Fara í efni

Fundargerð - Skýrsla stjórnar 2015

10.10.2015

 

 

AÐALFUNDUR EYÞINGS 9. og 10. október 2015

Skýrsla stjórnar starfsárið 2014 - 2015.

 

 

Aðalfundur Eyþings var haldinn að Narfastöðum í Reykjadal dagana 3. og 4. október 2014. Í kjölfar sveitarstjórnarkosninga varð gríðarleg endurnýjun í hópi aðalfundarfulltrúa, en 75% fulltrúa komu inn nýir. Í stjórn voru kosin: Logi Már Einarsson formaður, Akureyrarbæ, Arnór Benónýsson varaformaður,Þingeyjarsveit, Eva Hrund Einarsdóttir, Akureyrarbæ, Hilma Steinarsdóttir, Langanesbyggð, Jón Stefánsson, Eyjafjarðarsveit,  Sif Jóhannesdóttir, Norðurþingi og Sigurður Valur Ásbjarnarson, Fjallabyggð. Sigurður lét af störfum sem bæjarstjóri í Fjallabyggð snemma á árinu og hefur varamaður hans Bjarni Th. Bjarnason bæjarstjóri Dalvíkurbyggðar setið stjórnarfundi síðan.

Stjórnin hefur á starfsárinu haldið 14 bókaða stjórnarfundi og tekið til umræðu og afgreiðslu liðlega 180 mál.  Starfsemi Eyþings hefur tekið umfangsmiklum breytingum síðustu ár og verkefnin orðið umfangsmeiri. Hér fer á eftir samantekt um helstu atriði í starfsemi Eyþings á liðnu starfsári. Vakin er athygli á að í fundargerðum stjórnar og  fundargerðum fulltrúaráðs er að öllu jöfnu gerð ítarleg grein fyrir þeim málum sem eru til umfjöllunar.

 

Nefndir, ráð og starfshópar

Stjórn Eyþings skipar eða tilnefnir fulltrúa í nokkrar nefndir. Skipunartími þeirra er all misjafn.

Skólanefnd Framhaldsskólans á Laugum. Af Eyþingi voru tilnefnd sem aðalmenn Dagbjört Jónsdóttir Þingeyjarsveit og Guðrún María Valgeirsdóttir Mývatnssveit og til vara Bjarni Höskuldsson Þingeyjarsveit og Kolbrún Ívarsdóttir Mývatnssveit (241. fundur).

Fjallskila- og markanefnd í Eyjafirði. Í nefndinni sitja  Ólafur G. Vagnsson ráðunautur sem er formaður, Guðmundur Skúlason Hörgársveit og Þórarinn Ingi Pétursson Grýtubakkahreppi (226. fundur stjórnar).

Minjaráð Norðurlands eystra. Af Eyþingi voru tilnefnd sem aðalmenn: Steinunn María Sveinsdóttir, bæjarfulltrúi Fjallabyggð og Sif Jóhannesdóttir, bæjarfulltrúi Norðurþingi. Til vara: Logi Már Einarsson, bæjarfulltrúi Akureyri og Daníel Pétur Hansen, sveitarstjórnarfulltrúi Svalbarðshreppi. (260. fundur).

Norðurslóðanet Íslands. Framkvæmdastjóri á seturétt sem áheyrnarfulltrúi á stjórnarfundum í samræmi við stofnskrá. Rétt er að minna á að stofnun Norðurslóðanetsins er fyrsta verkefnið sem ráðist var í á grunni sóknaráætlunar á Norðurlandi eystra árið 2012 en í verkefnið voru samþykktar 67 mkr. sem deildust á fjögur ár.

Ráðgjafarnefnd heilbrigðisumdæmis Norðurlands. Af Eyþingi voru tilnefnd Sigríður Huld Jónsdóttir, bæjarfulltrúi á Akureyri sem aðalmaður og Þorsteinn Ægir Egilsson, sveitarstjórnarmaður í Langanesbyggð sem varamaður. (261. fundur)

 

Fagráð menningar fyrir Uppbyggingarsjóð (3 fulltrúar). Eftirtaldir voru skipaðir: Arnór Benónýsson formaður, Þingeyjarsveit, Sóley Björk Stefánsdóttir, Akureyri og Kjartan Ólafsson, Akureyri (265. fundur).

