Fara í efni

Fundargerð - Aðalfundur 2011

07.10.2011
Aðalfundur Eyþings 2011
Haldinn á Fosshóteli Húsavík
7. og 8. október 2011
  
 
Föstudagur 7. október.
 
1. Fundarsetning kl. 13:45.
Formaður Eyþings, Bergur Elías Ágústsson, setti fundinn og bauð fundargesti velkomna. Hann sagðist vona að starfið á fundinum yrði árangursríkt og að stjórnin fengi gott veganesti frá starfsnefndum hans. Hann þakkaði stjórn og framkvæmdastjóra fyrir gott samstarf og hið sama ætti við um mikinn fjölda sveitarstjórnarmanna á starfssvæði Eyþings.

1.1. Starfsmenn þingsins og kjörnefnd.
Bergur Elías lagði eftirfarandi til um starfsmenn þingsins.

Fundarstjórar:
Hjálmar Bogi Hafliðason, Norðurþingi.
Jón Helgi Björnsson, Norðurþingi.

Ritarar:
Siggeir Stefánsson, Langanesbyggð.
Steinþór Heiðarsson, Tjörneshreppi.
Samþykkt samhljóða.
 
Fundarstjórar tóku til starfa og lögðu fram tillögu að kjörnefnd.

Kjörnefnd:
Elfa Benediktsdóttir, Svalbarðshreppi, formaður.
Tryggvi Harðarson, Þingeyjarsveit.
Jón Hrói Finnsson, Svalbarðsstrandarhreppi.
Samþykkt samhljóða.
 
Ráðinn fundarritari:
Valtýr Sigurbjarnarson, Akureyri.

Yfirumsjón:
Pétur Þór Jónasson, framkvæmdastjóri Eyþings.

1.2. Skýrsla stjórnar.
Bergur Elías Ágústsson, formaður Eyþings, flutti skýrslu stjórnar sem lögð hafði verið fyrir aðalfundarfulltrúa sem fundarskjal og fram kom að hún myndi fylgja með fundargerð aðalfundarins. Hann sagði hverjir hefðu skipað stjórn og varastjórn frá síðasta aðalfundi. Stjórnin hélt á starfsárinu 8 bókaða stjórnarfundi og tók til afgreiðslu milli 160 og 170 mál. Bergur Elías greindi frá hvaða nefndir, ráð og starfshópar hefðu verið starfandi.
Þá fór Bergur Elías yfir aðgerðaáætlun Eyþings sem m.a. tengist Sóknaráætluninni Ísland 2020, sem var stærsta einstaka verkefni Eyþings á liðnu starfsári. M.a. var haldinn kynningarfundur um það efni á Akureyri í byrjun maí. Samkvæmt áætluninni ber fjármálaráðuneytið ábyrgð á fjárfestingaráætlun fyrir Ísland, en landshlutasamtökin fengu það verkefni að gera hvert um sig tillögu að 5 til 7 verkefnum sem kæmu til skoðunar við gerð fjárlaga 2012.
Önnur stór verkefni voru samgönguáætlun 2011-2022 og Vaðlaheiðargöng. Einnig almennings-samgöngur, en leitað hefur verið eftir að landshlutasamtökin taki þær yfir með samningum, hvert á sínu svæði. Bergur Elías nefndi einnig eflingu sveitarstjórnarstigsins, nýjan menningarsamning og svæðisútvarp RÚV. Starfsemi Menningarráðs Eyþings væri viðamikil, en gerð yrði grein fyrir henni undir sérstökum dagskrárlið og hið sama mætti segja um heilbrigðisnefnd og starfsemi Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra. Síðan ræddi hann Evrópumálefni, atvinnumál, þ.e. verkefni og störf á vegum ríkisins, skatttekjur og útgjöld ríkisins og stoðkerfi atvinnulífsins.
Ýmis þingmál koma til umræðu og vinnslu hjá stjórn Eyþings og framkvæmdastjóri hefur sótt ýmsa fundi og viðburði fyrir samtökin. Þá eru haldnir árlegir fundir stjórnar og þingmanna. Á síðasta ári voru tekin fyrir 63 þingmál til umsagnar. Einnig eru sameiginlegir fundir með Sambandi íslenskra sveitarfélaga og landshlutasamtökunum, jafnframt því sem mikil samskipti eru við innanríkis-ráðuneytið, t.d. vegna nýrra sveitarstjórnarlaga og sóknaráætlunar innan Íslands 2020.
Í lokin greindi Bergur Elías frá því að nú ættu rétt til setu á aðalfundinum 40 fulltrúar frá 13 sveitarfélögum með alls 29.006 íbúa þann 1. desember 2010. (BEÁ lauk máli sínu kl. 14:18).
Enginn kvaddi sér hljóðs um skýrslu stjórnar.
 
1.3. Ársreikningur og fjárhagsáætlun.
Pétur Þór Jónasson, framkvæmdastjóri Eyþings gerði grein fyrir ársreikningi og fjárhagsáætlun samtakanna. Hann sagði að venju samkvæmt yrði nánar fjallað um skýrslu stjórnar, ársreikning og fjárhagsáætlun í fjárhags- og allsherjarnefnd.
Helstu niðurstöður ársreiknings eru þessar:
 
Rekstrarreikningur 2010
 
Rekstrartekjur 51.091.653
Rekstrargjöld 50.221.143
Rekstrarniðurstaða án fjármagnsliða 870.510
Fjármunatekjur (Fjármagnsgjöld) 1.219.856
Rekstrarniðurstaða ársins 2.090.366
 
Efnahagsreikningur 31. des. 2010
 
Áhættufjármunir 1.000.000
Veltufjármunir 49.211.746
Eignir samtals 50.211.746
Eigið fé
12.690.282
Lífeyrisskuldbindingar 13.024.738
Skammtímaskuldir 37.521.464
Eigið fé og skuldir samtals 50.211.746

Endurskoðuð fjárhagsáætlun fyrir árið 2011 og fjárhagsáætlun 2012.
Pétur Þór Jónasson lagði fram tillögu að endurskoðaðri fjárhagsáætlun fyrir árið 2011 og fjárhagsáætlun 2012.

   Áætlun 2011 (þkr)  Esk. áætlun 2011 (þkr) Áætlun 2012 (þkr) 
Rekstrartekjur  18.600 19.300 21.500
Rekstrargjöld 19.500 21.955 22.400
Rekstrarniðurstaða án fjármagnsliða (900) (2.655) (900)
Fjármagnstekjur og (fjármagnsgjöld) 900 900 900
Hagnaður (Halli) 0 (1.765) 0
Fundarstjóri lagði til að ársreikningi og áætlun yrði vísað til fjárhags- og allsherjarnefndar.
Samþykkt samhljóða.
 (Dagskrárlið lokið kl. 14:25).
 
 
2. Sóknaráætlanir landshluta - breytt verklag í stjórnsýslunni.
 
Hermann Sæmundsson skrifstofustjóri í innanríkisráðuneytinu.
Í stefnumörkun ríkisstjórnar kemur fram að: „Ísland 2020 er stefnumarkandi skjal um öflugra atvinnulíf og samfélag. Það felur í sér áform um fjárfestingar í mannauði og nauðsynlegum innviðum efnahagslífsins og stefnu um hvernig megi styrkja menntun og menningu, nýsköpun og þróun, umhverfi og samfélagslega innviði.“Meðal hvata breytinga eru: Íbúaþróun og samgöngumál, breyttir atvinnuhættir og breytingar á stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga.
Hermann gerði grein fyrir kaflaskiptri fjárfestingaráætlun þar sem m.a. koma fram efnahagslegar og fjárhagslegar undirstöður áætlunarinnar, innviðir og nýsköpun. Síðan ræddi hann svæði sóknaráætlana og skipulag þeirra. Þar kom fram að verkefni sóknaráætlunar eru fjármögnuð með fjárfestingaráætlun og tillögur eru um sameiningu vaxtar- og menningarsamninga, sem og endurskipulagningu stoðkerfis atvinnulífs og byggðaþróunar.
Þá fjallaði Hermann um forgangsröðun og tillögugerð svo sem svæðisskipulagsáætlanir sem skilgreina stefnu við landnotkun, áætlun um eflingu sveitarstjórnarstigsins, áætlun um sjálfbæra nýtingu orku og auðlinda á viðkomandi svæði, áætlun um uppbyggingu grunnets og eflingu almenningssamgangna.
Að lokum fór Hermann nokkrum orðum um stefnumörkun Sambands íslenskra sveitarfélaga í byggða- og atvinnumálum og þrjá meginfasa sóknaráætlunarinnar 2020. Ýmsar áskoranir blasa við í þeirri vinnu sem framundan er og mikilvægt að hafa leiðarljósin á hreinu. (HS lauk erindi sínu kl. 14:50).
 
 
3. Áhrif nýrra sveitarstjórnarlaga.
 
