Fara í efni

Fundargerð - Fulltrúaráð - 20.02.2015

26.03.2015

 

Fulltrúaráð Eyþings
Fundur á Sölku, Húsavík kl. 12:30
20. febrúar 2015 

Fundargerð 3. fundar

 1.   Fundarsetning og samantekt um starf Eyþings frá aðalfundi.

Formaður Eyþings, Logi Már Einarsson, setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna. Sökum veðurs var 30 mínútna seinkunn á fundinum sem hófst kl 13:00. Logi Már fór yfir það helsta sem fram hafði farið á vettvangi stjórnar Eyþings frá aðalfundi Eyþings 3.-4. október 2014.

Stjórn Eyþings hefur haldið fimm fundi, fjóra á Akureyri og einn í Eyjafjarðarsveit. Arnór Benónýsson var kosinn varaformaður. Stjórnin hefur tilnefnt tvo fulltrúa í Minjaráð að beiðni Minjastofnunar og tilnefnt einn fulltrúa í ráðgjafarnefnd heilbriðgisumdæmis Norðurlands að ósk Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Stjórnin fór yfir ályktanir aðalfundar og samþykkti að taka ályktun um menntun fyrir atvinnulífið til umfjöllunar á fundi Fulltrúaráðs en þar sem stór og brýn mál lágu fyrir á þessum fundi Fulltrúaráðs var ákveðið að færa umfjöllun um menntun fyrir atvinnulífið yfir á næsta fund ráðsins.

Logi Már nefndi sérstaklega tvö lagafrumvörp sem stjórnin veitti umsögn við en það voru frumvarp til laga um framhaldsskóla og frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum en Logi Már og Jón Stefánsson mættu á símafund ásamt framkvæmdarstjóra vegna breytinga á raforkulögum.

Árleg 40 milljóna króna hlutafjáraukning Greiðrar leiðar ehf. var einnig á dagskrá stjórnarinnar. KEA var ekki með að fullu eins og vonir stóðu til. Ræða þarf hvernig sveitarfélögin standa saman við skuldbindingar félagsins.

Stjórn Eyþings hitti Höllu Bergþóru Björnsdóttur lögreglustjóra og Svavar Pálsson sýslumann í nýju umdæmi Norðurlands eystra ásamt Daníel Guðjónssyni yfirlögregluþjóni og Birnu Ágústsdóttur lögfræðingi. Þau fóru yfir undirbúning fyrir hin nýju embætti. Vonandi verður það til góðs en við verðum að vera á varðbergi og passa upp á að þjónustustigið haldist.

Tvö stærstu málin sem stjórnin hefur fjallað um eru sóknaráætlun og almenningssamgöngur. Þessi mál verð rædd betur hér á eftir og því aðeins stiklað á stóru í þessari samantekt.

Sóknaráætlun
Sóknaráætlun til fimm ára var undirrituð í Mývantssveit þann 11. febrúar sl. Heildarupphæð sem kemur til sóknaráætlana landshlutanna frá ríkinu er ríflega 550 milljónir króna. Til sóknaráætlunar Norðurlands eystra renna kr. 112.377.917 á ári með fyrirvara um samþykki Alþingis. Þar af eru 10.600.000 kr. frá sveitarfélögum á Norðurlandi eystra sem renna til menningarmála samkvæmt afgreiðslu síðasta aðalfundar.

Ákveðin reikniregla var notuð til að skipta framlögum milli landshluta en hún á að endurspegla félags – og hagfræðilega stöðu landshlutanna ásamt því að frávik frá upphæðum síðasta tímabils yrðu viðráðanleg fyrir viðkomandi landshluta. Stjórnin er í meginatriðum sátt við reikniregluna eins og hún var kynnt á samráðsfundi þann 5. desember 2014 og fagnar aðferð til að dreifa fjármunum ríkisins. Í endanlega reiknireglu hefur verið bætt við svokölluðum fjarlægðarfasta og virðist ekki hafa verið tekið tillit til þeirra ábendinga sem komu fram á fundinum 5. desember. Þessi breyta byggir ekki á jafn vönduðum grunni og aðrar breytur og olli það stjórn Eyþings vonbrigðum. Þarna er verið að stilla Akureyri upp eins og miðstöð líkt og Reykjavík og er stjórnin ekki sátt við það. Verið að refsa bæjarfélögum fyrir að ráðstafa pening í menningu og þjónustu.

