Fara í efni

Fundargerð - Fulltrúaráð - 28.01.2016

24.02.2016

 Fulltrúaráð Eyþings

Fundur í Hofi, Akureyri kl. 12:00
28. janúar 2016 
Fundargerð 5. fundar 

Formaður Eyþings, Logi Már Einarsson, setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.

Á dagskrá fundarins voru almenningssamgöngur, fyrirkomulag aðalfundar Eyþings og önnur mál.

Miðað við þau mál sem eru í vinnslu hjá Eyþingi er ljóst að annar fulltrúaráðsfundur verður haldinn fyrir sumarið. 

     1.  Almenningssamgöngur

Almenningssamgöngur hafa verið erfitt verkefni sem margir þekkja orðið vel. Á verkefninu hefur verið hallarekstur sem er óásættanlegur en við erum að ná að komast langleiðina að vinda ofan af því en ekki alveg. Meðal þess sem hefur orsakað hallareksturinn er að endurgreiðsla olíugjalds var hætt, einkaleyfið hefur ekki haldið, deilur um rekstur leiðar 57 og umsýslukostnaður Strætó bs. sem hefur verið ríflegur.

Það var dýrmætt að fá ályktun frá aðalfundi Eyþings um almenningssamgöngur en það hjálpaði til við að fá viðbrögð frá innanríkisráðherra.

Við höfum átt tvo fundi með ráðherra sem er viljugur til að aðstoða. Það tók hann tíma að átta sig á þessu máli. Ráðherra hefur sýnt því skilning að við getum ekki látið þetta verkefni deyja út. Einnig áttum við fund með fjárlaganefnd. Þar komum við því á framfæri að ef almenningssamgöngur hjá Eyþingi myndu falla upp fyrir þá væri ekki almenningssamgöngur á landinu öllu, reyndar myndi vanta mjög stóran hluta. Þá hafa einnig verið fundir með Sigurbergi, vegamálastjóra, Guðjóni Bragasyni og Markaðsstofu ferðamála. Geir Kristinn Aðalsteinsson hefur leitt viðræður við SSV um leið 57 í samráði við Þórð Stefánsson, Pétur Þór og Loga Má.

Við fengum Þórarinn V. Þórarinsson lögmann til að fara ítarlega yfir samninga okkar við ríkið. Lögfræðiálit hans styrkir okkar málstað og er afdráttarlaust. Forsendubrestur hefur átt sér stað og þar með er tilefni til riftinga samninga.

Fjárlaganefnd setti 75 milljónir inn í verkefnið sem uppbót m.a. fyrir niðurgreiðslu olíugjaldsins. Þær hugmyndir hafa verið uppi að taka hluta af þessari upphæð og greiða upp fortíðarvanda okkar.

Það er frumvarp í smíðum sem á að tryggja einkarétt á leiðum almenningssamgangna eins og hægt er.

Nú er einnig verið að breyta þróunarstyrknum og okkar hluti mun hækka. Það vantar ekki mikið upp á svo við náum að reka verkefnið á núlli eða um 13.-17. milljónir. Allt hjálpar til.

Fyrirhugaðar eru gjaldskrárbreytingar sem eru nánast í höfn.

Samkomulag við SSV um leið 57 er langt komið. Þar höfum við fengið í gegn að leið 57 verði gerð upp sérstaklega en við höfum lengi barist fyrir því.

Það eru því meiri hreyfingar í kringum verkefnið en verið hefur en ekkert sem telur í kassann enn.

Pétur Þór fjallaði um upplýsingafund sem landshlutasamtökin áttu með Strætó bs. Fleiri samtök en Eyþing hafa talað um of háan umsýslukostnað Strætó bs. Á fundinum var farið yfir þá þjónustu sem Strætó bs. veitir. Strætó bs. sér um útboðin, tilboðin og hanna tímatöflur og annað í kringum það sem og upplýsingamiðlun. Einnig rekur Strætó bs. þjónustuver en bílstjórarnir eru í nánu samstarfið við það og fá þar upplýsingar um ýmsa þætti sem snúa beint að akstrinum.

Strætó bs. er búið að taka upp Strætó-app á höfuðborgarsvæðinu sem er að slá í gegn. Um 20% farþega nýtti sér appið í desember og spá um 25-30% notkun í janúar. Þarna er að koma inn nýr hópur sem er væntanlega unglingar. Landshlutasamtökin vilja fá appið líka á landsbyggðina sem fyrst. Þó það sé ekki alveg ljóst hvernig hópskipting farþega er hjá okkur er mikið í húfi að höfða til unglinga sem er líklega stærsti hlutinn af notendum hér.

