Fara í efni

Fundargerð - Aðalfundur 2010

08.10.2010

Aðalfundur Eyþings 2010

Haldinn í Bátahúsinu á Siglufirði

8. og 9. október 2010

 

 

 

Föstudagur 8. október.

 

 

1.    Fundarsetning kl. 13:00.

 

Formaður Eyþings, Sigrún Björk Jakobsdóttir, setti fundinn.  Hún óskaði landsmönnum til hamingju með Héðinsfjarðargöngin og bauð nýjan bæjarstjóra Fjallabyggðar, Sigurð Val Ásbjarnarson, velkominn á svæðið.  Sigrún Björk sagðist hafa ákveðið að draga sig í hlé frá pólitísku starfi og það væri hennar síðasta embættisverk á sviði sveitarstjórnarmála að skila af sér sem formaður Eyþings.  Því fylgdi ákveðinn léttir, en um leið eftirsjá að hverfa frá mörgum áhugaverðum verkefnum.  Hún þakkaði gott samstarf við mikinn fjölda sveitar-stjórnarmanna á liðnum árum og alveg sérstaklega stjórn Eyþings og framkvæmdastjóra.

1.1.      Starfsmenn þingsins og kjörnefnd.

Sigrún Björk lagði eftirfarandi til um starfsmenn þingsins og kjörnefnd:

Fundarstjórar:

Bjarkey Gunnarsdóttir, Fjallabyggð.

Sigurður Valur Ásbjarnarson, Fjallabyggð.

Ritarar:

Hlín Bolladóttir, Akureyrarbæ.

Siggeir Stefánsson, Langanesbyggð.

Kjörnefnd:

Jón Helgi Björnsson, Norðurþingi, formaður.

Margrét Bjarnadóttir, Þingeyjarsveit.

Ólafur Jónsson, Akureyrarbæ.

Ráðinn fundarritari:

Valtýr Sigurbjarnarson, Akureyri.

Ráðstefnustjóri:

Pétur Þór Jónasson, framkvæmdastjóri Eyþings.

Samþykkt samhljóða.

1.2.      Skýrsla stjórnar.

Sigrún Björk Jakobsdóttir, formaður Eyþings, flutti skýrslu stjórnar sem lögð hafði verið fyrir aðalfundarfulltrúa sem fundarskjal og fram kom að hún myndi fylgja með fundargerð aðalfundarins.  Hún greindi frá hverjir hefðu skipað stjórn og varastjórn 2009-2010 og hvaða nefndir hefðu verið starfandi, þ.e. samráðsnefnd Eyþings og SSA, heilbrigðismálanefnd Eyþings og nefnd um endurskoðun fjallskilasamþykkta.  Stjórnin hélt á starfsárinu 9 bókaða stjórnarfundi og tók til afgreiðslu 155 mál.  Áhersla var lögð á að halda fundi til skiptis hjá stjórnarmönnum til að fara um starfssvæðið.

Þá fór Sigrún Björk yfir aðgerðaáætlun Eyþings sem m.a. tengist Sóknaráætlun 20/20 fyrir Ísland, Byggðaáætlun 2010 - 2013, Samgönguáætlun 2009 - 2012, Héðinsfjarðargöngum og Hófaskarðsleið, ásamt öðrum framkvæmdum í vegamálum svo sem Vaðlaheiðargöngum.  Einnig vék hún að almenningssamgöngum og hugsanlegu tilraunaverkefni um þær.  Sigrún Björk nefndi endurnýjun menningarsamnings og stöðu ýmissa menningarmála t.d. svæðisútvarps RÚV.  Starfsemi Menningarráðs Eyþings væri viðamikil, en gerð yrði grein fyrir henni undir sérstökum dagskrárlið og hið sama mætti segja um heilbrigðisnefnd og starfsemi Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra.  Síðan ræddi hún ýmis önnur atriði aðgerðaáætlunar svo sem Drekasvæðið og norðurslóðaverkefni, Evrópumálefni og símenntun og námskeiðahald fyrir sveitarstjórnarfólk.

Ýmis þingmál koma til umræðu og vinnslu hjá stjórn Eyþings og haldnir eru árlegir fundir stjórnar og þingmanna.  Á síðasta ári voru tekin fyrir 44 fjölbreytt þingmál til umsagnar.  Einnig eru sameiginlegir fundir með Sambandi íslenskra sveitarfélaga og landshluta-samtökunum.

Í lokin greindi Sigrún Björk frá því að nú ættu rétt til setu á aðalfundinum 36 fulltrúar frá 13 sveitarfélögum og þar af sætu 25 sinn fyrsta fund.  Íbúar á starfssvæði Eyþings voru 28.909 þann 1. desember 2010.  (SBJ lauk máli sínu kl. 13:35).

Enginn kvaddi sér hljóðs um skýrslu stjórnar.

1.3.      Ársreikningur og fjárhagsáætlun.

Pétur Þór Jónasson, framkvæmdastjóri Eyþings gerði grein fyrir ársreikningi og fjárhags-áætlun samtakanna.  Hann sagði að venju samkvæmt yrði nánar fjallað um skýrslu stjórnar, ársreikning og fjárhagsáætlun í fjárhags- og allsherjarnefnd.

Helstu niðurstöður eru þessar:

Rekstrarreikningur 2009

Rekstrartekjur                                            56.225.332

Rekstrargjöld                                              58.166.498

Rekstrarniðurstaða án fjármagnsliða            (1.941.166)

Fjármunatekjur  ( Fjármagnsgjöld )               2.813.579

Rekstrarniðurstaða ársins                              872.413

 

Efnahagsreikningur 31. des. 2009

Áhættufjármunir                                            1.000.000

Veltufjármunir                                             42.772.387

Eignir samtals                                              43.772.387

Eigið fé                                                       10.599.916

Lífeyrisskuldbindingar                                 12.559.448

Skammtímaskuldir                                      20.613.023

Eigið fé og skuldir samtals                           43.772.387

 

Fjárhagsáætlun fyrir árið 2011.

Pétur Þór Jónasson lagði fram tillögu að fjárhagsáætlun fyrir árið 2011.

                                                                                           Áætlun 2010(þkr)          Áætlun 2011 (þkr)

Rekstrartekjur                                                   17.400                      18.600

Rekstrargjöld                                                     18.700                      19.500

Rekstrarniðurstaða án fjármagnsliða                   (1.300)                         (900)

Fjármagnstekjur og (fjármagnsgjöld)                    1.300                           900

Hagnaður (Halli)                                                         0                               0

 

Fundarstjóri lagði til að ársreikningi og áætlun yrði vísað til fjárhags- og allsherjarnefndar.

Samþykkt samhljóða.

1.4.      Tillögur og erindi frá stjórn og fulltrúum.

Pétur Þór Jónasson, framkvæmdastjóri gerði grein fyrir tillögum og erindum frá stjórn.

Tillaga að breytingum á lögum Eyþings.

Pétur Þór sagði frá ástæðum þess að stjórnin legði til lagabreytingar og greindi frá þeim.

Tillaga að breytingum á samþykktum Menningarráðs Eyþings.

Pétur Þór sagði að í ljósi reynslunnar þætti rétt að gera tilteknar breytingar á samþykktum Menningarráðs Eyþings og gerði grein fyrir þeim.

Fundarstjóri lagði til að tillögunum yrði vísað til fjárhags- og allsherjarnefndar.

 

Tillaga að breytingu á lista aðildarsveitarfélaga í 1. grein samstarfssamnings um heilbrigðisnefnd og heilbrigðiseftirlit.

Fundarstjóri lagði til að tillögunni yrði vísað til velferðar-, mennta- og menningarmála-nefndar.

Samþykkt samhljóða.  (Dagskrárlið lokið kl. 13:48).

 

 

2.    Aðildarviðræður Íslands og ESB – staða mála og næstu skref.

 

Stefán Haukur Jóhannesson, aðalsamningamaður Íslands, gerði grein fyrir aðildar-viðræðum Íslands og ESB – stöðu mála og næstu skrefum.

 

Stefán Haukur sagði fyrst frá tímaáætlun, allt frá þingsályktun 16. júlí 2009 til upphafs formlegra viðræðna 27. júlí 2010.  Fram kom að eiginlegar viðræður hefjast um mitt næsta ár og fullgilding gæti átt sér stað 2013.  Öll vinna samninganefndar Íslands miðaðist við að hagsmunir landsins ráði för og ekkert annað.  Þá greindi hann frá skipulagi viðræðnanna.  Lýðræðisleg ákvörðun Alþingis vísar veginn og utanríkisráðherra stýrir aðildarferlinu.  Mikið er lagt upp úr virkri þátttöku allra hagsmunaðila og félagasamtaka.

Síðan fór Stefán Haukur yfir skipurit aðildarviðræðnanna og hvaða 18 einstaklingar væru í samninganefndinni.  Hann gerði grein fyrir samningsköflum viðræðnanna.  Þeir eru 33 sem saman myndar löggjöf ESB og það sem semja þarf um.  Skipta má þessum köflum í þrennt, 10 kafla sem eru nú þegar hluti af EES að öllu leyti, 11 kafla sem að mestu eru hluti af EES og 12 kafla sem eru utan EES samningsins.  Á mynd sem Stefán Haukur sýndi kom fram hversu langt við erum þegar komin í Evrópusamvinnunni, búin að mestu með 21 kafla af 33.  Ísland hefur tekið upp 2/3 af löggjöf ESB og getur einbeitt sér að grundvallarhagsmunum.

Stóru málin verða ef að líkum lætur landbúnaður, sjávarútvegur, gjaldmiðilsmálin og svo byggðamálin.  En einnig þarf að byggja á reynslu annarra ríkja, þ.e. að vænta þess óvænta.  

Stefán Haukur sagði að ef við myndum þurfa að semja um þetta allt saman frá grunni, þá væri það nánast óvinnandi vegur fyrir litla stjórnsýslu, en vegna EES og okkar reynslu þar og hve mikið væri þegar komið í íslensk lög, þá gætum við einbeitt okkur að þeim sviðum sem mestu máli skipta.  Í því fælist mikill styrkur fyrir okkur.  Hann ræddi byggðastefnu ESB og Íslands.  Einnig nefndi hann samningahópa um byggða- og sveitarstjórnarmál, en þar væru 29 fulltrúar hagsmunaðila, stofnana og ráðuneyta.