Nú munu allir peningar renna inn í sóknaráætlun landshluta og dreift þaðan. Nokkur titringur hefur verið innan svæðisins vegna þessa. Stjórn Eyþings hefur lagt til að unnið verði líkt og verið hefur. Landshlutasamtökin eiga að setja sér verklagsreglur vegna úthlutana úr sjóðnum og þær verða svo staðfestar af stýrihópi Stjórnarsráðsins.

Almenningssamgöngur
Rekstur almenningssamgangna hefur ekki verið nógu góður. Það er deilt um uppgjör á leið 57 AK-REK. Geir Kristinn Aðalsteinsson hefur verið fulltrúi Eyþings í samninganefnd við SSV og mun Geir Kristinn ásamt Sigurði Val halda áfram störfum í þessum málaflokki fyrir Eyþing.

Sáttatillaga milli Eyþings og SSV var samþykkt en í henni felst að Eyþing haldi eftir 12 mkr. á ári af framlagi Vegagerðarinnar en sameiginlegt félag SSV, SSNV og FV haldi eftir öllum farþegatekjum af leið 57. Samkomulagið gildir til 31. desembar 2015 og nær til uppgjörs áranna 2014 og 2015. Ekki hefur verið gert samkomulag um árin 2012 og 2013 en það er verið að vinna í því. Sáttartillagan er í raun viðurkenning á áætlunum sem gerðu ráð fyrir hlutdeild Eyþings í tekjum af leið 57. Stjórn Eyþings samþykkti samkomulag um uppgjör fyrir 2014 og 2015 til að þessi ágreiningur valdi ekki töfum á lausn annarra mála vegna almenningssamgangna.

Það er miður að ekki sé komin framtíðarlausn á rekstri leiðar 57 en fyrst og fremst þarf að halda uppgjöri leiðar 57 aðskildu frá öðrum leiðum en það á að vera vel mögulegt.

Í framtíðinni þurfum við að sýna seiglu og keyra verkefnið áfram. Erfið en spennandi verkefni framundan, bæði sóknaráætlunin og almenningssamgöngur.

 

2.   Samningar um sóknaráætlanir landshluta 2015-2019

Hómfríður Sveinsdóttir verkefnisstjóri fór yfir forsögu og markmið sóknaráætlunar. Í sóknaráætlun landshluta 2015-2019 fara þrír farvegir, það er sóknaráætlun, vaxtarsamningur og menningarsamningur í einn samning sem er til fimm ára en það er merkur áfangi að gera svo langan samning. Norðurland eystra fær hæstu upphæðina af öllum landshlutum. Það er alveg gagnsætt hvernig skiptingu fjármuna er háttað með svokallaðri skiptireglu. Sóknaráætlun er meira en peningar. Það er hægt að nýta þennan farveg í ýmsum samræðum við ríkið um til dæmis heilbrigðiskerfið, samgöngur og fleira.

Samningar um sóknaráætlanir landshluta 2015-2019 skiptist í fjóra kafla.

1. kafli: Sóknaráætlun
Þar er áhersla á áætlanagerð til a.m.k. fimm ára, ekki er kveðið á um einstök verkefni líkt og í fyrri samningum. Sóknaráætlun er ætlað að marka stefnu landshlutans í menningarmálum, nýsköpun og atvinnuþróun, uppbyggingu mannauðs, lýðfræðilegri þróun svæðisins og öðrum málaflokkum sem landshlutinn ákveður.

Fjármagnið sem kemur með sóknaráætlun landshluta skiptist í tvennt, uppbyggingarsjóð og áhersluverkefni.

