Fara í efni

Fundargerð - Menningarráð - 12.11.2010

12.11.2010

27. fundur

Árið 2010, föstudaginn 12. nóvember kl. 13:00, kom Menningarráð Eyþings saman til fundar að Strandgötu 29,  Akureyri.  Mætt voru:  Arnór Benónýsson, Bjarni Valdimarsson, Bryndís Símonardóttir, Gunnólfur Lárusson, Ingibjörg Sigurðardóttir, Sigurður Guðmundsson og Þórgunnur Reykjalín Vigfúsdóttir. Einnig mætti Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir menningarfulltrúi.

 

Fundarsetning:

Menningarfulltrúi setti fundinn og bauð fólk velkomið og sérstaklega nýja ráðsmeðlimi.  Fulltrúar í ráðinu kynntu sig og síðan var gengið til dagskrár:

 

1. Kynning á Menningarráði Eyþings, starfssemi og starfsháttum.

Farið var yfir starfssvæði menningarráðsins, sögu, hlutverk, markmið og tilgang. Einnig var farið yfir starfssemina og starfshætti ráðsins. Lagt var fram fréttabréf Menningarráðs Eyþings frá 2009 þar sem kynntar voru áherslur í starfi ráðsins 2009-2011. Einnig var lagt fram minnisblað frá fundi Menningarráðs Eyþings 21. apríl sl.  þar sem farið var yfir  flokkun og greiningu á úthlutunum 2009-2010.  Fulltrúum menningarráðsins var einnig afhent eintak af starfsháttum menningarráðs og lagði menningarfulltrúi mikla áherslu á að þeim væri fylgt eftir í öllu starfi menningarráðsins.

2.  Kosning formanns, varaformanns og ritara

Tvær tillögur komu fram um formann, annars vegar um Þórgunni Reykjalín Vigfúsdóttur og hins vegar um Sigurð Guðmundsson. Kosið var milli þeirra. Þórgunnur Reykjalín Vigfúsdóttir var kjörin með 6 atkvæðum.   Tillaga um varaformann, Bjarna Valdimarsson, var samþykkt samhljóða.  Tillaga um ritara, Bryndísi Símonardóttur, var samþykkt samhljóða.

3. Úthlutun 2011

Rætt var um úthlutun 2011.  Ákveðið var að auglýsa verkefnastyrki þegar fyrir liggur með undirritun menningarsamnings við ríkið.

4. Önnur mál

Sigurður Guðmundsson gerði fyrirspurn um ástæður þess að hafa einungis eina úthlutun á árinu.  Menningarfulltrúi gerði grein fyrir að í upphafi ársins hafi menningarráðið tekið  ákvörðun um að hafa eina úthlutun á árinu 2010, en sl. tvö ár hefur ráðið haft tvær úthlutanir á ári.  Mikill kostnaður er við hverja úthlutun og var þessi ákvörðun m.a. tekin með hagræðingarsjónarmið í huga, þar sem menningarráðinu var gert, á aðalfundi Eyþings 2009, að hagræða í rekstrinum um 8% á árinu 2010.  Einnig var litið til þess að í síðari úthlutun ársins hafa umsóknirnar verið slakari og upphæðir sem ráðið gat styrkt lægri.  Var það því mat ráðsins að leggja áherslu á eina góða úthlutun á ári. Einnig var litið til reynslu Austfirðinga sem hafa haft menningarsamning í átta ár.  Menningarfulltrúa var falið að taka saman heildarkostnað vegna aukaúthlutana og gera menningarráðinu grein fyrir niðurstöðunni.

 

Sigurður gerði einnig fyrirspurn um rekstur menningarráðsins.  Menningarfulltrúi lagði fram fjárhagsáætlun vegna 2011 sem samþykkt var á aðalfundi Eyþings 2010.  Umræður spunnust um hvort hægt væri að hagræða í rekstrinum á einhvern hátt.   Menningarfulltrúa falið að senda fulltrúum í menningarráðinu ársreikning síðasta árs sem og skýrslu um starfssemi menningarráðs sem lögð var fram á aðalfundi Eyþings í október sl.

 

 

 

Fleira var ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 14:40

Fundargerð rituðu: Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir menningarfulltrúi og Bryndís Símonardóttir ritari.

Getum við bætt síðuna?