Fara í efni

Fundargerð - Aðalfundur 2013

27.09.2013

 

Aðalfundur Eyþings 2013

Haldinn í grunnskólanum á Grenivík

27. og 28. september 2013

 

 

Fundargerð

 

 

Föstudagur 27. september

 

 

1.      Fundarsetning kl. 13:00.

 

Formaður Eyþings, Geir Kristinn Aðalsteinsson, setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna. Hann lagði til að fundarstjórar yrðu Eiríkur Hauksson og Jón Helgi Pétursson og var það samþykkt samhljóða.

1.1.    Starfsmenn þingsins og kjörnefnd.

Fundarstjórar lögðu eftirfarandi til um starfsmenn þingsins og kjörnefnd:

Ritarar:

Guðmundur Baldvin Guðmundsson, Akureyrarbæ.

Soffía Helgadóttir, Norðurþingi.

Samþykkt samhljóða.

Kjörnefnd:

Guðrún María Valgeirsdóttir, Skútustaðahreppi, formaður.

Dagbjört Jónsdóttir, Þingeyjarsveit.

Guðmundur Sigvaldason, Hörgársveit.

Samþykkt samhljóða.

Ráðinn fundarritari:

Valtýr Sigurbjarnarson, Akureyri.

Yfirumsjón:

Pétur Þór Jónasson, framkvæmdastjóri Eyþings.

1.2.    Skýrsla stjórnar.

Geir Kristinn Aðalsteinsson, formaður Eyþings, flutti skýrslu stjórnar sem lögð hafði verið fyrir aðalfundarfulltrúa sem fundarskjal og fram kom að hún myndi fylgja með fundargerð aðalfundarins. Hann greindi frá hverjir hefðu skipað stjórn og varastjórn starfsárið 2012-2013 og hvaða 6 nefndir hefðu verið starfandi. Stjórnin hélt á starfsárinu 11 bókaða stjórnarfundi og tók til afgreiðslu liðlega 150 mál. Starfsemi samtakanna hefur verið að taka breytingum og verður sífellt umfangsmeiri.

Þá fór Geir Kristinn yfir helstu atriði aðgerðaáætlunar og ályktanir síðasta aðalfundar Eyþings sem sendar voru þeim aðilum sem þær varða. Fyrst gerði hann grein fyrir verkefninu Sóknaráætlun Norðurlands eystra, en á fundi stjórnar 11. desember 2012 var samþykkt verklag við undirbúning og gerð sóknaráætlunar 2013 fyrir landshlutann og þar með var verkefnið formlega sett af stað. Atvinnuþróunarfélögin á starfssvæði Eyþings tóku saman stöðugreiningu og samið var við Bjarna Snæbjörn Jónsson, ráðgjafa um að stýra samráðsfundi og vinnslu sóknaráætlunar. Samráðsfundurinn var haldinn 4. febrúar og á hann mættu 55 fulltrúar. Framtíðarhlutverk samráðsvettvangsins var markað með einni setningu: Efla samvinnu, hagræða og skerpa sameiginleg markmið með hagsmuni svæðisins að leiðarljósi.

Næst gerði Geir Kristinn grein fyrir almenningssamgöngum og þeim samningum sem gerðir voru vegna þeirra en vísaði síðan til frekari umfjöllunar undir sérstökum dagskrárlið, enda málið umfangsmikið og að mörgu leyti erfitt viðfangs.

Þriðja verkefnið sem Geir Kristinn nefndi er Vaðlaheiðargöng en þar eru framkvæmdir hafnar af fullum krafti og ganga vel. Búið er að sprengja um 700 metra nú í lok september 2013. Framkvæmdastjóri Eyþings gegnir formennsku í stjórn Vaðlaheiðarganga hf. og í Greiðri leið ehf.

Á aðalfundi Eyþings í fyrra voru kynntar hugmyndir að fimm verkefnum fyrir umsóknir af starfssvæðinu um svonefnda IPA-styrki. Við lokaafgreiðslu fékk einungis eitt verkefnanna jákvætt svar en eftir breyttar áherslur stjórnvalda í viðræðum við Evrópusambandið er ekki reiknað með að styrkurinn berist.

Þessu næst nefndi Geir Kristinn menningarsamninginn, en hann rennur út um næstu áramót og að ítarlega yrði um menningarmálin fjallað undir sérstökum dagskrárliðum.

Skipulag Eyþings var mikið til umfjöllunar á starfsárinu. Sjö manna nefnd starfaði undir forystu Bergs Elíasar Ágústssonar. Hún skilaði tillögum ásamt greinargerð til stjórnar. Þar var lagt til að fjölgað yrði um tvo í stjórn Eyþings og einnig yrði sett á fót fulltrúaráð. Tillögur nefndarinnar og sjónarmið stjórnar Eyþings voru lögð fyrir aukafund sem haldinn var 12. febrúar 2013. Niðurstaða þess fundar leiðir til breytinga á lögum Eyþings sem hér eru lagðar fram til umræðu og afgreiðslu.

Síðan sagði Geir Kristinn frá ýmsum fundum og verkefnum og samstarfi við þingmenn. Ýmis þingmál koma til umræðu og vinnslu hjá stjórn Eyþings og haldnir eru árlegir fundir stjórnar og þingmanna í kjördæmavikum. Á síðasta ári komu 37 þingmál til umsagnar. Náið samstarf hefur verið við ráðuneyti sveitarstjórnarmála, Samband íslenskra sveitarfélaga og önnur landshluta-samtök. Næst sagði Geir Kristinn frá störfum heilbrigðisnefndar og að gerð yrði grein fyrir starfsemi Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra undir sérstökum dagskrárlið, eins og venja væri. Þá nefndi hann húsnæðismál Eyþings, en ákveðið hefur verið að flytja skrifstofu samtakanna í Hafnarstræti 91 á Akureyri. Ný heimasíða verður opnuð á næstu dögum.

Í lokin greindi Geir Kristinn frá því að nú ættu rétt til setu á aðalfundinum 40 fulltrúar frá 13 sveitarfélögum með alls 29.026 íbúa þann 1. desember 2012. Síðan þakkaði hann fyrir gott samstarf í stjórn Eyþings og við fjölda sveitarstjórnarmanna.                                                                                              (GKA lauk máli sínu kl. 13:35).

Enginn kvaddi sér hljóðs um skýrslu stjórnar.

1.3.    Ársreikningur og fjárhagsáætlun.

Pétur Þór Jónasson, framkvæmdastjóri Eyþings gerði grein fyrir ársreikningi og fjárhagsáætlun samtakanna. Hann sagði að venju samkvæmt yrði nánar fjallað um skýrslu stjórnar, ársreikning og fjárhagsáætlun í fjárhags- og stjórnsýslunefnd. Hann vakti athygli á að góð skil væru gerð á milli málaflokka í ársreikningnum þannig að auðvelt væri að sjá stöðuna í hverjum flokki fyrir sig. Þá minnti hann á lífeyrisskuldbindingar. Í fjárhagsáætlun benti Pétur Þór sérstaklega á 3,9 mkr framlag vegna sóknaráætlunar og kostnað vegna almenningssamgangna.

Helstu niðurstöður ársreiknings eru þessar:

Rekstrarreikningur 2012

Rekstrartekjur                                                           134.284.819

Rekstrargjöld                                                             138.546.829

Rekstrarniðurstaða án fjármagnsliða                 (4.262.010)

Fjármunatekjur (Fjármagnsgjöld)                              390.661

Rekstrarniðurstaða ársins                                     (3.871.349)

Efnahagsreikningur 31. des. 2012

Áhættufjármunir                                                          2.325.436

Veltufjármunir                                                             76.074.612

Eignir samtals                                                               78.400.048

Eigið fé                                                                              5.654.928

Lífeyrisskuldbindingar                                               16.015.854

Skammtímaskuldir                                                     56.729.266

Eigið fé og skuldir samtals                                       78.400.048

 

Endurskoðuð fjárhagsáætlun fyrir árið 2013 og fjárhagsáætlun 2014.

Pétur Þór Jónasson lagði fram tillögu að endurskoðaðri fjárhagsáætlun fyrir árið 2013 og fjárhagsáætlun 2014.

                                                                Áætlun 2013 (þkr)            Esk. áætlun 2013 (þkr)          Áætlun 2014 (þkr)

Rekstrartekjur                                                    22.950                               27.475                                     28.475

Rekstrargjöld                                                       23.950                               30.595                                     28.975

Rekstrarniðurstaða án fjármagnsliða        (1.000)                              (3.120)                                        (500)

Fjármagnstekjur og (fjármagnsgjöld)          1.000                                     500                                           500

Hagnaður (Halli)                                                            0                              (2.620)                                                0

 

Breyting í endurskoðaðri áætlun felst m.a. í því að auknar tekjur koma úr jöfnunarsjóði, einkum vegna sóknaráætlunar. Kostnaður við yfirstjórn hækkar um 1.990 þkr og samstarf landshluta-samtakanna um 465 þkr. Mesta hækkunin er vegna almenningssamgangna, 4.300 þkr, en þar var ekki reiknað með neinum kostnaði Eyþings.

Fundarstjóri lagði til að ársreikningi og áætlun yrði vísað til fjárhags- og stjórnsýslunefndar.

Samþykkt samhljóða.                                                                                                         (Dagskrárlið lokið kl. 13:50).

1.4.    Tillögur og erindi frá stjórn og fulltrúum.

Pétur Þór Jónasson gerði grein fyrir tillögu að breytingu á lögum Eyþings og rakti aðdraganda málsins. Samráð hafði verið haft við lögfræðing um breytinguna.

Fundarstjóri lagði til að tillögunni yrði vísað til fjárhags- og stjórnsýslunefndar.

Samþykkt samhljóða.                                                                                                         (Dagskrárlið lokið kl. 13:55).

 

 

 

2.      Menningarstefna og mat á menningarsamningum.

 

Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, menningarfulltrúi.