2. kafli: Uppbyggingarsjóður (áður vaxtarsamningur og menningarsamningur)
Þessi sjóður er samkeppnissjóður og eiga verkefnin að falla að sóknaráætlun landshlutans. Landshlutasamtök annast umsýslu sjóðsins og eru ábyrg gagnvart ríkinu. Í úthlutunarnefnd sjóðsins mega mest vera 40% sveitarstjórnarmenn og heimild er til að hafa fagráð í einstökum málaflokkum. Landshlutasamtökin skulu setja sér verklagsreglur vegna úthlutana úr sjóðunum.

3. kafli: Áhersluverkefni (áður sóknaráætlun)
Hér undir falla stærri og færri verkefni sem hafa beina skírskotun til sóknaráætlunar. Þessi verkefni geta jafnvel náð yfir allt samningstímabilið eða fimm ár.

4. kafli: Ráðstöfun fjármuna og umsýsla
Eyþing fær rúmar 112 m.kr. alls að meðtöldu 10,6 mkr. framlagi sveitarfélaga 6,4 mkr. sérmerktum fjárlagalið. Af liðlega 95 mkr. grunnframlagi á a.m.k. 55% að fara í uppbyggingarsjóðinn. Að auki færast yfir í samninginn 15 mkr. sem voru ónýttar í sóknaráætlun 2013 og óráðstafað fé af samningi 2014. Í kjölfar undirritunar samningsins er 30% af samningsupphæð fyrsta árs greidd út og síðan eftir framvindu. Greiðsluskylda myndast þegar fjármagni hefur verið ráðstafað með greiðslum eða bindandi samningum. Eyþingi er heimilt að nota 9. m.kr. í umsýslukostnað.

Næstu skref hjá landshlutasamtökunum er að vinna sóknaráætlun og setja sér verklagsreglur vegna úthlutana úr uppbyggingarsjóði. Sóknaráætlunum á að skila eigi síðar en 22. júní 2015.

Það er frumvarp til laga um byggðaáætlun og sóknaráætlanir í vinnslu sem festir verklagið í sessi þ.m.t. hlutverk landshlutasamtakanna.

Umræður

Sif Jóhannesdóttir spurði hvort tíminn til 22. júní nk. væri ekki of stuttur til að gera áætlun fyrir mikla og mikilvæga vinnu?

Hólmfríður Sveinsdóttir svaraði því til að ekki hafi verið kvartað yfir tímanum, þetta væri þróunarvinna í stjórsýslunni, ef það kæmi í ljós að tíminn væri of stuttur yrði tekið á því.

Margrét Bjarnadóttir bað Hólmfríði að segja nánar frá frumvarpinu.

Hólmfríður Sveinsdóttir sagði að gert væri ráð fyrir að festa í lög sóknaráætlun og hlutverk landshlutasamtaka sveitarfélaga í henni en þau eru sjaldan nefnd í lögum nú.

Sigurður Þór Guðmundsson lagði fram fyrirspurn hvers vegna ætti að vera stór og færri verkefni sem áhersluverkefni?

Hólmfríður Sveinsdóttir svaraði því til að litlu verkefnin ættu heima í uppbyggingarsjóðnum, talið að peningar nýtist betur í stórum verkefnum.

Sóley Björk Stefánsdóttir spurði hvort landshlutasamtök mættu merkja ákveðinn hluta peningana til menningarmála þar sem þau ákveða sjálf reglur fyrir sig.

Hólmfríður Sveinsdóttir sagði að í undirbúningsferlinu hafi sú hugmynd komið upp að festa tiltekið hlutfall til menningarmála en það var ekki gert. Misjafnt milli landshluta hvert hlutfallið verður. Hugsanlega verður reynt að jafna milli málefna ef mikill munur verður.

Logi Már Einarsson spurði hvort Eyþing gæti brunnið inni með peninga ef áhersluverkefni er til fimm ára og gengur hægt eða höfum við frelsi til að hagræða.

Hólmfríður Sveinsdóttir sagði að landshlutasamtökin beri ábyrgðina og hafi mikið frelsi. Eyþing getur ákveðið að setja skilmála vegna vinnslu verkefna. Hún hvatti til þess að nota peningana innan ársins.

