Fara í efni

Fundargerð - Skýrsla stjórnar 2014

04.10.2014

 

 

AÐALFUNDUR EYÞINGS 3. og 4. október 2014

Skýrsla stjórnar starfsárið 2013 - 2014.

 

 

Aðalfundur Eyþings var haldinn í grunnskólanum á Grenivík dagana 27. og 28. september 2013. Á fundinum var samþykkt að fjölga um tvo í stjórn og voru Halla Björk Reynisdóttir Akureyrarbæ og Siggeir Stefánsson Langanesbyggð kosin en bæði höfðu áður verið varamenn. Aðrir sem sitja í stjórn eru: Geir Kristinn Aðalsteinsson formaður Akureyrarbæ, Dagbjört Bjarnadóttir varaforamaðurSkútustaðahreppi, Guðný Sverrisdóttir Grýtubakkahreppi, Gunnlaugur Stefánsson Norðurþingi og Sigurður Valur Ásbjarnarson Fjallabyggð.

Fyrir liggur að mikil breyting mun verða á stjórn þar sem fjórir af sjö stjórnarmönnum eru ekki lengur í hópi kjörinna fulltrúa og munu hætta störfum að sveitarstjórnarmálum, a.m.k. að sinni.

Stjórnin hefur á starfsárinu haldið 12 bókaða stjórnarfundi og tekið til umræðu og afgreiðslu um 180 mál.  Starfsemi Eyþings hefur haldið áfram að taka breytingum og verkefnin stöðugt umfangsmeiri. Hér fer á eftir samantekt um helstu atriði í starfsemi Eyþings á liðnu starfsári sem hefur verið viðburðaríkt og annasamt. Vakin er athygli á að í fundargerðum stjórnar, og nú einnig fundargerðum fulltrúaráðs, er að öllu jöfnu gerð ítarleg grein fyrir þeim málum sem eru til umfjöllunar.

 

Nefndir, ráð og starfshópar

Stjórn Eyþings skipar eða tilnefnir fulltrúa í nokkrar nefndir. Gera má ráð fyrir að skipað verði í þær á ný á næstu mánuðum.

Skólanefnd Framhaldsskólans á Laugum. Af Eyþingi voru tilnefnd sem aðalmenn Dagbjört Jónsdóttir Þingeyjarsveit og Guðrún María Valgeirsdóttir Mývatnssveit og til vara Bjarni Höskuldsson Þingeyjarsveit og Kolbrún Ívarsdóttir Mývatnssveit (241. fundur).

Vinnumarkaðsráð Norðurlands eystra. Í ráðinu situr Marinó Þorsteinsson Dalvíkurbyggð og sem varamaður Halla Björk Reynisdóttir Akureyri (220. fundur stjórnar).

Nefnd um almenningssamgöngur. Í nefndinni sátu Sigurður Valur Ásbjarnarson formaður Fjallabyggð, Hjálmar Bogi Hafliðason Norðurþingi og Ólafur Jakobsson Akureyri ( 222. fundur). Stjórnin samþykkti á síðasta fundi að leysa nefndina formlega frá störfum í ljósi breyttrar stöðu verkefnisins.

Fjallskila- og markanefnd í Eyjafirði. Í nefndinni sitja  Ólafur G. Vagnsson ráðunautur sem er formaður, Guðmundur Skúlason Hörgársveit og Þórarinn Ingi Pétursson Grýtubakkahreppi (226. fundur stjórnar).

Samráðsvettvangur um landsskipulagsstefnu. Tilnefning bíður nýrrar stjórnar.

 

 

Vatnasvæðisnefnd (svæði 2). Jónas Vigfússon Eyjafjarðarsveit er fulltrúi fyrir sveitarfélögin í Eyjafirði (226. fundur).

Samráðshópur um gerð framkvæmdaáætlunar fyrir félagsmálasjóð Evrópu (ESF). Inda Björk Gunnarsdóttir Akureyri er fulltrúi Eyþings (241. fundur).

Minjaráð Norðurlands eystra. Tilnefning bíður nýrrar stjórnar.

Norðurslóðanet Íslands. Framkvæmdastjóri á seturétt sem áheyrnarfulltrúi á stjórnarfundum í samræmi við stofnskrá.