Fagráð atvinnumála og nýsköpunar fyrir Uppbyggingarsjóð (5 fulltrúar). Eftirtaldir voru skipaðir: Sigurður Steingrímsson formaður, Akureyri, Heiðrún Óladóttir, Þórshöfn, Snæbjörn Sigurðarson, Húsavík, Sigríður María Róbertsdóttir, Siglufirði og Ögmundur Knútsson, Akureyri (265. fundur).

Úthlutunarnefnd Uppbyggingarsjóðs (5 fulltrúar). Formenn fagráða taka sæti í úthlutunarnefnd skv. samþykktu stjórnskipulagi Uppbyggingarsjóðs, þeir Arnór Benónýsson og Sigurður Steingrímsson. Auk þeirra skipa eftirtaldir úthlutunarnefnd: Evu Hrund Einarsdóttir formaður, Akureyri, Birna Björnsdóttir, Raufarhöfn og Hulda Sif Hermannsdóttir (265. og 267. fundur).

Vinnumarkaðsráð Norðurlands eystra. Í ráðið voru tilnefnd: Linda Margrét Sigurðardóttir, Eyjafjarðarsveit og Gunnlaugur Stefánsson, Húsavík (267. fundur). Samkvæmt nýlegum upplýsingum hefur Velferðarráðuneytið enn ekki skipað í nefndina.

Starfshópur um millilandaflug. Eyþing og Markaðsstofa Norðurlands tilnefndu sameiginlega fulltrúa, þau Arnheiði Jóhannsdóttur, framkvæmdastjóra Markaðsstofu Norðurlands og til vara Þorvald Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóra Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar (267. fundur). Ákveðið var síðan að þau tækju bæði sæti í nefndinni sem aðalmenn.

Vinnuhópur um stöðu og framtíð framhaldsskólanna á norðaustursvæði. Eftirtaldir voru tilnefndir: Laufey Petrea Magnúsdóttir, Akureyri og Halldór Valdimarsson, Húsavík. (270. fundur).

Verkefnisstjórnir í verkefninu „Brothættar byggðir“. Eftirtaldir voru skipaðir: Pétur Þór Jónasson framkvæmastjóri Eyþings í verkefnisstjórnir Raufarhafnar og Kópaskers og Gunnar Gíslason bæjarfulltrúi Akureyrií verkefnisstjórnir Grímseyjar og Hríseyjar. (270. fundur).

 

Helstu þættir í starfi Eyþings/Ályktanir aðalfundar

Ályktanir síðasta aðalfundar voru að venju sendar þeim aðilum sem þær varða og eftir atvikum fylgt frekar eftir t.d. við þingmenn kjördæmisins. Hér verður gerð grein fyrir helstu þáttum í starfi Eyþings og verkefnum sem unnið hefur verið að frá síðasta aðalfundi án þess að um sé að ræða tæmandi lista.

  1. Sóknaráætlun Norðurlands eystra og ný skipan byggðaþróunarverkefna.

Mikil breyting hefur orðið á stöðu og hlutverki landshlutasamtaka sveitarfélaga að undanförnu. Í sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011, 97. grein, kemur fram að „ráðuneyti og opinberar stofnanir skulu ávalt leita umsagnar hlutaðeigandi landshlutasamtaka um stefnumótun eða ákvarðanir sem varða viðkomandi landsvæði sérstaklega“.  Jafnframt að „landshlutasamtök geta með samningum eða samkvæmt heimildum í sérlögum tekið að sér verkefni eða aðra starfsemi sem tengist hlutverki þeirra skv. 1. mgr., svo sem verkefni tengd byggðaþróun eða öðrum sameiginlegum hagsmunum sveitarfélaga.“ Á þessu ákvæði byggir m.a. verkefnið um almenningssamgöngur og fram til þessa verkefnið um sóknaráætlun. Mikilvægt er að vekja athygli á því að með lögum um byggðaáætlun og sóknaráætlanir nr. 69/2015, er hlutverk landshlutasamtaka í byggðamálum bundið í lög. Þar segir m.a. „Landshlutasamtök sveitarfélaga skulu vinna sóknaráætlanir hver á sínu starfssvæði og bera ábyrgð á framkvæmd þeirra. Stýrihópur Stjórnarráðsins styður landshlutasamtök sveitarfélaga við gerð sóknaráætlana og samninga milli landshlutasamtaka sveitarfélaga og ráðuneyta.“

Þann 11. febrúar sl. var undirritaður samningur milli Eyþings og ríkisins um sóknaráætlun Norðurlands eystra 2015 – 2019. Líta má á samninginn sem stórt skref í nýju verklagi sem hefur verið í þróun undanfarin ár, eða allt frá árinu 2010. Fjöldi funda var síðastliðið haust og vetur í aðdraganda samningsins bæði um innihald hans og skiptingu fjár milli landshluta. Í grófum dráttum má segja að samningurinn taki til þriggja meginþátta sem eru: hin eiginlega sóknaráætlun sem er stefnuskjal fyrir landshlutann, uppbyggingarsjóður landshlutans og áhersluverkefni. Heildarupphæð samningsins nemur 112.377.917 kr. á ári. Þar af koma 10,6 mkr. frá sveitarfélögunum sem er sama upphæð og samþykkt hafði verið til menningarsamnings. Að auki eru 15 milljónir kr. sem færðir voru úr eldri samningi um sóknaráætlun.