Guðjón Bragason, sviðsstjóri hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
Guðjón byrjaði á að nefna helstu áherslur Sambandsins við gerð frumvarps að nýjum sveitarstjórnarlögum. Þar mætti nefna að efla frumkvæði íbúa og skýra málskotsrétt, auka réttindi sveitarstjórnarmanna og setja inn ákvæði um siðareglur og undirstrika ábyrgð í fjármálum og rekstri, m.a. um langtíma jafnvægi í afkomu sveitarfélags.
Hann sagði lögin ítarlegri en áður, 132 efnisgreinar í stað 105. Miklar breytingar væru á nokkrum köflum, m.a. um fjármál, eftirlit, samvinnu og samráð við íbúa en óverulegar breytingar á flestum öðrum köflum.
Þá greindi Guðjón frá nokkrum breytingum sem gerðar hefðu verið í meðförum Alþingis svo sem um boðun funda í sveitarstjórn og heimild til að taka þátt í atvinnuverkefnum. Einnig um stóraukið aðhald í fjármálum, t.d. viðmið um hallalausan rekstur og skuldaviðmið.
Þessu næst fjallaði Guðjón um samstarf sveitarfélaga en mun ítarlegri ákvæði eru í gildandi lögum en þeim fyrri. T.d. er nýmæli í 96. gr. um að sveitarfélag geti tekið að sér verkefni fyrir önnur sveitarfélög og aukin formfesta er um byggðasamlög. Einstök sveitarfélög geta með tveggja ára fyrirvara sagt upp aðild hafi ekki verið samið um annað og krafist innlausnar á eignarhlut sínum. Ný ákvæði eru um landshlutasamtök og þau hafa nú viðameira hlutverk en áður, t.d. verkefni tengd byggðaþróun. Þá er það skylda ráðuneyta og opinberra stofnana að hafa samráð við landshlutasamtök um málefni sem varða viðkomandi landsvæði sérstaklega.
Að lokum ræddi Guðjón um samskipti við íbúa. Markmið laganna er að tryggja áhrif íbúa og möguleika á þátttöku í stjórn sveitarfélags og undirbúningi stefnumótunar. Nýmæli er að skylt er að halda almenna atkvæðagreiðslu ef 20% kjósenda krefjast þess. Atkvæðagreiðslur binda ekki hendur sveitarstjórna sem síðar eru kosnar. Ekki er hægt að krefjast atkvæðagreiðslu um efni fjárhagsáætlunar, viðauka við fjárhagsáætlun, tekjustofna sveitarfélaga, eða önnur lögheimil gjöld, ráðningu í störf, launakjör eða tillögur sem ganga gegn lögum. (GB lauk máli sínu kl. 15:10).
 
 
4. Sóknaráætlanir landshluta: Matskvarðar - umræðugrunnur.
 
Árni Ragnarsson, sérfræðingur á þróunarsviði Byggðastofnunar.
Í upphafi máls síns spurði Árni spurninga: Hefur byggðastefnan mistekist? Skila byggðaaðgerðir árangri? Hvernig er best að mæla og meta? Síðan gerði hann grein fyrir viðmiðunarlíkani landshlutaþróunar.
Úrvinnslutölur eru uppfærðar árlega og úrvinnsla sett fram á netinu, eins og t.d. er gert fyrir Norður-Jótland. Þar er hægt að skoða ýmislegt á gagnvirkum töflum og kortum. Ferlið er gagnsætt og lesendur geta komið skoðunum á framfæri. Viðmið eiga að sýna áherslur fyrir þróun byggðar. Einnig áherslur ráðuneyta og landshlutasamtaka sveitarfélaga. Fram kemur samanburður á meginatriðum á milli landshluta. Þetta er opinn grundvöllur fyrir mótun framtíðarsýnar, stefnumiða, áherslna og aðgerða fyrir landshluta. Viðmiðin eru endurskoðuð í ljósi reynslunnar.
Samhengi er við Ísland 2020 og ýmis viðmið tekin þaðan, t.d. að minnka hlutfall örorkulífeyrisþega af íbúafjölda úr 8,4% í 7,0% árið 2020 og lækka hlutfall atvinnulausra (>12 mán.) niður fyrir 3% árið 2020. Jafnframt að hlutfall Íslendinga á aldrinum 20-66 ára sem ekki hafa hlotið formlega framhaldsmenntun fari úr 30% niður í 10% árið 2020 svo dæmi séu tekin.
Innan hvers landshluta eru allar byggðir til meðferðar og mats. Samstaða þarf að vera um aðferðir, áherslur og aðgerðir og þær settar fram af ábyrgð. Fjallað er um leiðir til eflingar samstarfs innan landshluta. Það getur leitt til samstarfs við aðra landshluta um úrlausn fyrir einstakar byggðir.
Að lokum ræddi Árni um samstarf milli stjórnsýslustiga. Með samræmdum vinnubrögðum væri auðveldara að taka við tillögum á efri stigum og styðja framkvæmd tillagna. (ÁR lauk máli sínu kl. 15:30).
 
5. Orka, atvinna, sagan og staðan.
 
Gunnlaugur Stefánsson, forseti bæjarstjórnar Norðurþings.
Gunnlaugur sagði sveitarfélögin í Þingeyjarsýslum hafa á annan áratug unnið að eflingu atvinnustigs. Ástæða þess væri sú staðreynd að störfum hefði fækkað og þá sérstaklega í sjávarútvegi og landbúnaði. Þessi þróun hefur leitt til viðvarandi fólksfækkunar, mest hjá ungu fólki.
Þeistareykir ehf. var stofnað 1999 og var markmiðið að efla atvinnu í héraði með þeirri orku sem þar er að finna. Mikil tímamót voru þann 16. maí 2006, þegar iðnaðarráðuneytið fyrir hönd ríkisvaldsins, Húsavíkurbær (nú Norðurþing) og Alcoa skrifuðu undir viljayfirlýsingu þess efnis að kanna arðsemi þess að reisa álverksmiðju á Bakka við Húsavík. Rannsóknir á háhitasvæðum í Þingeyjarsýslum voru settar í forgang. Þær hafa beinst að fjórum svæðum, Kröflu II, Bjarnarflagi, Gjástykki og Þeistareykjum og hafa gengið vel. Samkvæmt áætlun stóð til að rannsóknum yrði að mestu lokið sumarið 2009.
Þann 31. júlí 2008 leit dagsins ljós úrskurður frá þáverandi umhverfisráherra sem kvað á um að fjórir af átta framkvæmdaþáttum skyldu fara í sameiginlegt umhverfismat. Ljóst er að úrskurðurinn hefur aukið kostnað og tafið verkefnið. Sameiginlegu umhverfismati lauk 24. nóvember 2010. Í heildina má áætla að kostnaður við verkefnið nemi um 18 milljörðum króna fram til dagsins í dag. Stærsti hluti þessarar fjárfestingar er í orkugeiranum. Þar á eftir koma umhverfis- og skipulagsmál.
Gerð hefur verið ný viljayfirlýsing á milli stjórnvalda og nokkurra sveitarfélaga í Þingeyjarsýslum (án Alcoa). Aðilar að henni eru ríkisstjórn Íslands, Norðurþing, Skútustaðahreppur, Þingeyjarsveit og Tjörneshreppur. Er hún nú í gildi. Áhersla viljayfirlýsingarinnar gengur út á mikilvægi þess að nýta jarðvarma í Þingeyjarsýslum til umfangsmikillar atvinnuuppbyggingar og eflingar byggðar á svæðinu.
Tekin hefur verið ný stefna af hálfu Landsvirkjunar og eiganda hennar. Stefnt skal á að byggja minna, fjölbreyttara og hægar upp. Þessi nýja sviðsmynd (eftir tæplega fimm ára vinnu), gerir það að verkum að íbúar héraðsins standa frammi fyrir nýjum áskorunum. Staðan í dag er sú að rúmum 10 árum eftir að lagt var af stað í leiðangur, hefur ekki enn verið samið við orkukaupanda/kaupendur.
Að lokum sagði Gunnlaugur frá því að sveitarfélögin í Þingeyjarsýslum, sem telja um 5.000 íbúa á um 18.000 ferkílómetra svæði, hafi lagt mikið á sig til að efla atvinnustig á Norðausturlandi í samvinnu við ríkisvaldið. Frá upphafi hafa sveitarfélögin í Þingeyjarsýslum og þá sérstaklega Norðurþing í gegnum Orkuveitu Húsavíkur tekið gríðarlega áhættu og í raun og veru lagt allt í sölurnar. (GS lauk máli sínu kl. 15:45).
 
Kaffihlé.


6. Fyrirspurnir og umræður.
 
Bergur Elías Ágústsson spurði Guðjón hvort ekki hefði komið tals að meðhöndla félagslegar íbúðir með sama hætti og „Reykjavíkurákvæðið“ um orkufyrirtæki.
Guðjón sagði það ekki hafa komið til álita og Hermann tók undir með honum.
Guðný Sverrisdóttir spurði hvort skila þyrfti samstæðureikningi með jákvæðri rekstrarniðurstöðu.
Hermann sagði svo vera miðað við þriggja ára regluna.
Hermann Jón Tómasson spurði Gunnlaug hvað nú tæki við og hvað væri framundan.
Gunnlaugur kvaðst vonast til að eitthvað bitastætt yrði komið af stað á vordögum.
Ólafur Jónsson spurði hvað orkan væri mikil á háhitasvæðunum í sýslunni.
Gunnlaugur sagði að hún væri talin vera fjögur til fimm hundruð megavött.
Hermann Sæmundsson fjallaði nánar um ýmsar greinar í nýjum sveitarstjórnarlögum.
Siggeir Stefánsson spurði um sameiningu sveitarfélaga með hliðsjón af nýju lögunum.
Hermann sagði enga breytingu í nýjum sveitarstjórnarlögum hvað sameiningar varðaði.
(Þessum dagskrárlið lauk kl. 16:15).
 
