Fara í efni

Fundargerð - Aðalfundur 2015

09.10.2015

Aðalfundur Eyþings 2015

Haldinn í Félagsheimilinu Hlíðarbæ, Hörgársveit

9. og 10. október 2015

 

Fundargerð

Föstudagur 9. október

 

1.         Fundarsetning kl. 13:00.

Formaður Eyþings, Logi Már Einarsson, setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna. Logi Már ræddi um meiri samvinnu milli sveitarfélaga á svæðinu en nú þegar er. Logi Már sagðist skynja meiri hljóm til samvinnu en oft áður sem sýnir þann skilning að við erum sterkari saman en sitt í hverju lagi. Eins og með aðra samvinnu þurfum við að skilgreina hlutverk Eyþings.

Hann lagði til að Axel Grettisson og Sif Jóhannesdóttir yrðu fundarstjórar og að Margrét Bjarnadóttir og Sóley Björk Stefánsdóttir yrðu ritarar fundarins og var það samþykkt samhljóða. Ráðinn fundarritari var Linda Margrét Sigurðardóttir.

 

1.1.      Skýrsla stjórnar.

Logi Már Einarson, formaður Eyþings, flutti skýrslu stjórnar sem lögð hafði verið fyrir aðalfundarfulltrúa sem fundarskjal og mun fylgja með fundargerð aðalfundarins. Hann greindi frá hverjir hefðu skipað stjórn starfsárið 2014-2015. Stjórnin hélt 14 bókaða stjórnarfundi á árinu og tók rúmlega 180 mál til umræðu og afgreiðslu. Hann vakti athygli á að í fundargerðum stjórnar og fulltrúaráðs er að öllu jöfnu gerð ítarleg grein fyrir þeim málum sem eru til umfjöllunar. Þá gerði Logi Már grein fyrir helstu þáttum í starfi Eyþings og verkefnum sem unnið hafði verið að frá síðasta aðalfundi s.s. Sóknaráætlun Norðurlands eystra og almenningssamgöngum. Samningur um Sóknaráætlun Norðurlands eystra var undirritaður 11. febrúar 2015. Að lokum þakkaði Logi Már fyrir hönd stjórnar, framkvæmdastjóra og annarra starfsmanna Eyþings, sveitarstjórnarmönnum og starfsmönnum sveitarfélaga á starfssvæðinu gott samstarf á liðnu starfsári með von um áframhaldandi gott samstarf.

Enginn kvaddi sér hljóðs um skýrslu stjórnar.

 

1.2.      Skýrsla Menningarráðs Eyþings.

Arnór Benónýsson, formaður Menningarráðs Eyþings, flutti skýrslu Menningarráðs Eyþings. Hann greindi frá því að fyrir fundinum lægi tillaga frá sér að nýju Menningarráði Eyþings-fagráð menningar. Þá gerði hann grein fyrir helstu verkefnum Menningarráðs Eyþings frá síðasta aðalfundi. Að lokum þakkaði Arnór fyrir hönd Menningarráðs og menningarfulltrúa gott og gefandi samstarf á árinu og öllum þeim sem staðið hafa að kröftugu menningarstarfi á svæðinu.

Enginn kvaddi sér hljóðs um skýrslu Menningarráðs Eyþings.

 

1.3.      Ársreikningur og fjárhagsáætlun.

Pétur Þór Jónasson, framkvæmdastjóri Eyþings, gerði grein fyrir helstu atriðum í ársreikningi. Aðalfundarfulltrúar fengu ársreikninginn sem fundarskjal sem og útdrátt úr honum. Skýringar og sundurliðanir eru nákvæmar í ársreikningnum. Útkoma 2014 er betri en árið áður þó það sé enn halli á rekstrinum. Hallann má þó að öllu leyti rekja til almenningssamgangna.

 

Helstu niðurstöður ársreiknings eru þessar:

Rekstrarreikningur 2014

Rekstrartekjur                                                 253.410.452

Rekstrargjöld                                                  263.836.381

Rekstrarniðurstaða án fjármagnsliða              (10.425.929)

Fjármunatekjur                                                                  642.577

Rekstrarniðurstaða ársins                               (9.783.352)

 

Efnahagsreikningur 31. des 2014

Eignarhlutir í félögum                                        2.749.127

Veltufjármunir                                               116.597.095

Eignir samtals                                                119.346.222

Eigið fé                                                                      (44.253.662)

Lífeyrisskuldbindingar                                                 18.964.743

Skammtímaskuldir                                         144.635.141

Eigið fé og skuldir samtals                             119.346.222

 

Endurskoðuð fjárhagsáætlun fyrir árið 2015 og fjárhagsáætlun 2016.

Pétur Þór lagði fram tillögu að endurskoðaðri fjárhagsáætlun 2015 þar sem tekið var tillit til Sóknaráætlunar Norðurlands eystra 2015-2019 og hallareksturs almenningssamgangna. Pétur Þór vakti athygli fundarmanna á því að tekjur Menningarráðs Eyþings lækkuðu verulega milli ára en það skýrist af því að menningarsamningur þar sem kveðið var á um Menningarráð rann út um síðastliðin áramót. Tekjurnar koma inn í sóknaráætlun í staðinn. Einnig vakti Pétur Þór athygli á því að hlutur Eyþings í umsýslufjárhæð sóknaráætlunar dugði ekki til að greiða þann kostnað sem féll á Eyþing vegna sóknaráætlunar og verður hún því rekin með halla sem verður að fjármagna úr sjóðum Eyþings. Í fjárhagsáætlun 2016 er reiknað með að umsýslukostnaður sóknaráætlunar verði heldur meiri en árið 2015. Það fé sem heimilt er að nota til umsýslu fer til þeirra aðila sem koma að umsýslu Uppbyggingarsjóðs og sóknaráætlunar.

Samkvæmt venju verður fjallað um ársreikning og fjárhagáætlanir í fjárhags- og stjórnsýslunefndar.

 

1.4.      Tillögur og erindi frá stjórn og fulltrúum.

Arnór Benónýsson lagði fram tillögu að nýju Menningarráði Eyþings - fagráði menningar. Gert er ráð fyrir að í ráðinu sitji fimm fulltrúar sem stjórn Eyþings skipar. Í eldra Menningarráði samkvæmt menningarsamningi voru sjö fulltrúar. Með þessu er hægt að tryggja betur en ella að það sé fyrst og fremst hin faglega þekking sem ráði. Þá gerir tillagan ráð fyrir því að Menningarráðið taki yfir hlutverk fagráðs menningar sem stjórn Eyþings hefur skipað. Stjórn Eyþings skipar einnig fagráð nýsköpunar- og atvinnuþróunar vegna Uppbyggingarsjóðs. Arnór lagði til að tillagan tæki gildi á fundinum og gildi til eins árs.

 

Fundarstjóri lagði til að erindið Strætó hjá Eyþingi yrði fært framar í dagskrá og var það samþykkt samhljóða.

 

2.         Strætó hjá Eyþingi – sagan og staðan í dag.

Geir Kristinn Aðalsteinsson í nefnd Eyþings um almenningssamgöngur.

Geir Kristinn byrjaði að gera grein fyrir því hvers vegna hann er enn í þessu verkefni þrátt fyrir að vera hættur í stjórnmálum. Hann var í stjórn Eyþings þegar verkefnið fór af stað og var svo formaður í tvö ár og tók á þessu máli ásamt Pétri Þór, framkvæmdarstjóra og Sigurði Val stjórnarmanni. Þegar Geir Kristinn og Sigurður Valur hættu í stjórn Eyþings voru þeir beðnir um að halda áfram með almenningssamgöngverkefnið því mikilvægt var að hafa samfellu í vinnunni í kringum verkefnið.

Sagan á bak við almenningssamgöngurnar er flókin og snúin en mikilvægt er að þekkja stóru myndina.

Hann fór yfir helstu atburði í tímaröð frá upphafi verkefnisins. Verkefnið hófst árið 2011 en á árunum 2008-2010 höfðu aðalfundir Eyþings hvatt til yfirtöku á almenningssamgöngum og að nægjanlegt fjármagn fylgi verkefninu. Það var skýr vilji hjá ríkinu að færa þetta yfir til sveitarfélaga. Eyþing hafði miklar efasemdir um verkefnið en varð að fylgja öðrum landshlutasamtökum og skrifa undir þar sem verkefnið var að fara af stað. Eyþing skrifaði undir samning við Vegagerðina um almenningssamgöngur á Norðurlandi eystra 29. desember 2011. Sá samningur gildir frá 1. janúar 2012 út árið 2018.

Eyþing yfirtók gildandi samninga Vegagerðarinnar við verktaka á öllum leiðum fyrst í stað. Leið 57 (Akureyri-Reykjavík) var boðin út fyrst, frá og með 1. september 2012. Arður af þeirri leið átti að nýtast til að greiða niður óarðbærar leiðir. Samband sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV) heldur utan um leiðina og kemur fram fyrir hönd Eyþings gagnvart verktaka. Öll landshlutasamtökin gerðu samning við Strætó bs. um m.a. tækniþjónustu og utanumhald á fargjaldatekjum.

Þann 19. desember 2012 var gerður samningur milli Eyþings og Vegagerðarinnar um tilraunaverkefni til að efla og þróa skipulag almenningssamgangna milli byggðarkjarna og tengingu við höfuðborgarsvæðið. Eyþing fékk aðeins 3.250. þús. í þróunarstyrk.

Í apríl 2013 varð ljóst að verkefnið gekk ekki upp. Aðeins 30% farþega greiddu fullt gjald sem var mun lægra hlutfall en spár sögðu til um, farþegar voru færri nema á leið 57, einkaleyfið hélt ekki og endurgreiðsla olíugjalds var felld niður. Engin leiðrétting kom frá ríkinu til að mæta olíugjaldinu. Seinnipart júlí 2013 var sett í gang neyðarplan þar á meðal að fá samþykki eigenda Eyþings til að skuldsetja Eyþing en það fékkst ekki og reyndist það rétt ákvörðun. Eftir þetta fór málið í fjölmiðla og akstursaðilinn hótaði að hætta akstri fengi hann ekki greitt. Þáverandi innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir, bjargaði verkefninu fyrir horn. Frá þeim tíma hefur fátt gerst til úrbóta.

Vegagerðin hefur tryggt að verkefnið gangi með láni til Eyþings. Stjórn Eyþings samþykkti í júní 2014 að segja verkefninu upp frá og með 1. júlí 2014 en Vegagerðin taldi uppsögnina ekki löglega.

Eyþing fékk engar tekjur af leið 57 og var farið að lengja eftir tekjum árið 2013 enda áætlað að leið 57 skilaði Eyþingi a.m.k. 13 milljónum kr. Þá kom reikningur frá SSV upp á u.þ.b. 7 milljónir kr. vegna taps á óarðbærum leiðum innan SSV sem þeir tóku með í reikninginn og ætluðust til að Eyþing kæmi inn í þeirra heildarpakka og tæki þátt í kostnaði án þess að heildarpakki Eyþings væri tekinn með í dæmið. Í öllum skjölum er skýrt kveðið á um að samstarfssamningur Eyþings og SSV gildi aðeins um leið 57. Sett var á fót sáttanefnd sem náði samkomulagi í nóvember 2014 um að Eyþing héldi eftir 12 milljónum á ári af framlagi Vegagerðarinnar en SSV fengi farþegatekjurnar. Þetta samkomulag gildir fyrir árin 2014 og 2015. Eyþing leggur áherslu á að haldið sé utan um rekstur leiðarinnar sér og að hægt sé að fá upplýsingar um þróun farþegafjölda milli einstakra staða. Það hefur ekki gengið eftir.

