Fara í efni

Fundargerð - Aðalfundur 2012

05.10.2012

 

 

Aðalfundur Eyþings 2012

Haldinn í Bergi, menningarhúsi á Dalvík

5. og 6. október 2012

 

 

 

 

Föstudagur 5. október

 

 

1.      Fundarsetning kl. 12:30.

 

Formaður Eyþings, Bergur Elías Ágústsson, setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna. Hann greindi frá dagskrá fundarins og þakkaði gott samstarf við mikinn fjölda sveitarstjórnarmanna á liðnum árum og alveg sérstaklega stjórn Eyþings og framkvæmdastjóra. Þá bar hann fram tillögu um fundarstjóra, þau Svanfríði Ingu Jónasdóttur og Jóhann Ólafsson og var það samþykkt samhljóða.

1.1.    Starfsmenn þingsins og kjörnefnd.

Svanfríður Inga tók við fundarstjórn og lagði eftirfarandi til um starfsmenn þingsins og kjörnefnd:

Ritarar:

Bjarkey Gunnarsdóttir, Fjallabyggð.

Hjálmar Bogi Hafliðason, Norðurþingi.

Samþykkt samhljóða.

Kjörnefnd:

Halla Björk Reynisdóttir, Akureyri, formaður.

Marinó Þorsteinsson, Dalvíkurbyggð.

Elfa Benediktsdóttir, Svalbarðshreppi.

Samþykkt samhljóða.

Ráðinn fundarritari:

Valtýr Sigurbjarnarson, Akureyri.

Yfirumsjón:

Pétur Þór Jónasson, framkvæmdastjóri Eyþings.

1.2.    Skýrsla stjórnar.

Bergur Elías Ágústsson, formaður Eyþings, flutti skýrslu stjórnar og framkvæmdastjóra sem lögð hafði verið fyrir aðalfundarfulltrúa sem fundarskjal og fram kom að hún myndi fylgja með fundargerð aðalfundarins. Hann greindi frá hverjir hefðu skipað stjórn og varastjórn starfsárið 2011-2012 og hvaða 9 nefndir hefðu verið starfandi. Stjórnin hélt á starfsárinu 9 bókaða stjórnarfundi og tók til afgreiðslu um 170 mál. Starfsemi samtakanna hefur verið að taka breytingum og verður sífellt umfangsmeiri.

Þá fór Bergur Elías yfir helstu atriði aðgerðaáætlunar og ályktanir síðasta aðalfundar Eyþings sem sendar voru þeim aðilum sem þær varða. Fyrst gerði hann grein fyrir verkefninu Ísland 2020 – sóknaráætlanir landshluta, en á aðalfundinum í fyrra var m.a. rætt um forgangsröðun verkefna á starfssvæði Eyþings. Næst gerði Bergur Elías grein fyrir stöðu mála við Vaðlaheiðargöng. Nú hyllir loksins undir að búið verði að ganga frá öllum samningum. Almenningssamgöngur hafa verið mikið til umfjöllunar en Eyþing tók þær yfir um síðustu áramót með samningi við Vegagerðina. Jafnframt hefur verið samið við Strætó bs. um margþætta sértæka þjónustu.

Fjórða verkefnið sem Bergur Elías gerði grein fyrir er undirbúningur IPA umsókna. Haldinn var kynningarfundur fyrir ýmsa hagsmunaaðila 23. ágúst sl. og samið var við Önnu Margréti Guðjónsdóttur, sérfræðing í Evrópumálum, um vinnu við að undirbúa umsóknir. Næst nefndi Bergur Elías menningarsamninginn og að ítarlega yrði um hann fjallað undir sérstökum dagskrárlið. Undanfarna mánuði hefur verið unnið að skýrslu um starfsemi ríkisins í Norðausturkjördæmi, þ.e. að finna hversu miklu af skattfé ríkisins er aflað á Norðurlandi eystra og á Austurlandi og hve mikið af því er nýtt á þessum svæðum.

Í sjöunda lagi nefndi Bergur Elías skýrslu um skógarkerfil, bjarnarkló og fleiri umhverfismál og að nánar yrði um það fjallað undir sérstökum dagskrárlið. Markaðsstofa ferðamála var til umfjöllunar á fundum stjórnar Eyþings og samþykkt var að Eyþing setti eina milljón kr. í verkefnið Ísland allt árið. Níunda atriðið sem Bergur Elías nefndi var skipulag Eyþings og aukin verkefni. Hann kynnti hugmynd að nýju skipulagi samtakanna og sagði að það væri fyrst og fremst sett fram til að skapa umræðu, en þetta væri eitt af meginmálum fundarins.