 
7. Ávörp gesta.
 
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra fagnaði því að geta verið á þessum fundi og skipst á skoðunum við fundarmenn. Hann nefndi ýmislegt sem unnið væri að í ráðuneytinu og og ræddi þjóðmálin almennt. Því betur færi atvinnuleysi minnkandi, væri nú 6,7% að meðaltali á landinu öllu, en 4% á Norðurlandi eystra. Þá sagði hann frá vegaframkvæmdum sem ráðist hefði verið í og framundan væru.
Ögmundur fjallaði um fjárhagsstöðu sveitarfélaga og að hún væri erfið. Mikilvægt væri að efla sveitarstjórnarstigið og fela því aukin verkefni. Hann gat þess að Jöfnunarsjóður mundi kosta könnun á starfsskilyrðum sveitarstjórnarmanna. Þá ræddi hann ný sveitarstjórnarlög, sem væru gott dæmi um góða samvinnu ríkis og sveitarfélaga og nefndi nokkrar lagagreinar sem væru til mikilla bóta. Landshlutasamtökin hefðu nú fengið aukið hlutverk og almenningssamgöngur yrðu vonandi bættar með samningum þar um.
Að lokum nefndi ráðherra Ísland 2020 og þær áætlanir sem tengdust því verkefni, m.a. endurskipulagningu sýslumannsembætta og lögreglu. (ÖJ lauk máli sínu kl. 16:40).
 
Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga þakkaði fyrir það tækifæri að geta verið á þessum fundi. Hann greindi frá stefnumörkun sambandsins sem gildir fyrir árin 2011 til 2014. Hún var mótuð á tveimur landsþingum og fullgerð af stjórn í apríl 2011 og er leiðarljós stjórnar og starfsmanna sambandsins í öllum verkum.
Þá sagði hann frá kjarasamningum, en þeir eru 43 við 68 viðsemjendur vegna rúmlega 19.000 stöðugilda. Lokið er 40 samningum og þeir gilda allir frá 1. maí 2011 til loka mars, júní eða september 2014. Kostnaður við þá er almennt á bilinu 11,4% til 18,9% á samningstímanum.
Síðan fór Karl nokkrum orðum um yfirfærslu á þjónustu við fatlaða og samkomulag sem náðst hefur við ríkið um tónlistarfræðslu. Ný sveitarstjórnarlög voru samþykkt í september 2011 og almenn sátt er um þau. Í þeim er skerpt á ýmsum atriðum frá því sem var í eldri lögum, t.d. varðandi fjármálareglur.
Þessu næst ræddi Karl um sóknaráætlanir landshlutanna sem væri eitt stærsta skrefið í byggðamálum í langan tíma með nýju og spennandi verklagi. Þá greindi hann frá rekstrarstöðu sveitarfélaga og að erfitt væri að ganga lengra í niðurskurði útgjalda án þess að lækka þjónustustigið, enda kæmu skattahækkanir vart til greina og hækkun þjónustugjalda væru takmörk sett. Einnig ræddi hann um aukaframlög Jöfnunarsjóðs og mikla skerðingu þeirra sem að óbreyttu yrði mörgum sveitarfélögum afar erfið. Jákvætt samstarf væri hins vegar framundan í umhverfismálum.
Að lokum fjallaði Karl um Evrópumálin, þ.e. EES og ESB. (KB lauk sinni tölu kl. 17:05).
 
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra flutti kveðju þingmanna kjördæmisins. Hann ræddi ýmis verkefni sem unnið væri að, en margar erfiðar ákvarðanir hefði þurft að taka sem ekki væri auðvelt, en engu að síður óhjákvæmilegt.
Almennt séð taldi ráðherra að samskiptin við sveitarstjórnarmenn og samtök þeirra hefðu gengið vel, t.d. varðandi málefni fatlaðra og tónlistarfræðslu. Hann sagði það sína skoðun að málefni aldraðra þyrftu að fara til sveitarfélaganna sem fyrst.
Síðan ræddi Steingrímur um nýju sveitarstjórnarlögin og t.d. væri fjármálakaflinn mikil bót frá því sem var í eldri lögum.
Að lokum ítrekaði ráðherra þakkir fyrir að hafa haft tækifæri til að koma á fundinn, en því miður yrði hann að hverfa af vettvangi vegna annarra anna. (SJS lauk máli sínu kl. 17:20).
 
 
Afgreiðsla kjörnefndar á kjörbréfum.
Elfa Benediktsdóttir, formaður kjörnefndar gerði grein fyrir afgreiðslu kjörbréfa. Af 40 kjörgengum fulltrúum væru 39 mættir. Fimm varafulltrúar væru á fundinum, Einar Gíslason, Bryndís Þórhallsdóttir, Böðvar Pétursson Friðrik Jakobsson og Soffía Helgadóttir. Elfa sagði að kjörnefndin legði til að kjörbréf allra fulltrúanna yrðu samþykkt og var það gert samhljóða. Hún sagði að skrá yfir fulltrúa yrði færð í lok fundargerðar. (EB lauk sinni umfjöllun kl. 17:25).

 
Nefndastörf.
Pétur Þór Jónasson, framkvæmdastjóri Eyþings gerði grein fyrir nefndastörfum og hvar þau færu fram. Þrjár nefndir myndu starfa, auk kjörnefndar og fulltrúum hefði verið skipað í hverja nefnd. Búið væri að tala við formenn og undirbúa vinnuna eins og kostur væri.
Fram kom að Bergur Elías Ágústsson, formaður Eyþings, færi á milli nefnda og yrði þeim öllum til fulltingis.

 
Tilkynnt var að móttaka yrði í boði Norðurþings í Safnahúsinu kl. 18:05. Kvöldverður yrði síðan á Fosshóteli kl. 20:00 og veislustjórn í höndum heimamanna.
 
Nefndastörf hófust kl. 17:30.
 
Laugardagur 8. október.
 
 
8. Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra.
(skýrsla heilbrigðisnefndar, ársreikningur 2010, fjárhagsáætlun 2012 ásamt umræðum).
 
Alfreð Schiöth framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra flutti skýrsluna.
Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra hefur það markmið að vernda heilnæmt og ómengað umhverfi, fyrirbyggja sjúkdóma, eitranir og tjón af völdum matvæla, vegna þjónustustarfsemi og mengandi starfsemi. Þessu er framfylgt með almennri fræðslu, vöktun og rannsóknum, samvinnu við önnur yfirvöld og hagsmunaaðila, með eftirliti og eftirfylgni.
Lagagrunn heilbrigðisnefnda og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga (HES) er að finna í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir (nr. 7/1998 með breytingum), lögum um matvæli (nr. 93/1995 með breytingum) og lögum um tóbaksvarnir (nr. 6/2002 með breytingum). Umhverfisstofnun og Matvælastofnun samræma og hafa yfirumsjón með störfum heilbrigðisnefnda. Starfsemi HES heyrir þannig undir tvö ráðuneyti; Umhverfisráðuneytið og Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið.
Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra er samvinnuverkefni sveitarfélaga á Norðurlandi eystra og á vettvangi Eyþings er í gildi sérstakur samstarfssamningur milli sveitarfélaga um heilbrigðiseftirlitið. Um síðustu áramót varð sú breyting að Ólafsfjörður í Fjallabyggð færðist yfir til Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra.
Heilbrigðisnefnd er skipuð á aðalfundi Eyþings að afloknum sveitarstjórnarkosningum. Fimm nefndarmenn eru tilnefndir af sveitarstjórnunum samkvæmt samstarfssamningi og einn fulltrúi er tilnefndur af samtökum atvinnurekenda á eftirlitssvæðinu.Uppbyggingin er þannig að heilbrigðis-eftirlitinu er stjórnað af heilbrigðisnefnd.
Heilbrigðisnefnd er nú skipuð eftirfarandi:
Frá Akureyri:
Þórdís Rósa Sigurðardóttir, formaður, varamaður: Preben Pétursson.
Sigurjón Jóhannesson, varamaður: Jóna Jónsdóttir.
Frá öðrum sveitarfélögum við Eyjafjörð:
Birna Jóhannesdóttir, varamaður: Fjóla Stefánsdóttir.
Frá Norðurþingi:
Hafsteinn H. Gunnarsson, varamaður: Agnieska Szczodrowska.
Frá öðrum sveitarfélögum í Þingeyjarsýslu:
Steinn Karlsson, varamaður: Steinþór Heiðarsson.
Fulltrúi samtaka atvinnurekenda:
Kristín Halldórsdóttir, varamaður: Sigurgeir Höskuldsson.
 
Auk þess situr Þórir V. Þórisson yfirlæknir Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri fundina sem áheyrnarfulltrúi.
Nefndin heldur að jafnaði 10 fundi á ári.
 
Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra hefur tvær starfsstöðvar. Á Akureyri með þremur starfs-mönnum og á Húsavík með einum starfsmanni. Heilbrigðisfulltrúar veita umsagnir og ráðgjöf um ýmis málefni, s.s. vegna skipulags, laga og reglusetningar.
Alfreð greindi síðan frá starfsemi (fyrirtækjum) sem eftirlitið nær til og starfsleyfi þarf fyrir, en þau eru nú um 1160 á Norðurlandi eystra.
Hann sagði að á þessum fundi lægju fyrir ársreikningur næstliðins árs og fjárhagsáætlun fyrir næsta ár ásamt áætlaðri skiptingu á milli sveitarfélaga og gjaldskrá. Fjárhagsáætlun var kynnt á fundi heilbrigðisnefndar þann 5. október s.l. Við gerð áætlunar var miðað við forsendur Akureyrarbæjar um breytingar á milli ára og að gjaldskrá verði óbreytt. Samningur er við Akureyrarbæ um umsjón með bókhaldi og fjárreiðum heilbrigðiseftirlitsins.
 
Helstu atriði úr ársreikningi 2010
 
Rekstrartekjur 47.375 þkr.
Rekstrargjöld 47.305 þkr.
   
 Fjárhagsáætlun 2011 og 2012  
Áætluð gjöld ársins 2011 48.000 þkr.
Áætluð gjöld ársins 2012 48.923 þkr.
Hækkun milli ára er því 923 þkr. eða 1,9%.  
 
Að öðru leyti vísaði Alfreð til framlagðra gagna. (AS lauk máli sínu kl. 9:30)

 
9. Menningarráð.
(skýrsla menningarráðs og fjárhagsáætlun).
 
Þórgunnur Reykjalín Vigfúsdóttir formaður Menningarráðs Eyþings.
Menningarsamningurinn sem starf Menningarráð Eyþings byggir á var fyrst undirritaður í apríl 2007 og rann sá samningur út við lok árs 2009. Í júní 2010 var undirritaður samningur við ríkið til eins árs. Í apríl sl. var síðan undirritaður nýr samningur til þriggja ára.
Í Menningarráði Eyþings sitja sjö fulltrúar, þrír koma austan Vaðlaheiðar, þrír vestan hennar og einn fulltrúi er skipaður af Háskólanum á Akureyri. Það sem af er árinu hefur menningarráðið haldið sjö fundi. Líkt og á síðasta ári var ein úthlutun á árinu.
Starf menningarfulltrúa er fjölþætt og kemur m.a. inn á ráðgjöf til einstaklinga, félagasamtaka og sveitarfélaga. Vinna við eftirfylgni styrkja er fastur liður í starfi menningarfulltrúa, en mikilvægt er að fylgjast með útkomu verkefna og leggja mat á þau. Er það m.a. gert út frá greinargerð sem styrkþegi þarf að skila inn áður en lokagreiðsla fer fram. Menningarráðið og Akureyrarstofa stóðu fyrir námskeiði um farsælan rekstur félaga á vordögum.
Í febrúar auglýsti menningarráð verkefnastyrki til umsóknar. Menningarfulltrúi fór um svæðið og hafði viðtalstíma á 13 stöðum. Alls bárust ráðinu 119 umsóknir um tæpar 57,7 mkr. Heildarkostnaður við verkefnin var áætlaður tæpar 223,7 mkr. Menningarráðið úthlutaði rúmlega 20 mkr. til 63 verkefna. Frá upphafi hafa menningarráðinu borist 561 umsóknir. Úthlutað hefur verið rúmum 112,3 mkr. til 319 verkefna. Um það bil helmingur umsókna hefur fengið styrkloforð hjá menningarráðinu.
Menningarráð hefur tekið þá ákvörðun að færa úthlutun ársins 2012 fram um tvo mánuði. Auglýst verður eftir verkefnastyrkjum nú í október og stefnt er að því að tilkynna um úthlutun fyrir árið 2012 í janúar það ár. Menningarfulltrúi mun hafa viðveru á 14 stöðum á svæðinu í tengslum við úthlutunina.
Í hinum nýja menningarsamningi til þriggja ára eru m.a. skilgreind markmið og hlutverk menningarráðs. Markmiðin eru að:
  • Efla samstarf á sviði menningarmála á svæðinu.
  • Stuðla að nýsköpun og fjölbreytni í menningu og menningartengdri ferðaþjónustu.
  • Fjölga atvinnutækifærum á sviði menningar og lista.
  • Menningarstarfssemi styðji við ferðaþjónustu.
Sveitarfélögin á svæðinu leggja hlutfallslega jafnt til samningsins. Framlög sveitarfélagana árið 2011 nema 365 kr. pr. íbúa. Heildarframlag sveitarfélaga til samningsins 2011 eru 10,6 mkr. og ríkisins 20,9 mkr.
Í nýjum menningarsamningi er kveðið á um að í upphafi samningstíma skuli menningarráð setja fram stefnu og áætlun um hvernig það hyggst starfa að markmiðum samningsins. Menningarráð hefur ráðið dr. Hauk F. Hannesson listrekstrarfræðing til að vera menningarráði til ráðgjafar um framkvæmd verksins og nú er unnið að drögum að stefnumótun ráðsins.
Samstarf menningarfulltrúa landsbyggðarinnar hefur verið með nokkuð hefðbundnum hætti á árinu. Fyrsti fundur var haldinn í Reykjavík í upphafi ársins, en síðan var vorfundur á Skagaströnd. Nú á haustdögum munu menningarfulltrúar landshlutanna sækja ráðstefnuna Culture, Place & Identity at the Heart of Regional Developmentsem haldinn er í St. John´s á Nýfundalandi. Þar munu þeir kynna starfsemi menningarráðanna.
Samstarf menningarfulltrúa sveitarfélaganna og menningarfulltrúa Eyþings hefur verið gott. Í maí var haldinn fundur á Akureyri þar sem fengnir voru aðilar með kynningu og fræðslu. Í september héldu menningarfulltrúar austur á land þar sem haldinn var fundur með menningarfulltrúum sveitarfélaganna á Austurlandi.
Helstu breytingar á fjárhagsáætlun ársins 2011 koma til vegna ákvörðunar menningarráðs um að færa fram úthlutun ársins 2012. Kostnaður vegna áðurnefndrar stefnumótunarvinnu kemur að helmingi á endurskoðaða áætlun fyrir árið 2011 en seinni greiðslan kemur inn á fjárhagsáætlun 2012. Einnig kemur viðbótarkostnaður vegna ferðar menningarfulltrúa á ráðstefnuna Culture, Place & Identity at the Heart of Regional Development.
Fjárhagsáætlun menningarráðs 2012 er unnin út frá fyrirliggjandi samningi, almennir kostnaðarliðir eru unnir með hliðsjón af rekstri síðasta árs og yfirstandandi árs sem og út frá fyrirliggjandi áherslum menningarráðs vegna ársins 2012.
Endurskoðuð áætlun    
áætlun 2011 2012 (þkr)
Tekjur samtals 37.200 37.200
Framlag ríkis 26.600 26.600
Framlög sveitarfélaga 10.600 10.600
Rekstrargjöld 14.696 14.134
Rekstrarniðurstaða án fjármagnsliða 22.504 23.066
Fjármagnstekjur (fjármagnsgjöld) 400 250
Gjöld samtals 14.296 13.884
Úthlutanir 20.068 23.000
Hagnaður (Halli) 2.836 316
Menningarmál falla ekki undir lögbundnar skyldur sveitarfélaga. Þrátt fyrir það eru þau grundvöllur lífsgæða hvers samfélags. Ekki má heldur líta fram hjá því að menning er atvinnugrein. Í nýrri rannsókn um hagræn áhrif skapandi greina kemur fram að vinnuafl í skapandi greinum er 5,2% af heildar vinnuafli á Íslandi. Rannsóknir hafa sýnt fram á að þar sem uppbygging á lista- og menningarsviði hefur átt sér stað á landsbyggðinni hafa lífsgæði aukist til muna, fjölbreytni í atvinnulífi aukist, ánægja íbúa er mun meiri sem og sjálfstraust. Uppbyggingin hefur áhrif á námsval ungs fólks og tækifæri skapast þess til að snúa aftur í heimahagana að námi loknu. Í þessu sambandi minnir menningarráð Eyþings á mikilvægi starfa á menningar- og listasviði.
Faglegt starf ráðsins er mikilvægt og umgjörð um starfsemi þess þarf að vanda. Í samningi við ríkið er kveðið á um skipan í ráðið og þar segir: „Við tilnefningar í ráðið skal gæta þess að í því sitji konur og karlar sem þekkja vel til menningarstarfs á landinu sem og á svæðinu“. Framkvæmd menningarsamninga ríkisvaldsins og samtaka sveitarfélaga á landsbyggðinni hefur tekist vel og reynslan af þeim er góð. Menningarráðið hvetur sveitarstjórnafólk til að kynna sér nýja menningarsamninginn, sem og starf og reglur menningarráðs. (Dagskrárliðnum lauk kl. 9:50).
 
Fundarstjóri lagði til að umfjöllun um fjárhagsáætlun menningarráðs yrði vísað til fjárhags- og allsherjarnefndar.
Samþykkt samhljóða.
 