Það á eftir að gera upp byrjun verkefnisins eða frá 1. september 2012 og allt árið 2013. Við teljum okkur eiga inni um 20 milljónir kr. vegna þess tímabils. Óvíst hvað gerist á næsta ári því samkomulagið gildir einungis út árið 2015.

Nýtt fyrirkomulag hefur verið kynnt varðandi þróunarstyrki sem er skref í rétta átt en ekki er víst hve háa upphæð Eyþing mun fá. Þetta er mikilvægt því Eyþing hefur hvorki haft tíma né fjárráð til að þróa verkefnið s.s. kynningarmál, skólaakstur ofl. Gjaldskrármálin eru komin í ferli og olíugjaldið er í skoðun í ráðuneytinu. Ný lög um fólksflutninga eru í vinnslu og munu hjálpa til við að styrkja einkaleyfið.

Til að verkefnið standi undir sér þarf að hækka grunnframlagið og þróunarstyrkinn þarf að hækka margfalt. Það þarf að lagfæra endurgreiðslu olíugjaldsins og einkaleyfið þarf að halda. Þá er mjög mikilvægt að skera á uppsafnaðan skuldahala Eyþings og ná samkomulagi um rekstur og uppgjör á leið 57.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson spurði hvort einhverjar samningaviðræður við SSV stæðu yfir vegna 2012 og 2013 og hverjar líkurnar væru á því að Eyþing fengi þá peninga sem það teldi sig eiga inni hjá SSV.

Geir Kristinn taldi að flestir styðji kröfu Eyþings en SSV hefur ekki handbæran pening og er ekki í góðum málum með sitt verkefni. Þrautalendingin væri einhverskonar dómsmál en við viljum forðast það í lengstu lög fyrir samvinnu sveitarfélaga og verkefnið.

Njáll Trausti Friðbertsson spurði út í tölfræðina á bak við farþegana.

Geir Kristinn sagði Eyþing hafa gögn um fjölda farþega og tekjur á öllum leiðum nema leið 57.

Logi Már Einarsson benti á að Eyþing hafi krafist þess að leið 57 verði gerð upp sérstaklega, á meðan það er ekki þannig eru upplýsingar ekki nógu aðgengilegar fyrir okkur.

Geir Kristinn taldi líklegt að SSV vilji halda upplýsingum um rekstur leiðar 57 fyrir sig.

Njáll Trausti Friðbertsson spurði hvort SSV muni komast upp með það að gera ekki grein fyrir rekstri leiðarinnar.

Geir Kristinn benti á að samningurinn sem gerður var gildi út árið 2018 en umboð Eyþings frá 31. ágúst 2012 sé alveg skýrt.

Guðjón Bragason sagði innanríkiráðuneytið ekki bjartsýnt á að endurgreiðsla olíugjaldsins yrði fjármögnuð í fjárlögum sem væri mjög slæmt. Innanríkisráðherra hafi lýst því yfir að hún muni ekki flytja frumvarpið um fólksflutninga aftur. Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) ályktaði að það þyrfti að setja sérstök lög um almenningssamgöngur og að sveitarfélög fái innskatt vegna útvistaðrar akstursþjónustu. Verið er að skoða breytingar á virðisaukaskattskerfinu frá og með 1. janúar nk. og á þá virðisaukaskattur að leggjast á allan aðkeyptan akstur s.s. ferðaþjónusta fatlaðra og skólaakstur. Guðjón lagði til að fundurinn álykti um þessi mál.

 

3.         Staða og framtíð framhaldsskólanna.

Svanfríður Inga Jónasdóttir ráðgjafi frá Ráðrík ehf. og verkefnastjóri fyrir starfshóp ráðherra vegna framhaldsskóla.

Svanfríður þakkaði fyrir að fá að koma og gera grein fyrir þessu verkefni sem sveitarstjórnarmenn hafa barist fyrir. Það er mikilvægt að hafa framhaldsskóla og að ungt fólk geti stundað nám í heimabyggð eða sem næst henni. Það eru fimm sjálfstæðir framhaldsskólar á svæði Eyþings og allir eru með skólasamning við Menntamálaráðuneytið til 2019.

Fækkun íbúa hefur leitt til fækkunar nemenda og spáð er áframhaldandi fækkun á svæðinu. Stytting náms til stúdentsprófs í þrjú ár fækkar nemendum framhaldsskóla sem og 25 ára reglan. Niðurstaðan er færri nemendur og fámennari skólar sem gerir rekstrarlegan og faglegan grundvöll erfiðari.

Í vor lá fyrir tillaga um að sameina skóla. Sú tillaga hlaut hörð viðbrögð m.a. frá Eyþingi. Það var ákveðið að hverfa frá henni og kalla eftir tillögum heimamanna enda búið að leggja áherslu á það í ályktunum heimamanna. Í kjölfarið var settur á laggirnar starfshópur með þátttöku skólameistara og fulltrúa sveitarstjórnarmanna, auk fulltrúa ráðuneytis.

Starfshópurinn á að kortleggja grunnþætti í starfsemi skólanna, þ.e. mannauð, stoðþjónustu og námsframboð og leggja fram sameiginlega tillögu að framtíð framhaldsskólastarfs á svæðinu fyrir 1. desember 2015 ásamt skýrslu til ráðherra. Markmiðið er að nemendur á svæðinu hafi jafnan og greiðan aðgang að lögbundnu og fjölbreyttu námsframboði, stoðþjónusta skólanna sé fullburða og reksturinn sjálfbær. Starfshópurinn á að hafa fjárlög 2015 til hliðsjónar ásamt tillögu til þingsályktunar um ríkisfjármálaáætlun, frumvarp til laga um opinber fjármál, lög um framhaldsskóla og áætlanir um nemendaþróun á svæðinu.

Starfshópurinn hefur haldið tvo fundi og á þeim síðari voru aðstoðarskólameistarar og/eða áfangastjórar með í vinnunni þannig að hópurinn hefur stækkað sem er gott því þá er aukin þekking í hópnum.

Svanfríður hefur heimsótt hvern skóla á svæðinu tvisvar sinnum og átt fundi með skólameisturum og samstarfsmönnum þeirra. Einnig hafa verið fundir með öðrum hagsmunaaðilum s.s. sveitarstjórum og Símey.

Það hefur ekki verið mikið samstarf milli skóla á svæðinu t.d. ef borið er saman við skóla á Austurlandi. Þingeyingar hafa fundað nokkrum sinnum um Þingeyska módelið, sem er regnhlíf sem gæti haldið utanum samstarf framhaldsskólanna þar og Þekkingarseturs Þingeyinga. Hugmyndin var kynnt á fyrsta fundi starfshóps og hefur verið þróuð áfram.

Það er ástæða til bjartsýni, uppbygging á Bakka mun væntanlega a.m.k. stöðva fækkun íbúa þar og uppbygging á Siglufirði mun fjölga störfum og íbúum þar. Þetta vekur bjartsýni um að nemendum muni ekki fækka jafn mikið og spár gera ráð fyrir.

Svanfríður nefndi að uppi séu hugmyndir um að þingeyska módelið verði þróunarverkefni. Ef tekst að yfirstíga hindranir gæti það orðið fyrirmynd að sambærilegu samstarfi á öðrum dreifbýlum svæðum þar sem mikilvægt þykir að sameina kraftana. Hugmynd Verkmenntaskólans á Akureyri um lotunám í iðngreinum gæti jafnvel verið þróuð yfir á aðrar greinar. Það er mikill fjöldi af spennandi hugmyndum sem munu nýtast til framtíðar ef samstarf skólanna verður formgert með ákveðnum hætti svo þeir geti skipulagt samvinnu sína og nemendur fái notið þeirrar þekkingar sem skólarnir geta miðlað.

Engar niðurstöður liggur fyrir en góðar vísbendingar um það hverjar þær gætu orðið. Menn brugðust við þessari áskorun af mikilli þekkingu, ábyrgð og hugkvæmni.

Svanfríður sagðist hafa fulla trú á að starfshópnum takist að ljúka vinnunni með jákvæðum hætti fyrir svæðið.

 

4.         Staða og framtíð Háskólans á Akureyri.

Eyjólfur Guðmundsson rektor.

Eyjólfur byrjaði á því að fara yfir framtíðarsýn Háskólans á Akureyri (HA) til ársins 2017 en hún er eftirfarandi:

Háskólinn á Akureyri er alþjóðlega virtur háskóli með öflugar rannsóknir í sterkum tengslum við samfélag og atvinnulíf í öllum landshlutum. Hann býður eftirsóknarvert nám á öllum háskólastigum með doktorsnám á völdum fræðasviðum. Hann hefur skapað sér sérstöðu á innlendum og erlendum vettvangi sem viðurkennd miðstöð kennslu og rannsókna á fræðasviðum tengdum norðurslóðum.

HA leggur áherslu á að háskóli án rannsókna sé fagskóli, ekki háskóli. Í dag fær HA framlag vegna rannsókna og hefur lagt áherslu á að starfsmenn sæki meira í rannsóknarsjóði sem hefur gengið eftir. Í kerfinu er ekki umbunað fyrir samvinnu við samfélagið heldur verður skólinn að fylgja alþjóðlegum stöðlum um háskólastarf sem kemur til viðbótar við samstarf við samfélagið. Í dag er starfsfólk skólans að leiðbeina 36 doktorsnemum en starfsfólk HA má ekki vera aðalleiðbeinendur og ekki skrá nemendurna í skólann því HA er ekki með leyfi til doktorsnáms. HA er búinn að sækja um slíkt leyfi en umsóknin var send til baka með áskorun um meiri samvinnu við Háskóla Íslands (HÍ).

HA hefur boðið upp á fjarnám í 17 ár í öllum fögum nema lögfræði án aukafjármagns til þess. Rektor HÍ sagði nýlega þann skóla ekki geta boðið upp á fjarnám nema að fá fjármagn til þess.

HA stendur mjög vel í dag, gæðalega. Úttekt gæðaráðs háskólanna var mjög jákvæð en hún kostaði mikið bæði í vinnu og fjármagni. Rekstur skólans er í góðu jafnvægi en fjárhagsramminn er mjög þröngur

Nemendur hafa aldrei verið fleiri við skólann eða um 1850. Nemendaframboð, rekstur og þess háttar gengur mjög vel og Eyjólfur skoraði á fundarmenn að láta það heyrast sem og láta vita af fjarnáminu. Skólinn stendur jafnfætis við HÍ og HR með gæði, rekstur o.þ.h. Þetta kemur ekki nógu vel fram í umræðunni.

Eyjólfur taldi að bregðast yrði við þeim verulega kynjahalla sem í skólanum er og spurði hvar strákarnir væru. Þeir væru ekki á atvinnuleysisskrá, ekki í iðnnámi og ekki í háskólum. Engar skýrslur finnast sem geta svarað þessari spurningu. Eyjólfur taldi að þetta muni verða vandamál í framtíðinni. Það er vitað að námsframboð skólanna hefur áhrif á þetta. HA getur ekki breytt námsframboði sínu þar sem fjárhagurinn er of þröngur. HA er óumdeilanlega að þjóna öllu landinu og stór hluti eða 68% nemanda eru af landsbyggðunum og fara þangað aftur eftir nám.  HA er þó ekki að njóta stuðnings allra landsbyggða. Þingmenn Norðurlands eystra styðja skólann mjög vel en almennt ekki þingmenn frá öðrum svæðum.