Ragnheiður Jóna gerði grein fyrir stefnumótuninni sem afmarkast af sóknaráætlun lands-hlutans, menningarsamningi Eyþings við ríkið og samstarfssamningi sveitarfélaganna um menningarmál. Hlutverk stefnumótunar er að setja ramma og áætlun um sameiginlega hagsmuni sveitarfélaga á starfssvæði Eyþings og að vera hluti af sóknaráætlun landshlutans. Auk þess er henni ætlað að vera leiðbeinandi fyrir Menningarráð Eyþings og menningarfulltrúa þess. Lögð var áhersla á aðkomu sveitarfélaganna að gerð stefnumótunarinnar og sendur var út spurningalisti vorið 2012. Í lok ársins höfðu sjö sveitarfélög orðið við beiðni menningarráðs og sent inn svör.

Leiðarljósin í stefnumótuninni eru Samstarf – Sérstaða – Tengsl. Síðan eru markmið og mögulegar leiðir. Þar voru eftirfarandi 10 atriði sett fram:

  • Efla samstarf og samvinnu á sviði menningarmála á svæðinu.
  • Stuðla að nýsköpun og fjölbreytni í listum og menningu.
  • Fjölga atvinnutækifærum á sviði menningar og lista.
  • Leggja áherslu á stuðning við sjálfstætt starfandi listamenn.
  • Að sveitarfélög á starfssvæði Eyþings marki sér eigin stefnu í menningarmálum.
    • Að stafræn tækni verði nýtt til að miðla menningu á svæðinu og styrkja tengsl innan svæðisins.
    • Leggja rækt við menningarlega sérstöðu svæðisins.
    • Marka sameiginlega safnastefnu á starfssvæði Eyþings.
    • Standa saman að rekstri Menningarráðs Eyþings.
    • Að menningarstarfsemi tengist atvinnusköpun og ferðaþjónustu.

Þessu næst sagði Jóna frá yfirstandandi mati á menningarsamningi Eyþings. Því átti að vera lokið í ágúst en hefur tafist um nokkrar vikur. Það verður síðan birt á heimasíðu Eyþings. Fram fór netkönnun sem framkvæmd var af Capacent en þar voru lagðar fram 6 spurningar. Samkvæmt niðurstöðunni er almenn ánægja með menningarsamninginn þar sem jákvæðni kom fram í 74% til 95% svara, t.d. voru 95% svarenda mjög sammála eða frekar sammála því að menningarsamningurinn hefði orðið til þess að stuðla að nýsköpun í menningarstarfi.

(RJI lauk erindi sínu kl. 14:07).

 

 

3.      Sóknaráætlun – reynsla og framtíð.

 

Stefanía Traustadóttir, formaður stýrinets Stjórnarráðsins.

Stefanía sagði frá aðdraganda sóknaráætlunar, en í mars sl. var undirritaður samningur við landshlutasamtökin. 400 mkr koma sem nýtt fé úr ríkissjóði og mótframlög eru liðlega 200 mkr og forsendur fyrir greiðslum til einstakra samtaka liggja ljósar fyrir.

Sóknaráætlanir landshluta eru sameiginlegt þróunarverkefni ráðuneyta og sveitarfélaga. Verklagið sem byggt er á er nýsköpun í íslenskri stjórnsýslu og vinnur Stjórnarráðið sem ein heild í stýrineti með einn málaflokk, byggðamál. Markmiðið er að færa aukin völd og aukna ábyrgð til landshlutanna á forgangsröðun og útdeilingu ríkisfjár til verkefna á sviði byggða- og samfélagsþróunar sem ekki eru falin öðrum með lögum. Tilgangurinn er að ná fram betri nýtingu fjármuna og færa ákvarðanatöku nær heimamönnum sem þekkja best til aðstæðna.

 

 

Næst greindi Stefanía frá leiðarljósum stýrinetsins en þau eru:

  • Að byggja á nýju verklagi
  • Að skapa öflugan vettvang fyrir samskipti ríkis og landshluta/sveitarfélaga.
  • Að vera fyrirmynd að nýrri nálgun - nýrri aðferðafræði í svæðasamvinnu og byggðaþróun.
  • Að færa aukin völd og aukna ábyrgð heim í hérað þegar kemur að forgangsröðun fjár sem rennur til verkefna á sviði byggða- og samfélagsþróunar.

Framtíðarsýnin er að fjármunir sem Alþingi ráðstafar í fjárlögum til verkefna á sviði byggða- og samfélagsþróunar fari um einn samning í hverjum landshluta. Þeim samningi verði ætlað að fjármagna verkefni sem eru unnin af landshlutasamtökum sveitarfélaga og öðrum hagsmuna-aðilum í viðkomandi landshluta sem hluta af sóknaráætlunum í samvinnu við stýrinet Stjórnar-ráðsins og stofnanir. Með þeirri valddreifingu sem breytt verklag felur í sér fá hagsmunaaðilar í landshlutunum aukið vægi við ákvörðun um ráðstöfun almannafjár.

Með nýju verklagi er ætlunin að skýra og bæta samskipti ríkis og sveitarfélaga. Jafnframt að stuðla að skýrri framtíðarsýn landshluta á hvað þeim gagnast best í gegnum stefnumótun og áætlanagerð. Þá á þetta að leggja grunn að nýrri hugsun í byggðamálum. Verklaginu er einnig ætlað að tengja framtíðarsýn, áherslur og markmið landshluta í sóknaráætlunum við megin-stefnu og áætlanir ríkisins í gegnum eina byggðaáætlun. Því er ætlað að stuðla að bættri og gagnsærri nýtingu fjármuna og auka áhrif íbúa hvers svæðis á úthlutun og forgangsröðun fjármuna. Með öðrum orðum að einfalda og efla samskipti ríkis og sveitarfélaga og tryggja gagnsæi, hagkvæmni, hlutlægni og skilvirkni við úthlutun og umsýslu fjárveitinga úr ríkissjóði sem ekki fara til lögbundinna verkefna í landshlutum.

Þessu næst sagði Stefanía frá viðmiðunum fimm við skiptingu fjármagnsins en þau eru: Íbúafjöldi 35%, íbúaþróun 20%, atvinnuleysi 15%, íbúaþéttleiki 15% og hagvöxtur 15%.

Að lokum gerði Stefanía nánari grein fyrir verkefnunum og skiptingu fjárins. Mótframlög eru sýnd í sviga.

  • Höfuðborgarsvæðið           76.151   (35.500)           16 verkefni.
  • Vesturland                            45.917   (33.900)             7 verkefni.
  • Vestfirðir                              50.310   (36.822)             9 verkefni.
  • Norðurland vestra              43.353   (18.800)             6 verkefni.
  • Norðurland eystra              50.595   (34.000)             6 verkefni.
  • Austurland                           35.453                               7 verkefni.
  • Suðurland                             52.941   (40.000)             8 verkefni.
  • Suðurnes                              45.270   (18.300)           14 verkefni.

(Stefanía lauk erindi sínu kl. 14:25).

Erla Björg Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri SÍMEY.

Erla Björg byrjaði á því að gera grein fyrir samstarfsverkefni með Þekkingarneti Þingeyinga, sem hún sagði mjög spennandi, en það snýst um að efla verk- og tæknimenntun. Verkefnið er eitt af sex verkefnum innan sóknaráætlunar landshlutans. Vandi hefði verið að komast að niðurstöðu um hvernig best væri að nálgast verkefnið. Auðvelda leiðin hefði hugsanlega verið að verja ráðstöfunarfé verkefnisins í skýrslugerð, útgáfu á námsefni og þess háttar atriði.

Niðurstaðan varð sú að gera það ekki heldur nota fjármuni í tækni og tól og byggja námið á þeirri hugmynd að læra með því að gera. Með því að hafa aðgang að tilteknum búnaði var hægt að prófa ýmislegt, m.a. að kenna fólki grunnatriði forritunar með nýstárlegum hætti.

Þessu næst sýndi Erla Björg myndband til að skýra betur aðferðafræðina.

Að endingu lýsti Erla Björg því hvað það væri frábært að landshlutasamtökin gætu unnið að samstarfsverkefnum og stuðlað að meiri samvinnu fyrirtækja, stofnana og samtaka á ýmsum sviðum. Hún vitnaði meðal annars til Héðins Unnsteinssonar, stefnumótunarsérfræðings í forsætisráðuneytinu um að ráðuneytin væru með ýmsa samninga við 700-800 aðila út um allt land. Í mörgum tilvikum væri mun hagkvæmara og skilvirkara að semja við landshlutasamtökin, fækka þannig samningum og færa meira forræði ýmissa mála heim í héruðin.

Sigurður Guðmundsson taldi gott að sinna endur- og símenntun en spurði hvers vegna ekki væri farið með þessa hugmyndafræði í grunnskólann.

Erla Björg svaraði því til að grunnskólinn væri ekki starfsvettvangur hjá SÍMEY, en taldi vel hugsanlegt að eitthvað í þeirri aðferðafræði sem hún sýndi dæmi um ætti þar heima og ekki ólíklegt að það yrði notað í framtíðinni. (Þessum dagskrárlið lauk kl. 14:44).

 

 

4.      Almenningssamgöngur.

 

Sigurður Valur Ásbjarnarson, formaður nefndar um almenningssamgöngur.

Sigurður Valur byrjaði á því að greina frá forsögu málsins. Vitnaði þar annars vegar í stefnu ríkisins, t.d. í Samgönguáætlun 2011-2022 þar sem m.a. segir: „Landshlutasamtök sveitarfélaga taki yfir almenningssamgöngur á landi sem hingað til hafa verið ríkisstyrktar“. Hins vegar vitnaði hann í stefnu Eyþings en almenningssamgöngur hafa verið til umfjöllunar á öllum aðalfundum sl. fimm ár. Síðustu þrjú ár hefur verið fjallað um þessar samgöngur á 20 stjórnarfundum. Á stjórnarfundi Eyþings 31. maí 2011 var skipuð þriggja manna nefnd sem starfað hefur samkvæmt erindisbréfi og haldið 23 fundi. Málið hefur því fengið ítarlega umfjöllun.

