Fara í efni

Fundargerð - Fulltrúaráð - 26.05.2015

09.09.2015

Formaður Eyþings, Logi Már Einarsson, setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.

Tilefni fundarins eru áform menntamálaráðherra að sameina eða auka samvinnu milli framhaldsskóla. Sveitarstjórnarmenn hafa ekki fengið upplýsingar um þessi áform. Því var ákveðið að kalla til þessa fundar og heyra í stjórnendum skólanna og fá að vita um hvað þetta snýst.

Stjórn Eyþings hefur samþykkt eftirfarandi bókun um málefni framhaldsskólanna:

Stjórn Eyþings hvetur menntamálaráðherra til að fara afar varlega í öll áform um sameiningu framhaldsskólanna og leggur áherslu á að haft verði náið samráð við heimamenn um málið. Nauðsynlegt er að gefinn sé tími til nauðsynlegrar umræðu um allar hugmyndir sem fram kunna að koma

Stjórnin leggur áherslu á mikilvægi jafnréttis til náms, óháð búsetu og efnahag. Framhaldsskólarnir eru gríðarlega mikilvægur þáttur í að jafna búsetuskilyrði í landshlutanum og landinu öllu. Þá hafa þeir víða haft mjög jákvæð áhrif á byggðaþróun.

Framhaldsskólarnir hafa hver um sig þróast með ólíkum hætti og skapað sér sérstöðu. Þessar ólíku áherslur eru mjög mikilvægar í því að ná til ólíkra hópa ungmenna, hvetja þau til mennta og minnka brottfall.

Fleiri hafa sent frá sér bókun um málið t.d. AFE og Norðurþing. Bæjarráð Akureyrar mun taka málið fyrir á fundi þann 28. maí nk.

Á fundinum eru mættir fulltrúar framhaldsskólanna á svæðinu. Erna Björnsdóttir formaður skólanefndar Framhaldsskólans á Húsavík (FSH), Jón Már Héðinsson skólameistari Menntaskólans á Akureyri (MA), Hjalti Jón Sveinsson skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri (VMA) og Ágúst Torfi Hauksson formaður skólanefndar VMA. Lára Stefánsdóttir skólameistari Menntaskólans á Tröllaskaga (MTR) boðaði forföll. Arnór Benónýsson kemur frá Framhaldsskólanum á Laugum í fjarveru Halls Birkis Reynissonar skólameistara.

Aðeins eitt mál er á dagskrá en það er málefni framhaldsskólanna. Byrjum á því að gestir tjá sig um málið og svo er orðið frjálst.

Erna Björnsdóttir: Ég er hér í fjarveru Dóru Ármannsdóttur skólameistara sem er erlendis. Skólanefnd FSH hefur sent frá sér ályktun í anda þeirrar sem stjórn Eyþings sendi frá sér. Það þarf að taka þessi skref varlega í samráði við heimafólk. Upplifun Dóru af fundi í menntamálaráðuneytinu var að ferlið væri komið langt í ráðuneytinu án þess að tala við skólanefndir, sveitarstjórnir og skólameistara. Fulltrúar skólans voru óundirbúnir á fundinum en mótmælin valda því að málið fer í smá bakkgír. Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra segir að sameining sé ekki á dagskránni en frekar horft til samvinnu. Hagstætt fyrir litla skóla að komast í samvinnu, aukið námsframboð og fleira. Við erum tilbúin að skoða allt út frá réttum forsendum, að stjórnendur geti tekið skrefin en þetta tekur tíma allt að tvo ár. Best væri að stjórnendur hugi fyrst að sínum skóla og svo geta allir skólar á svæðinu talað saman, ekkert endilega þeir sem menntamálaráðuneytið setti saman. Í bókuninni frá skólanefnd FSH kemur fram að gera þarf sér grein fyrir og viðurkenna að það sé dýrara að reka litla skóla. Ef menn vilja hafa skóla í minni byggðum þarf að viðurkenna það.