Þrátt fyrir að reksturinn hafi verið góður þ.e. innan fjárlaga þá er staðan ekki góð. Viðhald og endurnýjun fasteigna er í lágmarki og lítil endurnýjun á tækjabúnaði. Þjónustan er í lágmarki t.d. hvað varðar náms- og starfsráðgjöf. Það er einn námsráðgjafi fyrir 1850 nemendur þ.a.l. veitum við enga starfsráðgjöf. HA þarf að fá 150 milljónir inn í reksturinn til viðbótar við 137 milljónir sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi 2016. HA þarf í raun 300 milljónir í viðbót árlega til að fjölga starfsmönnum og nota í rekstur. Framlag ríkisins á nemanda hefur lækkað til muna síðustu ár á meðan nemendum hefur fjölgað gríðarlega. Fjöldi nemenda pr starfsmann hefur farið úr rúmlega 6 upp í 9. Í alþjóðlegu samhengi þykir 5-6 nemendur pr starfsmann gott. Ísland er langt á eftir öðrum þjóðum í framlögum per nemenda á háskólastigi.

Fjárveitingar duga ekki fyrir núverandi rekstri og við erum því að fjarlægjast framtíðarsýn skólans. Fyrirséðar eru verulegar kostnaðarhækkanir í ár og á næsta ári og ef ekki fæst viðbót í núverandi fjárlögum og fjáraukalögum erum við að horfa fram á verulegan niðurskurð á næsta ári.

Heildarrannsóknarstigum HA hefur fjölgað aftur eftir mikinn samdrátt í rannsóknarleyfum vegna niðurskurðar. Doktorsnám er algjört lykilatriði fyrir skólann til að þjónusta Ísland allt sem og til að halda í besta starfsfólkið.

Eyjólfur setti fram tillögu að nýrri framtíðarsýn HA þar sem meðal annars er gert ráð fyrir auknu tækninámi, styrkingu meistaranáms í rekstri og stjórnun, í sjávarútvegsfræði og líftækni, íþróttafræði og kennslufræði. Gert er ráð fyrir um 2500-3000 nemendum í þeirri framtíðarsýn.

Eyjólfur áréttaði að skólinn þyrfti á stuðningi fundarmanna að halda til að koma skólanum í réttan farveg.

Umræður

Karl Frímannsson spurði Eyjólf hvort væri eftirsóknarverðara að bæta gæðin í skólanum eða fjölga nemendum.

Eyjólfur benti á að fjölgun nemenda væri ekkert lykilatriði í sjálfu sér nema vegna þess að fjármagn fylgir nemendum. Mikilvægara væri að líta á gæði.

Steinunn María Sveinsdóttir furðaði sig á því að Eyþing hafiekki skipað sveitarstjórnarfólk inn í samstarfshóp um framhaldsskólana. Hún sagðist hefði viljað sjá fleiri fulltrúa og sterkari rödd frá sveitarstjórnarfólki, hugsanlega hefði verið meiri þungi í því.

Logi Már Einarsson sagði stjórn Eyþings hafa talið að við þær aðstæður sem við var að glíma, að best væri að setja fagfólk inn í hópinn til að losna undan einhverju pólitísku reipitogi t.d. milli Akureyrar og minni staða. Ekki væri ætlunin að sveitarstjórnarmenn gerðu ekki neitt en þeir hafa m.a. tekið málið upp við þingmenn.

Kristinn Kristjánsson spurði Eyjólf hvernig skólagjöldin í HA væru í hlutfalli við kostnað og hvort ekki væri eðlilegt að það væri fylgni milli skólagjalda og raunverulegs kostnaðar.

Eyjólfur benti á að það væru engin skólagjöld við opinbera háskóla, eingöngu skráningargjöld. Áður var skorið niður í framlagi hins opinbera ef gjöldin hækkuðu en það virðist ekki vera að gerast núna. Þetta er í raun pólitísk spurning um hvaða módel við ætlum að nota í skólakerfinu.

 

 

Afgreiðsla kjörnefndar á kjörbréfum.

Fjóla Valborg Stefánsdóttir, formaður kjörnefndar gerði grein fyrir afgreiðslu kjörbréfa. Af 40 kjörnum fulltrúum væru 34 mættir, þ.e. 85%, þar af 8 varamenn. Hún sagði að kjörnefndin legði til að kjörbréf allra fulltrúanna yrðu samþykkt og var það gert samhljóða. Jafnframt upplýsti hún að skrá yfir fulltrúa yrði færð í lok fundargerðar. Fleiri fulltrúar gætu bæst við síðar. Hún auglýsti eftir ábendingu um kjör til stjórnar, endurskoðenda og heilbrigðisnefndar í samræmi við 5.5. grein laga Eyþings.

 

Kaffihlé.

 

 

 

 

 

5.         Ávörp.

5.1.      Stefanía Traustadóttir, sérfræðingur, f.h. innanríkisráðherra.

Stefanía bað fyrir góða kveðju frá innanríkisráðherra sem ekki gat mætt til fundarins. Í innanríkisráðuneytinu er unnið að mörgum verkefnum, t.d. hafa verið fimm kosningar á síðustu fjórum árum. Mörg verkefni snúa að sveitarfélögum t.d. samgöngumál. Starfsmenn sveitarstjórnarskrifstofu hafa misst af umræðu um almenningssamgöngur og myndu vilja koma sér betur inn í það mál.

Stefanía sagði málefni hælisleitenda og flóttafólks vera þungan málaflokk sem tæki mikinn tíma ráðherra. Farsæl lausn í mörgum þeirra mála veltur á góðu samstarfi við fulltrúa sveitarfélaga. Það hefur ekki mikið verið að gerast í sveitarstjórnarmálefnum hjá ráðuneytinu undanfarið fyrir utan yfirfærslu þjónustu fatlaðra.

Eitt viðvarandi verkefni er Jöfnunarsjóður. Ársfundur hans var haldinn fyrir skömmu og kom fram þar hversu miklu máli hann skiptir fyrir sveitarfélög í landinu. Breytingar á starfsemi hans klárast vonandi á næsta ári.

Stefanía vakti athygli fundarmanna á 132. gr. sveitarstjórnarlaga sem hefur fengið litla athygli en getur skipt miklu máli. Greinin fjallar um sérreglur um stjórn og stjórnskipulag einstakra sveitarfélaga og gerir sveitarfélögum kleift að gera tilraunir til að breyta ýmsu í rekstri og skipulagi. Samkvæmt ákvæðinu er hægt að koma á samstarfi og samvinnu á ýmsan hátt án þess að um sé að ræða sameiningu. Það þarf að sækja um þetta til átta ára í senn og þarf að undirbúa mjög vel.

Hugsanlega er þetta leið sem hægt væri að skoða og kynna sér hvaða möguleikar felast í henni t.d. eru heimildir til að auka fjölda fulltrúa í sveitarstjórn tímabundið ef vilji er til að koma upp sameiginlegri sveitarstjórn.

Ráðuneytið er að undirbúa nýtt átak til eflingar sveitarstjórnarstigsins. Þar verður reynt að nálgast verkefnið með nýjum áherslum sem taka mið af okkar sérstöðu og reynslu t.d. frá Norðurlöndunum. Það eru ýmsar leiðir til að efla og styrkja sveitarfélögin til að takast á við framtíðaráskoranir sem eiga mjög vel við hérna. Jákvæð þróun hefur orðið á síðustu árum og áratugum. Mikill árangur hefur náðst í fjármálum sveitarfélaga. Íbúaþróun og breytt aldurssamsetning kallar á nýja vinkla og þróun. Nauðsynlegt er að bæta úr ágöllum sem eru til staðar í samskiptum ríkis og sveitarfélaga og leita úrbóta í stjórnsýslu.

 

5.2.      Guðjón Bragason, sviðsstjóri lögfræði- og velferðarsviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Guðjón fór yfir ýmis málefni sem Samband íslenskra sveitarfélaga vinnur að.

Fjárhagsstaða sveitarfélaga er mikið áhyggjuefni fyrir alla sveitarstjórnarmenn. Guðjón hvatti fundarmenn til að nota ritið Notaðu lykiltölur við stjórnun – þekktu sveitarfélagið þitt, sem sambandið gaf út í september 2015 til að setja fjármál eigin sveitarfélags í samhengi við sambærileg sveitarfélög.

Guðjón taldi mikilvægt að efla tekjustofnana með því að sveitarfélög fái hlutdeild í almenna hluta tryggingargjaldsins, gjöldum af umferð, skattlagningu fyrirtækja, arðgreiðslum til eigenda fyrirtækja, tekjum af hagnýtingu auðlinda, s.s. raforkuframleiðslu, ferðaþjónustu og fiskeldi. Að sveitarfélögin fái auknar endurgreiðslur virðisaukaskatts og að felldar verði niður endurgjaldslausar lóðir undir framhaldsskóla, sjúkrastofnanir, kirkjur og bænahús.

Stærsta verkefni sambandsins er að klára endurmat á þjónustu við fatlað fólk en ljóst er að útsvarið þarf að hækka vegna þessa verkefnis. Sambandið vonast til að sameiginleg niðurstaða komi úr þessari vinnu og nauðsynlegt er að fá stuðning við þetta mál.

Sóknaráætlanir eru þróunarverkefni sem kom með nýtt fjármagn til sveitarfélaga en auka þarf fjárveitingar af hálfu ríkisins. Þó það séu kostir og gallar við verkefnið eru kostirnir fleiri og sambandið myndi vilja tengja fleiri mál við sóknaráætlanirnar.

Búið er að kynna leiðarvísi um stefnumótun í ferðamálum og undirrita samkomulag um stjórnstöð ferðamála sem á að fela í sér nýja hugsun, ryðja hindrunum úr vegi og fá fólk til að vinna betur saman. Sambandið á þar tvo fulltrúa, Halldór Halldórsson og Sigrúnu Blöndal.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða þyrfti að falla frá kröfu um 50% mótframlag, það er í skoðun en ekkert skýrt. Sveitarfélögin þurfa að fá fjárstyrki til uppbyggingar án kröfu um mótframlag. Guðjón benti á að sveitarfélögin fá útsvarstekjur og fasteignagjöld en þurfa meiri tekjur. Tekjur af ferðamönnum eru mun minni en umsvifin í kringum ferðamennsku auk þess sem tekjurnar dreifast ójafnt á milli sveitarfélaga.

Fjárhagsleg áhætta sveitarfélaga og landshlutasamtaka vegna almenningssamgangna er of mikil. Guðjón benti á að stuðningur ríkisins vegna samninga um almenningssamgöngur hafi ekki verið nógu mikill. Það sést á því að lagaumgjörðin er ónýt, einkaleyfi landshlutasamtakanna heldur ekki. Tekjutap vegna þessa nemur tugum milljóna króna. Ef innanríkisráðuneytið og Alþingi munu ekki beita sér fyrir lagfæringu á þessu þurfa þau að bæta þeim sveitarfélögum sem gerðu samninga það upp. Þjónustan gengur víða mjög vel t.d., á Suðurlandi, og væri gríðarleg afturför ef þessi þjónusta legðist af. Verkefnið á skilið stuðning ríkis. SSA ályktuðu um málið og hvatti Guðjón fundarmenn til að skoða þá ályktun í nefndarstarfi.

Sveitarfélögum ber ekki að greiða með rekstri hjúkrunarheimila. Ríkisendurskoðun staðfesti að daggjöldin væru of lág. Heilbrigðisráðherra hefur sett af stað nefnd sem á að greina málaflokkinn og hafði ágætis samráð við sambandið um undirbúninginn. Þetta verður heilmikil vinna og er gott framtak. Nefndin hefur m.a. það verkefni að greina núverandi þjónustu, skoða fjármögnun og ábyrgð, þróa öldrunarþjónustu og gera aðgerðaráætlun.

Ljósleiðaravæðing er mjög stórt mál sem er í gangi.

