Fara í efni

Fundargerð fundar stjórnar Eyþings með þingmönnum

24.02.2016

Sameiginlegur fundur stjórna Eyþings og SSA

með þingmönnum Norðausturkjördæmis 9. febrúar 2016 

Fundurinn var haldinn í fundarsal Hótels Reynihlíðar. Fundarstjórn var í höndum varaformanns Eyþings og formanns SSA. Varaformaður Eyþings bauð gesti velkomna og kynnti fyrirkomulag fundarins og dagskrá. Fundarmenn kynntu sig í upphafi fundarins. 

Mættir voru fyrir hönd SSA: Sigrún Blöndal (formaður), Jón Björn Hákonarson, Jakob Sigurðsson, Hákon Hansson, Andrés Skúlason, Stefán Grímur Rafnsson og Eydís Ásbjörnsdóttir. 

Fyrir hönd Eyþings: Arnór Benónýsson (varaformaður), Gunnar Gíslason, Sif Jóhannesdóttir, Sigríður Huld Jónsdóttir, Karl Frímannsson. 

Þingmenn: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Höskuldur Þórhallsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Þórunn Egilsdóttir, Brynhildur Pétursdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Kristján Möller, Valgerður Gunnarsdóttir og Kristján Þór Júlíusson. 

Fundur hófst kl. 12:10. Björg Björnsdóttir, verkefnisstjóri sveitarstjórnarmála á Austurlandi, tók niður punkta á fundinum. Þá sátu fundinn Pétur Þór Jónasson, framkvæmdastjóri Eyþings og Matthías Imsland, aðstoðarmaður forsætisráðherra. 

1. Norðvesturnefndin – Tvöfalt kerfi.  Jón Björn Hákonarson var með innleiðingu. Svipuð staða uppi í Norðausturkjördæmi og í Norðvesturkjördæmi, brýnt að fara í stöðumat í NA-kjördæmi líka. Verið horft til sóknaráætlunar en lítið fjármagn farið þar í gegn. JBH reifaði stöðuna í ýmsum málaflokkum. Ítrekað verið bent á að hægt væri að styrkja stoðþjónustuna heima í héraði í gegnum ýmsar opinberar stofnanir en þróunin verið önnur.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hvatti til þess að frumkvæði til slíkrar greiningarvinnu kæmi frá heimamönnum, líkt og gert hefur verið á Norðvestursvæðinu. Mögulega væri þó betra að skoða afmörkuð svæði. Líklegt væri að þetta yrði pólítískur slagur og því yrði að reiða sig á stuðning úr heimahéraði. Sigrún Blöndal benti á nýjustu skýrslu Byggðastofnunar um hagvöxt í landshlutunum og mannfjöldaþróun sem ekki er nein skemmtilesning. Brýnt að spyrna við fótum strax. Steingrímur J. Sigfússon taldi málið snúast um tvennt; fjármagn og utanumhald. Hann telur sóknaráætlun mjög góðan farveg, með umtalsvert meiri fjármuni, en sama hvaðan gott kemur. Brothættar byggðir væri að finna um allt svæðið. Andrés Skúlason benti á að staða sveitarfélaga væri mjög misjöfn, en það skorti fjölbreytni í atvinnulífið. Opinber þjónusta er um 13% á Austurlandi sem er umtalsvert minna en annars staðar. Hagvaxtarspáin er líka verri fyrir Austurland. Valgerður Gunnarsdóttir taldi mikilvægt að þessi greiningarvinna færi fram og fá fram á hverju þyrfti að taka. Það myndi auðvelda þingmönnum að vinna að umbótum í kjördæminu og styrkja það.

JBH tók fram að brýnt væri að skýra stjórnsýslulega stöðu landshlutasamtakanna. Það væri tilhneigingin að velta verkefnum yfir til þeirra en það verði ekki hægt mikið lengur án þess að skýra áðurnefnda stöðu og veita fjármagn í samræmi við það. Hann lýsti yfir áhyggjum af lögum um opinber fjármál sem virðast auðvelda sameiningar ríkisstofnanna og miðstýringu. Að lokum, nefndi hann að stundum væri eins og ráðuneytin væru ekki til að þjóna landsmönnum heldur til að verja einhverja ákveðna stöðu.