Stefán Haukur nefndi að lokum að samningaferlið væri í vönduðum lýðræðislegum farvegi.  Fram færi málefnaleg umræða um kosti og galla.  Markmiðið væri að ná sem bestum samningi fyrir Ísland.  Þjóðin ætti svo lokaorðið í þjóðaratkvæðagreiðslu.  (SHJ lauk máli sínu kl. 14:18).

Ólafur Jónsson spurði um hvort og þá hvernig lög og skilgreiningar virkuðu.

Stefán Haukur svaraði og sagði að Maltverjar hefðu reynt að fá ýmis atriði inn í sinn samning.  Sumt hefði tekist, annað ekki.  Við þyrftum að nýta okkur fámenni og strjálbýli.

Sigrún Björk Jakobsdóttir spurði um kostnað við aðild og atriði tengd sjávarútvegi, t.d. makríl.

Stefán Haukur sagði að ekki væri vitað hvað þetta kostaði.  Framlög frá ESB og greiðslur frá Íslendingum lægju ekki fyrir fyrr en samningsdrög væru klár.  Allt þyrfti þetta að meta í samhengi, t.d. núverandi kostnað við EES.  Hjá Finnum hefðu sum árin verið í plús en önnur í mínus.  Hvað sjávarútveginn snerti og deilur um veiðar á makríl mætti ekki gleyma því að sjávarútvegsstjóri ESB væri m.a. að gæta hagsmuna Íra og Skota.  Þannig hefði þetta einnig verið með kolmunnann.  Hver reyndi að verja sitt en mikilvægast væri að ná samningum.

Guðný Sverrisdóttir spurði um helstu plúsa og mínusa og hvernig ætlunin væri að vinna að málum.

Stefán Haukur tiltók nokkur atriði.  Sérstaða í sjávarútvegi væri mikil og þar þyrfti að skoða fjárfestingar vandlega.  Íslendingar, þessi 320 þúsund manna þjóð væri með sem svaraði 30% af afla ESB landanna þar sem íbúar væru 500 milljónir.  Landbúnaður væri með allt öðrum hætti.  Í ESB væri akuryrkja númer eitt en hér búfjárhald.  Trúlega væru mörg tækifæri í landbúnaðarmálum.  Eitt stærsta viðfangsefnið væri samt gjaldeyrismálin.  (Umræðum lauk kl. 14:35)

 

 

3.    Framvinda 20/20 sóknaráætlunar fyrir Ísland.

 

Héðinn Unnsteinsson, stefnumótunarsérfræðingur í forsætisráðuneytinu gerði grein fyrir framvindu 20/20 sóknaráætlunar fyrir Ísland.

Héðinn byrjaði á því að greina frá tilgangi sóknaráætlunarinnar, en það væri að efla atvinnulíf og lífsgæði til framtíðar.  Markmiðið væri að kalla fram sameiginlega framtíðar-sýn og að samþættar verði áætlanir í samgöngumálum, fjarskiptamálum, ferðamálum og byggðamálum auk áætlana um eflingu sveitarstjórnarstigsins og ýmsa vaxtarsamninga og aðra opinbera stefnumótun.  Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að mótuð verði heildstæð atvinnustefna fyrir Ísland, byggð á jafnræði atvinnugreina, jafnrétti kynjanna, heilbrigðum viðskiptaháttum og grænni atvinnuuppbyggingu í samræmi við hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar.  Verkefninu er skipt í þrjá meginverkþætti: sóknaráætlanir landshluta, framtíðarsýn og samkeppnishæfni.

Síðan sýndi Héðinn myndir af skipuriti verkefnisins og sagði frá því hvar og hvenær þjóðfundir hefðu verið haldnir í einstökum landshlutum og hverjar helstu niðurstöður þeirra hefðu verið.  Hann greindi frá sóknarsvæðum og varnarsvæðum áranna 2001-2010 skv. úttekt Þórodds Bjarnasonar prófessors við HA og að Ísland 2020 væri framtíðarsýn og stefna sem ríkisstjórnin legði fram og væri ætlað að vera leiðarljós fyrir alla stefnumótun og áætlanagerð innan stjórnsýslunnar á næstu árum.

Að lokum fór Héðinn yfir nokkrar niðurstöður.  Þar kom fram að almenn tilhneiging virðist vera í kerfinu í þá veru að áætlanagerð og stefnumótun sé ótengd fjárlögum og skrifstofur fjármála og lögfræðimála séu lítt tengdar áætlanagerðinni sem gerir það enn ólíklegra að markmið áætlana og stefna nái fram að ganga.  Mikilvægt væri að samþætta og einfalda til muna áætlanagerð og stefnumótun stjórnarráðsins, fækka áætlunum og samræma þær í gegnum forsætisráðuneytið og setja skilyrði fyrir því vinnulagi að hverri stefnu/áætlun fylgi hlutlæg framkvæmdaáætlun.  Þá þyrfti að tengja stefnumótun og áætlanagerð fjárlögum og fjárlagagerð.  Hætta þyrfti framsetningu í viðtengingarhætti sem gæfi ekki nægilega afgerandi skilaboð.  (HU lauk máli sínu kl. 14:55)

 

 

4.    Sóknaráætlun fyrir Norðurland eystra.

 

Pétur Þór Jónasson, framkvæmdastjóri Eyþings gerði grein fyrir sóknaráætlun fyrir Norðurland eystra.

Pétur Þór greindi frá 20/20 sóknaráætlun með sérstöku tilliti til Norðurlands eystra. Tilgangur áætlunarinnar er að efla atvinnulíf og samfélag um allt land.  Huga þarf að svæðaskiptingu og skörun og leita að sérstöðu hvers héraðs, tækifæra í atvinnumálum, menntun og opinberri þjónustu.  Hann greindi frá nokkrum sóknarfærum og sýndi mynd um mikilvægi þeirra.  Þar komu m.a. fram íþróttabærinn Akureyri, Háskólinn á Akureyri (HA), nýting háhitasvæða í Þingeyjarsýslum, Demantshringurinn, vetrarferðaþjónusta og nálægð við norðurslóð.

Pétur Þór nefndi síðan nokkur dæmi um hvern framangreindra þátta svo sem góða aðstöðu til vetraríþrótta, nálægð við alþjóðaflugvöll og nálægð við sjúkrahús.  Hvað HA snerti mætti nefna fjarlægð frá höfuðborgarsvæði og sérstakar áherslur á öfluga starfsemi á sviði norðurslóðamála.  Mikil tækifæri væru í nýtingu háhita.  Þar mætti nefna ýmsa stóriðju gagnaver og lífefnaiðnað.  Demantshringurinn byði upp á einstæðar náttúruperlur, heilsuböð við Mývatn og aukna heilsársferðaþjónustu sem tengdist m.a. millilandaflugi um Akureyri.

Að lokum rifjaði Pétur Þór upp niðurstöðu hópavinnu frá aðalfundi Eyþings fyrir ári síðan þar sem raða átti málaflokkum sveitarfélaga eftir mikilvægi.  Það kom m.a. eftirfarandi fram: Atvinnumál (9+), Grunnþjónusta (7+), Samgöngur (6+), Ímynd og markaðssetning (5+), Samstarf (4+), Fjármál (3+), Auðlindir (2+), Stefnumótun (1+), Lýðræði (0+).  Ljóst væri að mikið hefði verið lagt undir í vinnu vegna sóknaráætlunar og því ekki annað í boði en að halda áfram.  (PÞJ lauk máli sínu kl. 15:20)

 

Kaffihlé til kl. 15:40

 

5.      Breytingar á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og áhrif þeirra.

 

Flosi Eiríksson, formaður starfshóps um heildarendurskoðun Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga gerði grein fyrir vinnu starfshópsins.

 

Flosi sagði að Jöfnunarsjóður væri einn þriggja megintekjustofna sveitarfélaga og þaðan kæmu um 10% heildartekna.  Hlutverk sjóðsins í dag er að veita sveitarfélögum framlag til jöfnunar vegna mismunandi tekjumöguleika þeirra og útgjalda.  Einnig að greiða lögbundin framlög til samtaka, stofnana eða sameiginlegra verkefna sveitarfélaga.  Starfshópurinn skilaði tillögum til ráðherra í júní 2010, en auk Flosa voru í honum Guðmundur Bjarnason, fyrrverandi bæjarstjóri í Fjarðabyggð og Björg Ágústsdóttir, fyrrverandi bæjarstjóri í Grundarfirði.  Flosi greindi frá viðfangsefni starfshópsins samkvæmt skipunarbréfi og markmiðum endurskoðunarinnar.

Síðan greindi hann frá helstu kostum og göllum núverandi kerfis og áhrifum framlaga Jöfnunarsjóðs á tekjuhæstu og tekjulægstu sveitarfélögin.  Einnig ræddi hann valkosti starfs-hópsins.  Valkostur 1:  Nauðsynlegar breytingar á núverandi kerfi – tiltekt.  Valkostur 2:  Nauðsynlegar breytingar á núverandi kerfi og umbreyting á tekju- og útgjaldajöfnunar-framlögum sjóðsins.  Valkostur 3:  Uppstokkun á kerfinu í heild sinni.

Flosi rakti síðan nánar valkost 2 en megin breytingarnar þar eru m.a. að jöfnunarframlög sjóðsins, þ.e. útgjaldajöfnunarframlög og tekjujöfnunarframlög, verða sameinuð í eitt útgjaldajöfnunarframlag og mæling á útgjaldaþörf verður aukin og henni breytt.  Tekjutenging í núverandi mynd verður aflögð en framlag metið með hliðsjón af mældri útgjaldaþörf og tekjum til ráðstöfunar.  Þá ræddi hann yfirlit málaflokka og viðmið nýs útgjaldajöfnunarframlags, breytingar fyrir einstaka landshluta og fleira.

Að lokum gerði Flosi grein fyrir nýrri hugmyndafræði, valkosti 3 sem er róttæk uppstokkun á öllu jöfnunarkerfinu.  Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að öll framlög sjóðsins sem hafa jöfnunartilgang, þ.e. öll framlögin í A-deildinni, verði sameinuð í eitt kerfi.  Í öðru lagi að þróað verði nákvæmt útgjaldamælingarkerfi sem endurspegli eins nákvæmlega og kostur er þá útgjaldaþörf sem ætla má að hvert sveitarfélag hafi vegna lögbundinna og venjubundinna verkefna.  Í þriðja lagi eru hámarksskatttekjur einstakra sveitarfélaga skoðaðar, en þörf fyrir framlög úr Jöfnunarsjóði ræðst af því hve mikið vantar upp á að tekjur dugi fyrir (mældum) gjöldum.  Ef útgjaldaþörf er minni en skatttekjur er ekki veitt framlag.  (FE lauk máli sínu kl. 16:10)

Guðný Sverrisdóttir velti fyrir sér jöfnun milli sveitarfélaga sem ýmis rök væru fyrir en spurði um þau tekjuhæstu.