Samið var við VSÓ ráðgjöf, Smára Ólafsson samgönguverkfræðing um ráðgjöf. Hann hefur verið starfsmaður Strætó bs. frá sl. hausti og hannað nánast allt leiðakerfi landshlutasamtakanna. Drög að samningi við Vegagerðina komu fyrst á borð stjórnar Eyþings 5. apríl 2011. Samningur var síðan undirritaður 29. desember 2011 með gildistíma frá 1. janúar 2012 til 31. desember 2018.

Samningur var gerður við Strætó bs. um margháttaða þjónustu svo sem aðgangi að sölu- og upplýsingakerfum, tækniþjónustu og leiðahönnun. Hann var undirritaður 18. desember 2012. Einnig var gerður samningur við Vegagerðina um tilraunaverkefni, undirritaður 19. desember 2012. Þessi samningur á sér rætur í samningi milli ríkisins og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt honum eiga 900 mkr að fara árlega til að efla almennings-samgöngur á höfuðborgarsvæðinu næstu 10 árin en 100 mkr í rekstur almenningssamgangna milli höfuðborgarsvæðisins og byggðakjarna á áhrifasvæði þess. Af þessum 100 mkr fá landshlutasamtökin á Suðurlandi, Suðurnesjum og Vesturlandi 29 mkr hvert, en samtökin í hinum landshlutunum 3,25 mkr hvert, þ.e. FV, SSNV, Eyþing og SSA.

Íbúar svæðanna hafa yfirleitt tekið þessum samgöngum fagnandi þó að öll þróun kerfisins hafi liðið fyrir fjárskort frá upphafi. Strax í mars 2013 komu fram vísbendingar um að áætlanir stæðust ekki en ákveðið var að sjá hvað sumarið gæfi af sér. Rekstrarvandinn var kynntur sveitarstjórnarmönnum á fundi 28. júní 2013 á Akureyri. Hann er verulegur. Fyrstu áætlanir frá nóvember 2011 gerðu ráð fyrir 18 mkr tekjum, en í endurskoðaðri áætlun frá því í apríl 2013 var gert ráð fyrir 12 mkr tapi. Nú er ljóst að tapið verður meira. Ástæðurnar eru nokkrar en þungt vegur að afsláttarfargjöld eru allt of lág. Ekki er um að kenna færri farþegum en áætlað var. Þvert á móti. Á leiðum 56 (Egilsstaðir), 78 (Siglufjörður) og 79 (Húsavík) var gert ráð fyrir 15.000 farþegum á árinu en útlit er fyrir að þeir verði nær 20.000. Sömu sögu er að segja um leið 57 Akureyri-Reykjavík. Fyrstu sjö mánuði ársins voru rúmlega 66.000 farþegar á þeirri leið. Alls staðar á landinu hefur verið stöðugur vöxtur í notkun og íbúar svæðanna greinilega að uppgötva þjónustuna.

Þessu næst fjallaði Sigurður Valur um uppsagnarákvæði samnings við Vegagerðina og endurskoðun á verkefninu og helstu forsendur fyrir því að endurmeta það frá grunni. Síðan greindi hann frá því sem gert hefði verið á vettvangi stjórnar Eyþings sl. sumar. M.a. var leitað til lögfræðinga til að leggja mat á ákvæði samninga og Smára Ólafssyni var sent erindi þar sem óskað var eftir ítarlegri greiningu á áætlunum og rauntölum.

Fundir voru haldnir í Reykjavík 11. september. Annars vegar með innanríkisráðherra og hins vegar með þingmönnum kjördæmisins þar sem þeim var kynnt staðan. Daginn eftir var fundur með vegamálastjóra. Samhugur var góður á þessum fundum í því að finna lausn á mikilvægu verkefni.                                         (SVÁ lauk máli sínu kl. 15:18).

 

Sigurður Guðmundsson spurði hvers vegna tekjuhlið samningsins hefði ekki verið betur tryggð og taldi samninginn lélegan og taldi rétt að fá nýja aðila að samningagerð í framtíðinni.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson spurði hvort fé kæmi frá ríkinu til að bera hallann eða lendir það á sveitarfélögunum að glíma við þetta næstu árin.

Oddur Helgi spurði hvers vegna í ósköpunum væri enn rætt við sama ráðgjafann.

Sigurður Valur svaraði og byrjaði á spurningu Odds Helga. Smári væri ráðgjafi allra landshluta-samtakanna en vissulega væru ráðgjafarmálin eitt af mörgu sem yrði skoðað á næstu vikum. Hvað tekjuhliðina snerti hefði ekki verið á öðru að byggja en fyrirliggjandi áætlunum sem síðan hefðu einfaldlega ekki staðist. Þá sagðist Sigurður Valur aldrei geta samþykkt að kostnaði yrði velt yfir á sveitarfélögin og svaraði með því Guðmundi Baldvin.

Arnór Benónýsson ræddi málið í víðu samhengi og spurði að lokum. Hvernig finnum við lausnina?

Ólafur Steinarsson spurði hvort Eyþing gæti bakkað út úr verkefninu, eða að öðrum kosti tryggt tekjur. Þá fannst honum sérstakt í ljósi aðstæðna að nefna ánægju með verkefnið.

Geir Kristinn svaraði því til að almenn ánægja virtist meðal notenda Strætó enda sýndi farþegafjöldinn það. Hann sagði að Vegagerðin mundi hlaupa undir bagga núna og taldi að tekjur næstu ára mundu standa undir kostnaði.

Sigurður Valur sagði að trúlega stæðist það lög að skila verkefninu en vilji væri til að að finna aðra niðurstöðu. Þó mætti ekki velta kostnaði yfir á sveitarfélögin.

Bergur Elías Ágústsson sagði þetta mál flókið, einkum alla samninga og samskipti vegna leiðar 57. Hann taldi alveg klárt hvað fælist í samningi um þá leið, Akureyri-Reykjavík og aðrar almenningssamgöngur á Vesturlandi væru allt annað mál. Eyþing mætti aldrei taka ábyrgð á öðru en því sem stjórn samtakanna hefði samþykkt og staðfest væri í samningum. Trúlega mundi slá í brýnu við önnur landshlutasamtök en það væri bara viðfangsefni sem þyrfti að finna lausn á.

Höskuldur Þórhallsson, formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis sagði að mikil samstaða væri í þingmannahópi kjördæmisins eins og fram hefði komið á fundi 11. september sl. Hann sagði þetta snúa þannig að Alþingi að samið hefði verið um 1 milljarð á ári næstu 10 árin til að styrkja og þróa almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Síðan hefðu verið gerðar breytingar eins og fram hefði komið. Skoða þyrfti hvort rangt hefði verið gefið í upphafi og endurmeta málið í heild sinni.                                                                                    (Dagskrárlið lokið kl. 15:42).

Afgreiðsla kjörnefndar á kjörbréfum.

Guðrún María Valgeirsdóttir, formaður kjörnefndar gerði grein fyrir afgreiðslu kjörbréfa. Af 40 kjörgengum fulltrúum væru 36 mættir, þar af 5 varamenn. Hún sagði að kjörnefndin legði til að kjörbréf allra fulltrúanna yrðu samþykkt og var það gert samhljóða. Hún sagði að skrá yfir fulltrúa yrði færð í lok fundargerðar. (GMV lauk sinni umfjöllun kl. 15:45).

 

Kaffihlé.

 

Guðný Sverrisdóttir, sveitarstjóri Grýtubakkahreppi bauð gesti velkomna og fór yfir nokkur hagnýt atriði vegna gistingar og fleiri þátta. Móttaka væri í boði Grýtubakkahrepps í samvinnu við fyrirtæki á staðnum kl. 18:30 og kvöldverður kl. 20:15 þar sem veislustjórn væri í höndum heimamanna.

 

 

5.      Ávörp.

 

5.1.    Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og 1. þingmaður NA-kjördæmis.

Í ávarpi sínu fjallaði forsætisráðherra m.a. um framkvæmdir í landshlutanum og framtíðar-möguleika. Hann nefndi Vaðlaheiðargöng og væntanlega uppbyggingu kísilvers á Bakka norðan Húsavíkur, en þetta væru þýðingarmiklar stórframkvæmdir hér í landshlutanum. Síðan væri spurning með olíu og gas á Drekasvæðinu sem gætu haft afgerandi breytingar í för með sér fyrir Íslendinga ásamt opnun siglingaleiða á norðurslóðum. Þá væri ferðaþjónusta öflug á svæðinu og aukin tækifæri blöstu hvarvetna við.

Einnig lýsti forsætisráðherra stefnu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum sem m.a. gerir ráð fyrir því að áfram verði unnið að gerð sérstakra landshlutaáætlana í samvinnu við sveitarfélögin. Hann taldi að framkvæmd þeirra 32 aðgerðaliða sem settir voru fram í síðustu byggðaáætlun hefði ekki verið nægilega markviss og úr því þyrfti að bæta.

Næst vék forsætisráðherra að einföldun stjórnsýslunnar. Samskipti ríkis og einstakra landshluta um verkefnafé hafa verið bundin u.þ.b. 200 samningum. Með landshlutaáætlunum er gerð tilraun til að ráðstafa fé til verkefna á forsendum hvers landshluta þar sem landshlutasamtök eru ábyrgðaraðilar. Samningar verða svo gerðir á milli landshlutanna og fjármála- og efnahags-ráðuneytisins sem felur stýrineti Stjórnarráðsins að halda utan um útfærslu samninganna og samskipti við landshluta. Fyrstu landshlutaáætlanirnar voru fyrir árið 2013 og innan þeirra eru nú verkefni sem hafa um 630 mkr til ráðstöfunar. Forsætisráðherra sagði að nú á haustdögum yrði það verkefni Alþingis að fjalla um umfang verkefnisins árið 2014 og hugmyndin væri að áætlanir landshlutanna verði nú aftur til eins árs en síðan taki við þriggja ára áætlun frá 2015-2017.