 Jón Már Héðinsson: Ég vil byrja á því að þakka fyrir að fá að koma hingað. Ég tek undir með Ernu, þetta kom flatt upp á okkur stjórnendur og á fundinum 11. maí sl. í menntamálaráðuneytinu var látið að því liggja að það sé búið að vera samráð við stjórnendur en ég kannast ekki við það. Þessi mál voru ekki rædd á árlegum fundi sem ráðuneyti stendur fyrir með skólastjórnendum. Á fundi í ráðuneytinu þann 11. maí var talað um að inn í sameiningu gæti flokkast samstarf. Sameining er öðruvísi en samstarf. Það er mjög knappur tímarammi í kringum allt þetta. Þó ráðherra segi eitt, þá er starfsfólk í ráðuneyti að vinna sína vinnu enn. Við eigum að koma með tillögu að sameiningu 11. júní nk. Það er ekki samræmi milli ráðherra og skilaboða frá embætismönnum í ráðuneyti.

Ástæða fyrir þessu er fækkun nemenda og hvernig hægt er að ná samleiðaráhrifum í rekstri. Eftir fundinn með ráðuneytinu þá fannst mér að það væri hugmynd ráðuneytisins að það ætti að kosta álíka mikið að reka þessa skóla og það kostar að reka tvo stóru skólana, VMA og MA. Það ætti sem sagt að nota einingaviðmið stóru skólanna.

Það er mikill hraði í þessu máli, það þarf að skýra hugtakanotkunina, samvinna og sameiningar er ekki það sama. Mín tilfinning að það ætti að hræða okkur í samvinnu en það er meira sem hangir á spýtunni.

Hjalti Jón Sveinsson: Orð ráðherra eru ekki sönn það er mjög alvarlegt og gerir okkar orð og upplifun að engu. Ekkert samráð haft við okkur, eina umræða skólameistara og ráðuneytis um sameiningu var á fundi í október sl. Þar áttu hópar skólameistara að koma með tillögu hvernig hugsanlega væri hægt að sameina skóla á Íslandi. Þessar hugmyndir komu okkur mjög í opna skjöldu á fundi, skammur fyrirvari. Við höfum engar hugmyndir af hverju þessir skólar eru paraðir saman það er VMA og Laugar og svo MA, FSH og MTR.

Hver nemandi í VMA kostar um 1.1 millj. en hver nemandi á Laugum um 2 millj. en markmið ráðuneytisins að það verði sami kostnaður pr nemanda. Hugmyndafræðin er ekki dýpri en þetta. Hvers vegna er ekki verið að ræða sameiningu framhaldsskóla í öðrum landshlutum. Selfoss og Vestmannaeyjum. Akranes, Borgarnes og Grundarfjörður. Engar aðgerðir annars staðar en hér.

Ágúst Torfi Hauksson: Þetta kom allt skyndilega, við í skólanefnd vissum ekkert. Það var boðað til fundar en þar kom í ljós að ráðuneytið var búið að ákveða hvaða skólar ættu að sameinast og fulltrúar þeirra skóla héldu fundi saman. Hvernig var ákveðið hvaða skólar voru valdir saman? Ekkert plagg til um það eða það var allavega ekki sýnt á fundinum þrátt fyrir fyrirspurnir. Svo virðist sem engin rekstrargreining hafi farið fram og engin vinna við að meta fjárhagslegan ávinning eða auka kostnað, sé farin af stað. Tímaramminn sem settur hefur verið er galinn miðað við þetta. Maður spyr sig hvort það þurfi að keyra þetta í gegn til að festa fyrir næstu stjórnarskipti?

Arnór Benónýsson: Framhaldsskólinn á Laugum er lítill skóli og hefur barist í bökkum lengi. Hann hefur verið að skapa sér sérstöðu. Hallur skólameistari er að hætta og ráðuneytið hefur gefið misvísandi svör um hvernig á að ráða í staðinn fyrir hann. Skólanefndin sendi inn nafn en það hefur ekki verið staðfest. Við höfum fengið þær upplýsingar að hugsanlega eigi að auglýsa en ef af sameiningu verði þurfi ekki að auglýsa. Af hverju er þá ekki búið að auglýsa eftir skólameistara líkt og búið er í öðrum framhaldsskólum. Við skiljum ekki hvernig staðið var að ákvörðun um hvaða skólar ætti að sameina. Ég er sammála öðrum hér að það er ekkert annað á borðinu en frá starfmönnum ráðuneytis um þennan fund 11. maí.

Logi Einarsson: Takk fyrir þetta. Staðan er alvarlegri en ég hélt ef eitthvað er. Það er kveðið fast að orði.

Logi gefur orðið laust.