Flosi sagði að ef tekjur væru umfram þörf þá væri ekki klipið af þeim hjá einstökum sveitarfélögum hér á landi, en það væri t.d. gert í Noregi.

 

 

6.    Ávörp gesta.

 

Stefanía Traustadóttir flutti kveðju Ögmundar Jónassonar, ráðherra sveitarstjórnarmála.

Hún sagðist hafa sagt við samstarfsfólk sitt fyrr um morguninn að kl. 13 yrði fundur á Siglufirði þar sem hún ætlaði að mæta.  Þetta hefði verið útilokað fyrir tilkomu Héðinsfjarðarganga og það væri sérstaklega ánægjulegt að koma til Siglufjarðar við þessar aðstæður.  Þá greindi hún frá mörgu sem væri á döfinni í ráðuneyti sveitarstjórnarmála og að þar á bæ væri góður vilji til góðrar samvinnu við sveitarstjórnarmenn um ýmis mál.

Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga þakkaði fyrir það tækifæri að geta verið á þessum fundi.  Hann greindi frá því að sambandið hefði verið stofnað 1945 og að öll sveitarfélögin væru aðilar að því þó það væri ekki lögbundið.  Í sveitarstjórnarlögum er sambandið skilgreint sem sameiginlegur málsvari sveitarfélaganna.  Það mótar stefnu sveitarfélaga í stórum málum sem varða þau öll, s.s. flutningi verkefna milli ríkis og sveitarfélaga.  Mikil áhersla er lögð á samstöðu þvert á stjórnmálaflokka.  Þá sýndi Karl myndir af skipuriti sambandsins og nefndi helstu atriðin.  Landsþing er æðsta vald í málefnum sambandsins og þingið 2010 hefur nú skilað áherslum í nýja og breytta stefnumörkun fyrir árin 2011 til 2014, sem síðan kemur til samþykktar á landsþinginu 2011.  Karl sagði frá stærstu málunum hjá sambandinu um þessar mundir.  Mikill tími færi í fjármálaleg samskipti ríkis og sveitarfélaga og mikilvægt væri að lögbinda samskiptareglur. Í því samhengi rakti hann hvað væri framundan í þessum samskiptum, en m.a. þyrfti að vinna að nýjum stöðugleikasáttmála.

Næst ræddi Karl um kjaramál og að launanefnd sveitarfélaga hefði á sínum tíma verið mikið framfaramál.  Nefndin hefði núna verið lögð niður og stefnumörkun væri hjá stjórn sambandsins, en til staðar væri ráðgefandi kjaramálanefnd og kjarasvið annast kjarasamningagerð.  Fram kom að viðsemjendur sambandsins eru 67 og fjöldi kjara-samninga er 40.  Kjarasamningar verða lausir í lok nóvember nk.

Í lokin ræddi Karl um landshlutasamtökin og sagði þau mikilvægan tengilið við sambandið. Formenn þeirra og framkvæmdastjórar funda einu sinni á ári með stjórn sambandsins og

stefnt væri að einum til tveimur vinnufundum framkvæmdastjóra landshlutasamtakanna á ári með sviðsstjórum og framkvæmdastjóra sambandsins.  Þá greindi Karl frá starfsemi skrifstofunnar í Brussel, en henni væri m.a. ætlað að aðstoða sveitarfélög við að nýta sér tækifæri til að taka þátt í evrópskum verkefnum.

 

Kristján L. Möller, alþingismaður flutti kveðju þingmanna kjördæmisins í fjarveru 1. og 2. þingmanns, sem ekki komust til fundarins.  Hann ræddi ýmis verkefni sem hann hefði unnið að sem ráðherra, bæði á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála.  Einkum fjallaði hann um Vaðlaheiðargöng og þá vinnu sem nú stæði yfir til að þau gætu orðið að veruleika.  Í lokin endurtók Kristján síðan kveðjur frá þingmönnum.  (KLM lauk máli sínu kl 17:00)

 

Afgreiðsla kjörnefndar á kjörbréfum.

Jón Helgi Björnsson, formaður kjörnefndar gerði grein fyrir afgreiðslu kjörbréfa.  Af 36 kjörgengum fulltrúum væru 36 mættir, þ.e. kollheimt.  Þrír varafulltrúar væru á fundinum, Einar Gíslason, Fjóla Stefánsdóttir og Soffía Helgadóttir.  Jón Helgi sagði að kjörnefndin legði til að kjörbréf allra fulltrúanna yrðu samþykkt og var það gert samhljóða.  Hann sagði að skrá yfir fulltrúa yrði færð í lok fundargerðar.  (JHB lauk sinni umfjöllun kl. 17:05)

 

Nefndastörf.

Pétur Þór Jónasson gerði grein fyrir nefndastörfum og hvar þau færu fram.  Þrjár nefndir myndu starfa, auk kjörnefndar og 13 fulltrúum hefði verið skipað í hverja nefnd að meðtöldum fráfarandi stjórnarmönnum.  Búið væri að tala við formenn og undirbúa vinnuna.

 

Tilkynnt var að móttaka yrði í boði heimamanna í Þjóðlagasetri Bjarna Þorsteinssonar kl. 18:45.  Kvöldverður yrði síðan í Bátahúsinu kl 20:00 og veislustjórn í höndum heimamanna.

 

Nefndastörf hófust kl. 17:20.

Laugardagur 9. október.

 

 

7.    Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra.

         (skýrsla heilbrigðisnefndar, ársreikningur 2009, fjárhagsáætlun 2011 og umræður).

 

Valdimar Brynjólfsson framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra flutti skýrslu heilbrigðisnefndar og Þóra Ákadóttir fór yfir ýmis atriði tengd heilbrigðisnefnd.

Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra hefur það markmið að fyrirbyggja sjúkdóma og slys af völdum matvæla, þjónustustarfsemi og mengunar.  Jafnframt er stefnt að því að vernda heilnæmt og ómengað umhverfi.  Markmiðunum er framfylgt með eftirliti og fræðslu.

Starfseminni er skapaður lagarammi með lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998, með áorðnum breytingum.  Einnig má segja að lög um matvæli nr. 93/1995, sé grunnur að matvælaþætti heilbrigðiseftirlitsins, en á þeim urðu talsverðar breytingar þegar Alþingi ákvað að innleiða regluverk Evrópusambandsins á síðastliðnum vetri.

Starfsemi heilbrigðiseftirlitsins heyrir undir tvö ráðuneyti.  Umhverfisráðuneyti, sem hefur með að gera mengunarmál, hollustuhætti og eiturefni, og Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, sem matvælaþáttur heilbrigðiseftirlitsins fellur undir.  Hvort þessara ráðuneyta hefur sína undirstofnun sem eru Umhverfisstofnun og Matvælastofnun og skulu þær hafa yfirumsjón með starfi heilbrigðiseftirlitssvæðanna í landinu.  Skilgreiningu vantar þó á því hvað felst í þessari yfirumsjón.

Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra er samvinnuverkefni allra sveitarfélaganna á Norðurlandi eystra.  Uppbyggingin er þannig að heilbrigðiseftirlitinu er stjórnað af heilbrigðisnefnd sem skal skipuð á aðalfundi Eyþings að afloknum sveitarstjórnar-kosningum.  Fimm nefndarmenn eru tilnefndir af sveitarstjórnunum samkvæmt samstarfs-samningi og einn fulltrúi er tilnefndur af samtökum atvinnurekenda á eftirlitssvæðinu.

Heilbrigðisnefnd ber að sjá um að framfylgt sé ákvæðum laga og reglugerða á starfssviði sínu sem og samþykktum sveitarfélaga.  Nefndin skal vinna að bættu heilbrigðiseftirliti á svæði sínu, annast fræðslu fyrir almenning og efla samvinnu við önnur yfirvöld og aðila sem vinna að þessum málum.

Heilbrigðiseftirlit tekur til hollustuhátta og mengunarvarna, þ.e. hollustuverndar, mengunar-varnaeftirlits, vöktunar, tengdra rannsókna og fræðslu um þessi mál.  Hollustuvernd tekur til eftirlits með matvælum, fegrunar- og snyrtiefnum, eiturefnum og hættulegum efnum, húsnæði, öðrum vistarverum og umhverfi þeirra og öryggisþáttum þeim tengdum.

Valdimar greindi síðan frá starfsemi (fyrirtækjum) sem eftirlitið næði til og starfsleyfi þyrfti fyrir. 

Til þess að heilbrigðisnefnd geti sinnt hlutverki sínu ræður hún heilbrigðisfulltrúa til að annast daglegt eftirlit með þeim viðfangsefnum sem falla undir lögin um hollustuhætti og mengunarvarnir.  Heilbrigðisfulltrúarnir eru faglegir ráðunautar heilbrigðisnefndar.  Þeir vinna í umboði nefndarinnar og afgreiða ýmis mál eftir nánari ákvörðun hennar.

Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra hefur tvær starfsstöðvar.  Á Akureyri með þremur starfsmönnum og á Húsavík með einum starfsmanni.

Endurskoðaðir reikningar ársins 2009 voru sendir sveitarstjórnunum og engar athugasemdir voru gerðar við þá.  Eins og oftast áður var niðurstaða ársreikninga undir þeirri áætlun sem gerð var.

Fjárhagsáætlunin fyrir yfirstandandi ár (2010) ásamt áætlaðri skiptingu milli sveitarfélaga er einnig látin fylgja með. Það er ljóst að ákveðnir liðir hækka umfram það sem áætlunin gerði ráð fyrir vegna efnahagsástandsins.

Fjárhagsáætlunin fyrir 2011 fylgir hér með ásamt áætlaðri kostnaðarskiptingu milli sveitarfélaganna.  Fjárhagsáætlunin var samþykkt á fundi heilbrigðisnefndar 15. september s.l. og send sveitarstjórnunum til samþykktar ásamt áætlun um kostnaðarskiptinguna.  Reiknað er með 2,75% hækkun milli ára.  Miðað hefur verið við að um 2/3 hlutar kostnaðar innheimtist af eftirlitsskyldum fyrirtækjum en um 1/3 sé greiddur af viðkomandi sveitarfélögum samkvæmt höfðatölureglu.  Nokkur skekkja hefur verið að myndast á þessum hlutföllum og er því lagt til að gjaldskrá hækki um 4,7% til að laga þetta hlutfall aftur.