Starfshópur til að fara yfir stöðu breiðbandsvæðingar. Guðný Sverrisdóttir var tilnefnd í starfshópinn og situr þar fyrir hönd Sambands ísl. sveitarfélaga (251. fundur).

Svæðisbundinn samráðshópur um kortlagningu auðlinda í ferðaþjónustu á Íslandi. Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir var tilnefnd í hópinn (256. fundur).

 

 

Aðgerðaáætlun Eyþings/Ályktanir aðalfundar

Ályktanir síðasta aðalfundar voru að venju sendar þeim aðilum sem þær varða og eftir atvikum fylgt frekar eftir t.d. við þingmenn kjördæmisins. Hér verður gerð grein fyrir helstu verkefnum sem unnið hefur verið að frá síðasta aðalfundi án þess að um sé að ræða neinn tæmandi lista.

  1. Sóknaráætlun Norðurlands eystra og ný skipan byggðaþróunarverkefna.

Mikil óvissa ríkti lengi vel um framhald sóknaráætlunar, bæði fjármagn og skipulag. Formenn og framkvæmdastjórar voru loks boðaðir til fundar með stýrihópi Stjórnarráðsins þann 11. apríl. Þar kom fram að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem ráðherra byggðamála,  hefði tekið við ábyrgð verkefisins. Þar með færðist einnig formennska í stýrihópi Stjórnarráðsins frá innanríkisráðuneytinu. Í maí var síðan undirritaður samningur um framlög til byggðaþróunar á Norðurlandi eystra árið 2014. Í samningnum felst umsjón og ábyrgð Eyþings á framkvæmd verkefna í sóknaráætlun landshlutans og umsjón og ábyrgð á úthlutun á framlagi ríkisins til eflingar atvinnulífs í landshlutanum, svonefndum vaxtarsamningsfjármunum.

Til Eyþings renna á árinu 2014 alls kr. 59.848.000, þar af 12.348.000 í sóknaráætlunarverkefni og 47.500.000 til vaxtarsamningsverkefna, sem skiptist jafnt til vaxtarsamningsverkefna á svæðum Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar (AFE) og Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga (AÞ), 23.750.000 til hvors félags.

Þá bar Eyþingi að skipa fimm manna nefnd sem tæki við hlutverki verkefnisstjórnar vaxtarsamninga. Skipuð var verkefnisstjórn fyrir hvorn samninginn um sig vegna vaxtarsamninga 2014.

Gerð var tillaga að þremur verkefnum innan sóknaráætlunar 2014. Verkefnin eru:

  1. Atvinnulíf og menntun – ný nálgun í símenntun, kr. 6.000.000. Framkvæmdaraðilar Símey og Þekkingarnet Þingeyinga.
  2. Sjálfbær orkuframleiðsla í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum , kr. 4.000.000. Framkvæmdaraðilar AFE og AÞ.
  3. Sjónvarpstengt kynningarefni, kr. 2.348.000. Framkvæmdaraðili N4.

Tillögurnar hlutu samþykki stýrihópsins og gerðir hafa verið samningar við framkvæmdaaðila.

Í sóknaráætlun landshlutans árið 2013 komu til úthlutunar 50.595.000 kr. Tillaga var gerð um sex verkefni í samræmi við megináherslur samráðsvettvangs sem þá var kallaður saman til undirbúnings áætlunarinnar.

Þau sex verkefni sem veitt var fé til innan sóknaráætlunar eru eftirfarandi:

  1. Norðurland – hlið inn í landið. 15.000.000 kr. Framkvæmdaraðili Markaðsstofa Norðurlands/Flugklasinn Air 66N.
  2. Orkuauðlindasamstarf (klasaundirbúningur). 5.000.000 kr. Framkvæmdaraðili Atvinnuþróunarfélögin.
  3. Náin tengsl atvinnulífs og menntunar – ný nálgun í símenntun. 12.595.000 kr. Framkvæmdaraðilar Símey og Þekkingarnet Þingeyinga.
  4. Kynningarefni og fjölmiðlun. 10.000.000 kr. Framkvæmdaraðili N4 í samstarfi við sveitarfélög.
  5. Grunngerð og mannauður. 4.000.000 kr. Framkvæmdaraðili Menningarráð Eyþings.
  6. Aftur heim. 4.000.000 kr. Framkvæmdaraðili Menningarráð Eyþings.