 
10. Mótun menningarstefnu.
 
Þórgunnur Reykjalín Vigfúsdóttir formaður Menningarráðs Eyþings.
Þórgunnur greindi frá því að eins og áður hefði komið fram væri kveðið á um það í nýjum menningarsamningi að menningarráð skuli setja sér stefnu og leiðir um hvernig það hyggst ná fram markmiðum samningsins. Stefnumótun Menningarráðs fyrir tímabilið 2011-13 hefur það hlutverk að skilgreina nánar hvernig ráðið ætlar sér að ná samhljóða markmiðum samninganna tveggja. Stefnumótunin afmarkast af því verkefni sem samningarnir tveir skilgreina fyrir ráðið. Það fjármagn sem ráðið hefur til umráða á samningstímabilinu markar einnig stefnumótunina. Lykilatriði í stefnumótuninni er hvernig útdeilingu fjármuna til verkefna verður háttað. Hlutverk stefnumótunar er einnig að gefa fulltrúum í ráðinu og framkvæmdastjóra þess leiðbeiningu um hvernig störfum ráðsins og samskiptum þess við hlutaðeigandi skuli háttað.
Menningarstefna Eyþings er hluti af sóknaráætlun landshluta 2020 og mun byggja á stefnu menningarráðs. Sveitarfélögin munu hafa aðkomu að stefnumótuninni.
Að lokum sagði Þórgunnur að því miður næðist ekki að kynna núna fyrstu drög að stefnumótuninni, eins og til stóð vegna veikinda ráðgjafans dr. Hauks F. Hannessonar listrekstrarfræðings. Vinnan mun þó fara fram á næstu mánuðum og ljúka í vetur. (ÞRV lauk máli sínu kl. 10:00).
 
 
11. Mótun ferðamálastefnu.
 
Ásbjörn Björgvinsson, framkvæmdastjóri Markaðsstofu ferðamála á Norðurlandi
Ásbjörn byrjaði á því að greina frá millilandaflugi frá Akureyri. Flugfélagið Air 66 væri nú leiðandi í að koma á reglubundnu millilandaflugi um Akureyrarvöll allt árið í samstarfi við ýmsa aðila. Þörfin væri til staðar þar sem Keflavíkurflugvöllur er í um 4 – 8 klukkustunda akstursfjarlægð frá Norðurlandi og aðeins 6% af þeim útlendingum sem lenda í Keflavík dvelja mestan tímann á Norðurlandi. Af þeim sem lenda á Akureyri velja 92% að ferðast um Norðurland. Seldar gistinætur á landinu 2010 voru um 3 milljónir, þar af voru um 400 þúsund á Norðurlandi.
Markmiðið er að reglulegt millilandaflug sé allt árið um Akureyrarflugvöll og fjölgun ferðamanna verði á Norðurlandi ásamt lengri dvöl þeirra þar. Betri dreifing á eftirspurn eftir ferðaþjónustu um landið og minni árstíðasveifla mun fjölga heilsársstörfum í greininni.
Um 150 þúsund ferðamenn koma á Norðurland á hverju ári. 68% þeirra sem flugu til Akureyrar hafa áhuga á að koma aftur. Erlendir ferðamenn hafa margir áhuga á vetrarferðum. Skoða náttúruna að vetri til, upplifa snjóinn, dimmar nætur og norðurljósin. Þeir hafa flestir áhuga á sundlaugum og jarðböðum, síðan koma hvalaskoðun, safnaskoðun, gönguferðir með leiðsögn, hestaferðir og fuglaskoðun svo fátt eitt sé nefnt.
Áhersla er lögð á ferðamenn frá Bretlandi og Danmörku. Dreifing á komu Breta til Íslands er einna jöfnust yfir árið. 12 til 14 þúsund danskir ferðamenn hafa flogið til Akureyrar frá 2009 og þekking á danska markaðnum er nýtt til markaðssetningar. Aðrir markhópar eru t.d. Þjóðverjar sem mikið koma í menningartengdar ferðir og hestaferðir.
Í lokin greindi Ásbjörn frá því helsta sem er nýtt á Norðurlandi. Nýr malbikaður vegur að Dettifossi og einnig yfir Melrakkasléttu. Héðinsfjarðargöng skipta líka miklu. Menningarhúsið Hof skapar ný tækifæri og einnig auknar flugsamgöngur svo sem að Icelandair ætlar að fljúga fjórum sinnum í viku á milli Akureyrar og Keflavíkur næsta sumar og Flugfélagið Ernir mun hefja flug til Húsavíkur næsta vor. (ÁB lauk erindi sínu kl. 10:18).
 
 
12. Fyrirspurnir og umræður.
 
Böðvar Pétursson spurði Alfreð hvort ekki mætti einfalda og hagræða þar sem fleiri en ein stofnun væri að vinna hliðstæð verk.
Eiríkur Hauksson spurði Ásbjörn hvernig sveitarfélögin ættu að bregðast við með mótframlög þegar ríkið legði til 300 mkr. í verkefnið Ísland allt árið.
Alfreð svaraði Böðvari og sagði frá samstarfi stofnana, en vissulega mætti gera betur og finna sóknarfæri þó stundum væri togstreita milli ríkis og sveitarfélaga.
Ásbjörn sagði að Markaðsstofan vildi vera með í verkefninu Ísland allt árið en gæti aðeins lagt fram lágmarksframlag.
Bergur Elías Ágústsson þakkaði menningarráðinu fyrir gott starf og fyrirlesurum öllum.
(Þessum dagskrárlið lauk kl. 10:30).
 
 
13. Nefndastörf.
 
 
Hádegisverður kl. 12:30
 
14. Aðalfundarstörf.
(Álit nefnda. Afgreiðsla tillagna og ályktana, kosningar o.fl.).
 
Fundarstjóri tilkynnti að formenn nefnda myndu gera grein fyrir tillögum nefndanna.
Þegar kom að afgreiðslu tillagna höfðu eftirtaldir fulltrúar yfirgefið fundinn: Ólafur Jónsson, Arnar Árnason, Einar Gíslason, Jón Helgi Pétursson og Jón Helgi Björnsson. Eftir sátu því 33 fulltrúar.
 
Velferðar-, mennta- og menningarmálanefnd
 
Guðný Sverrisdóttir, formaður
Egill Rögnvaldsson
Jóhann Ólafsson
Bergþóra Rós Lárusdóttir
Tryggvi Þór Gunnarsson
Ólafur Jónsson
Einar Gíslason
Arnór Benónýsson
Friðrik Jakobsson
Trausti Aðalsteinsson
Elfa Benediktsdóttir (einnig í kjörnefnd)
Siggeir Stefánsson
Formaður nefndarinnar þakkaði nefndarfólki fyrir samstarfið og gerði síðan grein fyrir niðurstöðum.
 
Velferðarmál.
Aðalfundur Eyþings, haldinn á Húsavík 7. og 8. október 2011, leggur áherslu á eftirfarandi atriði í velferðarmálum:
Fundurinn lýsir yfir andstöðu við áframhaldandi stórfelldan niðurskuð á fjárframlögum til heilbrigðisstofnana á starfsvæði Eyþings. Niðurskurðurinn rýrir búsetuskilyrði stórlega og veltir auknum kostnaði yfir á íbúa sem sækja þurfa heilbrigðisþjónustu um langan veg.
Fundurinn áréttar að þegar flutningur á málefnum öldrunarþjónustu frá ríki til sveitarfélaga á sér stað sé forsenda að öll rými á dvalar- og hjúkrunarheimilum séu nýtt. Það er því skýr krafa að fjármagn verði tryggt í samræmi við það.
Fundurinn ítrekar mikilvægt hlutverk Sjúkrahússins á Akureyri (FSA) sem þjónustustofnunar fyrir Norðausturland, kennslusjúkrahúss og aðalvarasjúkrahúss fyrir landið allt.
Fundurinn leggur áherslu á að tryggt verði fjármagn til uppbyggingar nýrrar legudeildarálmu við FSA og uppbyggingar við endurhæfingardeild Kristnesspítala.
 
Mennta- og menningarmál.
Aðalfundur Eyþings, haldinn á Húsavík 7. og 8. október 2011, leggur áherslu á eftirfarandi atriði í mennta- og menningarmálum:
Fundurinn leggur áherslu á mikilvægi Háskólans á Akureyri (HA) og lykilhlutverk sem hann gegnir í auknu menntunarstigi íbúa á landsbyggðinni. Einnig er lögð áhersla á eflingu samstarfs HA við áframhaldandi uppbyggingu norðurslóðamiðstöðvar á Akureyri.
Fundurinn leggur áherslu á að tryggt verði fjármagn til að viðhalda og auka framboð á sviði sí- og endurmenntunar sem og fjarnáms á svæðinu.
Fundurinn lýsir ánægju sinni með núgildandi menningarsamninga og leggur áherslu á að ekki verði hreyft við þeim. Í ljósi fyrirhugaðra breytinga á úthlutun til menningarmála af óskiptum safnliðum í fjárlögum leggur fundurinn til að fjármagnið verði lagt í sérstakan sjóð. Einnig leggur fundurinn áherslu á að við yfirfærslu þessa fjármagns verði gætt að gagnsæi og vönduðum vinnubrögðum. Þeim fjármunum verði síðan úthlutað af fagmennsku og samkvæmt sérstökum reglum sem samræmdar verða af landshlutasamtökum og menningarráðum þeirra. Menningarsamningur milli ríkis og sveitarfélaga gengur út frá eflingu og aukinni atvinnusköpun á sviði menningar og lista. Mikilvægt er að við samninginn sé staðið hvað þetta varðar og störfum á Norðausturlandi í þessum málaflokki fjölgi.
Fundurinn lýsir ánægju sinni með uppbyggingu menntaseturs á Þórshöfn í samvinnu við Framhaldsskólann á Laugum og Þekkingarnet Þingeyinga. Jafnframt lýsir fundurinn yfir ánægju sinni með stofnun Menntaskólans á Tröllaskaga og leggur áherslu á að staðinn verði vörður um það góða starf sem unnið er í framhaldsskólum á svæðinu. Einnig hvetur fundurinn til samstarfs framhaldsskólanna og sí- og endurmenntunarstofnana í landshlutanum.
 