Helstu atriði úr ársreikningi 2009

Áætlun                                 46.735 þkr.

Lokastaða                           45.187 þkr.

Mismunur                              1.548 þkr.

Fjárhagsáætlun 2011 var samþykkt af heilbrigðisnefnd og send til sveitarfélaganna.

Áætlun ársins 2010 er          46.715 þkr.

Áætlun ársins 2011 er          48.000 þkr.

Hækkun milli ára er því          1.285 þkr.     eða  2,75%.

 

Heilbrigðisnefnd hélt 8 fundi á árinu 2009.  Hún samþykkti 220 starfsleyfi á árinu þar af 23 fyrir vatnsveitur.  Auk þess gáfu starfsmenn út tímabundin starfsleyfi vegna torgsölu um verslunarmannahelgi, Fiskidagsins mikla og handverkshátíðarinnar að Hrafnagili, leyfi fyrir áramóta- og þrettándabrennum og nokkur tóbakssöluleyfi.  Einnig var veitt 21 umsögn vegna matsáætlana og skipulags.

Á skrá Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra voru í lok ársins 2009 skráð um 1050 eftirlitsskyld fyrirtæki.  Í dag eru þau 1080.  Þó nokkur breyting er sífellt á fyrirtækjaskránni, eigendaskipti verða, fyrirtæki hætta og ný koma inn.  Oft vantar að heilbrigðiseftirlitið sé látið vita af breytingunum og væri afar vel þegið að fá aðstoð frá skrifstofum sveitarstjórna til að halda fyrirtækjaskránni réttri.

Heilbrigðiseftirlitið tók þátt í samræmingu eftirlits á landsvísu, mest gegnum Samtök heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi en einnig í samvinnu heilbrigðisfulltrúanna við Umhverfisstofnun og Matvælastofnun en lögin kveða á um samræmingarhlutverk þeirra.

Nú eru matvælareglur Evrópusambandsins að taka gildi hér á landi.  Heilbrigðisfulltrúi greindi frá því að hver sendinefndin af annarri kæmi til að kanna ástand matvælafyrirtækja og virtist þá lögð aðaláhersla á innra eftirlitið og rekjanleikann sem þýðir aukna skráningu hjá fyrirtækjunum.  Þetta er til að tryggja frjálst flæði íslenskrar vöru á Evrópumarkað en einnig á að vera frjálst flæði vöru frá Evrópu og þannig hættir eftirlit við komu til landsins en markaðseftirlit verður tekið upp í verslunum landsins.  Alls óljós er hvernig á að fjármagna slíkt eftirlit en það mun falla á heilbrigðiseftirlitið að sinna því.

Gert er ráð fyrir að settar verði sérstakar landsreglur um heimavinnslu eða vörur „Beint frá býli“.  Einnig kæmi þar inn í sérstök íslensk matargerð eins og súrmatur, kæst skata og annað í þeim dúr.  Mjög lítil vinna hefur enn farið fram hvað varðar slíkar landsreglur þó hver stjórnmálamaðurinn á fætur öðrum mæri þann möguleika að framleiða heima á bæjunum.  Setja þarf reglur sem tryggja sem best öryggi matvælanna sem þýðir að verja þarf matinn fyrir utanaðkomandi örverum sem oftast berast í matinn úr umhverfinu með mönnum.  (VB lauk máli sínu kl. 9:25)

 

Að öðru leyti er vísað til skýrslu sem heilbrigðisfulltrúi lagði fram á fundinum.

 

Formaður heilbrigðisnefndar Þóra Ákadóttir hvatti fundarmenn til að lesa fyrirliggjandi skýrslu nefndarinnar vandlega, enda væri hún vönduð að venju og innihéldi mikinn fróðleik.  Hún nefndi ýmis atriði í starfseminni svo sem svifryksmælingar, öryggi á leikvöllum og í sundlaugum og eftirlit með fráveitum.  Þetta sýndi ásamt mörgu öðru fjölbreytileika þess sem nefndin og starfsmenn hennar fengjust við.  Þóra sagði að sér væri hugleikið að vel tækist til með útfærsluna á verkefninu „Beint frá býli“, en vissulega þyrfti að gæta að heilbrigðisöryggi og hún vonaðist eftir samræmdum reglum á þessu sviði.  Þóra lauk máli sínu með því að þakka meðstjórnendum og starfsfólki heilbrigðiseftirlitsins og óskaði þeim velfarnaðar.  (ÞÁ lauk máli sínu kl. 9:35)

 

Engar spurningar komu fram vegna umfjöllunar um Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra.

 

 

8.    Menningarráð.

         (skýrsla menningarráðs, fjárhagsáætlun).

 

Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir menningarfulltrúi og Björn Ingimarsson, formaður Menningarráðs Eyþings gerðu grein fyrir starfseminni.

Fram kom hjá Ragnheiði Jónu að menningarsamningurinn sem starf Menningarráðs Eyþings byggir á var fyrst undirritaður í apríl 2007 og rann sá samningur út í árslok 2009.  Í júní sl. var undirritaður samningur við ríkið til eins árs og nú standa fyrir dyrum viðræður um nýjan menningarsamning.  Í menningarráðinu sitja sjö fulltrúar, þrír koma austan Vaðlaheiðar, þrír vestan hennar og einn fulltrúi er skipaður af Háskólanum á Akureyri.

Það sem af er árinu hefur Menningaráð Eyþings haldið fjóra fundi.  Í upphafi ársins var tekin sú ákvörðun að hafa eina úthlutun á árinu 2010 en sl. tvö ár hefur ráðið haft tvær úthlutanir á ári.  Var þessi ákvörðun m.a. tekin með hagræðingarsjónarmið í huga.  Í janúar auglýsti menningarráð verkefnastyrki til umsóknar.  Menningarfulltrúi fór um svæðið og hafði viðtalstíma.  Alls bárust ráðinu 127 umsóknir um tæpar 73,5 milljónir króna.  Heildarkostaður við verkefnin var áætlaður tæpar 330 milljónir króna.  Menningarráðið úthlutaði tæpum 23 milljónum til 71 verkefnis.  Umsóknir bárust úr 13 sveitarfélögum af 14 á svæðinu, eins og fjöldi þeirra var þá.

Frá upphafi hafa menningarráðinu borist 442 umsóknir.  Úthlutað hefur verið rúmum 92 milljónum til 256 verkefna.  Sveitarfélögin á svæðinu leggja hlutfallslega jafnt til samningsins.  Framlög sveitarfélagana árið 2010 eru 362 krónur á hvern íbúa.

Samstarf menningarfulltrúa landsbyggðarinnar

Samstarf menningarfulltrúa landsbyggðarinnar hefur verið með nokkuð hefðbundnum hætti á árinu.  Fyrsti fundur var haldinn í Reykjavík í upphafi ársins.  Á fundinn mættu einnig formenn menningarráðanna.  Á fundinum var m.a. farið yfir drög að nýjum menningar-samningi fyrir árið 2010 sem er til eins árs.  Einnig var rætt framhaldið eftir 2010 og lögð var á það áhersla að vinna að nýjum samningi fari sem fyrst af stað og verði lokið tímanlega fyrir næstkomandi áramót.

Menningarfulltrúar landsbyggðarinnar héldu síðan vorfund í Borgarnesi en auk þess hafa verið haldnir nokkrir símafundir.  Menningarfulltrúar vinna að sameiginlegum hagsmuna-málum menningarráðanna og miðla upplýsingum og þekkingu milli svæðanna.

Samstarf menningarfulltrúa sveitarfélaganna og menningarfulltrúa Eyþings

Samstarf menningarfulltrúa Eyþings og menningarfulltrúa sveitarfélaganna á svæðinu er einn af mikilvægu þáttunum í starfi ráðsins.  Haldnir hafa verið tveir fundir og sá þriðji verður haldinn nú síðar í haust.  Í flestum tilfellum eru starfsmenn sem sinna þessum málaflokki með fleiri verkefni á sinni könnu auk þess að vera einu starfsmenn málaflokksins.  Því er þetta samstarf mikilvægt til að efla faglega umræðu og vinnu auk þess að kynnast menningarstarfi og miðla upplýsingum og þekkingu innan Eyþings.

Menningarlandið 2010

Mennta- og menningarmálaráðuneytið boðaði til menningarþings á vormánuðum undir yfirskriftinni:  „Menningarlandið 2010 – mótun menningarstefnu“.  Á þinginu var kynnt greining á núverandi menningarstefnu á sviði lista, menningararfs, safna, fjölmiðla og æskulýðs- og íþróttamála.  Tilgangur með þinginu var að fá viðbrögð við fyrirliggjandi greiningu og að fá fram hugmyndir sem gætu nýst í áframhaldandi vinnu við mótun menningarstefnu til framtíðar.  Menningarfulltrúi og formaður sóttu þingið fyrir hönd menningarráðs.

Staða menningarmála hjá sveitarfélögum á starfssvæði Eyþings

Menningarmál falla ekki undir lögbundnar skyldur sveitarfélaga.  Þrátt fyrir það eru þau grundvöllur lífsgæða hvers samfélags.  Ekki má heldur líta fram hjá því að menning er atvinnugrein.  Menningin er einnig ein af grunnstoðum ferðaþjónustunnar.

Í nýrri rannsókn sem kynnt verður á næstu mánuðum kemur m.a. fram að í samfélögum á landsbyggðinni þar sem uppbygging á lista- og menningarsviði hefur átt sér stað hafa lífsgæði aukist til muna, fjölbreytni í atvinnulífi aukist og ánægja íbúa er mun meiri.  Á starfssvæði Eyþings eru nú 13 sveitarfélög og af þeim tilgreina níu sveitarfélög nefndir sem sinna málaflokknum.  Sex sveitarfélög hafa starfsmann á sínum snærum sem sinnir málaflokknum.  Allir nema einn vinna að fleiri málaflokkum.  Þrjú sveitarfélög hafa sett sér menningarstefnu.

Árangursmat

Í fyrri samningi um samstarf ríkis og sveitarfélaga á svæði Eyþings um menningarmál var ákvæði um að í lok samningstímans skyldi gert mat á árangri starfsins.  Samið var við Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri (RHA) um framkvæmd úttektarinnar.  Ef tekið er mið af niðurstöðu fyrirliggjandi árangursmats má ljóst vera að menningarsamningarnir sem slíkir eru að skila árangri í formi eflingar menningarlífs á landsbyggðinni og menningartengdrar ferðaþjónustu.  Hvatti menningarfulltrúi nýja sveitarstjórnarmenn til að kynna sér matið.