Líneik Anna Sævarsdóttir tók undir áhyggjur JBH um stöðu landshlutasamtakanna. Hvað starf einhvers konar greinarnefndar áhrærir, þá taldi hún veik svæði innan allra sveitarfélaga. Kristján Þór Júlíusson hvatti sveitarfélögin til að horfa til styrkleika sinna og hvernig hægt væri að byggja þá upp. Það væri full ástæða til að hafa áhyggjur af grunnatvinnuvegunum. Baráttan um aukinn hlut ríkistekna væri allt önnur barátta. Gunnar Gíslason nefndi þrennt; brothættar byggðar, það verkefni væri ágætt fyrir sinn hatt en bjargráð þess, fjármagnið, væri ákaflega takmarkað, í annan stað yrði að fara að taka ákvörðun um lágmarksstærð sveitarfélaga af hálfu hins opinbera og í þriðja lagi nefndi hann svæðisáætlanir um meðferð úrgangs sem færu fyrir lítið þar sem ráðherrar hafa nú frelsi til að taka ákvarðanir í þessum málaflokki þvert ofan í það sem búið er að ákveða heima í héraði. 

2. Almenningssamgöngur – málarekstur. Pétur Þór Jónasson var með innleiðingu. Verkefnið stendur vægast sagt illa í Eyþingi og sömu sögu að segja um SSA, þó á annan hátt sé. Almenningssamgöngur verið á höndum landshlutasamtakanna frá árinu 2012. Undarlega gefið frá upphafi, skuld Eyþings við Vegagerðarinnar er nú 65 milljónir króna, en hún hefur hlaupið undir bagga svo Eyþing geti staðist við skuldbindingar, en enn bætist í skuldahalann. Í áliti sem Þórarinn V. Þórarinsson hrl. vann fyrir Eyþing kemur skýrt fram að forsendubrestur hafi orðið á samningi; annars vegar hvað varðar endurgreiðslu olíugjalds og hins vegar að sérleyfið (einkaleyfið) haldi ekki. Á fjárlögum 2016 er gert ráð fyrir 75 milljónum króna til almenningssamganga, sem m.a. er ætlað að mæta endurgreiðslu olíugjaldsins. Liggja fyrir drög á úthlutunarreglum. Ný sérstök lög um almenningssamgöngur ku vera í farvatninu, þau munu vonandi taka á vandanum um einkaleyfið sem fjölmörg dæmi eru um að heldur ekki. PÞJ vék að þróunarstyrk, boðuð hefur verið breyting á úthlutun hans, sem ætti að bæta stöðu landshluta fjær höfuðborgarsvæðinu. Sömuleiðis er verið að vinna að breytingum á gjaldskrám og einföldun þess kerfis. Nú er hægt að greiða með strætóappi á höfuðborgarsvæðinu sem slegið hefur í gegn, sér í lagi hjá unga fólkinu. Búið er að ganga frá samkomulagi við SSV um þær deilur sem staðið hafa um kostnaðar- og tekjuskiptingu á leiðinni Reykjavík - Akureyri.

Björg Björnsdóttir sagði frá stöðu SSA í Sternu-málinu svokallaða sem er vægast sagt slæm fyrir SSA og rifjaði upp beiðni stjórnar SSA um sérstakan starfshóp í innanríkisráðuneytinu um það hvernig bregðast eigi við kostnaði við málið.  