Þessum verkefnum er nú lokið að einu undanskildu, sem reynst hefur nauðsynlegt að breyta frá upphaflegum áætlunum. Formaður og framkvæmdastjóri áttu fundi með framkvæmdaaðilum á verkefnistímanum í samræmi við samninga. Eyþing stóð fyrir mjög vel heppnuðu málþingi með kynningu á verkefnunum og umfjöllun um verklag sóknaráætlunar þann 30. apríl sl. Málþingið sátu 55 manns. Þá skilaði Eyþing af sér greinargerðum um verkefnin nú í byrjun september sem eru grunnur að lokafjárframlagi. Mikil ánægja er með hvernig til hefur tekist.

Rétt er geta þess að í fyrstu útgáfu sóknaráætlunar árið 2012 hlutu tvö verkefni samþykki á svæði Eyþings. Annað verkefnið var stofnun Norðurslóðanets Íslands (upphaflega Norðurslóðamiðstöðvar) sem varð að veruleika og voru til þess samþykktar 67 mkr. sem deildust á fjögur ár. Þar er nú rekin öflug starfsemi. Framkvæmdastjóri á sæti í stjórn sem áheyrnarfulltrúi eins og fram hefur komið. Hins vegar er verkefnið Fjarskipti og gagnaflutningur á Norðurlandi eystra og voru samþykktar 35 mkr. til verkefnisins sem einnig skyldu dreifast á fjögurra ára tímabil. Ekkert hefur orðið af þessu verkefni þar sem ótal ljón, flest tengd samkeppnissjónarmiðum, hafa reynst í veginum til að finna því farveg.

Á fundi í atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu 29. ágúst sl. voru kynntar nýjar áherslur varðandi sóknaráætlun og byggðaþróun. Drög að ramma, eða samningi, um sóknaráætlanir 2015 – 2019, eru nú til umfjöllunar hjá stjórn. Um er að ræða heildarsamning sem mun einnig taka yfir vaxtar- og menningarsamninga. Samningnum er ætlað að vera heildstæður samningur um stefnumótun og fjármagn til byggðaþróunarverkefna í landshlutanum. Hugmyndir eru um að fjármagni til landshlutanna verði úthlutað skv. einni reiknireglu. Það eru því stór viðfangsefni sem bíða nýrrar stjórnar. Um þetta nýja verklag sem hefur verið í undirbúningi og þróun um all langt skeið fáum við nánari kynningu hér á fundinum.

Nú er skipulag landshlutasamtakanna og atvinnuþróunar með talsvert öðrum hætti hér en í öðrum landshlutum. Í grófum dráttum hefur verið litið svo á að landshlutasamtökin einbeiti sér að samfélagslegum málum og uppbyggingu innviða en atvinnuþróunarfélögin einbeiti sér að atvinnulífinu.

 

  1. Almenningssamgöngur.

Líkt og fram kom fyrir ári síðan hefur ekkert verkefni tekið jafn mikið á í starfi Eyþings og verkefnið um almenningssamgöngur. Starfsárið hófst með miklum fundahöldum í októberbyrjun í fyrra á vegum Strætó bs. og í innanríkisráðuneytinu og með þátttöku annarra landshluta. Þar voru m.a. til umræðu tillögur Strætó bs. að breyttri gjaldskrá og um uppgjör á leið 57 (Akureyri-Reykjavík). Ekkert gekk þó eftir af þeim tillögum. Ráðist var í margháttaðar aðgerðir til að gera reksturinn viðráðanlegan, s.s. samdrátt á ferðatíðni eins og samningar leyfa og endurbætur á skilgreiningu gjaldsvæða á einstökum leiðum. Þetta dugir þó ekki til að reksturinn gangi upp, hvað þá að hægt sé að greiða niður skuldir síðasta árs. Við höfum því þurft að treysta á fyrirgreiðslu Vegagerðarinnar til að hægt sé að standa í skilum. Hér verða ekki raktir allir þeir ótal fundir sem við höfum átt með Strætó, Vegagerðinni, innanríkisráðuneyti, RSK, Sambandi ísl. sveitarfélaga og lögmönnum vegna þessa verkefnis. Af hálfu Eyþings hafa formaður og Sigurður Valur farið fyrir verkefninu með framkvæmdastjóra.