 

Björn ræddi endurnýjun menningarsamningsins, fjárhagsáætlanir og það sem framundan væri.

Endurnýjun menningarsamnings

Sambönd sveitarfélaga á landinu tóku þá ákvörðun á vordögum að vera samstíga í vinnu við endurnýjun menningarsamninganna.   Fullyrða má að menningarsamningarnir eru dæmi um vel heppnaða stjórnvaldsaðgerð þar sem tekist hefur að draga úr miðstýringu, skapa ábyrgt svæðisbundið stjórnvald og efla um leið atvinnuuppbyggingu á sviði menningar, lista og menningartengdrar ferðaþjónustu á landsbyggðinni.

 

 

Endurskoðuð fjárhagsáætlun 2010

Helstu breytingar á fjárhagsáætlun ársins 2010 snúa að framlögum sveitarfélaganna.  Á aðalfundi Eyþings 2009 var lögð fram áætlun um greiðslu sveitarfélaga til menningar-samningsins á árinu 2010.  Sú áætlun byggði á því að nýr samningur yrði samhljóða þeim eldri nema hvað fjárhæð ríkisins til samningsins myndi lækka um 10%.  Nokkur munur var á texta eldri samnings milli landssvæða.  Við endurnýjun menningarsamnings fyrir árið 2010 ásetti ríkisvaldið sér að samræma hann.  Í upphaflegri áætlun menningarráðs var hlutur sveitarfélaganna til samningsins 6.850 þúsund krónur.  Við þessa breytingu hækkar framlag sveitarfélaganna um 3.619 þúsund krónur.  Heildarframlag sveitarfélaganna verður þá 10.469 þúsund krónur.  Til lækkunar á framlagi sveitarfélaganna hefur þá verið tekið framlag RARIK til samningsins sem og áætlaðar vaxtartekjur á árinu 2010 alls 1.600 þúsund krónur.

                                                                                                                                Endurskoðuð

                                                                                  Áætlun 2010 (þkr)          áætl. 2010 (þkr)         Áætl. 2011 (þkr)

Tekjur samtals                                                                       33.850                           36.469                           37.225

Framlag ríkis                                                                               27.000                             25.000                             25.000

Framlög sveitarfélaga                                                                 6.850                             10.469                             12.225

Aðrir styrkir                                                                                        0                               1.000                                      0

Rekstrargjöld                                                                         13.068                           13.551                           13.951

Rekstrarniðurstaða án fjármagnsliða                               20.382                           23.518                           23.874

Fjármagnstekjur (fjármagnsgjöld)                                       1.000                                 600                                 600

Gjöld samtals                                                                           12.068                           12.951                           13.351

Úthlutanir                                                                                21.700                           22.700                           23.500

Hagnaður (Halli)                                                                             82                                 818                                 374

 

Fjárhagsáætlun 2011

Fjárhagsáætlun menningarráðsins fyrir árið 2011 er gerð við sérstakar aðstæður. Samningurinn er að renna út og ekki er ljóst hvernig næsti samningur verður eða hvaða fjármagn kemur með samningnum.  Farin var sú leið að halda framlagi ríkisins óbreyttu, að svo stöddu.  Síðastliðin þrjú ár hefur verið í gildi samningur við RARIK um styrk til menningarstarfs á starfssvæði Eyþings þar sem RARIK leggur eina milljón króna til menningarsamningsins.  Óskað verður eftir fundi með forsvarsmönnum RARIK til að kanna hug þeirra til endurnýjunar samningsins.  Því er ekki gert ráð fyrir framlagi RARIK í áætluninni og hækkar því framlag sveitarfélaganna um þá upphæð.  Varðandi almenna kostnaðarliði var áætlun unnin með hliðsjón af rekstri yfirstandandi árs og fyrirliggjandi áherslum menningarráðs vegna ársins 2011.

Litið til framtíðar

Að loknum þessum tæpum fjórum árum er ljóst að starf ráðsins er farið að skila sér út í samfélagið með fjölbreyttum hætti.  Fjöldamörg verkefni bíða í uppbyggingar- og þróunar-vinnu á svæðinu, tækifærin eru víða.  Mikilvægt er því að festa starfsemi menningaráðsins í sessi með nýjum menningarsamningi sem gerður verði til lengri tíma.  Með því næst aukinn stöðugleiki í starfsemina og möguleikar á að stuðla að uppbyggingu menningarstarfs til lengri tíma litið.

Að lokum

Síðustu þrjú ár hefur RARIK verið styrktaraðili menningarráðsins og færir ráðið RARIK sérstakar þakkir fyrir með von um að framhald geti orðið á því góða samstarfi. Menningarráð Eyþings telur að sú ákvörðun sem tekin var með menningarsamningum milli ríkisins og sveitarfélaganna hafi verið afar mikilvæg og menningarstarfi á landsbyggðinni til framdráttar.  Er það von menningarráðsins að samningurinn verði endurnýjaður til lengri tíma í lok þessa árs og jafnframt verði hugað að þeim möguleika að fela menningarráðum á landsbyggðinni fleiri verkefni fyrir ráðuneytin.

 

Í lok umfjöllunar um starfsemi menningarráðs gat Björn þess að sveitarfélög hefðu stóraukið framlög sín til menningarmála.  Hann sagði að starfið á þessum vettvangi hefði verið gefandi og þakkaði sveitarstjórnarmönnum og öðrum þeim sem að málum hefðu komið fyrir samstarfið og alveg sérstaklega Jónu og Pétri Þór.  (Dagskrárliðnum lauk kl. 10:05)

Enginn kvaddi sér hljóðs um menningarmálin.

 

Fundarstjóri lagði til að umfjöllun um fjárhagsáætlun menningarráðs yrði vísað til fjárhags- og allsherjarnefndar.

Samþykkt samhljóða.

 

 

9.    Kynning á tillögu að nýrri fjallskilasamþykkt.

 

Ólafur G. Vagnsson, formaður nefndar kynnti tillögu að nýrri fjallskilasamþykkt fyrir sveitarfélög við Eyjafjörð.

Ólafur byrjaði á því að rekja aðdraganda þess að ráðist var í gerð nýrrar fjallskilasamþykktar fyrir sveitarfélög við Eyjafjörð.  Hann nefndi skýrslu milliþinganefndar Búnaðarþings og að Eyþing hefði tekið yfir hlutverk Héraðsnefndar Eyjafjarðar í fjallskilamálum.  Aðalfundur Eyþings 2009 kaus 5 manna nefnd til að endurskoða fjallskilasamþykktir í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, en Héraðsnefnd Þingeyinga hafði þá þegar ákveðið að endurskoða fjallskilasamþykktir í Þingeyjarsýslum á sínum vegum.

Í framhaldinu var ákveðið að fulltrúar Eyjafjarðar og fulltrúi Búgarðs myndu endurskoða fjallskilasamþykkt fyrir Eyjafjarðarsvæðið.  Í nefndinni störfuðu: Ásta Flosadóttir, Guðmundur Skúlason og Ólafur G. Vagnsson.

Þessu næst nefndi Ólafur helstu breytingar frá fyrri samþykkt.  Í fyrsta lagi væri ný yfirstjórn fjallskilamála þar sem Eyþing kæmi í stað Héraðsnefndar Eyjafjarðar.  Þá væru ný ákvæði um fjallskila- og markanefnd, en það væru markavörður og 2 úr hópi fjallskilastjóra (sjá 2. gr.).  Í 7. gr. kæmi fram að enginn má leyfa öðrum afnot ógirts lands nema með samþykki sveitarstjórnar.  Í sömu grein er þess getið að sveitarstjórn getur látið gera við fjallsgirðingar á kostnað landeiganda.

Rýmkað er um tímasetningu haustgangna, þær fyrri skulu vera fyrir 20. september og þær seinni fyrir 26. september (sjá 13. gr.).  Í 14. gr. er nánari skilgreining á heimild til að leggja allt að 1/3 hluta fjallskilakostnaðar á landverð jarða, en um það hafði fallið dómsmál sem m.a. var hvati að endurskoðun fjallskilasamþykktarinnar.  Í sömu grein eru einnig skýrari ákvæði um fjallskilakostnað í eyðibyggðum.

Skýrari ákvæði voru sett um hvað telst gangnarof og greiðslu sektar fyrir það (sjá 19. gr.).  Einnig var endurskoðaður listi yfir fjárréttir (sjá 26. gr.).  Þá var sett inn skrá yfir sýslutákn og númer fjallskiladeilda (sjá 31. gr.) og nú er sýslumaður úrskurðaraðili í ágreiningi milli sveitarstjórna í stað héraðsnefndar áður (sjá 37. gr.).

Að lokum þakkaði Ólafur þeim sem voru með honum í nefndinni og öðrum sem að málinu komu fyrir ánægjulegt samstarf.  (ÓGV lauk umfjöllun sinni kl. 10:18)

 

 

10.  Nefndastörf.

 

Eftir erindi Ólafs G. Vagnssonar tóku nefndir til starfa og unnu fram að hádegisverði.

 

 

Hádegisverður kl. 12:30

 

 

11.  Aðalfundarstörf.

         (Álit nefnda.  Afgreiðsla tillagna og ályktana, kosningar o.fl.).

 

Fundarstjóri tilkynnti að formenn nefnda myndu gera grein fyrir tillögum nefndanna.

 

 

Fjárhags- og allsherjarnefnd

 

Í nefndinni sátu:

Guðmundur Sigvaldason, formaður

Árni K. Bjarnason

Bergur Elías Ágústsson

Bjarkey Gunnarsdóttir

Elfa Benediktsdóttir

Einar Gíslason

Eiríkur H. Hauksson

Guðmundur B. Guðmundsson

Halla Björk Reynisdóttir

Ingvar Erlingsson

Jóhann Ólafsson

Ólafur Jónsson (einnig í kjörnefnd)

Tryggvi Harðarson

 

Formaður nefndarinnar þakkaði nefndarfólki fyrir málefnalega vinnu. Síðan gerði hann grein fyrir niðurstöðum.