Ísland 2020 og sóknaráætlun landshlutans.
Aðalfundur Eyþings, haldinn á Húsavík 7. og 8. október 2011, hvetur stjórn Eyþings til að halda áfram undirbúningi á verkefninu Ísland 2020 og sóknaráætlun landshlutans.
Fundurinn leggur til að haldinn verði aukafundur á næstu mánuðum þar sem framkvæmd verkefnisins verði aðalmálefnið.
 
Að undangengnum smávægilegum orðalagsbreytingum voru allar tillögurnar samþykktar samhljóða.
 
Atvinnu-, umhverfis- og samgöngumálanefnd
 
Í nefndinni sátu:
Halla Björk Reynisdóttir, formaður
Þorbjörn Sigurðsson
Marinó Þorsteinsson
Guðmundur Sigvaldason
Guðmundur B. Guðmundsson
Andrea Sigrún Hjálmsdóttir
Bryndís Þórhallsdóttir
Eiríkur H. Hauksson
Jón Helgi Pétursson
Tryggvi Harðarson (einnig í kjörnefnd)
Soffía Helgadóttir
Hjálmar Bogi Hafliðason
Steinþór Heiðarsson
 
Formaður nefndarinnar þakkaði nefndarfólki fyrir samstarfið og gerði síðan grein fyrir niðurstöðum.
 
Sóknaráætlun fyrir Norðurland eystra.
Aðalfundur Eyþings, haldinn á Húsavík 7. og 8. október 2011, lýsir ánægju sinni með þá vinnu sem unnin hefur verið undir merkjum Íslands 2020, og telur mikilvægt að farið verði í þau verkefni sem sveitarfélögin hafa komið sér saman um að séu forgangsverkefni, en þau eru eftirtalin:
  • Uppbygging innviða vegna orkufreks iðnaðar.
  • Uppbygging við Sjúkrahúsið á Akureyri.
  • Norðurslóðamiðstöð Íslands.
  • Flughlað á Akureyrarflugvelli.
  • Dettifossvegur.
  • Fjarskipti og gagnaflutningar.
  • Íþróttabærinn Akureyri.
Siggeir Stefánsson lagði til að umfjöllun um sóknaráætlunina yrði sleppt.
Bergur Elías Ágústson lagði til að þetta yrði haft óbreytt.
Tillaga SS um að fella þennan lið niður var borin undir atkvæði og felld með 19 atkvæðum gegn 6.
Tillagan var síðan samþykkt óbreytt með þorra atkvæða.
 
Jöfnun flutningskostnaðar.
Aðalfundur Eyþings, haldinn á Húsavík 7. og 8. október 2011, krefst þess að komið verði á flutningsjöfnunarkerfi til þess að draga úr þeim aðstöðumun sem nú er milli fyrirtækja og íbúa höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar.
Samþykkt með þorra atkvæða. Einn greiddi atkvæði á móti.
 
Almenningssamgöngur.
Aðalfundur Eyþings, haldinn á Húsavík 7. og 8. október 2011, leggur áherslu á mikilvægi þess að efla almenningssamgöngur í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum. Jafnframt leggur fundurinn áherslu á nauðsyn þess að góðar ferjusamgöngur við Grímsey og Hrísey verði hluti af almenningssamgöngum. Fundurinn bendir á mikilvægi þess að fjármagn fylgi tilfærslu málaflokksins frá ríki til sveitarfélaga.
Samþykkt samhljóða.
 
Stytting hringvegarins.
Aðalfundur Eyþings, haldinn á Húsavík 7. og 8. október 2011, leggur áherslu á nauðsyn þess að hringvegurinn verði styttur í Skagafirði og Húnaþingi. Fyrir liggur að stytting hans er þjóðhagslega hagkvæm og að framkvæmdin þjónar því heildarhagsmunum íbúa og fyrirtækja í landinu.
Bergur Elías Ágústson taldi vafasamt að bóka um styttingu vegar með þessum hætti.
Trausti Aðalsteinsson lagði til að þessi tillaga yrði felld niður.
Bergur lagði til að að orðin „í Skagafirði og Húnaþingi“ yrðu felld burt.
Tillaga Trausta var borin undir atkvæði og felld með 15 atkvæðum gegn 11.
Tillagan var síðan samþykkt með breyttu orðalagi að tillögu Bergs Elíasar.
Samgönguáætlun.
Aðalfundur Eyþings, haldinn á Húsavík 7. og 8. október 2011, leggur áherslu á að farið verði í eftirfarandi verkefni sem meðal annarra eru mikilvæg fyrir framþróun og hagsmuni landshlutans í heild:
  • Iðnaðarvegur milli Húsavíkurhafnar og iðnaðarsvæðis að Bakka.
  • Flughlað á Akureyrarflugvelli.
  • Dettifossvegur frá Dettifossi í Ásbyrgi.
  • Snjóflóðavarnir milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar.
  • Ný brú á Jökulsá á Fjöllum.
Siggeir Stefánsson lagði fram tillögu um eftirfarandi viðbót við tillöguna:
Rétt er að geta verkefna sem ekki eru á listanum en hefðu að sumra mati átt að vera þar, en það eru einkum annars vegar ný brú yfir Skjálfandafljót á vegi 85 og hins vegar nýr eða endurbyggður vegur milli Þórshafnar og Bakkafjarðar.
Bergur Elías Ágústson benti á að þessi viðbót væri samhljóða því sem þegar væri fram komið í bréfi sem sent hefði verið til innanríkisráðuneytisins.
Viðbótin var samþykkt og tillagan í heild sinni þannig breytt.
 
Reykjavíkurflugvöllur.
Aðalfundur Eyþings, haldinn á Húsavík 7. og 8. október 2011, leggur áherslu á nauðsyn þess að tryggja góðar flugsamgöngur innanlands með flugvelli í Vatnsmýrinni til framtíðar.
Samþykkt samhljóða.
 
Starfsemi ríkisins.
Aðalfundur Eyþings, haldinn á Húsavík 7. og 8. október 2011, leggur áherslu á nauðsyn þess að auka hlutdeild í störfum á vegum ríkisins á starfssvæði Eyþings.
Samþykkt samhljóða.
 
Ísland allt árið.
Aðalfundur Eyþings, haldinn á Húsavík 7. og 8. október 2011, lýsir sterkum vilja til þess að sveitarfélög á Norðurlandi verði sýnilegir þátttakendur í verkefninu Ísland allt árið og skorar á sveitarstjórnir að leggja til það fjármagn sem þarf.
Tryggvi Harðarson lagði fram tillögu um eftirfarandi viðbót:
Jafnframt verði allar fjárfestingarhugmyndir, jafnt erlendra sem innlendra aðila, sem lúta að eflingu heilsársferðaþjónustu á svæðinu skoðaðar með jákvæðum hætti.
Viðbótin var samþykkt og tillagan í heild sinni þannig breytt.