Steinunn M. Sveinsdóttir: Ég vil byrja á því að þakka fyrir fundinn. Þetta kemur okkur sveitarstjórnarfólki í opna skjöldu, spurðum í kjördæmaviku í fyrra hvort þetta væri á borðinu en þá kannaðist enginn við þetta. Illugi er að fara fram úr sér og embættismenn hafi meira að segja en ráðherra. Við höfum miklar áhyggjur af þessu, fréttum bara af þessu í gegnum fjölmiðla. Það er algjörlega ótækt, við verðum að láta heyra í okkur. Skólamál eru ekki einkamál ríkisins. Fjallabyggð greiðir hluta af gjöldum Menntaskólans á Tröllaskaga og AFE skipar fulltrúa í skólanefnd. Við verðum að segja hingað og ekki lengra. Þetta er gríðarlegt hagsmunamál. Við erum sterkt svæði og skólarnir eru hluti af því. Skólarnir eru gríðarlega stór hluti af sveitarfélögum. Fækkun nemanda og annað á ekki við á Tröllaskaga. Menntaskólinn þar var valin stofnun ársins í sínum flokki. Illugi verður á fundi á Ólafsfirði á þann 28. maí, ég hvet alla til að mæta þar.

Við þurfum einnig að horfa á að þetta snýst ekki bara um nemendur heldur eru skólarnir stórir vinnustaðir með háskólamenntað fólk. Við verðum að standa vel saman og látum heyra í okkur.

Jón Már Héðinsson: Það hefur lengi verið vitað að það er fækkun á svæðinu, rætt um 3ja ára skólanám og fleira. Ég hélt að þetta væri aðgerð til að hrista okkur upp svo við kæmum með tillögur um samstarf sem hald væri í og gæti styrkt samfélagið. Það hefur blasað við að barnafjöldi fer niður og búið að vera ljóst lengi, þannig að það stendur líka upp á okkur að vera búin að hugsa fyrir það horn. Ætlum við að vera fyrri til og leysa úr þessu á þann hátt sem er samfélaginu í hag en ekki bara taka skipunum að ofan. Við erum að tala um að styrkja byggðina á svæðinu og megum ekki vera hissa á færri börnum, þetta hefur verið þróunin í mörg ár og er áfram.

Steinunn M. Sveinsdóttir: Af hverju má þá ekki taka 25 ára inn?

Jón Már Héðinsson: Þessi 25 ára regla er annar pakki. Í forinnritun hafi 200 sótt um í VMA, 192 um í MA, 19 um í MTR, 19 um í FSH og 13 um á Laugum. Niðurstöðutölur verða aðrar í haust, þetta er pólitíkst kynnt af ráðherra. Meðalaldur er 22 ár í VMA og MTR, 20 ár í FSH, 19 ár á Laugum og 18 ár í MA. Þarna er verið að blanda ýmsu saman og látið líta út fyrir að vera eitt mál. Það er meiri aðsókn í MTR en kemst að.

Erna Björnsdóttir: Eins og allir vita er að byrja uppbygging á Bakka og það að koma með svona hugmyndir er galið. Ein af forsendum til að flytja er að hafa framhaldsskóla. FSH er með ákveðin fjárframlög eins og við séum með 130 nemendur en núna er talað um að það verði ekki þannig næst. Þá verði hver skóli reiknaður út samkvæmt reikniplani og við þá með 90 nemendur og getum ekki rekið skólann á því fjármagni sem þeim fylgir. FSH er tæplega 30 ára gamall skóli og er mjög mikilvægur í samfélaginu. Það er ekki mikið um eldri nemendur þar sem það er búið að metta þann markað.

Jón Óskar Pétursson: Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ekki er haft samráð. Illa af stað farið. Ég skil hvað á að fara með sameiningu, væntanlega lækka kostnað og fleira en í hverju felst samvinna?

Tengist þetta 3ja ára breytingunni? Ég óttast að boltinn sé farinn að rúlla, t.d. þegar sameina átti heilbrigðisstofnanir, það var barist gegn því en það gekk í gegn. Hvernig vildum við sjá þetta? Verðum við ekki að axla ábyrgð í stað fyirr að berjast gegn. Þetta mun gerast.