 

Tillaga að breytingum á lögum Eyþings

Fjárhags- og allsherjarnefnd leggur til við aðalfund Eyþings 2010, að samþykktar verði eftirtaldar þrjár breytingar á lögum Eyþings:

Gr. 2.2 hljóði svo:

“Hlutverk Eyþings er að vera samráðsvettvangur aðildarsveitarfélaganna og sinna hverjum þeim verkefnum sem sveitarfélögin eða löggjafinn kunna að fela þeim.  Markmið samtakanna er að efla samvinnu sveitarfélaganna, gæta hagsmuna þeirra, styrkja byggð og mannlíf á starfssvæðinu öllu, atvinnulega, félagslega og menningarlega.

Markmiðum sínum skulu samtökin ná m.a. með samstarfi við aðrar samstarfsstofnanir sveitarfélaga á starfssvæðinu.  Þá starfa samtökin í nánum tengslum við ráðuneyti sveitarstjórnarmála, Samband íslenskra sveitarfélaga og við önnur landshlutasamtök sveitarfélaga.”

Gr. 4.1 hljóði svo:

“Á aðalfundi eiga sæti:

1 fulltrúi fyrir sveitarfélag með 300 íbúa eða færri

2 fulltrúar fyrir sveitarfélag með 301 - 800 íbúa

3 fulltrúar fyrir sveitarfélag með 801 - 1500 íbúa

4 fulltrúar fyrir sveitarfélag með 1501 - 2500 íbúa

5 fulltrúar fyrir sveitarfélag með 2501 - 3500 íbúa

6 fulltrúar fyrir sveitarfélag með 3501 - 5000 íbúa

síðan 1 fulltrúi til viðbótar fyrir hverja byrjaða 5000 íbúa.

Miða skal við íbúatölu sveitarfélags þann 1. desember fyrir hverjar reglulegar sveitar-stjórnarkosningar.

Aðalmenn í sveitarstjórn og framkvæmdastjórar sveitarfélaga, aðrir en kjörnir aðalfundarfulltrúar, hafa seturétt með málfrelsi og tillögurétti á aðalfundum Eyþings.”

Gr. 5.6 hljóði svo:

“Stjórn Eyþings ræður framkvæmdastjóra og gerir við hann skriflegan ráðningarsamning. Sama á við um aðra fastráðna starfsmenn.  Framkvæmdastjóri á sæti á aðalfundi með málfrelsi og tillögurétti.”

 

Tillaga að breytingum á samþykktum Menningarráðs Eyþings

Fjárhags- og allsherjarnefnd leggur til við aðalfund Eyþings 2010, að samþykktar verði eftirtaldar sex tillögur að breytingum á samþykktum Menningarráðs Eyþings:

4. gr. hljóði svo:

„Aðalfundur Eyþings skipar 6 fulltrúa, og jafnmarga til vara, í Menningarráðið til tveggja ára í senn.  Ráðið er þannig skipað að þrír fulltrúar koma út sveitarfélögum vestan Vaðlaheiðar og þrír úr sveitarfélögum austan Vaðlaheiðar.  Þess skal jafnan gætt að fulltrúar hafi yfirsýn yfir lista- og menningarstarfsemi á svæðinu.  Auk þess er sjöundi fulltrúinn, og varamaður hans, skipaður skv. tilnefningu Háskólans á Akureyri.

Ráðið skiptir með sér verkum.  Fundi í ráðinu skal halda minnst 4 sinnum á ári.“

5. gr. hljóði svo:

“Bókhald og reikningsskil Menningarráðs Eyþings er í umsjá þjónustuaðila Eyþings.  Menningarráðinu er heimilt að gera þjónustusamninga við viðurkenndan aðila um að sinna skilgreindum faglegum verkefnum á vegum ráðsins.  Slíkir þjónustusamningar skulu greina ítarlega frá gagnkvæmum skuldbindingum þjónustukaupa og þjónustusala.”

Lokamálsgrein 9. gr. hljóði svo:

“Að vera stjórn Eyþings til ráðgjafar við endurskoðun samnings ríkis og sveitarfélaga í Eyþingi um menningarmál.”

11. gr. hljóði svo:

“Reikningsár ráðsins er almanaksárið.

Ársreikning skal semja fyrir hvert reikningsár og er hann hluti ársreiknings Eyþings.  Að auki er dreginn út ársreikningur menningarráðsins sem skal undirritaður af fulltrúum ráðsins og starfsmanni þess.

Þá skal ársreikningar staðfestur af löggiltum endurskoðanda Eyþings.”

13. gr. hljóði svo:

“Menningarráðið skal, samkvæmt ákvæði í samningi milli ríkis og sveitarfélaga um menningarmál, senda hlutaðeigandi ráðuneytum ársreikning ráðsins ásamt skýrslu um framkvæmd samningsins á liðnu starfsári þar sem m.a. kemur fram skipting framlaga samkvæmt samningnum og mat á árangri.”

14. gr. hljóði svo:

“Samþykktum ráðsins verður aðeins breytt á aðalfundi Eyþings.  Tillaga um breytingu á samþykktum skal send með fundarboði fundarins.  Breytingartillaga verður að berast stjórn Eyþings a.m.k. 6 vikum fyrir aðalfund Eyþings.  Tillaga til breytingar á samþykktum ráðsins telst samþykkt með 2/3 hlutum atkvæða.”

 

Ársreikningur 2009

Fjárhags- og allsherjarnefnd gerir ekki athugasemdir við ársreikninginn og leggur til við fundinn að hann verði samþykktur.

 

Fjárhagsáætlun 2011

Fjárhags- og allsherjarnefnd gerir ekki athugasemdir við tillögu að fjárhagsáætlun Eyþings fyrir árið 2011 og leggur til við fundinn að hún verði samþykkt.

 

Endurskoðuð fjárhagsáætlun menningarráðs 2010

Fjárhags- og allsherjarnefnd gerir ekki athugasemdir við tillögu að endurskoðaðri fjárhags-áætlun menningarráðs fyrir árið 2010 og leggur til við fundinn að hún verði samþykkt.

 

Fjárhagsáætlun menningarráðs 2011

Fjárhags- og allsherjarnefnd gerir ekki athugasemdir við tillögu að fjárhagsáætlun menningarráðs fyrir árið 2011 og leggur til við fundinn að hún verði samþykkt.

 

Breytingar á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Siglufirði 8. og 9. október 2010, telur mjög mikilvægt að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga gegni áfram veigamiklu hlutverki við að tryggja öllum landsmönnum sambærilega opinbera þjónustu, óháð búsetu.

Aðalfundurinn tekur undir tillögu nefndar um heildarendurskoðun Jöfnunarsjóðsins að fjármögnun Innheimtustofnunar sveitarfélaga verði færð frá sjóðnum.

Efling sveitarstjórnarstigsins

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Siglufirði 8. og 9. október 2010, telur mikilvægt að staða sveitarfélaganna eflist, m.a. með því að fleiri þjónustuverkefni verði færð frá ríkinu til sveitarfélaganna, jafnframt því að ekki verði hvikað frá þeirri kröfu að sveitarfélögunum verði tryggðar tekjur til að standa vel að viðkomandi verkefnum.

Samstarf sveitarfélaga

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Siglufirði 8. og 9. október 2010, telur mikilvægt að samstarf sveitarfélaga og/eða sameining þróist áfram með sama hætti og undanfarin ár, þ.e. án lögþvingunar.

Aðalfundurinn felur stjórn, í samvinnu við vinnuhóp um sameiningarkosti, að halda ráðstefnu um samstarf sveitarfélaga og/eða sameiningu sveitarfélaganna á starfssvæðinu.

Aðildarviðræður við Evrópusambandið

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Siglufirði 8. og 9. október 2010, felur stjórn Eyþings að standa fyrir kynningu fyrir sveitarstjórnarmenn á starfssvæði Eyþings á áhrifum hugsanlegrar aðildar Íslands að Evrópusambandinu.

 

Margrét Bjarnadóttir spurði um sameiningu sveitarfélaga.

Guðmundur svaraði því til að fram hefði komið hjá ráðherra sveitarstjórnarmála að lögþvinguð sameining stæði ekki til.

 

Að undangengnum smávægilegum orðalagsbreytingum voru tillögurnar bornar upp hver fyrir sig og allar samþykktar samhljóða.

 

 

Atvinnu-, umhverfis- og samgöngumálanefnd

 

Í nefndinni sátu:

Hermann Jón Tómasson, formaður

Arnar Árnason

Eyrún Björnsdóttir

Geir Kristinn Aðalsteinsson

Helga Helgadóttir

Fjóla V. Stefánsdóttir

Jón Hrói Finnsson

Kristján E. Hjartarson

Margrét Bjarnadóttir (einnig í kjörnefnd)

Siggeir Stefánsson

Sigrún Björk Jakobsdóttir

Sigurður Guðmundsson

Trausti Aðalsteinsson

 

Formaður nefndarinnar þakkaði nefndarfólki fyrir samstarfið og gerði síðan grein fyrir niðurstöðum.

 

Nýting orkulinda í Þingeyjarsýslum

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Siglufirði 8. og 9. október 2010, leggur þunga áherslu á að stjórnvöld, í samvinnu við heimamenn, vinni áfram markvisst að undirbúningi nýtingar þeirrar orku sem er að finna á háhitasvæðum í Þingeyjarsýslum.  Það er nauðsynlegt að leggja grunn að uppbyggingu nýrrar atvinnustarfsemi á svæðinu og skapa þannig forsendur góðra lífskjara íbúa og jákvæðrar byggðaþróunar.

Sóknaráætlun fyrir Norðurland eystra

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Siglufirði 8. og 9. október 2010, lýsir ánægju sinni með þá vinnu sem unnin hefur verið undir merkjum sóknaráætlunar 20/20.  Sóknaráætlun fyrir Norðurland eystra getur orðið mikilvægur vegvísir hvað varðar þróun atvinnulífs og samfélags á svæðinu ef stjórnvöld vinna með sveitarfélögum að framhaldi verkefnisins. Sveitarfélögin í Eyþingi eru tilbúin til frekara samstarfs og vinnu við aðgerðaáætlun á grundvelli þessara hugmynda.  Fundurinn telur mikilvægt að skoða hugmyndir um endurskoðun svæðaskiptingar og aðgreiningu sóknar- og varnarsvæða þegar þessi vinna heldur áfram.