Þrátt fyrir þrautagöngu sjáum við loks merki um að nú fari að rofa til. Sett var á fót nefnd á vegum innanríkisráðuneytisins til að fara yfir reynsluna af verkefninu og verður áfangaskýrsla nefndarinnar kynnt hér á fundinum. Ljóst er að starf nefndarinar mun liðka fyrir ýmsum úrbótum. Þá boðaði innanríkisráðherra formenn og framkvæmdastjóra landshlutasamtakanna til fundar í tengslum við landsþing sambandsins í síðustu viku og kynnti þar ýmsar úrbætur s.s. frumvarp til laga um fólksflutninga á landi í atvinnuskyni, um endurskoðun á endurgreiðslu olíugjalds og endurskoðun á úthlutun þróunarstyrks. Afar mikilvægt er að frumvarpið nái fram að ganga til að tryggja einkaleyfið sem landshlutasamtökin eiga að hafa skv. samningum en sem hefur ekki haldið. Þá er unnið að því að endurvekja tillögu um breytingu og einföldun á afsláttarfargjöldum. Það sem mestu munar til að rekstur Eyþings komist á rétt ról er annars vegar að Eyþing fái verulega hlutdeild í þróunarstyrk og hins vegar að niðurstaða fáist í uppgjör á leið 57 og Eyþing fái sinn hlut í tekjum af leiðinni. Nú hefur í annað sinn verið sett af stað sáttaferli til að freista þess að ná niðurstöðu í ágreiningi Eyþings og SSV varðandi rekstur og uppgjör á leið 57. Fulltrúi Eyþings er Geir Kristinn Aðalsteinsson og fulltrúi SSV er Páll Brynjarsson og með þeim er Ásgeir Eiríksson sem situr í fyrrnefndri nefnd um almenningssamgöngur.

Hér eru ekki tök á að kafa dýpra í þetta viðamikla mál, en það sem mestu skiptir eru væntingar um að loks fari að rofa til. Óhjákvæmilegt er þó að nefna að með bréfi 30. apríl sagði stjórnin verkefninu upp f.o.m 1. júlí og óskaði eftir yfirtöku Vegagerðarinnar á samningum við verktaka. Þetta var gert í samræmi við vilja fulltrúaráðs og á þeim grunni að  verkefninu væri sjálfhætt hjá Eyþingi vegna hallareksturs. Vegagerðin féllst ekki á uppsögnina með vísan til samninga en jafnframt kom fram að Vegagerðin mundi sjá til þess að Eyþing gæti staðið við sínar skuldbindingar meðan unnið væri að lausnum. Rétt er að taka fram að þó okkur hafi þótt hægt ganga þá höfum við allsstaðar mætt velvilja og átt mjög gott samstarf við vegamálastjóra, innanríkisráðuneyti og Strætó bs.

  1. Vaðlaheiðargöng.

Eitt stærsta hagsmunamál landshlutans sem unnið hefur verið að á vettvangi Eyþings er undirbúningur að gerð Vaðalheiðarganga. Sú vegferð hófst með formlegum hætti árið 2002 þó framkvæmdir hæfust ekki fyrr en á síðasta ári. Hér verður ekki gerð grein fyrir stöðu framkvæmda sem hafa til þessa gengið bísna vel þrátt fyrir óvænta erfiðleika af heitu vatni. Framkvæmdastjóri Eyþings gegnir formennsku í stjórn Vaðalheiðarganga hf. Litið er svo á að hann sitji þar sem fulltrúi allra hluthafa í Greiðri leið ehf. sem hann er jafnframt í formennsku fyrir, enda hagsmunir allra hluthafa þeir sömu, að verkið gangi sem best og hagkvæmast fyrir sig og í samræmi við gerða samninga.