Logi Már Einarsson fór yfir hvernig stjórn Eyþings sér fyrir sér að hafa hlutina. Stjórnin hyggst skipta peningnum á milli menningarmála og atvinnuþróunar með líkum hætti og verið hefur. Þá er áætlað að hafa tvö fagráð, annað vegna menningar og hitt vegna atvinnuþróunar. Einhverjir kunna að spyrja hvers vegna Akureyrarsvæðið fengi ekki meiri upphæð en austan Vaðlaheiðar vegna fólksfjölda. Reiknireglan er til hliðsjónar og vegna hennar er Eyþing að fá peninga vegna þessara svæða austan Húsavíkur og þykir rétt að þau svæði njóti þess.

Hólmfríður Sveinsdóttir sagði mikið hafa breyst síðan 2011. Það er meiri sátt um þetta verklag. Þetta er nýtt og ekkert óeðlilegt að vera efins. Hér er verið að reyna að efla landshlutana raunverulega.

Eva Hrund Einarsdóttir spurði hvort hægt væri að sjá útreikninga skv. reiknireglunni?

Logi Már Einarsson svaraði því til að hægt væri að sjá reikniregluna og heildarframlag en ekki nákvæmlega krónur og aura enda staðbundnar áherslur. Við þurfum að fá fólk með okkur, ekki skynsamlegt að breyta of mikið frá því sem var. Við verðum að standa saman og vinna saman. Verkefni Eyþings er að einfalda og fækka þeim munstrum sem er verið að vinna eftir. Hlýtur að vera markmiðið að vinna sem flest verkefni eins.

Ingibjörg Ólöf Isaksen spurði hvort kominn væri skiptihlutur menning vs. atvinnuþróun.

Logi Már Einarsson sagði að óformlega þá yrði þetta svipað og verið hefur.

Sigurður Þór Guðmundsson sagðist ekki kvarta yfir því að við fengjum að ráða sjálf. Hins vegar vantar tillögur um vegamál og fleira.

Hólmfríður Sveinsdóttir sagði ástæðuna fyrir efasemdum væri sú að menn trúðu því ekki upphaflega að ríkið ætlaði að láta landshlutum þennan pening eftir.

Pétur Þór Jónasson sagði að það hefði verið tortryggni milli svæða hér innan Eyþings en verið að vinna sig út úr því.

 

3.   Almenningssamgöngur - Einar Kristjánsson sviðsstjóri hjá Strætó bs.

Strætó bs. er með þjónustusamninga vegna aksturs um landsbyggðina nema um Vestfirði og Austfirði. Engar almenningssamgöngur eru milli Hafnar og Egilsstaða. Allstaðar er sama gjaldskrá og sama ímynd. Það eru tvær leiðir innan Eyþings og tvær leiðir í samrekstri Eyþings með öðrum landshlutum.

Samkeppnin er mjög mikil hér á Norðurlandi eystra og ferðamannastraumurinn er ekki að skila sér nógu vel. Það var 7,7% aukning á farþegafjölda á Norðurlandi milli 2013-2014 og heildarfarþegarfjöldinn var 20.289. Aukningin var mun meiri annars staðar. Á Vesturlandi var aukningin 15,8% og alls 164.076 farþegar, þar af 151.432 á leið 57. Á Suðurlandi var 9,1% aukning og alls 204.446 farþegar. Einar vakti athygli á að leið 79 (AK-Hús) væri áhyggjuefni, en sumarfarþegar virðast ekki skila sér á þeirri leið og leiðin skilar því ekki eðlilegum tekjum.

Reksturinn er ekki ennþá sjálfbær en fyrir því eru einkum fjórar ástæður:

  1. Endurgreiðsla á olíugjaldi minnkaði á milli ára og er afnumin núna.
  2. Ríkisframlögin voru skert um 10% á síðasta ári.
  3. Samningsupphæð Vegagerðarinnar er ekki verðbætt en samningar landshlutasamtaka við verktaka verðbættir.
  4. Fargjöld voru ekki hækkuð á milli ára vegna ákvörðunar stjórnar Strætó bs. og ekki hefur tekist að breyta afsláttarkjörum.