Áður en lengra er haldið er rétt að víkja að skiptingu fjár, annars vegar af hálfu ríkisins og hins vegar af hálfu stjórnar Eyþings. Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum 27. janúar reiknireglu sem byggir á sex breytum til að skipta fjármagni ríkisins milli landshluta. Horft var til þeirra sjónarmiða að hún endurspeglaði félags- og hagfræðilega stöðu landshlutanna ásamt því að frávik frá upphæðum síðasta tímabils yrðu viðráðanleg fyrir viðkomandi landshluta. Almennt ríkir sátt um þessa reiknireglu sem felur í sér gegnsæja skiptingu fjár. Stjórn Eyþings gerði þó verulegar athugasemdir varðandi skilgreiningu á svokölluðum fjarlægðarfasta sem er ein af breytunum.

Skipting þess fjár sem veitt er til samninganna er á ábyrgð stjórna landshlutasamtakanna. Stjórn Eyþings samþykkti á fundi sínum 16. júní eftirfarandi skiptingu á 112.377.917 kr. upphæð sóknaráætlunar:

Atvinnumál og nýsköpun, styrkir                  42.750.000 kr.

Menningarmál, styrkir                                               31.875.000 kr.

Áhersluverkefni                                             22.352.917 kr.

Urðarbrunnur, bundin fjárveiting                    6.400.000 kr.

Umsýsla samnings                                            9.000.000 kr.

Ákveðið var að styrkupphæð til atvinnumála skiptist jafnt milli svæða atvinnuþróunarfélaganna tveggja. Gerð er grein fyrir áhersluverkefnum hér á eftir. Í samningnum er heimild til að nota allt að 9 mkr. til að kosta umsýslu samningsins. Stjórnin samþykkti að skipta þeirri upphæð með eftirfarandi hætti:

Umsýsla vegna styrkja í atvinnumál (atvinnuþróunarfélögin) 4.750.000 kr.

Umsýsla vegna menningarstyrkja (menningarfulltrúi)            2.125.000 kr.

Umsýsla vegna sóknaráætlunarsamnings (Eyþing)                 2.125.000 kr.  

Hin eiginlega sóknaráætlun er þróunaráætlun eða stefnuskjal sem felur í sér stöðumat landshlutans, framtíðarsýn og markmið ásamt þeim leiðum sem menn vilja fara að þeim. Í samningnum er kveðið á um að áætlunin skuli að lágmarki marka stefnu landshlutans í eftirfarandi málaflokkum:

•          Menningarmálum.

•          Nýsköpun og atvinnuþróun.

•          Uppbyggingu mannauðs.

•          Lýðfræðilegri þróun svæðisins.

Í samningnum um sóknaráætlun kemur fram að landshlutasamtökin skipi samráðsvettvang þar sem tryggð er sem breiðust aðkoma ólíkra aðila og gætt að búsetu-aldurs- og kynjasjónarmiðum. Samráðsvettvangnum er ætlað að hafa beina aðkomu að gerð sóknaráætlunar landshlutans og vera upplýstur um framgang hennar. Ákveðið var að fara þá leið að halda fjóra svæðisfundi í landshlutanum. Fundirnir voru vandlega auglýstir og íbúar sérstaklega hvattir til þátttöku. Fundir voru haldnir á Raufarhöfn, Húsavík, Akureyri og Ólafsfirði. Umræður voru líflegar og mikill efniviður kom frá fundunum sem unnið var úr. Athygli vakti hve megináherslur fundanna voru skýrar og áþekkar milli fundarstaða og þá um leið milli svæða. Með afgerandi hætti kom fram að lang stærsta hagsmunamál landshlutans í heild væri að koma á millilandaflugi um Akureyrarflugvöll.