Höskuldur Þórhallsson fagnaði samkomulagi Eyþings og SSV. Hvað lagasetninguna nú varðar, þá lofaði hann því að ný lög yrðu afgreidd fljótt og örugglega út úr umhverfis- og samgöngunefnd. JBH minnti á að Vegagerðin hefði talið öruggt að sérleyfin myndu halda og því hefði verið á sínum tíma farið í lögbann. Málareksturinn stæði allri framþróun almenningssamgöngukerfisins fyrir þrifum. Hann vék í nokkrum orðum að matsgerðinni. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir spurði um þróunarvinnu kerfisins á Austurlandi og Höskuldur Þórhallsson spurði um framhaldið í dómsmáli. Hann taldi nýja lagasetningu eiga að geta stutt við bakið landshlutasamtökum í því. Jakob Sigurðsson rifjaði upp byrjunina á verkefninu, þ.e. þegar Vegagerðin færði sérleyfin yfir. Staða verkefnisins væri ekki svo slæm fyrir austan ef ekki kæmi til málareksturs. Fjármagnið væri þó of lítið til að loka götum sem enn væru í kerfinu, s.s. tenging Vopnafjarðar við þjóðveg eitt og tenging Breiðdalsvíkur og Djúpavogs. Kristján Möller sagði brýnt að klára umgjörð verkefnisins sem fyrst, svo sem hvað varðar olíugjaldið og þróunarstyrkinn og gera upp fortíðarskuldir. Þetta stæði upp á þingmenn. 

3. Ljósleiðaravæðing. Arnór Benónýsson var með innleiðingu. Hann tók fram í upphafi að það væri á mörkunum að þetta verkefni væri á verksviði landshlutasamtakanna. AB rifjaði upp hversu mikið fjármagn er til þessa verkefnis á fjárlögunum og kynningarfund í innanríkisráðuneytinu 15. janúar sl. þar sem starfshópur um Ísland ljóstengt kynnti tillögur sínar um úthlutun á þessu fjármagni. Þær eiga ekki að vera fordæmisgefandi fyrir næsta ár þar sem byggðasjónarmið eiga að vera í forgrunni. Tímaramminn er hins vegar mjög naumur. Verið að skoða samstarf á milli sveitarfélaga á svæði Eyþings og SSA.

Björg Björnsdóttir vék að raunkostnaði við tengingar og hver væri í raun að ljósleiðaravæða Ísland. Valgerður Gunnarsdóttir sagði brýnt að fjármagnið sem verið væri að veita inn í þennan málaflokk væri nýtt en yrði ekki til vandræða. Steingrímur J. Sigfússon taldi að byggðavinkillinn gæti orðið stórt vandamál, íbúar Raufarhafnar hefðu t.a.m. talið sig eiga að fá ljósleiðara til sín á þessu ári. Þá spurði hann um samræmið við úthlutun, t.a.m. gagnvart þeim sveitarfélögum sem væru nýbúin að ljúka þessari vinnu sem ekki ætti að fá stuðning frá ríkinu. Jakob Sigurðsson velti því fyrir sér hver staðan væri nú ef sveitarfélögin hefðu átt að leggja símann um landið, hann minnti sömuleiðis á að hagnaður af sölu Símans hefði átt að fara til þessa verkefnis. Líneik Anna Sævarsdóttir sagði ljóst að þessar tillögur sem nú væri verið að kynna væru ekki heppilegasta leiðin en brýnt væri að nýta fjármagnið. Það er þó ekki síður brýnt að fara að huga að umgjörð úthlutunar fyrir árið 2017. Hún spurði einnig um lista yfir tengingar.

AB svaraði spurningu um listann sem kemur frá Póst- og fjarskiptastofnun. Hann ítrekaði að brýnt væri að finna lausnir á útdeilingu fjármagns á þessu ári.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði að hugað yrði að byggðasjónarmiðum á næsta ári, brýnt væri að nýta tímann vel fram að því. Þegar svo ólíkir hagsmunir mætast, er ljóst að allir verða ekki sáttir. Samræming væri mjög æskileg, það bæði flýtti fyrir verkefninu og gerði það hagkvæmara. Hákon Hansson fagnaði því að horft væri til framtíðar að gera betur og sér í lagi við brothættar byggðir. Mikilvægt væri að leyfa þeim sem lengst eru komnir að njóta góðs af því núna, en í trausti þess að hugað yrði að dreifðari byggðum næst, þannig að þær dragist ekki enn frekar aftur úr. Pétur Þór Jónasson ítrekaði mikilvægi þess að huga að brothættum byggðum og tiltók sérstaklega Raufarhöfn. Ekki væri rétt að vekja vonir hjá fólki ef ekki væri fjármagn til að fylgja verkefninu eftir.