Strætó bs. er að skipta út sjóðsvélum í bílunum. Í kjölfarið verður algjör bylting í gagnavinnslu, þá fáum við rauntölur á farþegafjölda. Landshlutasamtökin hafa verið að kalla eftir þessu og þetta hefur vantað hjá okkur sérstaklega á leið 57.

Ný heimasíða Strætó bs. er að fara í loftið en margir hafa kallað eftir því.

Strætó bs. óskaði eftir að samræma vetrar- og sumaráætlanir milli landshlutasamtaka. Þá var rætt um samstarf við Vegagerðina en það skortir á að tekið sé mið af almenningssamgöngum og þjónusta í samræmi við það.

Framvegis verða reglulegir upplýsingarfundir milli Strætó bs. og landshlutsamtakanna.

Strætó bs. er hlynnt gjaldskrárbreytingum og er að reyna að útfæra agnúa sem fylgja þeim í miðakerfinu. Það eru mikil afsláttarfargjöld í gangi í hefðbundinni sölu en appið er einungis með tvö gjöld, fullt gjald og svo 50% gjald. Þannig að nú er tvennskonar fyrirkomulag í gangi á höfuðborgarsvæðinu. Gangi fyrirhugaðar gjaldskrárbreytingar í gegn mun það skila nokkrum milljónum í kassann.

Nokkur umræða varð um tímaáætlanir, gjaldskrá og þá bíla sem notaðir eru í aksturinn. Þá var rætt um að kynna farþegatölur betur og svara gagnrýnisröddum. Mikilvægt að horfa á allt landið ekki bara leiðirnar sem standa undir sér. Einnig rætt um hvort og hvernig ferðamenn nýttu sér almenningssamgöngur. Samhugur um mikilvægi almenningssamgangna og nauðsyn þess að halda áfram með það verkefni. 

      2.  Aðalfundur Eyþings

Á síðasta aðalfundi kom fram réttmæt gagnrýni á fyrirkomulag aðalfundar. Á fyrsta fundi stjórnar eftir aðalfund var Karli Frímannssyni falið að koma með hugmyndir um úrbætur. Dagskrá síðasta aðalfundar fór fram úr tímaáætlun og lítill tími gafst til stjórnmálaumræðna. Almennt álit að fundirnir séu of langdregnir og þurrir. Nauðsynlegt að gefa tíma fyrir meiri umræður. Logi Már hvatti alla til að senda breytingartillögur til Péturs Þórs, framkvæmdarstjóra og hann mun koma þeim til Karls Frímannssonar.

Á fulltrúaráðsfundinum komu fram tillögur um að senda fundarmönnum skýrslu stjórnar og Menningarráðs fyrir aðalfund og stytta framsögu um þær á fundinum. Einnig komu fram efasemdir um nauðsyn þess að fá erindi frá aðilum utan frá, sérstaklega með tilliti til allra ráðstefna og funda sem sveitarstjórnarfólk sækir. Einnig kom fram að mikilvægt væri að fá ráðamenn á aðalfundinn en Eyþing ætti að koma sínum skilaboðum til þeirra en ekki öfugt.

     3.  Önnur mál

Sóley Björk Stefánsdóttir óskaði eftir umræðu um Svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs.

Logi Már upplýsti fundinn um að bæjarstjórn Akureyrar ályktaði að Eyþingi, í samvinnu við SSNV, yrði falið að boða til málþings/samráðsvettvangs um svæðisáætlunina.

Framkvæmdastjóra var falið að boða til slíks fundar sem allra fyrst.

Linda Margrét Sigurðardóttir kynnti fyrir fundarmönnum hvað væri að gerast í sambandi við  ljósleiðaravæðingu Íslands.

Fjarskiptasjóður fékk 500 milljóna fjárveitingu á fjárlögum 2016 til uppbyggingar ljósleiðarakerfa í dreifbýli utan markaðssvæða.

Það liggur fyrir, vegna framkvæmda 2016, að hvorki tekst að formgera í tæki tíð svokallaða leið tvö, samstarfsleið-landsátak í samvinnu ríkis og sveitarfélaga né aðrar leiðir svo sem að vinna landsátakið í nánu samstarfi við fjarskiptafyrirtæki í eigu orkufyrirtækja í þeim tilgangi að nýta sem best samleið með öðrum veituframkvæmdum. Starfshópurinn mun vinna áfram að útfærslum á þessum og möulega öðrum leiðum.