Sambandið er fyrst og fremst að reyna að vera praktískt varðandi málefni flóttamanna. Hlutverk þess er að styðja við sveitarfélög í þessu málefni. Reynsla þeirra sveitarfélaga sem hafa tekið á móti flóttafólki í seinni tíð er að þetta er mjög flókið verkefni sem snýst um margt fleira en vilja. Sambandið vill að farið verði í heildarendurskoðun á þeim reglum sem hafa verið í gildi, skýrari línur settar um kostnað og verkaskiptingu. Sumstaðar hefur kostnaður verið endurgreiddur í eitt ár en það er bara alls ekki nóg. Var kannski nóg áður fyrr þegar fólk var mjög fljótt tilbúið til að fara á vinnumarkað en núna er verið að taka á móti verr stöddu fólki og meiri langtímaeftirfylgni nauðsynleg. Sambandið hefur verið tilbúið að fara með sveitarfélögum á fundi og gerðu það með Akureyringum. Sambandið vill vera með í hringiðunni á þessu máli og þiggur allar upplýsingar og ábendingar.

 

5.3.      Sigmundur Davíð Gunnlaugsson 1. þingmaður Norðausturkjördæmis.

Sigmundur Davíð byrjaði á að fara yfir hvað hefur gengið vel að undanförnu hér um slóðir, sagði gott að minna sig á það áður en farið yrði yfir mál sem þarf að leysa úr.

Sigmundur Davíð sagði mikinn árangur hafa náðst hér á mörgum sviðum, ekki síst efnahags- og atvinnumálum. Þar má nefna uppbygginguna á Bakka. Það verkefni sýnir að ef menn gefast ekki upp þó á móti blási er hægt að keyra verkefnin í höfn. Það hafðist fyrst og fremst vegna þess að menn gáfust ekki upp og unnu saman. Sjáum fleiri alvöru fjárfestingarverkefni hérna sem munu fjölga störfum og draga fjármagn inn á svæðið og allt útlit fyrir að það haldi áfram. Stór verkefni í samgöngubótum t.d. Vaðlaheiðagöng sem hefði getað gengið hraðar en heimamenn stóðu saman og létu ekki draga úr sér.

Í menntamálum hefur líka náðst mikill árangur þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Það þarf að styðja við þá sem hafa tekist að gera mikið úr litlu.

Menningarmálin standa vel og er Norðausturland samkeppnishæft við Suðvesturhornið og fólk kemur langt að til að sækja viðburði.

Margt er að gerast í heilbrigðismálum eftir langt aðhald t.d. var heilbrigðisráðherra að fá afhenta skýrslu um framtíðaruppbyggingu Sjúkrahússins á Akureyri.

Sem sagt margt jákvætt að gerast í atvinnumálum, velferðarmálum og menningarmálum.

Það á að gera enn betur. Stöðugleikaframlag bankanna felur í sér breytingu á stöðu ríkissjóðs til hins betra. Ríkissjóður fær betra svigrúm til að sinna mikilvægum verkefnum s.s. heilbrigðis-, velferðar- og menningarmálum.

Við sjáum fyrir okkur viðsnúning, uppbyggingu og framfarir í heilbrigðismálum. Gerum okkur grein fyrir að það er ekki búið að rétta hlut landsbyggðarinnar eins mikið og hlut höfuðborgarsvæðisins þar sem verulega hefur verið bætt í. Sá niðurskurður sem landsbyggðin hefur gengið í gegnum hefur ekki gengið til baka.

Ferðaþjónustan, stærsta útflutningsgrein landsins, hefur gríðarleg sóknarfæri vegna menningar, aðlaðandi byggðar og fallegrar náttúru hér í landshlutanum. Það skiptir máli að við fjölgum gáttum inn í landið og í þeirri vinnu hefur verið gott samstarf við heimamenn, fulltrúa sveitarfélaga og ferðaþjónustu. Það er mikill pólitískur stuðningur við að opna fleiri gáttir inn í landið.

Það er mikilvægt að varðveita sérstöðu hvers svæðis og hvers landshluta og að nýta styrkleikana á svæðinu sem felast m.a. í byggðinni hér og náttúrunni. Einnig er mikilvægt að tekjur úr ferðaþjónustu skili sér í auknum mæli til sveitarfélaga. Mikill kostnaður fylgir því að byggja upp innviði bæði nú og til framtíðar og það verður að vera samhengi þar á milli. Í þessu og á nokkrum öðrum sviðum hefur ráðandi staða Reykjavíkur í Sambandi íslenskra sveitarfélaga staðið öðrum sveitarfélögum fyrir þrifum. Sigmundur Davíð sagðist ekki telja það færa leið að flytja fjármagn með því að telja gistinætur þar sem mest af fjármagninu rynni þá til Reykjavíkur. Þar þarf hvorki að byggja jafn mikla innviði né heldur að ráðast í styrkingu til að koma nýjum stöðum á kortið. Sveitarfélög og samtök þeirra þurfa að geta unnið meira beint með ríkisvaldinu án þess að Reykjavík sé þar flöskuháls.

Það hefur átt sér stað mikil og góð undirbúningsvinna í sambandi við ljósleiðaravæðingu landsins. Ljóst að það á að vera hægt að ljósleiðaravæða allt landið á fáum árum.

Launamunur eftir landshlutum er erfitt mál og er í raun jafnréttismál svipað og launamunur kynjanna. Við ættum að ræða þetta út frá jafnréttissjónarmiði frekar en byggðasjónarmiði. Þetta snýst um jafnrétti einstaklinga, að allir eigi að vera jafnir og njóta sömu launa fyrir sömu vinnu sem og sömu þjónustu hins opinbera. Stjórnvöld þurfa að fylgja þeirri stefnu að það eigi að veita fólki sömu þjónustu óháð búsetu. Það ætti að vera augljóst en það er það ekki eins og heyrst hefur á umræðunni t.d. um flutning opinberra starfa eða fjárveitingu hins opinbera. Menn þurfa að vera mjög harðir á því að þetta sé ófrávíkjanlegt prinsipp í stað þess að horfa á kostnað. Þar eiga þingmenn og sveitarstjórnarmenn ólíkra flokka að standa saman. Samstaðan mun skipta öllu máli þegar kemur að því að viðhalda þjónustu hins opinbera.

Umræður

Guðmundur Baldvin Guðmundsson tók undir með Guðjóni varðandi bókun um tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Akureyrarbær mun taka undir þetta á næsta bæjarráðsfundi. Eyþing ætti að álykta og öll sveitarfélög einnig. Það er þungt undir fæti í rekstri sveitarfélaga og það verður að gera breytingar á þessu t.d. vegna reksturs málaflokks fatlaðs fólks, grunnskóla, hjúkrunarheimila, vegna launahækkana ofl.
Guðmundur Baldvin skoraði á Sigmund Davíð að taka undir með Brynhildi Pétursdóttur þingmanni og beita sér fyrir hækkun á menningarsamningi Akureyrar, það er ekki bara mál Akureyrar heldur Norðlendinga allra.

Arnór Benónýsson spurði Stefaníu hvort almenningssamgöngur væru munaðarlausar í ráðuneytinu.

Stefanía sagði að á það hefði verið bent og það væri mjög miður

Njáll Trausti Friðbertsson spurði Sigmund Davíðhvenær útkoma flugnefndarinnar yrði kynnt.

Sigmundur Davíð sagði drög að niðurstöðu vera komin í ráðuneytið svo það verða ekki margir dagar en ekki búið að tímasetja nákvæmlega.

Gunnar Gíslason spurði Sigmund Davíðút í ljósleiðaravæðingu um landið og hvernig væri með Hrísey og Grímsey sem væru í verkefninu Brothættar byggðir.

Sigmundur Davíð sagði gert ráð fyrir að allir dalir, firðir og eyjar verði tengdar og brothættar byggðir væru framanlega í forgangsröðinni.

Jón Óskar Pétursson spurði Sigmund Davíðhvort einhvers væri að vænta í yfirstandandi fjárlagagerð varðandi ljósleiðaravæðingu.

Sigmundur Davíð taldi það vera slíka grundvallarinnviðafjárfestingu að hagkvæmast væri að fara sem fyrst í hana svo ef það verður svigrúm þá mun hann leggja áherslu á að verkefninu verði hraðað. Þetta er mál sem allir eru mjög spenntir fyrir, líka í samstarfsflokknum.

 

Fundarhlé kl. 17:30

 

 

Laugardagur 10. október

 

6.         Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra.

Alfreð Schiöth framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra.

Alfreð sagði að miklar breytingar væru væntanlegar í Heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra þar sem Pétur Maack, formaður muni láta af störfum sem og Hafsteinn Gunnarsson stjórnarmaður og Örlygur Hnefill Örlygsson varamaður.

Alfreð benti á að dæmi væru um að vatnsból þéttbýlisstaða hafi spillst í vorleysingum t.d. á Svalbarðsströnd og Árskógssandi. Mikilvægt væri að skoða vatnsbólin reglulega og tryggja að girðingar og fleira væru í lagi. Mygla í húsnæði kemur reglulega í fjölmiðlum og koma þá fyrirspurnir til eftirlitsins í kjölfarið.

Nokkuð andvaraleysi er í fráveitumálum. Norðurorka er að vinna góða og mikla vinnu og stórar framkvæmdir að fara í útboð og þá kemur skólphreinsistöð á Akureyri. Húsavík, Skútustaðahreppur og Eyjafjarðarsveit eru komin af stað og Dalvíkingar búnir að endurnýja mikið. Fráveitumál er stór biti fyrir lítil sveitarfélög.

Heilbrigðiseftirlitið tók reglulega sýni úr Pollinum við félagssvæði Nökkva. Í ljós kom að viðvarandi mengun var á svæðinu. Norðurorka stefnir á endurbætur svo uppbygging á Nökkvasvæðinu verði farsæl.

Förgun spilliefna vefst stundum fyrir fyrirtækjum og einstaklingum, dæmi um að fyrirtæki hafi urðað asbestsfarm án leyfis.

Mikill áhugi hjá smáframleiðendum, t.d. beint frá býli, að fara af stað með smáframleiðslu matvæla og koma upp heimaverkun. Hlutverk Heilbrigðiseftirlitsins er að setja skilyrði og leiðbeina. Stundum virðist viðkomandi ekki hafa mikla fagþekkingu á viðfangsefninu þegar á að fara af stað og ætlar t.d. að nota lélegan húsakost. Þá eru sett skilyrði sem ekki alltaf er farið eftir. Það er slæmt því hugmyndin getur verið góð en mistök geta verið mikið bakslag fyrir þennan málaflokk. Alfreð vísar í dæmi um listeríu í ostaframleiðslu í Noregi. Listería er mjög alvarleg sýking sem veldur dauða í helmingi tilfella, því eru eftirlitsaðilar mjög vakandi yfir aðstæðum og mikilvægt að framleiðendur hafi fagþekkingu og góða aðstöðu.

Heilbrigðiseftirlitið er í góðu samstarfi við Matvælastofnun og Umhverfisstofnun m.a. um skráningarkerfi vegna eftirlits á mengunarvarna- og hollustuháttasviði og vegna matvælaeftirlits.

Halli var á rekstri Heilbrigðiseftirlitsins árið 2014 sem helgast af því að forsendur gáfu ekki raunhækkun á launahækkanir. Stofnunin hefur staðist áætlanir í gegnum tíðina og jafnvel frekar skilað afgangi. Staðan í ár er góð og áætlanir munu standast.