  1. Menningarsamningurinn.

Menningarsamningur rann út um síðustu áramót. Þann 13. desember kynnti mennta- og menningarmálaráðuneytið hugmynd að nýrri reiknireglu til skiptingar framlags milli landshluta. Hin nýja reikniregla hefði þýtt að framlög til menningarsamnings Eyþings hefðu lækkað um 20%. Þessari breytingu var harðlega mótmælt af Eyþingi og athugasemdir sendar ráðuneytinu. Fundur var haldinn með forsvarsmönnum Eyþings og SSA, þar sem enn meiri niðurskurður var boðaður, og þingmönnum NA-kjördæmis 16. janúar. Sama dag mættu formaður menningarráðs og menningarfulltrúi einnig á fund ráðherra ásamt fulltrúum SSA. Í framhaldi barst tilkynning frá ráðuneytinu um að eldri viðmið yrðu notuð að þessu sinni og 10% hagræðingarkrafa látin koma jafnt á alla samninga. Auk þess að upphæð til stofn- og rekstrarstyrkja yrði haldið aðgreindri frá upphæð til verkefnastyrkja, en á það hafði verið lögð áhersla af hálfu Eyþings.

Verulegur dráttur varð á að gengið yrði frá samningi vegna þess hve dróst að fá svar um þátttöku atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis í samningnum vegna menningartengdrar ferðaþjónustu. Samningur fyrir árið 2014 var loks undirritaður í maí. Veittar eru 35.471 þús. kr. til samningsins. Þar af er heimilt að nota 14.485 þús. kr. í stofn- og rekstrarstyrki en 40% mótframlag sveitarfélaga tekur ekki til þeirra.  Það veldur áhyggjum og vonbrigðum að við hverja endurnýjun samningsins kemur til niðurskurður á framlagi ríkisins og full þörf á að skoða það nánar. Hér eftir er áformað að framlög til menningarmála verði hluti af heildarsamningi til byggðaþróunarverkefna eins og fyrr er nefnt.

Ítarlega verður fjallað um starf menningarráðs undir sérstökum dagskrárlið. Ástæða er til að geta þess að í úttekt sem unnin var af Capacent kom starf menningarráðs Eyþings afar vel út.

  1. Skipulag Eyþings

Á aðalfundi í fyrra voru gerðar breytingar á lögum Eyþings sem miðuðu að því að tryggja virkari aðkomu kjörinna fulltrúa og allra sveitarfélaganna að starfi Eyþings. Breytingarnar voru gerðar á grundvelli tillagna svokallaðrar sjö-mannanefndar sem haft hafði skipulag Eyþings til umfjöllunar í ljósi aukinna verkefna og aukinnar ábyrgðar. Breytingarnar sem samþykktar voru fólu annars vegar í sér fjölgun úr fimm í sjö manna stjórn og hins vegar að sett yrði á fót 20 manna fulltrúaráð sem fengi til kynningar og umfjöllunar mikilvæg mál sem koma á borð stjórnar og varða hagsmuni sveitarfélaganna og landshlutans. Haldnir voru tveir fundir í fulltrúaráðinu, annar í desember og hinn í apríl, og virtist það samdóma álit fulltrúanna að þessir fundir hefðu gefist vel og fulltrúaráðið hefði sannað gildi sitt og um leið styrkt starf Eyþings. Gert er ráð fyrir að sveitarstjórnirnar kjósi sína fulltrúa í fulltrúaráðið í framhaldi af aðalfundi en fulltrúar í stjórn Eyþings eru sjálfkjörnir í ráðið. Á aðalfundi sitja 40 kjörnir fulltrúar, en auk þeirra eiga allir aðalmenn í sveitarstjórnum og framkvæmdastjórar sveitarfélaga seturétt án atkvæðisréttar.

Meðal tillagna nefndar um skipulag Eyþings var að ráðinn yrði viðbótarstarfsmaður með hliðsjón af auknum verkefnum. Ekki var lögð áhersla á þá tillögu á síðasta aðalfundi. Stjórnin samþykkti á 256. fundi að leggja til við aðalfund 2014 að bætt verði við starfsmanni. Stjórnin mælir með að sú tillaga fari til umfjöllunar í fjárhags- og stjórnsýslunefnd aðalfundar.

 

 

Ýmsir fundir og verkefni

Framkvæmdastjóri, og einnig formaður í mörgum tilvikum, hefur sótt ýmsa fundi og viðburði fyrir samtökin auk þeirra sem tengjast einstökum málum sem getið er hér í skýrslunni. Nefna má fjármálaráðstefnu, ársfund Jöfnunarsjóðs, ársfund Byggðastofnunar, málþing um Ísland á Norðurslóðum, málþing um úrgangsmál, málþing um flugmál, málþing um samfélagshönnun og málþing um sjálfbæra orku sem haldið var með aðild Eyþings.