Hjalti Jón Sveinsson: Stytting framhaldsskólanáms leiðir til fækkunar nemenda, það eru ekki allir skólar sem ráða við það. Fækkun bæði nemenda og kennara. Við erum tilbúin í samvinnu á margvíslegan hátt. Fjarkennslu bóklegs náms og kenna verknámið t.d. um helgar líkt og gert er á Sauðárkróki. Það er hægt að gera ýmislegt, t.d. lotunám sem er opið fyrir alla og allt svæðið. Það er nauðsynlegt að hækka menntunarstig á svæðinu. Það er auðvelt að koma samstarfi á.

Steinunn M. Sveinsdóttir: MTR er með fjarnám í samstarfi við Fjarmenntaskólann.

Hjalti Jón Sveinsson: 12 litlir skólar sem vinna saman í gegnum Fjarmenntaskólann en ekki samvinna við stærri skóla. Vildu ekki samstarf við VMA en vildu vinna saman frekar.

Við erum til í samstarf ef eftir því er leitað. En smærri skólar þurfa að sækja eftir því. VMA er með 100 nemendur úr Þingeyjasýslum og annað eins úr Fjallabyggð og Dalvíkurbyggð. Svo erum við með heimavist á Akureyri þar sem nemendur undir 18 ára ganga fyrir. Það er ákveðið samstarf að hafa 350 nemendur á heimavist.

Logi Einarsson: Ég er með tvær spurningar. Í fyrsta lagi: Þekkið þið eða hafið skoðað álit Andra Árnason um ólögmæti sameiningar Iðnskólans í Hafnarfirði og Tækniskólans ehf? Og í öðru lagi: við ættum að hafa frumkvæði að næstu skrefum og skoða með hvaða hætti við getum gert það. Eyþing er góður vettvangur fyrir slíka samvinnu og gæti staðið að einhverjum hópi með aðkomu sveitarstjórnarmanna og framhaldsskólanna. Einnig kemur til greina að skoða að gera áhersluverkefni um menntun sem hluta af sóknaráætlun Norðurlands eystra.

Hjalti Jón Sveinsson: Þegar Vaðlaheiðagöng verða komin erum við komin með eitt skólasvæði. Hugsanlega verður hægt að vera með útibú á litlu skólunum. Framtíðarsýn að koma á stóru samstarfi.

Jón Már Héðinsson: Það eru heilmörg tækifæri í fjar-, dreif- og lotunámi af ýmsu tagi. Meginmálið er að við sjáum að það geti verið breyting en mikilvægt er að verja kennitölur skólanna, að þeir geti vaxið og stækkað sem stofnanir. Skólarnir hér á Akureyri bjóða upp á langar línur, þeir þola ekki fækkun heldur. Nemandi á Dalvík sem ætlar að fara á eðlisfræðibraut hefur val um annað hvort MA eða MR, það eru kostirnir. Og þeir sem ætla í verknám hafa val um VMA eða Tækniskólann. Skólarnir hér þurfa að vera öflugir til að nemendur af svæðinu geti sótt nám á svæðinu. Frábær leið að stilla þessu upp í Sóknaráætlun. Það að fólk vilji búa á stöðunum í kringum Akureyri af því að það eru öflugir skólar þar, styrkir skólana á Akureyri, það fjölgar fólki á svæðinu. Þurfum að snúa þessu okkur í hag næstu 10 árin.

Hjalti Jón Sveinsson: Varðandi hvort þetta er löglegt þá veit ég það ekki. Ég spurði að því hvort öllum skólameisturum og starfsfólki á Laugum yrði sagt upp. Vald ráðherra er mjög mikið, hann getur fært okkur skólameisturum ný verkefni.

Arnór Benónýsson: Starfsmannamál í skólum eru mjög flókin. Að setja menntunarverkefni inn í Sóknaráætlun er góð hugmynd. Á Laugum eru 30 nemendur frá Þingeyjarsýslum en 180 manns í skólanum í heild. Svo erum við með útibú á Þórshöfn sem hefur mælst mjög vel fyrir. Sóknaráætlunarverkefni sem horfir á skólastarf er spennandi. Samstarf skóla og símenntunarstöðvar. Háskólamenntun enn eitt tækifæri. Geta verið margir skólar með mismunandi stefnur. Af hverju ekki sameina alla í einn skóli?