Almenningssamgöngur eru í boði á leiðum íslenskra ferðamanna það er ekki verið að stíla inn á erlenda ferðamenn. Það er fyrst og fremst verið að veita heimamönnum þjónustu. Þó svo að margir ferðamenn nýti sér almenningssamgöngur þar sem þeir vilja ekki ferðast með leiðsögumanni og löngum stoppum á mörgum stöðum. Það er pláss fyrir bæði almenningssamgöngur og ferðaþjónustuaðila á markaðnum.

Sum landshlutasamtök eru að íhuga að segja upp samningi sínum við Vegagerðina, engar verðbætur á samningsupphæðir og það skapar óvissu að ferðaþjónustuaðilar geti boðið uppá hefðbundnar almenningssamgöngur á sumrin. Það verður aldrei hagnaður nema á einstaka leiðum og þær leiðir fjármagna hinar sem ekki bera hagnað. Þó svo að það sé ekki krónulegur hagnaður er ljóst að þjóðhagsleg hagkvæmni er mikil af almenningssamgöngum.

Umræður

Sigurður Þór Guðmundsson spurði af hverju þrjú landshlutasamtök reka sama bílinn? Framkvæmdin er klúður. Almenningssamgöngur sem við viljum hafa er flug til Þórshafnar. Af hverju koma póstbíll, strætó, vörubílar á sama tíma? Þetta er ekki skynsöm nýting á peningum.

Einar Kristjánsson svaraði því til að ef Strætó bs. ætti að ráðleggja þá yrði stofnað byggðasamlag. Deilur milli SSV og Eyþings hafa heft samvinnu. Það þarf að panta strætó á minni staði en ástæða fyrir að fólksflutningar og póstþjónusta er ekki rekin saman eru samkeppnisákvæði.

Pétur Þór Jónasson tók það fram að það væri enginn pirringur út í Strætó bs. af hálfu Eyþings. Allar áætlanir í sambandi við leið 57 áttu að leggja inn tekjur til Eyþings í samræmi við hlutdeild í rekstri. Í bókun stjórnar Eyþings frá 31. ágúst 2012 kemur skýrt fram að SSV er veitt umboð til að koma fram fyrir hönd Eyþings gagnvart verktaka. Rekstur leiðarinnar er hins vegar sameiginlegur.

Einar Kristjánsson sagði samstarf Strætó bs. og landshlutasamtaka vera gott, það eru vankantar á samningi Eyþings og SSV. Eyþing er háð Strætó bs. með tekjur. Hugsanlega rétt að landshlutasamtök ákveði gjaldskrá sjálf og slíti sig frá Strætó bs.

Logi Már Einarsson spurði hvort það væri flókið að setja upp reiknisdæmi með byggðarsamlagi?

Einar Kristjánsson sagði að það væri ekki. Landshlutasamtökin þyrftu að vera með sameiginlega gjaldskrá. Nú er barnagjaldið með 80% afslætti af fullu gjaldi en barn tekur alltaf eitt sæti, æskilegt að hafa það 50% af fargjaldi.

Þröstur Friðfinnsson vildi vita hvernig væri talið hjá Strætó bs. Hvar lendir einstaklingur sem fer frá Reykjavík til Akureyrar í talningu?

Einar Kristjánsson sagði að þar sem leið 57 keyrir undir SSV þá er farþeginn talinn með í þeirra farþegatölum. Mikilvægt að ná sáttum.

Sif Jóhannesdóttir sagði að framkvæmdin væri ekki í lagi – vagnarnir væru ekki nógu vel búnir og ekki hægt að kaupa barnamiða. Misjafnar upplýsingar eftir bílstjórum og bílstjórarnir misjafnir í samskiptum. Það er ýmislegt sem þarf að fara betur.

Einar Kristjánsson svaraði því til að Eyþing væri háð stjórn Strætó bs. Barnamiðar eru ekki seldir í vögnum. Eyþing ræður stoppistöðum og leiðum. Söluaðilar eru sjálfstæðir og ekki hægt að skipa þeim fyrir. Endilega kvartið við Strætó bs. ef framferði vagnstjóra er ekki gott.

Hilma Steinarsdóttir spurði hvort það væri dýrara að kaupa miða í strætó en hjá söluaðila og hver velur söluaðila og semur við þá?