Steingrímur J. Sigfússon vék að útboðinu á Vestfjörðum og hvernig verðið hefði verið sprengt upp þar og ítrekaði einnig að í greinargerð fjárlagafrumvarpsins kæmi fram að ganga ætti frá ákveðnum stofntengingum. Ekki yrði auðveldlega komist hjá því. Sömuleiðis væri gott ef hægt væri að vinna ákveðna áætlun til einhverja ára, líkt og vegaáætlun. Kristján Möller fagnaði ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að ljósleiðaravæða Ísland. Hins vegar sé ákveðið hættumerki að sjá í tilboði Mílu fyrir vestan. Ríkið verði að stíga þar inn. Fjármagnið ekki í takt við væntingar, það verði að setja inn fjármagn til nokkurra ára, svipað og gert er með samgönguáætlun, gera fjarskiptaáætlun.  Framkvæmdatíminn er stuttur, verkefnin verða að geta gengið yfir fleiri en eitt ár. Að síðustu sagði KM ljóst að ríkið yrði að sjá um kostnað við lagningu stofntenginga. Hann varpaði fram þeirri spurningu hver ætti að eiga þessi kerfi? BB tók undir orð Líneikar um að brýnt væri að ganga frá umgjörð fyrir árið 2017, þannig að sveitarfélög gætu tekið þetta inn í sína vinnu við gerð fjárhagsáætlana. Gunnar Gíslason minnti á brothættu byggðirnar og Grímsey, varpaði fram spurningu um jarðgöng til Grímseyjar. Sif Jóhannesdóttir sagði verkefnið mjög erfitt að skilja og enn erfiðara að skilja að þetta verkefni væri á forsjá sveitarfélaganna. Það væri heldur súrt í brotið að uppgötva að sveitarfélag væri búið að tapa í kapphlaupi sem það vissi ekki að það væri í. Umbjóðendur spyrðu einfaldlega hvers vegna sveitarfélagið væri ekki klárt. Arnór svaraði spurningu um eignarhaldið, kerfin geta hvort heldur er verið í eigu sveitarfélaganna eða fjarskiptakerfi. 

4. Heilbrigðismál – geðheilbrigðismál. Sigrún Blöndal var með innleiðingu og kom inn á þrennt; einingar fyrir sérfræðinga og kostnaðarskiptingu við komu þeirra út á land sem fellur að mestu á heilbrigðisstofnanir. Spurt væri hvort ekki mætti eyrnamerkja ákveðinn fjölda eininga veru úti á landi. Í annan stað ræddi SB um geðheilbrigðisþjónustu, ekki síst við ungt fólk, og aðgengi að geðlæknum og sálfræðingum. Í þriðja lagi vék hún að nýjum kjarasamningum lækna sem virðast gera heilbrigðisstofnunum út um land erfitt um vik með að fá lækna í afleysingar.

Eydís Ásbjörnsdóttir spurði um ábyrgð og hlutverk annars vegar sveitarfélaga og hins vegar ríksins við þessa einstaklinga sem þurfa á þjónustu sálfræðinga og geðlækna að halda þegar hún er ekki til staðar og fólk hreinlega flyst á brott. Kristján Þór Júlíusson sagði megin verkefni heilbrigðiskerfisins að lækna fólk og síðan tæki við stuðningskerfi ríkis og/eða sveitarfélaga. Nú er unnið eftir geðheilbrigðisstefnu sem er til umfjöllunar í velferðarnefnd, verið er að færa út á heilbrigðisstofnanir sálfræðistöður, gert er ráð fyrir að ráða á næstu þremur árum hátt í fimmtíu sálfræðinga þar inn. Hvað varðar sérlæknana, er verið að skoða að færa ákveðinn kvóta fyrir þá inn á heilbrigðisstofnanir úti á landi. KÞJ sagðist ekki átta sig á þessum áhrifum kjarasamninga á ráðningu lækna til afleysinga. Gunnar Gíslason sagði það augljóst að þörf væri á aðgerðum í geðheilbrigðismálum um allt land, þannig að börn fái þá þjónustu sem þau þurfa. Ekki sé hægt að hafa fárveik börn inni í skólum landsins, hann nefndi dæmi um Hlíðaskóla. Sigríður Huld Jónsdóttir taldi brýnt að gleyma ekki aldurshópnum 16-18 ára, eins og oft vildi gerast. Mikil vöntun á úrræðum fyrir þennan hóp sem þarf að nálgast í gegnum framhaldsskólana. 

