstofu Norðurlands. Talsverð umræða hefur átt sér stað um samstarf sveitarfélaga og þá einkum um samstarf stoðstofnana sveitarfélaga. Rætt hefur verið um að verkefni þeirra skarist um of og að dæmi séu um að þau séu í samkeppni um verkefni, ekki síst í ferðaþjónustu. Í kjölfar þessarar umræðu ákvað stjórn Eyþings að óska eftir að fá formenn og framkvæmdastjóra þessara stofnana til fundar við sig.

Þann 31. maí mættu fulltrúar hverrar stofnunar fyrir sig í viðtöl við stjórn, þ.e. formaður og framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands og AFE, framkvæmdastjóri AÞ en formaður félagsins situr í stjórn Eyþings, menningarfulltrúi Eyþings og framkvæmdastjóri Eyþings. Rætt var um verkefni stofnananna, skaranir verkefna, aukið samstarf og/eða sameiningu stofnana. Umræðan hélt áfram á fundum stjórnar í kjölfar viðræðnanna. Niðurstaðan varð að ekki væru forsendur til frekari viðræðna af hálfu Eyþings og ljóst væri að sameining stoðstofnana væri ekki á dagskrá.

Frekari vinna stjórnar beindist að skipulagi og innra starfi Eyþings. Gagnaöflun og úttekt hefur einkum verið í höndum Karls Frímannssonar. Framkvæmdastjóri hefur vikið af fundi þegar umræða hefur verið um starfsemi Eyþings og stoðstofnana. Stjórnin hefur samþykkt tillögur sem miða að því að bæta stjórnsýslu og lagfæra stjórnskipulag Eyþings.

Stjórn Eyþings væntir þess að áfram verði aukið og gott samstarf við stoðstofnanir. Markaðsstofan og Eyþing hafa deilt húsnæði í bráðum þrjú ár og nú nýverið flutti AFE í sama hús. Farsælt samstarf hefur þróast milli Eyþings og Markaðsstofunnar. Mikilvægt er að Eyþing og atvinnuþróunarfélögin skilgreini hlutverk sín eins skýrt og kostur er. Í grófum dráttum hefur verið litið svo á að landshlutasamtökin séu pólitískur samráðsvettvangur sveitarfélaga og einbeiti sér að samfélagslegum málum og uppbyggingu innviða en atvinnuþróunarfélögin einbeiti sér að atvinnulífinu. Veigamikil ákvæði um hlutverk landshlutasamtakanna er síðan að finna í lögum um byggðaáætlun og sóknaráætlanir nr. 69/2015 auk sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, 97. grein.

 

Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra (HNE)

Að venju verður gerð grein fyrir störfum heilbrigðisnefndar og starfsemi eftirlitsins hér á fundinum eins og kveðið er á um í samstarfssamningi sveitarfélaganna sem síðast var endurskoðaður árið 2010.

Stjórn Eyþings fjallaði nokkuð um málefni heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga. Framkvæmdastjóri HNE kom til fundar við stjórnina og gerði m.a. grein fyrir umsögnum um drög að frumvarpi um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998. Þá fjallaði hann um hugmyndir sem settar hafa verið fram um stækkun og/eða sameiningu heilbrigðiseftirlitssvæða. Að mati stjórnarinnar ber að leggja áherslu á mikilvægi nærþjónustunnar og á þjónustuþátt eftirlitsins sem hún telur HNE sinna með faglegum og hagkvæmum hætti.

 

Aðalfundur Eyþings 2016

Kjörnir fulltrúar á aðalfundi Eyþings eru 40 talsins úr 13 sveitarfélögum með alls  29.351 íbúa m.v. 1. desember 2015 (voru 29.274 árið 2014). Sveitarfélögin eru sjö í Eyjafirði og sex austan Vaðlaheiðar.

Yfirbragð aðalfundar nú er með nokkuð öðru sniði en verið hefur. Ákveðið var að fækka framsöguerindum og gefa þess í stað meira tóm til málefnavinnu og samræðna milli þingfulltrúa. Jafnframt var stigið það skref að óska eftir samtali við þingmenn kjördæmisins í sérstökum dagskrárlið í lok aðalfundarsins þegar áherslur fundarins liggja fyrir.

Sem kunugt er þá hafði verið boðað til aðalfundar um mánaðamót september og október sl. Í ljós kom að vegna ýmissa ytri áhrifaþátta, m.a. Alþingiskosninga 29. október, þá yrði þátttaka á fundinum dræm.  Ákvörðun var því tekin um að fresta fundinum þar til nú.

Stjórn, framkvæmdastjóri og aðrir starfsmenn Eyþings þakka sveitarstjórnarmönnum og starfsmönnum sveitarfélaga á starfssvæði sínu gott samstarf á liðnu starfsári og væntir áfram góðs samstarfs.

 

Akureyri 26. október 2016

Stjórn og framkvæmdastjóri Eyþings.

Getum við bætt síðuna?