Forsætisráðherra ræddi í lok ávarps síns um mikilvægi samkenndar, skilnings og umburðalyndis er kæmi að samvinnu Íslendinga um sameiginleg úrlausnarefni í þeim málefnum sem snúa að samskiptum höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar. Hann undirstrikaði þar með þá ósk sína að landsmenn sæju almennt frekar tækifæri í samvinnu en aðskilnaði.

(SDG lauk ávarpi sínu kl. 16:27).

 

 

 

5.2.    Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra.

Innanríkisráðherra fagnaði því að hafa tækifæri til að að ávarpa aðalfundargesti Eyþings og boðaði gott samstarf og samráð við sveitarstjórnarmenn. Hún tók skýrt fram að hennar hlutverk sem ráðherra sveitarstjórnarmála væri ekki að segja sveitarstjórnarmönnum fyrir verkum og það myndi hún aldrei gera. Ráðherra sagðist telja að sveitarstjórnarmenn hefðu almennt staðið sig vel og stjórnað af ábyrgð og festu. Það kæmi m.a. fram í aðhaldi í rekstri, enda væri í raun og veru ekki í boði að reka sveitarfélög með halla. Þá kom fram að samkvæmt reynslu virtist ekki sami agi hafa ríkt í ríkisfjármálum.

Ráðherra boðaði afnám lágmarks útsvarsprósentu og að sveitarfélögin ættu að hafa meira svigrúm til ákvarðanatöku. Það ætti m.a. við um sameiningu sveitarfélaga og ekki stæði til að lögþvinga hana.

Síðan ræddi ráðherra mikilvægi þess að tryggja sem best öryggi borgaranna og þá þyrfti að huga vel að löggæslu. Mikilvægt væri að forgangsraða rétt og að lögreglan væri sýnileg. Fækka ætti sýslumannsembættum og hafa færri en öflugri einingar.

Að lokum lýsti ráðherra yfir eindregnum vilja til góðs samstarfs við sveitarstjórnarmenn og hvatti til aukinnar samvinnu.                                                                                                                                        (HBK lauk ávarpi sínu kl. 16:44).

 

5.3.    Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Karl byrjaði á því að greina frá samskiptum við þingmenn eftir síðustu kosningar. Öllum var sent bréf þar sem farið var yfir nokkur atriði. Sambandið er lögformlegur samskiptaaðili við ríki og Alþingi um málefni er varða sveitarstjórnarstigið en það er ekki almennur hagsmunaaðili. Mikilvægt væri að styrkja tengsl og rækta góð samskipti ríkis og sveitarfélaga.

Þá sagði Karl frá greiningu á stefnu ríkisstjórnarinnar og taldi að á mörgum sviðum væri mikil samsvörun við stefnumörkun sambandsins. Það ætti m.a. við um styrkingu sveitarstjórnar-stigsins og flutning verkefna, sérstakar landshlutaáætlanir og forgangsröðun verkefna heima í héraði. Þetta ætti einnig við í fræðslumálum svo sem styttingu námstíma til loka framhalds-náms, fjölbreytileika í skólastarfi og aukið verk- og tækninám.

Næst fjallaði Karl um ýmis önnur sameiginleg mál, t.d. umhverfismál, aðgengi að opinberum gögnum, aukna framleiðni í opinberri þjónustu og endurskoðun skattkerfisins. Hann gerði einnig grein fyrir samskiptum við nýja ríkisstjórn og fundum með einstökum ráðherrum m.a. væru mánaðarlegir samráðsfundir með innanríkisráðherra og stefnt væri að fundum með nefndum alþingis.

Einnig nefndi Karl það sem vantaði í stefnuyfirlýsinguna en það væri sérstaklega breikkun og styrking tekjustofna sveitarfélaga. Þar mætti geta um hlutdeild í umferðarsköttum, sköttum af ferðaþjónustu, almenna hluta tryggingagjaldsins og hlutdeild í skattlagningu fyrirtækja og arðgreiðslum til eigenda þeirra. Brýn verkefni sem nú væri unnið að væru m.a. mat á kostnaði við þjónustu við fatlað fólk árið 2014, tónlistarskólamálið, endurskoðun vegalaga, undir-búningur kjaraviðræðna og skjalavarsla sveitarfélaga. Bregðast þurfi hart við standi til að ganga á tekjur sveitarfélaga í fjárlögum 2014.

Næst ræddi Karl um frumvarp til laga um opinber fjármál sem ættu að stuðla að góðri hagstjórn og styrkri og ábyrgri stjórn á fjármálum hins opinbera jafnframt því að vinna sameiginlega að heildstæðri stefnumörkun um opinber fjármál. Auka þyrfti skilning á tekjuþörf og útgjalda-áformum beggja stjórnsýslustiganna m.t.t. þjónustuábyrgðar þeirra skv. lögum og hvernig fjármagna megi opinbera þjónustu í sátt milli beggja aðila hins opinbera – ríkis og sveitarfélaga.

Að síðustu minntist Karl á lífeyrisskuldbindingar sveitarfélaga og að ekki mætti draga að bregðast við aðsteðjandi vanda, en sló síðan á létta strengi og sýndi myndir af alþingismönnum og þátttöku þeirra í sveitarstjórnarmálum.         (KB lauk ávarpi sínu kl. 17:00).

 

 

Nefndastörf.

Þrjár nefndir starfa auk kjörnefndar og fulltrúum hafði verið skipað í hverja nefnd. Búið var að tala við formenn og undirbúa vinnuna eins og kostur var.

Nefndastörf hófust kl. 17:05.

 

Fundarhlé kl. 17:30

 

Laugardagur 28. september.

 

 

6.      Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra.

            (skýrsla heilbrigðisnefndar, ársreikningur 2012, fjárhagsáætlun 2014 ásamt umræðum).

 

Alfreð Schiöth framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra flutti skýrsluna.

Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra hefur það markmið að vernda heilnæmt og ómengað umhverfi og treysta góða lýðheilsu. Þessu er framfylgt með almennri fræðslu, vöktun og rannsóknum, samvinnu við önnur yfirvöld og hagsmunaaðila, með eftirliti og eftirfylgni.

Lagagrunn heilbrigðisnefnda og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga er að finna í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998, lögum um matvæli nr. 93/1995 og lögum um tóbaksvarnir nr. 6/2002, öllum með síðari breytingum. Meginmarkmið laganna er að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi.

Ný heildarlög um umhverfisábyrgð tóku gildi í júní 2012 og þar er innleidd tilskipun Evrópu-þingsins og –ráðsins um umhverfisábyrgð og einnig er mengunarbótareglan innleidd (Polluter Pays Principle). Fjölmargar reglugerðir, skilyrði og leiðbeiningar eru gefnar út með stoð í fyrrnefndum lögum. Starf heilbrigðisfulltrúa skarast gjarnan við starf annarra embætta, s.s. skipulags- og byggingafulltrúa, eldvarnaeftirlits, Vinnueftirlits ríkisins, embætti landlæknis og Umhverfisstofnunar og Matvælastofnunar.

Umhverfisstofnun (www.ust.is) og Matvælastofnun (www.mast.is) samræma og hafa yfirumsjón með störfum heilbrigðisnefnda. Á heimasíðum þessara stofnana er að finna margvíslegan fróðleik og fræðsluefni og einnig er þar greiður aðgangur að helstu lögum og reglum; flokkað út frá mismunandi forsendum. Starfsemi heilbrigðisnefnda heyrir þannig undir tvö ráðuneyti; Umhverfis- og auðlindaráðuneytið og Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.

Alfreð nefndi nokkur verkefni yfirstandandi árs. T.d. hefði talsvert unnist í gagnasöfnun um ástand vatns í kjölfar laga um stjórn vatnamála og rannsóknir HNE um ástand yfirborðsvatns og strandsjávar á undanförnum árum hafa komið mjög að gagni. HNE hefur haldið á lofti mikilvægi þess að sláturhús, kjöt- og fiskvinnslur innleiði hreina framleiðslutækni og bestu fáanlegu tækni (BAT) til að lágmarka umhverfisáhrif. Einnig væri unnið að kortlagningu hávaða í þéttbýli og keyptur hefði verið nýr mælir vegna þess.

Í þessu sambandi sagði Alfreð einnig mikilvægt að sveitarfélög setji í fráveitusamþykktir skýr og mælanleg viðmið um forhreinsun á iðnaðarskólpi áður en að því er veitt inn á fráveitukerfi. Sú skylda hvílir á eigendum fráveitna að fullnægja kröfum um hreinsun á fráveituvatni áður en því er veitt í viðtaka og að koma útrásum þannig fyrir að mengun í fjörum verði innan ákveðinna marka. Því miður eiga mörg sveitarfélög langt í land varðandi úrbætur á fráveitukerfum og ákveðin hætta er á að mengun í fjörum geti komið sér illa fyrir hagsmuni matvælavinnslu, ferðaþjónustu og útivistar. Úrbætur á fráveitum ættu að fá forgang hjá sveitarstjórnum.

Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra er samvinnuverkefni sveitarfélaga á Norðurlandi eystra og á vettvangi Eyþings er í gildi sérstakur samstarfssamningur milli sveitarfélaga um heilbrigðis-eftirlitið. Fjallabyggð er þó í samstarfi við Norðurland vestra.

Heilbrigðisnefnd er skipuð á aðalfundi Eyþings að afloknum sveitarstjórnarkosningum. Fimm nefndarmenn eru tilnefndir af sveitarstjórnunum samkvæmt samstarfssamningi og einn fulltrúi er tilnefndur af samtökum atvinnurekenda á eftirlitssvæðinu. Uppbyggingin er þannig að heilbrigðiseftirlitinu er stjórnað af heilbrigðisnefnd.

Heilbrigðisnefnd er nú skipuð eftirfarandi:

Frá Akureyri:

Margrét Auður Sigurbjörnsdóttir, formaður. Varamaður Preben Pétursson.