Þjónusta vegna nýtingar auðlinda á norðurslóðum

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Siglufirði 8. og 9. október 2010, fagnar þeirri vinnu sem sveitarfélögin Langanesbyggð og Vopnafjarðarhreppur hafa staðið fyrir til undirbúnings og kynningar á kostum Finnafjarðar sem stórskipahafnar og þjónustusvæðis fyrir olíu- og gasleit á norðurslóðum.  Fundurinn fagnar einnig og styður hugmyndir um Siglufjörð sem þjónustumiðstöð fyrirtækja sem vinna að nýtingu auðlinda á Austur-Grænlandi.  Fundurinn leggur áherslu á mikilvægi þess að þróa samstarfsnet vöktunar og rannsókna á norðurslóðum í sameiginlegri rannsóknamiðstöð og að hún verði staðsett við Háskólann á Akureyri.  Með þessu má leggja grunn að öflugu þekkingar- og þjónustusamfélagi á Norðausturlandi.

Aflaheimildir

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Siglufirði 8. og 9. október 2010, skorar á stjórnvöld að auka tímabundið aflaheimildir í þorski í ljósi núverandi efnahagsástands.

Jöfnun flutningskostnaðar

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Siglufirði 8. og 9. október 2010, ítrekar mikilvægi þess að komið verði á flutningsjöfnunarkerfi til þess að draga úr þeim aðstöðumun sem nú er milli fyrirtækja og íbúa höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar.

Almenningssamgöngur

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Siglufirði 8. og 9. október 2010, leggur áherslu á mikilvægi þess að koma á almenningssamgöngum í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum og óskar eftir samstarfi við samgönguyfirvöld um þróunarverkefni af þessu tagi.  Jafnframt leggur fundurinn áherslu á nauðsyn þess að góðar ferjusamgöngur við Grímsey og Hrísey verði hluti af almenningssamgöngum.

Vegamál – áherslur og forgangsröðun á svæðinu

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Siglufirði 8. og 9. október 2010, minnir á mikilvægi þess að samhliða þeim stóru framkvæmdum í samgöngumálum sem ráðist hefur verið í og fyrirhugaðar eru á svæðinu, verði að huga að viðhaldi og uppbyggingu vegakerfisins almennt.  Mikill niðurskurður á fé til viðhalds og þjónustu á vegakerfinu veldur áhyggjum. Nauðsynlegar framkvæmdir á malarvegum, fækkun einbreiðra brúa og viðhald á bundnu slitlagi sitja á hakanum.  Áframhaldandi vanræksla getur haft alvarlegar afleiðingar.  Rétt er einnig að benda á að minni þjónusta á vegum er ávísun á aukna slysahættu.

Vaðlaheiðargöng

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Siglufirði 8. og 9. október 2010, skorar á stjórnvöld og ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála að standa fast við áform um gerð Vaðlaheiðar-ganga og ráðast í þá framkvæmd svo fljótt sem kostur er.  Heimamenn munu hér eftir sem hingað til leggja sitt að mörkum til að tryggja að af þessari framkvæmd geti orðið.

Akureyrarflugvöllur

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Siglufirði 8. og 9. október 2010, skorar á stjórnvöld að styðja framkomnar hugmyndir um millilandaflug milli Evrópu og Norðurlands, með sérstakri áherslu á vetrarferðir.  Lenging Akureyrarflugvallar hefur þegar sannað gildi sitt. Nauðsynlegt er að halda áfram þeirri uppbyggingu sem hófst með henni og ráðast sem fyrst í stækkun flughlaða og flugstöðvar vallarins.

Fundurinn leggur jafnframt áherslu á nauðsyn þess að tryggja góðar flugsamgöngur landsbyggðarinnar við höfuðborgina.

Héðinsfjarðargöng og Hófaskarðsleið

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Siglufirði 8. og 9. október 2010, fagnar nýjum samgöngumannvirkjum á svæðinu, Héðinsfjarðargöngum og Hófaskarðsleið.  Fundurinn óskar landsmönnum öllum til hamingju með mannvirkin sem munu gjörbreyta samgöngum á norðausturhluta landsins.

Fundurinn minnir þó á mikilvægi þess að ljúka framkvæmdum við Dettifossveg.

Vegstyttingar á Hringvegi milli Norðaustur- og Suðvesturlands

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Siglufirði 8. og 9. október 2010, leggur áherslu á mikilvægi styttingar hringvegarins frá Norðausturlandi til Suðvesturlands.  Fyrir liggur að stytting leiðarinnar er þjóðhagslega hagkvæm og að framkvæmdin þjónar því heildarhagsmunum íbúa og fyrirtækja í landinu.

 

Að undangengnum nokkrum orðalagsbreytingum voru allar tillögurnar samþykktar samhljóða

 

 

Velferðar-, mennta- og menningarmálanefnd

 

Í nefndinni sátu:

Dagbjört Bjarnadóttir, formaður

Andrea Sigrún Hjálmsdóttir

Guðný Sverrisdóttir

Gunnólfur Lárusson

Hanna Rósa Sveinsdóttir

Hlín Bolladóttir

Jón Helgi Björnsson (einnig í kjörnefnd)

Karel Rafnsson

Marinó Þorsteinsson

Ólína Arnkelsdóttir

Sigurður Valur Ásbjarnarson

Soffía Helgadóttir

Steinþór Heiðarsson

 

Formaður nefndarinnar þakkaði nefndarfólki fyrir samstarfið og gerði síðan grein fyrir niðurstöðum.

 

Niðurskurður í velferðar-, mennta- og menningarmálum

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Siglufirði 8. og 9. október 2010, gerir þá kröfu til Alþingis að á grundvelli jafnræðis sé niðurskurði í fjárveitingum ríkisins dreift hlutfallslega  jafnt á landssvæði. Í fyrirliggjandi frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2011 er með stórfelldum niðurskurði vegið að grunnstoðum samfélaga á landsbyggðinni. Gæta verður þess að hlutdeild landsbyggðarinnar í opinberum störfum verði ekki skert umfram höfuðborgar-svæðið.

Staða heilbrigðisstofnana

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Siglufirði 8. og 9. október 2010, mótmælir harðlega fyrirhuguðum niðurskurði á fjárveitingum til heilbrigðisþjónustu á Norðausturlandi. Óásættanlegt er að 84% af niðurskurði fjárveitinga í heilbrigðisþjónustu eigi að fara fram á landsbyggðinni.

Sá niðurskurður á fjárveitingum til Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga sem kynntur hefur verið í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár er ein mesta ógn sem steðjað hefur að búsetu á þessu svæði um langa hríð og mun hafa alvarlegar afleiðingar fyrir alla íbúa í Þingeyjarsýslum, allt frá Ljósavatnsskarði í vestri til Þórshafnar í austri.  Krafa um tæplega 40% niðurskurð þýðir stórauknar álögur á almenning á starfssvæði stofnunarinnar, atvinnumissi fólks í tuga tali og mun draga stórkostlega úr möguleikum sveitarfélaganna til uppbyggingar á komandi árum. Jafnframt lýsir aðalfundur Eyþings yfir þungum áhyggjum af fyrirhuguðum niðurskurði til heilbrigðisstofnunar Fjallabyggðar.  Ljóst er að Sjúkrahúsið á Akureyri er illa í stakk búið til að taka við öllum þeim aukna fjölda sjúklinga sem þangað mun koma verði af þessum áformum um niðurskurð.  Aðalfundur Eyþings skorar á heilbrigðisráðherra, fjármálaráðherra og aðra alþingismenn að falla frá þessari tillögu og leggjast á eitt um að tryggja fjármuni til heilbrigðisþjónustu á Norðausturlandi.

Málefni fatlaðra

Aðalfundur Eyþings, haldinn í Fjallabyggð á Siglufirði 8. og 9. október 2010, fagnar yfirfærslu á málefnum fatlaðra til sveitarfélaga.  Tryggja þarf sveitarfélögunum nægilegt fjármagn til að þjónustan skerðist ekki.

 

Háskólinn á Akureyri

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Siglufirði 8. og 9. október 2010, vill undirstrika mikilvægi þess að Háskólinn á Akureyri (HA) haldi sjálfstæði sínu í þeim niðurskurði sem nú fer fram í menntastofnunum ríkisins.  HA hefur gegnt lykilhlutverki í að auka menntunarstig íbúa á landsbyggðinni og hefur því haft gríðarlega þýðingu fyrir þróun og velferð byggðarlaga á Norðausturlandi.

Sí- og endurmenntun

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Siglufirði 8. og 9. október 2010, leggur áherslu á að tryggt verði fjármagn til að viðhalda framboði á sviði sí- og endurmenntunar sem og fjarnáms á svæðinu.

Framhaldsskóli við utanverðan Eyjafjörð

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Siglufirði 8. og 9. október 2010, fagnar tilkomu Menntaskólans á Tröllaskaga en leggur jafnframt áherslu á að fjárveitingar til skólans verði tryggðar.  Aðalfundur Eyþings mótmælir fyrirhuguðum niðurskurði til annarra framhalds-skóla á svæðinu.

Menningarsamningur

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Siglufirði 8. og 9. október 2010, leggur áherslu á nauðsyn þess að þeirri uppbyggingu sem felst í samstarfssamningi ríkis og sveitarfélaga í menningarmálum verði haldið áfram eftir að samningstíma 2010 lýkur.  Aðalfundurinn felur stjórn Eyþings að ganga til samninga við ráðuneyti menningar- og menntamála um gerð nýs samstarfssamnings og leggur til að nýr samningur taki til að minnsta kosti þriggja ára þannig að marka megi starfseminni farveg til lengri tíma.

Niðurgreiðsla húshitunarkostnaðar

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Siglufirði 8. og 9. október 2010, skorar á þingmenn Norðausturkjördæmis að standa vörð um niðurgreiðslur til húshitunar.  Miklar hækkanir hafa orðið á raforkuverði til húshitunar án þess að niðurgreiðslur hafi fylgt þeim hækkunum.  Í dag eru niðurgreiðslur til húshitunar um 960 milljónir en hefðu þær fylgt verðlagsþróun frá árinu 2005 ættu þær að vera 1.500 milljónir króna.

 

Samstarfssamningur um heilbrigðisnefnd og rekstur heilbrigðiseftirlits

Velferðar-, mennta- og menningarmálanefnd leggur til við aðalfund Eyþings 2010 að breytingar á 1. grein samstarfssamnings um heilbrigðisnefnd og rekstur heilbrigðiseftirlits verði samþykktar.

 

Að undangengnum smávægilegum orðalagsbreytingum voru allar tillögurnar samþykktar samhljóða.

 

 

 

Tillögur frá kjörnefnd

 

Í nefndinni sátu:

Jón Helgi Björnsson, formaður, (einnig í velferðar-, mennta- og menningarmálanefnd).