Umræður

Logi Már Einarsson sagði þennan málaflokk vera í góðum málum á Íslandi. Mygla er vandamál hér. Af hverju leggst Heilbrigðiseftirlitið ekki á sveif með þeim sem vilja lágmarka vandann með því að þrýsta á að hús verði rétt byggð? Við erum að fara eftir gömlum viðmiðum. Af hverju sendir eftirlitið ekki frá sér yfirlýsingu um að menn eigi að einangra hús að utan?

Alfreð sagði byggingartækni ekki vera sérsvið Heilbrigðiseftirlitsins og starfsmenn þess hamri á því að mygla komi ekki ef hús eru vel byggð. Eftirlitið skiptir sér ekki af tæknilegum aðferðum.

Logi Már Einarson benti á að Heilbrigðiseftirlitið eigi líka að vera fyrirbyggjandi. Í meirihluta tilfella er hægt að koma í veg fyrir myglu með smávægilegum aðgerðum.

Alfreð sagði mikilvægt að fá aðila með fagþekkingu til að koma og taka út hús/íbúðir. Heilbrigðiseftirlitið hefur lent í atvikum þar sem fólk kann ekki að loftræsta og því myndast mygla. Ef eftirlitið sér augljósan byggingagalla þá lætur það vita af því.

Logi Már spurði út í gúmmíkurl á sparkvöllum.

Alfreð sagði ákveðna heilsufarsáhættu að snerta og anda að sér kurli af vondum uppruna því sótagnir geta verið í því. Þetta er álíka mikil áhætta og að anda að sér borgarandrúmslofti þar sem er mikil umferð. Gamla kurlið er mjög víða komið á tíma. Þeir sem eiga þessi mannvirki þurfa að passa að vera ekki að hanga of lengi á gamla kurlinu. Samfélagið verður að vinna saman að því að minnka þessa áhættu.

Líneik Anna Sævarsdóttir benti á að fyrir austan hefur verið rætt um að heilbrigðiseftirlit tæki við ákveðnum verkefnum og spurði Alfreð hver hans sýn væri á það?

Alfreð sagði skiptar skoðanir á verkaskiptingu milli heilbrigðiseftirlita og Umhverfisstofnunar. Það væri eftirsóknarvert að hafa ákvörðunarvaldið á heimasvæðum og veita faglega og góða nærþjónustu á svæðunum sama hvað stofnunin heitir.

 

7.         Heilbrigðisstofnun Norðurlands

Jón Helgi Björnsson forstjóri

Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN) er samsett úr 6 stofnunum, á Blönduósi, Sauðárkróki, Fjallabyggð, Dalvík, Akureyri og Húsavík. Stofnunin þjónustar svæðið frá Blönduósi til Þórshafnar. Stofnunin er mörkuð af þessu stóra landssvæði. Tæplega 400 km á milli Blönduóss og Þórshafnar, gengur stundum illa að fá fólk í ráðuneytinu til að skilja þessa fjarlægð.

Stofnunin þjónustar 35 þúsund íbúa, veltir 4.8 milljörðum árið 2016, er fjórða stærsta heilbrigðisstofnun landsins með yfir 500 starfsmenn, 18 starfseiningar, 21 sjúkrarými, 128 hjúkrunar- og dvalarrými en engar höfuðstöðvar. Starfseminni er dreift vel um svæðið og stjórnendur og sérfræðingar eru um allt svæðið.

Langflestum málefnum sem eru uppi í hverri einingu er stýrt á staðnum, ákveðin fjárráð til að stýra hverri einingu. Áhersla á staðarumsjón sem oftast er sinnt af yfirhjúkrunarfræðingi.

Allar stofnanirnar sex voru reknar með 79 milljóna halla við sameiningu og HSN fékk vanskil og yfirdrætti uppá 120-140 milljónir í arf. Sumstaðar voru tæki og tól orðin léleg. Stofnunin fékk 65 milljóna aukaframlag fyrir sameiningakostnaði á fjárlögum 2015 og hefur HSN greitt upp allar lausaskuldir og yfirdrætti. Stofnunin er rekin með afgangi fyrstu 8 mánuði ársins, þökk sé góðu starfsfólki. Stofnunin er íhaldssöm í fjármálum og reynir að halda sig innan þeirra marka sem henni er sett í fjárhag og mun ekki verða rekin með halla. Ef fjárframlög eru ekki næg mun þjónustan skerðast.

Sjúkraskrárkerfi var sameinað á Norðurlandi fyrir fáeinum árum og upplýsingakerfi allra eininga í HSN hefur verið sameinað í eitt umhverfi. Stjórnendur nýta tæknina til að sinna störfum sínum og er í skoðun að nýta tæknina til að sinna sjúklingum einnig. HSN hefur m.a. skipt út yfir 60% af öllum tölvum, sett upp stimpilklukkur, innleitt Vinnustund og Matráð, rafræna reikninga og sett upp nýja heimasíðu.

Hollvinasamtök á Húsavík og Sauðárkróki sjá um endurnýjun á tækjabúnaði þar en það koma mjög litlar upphæðir á Akureyri, væri gaman ef eitthvað félag tæki að sér að gæta hagsmuna Heilsugæslunnar á Akureyri.

Logi Már Einarsson skoraði á Heilbrigðisstofnun Norðurlands að taka við öldrunarheimilum Akureyrarbæjar.

Jón Helgi taldi ekki útilokað að taka við öldrunarheimilunum en það væri ráðuneytið sem réði því.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson sagði Akureyrarbæ vera búinn að reyna að sækja peninga sem bærinn greiddi vegna Heilsugæslu Akureyrar en hafi ekki fengið það endurgreitt. Akureyrarbær er að greiða um 400-500 milljónir með öldrunarheimilum á Akureyri en þetta eru upphæðir sem ríkið á að greiða.

Jón Helgi sagði þetta vera umræðu sem þyrfti að eiga við heilbrigðisráðherra.

Gunnar I. Birgisson sagðist ekki hafa trú á þessari dreifðu miðstýringu. Öldrunarmálin eru á vegum ríkisins, það vantar meira fé í þau. Í Fjallabyggð eru tæp 20% íbúa 67 ára og eldri. Það er vonlaust að leysa þetta nema með blandaðri leið, félagslegri þjónusta og heimahjúkrun, sem er margfalt ódýrara en hjúkrunarheimili. Gunnar sagði Fjallabyggð vilja þjónusta fólk meira heima hjá sér. Gunnar spurði Jón Helga hvernig hafi tekist til að innleiða Vinnustund og hvort veikindi hafi minnkað?

Jón Helgi sagði kerfið vinna að því að fá fólk inn í rýmin í stað þess að vera heima hjá sér sem lengst. Það er vandamál því ef rýmin eru ekki nýtt missir rekstraraðillinn fjármagnið. Þá sagði hann Vinnustund hafa virkað mjög vel en veikindi stafsmanna hafi ekki við vandamál hjá stofnuninni.

Sigurlaug Hanna Leifsdóttir sagði mikinn biðtíma vera eftir heimilislækni á Akureyri og á sama tíma tali Jón Helgi um að allt sé í góðu lagi. Álag á bráðavakt og neyðarmóttöku er mjög aukið.

Jón Helgi sagði staðreyndina vera þá að læknaskortur á Akureyri væri einn stærsti veikleiki HSN. Verið sé að reyna ýmislegt til að auka afköstin og finna leiðir til að ráða bót á þessu vandamáli.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson benti á að kostnaðarauki vegna kjarasamninga hafa kostað Akureyrarbæ 100 milljónir. Greinilega allt annað umhverfi að reka ríkisstofnun heldur en fyrir sveitarstjórn að reka sambærilega stofnun, sýnir best vandamál í samskiptum ríkis og sveitarfélaga.

Eva Hrund Einarsdóttir spurði hvort stofnunin ætli að nota tæknina meira í sambandi við þjónustu við einstaklinga.

Jón Helgi sagði það vera í skoðun varðandi lyf og tímabókanir. Verið er að skoða hvernig hægt er að nýta tæknina svo hægt sé að veita þjónustu í dreifbýli án þess að keyra sérfræðinga á staðinn.

Jón Helgi þakkaði fyrir boðið og hvatti fundarmenn til að hafa samband ef þeir vilji fá heimsókn frá stofnuninni í sitt sveitarfélaga.

Nefndarstörf hófust 10:30.

Pétur Þór gerði grein fyrir nefndastörfum og hvar hver nefnd ætti að starfa. Þrjár nefndir starfa auk kjörnefndar og fulltrúum hafði verið skipað í hverja nefnd. Búið var að tala við formenn og undirbúa vinnuna eins og kostur var.

 

Hádegisverður kl. 12:00.

 

8.         Aðalfundarstörf (hófust kl. 12:30).
            (Álit nefnda. Afgreiðsla tillagna og ályktana, kosningar o.fl.).

Fundarstjóri tilkynnti að formenn nefnda myndu gera grein fyrir tillögum.

 

8.1       Tillögur nefnda.

Fjárhags- og stjórnsýslunefnd.

Í nefndinni sátu:

Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður

Gunnar I Birgisson

Kristinn Kristjánsson

Jón Þór Benediktsson

Matthías Rögnvaldsson

Sóley Björk Stefánsdóttir

Sigurlaug Hanna Leifsdóttir

Fjóla Valborg Stefánsdóttir

Ragnar Bjarnason

Yngvi Ragnar Kristjánsson

Sif Jóhannesdóttir

 

Guðmundur Baldvin gerði grein fyrir niðurstöðum nefndarinnar. Nefndarmenn hafa miklar áhyggjur af því að skuld við Vegagerðina sé að safnast upp og leggja áherslu á að málið verði klárað svo ekki haldi áfram að safnast í skuldahala því hætta er á því að það gleymist hvernig hann er til kominn. Nefndin telur mikilvægt að sveitarfélög álykti um tekjustofna sveitarfélaga á sínum heimavettvangi. Þá er mikilvægt að í almenningssamgöngum séu lagðar skýrar línur varðandi leið 57 og athugað verði með umsýslukostnað Strætó bs. en að mati Gunnars I. Birgissonar er hann of hár. Einstaka nefndarmenn vildu benda á halla sem Eyþing ber vegna umsýslukostnaðar sóknaráætlunar en kostnaðurinn fer rúmlega 3 milljónir yfir þann kostnað sem Eyþing fær í sinn hlut af umsýslupeningum sóknaráætlunar. Þeirri upphæð sem Eyþingi er heimilt að ráðstafa til umsýslu er deilt á atvinnuþróunarfélögin og til umsýslu menningarhluta Uppbyggingarsjóðs að auki heldur Eyþing eftir hluta upphæðarinnar en hún nægir ekki til að standa undir kostnaði Eyþings.

Fyrir fundinum lágu tvær tillögur um almenningssamgöngur bæði frá Fjárhags- og stjórnsýslunefnd og Atvinnu-, umhverfis- og samgöngumálanefnd. Fram kom tillaga um að Pétur Þór ásamt formönnum nefndanna myndi sameina tillögurnar í eina þar sem fundarmenn voru efnislega sammála innihaldi þeirra.

Samþykkt samhljóða.

 

Almenningssamgöngur

Aðalfundur Eyþings, haldinn í Hörgársveit 9. og 10. október 2015, leggur áherslu á mikilvægi góðra almenningssamgangna til að jafna búsetuskilyrði á svæði Eyþings og tengja íbúa þess við önnur landssvæði. Brýnt er að þegar í stað verði ráðist í nauðsynlegar breytingar til að tryggja rekstrargrundvöll verkefnisins. Áframhaldandi hallarekstur á verkefninu er óásættanlegur.