Þröstur Friðfinnsson: Tengist þetta sameiningum háskólanna og því að það gekk ekki eftir? Valdið og hver stjórnar hverju? Á kynningu hjá ISAVIA var fjallað um 25 ára áætlun á Keflavíkurflugvelli og ekki minnst á aðra flugvelli, þeir eiga að vera með stefnu stjórnvalda en ráðherra og stjórnmálamenn tala með öðrum hætti. Ráðherra segir eitt og embættismenn annað og ekki hægt að komast í rökræðu við neinn.

Hjalti Jón Sveinsson: Ráðherra hefur ekki gert sér grein fyrir því hvað þetta var komið langt. Allir bregðast ókvæða við og ráðherra er að reyna að bakka með málið. Gaman að heyra hvað hann segir á fundinum á Ólafsfirði. Menn eiga að segja satt.

Steinunn M. Sveinsdóttir: Við erum að reyna að fylgjast með í fjölmiðlum en íbúar koma til okkar og eru skelkaðir en við getum ekkert sagt. Ég veit nákvæmlega sama og þeir. Ekkert samband haft við okkur. Illugi var í Fjallabyggð fyrir mánuði síðan en sagði ekkert.

Logi Einarsson: Fram hefur komið að Eyþingi hafi verið sent bréf um málið en það hefur enn ekki borist.

Arnór og Steinunn M.: Þingeyjarsveit og Fjallabyggð hafa fengið bréf en það kemur lítið fram í því. Það birtist frétt á heimasíðu ráðuneytisins eftir fundinn þar sem segir frá þessum fundi um aukið samstarf og/eða sameiningu.

Ágúst Torfi Hauksson: Það á að vera samstarf, það er nú þegar og má efla. Það var lagt kolrangt af stað með þetta verkefni og verður ekki unnið svona hratt. Það er ekki heillavænlegt. Betra að undirbúa betur. Við auglýstum eftir kjarki til að bakka, viðurkenna að þau væru komin of langt, byrja upp á nýtt og vinna saman. Engu svarað með þetta. Við þurfum að stoppa þessa vinnu og leggja af stað aftur. Að allir setjist niður saman. Allir skólarnir og tali um hvað við getum gert í stað þess að vinna í þessari stöðu sem búið er að setja okkur í.

Logi Einarsson: Getum við þá verið sammála um að það séu skilaboð fundarins að hvetja ráðherra og ráðuneyti til að draga til baka og hefja undirbúning um samvinnu skólanna með okkur?

Niðurstaða fundarins að mynda breiðan samstarfshóp um skólamála á Norðurlandi eystra og gera menntamál að áhersluverkefni í sóknaráætlun.

Ágúst Torfi Hauksson: Það getur vel verið að það eigi að sameina en það verður að liggja fyrir einhver plögg, einhverjar forsendur sem þarf að vega og meta. Taka ákvörðun sem er heillavænleg fyrir alla. Þurfum að bakka og vinna heimavinnuna.

Arnór Benónýsson: Við eigum að óska eftir að ráðherra draga ákvörðunina formlega til baka og lýsa því yfir að við séum til í samvinnu. Við erum tilbúin í breytingar en rangt farið af stað. Þingeyjarsveit vill stoppa þetta en er til í að ræða allt.

Eiríkur H. Hauksson: Þetta er samfélagsverkefni og byggðasjónarmið, við þurfum að senda sveitarstjórnarmenn líka. Þurfum að fá alþingismenn að borðinu líka.

Ágúst Torfi Hauksson: Ég hringdi í nokkra hjá menntamálanefnd Alþings en þeir vissu ekkert um þetta og spurðu mig frétta.

Logi Einarsson: Því miður komumst við ekki lengra í dag. Þessi fundur er búinn að vera mjög gagnlegur og gott að heyra þessi sjónarmið.

Ef niðurstaðan er sú að við ætlum að standa saman og stoppa þessa umræðu þá er Eyþing vettvangur til þess og fjármagnaður til að búa til sókn fyrir svæðið. Á fáum stöðum peningum eins vel varið eins og menntamálum.

Sóknaráætlun um menntun og bjóða stjórnvöldum að koma að þeirri vinnu. Óska eftir fulltrúa ráðuneytis í þá vinnu ásamt sveitarstjórnarmönnum. Þetta eru forsendur þessa svæðis og þá stjórnum við ferðinni. Eyþing er að vinna að sóknaráætlun í atvinnulífi og af hverju ekki að búa til sóknaráætlun í menntun eins og í öðru?. Við skulum taka þann tíma sem þarf að taka í þetta verkefni, við höfum þau gögn sem þarf til að vinna úr þessu. Við skulum taka frumkvæðið í þessum málum.