Margrét Bjarnadóttir, (einnig í. atvinnu-, umhverfis- og samgöngumálanefnd).

Ólafur Jónsson, (einnig í fjárhags- og allsherjarnefnd).

Formaður nefndarinnar þakkaði nefndarfólki fyrir samstarfið og gerði síðan grein fyrir niðurstöðum.

 

 

Tillaga að stjórn Eyþings 2010 – 2012

Aðalmenn:

Bergur Elías Ágústsson, formaður                    Norðurþingi

Dagbjört Bjarnadóttir                                      Skútustaðahreppi

Geir Kristinn Aðalsteinsson                              Akureyrarbæ

Hanna Rósa Sveinsdóttir                                 Hörgársveit

Sigurður Valur Ásbjarnarson                           Fjallabyggð

Varamenn (í sömu röð og aðalmenn):

Jón Helgi Björnsson                                        Norðurþingi

Siggeir Stefánsson                                           Langanesbyggð

Halla Björk Reynisdóttir                                  Akureyrarbæ

Guðný Sverrisdóttir                                         Grýtubakkahreppi

Jón Hrói Finnsson                                           Svalbarðsstrandarhreppi

 

Tillaga að menningarráði Eyþings 2010 – 2012

Aðalmenn:

Arnór Benonýsson                                          Þingeyjarsveit

Bjarni Valdimarsson                                        Dalvíkurbyggð

Bryndís Símonardóttir                                      Eyjafjarðarsveit

Gunnólfur Lárusson                                         Langanesbyggð

Sigurður Guðmundsson                                   Akureyrarbæ

Þórgunnur Reykjalín Vigfúsdóttir                     Norðurþingi    

Varamenn (í sömu röð og aðalmenn):

Erna Þórarinsdóttir                                          Skútustaðahreppi

Bjarkey Gunnarsdóttir                                     Fjallabyggð

Helga Kvam                                                    Svalbarðsstrandarhreppi

Hildur Stefánsdóttir                                         Svalbarðshreppi

Andrea Hjálmsdóttir                                        Akureyrarbæ

Soffía Helgadóttir                                            Norðurþingi

 

Tillaga að heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra 2010 – 2012

Aðalmenn:

Þórdís Rósa Sigurðardóttir, formaður              Akureyrarbæ

Birna Jóhannesdóttir                                        Hörgársveit

Hafsteinn Gunnarsson                                      Norðurþingi    

Sigurjón Jóhannesson                          Akureyrarbæ

Steinn Karlsson                                               Langanesbyggð

 

Varamenn (í sömu röð og aðalmenn):

Preben Pétursson                                            Akureyrarbæ

Fjóla Stefánsdóttir                                           Grýtubakkahreppi

Agnieszka Szczodrowska                                Norðurþingi

Jóna Jónsdóttir                                    Akureyrarbæ

Steinþór Heiðarsson                                        Tjörneshreppi

 

Tillaga að endurskoðanda til eins árs.

KPMG, Akureyri, Arnar Árnason, löggiltur endurskoðandi.

Samþykkt samhljóða.

 

Ákvörðun um fundarstað næsta aðalfundar

Bergur Elías Ágústsson, bæjarstjóri Norðurþings, kvaddi sér hljóðs og þakkaði það traust sem sér væri sýnt með formannskjöri.  Þá þakkaði hann fráfarandi meðstjórnendum og framkvæmdastjóra fyrir ánægjulegt og gefandi samstarf á liðnu ári.  Öllum mætti ljóst vera að erfið verkefni væru framundan en þau væru bara til að takast á við og leysa.  Að lokum bauð Bergur Elías til næsta aðalfundar Eyþings að ári í Norðurþingi.

 

 

Önnur mál

Bjarkey Gunnarsdóttir, annar fundarstjóra, flutti lokaorð.  Hún þakkaði fundarmönnum fyrir góða fundarsetu, þátttöku í nefndastörfum og gagnlega umræðu.  Að síðustu þakkaði hún starfsmönnum fundarins og framkvæmdastjóra fyrir undirbúninginn, óskaði öllum viðstöddum góðrar heimferðar og sagði fundi slitið.  Þá var klukkan 14:52.

 

 

 

Fyrirlesarar:

Flosi Eiríksson, formaður nefndar um heildarendurskoðun Jöfnunarsjóðs.

Héðinn Unnsteinsson, stefnumótunarsérfræðingur í forsætisráðuneytinu.

Ólafur G. Vagnsson, ráðunautur og formaður nefndar um fjallskilamál.

Pétur Þór Jónasson, framkvæmdastjóri Eyþings.

Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra.

 

 

Gestir:

Ásbjörn Björgvinsson, Markaðsskrifstofu ferðamála.

Auðunn Atlason, utanríkisráðuneytinu.

Björn Hafþór Guðmundsson, framkvæmdastjóri SSA.

Björn Valur Gíslason, alþingismaður Norðausturkjördæmi.

Egill Rögnvaldsson, bæjarfulltrúi, Fjallabyggð.

Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri Akureyri.

Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Kristján L. Möller, alþingismaður Norðausturkjördæmi.

Kristján Þór Júlíusson, alþingismaður Norðausturkjördæmi.

Sif Friðleifsdóttir, alþingismaður Suðvesturkjördæmi.

Sigmundur Ernir Rúnarsson, alþingismaður Norðausturkjördæmi.

Stefanía Traustadóttir, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.

Svanfríður Inga Jónasdóttir, bæjarstjóri, Dalvíkurbyggð.

Urður Gunnarsdóttir, utanríkisráðuneytinu.

 

 

Starfsmenn og embættismenn:

Árni K. Bjarnason, fráfarandi stjórnarmaður.

Björn Ingimarsson, fráfarandi formaður Menningarráðs Eyþings.

Ólína Arnkelsdóttir, fráfarandi stjórnarmaður.

Pétur Þór Jónasson, framkvæmdastjóri Eyþings.

Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, menningarfulltrúi.

Sigrún Björk Jakobsdóttir, fráfarandi formaður Eyþings.

Valdimar Brynjólfsson, framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlits Norðurlandskjördæmis eystra.

Valtýr Sigurbjarnarson, ráðinn fundarritari.

Þóra Ákadóttir, formaður heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra.

 

 

Kjörnir fulltrúar á aðalfund Eyþings 2010

 

Sveitarfélag

 

Aðalfulltrúar

 

Varafulltrúar

Fjallabyggð

 

Ingvar Erlingsson

 

Sólrún Júlíusdóttir

Fjallabyggð

 

Sigurður Valur Ásbjarnarson

 

Þorbjörn Sigurðsson

Fjallabyggð

 

Helga Helgadóttir

 

Egill Rögnvaldsson

Fjallabyggð

 

Bjarkey Gunnarsdóttir

 

Sigurður Hlöðversson

Dalvíkurbyggð

 

Marinó Þorsteinsson

 

Guðmundur St. Jónsson

Dalvíkurbyggð

 

Kristján E. Hjartarson

 

Heiða Hringsdóttir

Dalvíkurbyggð

 

Jóhann Ólafsson

 

Matthías Matthíasson

Hörgárbyggð

 

Guðmundur Sigvaldason

 

Axel Grettisson

Hörgárbyggð

 

Hanna Rósa Sveinsdóttir

 

Sunna Hlín Jóhannesdóttir

Akureyrarbær

 

Geir Kristinn Aðalsteinsson

 

Oddur Helgi Halldórsson

Akureyrarbær

 

Halla Björk Reynisdóttir

 

Tryggvi Gunnarsson

Akureyrarbær

 

Hlín Bolladóttir

 

Inda Björk Gunnarsdóttir

Akureyrarbær

 

Sigurður Guðmundsson

 

Anna Hildur Guðmundsdóttir

Akureyrarbær

 

Guðmundur B. Guðmundsson

 

Petrea Ósk Sigurðardóttir

Akureyrarbær

 

Ólafur Jónsson

 

Njáll Trausti Friðbertsson

Akureyrarbær

 

Hermann Jón Tómasson

 

Sigrún Stefánsdóttir

Akureyrarbær

 

Andrea Sigrún Hjálmsdóttir

 

Edward H. Huijbens

Eyjafjarðarsveit

 

Arnar Árnason

 

Einar Gíslason

Eyjafjarðarsveit

 

Birna Ágústsdóttir

 

Kristín Kolbeinsdóttir

Eyjafjarðarsveit

 

Karel Rafnsson

 

Bryndís Þórhallsdóttir

Svalbarðsstrandarhreppur

 

Jón Hrói Finnsson

 

Guðmundur Bjarnason

Svalbarðsstrandarhreppur

 

Eiríkur Hauksson

 

Helga Kvam

Grýtubakkahreppur

 

Guðný Sverrisdóttir

 

Fjóla V. Stefánsdóttir

Grýtubakkahreppur

 

Jón Helgi Pétursson

 

Ásta Fönn Flosadóttir

Þingeyjarsveit

 

Margrét Bjarnadóttir

 

Sif Jóhannesdóttir

Þingeyjarsveit

 

Tryggvi Harðarson

 

Arnór Benónýsson

Skútustaðahreppur

 

Dagbjört Bjarnadóttir

 

Böðvar Pétursson

Skútustaðahreppur

 

Eyrún Björnsdóttir

 

Friðrik Jakobsson

Norðurþing

 

Jón Grímsson

 

Soffía Helgadóttir

Norðurþing

 

Jón Helgi Björnsson

 

Gunnlaugur Stefánsson

Norðurþing

 

Bergur Elías Ágústsson

 

Friðrik Sigurðsson

Norðurþing

 

Trausti Aðalsteinsson

 

Olga Gísladóttir

Tjörneshreppur

 

Steinþór Heiðarsson

 

Eiður Árnason

Svalbarðshreppur

 

Elfa Benediktsdóttir

 

Sigurður Þór Guðmundsson

Langanesbyggð

 

Gunnólfur Lárusson

 

Ævar Rafn Marinósson

Langanesbyggð

 

Siggeir Stefánsson

 

Jóhanna Helgadóttir

 

 

Rétt til setu á aðalfundinum 2010 áttu 36 fulltrúar.

 

Fullmætt var á fundinn, en þar af voru þrír varafulltrúar.

Einar Gíslason, Eyjafjarðarsveit í stað Birnu Ágústsdóttur.

Fjóla V. Stefánsdóttir, Grýtubakkahreppi í stað Jóns Helga Péturssonar.

Soffía Helgadóttir, Norðurþingi í stað Jóns Grímssonar.

 

Getum við bætt síðuna?