Fundurinn lítur svo á að forsendubrestur hafi orðið frá yfirtöku verkefnisins; lækkun á endurgreiðslu olíugjalds, einkaleyfi á umsömdum akstursleiðum ekki virt og framlag ríkisins ekki í samræmi við umfang samgöngukerfis milli þéttbýlisstaða á svæðinu og út af því. Fundurinn gerir kröfu um að grunnframlag og þróunarstyrkur til verkefnisins verði hækkað, lagalegu umhverfi almenningssamgangna verði breytt til að tryggja einkaleyfið og tekur undir ályktun aðalfundar Sambands sveitarfélaga á Austurlandi þess efnis frá 2. og 3. október sl.

Jafnframt er mikilvægt að lokið verði uppgjöri á tekjum af leið 57 (Reykjavík-Akureyri) frá árinum 2012 og 2013 auk þess sem skýrar línur verði lagðar um uppgjör á leiðinni til loka samningstíma.  Lögð er áhersla á að rekstri leiðar 57 sé haldið aðskildum frá öðrum leiðum og hún sé gerð upp sérstaklega. Þá  gerir fundurinn einnig athugasemd við óeðlilega háan umsýslukostnað sem innheimtur er af Strætó b.s.

Fundurinn felur stjórn Eyþings að koma ályktun aðalfundar á framfæri við ráðherra og þingmenn og fylgja málinu vel eftir.

 

Tekjustofnar sveitarfélaga

Aðalfundur Eyþings, haldinn í Hörgársveit 9. og 10. október 2015, skorar á ríkisstjórn Íslands að beita sér fyrir nauðsynlegum breytingum á tekjustofnum sveitarfélaga til að tryggja að þeir séu í samræmi við þau verkefni sem sveitarfélögunum eru falin. Útgjöld sveitarfélaga hafa vaxið sem og verkefnum fjölgað, en tekjuliðir hafa ekki fylgt þeirri þróun. Mikilvægt er að sveitarfélög fái aukna hlutdeild í heildarskatttekjum samfélagsins.

Því beinir fundurinn því til stjórnvalda og Sambands íslenskra sveitarfélaga að taka til athugunar á hvern hátt styrkja megi almennan tekjugrundvöll sveitarfélaga svo þau geti sinnt lögbundnu þjónustuhlutverki sínu á sómasamlegan hátt.

Samþykkt samhljóða

 

Kristján E. Hjartarson benti á að samhljómur gæti verið á milli tillagna og því eðlilegt að þær væru allar lesnar upp áður en þær yrðu bornar upp til samþykktar.

Samþykkt samhljóða.

 

Ársreikningur 2013

Fjárhags- og stjórnsýslunefnd gerir ekki athugasemdir við ársreikninginn og leggur til við fundinn að hann verði samþykktur.

Samþykkt samhljóða.

 

Endurskoðuð fjárhagsáætlun 2015

Fjárhags- og stjórnsýslunefnd gerir ekki athugasemdir við endurskoðaða fjárhagsáætlun 2015 og leggur til við fundinn að hún verði samþykkt. Í áætluninni felst m.a. að 10.6 mkr. framlag sveitarfélaga sem samþykkt var til menningarsamnings á aðalfundi 2014 fellur nú undir samning um sóknaráætlun.

Samþykkt samhljóða.

 

Fjárhagsáætlun 2016

Fjárhags- og stjórnsýslunefnd gerir ekki athugasemdir við fjárhagsáætlun 2016 og leggur til við fundinn að hún verði samþykkt þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir hallarekstri. Samkvæmt áætluninni munu árgjöld sveitarfélaga nema 9.4 mkr. á árinu 2016. Þá munu sveitarfélögin áfram greiða 10.6 mkr. til samnings um sóknaráætlun með sama hætti og áður til menningarsamnings.

Samþykkt, einn greiddi atkvæði á móti.

Nokkrar umræður voru um fjárhagsáætlun 2016. Fram kom að óeðlilegt væri að samþykkja hallarekstur. Einnig að mikilvægt væri að almenningssamgöngur þyrftu að vera komnar á réttan kjöl áður en kjörtímabili lyki. Þá kom fram sú spurning hvort rétt væri að fara í mál við Vegagerðina þar sem einkaleyfið heldur ekki.

 

 

Velferðar, mennta- og menningarmálanefnd

 

Í nefndinni sátu:

Gunnar Gíslason, formaður                                 

Axel Grettisson

Eva Hrund Einarsdóttir

Karl Frímannsson

Eiríkur H. Hauksson

Margrét Bjarnadóttir

Jón Óskar Pétursson

Friðrik Sigurðsson

Siggeir Stefánsson

Pétur Sigurðsson

 

Gunnar Gíslason gerði grein fyrir tillögu að nýju Menningarráði Eyþings - fagráði menningar. Gerðar voru talsverðar breytingar á framlagðri tillögu sem flestar snéru að fjárhag Menningarráðs með það að markmiði að færa Menningarráðið undir stjórn Eyþings og að rekstur þess félli undir Eyþing.

Samþykkt samhljóða.

 

Menntun fyrir atvinnulífið

Aðalfundur Eyþings, haldinn í Hörgársveit 9. og 10. október 2015, felur stjórn Eyþings að láta vinna aðgerðaáætlun fyrir eflingu menntunar fyrir atvinnulífið á starfssvæðinu. Í aðgerðaáætluninni verði lögð áhersla á menntun í ferðamálafræðum, upplýsingatækni og öðrum greinum sem fela í sér sóknarfæri svæðisins. Aðgerðaáætlunina skal leggja fyrir næsta aðalfund Eyþings til umræðu og afgreiðslu.

Samþykkt samhljóða.

 

Málefni framhaldsskóla

Aðalfundur Eyþings, haldinn í Hörgársveit 9. og 10. október 2015, leggur áherslu á að leitað verði leiða til þess að efla faglegan styrk og lögbundið hlutverk framhaldsskólanna á Norðurlandi eystra með auknu samstarfi og nútíma tæknilausnum. Engar mikilvægar ákvarðanir verði teknar um fyrirkomulag framhaldsskóla á svæðinu án samráðs við heimamenn.

Um er að ræða mjög mikilvægt byggðamál, m.a. þar sem framhaldsskólarnir gegna mikilvægu hlutverki í að hækka menntunarstig landsbyggðanna.

Samþykkt samhljóða.

 

Háskólinn á Akureyri

Aðalfundur Eyþings, haldinn í Hörgársveit 9. og 10. október 2015, leggur áherslu á sjálfstæði Háskólans á Akureyri og að honum verði tryggt nægt fjármagn til að sinna því hlutverki sem honum er ætlað, sem er gríðarlega mikilvægt fyrir landsbyggðirnar. Minnt er á að Háskólinn á Akureyri er og hefur verið leiðandi í fjarnámi á háskólastigi s.l. 17 ár án þess að njóta sérstakra fjárframlaga vegna þess. Jafnframt telur aðalfundurinn mikilvægt að skólanum verði sköpuð skilyrði til að þróa nýjar námsleiðir í samvinnu við atvinnulífið s.s. tækninám og læknanám. Fjölgun lækna á landsbyggðunum er ein af meginforsendum jákvæðrar byggðaþróunar en reynslan sýnir að þeir sem útskrifast úr Háskólanum á Akureyri setjast frekar að á landsbyggðunum en þeir sem útskrifast úr öðrum háskólum á Íslandi.

Samþykkt samhljóða.

 

Menningarmál á starfssvæði Eyþings

Aðalfundur Eyþings, haldinn í Hörgársveit 9. og 10. október 2015 ályktar, frá árinu 2007 hefur Menningarráð Eyþings unnið markvisst að eflingu menningarstarfs á starfsvæði Eyþings. Í úttektum á starfi menningarráða á landsbyggðinni kemur starfsemi Menningarráðs Eyþings afar vel út. Í ljósi þessa er mikilvægt að viðhalda því faglega starfi sem unnið hefur verið á svæðinu.

Á síðustu árum hafa orðið miklar breytingar á aðgengi að fjármagni fyrir menningarverkefni á landsbyggðinni. Framlög til verkefna á starfssvæði Eyþings hafa lækkað umtalsvert og má rekja þá lækkun til breytinga sem voru gerðar árið 2012 þegar fjármagn af safnliðum fjárlaga var flutt til menningarráða og opinberra sjóða. Aðalfundur Eyþings leggur áherslu á að auka þurfi fjármagn til stofn- og rekstrarstyrkja þar sem mörg lista- og menningarsetur, sem ekki hafa aðgang að opinberum sjóðum samkvæmt lögum, berjast í bökkum. Mikilvægt er að í þessum málaflokki sé fulls jafnréttis gætt. Skorar Aðalfundur Eyþings á fjárveitingavaldið að tryggja aukið fjármagn til menningarstarfs á starfssvæði Eyþings til framtíðar.

Samþykkt samhljóða.

 

Menningarsamningur Akureyrarbæjar

Aðalfundur Eyþings, haldinn í Hörgársveit 9. og 10. október 2015 ályktar, Akureyri hefur lengi verið þungamiðja í öflugu menningarstarfi utan höfuðborgarsvæðisins. Með menningarsamningi við ríkið hefur skapast tækifæri til aukinnar atvinnumennsku á sviði lista, sem hefur styrkt allt menningarstarf á svæði Eyþings og í nágrannabyggðarlögum. Fjármagn til menningarsamnings við Akureyri hefur staðið í stað í mörg ár á sama tíma og framlög til sambærilegra stofnana ríkisins í Reykjavík hafa aukist um hundruði milljóna króna. Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2016 er ekki að sjá neina breytingu á þessu. Aðalfundur Eyþings telur þessa mismunun, sem í framlögunum birtist, óskiljanlega og óásættanlega. Aðalfundur Eyþings telur því afar brýnt að fjármagn sé aukið til samningsins til að efla enn frekar atvinnu á sviði lista á starfssvæði Eyþings. Það kemur öllu landinu til góða.

Samþykkt samhljóða.

 

Sjúkrahúsið á Akureyri

Aðalfundur Eyþings, haldinn í Hörgársveit 9. og 10. október 2015, ítrekar mikilvægi þess að standa vörð um og efla uppbyggingu Sjúkrahússins á Akureyri. Nauðsynlegt er að tryggja nægilegt fjármagn til þess að fjölga námsstöðum unglækna, auka þjónustu á dag- og göngudeildum og til þess að efla þjónustu bráðamóttöku spítalans vegna þeirrar aukningar sem hefur orðið í aðsókn.  Einnig telur fundurinn mikilvægt að hafist verði handa sem allra fyrst við byggingu nýrrar legudeildar.

Samþykkt samhljóða.

 

Heilbrigðisþjónusta

Aðalfundur Eyþings, haldinn í Hörgársveit 9. og 10. október 2015, minnir á að almenn og góð heilbrigðisþjónusta er mikilvægt byggða- og öryggismál. Nauðsynlegt er að stjórnvöld tryggi aðgengi að grunnþjónustu heilsugæslu. Aðalfundur Eyþings skorar á ráðherra að vinna náið með sveitarfélögum við að skipuleggja þjónustu við aldraða. Málefni aldraða verða sífellt umfangsmeiri jafnframt því sem fjöldi aldraða eykst. Mikilvægt er að ábyrgð ríkisins sé skýr og nægt fjármagn fylgi verkefninu. Farið verði í gerð þjónustusamninga við heilsugæslu- og öldrunarstofnanir og kröfur um þjónustu séu kostnaðarmetnar fyrirfram.

Samþykkt samhljóða að undangengnum smávægilegum orðalagsbreytingum.