Á næstunni er áformað að kalla til sérstaks samráðsfundar í samræmi við samninginn og lögin um sóknaráætlun og verður unnið áfram út frá niðurstöðum svæðafundanna fjögurra. Áhersla verður á að þróa áætlunina frekar og ræða leiðir að þeim markmiðum sem sett voru. Framkvæmdastjóra hefur verið falið að gera tillögu að skipan samráðsvettvangs.

Þess ber að geta að í ár var uppgjöri lokið vegna þeirra þriggja verkefna sem unnið var að á grundvelli sóknaráætlunar 2014. Verkefnin voru: Atvinnulíf og menntun – ný nálgun í símenntun, sjálfbær orkuframleiðsla í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum og sjónvarpstengt kynningarefni. Ástæða er til að kynna afrakstur þessara verkefna þegar tækifæri gefst líkt og gert var við verkefnin úr sóknaráætlun 2013.

Í kjölfar undirritunar samningsins var áhersla lögð á að koma á fót Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra og skapa honum umgjörð í samræmi við samninginn en sjóðurinn kom í stað fjármagns til vaxtarsamninga og menningarsamnings. Gengið var í að setja niður stjórnskipulag sjóðsins, semja verklagsreglur og forma starfshætti og faglega umgjörð hans. Fullyrða má að þar hafi verið vandað til verka. Að þeirri vinnu komu menningarfulltrúi og fulltrúar atvinnuþróunarfélaganna, eða m.ö.o. þeir sem fengnir voru til að umsýsla sjóðinn. Stjórnin skipaði í úthlutunarnefnd og fagráð menningar og fagráð atvinnuþróunar og nýsköpunar eins og getið er um fyrr. Úthlutunarhátíð vegna fyrstu úthlutunar úr sjóðnum var 26. júní sl. í Ketilhúsinu á Akureyri. Eðlilega komu í ljós einhverjir vankantar á nýju verklagi eins og vænta má en það eru úrlausnarefni sem væntanlega tekst að ráða bót á.

Svokölluð áhersluverkefni byggja á sóknaráætlun landshlutans og eru hluti hennar. Stjórn Eyþings samþykkti á fundi sínum 14. september sl. sex mjög áhugaverð áhersluverkefni en þau eru:

1.  Norðurland – hlið inn í landið (flutt úr eldri samningi)   kr. 15.000.000

2.  Þróun og ráðgjöf í menningarmálum                                kr. 10.600.000

3.  Skapandi skólastarf                                                          kr.   3.500.000

4.  „Birding Iceland“                                                             kr.   3.253.000

5.  Grunngerð og mannauður í menningarstarfi                    kr.   3.000.000

6.  Matartengd ferðaþjónusta                                                kr.   2.000.000

Í flestum tilvikum lýkur þessum verkefnum á næsta ári. Undantekning er að verkefninu þróun og ráðgjöf í menningarmálum, sem felur í sér starf menningarfulltrúa, er ætlað að standa út samningstímann.

Stýrihópur Stjórnarráðsins hefur staðfest bæði sóknaráætlun landshlutans og áhersluverkefnin eins og samningurinn kveður á um.

Stýrihópur Stjórnarráðsins hefur að undanförnu haldið fundi með öllum landshlutasamtökum og þar með talið umsjónaraðilum uppbyggingarsjóða til að fara yfir reynsluna sem komin er af samningunum um sóknaráætlun. Samkvæmt upplýsingum frá stýrihópnum virðist almennt mjög góð sátt um verkefnið í heild hjá landshlutasamtökum og á það bæði við um gerð sóknaráætlunar og um uppbyggingarsjóðina.  Þess ber þó að geta að nokkuð skiptar skoðanir komu fram hjá umsjónaraðilum sjóðsins í okkar landshluta. Unnið verður úr þeim ábendingum og tillögum sem komu fram.

  1. Almenningssamgöngur.

Sem kunnugt er hefur rekstur verkefnisins um almenningssamgöngur á vegum Eyþings reynst afar erfiður og þrátt fyrir að ráðist hafi verið í ítrustu hagræðingu vantar enn verulega uppá að verkefnið sé rekstrarhæft eða sjálfbært. Um þessa erfiðleika hefur verið fjallað á fjölmörgum fundum allt frá því í apríl 2013 með fulltrúum Vegagerðarinnar og með innanríkisráðherra og/eða fulltrúum ráðuneytisins. Þess ber að geta að samstarf við Vegagerðina um verkefnið hefur alla tíð verið mjög gott. Há skuld hvílir á Eyþingi vegna verkefnisins og enn mun bætast við á þessu ári. Þessi staða veldur stjórn Eyþings og sveitarstjórnarmönnum á Norðurlandi eystra þungum áhyggjum.