Framkvæmdastjóri tók þátt í vinnu- og samráðsfundi um landskipulagsstefnu 2015 – 2026 sem haldinn var á Akureyri 5. mars. Eyþing kom að undirbúningi fundarins. Þá kom Eyþing að undirbúningi samráðsfundar samgönguráðs um nýja samgönguáætlun og fjarskiptaáætlun 2015 – 2026 sem haldinn var á Húsavík 8. apríl. Eyþing vann að undirbúningi samráðsfundar um framtíðarsýn leikskóla ásamt Sambandi ísl. sveitarfélaga, félagi leikskólakennara og félagi stjórnenda leikskóla. Fundurinn var haldinn á Akureyri 31. mars og tók formaður þátt í fundinum fyrir hönd Eyþings. Einnig má nefna nokkra fundi um fjarskiptamál og um mögulega þátttöku Eyþings í NPP-verkefni um notkun lífmassa og líforku í norðlægum landbúnaðarhéruðum án þess að ákvörðun hafi verið tekin. Á fyrri fundi fulltrúaráðs var því beint til stjórnar að taka úrgangsmál svæðisins til umfjöllunar. Ekki kom til þess þar sem 14. mars var haldið viðamikið málþing á vegum verkefnisstjórnar sem vinnur að svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs á Norðurlandi. Formaður og fleiri stjórnarmenn sátu málþingið. Þann 8. september mætti framkvæmdastjóri á fund stjórnar Jöfnunarsjóðs og gerði grein fyrir starfsemi Eyþings.

Að lokum skal nefnt að Eyþing kom að undirbúningi fundar innanríkisráðherra, sem haldinn var 14. febrúar, um breytingar á sýslumanns- og lögregluumdæmum. Formaður og framkvæmdastjóri sátu fundinn. Málið kom einnig á borð stjórnar til umsagnar sem samþykkti að taka ekki formlega afstöðu til breytinganna. Bæði nýr sýslumaður og nýr lögreglustjóri hafa óskað eftir samráði við Eyþing varðandi uppbyggingu þjónustunnar og um upplýsingamiðlun til sveitarstjórna. Það mun koma í hlut nýrrar stjórnar.

 

Samstarf við þingmenn

Stjórn og framkvæmdastjóri hafa að venju átt margháttað samstarf við þingmenn Norðausturkjördæmis um ýmis málefni landshlutans. Ekki tókst að koma á árlegum fundi stjórnar og þingmanna sem venja hefur verið að halda í janúar eða febrúar. Fulltrúar stjórnar áttu m.a. fund með þingmönnum varðandi verkefnið um almenningssamgöngur og einnig sá Eyþing um skipulagningu á viðtalstímum sveitarstjórna bæði í október í fyrra og nú í vikunni.

 

Aðsend þingmál

Á dagskrá stjórnar komu 46 þingmál til umsagnar. Reynt hefur verið að hafa samráð við Samband ísl. sveitarfélaga og veitti stjórnin aðeins í undantekningartilvikum beina umsögn. Ítarleg umsögn var send um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun 2014 -2017. Einnig mættu formaður og framkvæmdastjóri á fund atvinnuveganefndar  Alþingis þann 18. febrúar til að fylgja eftir umsögn Eyþings.

 

 

Samstarf við ráðuneyti sveitarstjórnarmála, Samband ísl. sveitarfélaga og við önnur landshlutasamtök

Náið samstarf var við innanríkisráðuneytið, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og stýrihóp Stjórnarráðsins á síðasta starfsári og sama á við um Samband ísl. sveitarfélaga og landshlutasamtökin. Þau samskipti hafa m.a. tengst vinnu að sóknaráætlunum landshluta og almenningssamgöngum. 

Að venju hafa verið margháttuð samskipti við Samband ísl. sveitarfélaga um ýmis málefni. Formenn og framkvæmdastjórar landshlutasamtaka sátu landsþing í nýliðnum mánuði og árlega er haldinn a.m.k. einn samráðsfundur formanna og framkvæmdastjóra með stjórn sambandsins og sviðsstjórum þess. Þá hafa talsverð samskipti verið við Guðjón Bragason, einkum varðandi ýmis lagaleg mál og ágreiningsefni tengd almenningssamgöngum.