Einar Kristjánsson sagði að Eyþing geri tímatöflu en Strætó bs. er ráðgjafi. Allur gangur á því hver velur eða finnur söluaðila. Í mörgum tilvikum er það viðkomandi sveitarfélag.

Ingibjörg Ólöf Isaksen vildi vita hver væri staðan á endurgreiðsla olíugjalds.

Pétur Þór Jónasson sagði að Eyþing fengi reikninga frá verktaka fyrir mismuninum, ekkert komið út um samkomulag við Innanríkisráðuneytið vegna þessa.

Þröstur Friðfinnsson spurði hvort bílarnir væru nógu góðir? Ekki góð ímynd að þurfa að láta fólkið standa í bílunum. Heimasíðan hefur ekki verið nógu góð, það hafa verið vandræði að finna leiðir, verð og áfangastaði á heimasíðunni.

Einar Kristjánsson sagði að það væri aðeins í neyð sem farþegar standa. Það er mikið öryggi í bílunum, þeir eru t.d. lægri en rútur og taka minni vind á sig, þeir eru byggðir fyrir þetta. Einar fór yfir heimasíðu en á næsta ári er gert ráð fyrir að hægt verði að kaupa miða með símanum.

Eva Hrund Einarsdóttir sagði að miðakerfið væri stór galli. Veðrið hefur verið stopult og það vantar upplýsingar í vagnana ef þeir ganga ekki alla leið.

Einar Kristjánsson sagði að vagnstjórar ættu að vera með þessar upplýsingar og ekkert mál fyrir þá að nálgast þær.

Logi Már Einarsson sagði að það væri búið að taka ákveðin skref í þessum málum og ýmislegt sem við getum lagað sjálf. Almenningssamgöngurnar eru komnar til að vera og styrkjast.

 

4.   Samstarf sveitarfélaganna innan Greiðrar leiðar ehf.

Pétur Þór Jónasson greindi frá að þann 12. janúar sl. var haldinn aukafundur í Greiðri leið ehf. þar sem ekki tókst að ljúka árlegri hlutafjáraukningu í einni umferð. Á fundinum kom fram mikill einhugur um að hluthafar standi saman um að klára verkefnið og standa við skuldbindingar sínar. Við gerð lánasamnings ríkisins og Vaðlaheiðarganga var gerð krafa um 200 mkr. aukningu hlutafjár frá Greiðri leið ehf. Samkomulag náðist um að deila henni á fimm ár til að auðvelda hluthöfum að standa undir aukningunni. Akureyrarbær gekkst í ábyrgð fyrir þessum greiðslum. Enn eru ókomin svör frá einhverjum hluthöfum í seinni umferð áskriftar. Ef vantar upp á áskrift er félagið komið í erfiða stöðu. Fyrir liggur í bréfi að KEA mun ekki koma með meira hlutafé í félagið en komið er. Samkvæmt upplýsingum frá ÚA er ekki útilokað að félagið skrifi sig fyrir einhverju viðbótarhlutafé, en ÚA tók nær alla 40 mkr. aukningu ársins 2013.

Umræður

Jón Stefánsson sagði að vandamálið fælist í því að það vanti peninga frá KEA. Við verðum að reyna að fá nýja aðila inn í staðinn fyrir KEA.

Pétur Þór Jónasson sagði að það væri erfitt að fá nýja aðila inn þar sem hluthafar geti ekki vænst þess að fá arð fyrr en í besta falli eftir mjög langan tíma, 30 ár eða meira.

Margrét Bjarnadóttir spurði hvort ákvörðun KEA hefði verið samþykkt af stjórn KEA og hversu mikið vantar uppá í seinni umferð áskriftar?

Pétur Þór Jónasson svaraði því til að ákvörðun KEA hafi verið samþykkt af stjórn þess. Það er ekki mikið sem vantar uppá seinni umferð áskriftar.

Matthías Rögnvaldsson: Hafa þarf í huga að sveitarfélögin sluppu við greiðslu vegna ársins 2013 vegna þess að það tókst að fá einn stóran hluthafa, ÚA, í hluthafahópinn. Þau ættu því að vera betur í stakk búin að koma með það sem þarf núna.