Tvær leiðir eru reknar af Eyþingi innan landshlutans: Leið 78 (milli Akureyrar og Siglufjarðar) og leið 79 (milli Akureyar, Húsavíkur og Þórshafnar). Þá eru tvær leiðir milli landshluta reknar í samstarfi með öðrum landshlutum: Leið 56 (milli Akureyrar og Egilsstaða) og leið 57 (milli Akureyrar og Reykjavíkur).

Þau málefni tengd rekstri almenningssamgangna sem einkum hafa verið til umfjöllunar á fyrrnefndum fundum eru grunnfjárveitingar til verkefnisins, skipting þróunarstyrks, endurgreiðsla olíugjalds, frumvarp um fólksflutninga, gjaldskrármál, uppgjörsmál vegna leiðar 57 og loks meðferð skulda og þá sér í lagi hárrar skuldar við Vegagerðina. Fátt hefur enn gengið eftir af þeim úrbótum sem rætt hefur verið um til að bæta rekstrarumhverfi almenningssamgangna á vegum Eyþings og annarra landshluta. Hvað Eyþing varðar þá verður að gera verkefnið sjálfbært og gera samkomulag varðandi eldri skuld. Það verður einfaldlega ekki gert nema með aðkomu innanríkisráðuneytisins.

Fyrrum stjórnarmenn sem unnu með framkvæmdastjóra að verkefninu, þeir Geir Kristinn Aðalsteinsson og Sigurður Valur Ásbjarnarson, buðu fram krafta sína til áframhaldandi vinnu. Stjórnin ákvað að nýta sér reynslu þeirra. Geir hefur m.a. unnið áfram að uppgjörsmálum varðandi leið 57 (Akureyri- Reykjavík).

Hér verður ekki gerð grein fyrir öllum þeim fundum sem hafa verið um verkefnið en þó getið um fund sem haldinn var með nýjum innanríkisráðherra þann 4. mars sl. Samfella rofnaði í málinu við ráðherraskipti og því nauðsynlegt að upplýsa nýjan ráðherra. Fundur hefur verið ákveðinn með ráðherra þann 16. október nk. Þar mun m.a. verða rætt bréf sem stjórn Eyþings sendi 30. mars sl. til Vegagerðarinnar með afriti á innanríkisráðherra, þar sem óskað var eftir endurskoðun á samningi við Vegagerðina. Engin viðbrögð bárust við því bréfi. Stjórn Eyþings átti sérstakan fund með þingmönnum í apríl og aftur var rætt um almenningssamgöngur í viðtalstíma þingmanna í lok september. Ákveðið var að tveir úr hópi þingmanna kjördæmisins fari með fulltrúum stjórnar á fund ráðherra. Þá skal getið um sameiginlegan fund landshlutasamtaka, Sambands ísl. sveitarfélaga og innanríkisráðuneytisins 22. September sl. þar sem kom fram að vaxandi erfiðleikar steðja nú að öðrum landshlutasamtökum m.a. vegna samkeppnisaksturs yfir sumarmánuðina.

Til að draga umræðuna saman þá beinist umræðan einkum að eftirtöldum þáttum:

Frumvarp til laga um fólksflutninga. Frumvarpinu er m.a. ætlað að tryggja einkaleyfi landshlutasamtakanna til almenningssamgangna eins og kveðið er á um í samningi Vegagerðarinnar við þau. Yfir sumarmánuðina þegar tekjumöguleikar eru mestir eru aðrir aðilar að aka í beinni samkeppni á sömu leiðum og strætó. Frumvarpið var lagt fram á síðasta þingi en ekki náðist að afgreiða það. Boðað hefur verið að það verði lagt aftur fram á komandi vorþingi.

Þróunarstyrkurinn. Boðaðar hafa verið talsverðar breytingar á skiptingu þróunarstyrks sem gætu í besta falli komið rekstri Eyþings á núllpunkt. Sá galli er þó á að heildarupphæðin sem er til ráðstöfunar hefur farið lækkandi og ekki ólíklegt að aðrir komist þá í rekstrarvanda í stað Eyþings.

Endurgreiðsla olíugjalds. Nauðsynlegt er að fá um það niðurstöðu hvort hægt verður að endurvekja endurgreiðslu á hluta olíugjalds. Fyrri innanríkisráðherra vann að því máli en við brotthvarf úr ráðherrastóli dagaði málið uppi.