Sigurjón Jóhannesson, varamaður Jóna Jónsdóttir.

Frá öðrum sveitarfélögum við Eyjafjörð:

Birna Jóhannesdóttir, varamaður Fjóla Stefánsdóttir.

Frá Norðurþingi:

Hafsteinn H. Gunnarsson, varamaður Jón Helgi Björnsson

Frá öðrum sveitarfélögum í Þingeyjarsýslu:

Steinn Karlsson, varamaður Steinþór Heiðarsson.

Fulltrúi samtaka atvinnurekenda:

Kristín Halldórsdóttir, varamaður Sigurgeir Höskuldsson.

Auk þess situr Jón Torfi Halldórsson, yfirlæknir Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri fundina sem áheyrnarfulltrúi.

Nefndin heldur að jafnaði 10 fundi á ári.

Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra hefur tvær starfsstöðvar. Á Akureyri með þremur starfs-mönnum og á Húsavík með einum starfsmanni. Starfsmennirnir hafa með sér samstarf og samráð og veita umsagnir og ráðgjöf um mörg málefni, s.s. vegna skipulags, laga og reglu-setningar.

Alfreð greindi síðan frá starfsemi (fyrirtækjum) sem eftirlitið nær til og starfsleyfi þarf fyrir, en þau eru nú um 1.200 á starfssvæði HNE.

Hann sagði að á þessum fundi lægi fyrir ársreikningur næstliðins árs og fjárhagsáætlun fyrir næsta ár ásamt áætlaðri skiptingu á milli sveitarfélaga og gjaldskrá. Við gerð áætlunarinnar var miðað við forsendur Akureyrarbæjar um breytingar á milli ára. Áætlunin gerir ráð fyrir 4,77% hækkun á milli ára og að gjaldskrá hækki um sama hlutfall. Samningur er við Akureyrarbæ um umsjón með bókhaldi og fjárreiðum heilbrigðiseftirlitsins.

Helstu atriði úr ársreikningi 2012

Rekstrartekjur                               52.364 þkr.

Rekstrargjöld                                 51.905 þkr.

Fjárhagsáætlun 2013 og 2014

Áætlun ársins 2013                      50.851 þkr.

Áætlun ársins 2014                      53.276 þkr.

Hækkun milli ára er því                 2.425 þkr.        eða  4,77%.

 

Að öðru leyti vísaði Alfreð til gagna sem hann lagði fram.

 

Guðný Sverrisdóttir spurði um tímabundna endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna fráveitu-mála, sem felld var niður og hvort þær yrðu teknar upp aftur.

Alfreð svaraði því til að ekki væri vitað hvort slíkar endurgreiðslur yrðu teknar upp aftur. Síðan ræddi hann ýmis mál sem snertu úrgang og tók sem dæmi vandræðalegt mál vegna salmonellu-mengaðra kjúklinga. Brennslu væri hætt á Húsavík og brennsla á Suðurnesjum hefði verið óstarfhæf vegna viðgerðar. Á endanum hefði þessi mengaði úrgangur verið fluttur suður í Fíflholt á Mýrum og urðaður þar. Þetta sýndi hve mikilvægt það væri að sveitarfélögin hefðu klár úrræði og verklagsreglur til að bregðast við svona vanda.

Logi Már Einarsson spurði hver bæri aukakostnað í svona tilvikum.

Alfreð sagði að eigandi úrgangsins þyrfti að bera kostnaðinn en hugsanlega gæti hann átt endurkröfurétt á viðkomandi sveitarfélag eða sveitarfélög ef þau gætu ekki bent á viðunandi úrræði, enda hefðu þau skyldum að gegna á þessu sviði.                                                                                                                                  (Þessum dagskrárlið lauk kl. 9:33).

Fundarstjóri lagði til að umfjöllun um fjárhagsáætlun HNE yrði vísað til fjárhags- og stjórnsýslunefndar.

Samþykkt samhljóða.

 

 

7.      Menningarráð Eyþings.

 

Arnór Benónýsson, formaður menningarráðs Eyþings.

Fyrst rakti Arnór sögu samninga. Menningarsamningurinn og viðaukasamningur um stofn- og rekstrarstyrki renna út um næstu áramót.

Í Menningarráði Eyþings sitja sjö fulltrúar, þrír koma austan Vaðlaheiðar, þrír vestan hennar og einn fulltrúi er skipaður af Háskólanum á Akureyri. Ráðið er þannig skipað frá október 2012 til hausts 2014:

Arnór Benónýsson Þingeyjarsveit, formaður.

Bjarni Valdimarsson Dalvíkurbyggð.

Hanna Rósa Sveinsdóttir Hörgársveit.

Hildur Stefánsdóttir Svalbarðshreppi.

Logi Már Einarsson Akureyri, varaformaður.

Þórgunnur Reykjalín Vigfúsdóttir Norðurþingi.

Kjartan Ólafsson (Ingibjörg Sigurðardóttir 2012) Háskólanum á Akureyri.

Það sem af er árinu hefur menningarráðið haldið fimm fundi. Líkt og á síðasta ári var ein úthlutun á árinu.

Í október 2012 auglýsti menningarráðið verkefnastyrki til umsóknar fyrir árið 2013. Menningarfulltrúi fór um svæðið og hafði viðtalstíma á 14 stöðum. Alls bárust ráðinu 100 umsóknir um tæpar 60 mkr. Heildarkostaður við verkefnin var áætlaður rúmlega 194 mkr. Í febrúar úthlutaði menningarráðið rúmlega 26 milljónum til 57 verkefna. Frá upphafi hafa menningarráðinu borist 788 umsóknir. Úthlutað hefur verið rúmum 160 milljónum til 448 verkefna. U.þ.b. helmingur umsókna hefur frá upphafi fengið styrkloforð hjá menningarráðinu. Menningarráð hefur gefið út skýrslu um fyrstu fimm ár starfsseminnar. Í henni má m.a. finna upplýsingar um úthlutun greinda niður á sveitarfélög, lista yfir styrkþega og styrkupphæðir.

Á árinu 2012 voru gerðar breytingar á úthlutun af safnliðum fjárlaga til menningarverkefna. Fjármagn af safnliðum var flutt til lögbundinna sjóða, menningarsamninga og til ráðuneyta. Við þessar breytingar voru verkefni á svæðinu sem ekki eiga aðgang í opinbera sjóði flutt til Menningarráðs Eyþings með viðaukasamningi við menningarsamninginn. Við flutninginn varð talsverður niðurskurður á fjármagni eða 17% á þau verkefni sem flutt voru til menningarráðs.

Árið 2012 og 2013 hefur Menningarráð Eyþings 12,4 milljónir til stofn og rekstrarstyrkja. Af þeirri upphæð dregst kostaður sem fellur til vegna úthlutunar fjármagnsins. Á árinu 2013 úthlutaði menningarráð rúmum 12 milljónum til 13 verkefna. Sveitarfélögin leggja ekki til mótframlag með fjármagni í viðaukasamningi.

Heildarframlag sveitarfélaga til samningsins 2013 eru 10,6 milljónir og ríkisins tæpar 25,5 milljónir. Sveitarfélögin á svæðinu leggja hlutfallslega jafnt til samningsins. Framlög sveitarfélaganna árið 2013 nema 365 kr. á íbúa.

Í tengslum við sóknaráætlun 20/20 óskaði stjórn Eyþings eftir því að menningarráðið kæmi að gerð stefnu í menningarmálum fyrir sveitarfélögin í Eyþingi. Unnin hefur verið stefna sem byggir m.a. á svörum sveitarfélaganna og stefnu Menningarráðs Eyþings. Drög að stefnunni voru send í athugasemdaferli til sveitarfélaganna í júní sl. Engar athugasemdir bárust. Telst stefnan því samþykkt og var hún meðfylgjandi í fundargögnum.

Í upphafi árs fór Menningarráð Eyþings af stað með þróunarverkefnið „Aftur heim“ austan Vaðlaheiðar. Verkefnið er styrkt af sóknaráætlun Eyþings. Það miðar að því að gefa ungu fólki, menntuðu í menningu og listum, tækifæri til að koma í heimabyggð og vinna að öflugum menningarverkefnum. Verkefnið er að norskri fyrirmynd og yfirfært með leyfi Menningarráðs Vesterålen. Nú hafa 10 einstaklingar skráð sig til þátttöku og tvær úthlutanir hafa farið fram.

Menningarráð Eyþings fékk styrk frá sóknaráætlun landshlutans til að vinna að verkefninu „Grunngerð og mannauður“. Greina á og kortleggja grunngerð og mannauð í menningarstarfi á svæðinu. Markmið verkefnisins er að fá yfirsýn yfir styrkleika, veikleika og tækifæri sem felast í menningarstarfi á svæðinu. Einnig verður yfirlitið grunnur fyrir faglega úthlutun fjármagns sem mun koma í málaflokkinn. Ráðinn hefur verið starfsmaður til að sinna verkefninu sem hefst í október.

Menningarfulltrúi tekur þátt í samstarfsneti menningarfulltrúa landsbyggðarinnar. Hefur það starf verið með nokkuð hefðbundnum hætti á árinu. Þrír vinnufundir eru haldnir ár hvert, einn þeirra með formönnum menningarráðanna. Nú í september var haustfundur menningarfulltrúa haldinn á Siglufirði.

Menningarráð hefur einnig átt samstarf við fjölmarga aðra aðila innan og utan svæðis. Á síðustu árum hafa menningarfulltrúar landsbyggðarinnar lagt áherslu á að vekja athygli menningarstofnana, sem starfa á landsvísu, á mikilvægi þess að tengjast landsbyggðinni. Nokkrar stofnanir hafa sýnt því áhuga, m.a. var Þjóðleikhúsið með stórt leiklistarverkefni á fimm svæðum á landinu sl. vetur. Nú í sumar var Árnastofnun með verkefnið Handritin heim. Á Norðurlandi eystra kom handritið Physologus heim í Dalvíkurbyggð og er til sýnis í menningar-húsinu Bergi. Menningarfulltrúi Eyþings var fulltrúi menningarfulltrúa landsbyggðarinnar í matsnefnd Eyrarrósarinnar. Úthlutun hennar fór fram á Akureyri í upphafi árs. Óskað hefur verið eftir að menningarfulltrúi Eyþings verði einnig í matsnefndinni 2014.