Þröstur Friðfinnsson sagði það vonbrigiði að missa KEA – af hverju hættu þeir? Hvaða tekjur fær Greið leið ehf.? Er hægt að fá lífeyrissjóði til að taka þátt?

Pétur Þór Jónasson sagði KEA vera búið að leggja mikið til og það er engin ávöxtun á þá peninga. Eini möguleikinn til að ná inn arði er eftir að lánið verður greitt upp, en það er langt í það. Af þeirri ástæðu er ekki hægt að fá lífeyrissjóði inn, þetta er ekki fjáfestingarkostur sem gefur af sér þá ávöxtun sem sóst er eftir.

Niðurstaða umræðna var sú að allir aðilar að Greiðri leið ehf. þurfa að standa saman og halda verkefninu áfram og öll sveitarfélögin að taka sinn hlut þannig að ekki skapist vandræði í félaginu.

 

5.   Önnur mál

Engin mál komu á dagskrá.

 

6.   Fundarslit

Logi Már þakkaði viðstöddum fundarsetuna og gagnlegar umræður. Hann óskaði fundarmönnum góðrar heimferðar og sleit fundi kl. 15.40.

 

Linda Margrét Sigurðardóttir ritaði fundargerð.

 

 

Mættir fulltrúar á fulltrúaráðsfundi Eyþings 20. febrúar 2015

Sveitarfélag

 

Aðalfulltrúar

 

Varafulltrúar

Fjallabyggð

 

Sigurður Valur Ásbjarnarson

 

S. Guðrún Hauksdóttir

Fjallabyggð

 

Steinunn María Sveinsdóttir

 

Ríkharður Hólm Sigurðsson

Dalvíkurbyggð

 

Bjarni Th. Bjarnason

 

Heiða Hilmarsdóttir

Dalvíkurbyggð

 

Valdís Guðbrandsdóttir

 

Gunnþór E. Gunnþórsson

Hörgársveit

 

Axel Grettisson

 

 

Akureyrarbær

x

Logi Már Einarsson

 

Guðmundur B. Guðmundsson

Akureyrarbær

x

Eva Hrund Einarsdóttir

 

Silja Dögg Baldursdóttir

Akureyrarbær

x

Ingibjörg Ólöf Isaksen

 

Sigríður Huld Jónsdóttir

Akureyrarbær

x

Matthías Rögnvaldsson

 

Sigurjón Jóhannesson

Akureyrarbær

x

Sóley Björk Stefánsdóttir

 

Margrét Kristín Helgadóttir

Eyjafjarðarsveit

x

Jón Stefánsson

 

Jóhanna Dögg Stefánsdóttir

Svalbarðsstrandar­hr.

x

Eiríkur H. Hauksson

 

 

Grýtubakkahreppur

x

Þröstur Friðfinnsson

 

Ásta F. Flosadóttir

Þingeyjarsveit

 

Arnór Benónýsson

x

 Margrét Bjarnadóttir

Skútustaðahreppur

 

Jón Óskar Pétursson

x

Yngvi Ragnar Kristjánsson

Norðurþing

x

Sif Jóhannesdóttir

 

Friðrik Sigurðsson

Norðurþing

 

Olga Gísladóttir

 

Óli Halldórsson

Tjörneshreppur

x

Steinþór Heiðarsson

 

 

Svalbarðshreppur

x

Sigurður Þór Guðmundsson

 

Sigurður Jens Sverrisson

Langanesbyggð

x

Hilma Steinarsdóttir

 

 

 

Rétt til setu á fundinum áttu 20 fulltrúar frá 13 sveitarfélögum. Alls mættu 14, þar af voru 2 varamenn, sjá ofangreinda töflu. Steinunn María Sveinsdóttir Fjallabyggð lenti í umferðaróhappi á leið sinni á fundinn og hafði því ekki tök á að sitja fundinn.

Auk ofangreindra fulltrúa sátu fundinn:

Einar Kristjánsson
Hólmfríður Sveinsdóttir
Linda Margrét Sigurðardóttir
Pétur Þór Jónasson

Getum við bætt síðuna?