 
Þjónusta vegna nýtingar auðlinda á norðurslóðum.
Aðalfundur Eyþings, haldinn á Húsavík 7. og 8. október 2011, fagnar útboði stjórnvalda á sérleyfum til rannsókna og vinnslu kolvetnis á Drekasvæðinu og minnir í því sambandi á vinnu sem sveitarfélögin Langanesbyggð og Vopnafjarðarhreppur hafa lagt í við að undirbúa og kynna stórskipahöfn og þjónustusvæði í Finnafirði fyrir olíu- og gasrannsóknir á Norðurslóðum. Fundurinn leggur áherslu á að flugþjónustumiðstöð fyrir svæðið verði á Þórshöfn, ásamt leitar- og björgunarmiðstöð, sem Norðurskautsráðið hefur lagt til að sett verði á laggirnar.
Siggeir Stefánsson lagði til að þessi ályktun yrði felld niður en í staðinn kæmu tvær eftirfarandi:
Aðalfundur Eyþings, haldinn á Húsavík 7. og 8. október 2011, fagnar útboði stjórnvalda á sérleyfum til rannsókna og vinnslu kolvetnis á Drekasvæðinu og minnir í því sambandi á vinnu sem sveitarfélögin Langanesbyggð og Vopnafjarðarhreppur hafa lagt í að undirbúa og kynna stórskipahöfn og þjónustusvæði í Finnafirði fyrir olíu- og gasrannsóknir á Norðurslóðum.
Aðalfundur Eyþings, haldinn á Húsavík 7. og 8. október 2011, leggur áherslu á að Þórshafnarflugvöllur verði notaður sem flugþjónustumiðstöð vegna fyrirhugaðra rannsókna og vinnslu kolvetnis á Drekasvæðinu. Auk þess að Þórshafnarflugvöllur verði miðstöð leitar- og björgunarmiðstöðvar sem Norðurskautsráðið hefur lagt til að verði sett á laggirnar. Landfræðileg lega Þórshafnarflugvallar gerir það að verkum að hann er eini staðurinn á Íslandi sem nær þyrluflugdrægni bæði til Jan Mayen (og þar með Drekasvæðisins) og Scoresby-sunds við Grænland. Samkvæmt úttekt sem unnin hefur verið fyrir Langanesbyggð er Þórshafnarflugvöllur heppilegasta staðsetning slíkrar miðstöðvar, auk þess sem nú þegar er fyrir hendi radarstöð á Gunnólfsvíkurfjalli sem gæti mjög stutt við slíka starfsemi, ekki síst vegna síaukinna siglinga um Norðurslóðir og vaxandi umsvifa á Austur-Grænlandi. Þá má benda á að mikil umræða hefur nú farið fram á vettvangi Norðurskautsráðsins um samræmda áætlun um viðbrögð við olíu- og umhverfisslysum en í dag er ekki fyrir hendi neinn búnaður á Íslandi til að bregðast við slíku.
Tillaga Siggeirs var borin undir atkvæði og felld.
Bjarkey Gunnarsdóttir lagði fram tillögu um að setja punkt á eftir Þórshöfn og sleppa „ásamt leitar- og björgunarmiðstöð, sem Norðurskautsráðið hefur lagt til að sett verði á laggirnar.“ Ástæðuna sagði hún vera þá að unnið væri að því að leitar- og björgunarmiðstöð verði staðsett á Siglufirði.
Tillaga BG um að fella hluta síðustu setningarinnar niður var borin undir atkvæði og féll á jöfnu með 7 atkvæðum gegn 7.
Tillagan var síðan samþykkt óbreytt með meirihluta atkvæða.
 
Nýting orkuauðlinda í Þingeyjarsýslum.
Aðalfundur Eyþings, haldinn á Húsavík 7. og 8. október 2011, leggur þunga áherslu á að stjórnvöld, í samvinnu við heimafólk, vinni áfram markvisst að undirbúningi nýtingar þeirrar orku sem er að finna á háhitasvæðum í Þingeyjarsýslum. Það er nauðsynlegt að leggja grunn að uppbyggingu nýrrar atvinnustarfsemi á svæðinu og skapa þannig forsendur góðra lífskjara íbúa og jákvæðrar byggðaþróunar.
Samþykkt samhljóða.
 
Vatnajökulsþjóðgarður.
Aðalfundur Eyþings, haldinn á Húsavík 7. og 8. október 2011, leggur til að yfirstjórn Vatnajökulsþjóðgarðs verði flutt heim í héruð og svæðisráðunum verði falin stjórnun hans. Samið verði við fagaðila í héraði um framkvæmdastjórn viðkomandi rekstrarsvæðis. Þannig verði allt framkvæmdavald og fjárráð viðkomandi rekstrarsvæðis í héraði, sem er í samræmi viðmarkmið er varða styrkingu byggðar og atvinnustarfsemi í nágrenni þjóðgarðsins.
Samþykkt samhljóða.

Skógarkerfill og Bjarnarkló.
Aðalfundur Eyþings, haldinn á Húsavík 7. og 8. október 2011, felur stjórn samtakanna að setja á fót vinnuhóp til að gera tillögur að aðgerðum til að stemma stigu við útbreiðslu skógarkerfils og bjarnarklóar á starfssvæðinu. Vinnuhópurinn skal einnig semja greinargerð um mögulega aðkomu Eyþings, fyrir hönd aðildarsveitarfélaganna, að öðrum þáttum umhverfismála, s.s. málefnum sjálfbærrar þróunar, loftslagsmálum, norðurslóðamálum og umhverfismennt. Greinargerðina skal leggja fram og afgreiða á aðalfundi Eyþings 2012.
Samþykkt samhljóða.
 
Bergur Elías lagði til eftirfarandi um sparisjóði:
Aðalfundur Eyþings, haldinn á Húsavík 7.-8. október 2011, skorar á stjórnvöld og Bankasýslu ríkisins að tryggja framtíð sparisjóðakerfisins sem gegnir mikilvægu hlutverki í hinum dreifðu byggðum.
Siggeir bað um orðið og tók undir tillögu Bergs Elíasar.
Samþykkt samhljóða.
 
Fjárhags- og allsherjarnefnd, (stjórnsýslumál og málefni sveitarfélaga)
 
Í nefndinni sátu:
Bjarkey Gunnarsdóttir, formaður
Sigurður Valur Ásbjarnarson
Kristján E. Hjartarson
Hanna Rósa Sveinsdóttir
Hlín Bolladóttir
Sigurður Guðmundsson
Hermann Jón Tómasson
Arnar Árnason
Jón Hrói Finnsson (einnig í kjörnefnd)
Margrét Bjarnadóttir
Böðvar Pétursson
Jón Helgi Björnsson
Gunnólfur Lárusson
 
Formaður nefndarinnar þakkaði nefndarfólki fyrir málefnalega vinnu og gerði síðan grein fyrir niðurstöðum.
 
Ársreikningur 2010.
Fjárhags- og allsherjarnefnd gerir ekki athugasemdir við ársreikninginn og leggur til við fundinn að hann verði samþykktur.
 
Endurskoðuð fjárhagsáætlun 2011.
Fjárhags- og allsherjarnefnd gerir ekki athugasemdir við endurskoðaða fjárhagsáætlun Eyþings fyrir árið 2011 og leggur til að hún verði samþykkt.
 
Fjárhagsáætlun 2012.
Fjárhags- og allsherjarnefnd gerir ekki athugasemdir við fjárhagsáætlun Eyþings fyrir árið 2012 og leggur til að hún verði samþykkt. Framlag sveitarfélaganna er 1,5 mkr. á árinu 2012.
 
Endurskoðuð fjárhagsáætlun menningarráðs 2011.
Fjárhags- og allsherjarnefnd gerir ekki athugasemdir við endurskoðaða fjárhagsáætlun Menningarráðs fyrir árið 2011 og leggur til að hún verði samþykkt.
 
Fjárhagsáætlun menningarráðs 2012.
Fjárhags- og allsherjarnefnd gerir ekki athugasemdir við tillögu að fjárhagsáætlun menningarráðs fyrir árið 2012 og leggur til að hún verði samþykkt.
Nefndin hvetur ráðið til að leita leiða til að hagræða í rekstri þannig að meiri fjármunir séu til úthlutunar styrkja.
Arnór Benónýsson kvaddi sér hljóðs og mótmælti harðlega þeim aðdróttunum sem fælust í því að hvetja menningarráð til að hagræða í rekstri. Á vegum ráðsins færi fram mikil sjálfboðavinna og fráleitt væri að ýja að því að hagkvæmni væri ekki gætt. Baðst hann undan slíkum ávirðingum.
Tryggvi Harðarson lagði fram tillögu um að setningin um hagræðingu í rekstri yrði felld niður.
Tillaga Tryggva var samþykkt samhljóða.
 
Ný sveitarstjórnarlög.
Aðalfundur Eyþings, haldinn á Húsavík 7. og 8. október 2011, fagnar setningu nýrra sveitarstjórnarlaga og lýsir almennri ánægju með þau. Fundurinn lýsir jafnframt ánægju með það samráð sem haft var við undirbúning lagasetningarinnar og hvetur stjórnvöld og Samband íslenskra sveitarfélaga til að viðhafa sama verklag í öðrum málum er varða málefni sveitarfélaga.
 
Sóknaráætlunin Ísland 2020.
Aðalfundur Eyþings, haldinn á Húsavík 7. og 8. október 2011, lýsir ánægju með sóknaráætlunina Ísland 2020 og þá möguleika sveitarfélaganna til að hafa áhrif á forgangsröðun verkefna í landshlutanum sem í henni felast. Sóknaráætlun fyrir Norðurland eystra getur orðið mikilvægur vegvísir hvað varðar þróun atvinnulífs og samfélags á svæðinu gangi markmið áætlunarinnar eftir. Fundurinn hvetur til þess að haldinn verði aukafundur Eyþings þannig að fulltrúar geti kynnt sér verkefnið betur og sammælst um framgang þess.
 
Efling sveitarstjórnastigsins.
Aðalfundur Eyþings, haldinn á Húsavík 7. og 8. október 2011, fagnar því að unnið hafi verið að eflingu sveitarstjórnarstigsins með tvennum hætti á undanförnum árum, með sameiningu sveitarfélaga og flutningi verkefna frá ríki til sveitarfélaga. Auknum verkefnum og aukinni ábyrgð verða að fylgja auknir fjármunir og aukin áhrif sveitarfélaga á ákvarðanir um tekjustofna hins opinbera.
 
Breytt verklag fjárlaganefndar.
Aðalfundur Eyþings, haldinn á Húsavík 7. og 8. október 2011, bendir á að tryggja verði að þær breytingar sem verið er að gera á vinnulagi fjárlaganefndar skerði ekki framlög til þeirra verkefna sem fengið hafa stuðning nefndarinnar, en samkvæmt ákvörðun fjárlaganefndar mun hluti fjárveitinga af safnliðum renna til landshlutasamtaka sveitarfélaga í gegnum menningarsamninga.
 