Helstu breytingar á fjárhagsáætlun ársins 2013 felast í auknum verkefnum og auknu umfangi. Menningarráð fékk styrk til tveggja verkefna úr sóknaráætlun landshlutans og er hluti þess fjármagns nýttur á þessu ári. Á móti þeim styrkjum eykst kostnaður m.a. vegna ráðningar starfsmanns. Umsýsla vegna stofn- og rekstrarstyrkja hefur einnig haft aukinn kostnað í för með sér. Vinna stjórnar og þá sérstaklega formanns hefur aukist á árinu.

Forsendur fjárhagsáætlunar menningarráðs fyrir árið 2014 eru nokkuð óljósar. Menningar-samningur við ríkið rennur út um næstu áramót og ekki er ljóst hvaða fjármagn kemur í málaflokkinn á næsta ári. Í áætluninni er gert ráð fyrir að fjármagn verði óbreytt krónutala frá síðasta samningstímabili. Almennir kostnaðarliðir eru unnir með hliðsjón af rekstri síðasta árs og yfirstandandi árs sem og út frá fyrirliggjandi áherslum menningarráðs vegna ársins 2014 og verkefnum styrktum af sóknaráætlun landshlutans.

Nú er að ljúka síðasta ári núgildandi menningarsamnings. Unnið er að mati á framkvæmd hans, mun það liggja fyrir á næstu vikum. Matið er framkvæmt af Capacent og er samræmt á landsvísu. Í framhaldi af því liggur fyrir að semja við ríkið um framlög til menningarmála á starfssvæði Eyþings og verður fyrrgreint mat lagt til grundvallar að áframhaldandi samstarfi við ríkið um menningarmál. Styrkja þarf grunngerð á svæðinu og aðstoða við að koma menningu og listum á sambandssvæðinu á framfæri. Menningarráðið þarf að vera öflugur bakhjarl í menningarstarfssemi á svæðinu.                                                                                                                                                 (AB lauk máli sínu kl. 9:50).

 

Guðmundur Baldvin Guðmundsson spurði hvort viðræður væru hafnar við ríkið vegna nýrra samninga.

Arnór sagði svo ekki vera en það væri verkefni næstu vikna

Ragnheiður Jóna sagði að beðið væri eftir matsskýrslunni frá Capacent. Þegar hún lægi fyrir væri hægt að hefja samningaviðræður við ríkið.

 

Fundarstjóri lagði til að umfjöllun um fjárhagsáætlun menningarráðs yrði vísað til fjárhags- og stjórnsýslunefndar.

Samþykkt samhljóða.

 

Formaður kjörnefndar, Guðrún María, gat þess að þrír fulltrúar hefðu bæst í hópinn, Inda Björk Gunnarsdóttir, Jóhann Ólafsson og Jón Helgi Björnsson. Í staðinn vantaði einhverja sem verið hefðu í gær.

 

 

Nefndastörf.  Hófust kl.10:00.

 

 

Hádegisverður kl. 12:00

 

 

8.    Aðalfundarstörf.

            (Álit nefnda.  Afgreiðsla tillagna og ályktana, kosningar o.fl.).

 

Fundarstjóri tilkynnti að formenn eða fulltrúar nefnda myndu gera grein fyrir tillögum.

8.1.    Tillögur nefnda.

Fjárhags- og stjórnsýslunefnd.

Í nefndinni sátu:

Arnar Árnason, formaður

Guðmundur Gauti Sveinsson

Marinó Þorsteinsson

Guðmundur Sigvaldason (einnig í kjörnefnd)

Geir Kristinn Aðalsteinsson

Sigurður Guðmundsson

Eiríkur Hauksson (27.09.)

Guðný Sverrisdóttir

Arnór Benónýsson

Margrét Bjarnadóttir

Bergur Elías Ágústsson (27.09.)

Hjálmar Bogi Hafliðason

Ólafur Steinarsson

 

Geir Kristinn Aðalsteinsson þakkaði nefndarfólki fyrir málefnalega vinnu og gerði síðan grein fyrir niðurstöðum. M.a. kom fram að í fjárhagsáætlun næsta árs væri ekki gert ráð fyrir nýjum starfsmanni.

Tillaga að lagabreytingum og breytingum á samþykktum

Fyrir fundinum lá tillaga um lagabreytingu þar sem stjórnarmönnum er fjölgað úr fimm í sjö.

Fyrir fundinum lá einnig breytingartillaga á tillögunni frá Jónasi Vigfússyni á lið nr. 5.2 (breiðletrað) og er hún svo hljóðandi:

Kosið skal í fulltrúaráð Eyþings. Í ráðinu sitja 20 fulltrúar kosnir af sveitarstjórnum til tveggja ára í senn. Kjörgengir í fulltrúaráð eru þeir sömu og kjörgengir eru á aðalfundi Eyþings. Aðalmenn í stjórn Eyþings eru sjálfkjörnir í fulltrúaráðið. Formaður stjórnar er jafnframt formaður fulltrúaráðs. Ráðið skiptir að öðru leyti með sér verkum.

Hlutverk fulltrúaráðsins er að vera stjórn til ráðgjafar í veigamiklum málum og að tryggja lýðræðislega aðkomu allra sveitarfélaga á starfssvæði Eyþings.

Samkvæmt upphaflegri tillögu var kjörgengi með eftirfarandi hætti: „Í ráðinu sitja 20 fulltrúar kosnir af sveitarstjórnum til tveggja ára í senn og skulu þeir vera úr hópi aðalfundarfulltrúa.“

Breytingartillaga Jónasar var samþykkt samhljóða og tillögur um lagabreytingar þannig breyttar samþykktar með þorra atkvæða. Einn var á móti.

 

Fundurinn leggur til að miðað verði við eftirfarandi vinnureglu varðandi stjórn Eyþings:

4 fulltrúar komi vestan Vaðlaheiðar þar af 2 frá Akureyri og 3 fulltrúar austan Vaðlaheiðar. Varðandi skiptingu í fulltrúaráð verði stuðst við fundargerð 3. fundar nefndar um skipulag Eyþings og sóknaráætlunar.

Samþykkt samhljóða.

 

Ársreikningur 2012

Fjárhags- og stjórnsýslunefnd gerir ekki athugasemdir við ársreikninginn og leggur til við fundinn að hann verði samþykktur.

Endurskoðuð fjárhagsáætlun 2013

Fjárhags- og stjórnsýslunefnd gerir ekki athugasemdir við endurskoðaða fjárhagsáætlun Eyþings fyrir árið 2013 og leggur til að hún verði samþykkt, enda náist samningar við Vegagerðina vegna almenningssamgangna.

Fjárhagsáætlun 2014

Fjárhags- og stjórnsýslunefnd gerir ekki athugasemdir við fjárhagsáætlun Eyþings fyrir árið 2014 og leggur til að hún verði samþykkt, enda náist samningar við Vegagerðina vegna almennings-samgangna.

Endurskoðuð fjárhagsáætlun menningarráðs 2013

Fjárhags- og stjórnsýslunefnd gerir ekki athugasemdir við endurskoðaða fjárhagsáætlun menningarráðs fyrir árið 2013 og leggur til að hún verði samþykkt.

Fjárhagsáætlun menningarráðs 2014

Fjárhags- og stjórnsýslunefnd gerir ekki athugasemdir við tillögu að fjárhagsáætlun menningarráðs fyrir árið 2014 og leggur til að hún verði samþykkt.

Framangreindar tillögur um ársreikning og fjárhagsáætlanir voru bornar upp hver fyrir sig og allar samþykktar samhljóða.

 

Velferðar-, mennta- og menningarmálanefnd

 

Logi Már Einarsson, formaður

Þorbjörn Sigurðsson

Kristján E. Hjartarson

Hanna Rósa Sveinsdóttir

Oddur Helgi Halldórsson

Inda Björk Gunnarsdóttir (28.09.)

Guðmundur Baldvin Guðmundsson

Einar Gíslason

Dagbjört Jónsdóttir (einnig í kjörnefnd)

Dagbjört Bjarnadóttir

Jón Helgi Björnsson (28.09.)

Trausti Aðalsteinsson

Siggeir Stefánsson

 

Formaður nefndarinnar þakkaði nefndarfólki fyrir samstarfið og gerði síðan grein fyrir niðurstöðum.

Menningarsamningar og menningarstefna

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Grenivík 27. og 28. september 2013, lýsir ánægju sinni með núgildandi menningarsamninga og leggur áherslu á að við endurnýjun þeirra verði tryggt að fjármagn til menningamála á starfssvæði Eyþings skerðist ekki. Fundurinn skorar á fulltrúa stjórnvalda að tryggja aukið fjármagn til stofn- og rekstarstyrkja á starfssvæði Eyþings.

Mikilvægt er að halda aðskildum stofn- og rekstarstyrkjum annars vegar og verkefnastyrkjum hins vegar. Leggja áherslu á að setja ramma innan sóknaráætlunar vegna menningarmála og útbúa gegnsæa reiknireglu.

Fundurinn fagnar útkominni menningarstefnu og hvetur sveitarfélögin til að líta til hennar í störfum sínum.

Samþykkt samhljóða.

Heilbrigðisþjónusta

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Grenivík 27. og 28. september 2013, minnir á að almenn og góð heilbrigðisþjónusta er mikilvægt byggða- og öryggismál. Skorað er á stjórnvöld að tryggja aðgengi að grunnþjónustu heilsugæslu og öldrunarþjónustu á öllu svæðinu. Þá brýnir fundurinn stjórnvöld til þess að vinna hugsanlegar breytingar á heilbrigðisþjónustu svæðisins í nánu samstarfi við íbúa, stofnanir og sveitarstjórnir á Eyþingssvæðinu.