Fyrir liggur að einhver sveitarfélög eru langt komin í undirbúningi eigin ljósleiðarauppbyggingar árið 2016. Að mati starfshópsins er mikilvægt að lágmarka neikvæð áhrif þess á áform sveitarfélaga, að vinna tefjist við endanlega útfærslu stjórnvalda á Ísland-ljóstengt. Slík töf gæti leitt til þess að sveitarfélög eða markaðsaðilar halda frekar að sér höndum í uppbyggingu ljósleiðarakerfa árið 2016. Til að mæta þessari stöðu hefur verið ákveðið að gefa reiðubúnum sveitarfélögum kost á því að bjóða í þá fjármuni sem eru tiltækir. Markmið stjórnvalda árið 2016 er að sem flestar byggingar á landsvísu fái tengingu.

Í drögum um úthlutun styrkja er styrkjunum skipt á milli tiltekinna svæða árið 2016 í hlutfalli við fjölda ótengdra staða. Norðaustursvæðinu þ.e. Norðurlandi eystra og Austurlandi hefur verið úthlutað allt að 125. milljónum með um það bil 800 ótengda staði í dreifbýli.

Þau sveitarfélög í Eyþing sem eiga kost á að bjóða í þessa fjármuni eru Fjallabyggð, Langanesbyggð, Norðurþing, Svalbarðshreppur og Þingeyjarsveit.

Starfshópurinn áætlar að skila áætlunum sínum til ráðherra í lok þessa mánaðar.

Í umræðum kom fram að Svalbarðshreppur og Þingeyjarsveit stefna á að taka þátt í þessu útboði Fjarskiptasjóðs. Þau sveitarfélög sem þegar hafa hafið framkvæmdir eða hafa lokið framkvæmdum geta ekki sótt um styrk. Einungis fyrrnefnd sveitarfélög geta sótt um styrkinn fyrir ákveðna staði/tengingar í sveitarfélögunum. 

Fleiri mál voru ekki rædd.

Fundi slitið kl. 13.00

Fundarritari: Linda Margrét Sigurðardóttir

 

Mættir fulltrúar á fulltrúaráðsfundi Eyþings 28. janúar 2016

Sveitarfélag

 

Aðalfulltrúar

 

Varafulltrúar

Fjallabyggð

X

Kristinn Kristjánsson

 

S. Guðrún Hauksdóttir

Fjallabyggð

X

Steinunn María Sveinsdóttir

 

Ríkharður Hólm Sigurðsson

Dalvíkurbyggð

X

Bjarni Th. Bjarnason

 

Heiða Hilmarsdóttir

Dalvíkurbyggð

X

Valdís Guðbrandsdóttir

 

Gunnþór E. Gunnþórsson

Hörgársveit

X

Axel Grettisson

 

 

Akureyrarbær

X

Logi Már Einarsson

 

Guðmundur B. Guðmundsson

Akureyrarbær

X

Eva Hrund Einarsdóttir

 

Silja Dögg Baldursdóttir

Akureyrarbær

X

Ingibjörg Ólöf Isaksen

 

Sigríður Huld Jónsdóttir

Akureyrarbær

 

Matthías Rögnvaldsson

 

Sigurjón Jóhannesson

Akureyrarbær

X

Sóley Björk Stefánsdóttir

 

Margrét Kristín Helgadóttir

Eyjafjarðarsveit

 

Karl Frímannsson

 

Jóhanna Dögg Stefánsdóttir

Svalbarðsstrandarhr.

X

Eiríkur H. Hauksson

 

 

Grýtubakkahreppur

X

Þröstur Friðfinnsson

 

Ásta F. Flosadóttir

Þingeyjarsveit

X

Arnór Benónýsson

 

 Margrét Bjarnadóttir

Skútustaðahreppur

X

Jón Óskar Pétursson

 

Yngvi Ragnar Kristjánsson

Norðurþing

X

Sif Jóhannesdóttir

 

Friðrik Sigurðsson

Norðurþing

X

Olga Gísladóttir

 

Óli Halldórsson

Tjörneshreppur

X

Steinþór Heiðarsson

 

 

Svalbarðshreppur

X

Sigurður Þór Guðmundsson

 

Sigurður Jens Sverrisson

Langanesbyggð

X

Hilma Steinarsdóttir

 

 

 

Rétt til setu á fundinum áttu 20 fulltrúar frá 13 sveitarfélögum. Alls mættu 18, sjá ofangreinda töflu.

Auk ofangreindra fulltrúa sátu fundinn:

Linda Margrét Sigurðardóttir, starfsmaður Eyþings

Pétur Þór Jónasson, framkvæmdastjóri Eyþings

Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, menningarfulltrúi Eyþings

Getum við bætt síðuna?