Uppgjör á leið 57. Ágreiningur hefur verið við SSV um uppgjör á leiðinni og hlutdeild Eyþings í tekjum af henni. Samkomulag náðist í sérstakri sáttanefnd síðla árs 2014 um að Eyþing héldi eftir 12 mkr. af framlagi Vegagerðarinnar fyrir árin 2014 og 2015. Áformað var að leita liðsinnis innanríkisráðuneytis um lausn fyrir tímabilið frá upphafi aksturs 1. september 2012 til ársloka 2013. Jafnframt að leita varanlegrar lausnar frá ársbyrjun 2016. Lítt hefur þó orðið ágengt en viðræður þó að hefjast að nýju. Stjórn Eyþings hefur alla tíð lagt á það þunga áherslu að rekstri leiðar 57 sé haldið aðskildum frá öðrum leiðum. Umrædd leið er gríðarlega mikilvæg í almenningssamgöngukerfi Eyþings og því brýnt að hún sé gerð upp sérstaklega og að hægt sé að fylgjast með þróun hennar. Ítrekað hefur komið fram að ekkert sé þessu tæknilega til fyrirstöðu.

Uppgjör á eldri skuld. Af hálfu Eyþings er lögð á það þung áhersla að tekið verði á uppsöfnuðum skuldum Eyþings. Eðlilegt er að innanríkisráðuneytið komi þar að málum í ljósi þess að margt í rekstrarforsendum af hálfu ríkisins hefur ekki staðist.

Gjaldskrárbreyting og afsláttarkjör. Fyrir liggur tillaga um ákveðið samþykktarferli hjá landshlutasamtökunum þannig að hægt verði að breyta gjaldskrá. Þess er vænst að niðurstaða liggi fyrir frá öllum landshlutasamtökunum á næstu dögum.

Ítarlega verður gerð grein fyrir verkefninu í sérstöku erindi Geirs Kristins Aðalsteinssonar hér á fundinum. Þess skal að lokum getið að í þjónustukönnun Strætó bs. hefur komið fram mikil ánægja með þjónustu landsbyggðarstrætó.

  1. Vaðlaheiðargöng.

Sem kunnugt er hefur gengið á ýmsu í framkvæmdum við Vaðlaheiðargöng að undanförnu þar sem ýmsir óvæntir erfiðleikar hafa komið upp og tafið verkið. Mikilvægt er að halda því til haga að þetta verkefni er sprottið upp úr mikilli vinnu á  vettvangi Eyþings sem hófst með formlegum hætti árið 2002. Eyþing er hluthafi í Greiðri leið ehf. ásamt öllum sveitarfélögum í landshlutanum og nokkrum fyrirtækjum. Þessir aðilar tóku að sér skuldbindingar vegna lánasamnings Vaðlaheiðarganga hf. um árlega 40 mkr. aukningu hlutafjár til og með árinu 2017. Eins og rætt var bæði á sérstökum fundi hluthafa í Greiðri leið og á fundi í fulltrúaráði Eyþings er gríðarlega mikilvægt að hluthafahópurinn standi þétt að baki verkefninu og allir axli þá ábyrgð að taka sinn hlut í aukningu hlutafjár.

Framkvæmdastjóri Eyþings hefur undanfarin ár gegnt formennsku í stjórn Vaðalheiðarganga hf. eða þar til í maí sl. Hann situr áfram í stjórn sem fulltrúi hluthafa í Greiðri leið ehf. sem hann er jafnframt í formennsku fyrir.

  1. Fulltrúaráð Eyþings.

Tveir fundir hafa verið haldnir í fulltrúaráði. Sá fyrri þann 20. febrúar á Húsavík þar sem einkum var rætt um almenningssamgöngur, sóknaráætlun og samstöðu sveitarfélaganna í starfi Greiðrar leiðar. Seinni fundurinn var haldinn 26. maí á Akureyri þar sem málefni framhaldsskólanna voru rædd.

  1. Nýr starfsmaður

Með samþykkt fjárhagsáætlunar 2015 veitti aðalfundur heimild til að ráðinn yrði viðbótarstarfsmaður í  hlutastarf og var þar farið að tillögum svokallaðrar sjömannanefndar sem fjallaði um skipulag og verkefni Eyþings á síðasta kjörtímabili.  Alls bárust 40 umsóknir um starfið og var Linda Margrét Sigurðardóttir lögfræðingur ráðin í starfið og vinnur hún með framkvæmdastjóra að þeim fjölmörgu og vaxandi verkefnum sem eru á borði Eyþings

  1. Ýmsir fundir og verkefni

Eyþing átti aðild að umsókn um NPA-verkefni um vinnslu og nýtingu líforku (Bioenergy and organic fertilizers in Rural Areas). Aðalumsækjandi var Háskólinn á Akureyri en auk Eyþings áttu aðild að umsókninni Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi, Samtök sunnlenskra sveitarfélaga, Orkusetur og Flokkun. Hér var um að ræða mjög áhugavert verkefni en sem því miður var hafnað.