Að ýmsu leyti er betra að þetta sé bara á Norðurlandi eystra því þá berjumst við bara hér en ekki um allt land. Ef við myndum láta þetta yfir okkur ganga hér yrði það þá ekki gert annars staðar líka?.

Kærar þakkir til ykkar sem komu frá skólunum. Við munum hafa samband við ykkur eftir þörfum. Gestir fundarins yfirgáfu fundinn kl. 14.30. Eftir sat fulltrúaráð Eyþings.

Við erum þá sammála um að vísa þessu til stjórnar. Stjórnin tekur fundargerð til umfjöllunar á næsta fundi sínum og ályktar að nýju um málið. Lögð verði áhersla á eftirfarandi:

  1. Áform ráðuneytisins verði dregin til baka
  2. Erum reiðubúin til samstarfs við stjórnvöld
  3. Stefnum að átaksverkefni um menntunarmálin þ.m.t. framhaldsskólana

Uppbyggingarsjóður og átaksverkefni eru á höndum Eyþings. Við getum formað átaksverkefni um ákveðin mál.

Fram kom í kjölfar þessa að nauðsynlegt væri að leggja áherslu á að stjórnin fengi frekari upplýsingar beint frá ráðuneytinu áður en hún tæki frekari ákvörðun um málefni framhaldsskólanna.

Logi Einarsson: Burt séð frá þessu öllu þá er ekki betra verkefni til að gera að átaksverkefni.

Fundi slitið kl. 14.36

Fundarritari: Linda Margrét Sigurðardóttir

 

Mættir fulltrúar á fulltrúaráðsfundi Eyþings 26. maí 2015

Sveitarfélag

 

Aðalfulltrúar

 

Varafulltrúar

Fjallabyggð

 

Sigurður Valur Ásbjarnarson

 

S. Guðrún Hauksdóttir

Fjallabyggð

x

Steinunn María Sveinsdóttir

 

Ríkharður Hólm Sigurðsson

Dalvíkurbyggð

 

Bjarni Th. Bjarnason

 

Heiða Hilmarsdóttir

Dalvíkurbyggð

x

Valdís Guðbrandsdóttir

 

Gunnþór E. Gunnþórsson

Hörgársveit

x

Axel Grettisson

 

 

Akureyrarbær

x

Logi Már Einarsson

 

Guðmundur B. Guðmundsson

Akureyrarbær

x

Eva Hrund Einarsdóttir

 

Silja Dögg Baldursdóttir

Akureyrarbær

 

Ingibjörg Ólöf Isaksen

 

Sigríður Huld Jónsdóttir

Akureyrarbær

 

Matthías Rögnvaldsson

 

Sigurjón Jóhannesson

Akureyrarbær

x

Sóley Björk Stefánsdóttir

 

Margrét Kristín Helgadóttir

Eyjafjarðarsveit

x

Jón Stefánsson

 

Jóhanna Dögg Stefánsdóttir

Svalbarðsstrandarhr.

x

Eiríkur H. Hauksson

 

 

Grýtubakkahreppur

x

Þröstur Friðfinnsson

 

Ásta F. Flosadóttir

Þingeyjarsveit

x

Arnór Benónýsson

 

 Margrét Bjarnadóttir

Skútustaðahreppur

x

Jón Óskar Pétursson

 

Yngvi Ragnar Kristjánsson

Norðurþing

x

Sif Jóhannesdóttir

 

Friðrik Sigurðsson

Norðurþing

x

Olga Gísladóttir

 

Óli Halldórsson

Tjörneshreppur

 

Steinþór Heiðarsson

 

 

Svalbarðshreppur

 

Sigurður Þór Guðmundsson

 

Sigurður Jens Sverrisson

Langanesbyggð

 

Hilma Steinarsdóttir

 

 

 

Rétt til setu á fundinum áttu 20 fulltrúar frá 13 sveitarfélögum. Alls mættu 13, sjá ofangreinda töflu.

Auk ofangreindra fulltrúa sátu fundinn:

Ágúst Torfi Hauksson

Erna Björnsdóttir

Hjalti Jón Sveinsson

Jón Már Héðinsson

Linda Margrét Sigurðardóttir

Pétur Þór Jónasson

Getum við bætt síðuna?