Fulltrúar Eyþings áttu nokkra fundi með fulltrúum SSA einkum vegna samreksturs á leið 56 (Akureyri – Egilsstaðir). Fleiri mál voru þar til umræðu svo sem menningarsamningarnir og ýmsir sameiginlegir hagsmundir. Ákveðið var að halda árlegan samráðsfund samtakanna.

Samtök sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS) hafa leitt samstarf formanna og framkvæmdastjóra landshlutasamtakanna undanfarna mánuði. Haldnir hafa verið nokkrir samráðsfundir, bæði óformlegir og formlegir, auk þess sem árlegur sumarfundur var haldinn í Reykjanesbæ 12. og 13. júní sl. Helstu mál sem hafa verið til umræðu eru sóknaráætlun, menningarsamningar og skipulag byggðamála og nýir samningar um byggðaþróun, almenningssamgöngur, aukin verkefni og skipulagsbreytingar landshlutasamtaka.

Formaður Eyþings, ásamt formönnum þriggja annarra landshlutasamtaka, hafa sl. tvö starfsár verið aðalfulltrúar á  sveitarstjórnarvettvangi EFTA. Formenn fjögurra annarra landshlutasamtaka taka nú við næstu tvö ár. Að jafnaði hafa fundir verið haldnir tvisvar á ári.

 

Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra

Að venju verður gerð grein fyrir störfum heilbrigðisnefndar og starfsemi eftirlitsins hér á fundinum eins og kveðið er á um í samstarfssamningi sveitarfélaganna.

 

Nýtt aðsetur

Þann 31. janúar sl. flutti Eyþing að Hafnarstræti 91 (3. hæð) á Akureyri eftir miklar  endurbætur á húsnæðinu. Ásamt Eyþingi fluttu þar inn nokkrar fleiri stofnanir sveitarfélaga og ríkis, þ.e. Markaðsstofa Norðurlands, Vaðlaheiðargöng hf., Ferðamálastofa og Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Boðið var í opið hús þann 5. júní og var vel mætt, m.a. af nýkjörnum sveitarstjórnarmönnum. Við það tækifæri var undirritaður svokallaður Grænn leigusamningur til að undirstrika ákveðna umhverfisstefnu leigutaka og leigusala.

 

Heimasíða

Ný heimasíða var opnuð í október sem unnin var af  Stefnu hugbúnaðarhúsi á Akureyri Því miður hefur illa gengið að uppfæra síðuna en það er eitt af því sem hefur orðið undan að láta að vegna mikils álags í brýnum verkefnum. Stjórnin hefur þó verið meðvituð um að mikilvægt er að úr verði bætt. Í umræðu um þörfina fyrir viðbótarstarfsmann er þetta er eitt þeirra verkefna sem um hefur verið rætt.

 

Aðalfundur Eyþings 2014

Kjörnir fulltrúar á aðalfundi Eyþings eru 40 talsins úr 13 sveitarfélögum með alls 29.080 íbúa m.v. 1. desember 2013. Sveitarfélögin eru sjö í Eyjafirði og sex austan Vaðlaheiðar. Að þessu sinni er gríðarleg endurnýjun í hópi aðalfundarfulltrúa, en 75% fulltrúa koma nú inn nýir. Konur í hópi fulltrúa eru 17 talsins, eða 42,5%.

Á aðalfundinum í ár er megin áherslan á umfjöllun um vaxandi ferðaþjónustu, auk umfjöllunar um hlutverk landshlutasamtaka í byggðamálum og um almenningssamgöngur.

Stjórn og framkvæmdastjóri Eyþings þakka sveitarstjórnarmönnum og starfsmönnum sveitarfélaga á starfssvæði sínu gott samstarf á liðnu starfsári og væntir góðs samstarfs við þá  sveitarstjórnarmenn sem tekið hafa að sér að leiða hagsmuni landshlutans í þeim krefjandi verkefnum sem samtökin, og þar með sveitarfélögin, þurfa að takast á við.

 

Narfastöðum 3. október 2014

Stjórn og framkvæmdastjóri Eyþings.

Getum við bætt síðuna?