Í ljósi þess að einungis ein fæðingadeild er á Eyþingssvæðinu leggur fundurinn til að tryggð verði aðstaða og stuðningur fyrir verðandi foreldra í námunda við Sjúkrahúsið á Akureyri.

Samþykkt með þorra atkvæða. Nokkrir sátu hjá.

Sjúkrahúsið á Akureyri

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Grenivík 27. og 28. september 2013, ítrekar mikilvægi þess að standa vörð um og efla uppbyggingu Sjúkrahússins á Akureyri.

Samþykkt með þorra atkvæða. Nokkrir sátu hjá.

 

 

 

 

Skólamál

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Grenivík 27. og 28. september 2013, leggur áherslu á að fyrirhuguð stytting framhaldsskólanáms verði unnin í nánu samstarfi við sveitarfélögin. Það fjárhagslega svigrúm sem skapast verði nýtt til að bæta kjör og ná betri árangri í skólastarfi. Í grunnskólum verði jafnframt leitað leiða til að efla virðingu fyrir list- og verkgreinum. Bent er á mikilvægi þeirra sem lið í að draga úr brottfalli ungs fólks úr framhaldsskólum.

Samþykkt samhljóða.

Oddur Helgi Halldórsson ræddi um styttingu framhaldsskólans og að einnig þyrfti að huga að grunnskólanum þannig að sveitarfélögin nytu hluta hagræðingarinnar.

Sóknaráætlun landshlutans

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Grenivík 27. og 28. september 2013, lýsir ánægju með fyrstu reynslu af sóknaráætlun landshlutans þar sem markmiðið er að draga fram styrkleika og sóknarfæri hvers svæðis fyrir sig og gera tillögur og áætlanir á grunni þeirra. Fundurinn hvetur stjórnvöld til að tryggja fjármuni í verkefnið þannig að hægt sé að þróa þetta verklag enn frekar.

Samþykkt með þorra atkvæða. Eitt mótkvæði.

 

Atvinnu-, umhverfis- og samgöngumálanefnd

Í nefndinni sátu:

Andrea Sigrún Hjálmsdóttir, formaður

Sigurður Hlöðversson

Sigurður Valur Ásbjarnarson

Jóhann Ólafsson (28.09.)

Tryggvi Þór Gunnarsson

Njáll Trausti Friðbertsson

Ingibjörg Isaksen

Jón Helgi Pétursson

Guðrún María Valgeirsdóttir (einnig í kjörnefnd)

Gunnlaugur Stefánsson

Soffía Helgadóttir

Steinþór Heiðarsson

Elfa Benediktsdóttir

Formaður nefndarinnar þakkaði nefndarfólki fyrir samstarfið og gerði síðan grein fyrir niðurstöðum.

Innanlandsflug

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Grenivík 27. og 28. september 2013, lýsir yfir ánægju sinni með undirskriftasöfnunina Hjartað í Vatnsmýrinni. Fundurinn leggst eindregið gegn því að miðstöð innanlandsflugs verði flutt úr Vatnsmýrinni. Flutningur flugvallarins myndi draga verulega úr aðgengi íbúa landsbyggðanna að höfuðborginni og þar með heilbrigðisþjónustu, stjórnsýslu, viðskiptalífi og menningarlífi. Kostnaður við sjúkraflug mun aukast og öryggi sjúklinga minnka. Líkur eru á að flug myndi leggjast af til nokkurra staða. Flutningurinn myndi því hafa alvarleg áhrif á lífsgæði íbúa landsbyggðanna og auka verulega þann kostnað sem þeir bera.

Logi Már Einarsson lagði fram breytingartillögu þannig að tillagan um innanlandsflug yrði eftirfarandi:

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Grenivík 27. – 28. september, leggst eindregið gegn því að miðstöð innanlandsflugs verði flutt úr Reykjavík. Flutningur flugvallarins úr Höfuðborginni myndi draga verulega úr aðgengi íbúa landsbyggðanna að henni og þar með heilbrigðis-þjónustu, stjórnsýslu, viðskiptalífi og menningarlífi. Kostnaður við sjúkraflug mun aukast og öryggi sjúklinga minnka. Líkur eru á að flug myndi leggjast af til nokkurra staða. Flutningurinn myndi því hafa alvarleg áhrif á lífsgæði íbúa landsbyggðanna og auka verulega þann kostnað sem þeir bera.

Til máls tóku: Jónas Vigfússon, Jón Helgi Björnsson, Oddur Helgi Halldórsson, Guðrún María Valgeirsdóttir, Guðmundur Sigvaldason, Siggeir Stefánsson, Logi Már Einarsson og Njáll Trausti Friðbertsson.

Breytingartillaga Loga Más fékk 12 atkvæði. Á móti voru 14 og tillagan því felld.

Upphaflega tillagan var síðan samþykkt með þorra atkvæða. Nokkrir sátu hjá.

Flugsamgöngur

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Grenivík 27. og 28. september 2013, ítrekar mikilvægi þess að stutt verði við flugsamgöngur til og frá Þórshöfn, Vopnafirði, Húsavík og Grímsey. Flugsamgöngur eru ein af lífæðum þessara samfélaga sem nauðsynlegt er að standa vörð um.

Samþykkt samhljóða.

 

 

 

Álögur á innanlandsflug

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Grenivík 27. og 28. september 2013, hvetur stjórnvöld eindregið til að endurskoða álögur á innanlandsflug.

Samþykkt samhljóða.

Jöfnun raforkukostnaðar

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Grenivík 27. og 28. september 2013, skorar á Alþingi að jafna að fullu raforkuverð til almennra notenda á landinu. Mikið vantar upp á að niðurgreiðslur skv. lögum nr. 98/2004 um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku standi undir markmiðum laganna.

Samþykkt samhljóða.

Úrgangsmál

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Grenivík 27. og 28. september 2013, lýsir eftir stefnu stjórnvalda í úrgangsmálum og að fundnar verði ásættanlegar lausnir til framtíðar.

Samþykkt samhljóða.

Fráveitumál

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Grenivík 27. og 28. september 2013, telur mikilvægt að stuðningur ríkisins við fráveituframkvæmdir sveitarfélaga verði tryggður.

Samþykkt samhljóða.

Úrbætur vegna takmarkana í flutningsgetu á raforku

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Grenivík 27. og 28. september 2013, lýsir yfir áhyggjum af því að takmörkuð flutningsgeta á rafmagni innan svæðisins geti haft þau áhrif að skekkja samkeppni-stöðu fyrirtækja á starfssvæði Eyþings. Flutningsgeta má ekki standa eðlilegri atvinnuþróun og atvinnuuppbyggingu fyrir þrifum.

Þá leggur fundurinn þunga áherslu á að þriggja fasa rafmagn verði í boði á öllu svæðinu.

Samþykkt samhljóða.

Almenningssamgöngur

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Grenivík 27. og 28. september 2013, lýsir yfir ánægju með aukna og bætta þjónustu í almenningssamgöngum. Verkefnið er mikilvægt til að jafna búsetuskilyrði á svæði Eyþings og tengir íbúa þess við önnur landsvæði.  Fundurinn styður áherslur stjórnar vegna uppgjörs og reksturs á leiðum 56 og 57 í samræmi við forsendur Vegagerðarinnar við yfirtöku verkefnisins.

Áætlanir um rekstur málaflokksins hafa ekki staðist þrátt fyrir fjölgun farþega. Aðalfundurinn lítur svo á að forsendubrestur hafi orðið frá yfirtöku verkefnisins; lækkun niðurgreiðslu olíugjalds, einkaleyfi á umsömdum akstursleiðum ekki virt, framlag ríkisins ekki í samræmi við umfang samgöngukerfis milli þéttbýlisstaða á svæðinu og út af því.

Ljóst er að Eyþing hefur borið verulega skarðan hlut frá borði en fundurinn samþykkir að verkefninu verði framhaldið svo fremi að einkaleyfi verði tryggt, framlög Vegagerðarinnar tekin til endurskoðunar og breyting á endurgreiðslu olíugjalds verði bætt.  Þá telur fundurinn brýnt að breyta gjaldskrá og afsláttarkjörum. Fundurinn leggur áherslu á að ýtrustu hagkvæmni verði gætt við rekstur verkefnisins. Jafnframt að rekstrarvanda þess verði ekki velt yfir á sveitar-félögin.

Fundurinn fagnar aðkomu innanríkisráðherra og vegamálastjóra að úrlausn þess brýna vanda sem Eyþing stendur í við innleiðingu verkefnisins.

Samþykkt samhljóða.

Stytting hringvegarins

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Grenivík 27. og 28. september 2013, fagnar því að framkvæmdir séu hafnar við Vaðlaheiðagöng. Fundurinn leggur áherslu á nauðsyn þess að hringvegurinn verði styttur. Fyrir liggur að stytting hans stuðlar að auknu umferðaröryggi með fækkun slysa, er þjóðhagslega hagkvæm og að framkvæmdin þjónar því heildarhagsmunum íbúa og fyrirtækja í landinu.

Samþykkt með þorra atkvæða. Einn á móti.

Hálendisvegur

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Grenivík 27. og 28. september 2013, leggur til að teknar verði upp að nýju hugmyndir um hálendisvegi sem tengja saman landshluta norðan- og sunnanlands.

Samþykkt samhljóða.

Fjarskiptamál

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Grenivík 27. og 28. september 2013, gerir kröfu um að tryggð verði aukin gæði nettenginga, sjónvarps- og útvarpssendinga á svæði Eyþings í samræmi við stefnumörkun fjarskiptaáætlunar og að farsímaþjónusta verði tryggð án undantekninga. Slakar nettengingar, lélegar sjónvarpssendingar og ófullnægjandi GSM samband stendur víða í vegi fyrir uppbyggingu fyrirtækja og veikir þar með búsetu.

Samþykkt samhljóða.