Aukaframlag Jöfnunarsjóðs.
Aðalfundur Eyþings, haldinn á Húsavík 7. og 8. október 2011, mótmælir harðlega lækkun á aukaframlagi Jöfnunarsjóðs á þessu ári úr milljarði í 700 milljónir og áformum um að lækka framlagið enn frekar. Með því að fjármagna framlag til Álftaness af aukaframlagi eins og ráðgert er, lækka framlög til annarra sveitarfélaga í erfiðri stöðu. Fundurinn beinir því til stjórnvalda að leita annarra leiða til að leysa fjárhagsvanda Álftaness.
Tillögurnar voru bornar upp hver fyrir sig og allar samþykktar samhljóða, sbr. þó breytingartillögu Tryggva Harðarsonar vegna fjárhagsáætlunar menningarráðs fyrir árið 2012.
 
 
Tillögur frá kjörnefnd
 
Í nefndinni sátu:
Elfa Benediktsdóttir, formaður, (einnig í velferðar-, mennta- og menningarmálanefnd).
Tryggvi Harðarson, (einnig í. atvinnu-, umhverfis- og samgöngumálanefnd).
Jón Hrói Finnsson, (einnig í fjárhags- og allsherjarnefnd).
Formaður nefndarinnar þakkaði nefndarfólki fyrir samstarfið og gerði síðan grein fyrir niðurstöðum.
 
 
Kosning varamanns í heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra.
Agnieszka Szczodrowska, Norðurþingi, hefur beðist lausnar sem varamaður í heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra og leggur kjörnefnd til að Jón Helgi Björnsson, Norðurþingi, verði varamaður í hennar stað.
Samþykkt samhljóða.
 
 
Tillaga að endurskoðanda til eins árs.
KPMG, Akureyri, Arnar Árnason, löggiltur endurskoðandi.
Kjörnefnd vekur athygli á því að um næstkomandi áramót taka gildi ný lög sveitarstjórnarlög, nr. 138/2011. Þar er kveðið á um (72. gr) að endurskoðandi starfi ekki lengur en sjö ár samfellt. Kjörnefnd leggur því til að skipt verði um endurskoðanda á næsta aðalfundi Eyþings.
Samþykkt samhljóða.
 
 
Ákvörðun um fundarstað næsta aðalfundar:
Kristján Hjartarson, fulltrúi í sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar kvaddi sér hljóðs og sagði nokkur vel valin orð, bæði í bundnu og óbundnu máli og bauð síðan til næsta aðalfundar Eyþings að ári í Dalvíkurbyggð.
 
 
Önnur mál
Bergur Elías Ágústsson flutti lokaorð. Hann þakkaði fundarmönnum fyrir góða fundarsetu, þátttöku í nefndastörfum og gagnlega umræðu. Að síðustu þakkaði hann starfsmönnum fundarins og framkvæmdastjóra fyrir undirbúninginn, óskaði öllum viðstöddum góðrar heimferðar og sagði fundi slitið. Þá var klukkan 14:25.
 
 
Fyrirlesarar:
Hermann Sæmundsson, skrifstofustjóri í innanríkisráðuneytinu.
Guðjón Bragason, sviðsstjóri hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
Árni Ragnarsson, sérfræðingur á þróunarsviði Byggðastofnunar.
Gunnlaugur Stefánsson, forseti bæjarstjórnar Norðurþings.
Ásbjörn Björgvinsson, framkvæmdastjóri Markaðsstofu ferðamála á Norðurlandi.
 
 
Gestir:
Bjarni Jónsson, formaður SSNV.
Björn Hafþór Guðmundsson, framkvæmdastjóri SSA.
Björn Valur Gíslason, alþingismaður Norðausturkjördæmi.
Björn Kjartansson, innanríkisráðuneytinu.
Einar Árnason, innanríkisráðuneytinu.
Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri Akureyri.
Halldór V. Kristjánsson, innanríkisráðuneytinu.
Helgi Mar Árnason, skrifstofustjóri, Langanesbyggð.
Höskuldur Þórhallsson, alþingismaður Norðausturkjördæmi.
Jónína Rós Guðmundsdóttir, alþingismaður Norðausturkjördæmi.
Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Kristján L. Möller, alþingismaður Norðausturkjördæmi.
Kristján Þór Júlíusson, alþingismaður Norðausturkjördæmi.
Sigmundur Ernir Rúnarsson, alþingismaður Norðausturkjördæmi.
Stefán B. Sigurðsson, rektor Háskólanum á Akureyri.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra.
Þorfinnur G. Gunnarsson, Norðurþingi.
Þorleifur Gunnlaugsson, innanríkisráðuneytinu.
Þóroddur Bjarnason, prófessor, Háskólanum á Akureyri.
Þráinn Gunnarsson, bæjarfulltrúi, Norðurþingi.
Þuríður Backman, alþingismaður.
Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra.
 
 
Starfsmenn og embættismenn:
Alfreð Schiöth, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra.
Pétur Þór Jónasson, framkvæmdastjóri Eyþings.
Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, menningarfulltrúi.
Valtýr Sigurbjarnarson, ráðinn fundarritari.
Þórgunnur Reykjalín Vigfúsdóttir, formaður Menningarráðs Eyþings.
 
Mætingarlisti 2011
 
Sveitarfélag   Aðalfulltrúar    Varafulltrúar
Fjallabyggð x Þorbjörn Sigurðsson    S. Guðrún Hauksdóttir
Fjallabyggð x Bjarkey Gunnarsdóttir   Sigurður Hlöðversson 
Fjallabyggð x Sigurður Valur Ásbjarnarson   Ásdís Pálmadóttir
Fjallabyggð x Egill Rögnvaldsson   Guðmundur G. Sveinsson
Dalvíkurbyggð Marinó Þorsteinsson   Guðmundur St. Jónsson
Dalvíkurbyggð Kristján E. Hjartarson   Heiða Hringsdóttir
Dalvíkurbyggð x Jóhann Ólafsson     Sveinn Torfason
Dalvíkurbyggð  x Bergþóra Rós Lárusdóttir   Björn Snorrason
Hörgárbyggð Guðmundur Sigvaldason   Axel Grettisson
Hörgárbyggð x Hanna Rósa Sveinsdóttir   Sunna Hlín Jóhannesdóttir
Akureyrarbær   Geir Kristinn Aðalsteinsson   Oddur Helgi Halldórsson
Akureyrarbær x Halla Björk Reynisdóttir   Víðir Benediktsson
Akureyrarbær Hlín Bolladóttir   Inda Björk Gunnarsdóttir
Akureyrarbær x Tryggvi Þór Gunnarsson   Silja Dögg Baldursdóttir
Akureyrarbær x Sigurður Guðmundsson   Anna Hildur Guðmundsdóttir
Akureyrarbær x Guðmundur Guðmundsson   Petrea Ósk Sigurðardóttir
Akureyrarbær x Ólafur Jónsson   Njáll Trausti Friðbertsson
Akureyrarbær x Hermann Jón Tómasson   Sigrún Stefánsdóttir
Akureyrarbær x Andrea Sigrún Hjálmsdóttir   Edward H. Huijbens
Eyjafjarðarsveit x Arnar Árnason x Einar Gíslason
Eyjafjarðarsveit   Birna Ágústsdóttir   Kristín Kolbeinsdóttir 
Eyjafjarðarsveit   Karel Rafnsson x Bryndís Þórhallsdóttir
Svalbarðsstrandarhreppur Jón Hrói Finnsson   Guðmundur Bjarnason
Svalbarðsstrandarhreppur x Eiríkur Hauksson   Helga Kvam
Grýtubakkahreppur  x Guðný Sverrisdóttir   Fjóla V. Stefánsdóttir
Grýtubakkahreppur x Jón Helgi Pétursson   Ásta Fönn Flosadóttir
Þingeyjarsveit x Margrét Bjarnadóttir   Friðrika Sigurgeirsdóttir
Þingeyjarsveit Tryggvi Harðarson   Ólína Arnkelsdóttir
Þingeyjarsveit x Arnór Benónýsson   Árni Pétur Hilmarsson
Skútustaðahreppur   Dagbjört Bjarnadóttir x Böðvar Pétursson
Skútustaðahreppur   Eyrún Björnsdóttir Friðrik Jakobsson
Norðurþing   Jón Grímsson Soffía Helgadóttir
Norðurþing  x Jón Helgi Björnsson   Gunnlaugur Stefánsson
Norðurþing x Bergur Elías Ágústsson   Sigríður Valdimarsdóttir
Norðurþing x Trausti Aðalsteinsson   Olga Gísladóttir 
Norðurþing x Hjálmar Bogi Hafliðason   Þráinn Guðni Gunnarsson
Tjörneshreppur x Steinþór Heiðarsson   Eiður Árnason
Svalbarðshreppur x Elfa Benediktsdóttir    Sigurður Þór Guðmundsson
Langanesbyggð x Gunnólfur Lárusson   Ævar Rafn Marinósson
Langanesbyggð x Siggeir Stefánsson   Reimar  Sigurjónsson


Rétt til setu á aðalfundinum 2011 áttu 40 kjörnir fulltrúar.

 
Mættir voru 39. Þar af voru 5 varamenn.
Getum við bætt síðuna?