5. Millilandaflug – hver er staðan á fjármagni? Gunnar Gíslason var með innleiðingu og spurði um afdrif þess fjármagns sem starfshópur forsætisráðuneytis hefði lagt til. Brýnt sé að koma þessu máli í farveg.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði undirbúning málsins hafa gengið vel og búið að eyrnamerkja fjármagn fyrir það. Líklega verður málið lagt fyrir á ríkisstjórnarfundi nk. þriðjudag. Höskuldur Þórhallsson lýsti yfir áhyggjum af Isavia og að fyrirætlanir þeirra bentu til þess að millilandaflug verði allt um eina höfn, þær feli sömuleiðis í sér þjónustu- og öryggisskerðingu fyrir flugvelli á landsbyggðinni. Valgerður Gunnarsdóttir gladdist yfir orðum forsætisráðherra en tók undir áhyggjur Höskuldar af t.d. afnámi flugumferðarstjórnar á Akureyrarflugvallar, þrengingu brauta á Höfn og Húsavík og hækkun gjaldstofna. Allt beri að einum brunni, verið sé að toga fjármagn frá landsbyggðunum í uppbyggingu Keflavíkur. Jón Björn Hákonarson fagnaði orðum forsætisráðherra en nefndi jafnframt vandkvæði sem eru að koma upp í tengslum við millilandaflug á milli Lundúna og Egilsstaða (innanlandsleggur, landamæraeftirlit). Það skortir fjármagn til lögreglustjóra – og sýslumannsembætta.

Gunnar fagnaði orðum forsætisráðherra og tók undir áhyggjur HÞ af þjónustuskerðingu Isavia. Brýnt sé að standa fast gegn þessum áformum. Matthías Imsland sagði að í stjórn Isavia hefði komið fram að þetta væri fyrst og síðast starfsmannamál, það vantaði einfaldlega flugumferðarstjóra til Akureyrar. Tillaga starfsmanna hefði verið svolítið ótrygg, ekkert mætti út af bregða. GG brást við þeirri skýringu með upplýsingum um veikindadaga starfsmanna. HÞ sagði starfsmenn hafa lýst miklum áhyggjum af fyrirætlunum Isavia, einnig út frá öryggissjónarmiðum. 

6. Háskólaþjónusta á landsbyggðinni. Jón Björn Hákonarson var með innleiðingu. Hann vék sérstaklega að þjónustu eða þjónustuleysis Háskóla Íslands við landsbyggðirnar. Þetta væri spurning um byggðapólítik. Horft hefði verið til sóknaráætlana í því að samræma uppbyggingu mennta- og rannsóknastarfs til heilla fyrir uppbyggingu og þróun landshlutanna. Þá ræddi JBH um mismun í framlögum til landshluta sem væri óþolandi. Brýnt væri að sama reiknireglan gilti um landið allt og hún væri gagnsæ.