 

Aflið

Aðalfundur Eyþings, haldinn í Hörgársveit 9.-10. október 2015, skorar á stjórnvöld að tryggja Aflinu, samtökum gegn kynferðis- og heimilisofbeldi nauðsynlegt fjármagn til að standa vörð um sambærilega þjónustu á landsbyggðunum og veitt er á höfuðborgarsvæðinu. Aflið gegnir afar mikilvægu hlutverki á Eyþingssvæðinu.

Samþykkt samhljóða.

 

SÁÁ

Aðalfundur Eyþings, haldinn í Hörgársveit 9. og 10. október 2015, skorar stjórnvöld að tryggja starfsemi göngudeildar SÁÁ á Akureyri.

Samþykkt samhljóða.

 

Gunnar I. Birgisson gerði athugasemd og sagði ályktanirnar ekki mega vera of Akureyrarmiðaðar.

 

 

Atvinnu-, umhverfis- og samgöngumálanefnd

 

Í nefndinni sátu:

Steinunn María Sveinsdóttir, formaður

Kristján E. Hjartarson

Jóhanna Dögg Stefánsdóttir

Valtýr Hreiðarsson

Ásta Fönn Flosadóttir

Arnór Benónýsson

Katý Bjarnadóttir

Hilma Steinarsdóttir

 

Steinunn María hvatti fundarmenn til að hætta að tala um beint flug inn á svæðið heldur tala frekar um Alþjóðaflugvöllinn á Akureyri.

 

Alþjóðaflugvöllurinn á Akureyri

Aðalfundur Eyþings, haldinn í Hörgársveit 9. og 10. október 2015, bendir á mikilvægi þess að álagi vegna fjölgunar erlendra ferðamanna verði dreift betur um landið en nú er gert, meðal annars til að vernda náttúruna. Fundurinn skorar á ríkið að styðja við og efla millilandaflug um Akureyrarflugvöll. Fundurinn leggur áherslu á að eldsneytiskostnaður verði jafnaður milli landshluta svo samkeppnisstaða Akureyrarflugvallar skekkist ekki af þeim sökum. Með því er hægt að tryggja betri nýtingu innviða og efla enn frekar þá mikilvægu atvinnugrein sem ferðaþjónustan er orðin.

Samþykkt samhljóða.

 

Nýtt flughlað

Aðalfundur Eyþings, haldinn í Hörgársveit 9. og 10. október 2015, krefst þess að ríkið tryggi fjármagn í fjárlögum ársins 2016 til stækkunar flughlaðs á Akureyrarflugvelli.

Akureyrarflugvöllur er einn af fjórum alþjóðaflugvöllum landsins. Stækkun flughlaðsins gegnir mikilvægu hlutverki í frekari uppbyggingu hans. Áframhaldandi uppbygging alþjóðaflugvallarins á Akureyri er mjög mikilvæg til að bæta almenn skilyrði til atvinnuuppbyggingar á svæðinu og styðja þannig við fjárfestingar í atvinnulífi á svæðinu.

Samþykkt samhljóða að undangengnum smávægilegum orðalagsbreytingum.

 

Flugsamgöngur

Aðalfundur Eyþings, haldinn í Hörgársveit 9. og 10. október 2015, ítrekar mikilvægi þess að stutt verði við flugsamgöngur til og frá Þórshöfn, Vopnafirði, Húsavík og Grímsey. Flugsamgöngur eru ein af lífæðum þessara samfélaga sem nauðsynlegt er að standa vörð um.

Samþykkt samhljóða.

 

Flugvöllurinn í Vatnsmýrinni

Aðalfundur Eyþings, haldinn í Hörgársveit 9. og 10. október 2015, leggst eindregið gegn því að miðstöð innanlandsflugsins verði flutt úr Vatnsmýrinni. Fundurinn skorar á innanríkisráðherra að tryggja óskerta starfsemi flugvallarins og tryggja þar með öryggishagsmuni íbúa landsbyggðanna. Það er með öllu ólíðandi að dregið verði úr öryggi sjúklinga og slasaðra sem þurfa að komast með hraði á okkar helsta sjúkrahús, Landspítalann. Mikilvægt er að aðgengi íbúa landsbyggðanna að heilbrigðisþjónustu, stjórnsýslu, viðskiptalífi og menningarlífi sé tryggt. Ef hugmyndir um flutning Reykjavíkurflugvallar úr Vatnsmýrinni ganga eftir myndi það hafa alvarleg áhrif á lífsgæði íbúa landsbyggðanna.

Samþykkt samhljóða. Logi Már Einarsson sat hjá og gerði grein fyrir atkvæði sínu.

 

Malarvegir

Aðalfundur Eyþings, haldinn í Hörgársveit 9. og 10. október 2015, skorar á samgönguyfirvöld að veita mun meira fé til uppbyggingar og viðhalds héraðs- og tengivega heldur en verið hefur að undanförnu. Litlu fé hefur verið varið til uppbyggingar og viðhalds malarvega og nú er svo komið að ýmsir þeirra eru orðnir mjög illa farnir og beinlínis hættulegir. Nefna má veginn milli Þórshafnar og Bakkafjarðar, um Melrakkasléttu, í Bárðardal og í Hörgárdal. Fundurinn leggur áherslu á að lagt verði bundið slitlag á stofnveginn milli þéttbýliskjarnanna í Langanesbyggð sem fyrst. Góðar samgöngur um land allt eru jafnréttismál og ein af grunnforsendum dreifðrar byggðar sem og atvinnuuppbyggingu, s.s. ferðaþjónustu.

Samþykkt samhljóða.

 

Snjómokstur

Aðalfundur Eyþings, haldinn í Hörgársveit 9. og 10. október 2015, lýsir áhyggjum sínum af fjársvelti Vegagerðarinnar hvað snjómokstur og vetrarþjónustu varðar og skorar á stjórnvöld að bæta úr því.

Samþykkt samhljóða.

 

Fjarskiptamál

Aðalfundur Eyþings, haldinn í Hörgársveit 9. og 10. október, gerir kröfu um að tryggð verði aukin gæði nettenginga, sjónvarps- og útvarpssendinga og farsímasambands á svæði Eyþings í samræmi við stefnumörkun fjarskiptaáætlunar. Fundurinn fagnar stefnumótun stjórnvalda um ljósleiðaravæðingu um land allt og gengur út því frá að þau sveitarfélög sem nú þegar standa í framkvæmdum eða hafa lokið lagningu ljósleiðara sitji við sama borð og önnur sveitarfélög varðandi þátttöku ríkisins í kostnaði. Fundurinn leggur áherslu á að þær byggðir sem skilgreindar eru sem brothættar verði í forgangi.

Samþykkt samhljóða.

 

Dreifing á starfsemi ríkisins

Aðalfundur Eyþings, haldinn í Hörgársveit 9. og 10. október 2015, styður stefnumörkun ríkisins í fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni. Betri dreifing opinberra starfa vítt og breitt um landið festir í sessi búsetu um land allt. Þá er ekki eðlilegt að uppbygging opinberrar þjónustu sem fjármögnuð er með skattfé allra landsmanna eigi sér að mestu stað á höfuðborgarsvæðinu. Fundurinn skorar á ríkið að nýta tækifærið þegar nýjum stofnunum er komið á fót og staðsetja þær vítt og breitt um landið. Fundurinn telur orðið tímabært að endurskoða staðsetningu opinberra starfa út frá þeirri tækniþróun sem hefur átt sér stað.

Staðsetning opinberra starfa á ekki að vera bitbein á milli landsbyggðanna og höfuðborgarsvæðis heldur þarf að tryggja fjölbreytt störf og góð búsetuskilyrði um land allt. Það eru sameiginlegir hagsmunir allra Íslendinga að byggð blómstri á öllu landinu.

Samþykkt samhljóða.

 

Innflutningsbann Rússa og áhrif þess á sjávarbyggðir landsins

Aðalfundur Eyþings, haldinn í Hörgársveit 9. og 10. október 2015, lýsir yfir áhyggjum sínum af áhrifum innflutningsbanns Rússlands á íslenskar sjávarafurðir og afleiðingum þess á sjávarbyggðir. Viðskiptabannið ógnar verulega tilveru einstakra sjávarbyggða og skorar á ríkið að tryggja mótvægisaðgerðir til þess að bregðast við stöðunni.

Samþykkt samhljóða.

 

Úrbætur vegna takmarkana í flutningsgetu á raforku

Aðalfundur Eyþings, haldinn í Hörgársveit 9. og 10. október 2015, lýsir yfir áhyggjum af því að takmörkuð flutningsgeta á rafmagni innan svæðisins skekkir samkeppnistöðu og hamlar uppbyggingu fyrirtækja á starfssvæði Eyþings. Flutningsgeta má ekki standa eðlilegri atvinnuþróun og atvinnuuppbyggingu fyrir þrifum. Þá leggur fundurinn þunga áherslu á að þriggja fasa rafmagn verði í boði á öllu svæðinu. Fundurinn leggur áherslu á að tekið verði tillit til óska sveitarfélaga um val á línugerð sem og að kostnaður vegna lagningar lína falli ekki á sveitarfélög.

Samþykkt samhljóða.

 

Úrbætur í fráveitumálum

Aðalfundur Eyþings, haldinn í Hörgársveit 9. og 10. október 2015, gerir kröfu um aðkomu ríkisins að fráveituframkvæmdum sveitarfélaga. Þá ítrekar fundurinn enn og aftur ósk sína eftir stefnu ríkisins í fráveitumálum og að fundnar verði ásættanlegar lausnir til framtíðar.

Samþykkt samhljóða.

 

 

 

Verndun náttúrunnar

Aðalfundur Eyþings, haldinn í Hörgársveit 9. og 10. október 2015, skorar á ríkið að móta skýra stefnu um uppbyggingu ferðamannastaða og tryggja nægt fjármagn til þess verkefnis svo vernda megi náttúru landsins. Útlit er fyrir að fjöldi ferðamanna til landsins muni aukast mikið á næstu árum og leggur fundurinn áherslu á að gripið verði til aðgerða áður en í enn frekara óefni verður komið. Jafnframt fer fundurinn fram á að krafa um mótframlag sveitarfélaga í Framkvæmdasjóð ferðamanna verði felld út.

Samþykkt samhljóða.

 

Heildstæð sýn í ferðamálum

Aðalfundur Eyþings, haldinn í Hörgársveit 9. og 10. október 2015, felur stjórn að hefja undirbúning að gerð svæðisskipulags í ferðaþjónustu á Eyþingssvæðinu.

Samþykkt samhljóða.

 

Nokkur umræða skapaðist um hve margar ályktanirnar væru og hvort það dragi úr vægi þeirra. Einnig skapaðist umræða um ályktun um innflutningsbann Rússa og áhrif þess á sjávarbyggðir landsins.

 

 

8.2.      Tillögur frá Kjörnefnd.

 

Í nefndinni sátu:

Fjóla Valborg Stefánsdóttir, formaður

Friðrik Sigurðsson

Sigurlaug Hanna Leifsdóttir

 

Fjóla Valborg geri grein fyrir niðurstöðum og tillögum nefndarinnar.

 

Breytingar á Heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra 2014 – 2018.

Í stað Péturs Maack Þorsteinssonar, Akureyri, sem bæðist lausnar, kæmi Jón Ingi Cæsarsson, og gegni hann formennsku.

Í stað Hafsteins Gunnarssonar, Norðurþingi, kæmi Benedikt Kristjánsson.

Í stað Örlygs Hnefils Örlygssonar sem varamanns kæmi Guðmundur Smári Gunnarsson.

Samþykkt samhljóða.