Malarvegir

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Grenivík 27. og 28. september 2013, skorar á samgönguyfirvöld að veita mun meira fé til uppbyggingar og viðhalds héraðs- og tengivega heldur en verið hefur að undanförnu. Mjög litlu fé hefur verið varið til uppbyggingar og viðhalds malarvega og nú er svo komið að ýmsir þeirra eru orðnir mjög illa farnir og beinlínis hættulegir. Nefna má veginn milli Þórshafnar og Bakkafjarðar, um Melrakkasléttu, í Bárðardal og í Hörgárdal.

Samþykkt samhljóða.

 

 

8.2.    Tillögur frá Kjörnefnd.

Í nefndinni sátu:

Guðrún María Valgeirsdóttir, Skútustaðahreppi, formaður, (einnig í atvinnu-, umhverfis- og samgöngumálanefnd).

Dagbjört Jónsdóttir, Þingeyjarsveit, (einnig í velferðar-, mennta- og menningarmálanefnd).

Guðmundur Sigvaldason, Hörgársveit, (einnig í fjárhags- og stjórnsýslunefnd).

Formaður nefndarinnar, Guðrún María Valgeirsdóttir, þakkaði nefndarfólki fyrir samstarfið og gerði síðan grein fyrir niðurstöðum.

 

Kosning í stjórn Eyþings.

Tillaga kjörnefndar er að í samræmi við nýsamþykktar lagabreytingar bætist eftirtalin í stjórn Eyþings:

Aðalmenn:

Halla Björk Reynisdóttir, Akureyrarbæ.

Siggeir Stefánsson, Langanesbyggð.

Varamenn í sömu röð:

Ólafur Jónsson, Akureyrarbæ.

Arnór Benónýsson, Þingeyjarsveit.

Varamaður Geirs Kristins Aðalsteinssonar í stað Höllu Bjarkar verði Tryggvi Þór Gunnarsson.

Samþykkt samhljóða.

 

Val á endurskoðanda til eins árs.

Tillaga kjörnefndar er að endurskoðandi verði Enor ehf., sbr. ákvörðun aukaaðalfundar 12. febrúar sl.

Samþykkt samhljóða.

8.3.    Ákvörðun um fundarstað næsta aðalfundar.

Arnór Benónýsson, Þingeyjarsveit kvaddi sér hljóðs. Hann þakkaði fyrir góðan fund á Grenivík og lýsti yfir ánægju með hann svo og aðbúnað allan. Síðan bauð hann til næsta aðalfundar Eyþings að ári í Þingeyjarsveit.

8.4.    Önnur mál.

Enginn kvaddi sér hljóðs undir öðrum málum.

8.5.    Fundarslit.

Geir Kristinn Aðalsteinsson sagði að síðasta ár hefði verið sér lærdómsríkt, enda mörg mikilvæg mál til umfjöllunar hjá stjórn Eyþings. Hann bauð nýja stjórnarmenn velkomna. Þá þakkaði hann fyrir höfðinglegar móttökur á Grenivík og aðbúnað á fundarstað. Sérstaklega þakkaði hann Guðnýju Sverrisdóttur fyrir undirbúning allan og fyrir því var vel klappað.

Að lokum sagðist Geir Kristinn afar ánægður með þennan fund og þá samheldni sem fram hefði komið. Hann óskaði fundarmönnum góðrar heimferðar og sagði fundi slitið.

Þá var klukkan 13:55.

 

 

 

Fyrirlesarar:

Erla Björg Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri SÍMEY.

Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, menningarfulltrúi Eyþings.

Sigurður Valur Ásbjarnarson, stjórn Eyþings.

Stefanía Traustadóttir, formaður stýrinets Stjórnarráðsins.

 

 

Gestir:

Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands.

Bjarkey Gunnarsdóttir, alþingismaður Norðausturkjördæmi.

Brynhildur Pétursdóttir, alþingismaður Norðausturkjördæmi.

Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri Akureyri.

Gísli Freyr Valdórsson, aðstoðarmaður innanríkisráðherra.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra.

Héðinn Unnsteinsson, stefnumótunarsérfræðingur í forsætisráðuneytinu.

Höskuldur Þórhallsson, alþingismaður Norðausturkjördæmi.

Jóhann Ingólfsson, sveitarstjórnarmaður Grýtubakkahreppi.

Jónas Vigfússon, sveitarstjóri Eyjafjarðarsveit.

Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra og alþingismaður Norðausturkjördæmi.

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Norðausturkjördæmi.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra.

Sigurbjörn Þór Jakobsson, sveitarstjórnarmaður Grýtubakkahreppi.

Sigurður Egilsson, bifreiðastjóri forsætisráðuneyti.

Steingrímur J. Sigfússon, alþingismaður Norðausturkjördæmi.

Valgerður Gunnarsdóttir, alþingismaður Norðausturkjördæmi.

Þórey Vilhjálmsdóttir, aðstoðarmaður innanríkisráðherra.

Þórunn Egilsdóttir, alþingismaður Norðausturkjördæmi.

 

 

Starfsmenn og embættismenn:

Alfreð Schiöth, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra.

Ásta Fönn Flosadóttir, Grýtubakkahreppi.

Fjóla Stefánsdóttir, Grýtubakkahreppi.

Pétur Þór Jónasson, framkvæmdastjóri Eyþings.

Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, menningarfulltrúi Eyþings.

Valtýr Sigurbjarnarson, ráðinn fundarritari.

 

 

 

Kjörnir fulltrúar á aðalfund Eyþings 2013

 

Sveitarfélag

 

Aðalfulltrúar

 

Varafulltrúar

Fjallabyggð

 

Egill Rögnvaldsson

X

Guðmundur G. Sveinsson

Fjallabyggð

X

Sigurður Hlöðversson

 

 

Fjallabyggð

X

Sigurður Valur Ásbjarnarson

 

Ásdís Pálmadóttir

Fjallabyggð

X

Þorbjörn Sigurðsson

 

S. Guðrún Hauksdóttir

Dalvíkurbyggð

 

Björn Snorrason

 

 

Dalvíkurbyggð

X

Jóhann Ólafsson (28.09.)

 

Sveinn Torfason

Dalvíkurbyggð

X

Kristján E. Hjartarson

 

Heiða Hringsdóttir

Dalvíkurbyggð

X

Marinó Þorsteinsson

 

Guðmundur St. Jónsson

Hörgárbyggð

X

Guðmundur Sigvaldason

 

Axel Grettisson

Hörgárbyggð

X

Hanna Rósa Sveinsdóttir

 

Sunna Hlín Jóhannesdóttir

Akureyrarbær

X

Andrea Sigrún Hjálmsdóttir

 

Edward H. Huijbens

Akureyrarbær

X

Geir Kristinn Aðalsteinsson

X

Oddur Helgi Halldórsson

Akureyrarbær

X

Guðmundur B. Guðmundsson

 

Petrea Ósk Sigurðardóttir

Akureyrarbær

 

Halla Björk Reynisdóttir

 

Víðir Benediktsson

Akureyrarbær

 

Hlín Bolladóttir

X

Inda Björk Gunnarsdóttir (28.09.)

Akureyrarbær

X

Logi Már Einarsson

 

Ragnar Sverrisson

Akureyrarbær

 

Ólafur Jónsson

X

Njáll Trausti Friðbertsson

Akureyrarbær

X

Tryggvi Þór Gunnarsson

 

Silja Dögg Baldursdóttir

Akureyrarbær

X

Sigurður Guðmundsson

 

Anna Hildur Guðmundsdóttir

Eyjafjarðarsveit

X

Arnar Árnason

 

 

Eyjafjarðarsveit

X

Einar Gíslason

 

Kristín Kolbeinsdóttir

Eyjafjarðarsveit

 

Leifur Guðmundsson

X

Ingibjörg Isaksen

Svalbarðsstrandarhreppur

X

Eiríkur Hauksson (27.09)

 

Helga Kvam

Svalbarðsstrandarhreppur

 

Jón Hrói Finnsson

 

Guðmundur Bjarnason

Grýtubakkahreppur

X

Guðný Sverrisdóttir

 

Fjóla V. Stefánsdóttir

Grýtubakkahreppur

X

Jón Helgi Pétursson

 

Ásta Fönn Flosadóttir

Þingeyjarsveit

X

Arnór Benónýsson

 

Árni Pétur Hilmarsson

Þingeyjarsveit

X

Dagbjört Jónsdóttir

 

Ólína Arnkelsdóttir

Þingeyjarsveit

X

Margrét Bjarnadóttir

 

Friðrika Sigurgeirsdóttir

Skútustaðahreppur

X

Dagbjört Bjarnadóttir

 

Böðvar Pétursson

Skútustaðahreppur

X

Guðrún María Valgeirsdóttir

 

Friðrik Jakobsson

Norðurþing

X

Bergur Elías Ágústsson (27.09.)

 

Sigríður Valdimarsdóttir

Norðurþing

X

Gunnlaugur Stefánsson

X

Jón Helgi Björnsson (28.09.)

Norðurþing

X

Hjálmar Bogi Hafliðason

 

Þráinn Guðni Gunnarsson

Norðurþing

 

Jón Grímsson

X

Soffía Helgadóttir

Norðurþing

X

Trausti Aðalsteinsson

 

Olga Gísladóttir

Tjörneshreppur

X

Steinþór Heiðarsson

 

Eiður Árnason

Svalbarðshreppur

X

Elfa Benediktsdóttir

 

Sigurður Þór Guðmundsson

Langanesbyggð

X

Ólafur Steinarsson

 

Ævar Rafn Marinósson

Langanesbyggð

X

Siggeir Stefánsson

 

Reimar Sigurjónsson

 

Rétt til setu á aðalfundinum 2013 áttu 40 fulltrúar frá 13 sveitarfélögum. Alls mættu 39, þar af voru 7 varamenn, sjá ofangreinda töflu. Sumir fulltrúanna sátu aðeins annan fundardaginn.

Getum við bætt síðuna?