Sigrún Blöndal greindi frá afmælismálþingi sem SSA ætlar að standa fyrir á vordögum og á að hvelfast um menntamál. Líneik Anna Sævarsdóttir tók undir að brýnt væri að reiknireglur væru settar upp á borðið, ekki síst í tengslum við ný lög um opinber fjármál. Sigríður Huld Jónsdóttir sagði engum blöðum um það að fletta hversu miklu máli menntunarframboð skiptir fyrir byggðaþróun. Hún gagnrýndi hversu lítið Háskóli Íslands væri að sinna fjarnámi og landsbyggðunum; bæði í grunn- og framhaldsnámi, en ekki síður í endurmenntun. Þá stofnun verði að nýta betur í þágu landsbyggðanna. Þá verði að passa mjög vel upp á þessa fáu framhaldsskóla úti á landi í verknámi. Brýnt væri að þora að ræða um byggðastefnu og hver raunveruleg verðmæti í slíkri stefnu eru. Stefán Grímur Rafnsson vék að hugmyndum um framhaldsdeild á Vopnafirði, aðeins skorti upp á fjármögnun, brýnt að klára það mál.

Gunnar Gíslason sagði ljóst að Háskólinn á Akureyri hefði staðið sig best í fjarnámsframboði og nemendur þaðan væru líklegri til að setjast að úti á landi. Réttast væri að efla HA fremur en horfa til HÍ. Eydís Ásbjörnsdóttir sagði að stundum væri eins og það væri geðþóttaákvörðun kennara hvernig staðið væri að fjarnámi og þjónustu í fjarnámi. Steingrímur J. Sigfússon taldi að það vantaði upp á menningu fyrir fjarnámi í Háskóla Íslands. Hann tók undir góð orð um Háskólann á Akureyri en honum væri þröngt skorinn stakkurinn. Brýnt væri að skilgreina og umbuna HA fyrir starf hans í fjarnámi. SJS vék að lokum að framhaldsskóladeildinni á Vopnafirði, brýnt væri að klára það mál og tryggja fjármögnun þess. Arnór Benónýsson sagðist trúa því að ljósleiðarinn væri hin nýja fjárfesting í menntakerfinu, hann myndi þýða gjörbreytt menntaumhverfi. Sigríðu Huld greindi frá hugmyndum rektors Háskólans á Akureyri um tækninám á háskólastigi. Valgerður Gunnarsdóttir sagði það vissulega rétt að Háskóli Íslands væri aftarlega á merinni í fjarnámi og tók undir orð um að menningu skorti innan dyra. Þá greindi hún frá því að þær Þórunn Egilsdóttir myndu beita sér fyrir fjármagni til framhaldsdeildar á Vopnafirði. 

7. Önnur mál. Andrés Skúlason vék að ferðaþjónustunni og sagði ekki mega gleyma skipulagsmálum í því samhengi. Hann sagðist gjarnan vilja sjá að farið yrði í kortlagningu á áningarstöðum á Norðaustursvæðinu og innviðauppbyggingu. Um þetta yrði að eiga samtal og samstarf því verkefnið er tímafrekt og viðamikið. Höskuldur Þórhallsson þakkaði fyrir fundinn. Hann greindi frá vinnu við innviðauppbygginguna og minnti sömuleiðis á Stjórnstöð ferðamála. Pétur Þór Jónasson sagði frá ákvörðun stjórnar Eyþings um að gera svæðisskipulag að áhersluverkefni og Sigrún Blöndal greindi frá svipuðum fyrirætlunum hjá stjórn SSA. Jakob Sigurðsson tók upp skerta þjónustu Íslandspósts á landsbyggðunum sem væri mikið áhyggjuefni. Kristján Þór Júlíusson þakkaði einnig fyrir fundinn en ítrekaði orð sín um að landshlutasamtökin í Norðausturkjördæmi ættu að huga að grunnatvinnuvegum sínum og hvernig megi styrkja þá og styðja.

Arnór Benónýsson þakkaði fyrir frábæran fund. Hann tók undir orð KÞJ um að huga að grunnstoðunum, t.a.m. væri nýr búvörusamningur áhyggjuefni. AB vonaðist til þess að menn gengju út af þessum fundi með betri skilning á verkefnum sínum og fundurinn yrði jafn árangurssríkur og fyrri fundur. Að lokum hvatti hann til þess að gengið yrði til þess verkefnis að efla sveitarstjórnarstigið, það skorti mannauð til að reka það eins og staðan er í dag. 

Fundi slitið kl. 15.20.

Getum við bætt síðuna?