 

Í Heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra sitja nú:

Jón Ingi Cæsarsson                             Akureyri, formaður

Svanhildur Dóra Björgvinsdóttir         Akureyri

Benedikt Kristjánsson                         Norðurþingi

Þórarinn Þórisson                               Langanesbyggð

Hólmfríður G. Jónsdóttir                    Dalvíkurbyggð

 

Til vara (í sömu röð og aðalmenn)

Linda María Ásgeirsdóttir                   Akureyri

Hjördís Stefánsdóttir                           Akureyri

Guðmundur Smári Gunnarsson                      Norðurþingi

Steinþór Heiðarsson                           Tjörnesshreppi

Fjóla Stefánsdóttir                              Grýtubakkahreppi

 

Breytingar á stjórn Eyþings 2014 – 2016.

Bjarni Th. Bjarnason, Dalvíkurbyggð, kæmi í stað Sigurðar Vals Ásbjarnarsonar, Fjallabyggð, sem látið hefur af störfum og Gunnar I. Birgisson, Fjallabyggð, sem varamaður.

Karl Frímannsson, Eyjafjarðarsveit, kæmi í stað Jóns Stefánssonar, Eyjafjarðarsveit sem baðst lausnar.

Samþykkt samhljóða.

 

Stjórn Eyþings 2014-2016

Logi Már Einarsson                            Akureyri, formaður

Eva Hrund Einarsdóttir                                   Akureyri         

Bjarni Th. Bjarnason                          Dalvíkurbyggð

Karl Frímannsson                                Eyjafjarðarsveit

Sif Jóhannesdóttir                               Norðurþingi

Arnór Benónýsson                             Þingeyjarsveit

Hilma Steinarsdóttir                            Langanesbyggð

 

Til vara (í sömu röð og aðalmenn)

Sigríður Huld Jónsdóttir                      Akureyri

Gunnar Gíslason                                 Akureyri

Gunnar I. Birgisson                            Fjallabyggð

Eiríkur Haukur Hauksson                   Svalbarðsstrandarhreppi

Örlygur Hnefill Örlygsson                  Norðurþingi

Jón Óskar Pétursson                           Skútustaðahreppi

Olga Gísladóttir                                  Norðurþingi

 

 

8.3.      Val á endurskoðanda.

Tillaga kjörnefndar er að endurskoðandi verði áfram sá sami, þ.e. verði Enor ehf., Davíð Búi Halldórsson löggiltur endurskoðandi.

Samþykkt samhljóða.

 

8.4       Ákvörðun um fundarstað næsta aðalfundar.

Siggeir Stefánsson kvaddi sér hljóðs og lagði til að næsti aðalfundur Eyþings yrði haldinn á Þórshöfn, Langanesbyggð.

Samþykkt samhljóða.

 

8.5.      Önnur mál.

Sigurlaug Hanna Leifsdóttir beindi því til stjórnar að breyta fyrirkomulagi aðalfunda með það að markmiði að fundarmenn hefðu meiri tíma til samræðna sín á milli. Einnig spurði hún út í kynjaskiptingu í stjórn Eyþings.

Logi Már Einarsson sagði það vel koma til greina að hafa einungis útdrátt úr skýrslu stjórnar enda væri hún aðgengileg öllum fundarmönnum.

Siggeir Stefánsson fannst gæta tímamóta í skýrslu formanns. Hann hafði aldrei heyrt Akureyring tala svo ákveðið um að efla Eyþing líkt og formaður gerði. Það hefur oft verið rætt um hvað skuli gera með Eyþing. Hingað til verið þannig að ef menn hafa verið ósammála um málefni þá hafi málunum verið ýtt til hliðar. Siggeir tók undir með formanni og vill sjá Eyþing eflast og gera það að alvöru hagsmunasamtökum svæðisins sem geti gert meira fyrir okkur sameiginlega. Góðar umræður og rökræður munu gera okkur sterkari og betur í stakk búin til að takast á við ríkisvaldið.

Matthías Rögnvaldsson bað um að fá fundargögnin rafrænt bæði þau sem væru fyrir þennan fund sem og framvegis.

Pétur Þór Jónasson sagðist bregðast við því.

Gunnar Gíslason benti á að starfsemi Eyþings snúist ekki eingöngu um að takast á við ríkisvaldið heldur gera betur fyrir okkar íbúa. Hann tók undir orð Siggeirs og Loga um eflingu Eyþings og lagði til að raunveruleg umræða um þau mál yrðu tekin á næsta aðalfundi Eyþings.

Arnór Benónýsson tók undir þá umræðu að við þurfum að vinna betur saman og vakti athygli á tímamótasamþykkt sem var samþykkt hér á fundinum um svæðisskipulag í ferðaþjónustu á Eyþingssvæðinu.

Steinunn María Sveinsdóttir tók einnig undir að virkja Eyþing betur og vera með skýrari markmið um hvað við viljum með Eyþing. Mikill mannauður er á svæðinu t.d. atvinnuþróunarfélögin, Markaðsstofa Norðurlands og Eyþing en þurfum kannski að huga betur að verkaskiptingu. Steinunn María lagði til að taka umræðuna um það í samhengi við stefnumótun Eyþings.

 

8.6.      Fundarslit.

Logi Már Einarsson þakkaði Hörgársveit fyrir frábærar móttökur og skemmtun. Einnig þakkaði hann fundarmönnum fyrir samveruna og tók undir með Sigurlaugu Hönnu um að það mætti gefa meiri tíma í almennar umræður, óformlegu samskiptin eru ekki síður mikilvæg. Hann óskaði fundarmönnum góðrar heimferðar og sagði fundi slitið.

Fundi slitið kl. 13:51.

 

 

Fyrirlesarar:

Geir Kristinn Aðalsteinsson, nefnd Eyþings um almenningssamgöngur.

Svanfríður Inga Jónasdóttir, ráðgjafi Ráðrík ehf.

Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri

Jón Helgi Björnsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands.

 

Skráðir gestir:

Baldvin Valdimarsson, verkefnisstjóri Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, alþingismaður Norðausturkjördæmis.

Brynhildur Pétursdóttir, alþingismaður Norðausturkjördæmi.

Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri Þingeyjarsveit.

Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri Akureyri.

Elva Gunnlaugsdóttir, verkefnisstjóri Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar.

Erna Indriðadóttir, varaþingmaður Norðausturkjördæmi.

Guðjón Bragason, sviðsstjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Guðmundur Magnússon, Heilbrigðisstofnun Norðurlands.

Höskuldur Þórhallsson, alþingismaður Norðausturkjördæmi.

Jón Stefánsson, sveitarstjórnarmaður Eyjafjarðarsveit.

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra og alþingismaður Norðausturkjördæmi.

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Norðausturkjördæmis.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og alþingismaður Norðausturkjördæmi.

Sigurður Egilsson, bifreiðastjóri forsætisráðuneyti.

Stefanía Traustadóttir, sérfræðingur innanríkisráðuneyti.

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar.

 

Starfsmenn og embættismenn:

Alfreð Schiöth, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra.

Linda Margrét Sigurðardóttir, starfsmaður Eyþings.

Pétur Þór Jónasson, framkvæmdastjóri Eyþings.

Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, menningarfulltrúi Eyþings.

 

 

Kjörnir fulltrúar á aðafundi Eyþings 2015

Sveitarfélag

 

Aðalfulltrúar

 

Varafulltrúar

Fjallabyggð

X

Gunnar I Birgisson

X

Kristinn Kristjánsson

Fjallabyggð

X

Steinunn M Sveinsdóttir

 

Hilmar Elefsen

Fjallabyggð

 

S. Guðrún Hauksdóttir

 

Helga Helgadóttir

Fjallabyggð

 

Sólrún Júlíusdóttir

 

Jón Valgeir Baldursson

Dalvíkurbyggð

 

Heiða Hilmarsdóttir

 

Þórhalla Franklín Karlsdóttir

Dalvíkurbyggð

X

Bjarni Th. Bjarnason

X

Pétur Sigurðsson

Dalvíkurbyggð

X

Lilja Björk Ólafsdóttir

 

Gunnþór E Gunnþórsson

Dalvíkurbyggð

X

Kristján E Hjartarson

 

Valdís Guðbrandsdóttir

Hörgársveit

 

Snorri Finnlaugsson

X

Axel Grettisson

Hörgársveit

X

Jón Þór Benediktsson

 

Ásrún Árnadóttir

Akureyrarbær

 

Bjarki Ármann Oddsson

 

Sigríður Huld Jónsdóttir

Akureyrarbær

X

Matthías Rögnvaldsson

 

Dagur Fannar Dagsson

Akureyrarbær

 

Silja Dögg Baldursdóttir

 

Tryggvi Þór Gunnarsson

Akureyrarbær

X

Guðmundur Baldvin Guðmundsson

 

Siguróli Magni Sigurðsson

Akureyrarbær

 

Ingibjörg Ólöf Isaksen

 

Halldóra Kristín Hauksdóttir

Akureyrarbær

X

Logi Már Einarsson

 

Ólína Freysteinsdóttir

Akureyrarbær

X

Gunnar Gíslason

X

Njáll Trausti Friðbertsson

Akureyrarbær

X

Eva Hrund Einarsdóttir

 

Bergþóra Þórhallsdóttir

Akureyrarbær

 

Margrét Kristín Helgadóttir

X

Sóley Björk Stefánsdóttir

Eyjafjarðarsveit

X

Karl Frímannsson

 

Hólmgeir Karlsson

Eyjafjarðarsveit

X

Jóhanna Dögg Stefánsdóttir

 

Halldóra Magnúsdóttir

Eyjafjarðarsveit

X

Sigurlaug Hanna Leifsdóttir

 

Kristín Kolbeinsdóttir

Svalbarðsstrandarhr.

X

Eiríkur H Hauksson

 

Halldór Jóhannesson

Svalbarðsstrandarhr.

X

Valtýr Hreiðarsson

 

Ólafur Rúnar Ólafsson

Grýtubakkahreppur

 

Þröstur Friðfinnsson

X

Fjóla Valborg Stefánsdóttir

Grýtubakkahreppur

X

Ásta Fönn Flosadóttir

 

Sigurbjörn Jakobsson

Þingeyjarsveit

X

Arnór Benónýsson

 

Árni Pétur Hilmarsson

Þingeyjarsveit

X

Margrét Bjarnadóttir

 

Dagbjört Jónsdóttir

Þingeyjarsveit

X

Ragnar Bjarnason

 

Sigurður Hlynur Snæbjörnsson

Skútustaðahreppur

X

Yngvi Ragnar Kristjánsson

 

Jóhanna Katrín Þórhallsdóttir

Skútustaðahreppur

X

Jón Óskar Pétursson

 

Guðrún Brynleifsdóttir

Norðurþing

X

Sif Jóhannesdóttir

 

Óli Halldórsson

Norðurþing

 

Örlygur Hnefill Örlygsson

X

Kristján Þór Magnússon

Norðurþing

X

Gunnlaugur Stefánsson

 

Soffía Helgadóttir

Norðurþing

 

Jónas Einarsson

 

Kjartan Páll Þórarinsson

Norðurþing

 

Olga Gísladóttir

X

Friðrík Sigurðsson

Tjörneshreppur

X

Katý Bjarnadóttir

 

Sveinn Egilsson

Svalbarðshreppur

 

Sigurður Þór Guðmundsson

 

Sigurður Jens Sverrisson

Langanesbyggð

X

Hilma Steinarsdóttir

 

Þorsteinn Ægir Egilsson

Langanesbyggð

X

Siggeir Stefánsson

 

Halldóra Jóhanna Friðbergsdóttir

 

Rétt til setu á aðalfundinum 2015 áttu 40 fulltrúar frá 13 sveitarfélögum, sjá ofangreinda töflu. Alls mættu 35 fulltrúar frá 12 sveitarfélögum.

 

Getum við bætt síðuna?