Stjórn Eyþings lét sig málefni Aflsins og göngudeildar SÁÁ á Akureyri varða og mun taka þau mál upp við þingmenn kjördæmisins á árlegum samstarfsfundi. Þess má geta að formaður og framkvæmdastjóri sátu fund sem formaður SÁÁ boðaði til á Akureyri í apríl sl. til kynningar á framtíðaráformum samtakanna. Af þeim fundi mátti ráða að starfsemi göngudeildarinnar á Akureyri væri ekki föst í sessi.

Í maímánuði voru kynntar hugmyndir í nafni menntamálaráðherra um sameiningu framhaldsskóla á Norðurlandi eystra. Hugmyndirnar sköpuðu óróa og áhyggjur. Stjórn Eyþings lét sig málið mjög varða og ályktaði um málið og hvatti ráðherra til að fara varlega í öll áform um sameiningu framhaldsskólanna og lagði áherslu á að haft yrði náið samstarf við heimamenn um málið. Þá var boðað til fundar í fulltrúaráði Eyþings til umfjöllunar um málið og til fundarins var boðið skólameisturum framhaldsskólanna. Málið fór í framhaldi í þann farveg að menntamálaráðherra setti á fót sérstakan starfshóp um málefni skólanna og tilnefndi stjórn Eyþings tvo fulltrúa eins og fram hefur komið. Starf nefndarinnar verður kynnt hér á fundinum af verkefnisstjóra starfshópsins.

Þess skal getið að stjórn Eyþings samþykkti bókun þar sem hún lagðist alfarið gegn kröfu Landverndar um nýtt umhverfismat vegna raflína að Bakka. Í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 31. ágúst sl., er erindi Landverndar vísað frá.

Framkvæmdastjóri og Eva Hrund Einarsdóttir stjórnarmaður sátu aðalfund Norðurslóðanets Íslands í apríl. Þá hefur framkvæmdastjóri sótt ýmsa fundi og viðburði fyrir samtökin auk þeirra sem tengjast einstökum málum sem getið er hér í skýrslunni.

  1. Aðsend þingmál

Á dagskrá stjórnar komu 52 þingmál til umsagnar. Reynt hefur verið að hafa samráð við Samband ísl. sveitarfélaga og í nokkrum tilvikum tók stjórnin mál til ítarlegrar umfjöllunar. Meðal mála sem stjórnin veitti umsögn um var frumavarp til laga um breytingu á raforkulögum, frumvarp til laga um náttúrupassa, frumvarp til laga um uppbyggingu innviða fyrir ferðamenn til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum, frumvarp til laga um Stjórnarráð Íslands, frumvarp til laga um farþegaflutninga á landi og frumvarp til laga um byggðaáætlun og sóknaráætlanir. Þá áttu formaður, framkvæmdastjóri og Jón Stefánsson stjórnarmaður fund með umhverfis- og samgöngunefnd um tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína og formaður mætti á fund sömu nefndar í byrjun júní með mjög skömmum fyrirvara til umfjöllunar um samgönguáætlun 2015 - 2018. Samgöngumál, ekki síst vegamál, skipa alltaf ríkan sess í samskiptum við þingmenn og stjórnvöld enda fá mál sem brenna meir á sveitarstjórnarmönnum. Framkvæmdastjórar landshlutasamtakanna áttu sameiginlega fund í apríl með umhverfis- og samgöngunefnd í tengslum við frumvarp til laga um farþegaflutninga.

Lögreglustjóri og sýslumaður í nýju umdæmi Norðurlands eystra mættu til fundar við stjórn fyrir tæpu ári síðan í tengslum við drög að reglugerðum um hin nýju umdæmi. Niðurstaða stjórnar var að gera ekki athugasemdir við drögin og lagði stjórnin áherslu á að hún vænti þess að stjórnvöld muni standa við yfirlýsingar sínar um að starfsmönnum muni ekki fækka og að ný verkefni verði flutt til sýslumannsembætta.

 

Samstarf við þingmenn

Stjórn og framkvæmdastjóri hafa að venju átt margháttað samstarf við þingmenn Norðausturkjördæmis um ýmis málefni landshlutans. Venja hefur skapast að halda árlega einn stóran samráðsfund stjórnar og þingmanna. Að þessu sinni var slíkur fundur haldinn 11. febrúar í Mývatnssveit sameiginlega með stjórn og framkvæmdastjóra SSA. Áhersla var á mál sem snerta báða landshluta sameiginlega. Þá ber þess að geta að stjórn og þingmenn áttu fund um þá erfiðleika sem Eyþing glímir við í rekstri almenningssamgangna. Á fundinum var ákveðið að óska eftir fundi með innanríkisráðherra og að fulltrúar þingmanna yrðu með í för. Dregist hefur að koma þessum fundi á en hann er nú fyrirhugaður í lok næstu viku. Þá sá Eyþing um skipulagningu viðtalstíma sveitarstjórna og fleiri í síðustu viku. Eyþing nýtti sér viðtalstíma og fékk fulltrúa í starfshópi um millilandaflug til að greina frá starfi hans.

 

Samstarf við ráðuneyti sveitarstjórnarmála, Samband ísl. sveitarfélaga og við önnur landshlutasamtök

Gott samstarf var við innanríkisráðuneytið, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og stýrihóp Stjórnarráðsins á síðasta starfsári og sama á við um Samband ísl. sveitarfélaga og landshlutasamtökin. Þau samskipti hafa m.a. tengst vinnu að sóknaráætlunum landshluta og almenningssamgöngum. 

Að venju hafa verið margháttuð samskipti við Samband ísl. sveitarfélaga um ýmis málefni. Framkvæmdastjóri sat landsþing í apríl sl. og formaður og framkvæmdastjóri sátu bæði nýliðna fjármálaráðstefnu og þá sem var fyrir sléttu ári síðan. Árlega er haldinn a.m.k. einn samráðsfundur formanna og framkvæmdastjóra með stjórn sambandsins og sviðsstjórum þess. Þá hafa talsverð samskipti verið við Guðjón Bragason, einkum um mál tengd almenningssamgöngum. Þá ber þess að geta að framkvæmdastjóri sambandsins situr að jafnaði fundi formanna og framkvæmdastjóra landshlutasamtakanna þannig að mjög góð tengsl hafa skapast milli þessara aðila.

Fjórðungssamband Vestfirðinga (FV) hefur leitt samstarf formanna og framkvæmdastjóra landshlutasamtakanna undanfarna mánuði, eða þar til á nýliðnum haustfundi að Samband sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) tók við. Haldnir hafa verið nokkrir samráðsfundir, bæði óformlegir og formlegir, auk þess sem árlegur sumarfundur var haldinn í Vatnsfirði 18. og 19. júni og mætti formaður á fundinn. Þau mál sem hæst hafa borið eru eðlilega almenningssamgöngur og mál sem tengjast nýjum samningi um sóknaráætlun.

Formenn landshlutasamtakanna, fjórir í senn, skiptast á að vera aðalfulltrúar á sveitarstjórnarvettvangi EFTA tvö ár í senn. Formaður Eyþings mun taka  sæti á ný síðari hluta næsta árs. Að jafnaði hafa fundir verið haldnir tvisvar á ári.

Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra

Að venju verður gerð grein fyrir störfum heilbrigðisnefndar og starfsemi eftirlitsins hér á fundinum eins og kveðið er á um í samstarfssamningi sveitarfélaganna sem síðast var endurskoðaður árið 2010.

 

Aðalfundur Eyþings 2015

Kjörnir fulltrúar á aðalfundi Eyþings eru 40 talsins úr 13 sveitarfélögum með alls  29.274 íbúa m.v. 1. desember 2014 (voru 29.080 árið 2013). Sveitarfélögin eru sjö í Eyjafirði og sex austan Vaðlaheiðar.

Á aðalfundinum í ár er megin áherslan á umfjöllun um framhaldsskólana og Háskólann á Akureyri auk umfjöllunar um stærstu málin í starfi Eyþings, þ.e. almenningssamgöngur og sóknaráætlun.

Stjórn, framkvæmdastjóri og aðrir starfsmenn Eyþings þakka sveitarstjórnarmönnum og starfsmönnum sveitarfélaga á starfssvæði sínu gott samstarf á liðnu starfsári og væntir áfram góðs samstarfs.

 

Akureyri 9. október 2015

Stjórn og framkvæmdastjóri Eyþings.

Getum við bætt síðuna?