Síðan sagði Bergur Elías frá ýmsum fundum og verkefnum og samstarfi við þingmenn. Ýmis þingmál koma til umræðu og vinnslu hjá stjórn Eyþings og haldnir eru árlegir fundir stjórnar og þingmanna í kjördæmavikum. Á síðasta ári komu 45 þingmál til umsagnar. Náið samstarf hefur verið við ráðuneyti sveitarstjórnarmála, Samband íslenskra sveitarfélaga og önnur landshluta-samtök. Næst sagði Bergur Elías frá störfum heilbrigðisnefndar og að gerð yrði grein fyrir starfsemi Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra undir sérstökum dagskrárlið, eins og venja væri. Þá nefndi hann ný sveitarstjórnarlög, en þau fela m.a. í sér umtalsverða breytingu varðandi landshlutasamtök sveitarfélaga sem eru grunnur að auknum verkefnum þeirra.

Í lokin greindi Bergur Elías frá því að nú ættu rétt til setu á aðalfundinum 40 fulltrúar frá 13 sveitarfélögum með alls 29.041 íbúa þann 1. desember 2011. Síðan ítrekaði hann þakklæti sitt fyrir gott samstarf og ánægjuleg kynni við fjölda sveitarstjórnarmanna og óskaði Eyþingi farsældar í þeim verkefnum sem framundan væru. (BEÁ lauk máli sínu kl. 13:35).

Enginn kvaddi sér hljóðs um skýrslu stjórnar.

1.3.    Ársreikningur og fjárhagsáætlun.

Pétur Þór Jónasson, framkvæmdastjóri Eyþings gerði grein fyrir ársreikningi og fjárhagsáætlun samtakanna. Hann sagði að venju samkvæmt yrði nánar fjallað um skýrslu stjórnar, ársreikning og fjárhagsáætlun í fjárhags- og stjórnsýslunefnd. Helstu niðurstöður ársreiknings eru þessar:

Rekstrarreikningur 2011

Rekstrartekjur                                                             51.238.921

Rekstrargjöld                                                                52.280.554

Rekstrarniðurstaða án fjármagnsliða                 (1.041.633)

Fjármunatekjur (Fjármagnsgjöld)                              866.201

Rekstrarniðurstaða ársins                                         (175.432)

Efnahagsreikningur 31. des. 2011

Áhættufjármunir                                                          1.000.000

Veltufjármunir                                                             56.832.836

Eignir samtals                                                               57.832.836

Eigið fé                                                                              9.526.277

Lífeyrisskuldbindingar                                               15.182.810

Skammtímaskuldir                                                     33.123.749

Eigið fé og skuldir samtals                                       57.832.836

 

Endurskoðuð fjárhagsáætlun fyrir árið 2012 og fjárhagsáætlun 2013.

 

Pétur Þór Jónasson lagði fram tillögu að endurskoðaðri fjárhagsáætlun fyrir árið 2012 og fjárhagsáætlun 2013.

 

     Áætlun 2012 (þ.kr.)  Esk. áætlun 2012 (þ.kr.)         Esk. áætlun 2012 (þ.kr.)       
Rekstrartekjur   21.500  21.500  22.950
 Rekstrargjöld  22.400  22.400  23.950
 Rekstrarniðurstaða án fjármagnsliða  (900)  (900)   (1.000)
 Fjármagnstekjur og (fjármagnsgjöld)   900  900  1.000
 Hagnaður (Halli)   0  0  0

                                                           

Breyting í endurskoðaðri áætlun felst í því að kostnaður við yfirstjórn hækkar um 435 þkr og inn kemur nýr liður, almenningssamgöngur, 240 þ.kr., en útgjöld vegna aðgerðaráætlunar eru lækkuð um sömu fjárhæð, þ.e. 675 þ.kr.

Fundarstjóri lagði til að ársreikningi og áætlun yrði vísað til fjárhags- og stjórnsýslunefndar.

Samþykkt samhljóða.                                                                                                               (Dagskrárlið lokið kl. 13:18).

 

Halla Björk Reynisdóttir, formaður kjörnefndar, sagði nokkur orð um það sem kjörnefnd þyrfti að hafa til að sinna sínu starfi.

 

 

2.      Sóknaráætlun landshluta.

 

Hermann Sæmundsson skrifstofustjóri í innanríkisráðuneytinu.

Hermann byrjaði á því að greina frá bættu verklagi við svæðisbundna áætlanagerð og samstarf vegna þess. Það ætti að leiða til skilvirkari stjórnsýslu og aukinnar valddreifingar, m.a. á sviði byggðaþróunar. Hann sagði að verkefnið nyti stuðnings Sambands íslenskra sveitarfélaga og fram hefði komið, m.a. hjá Karli Björnssyni framkvæmdastjóra þess, að skort hefði á heildarsýn við áætlunargerð, áætlanir hefðu verið ótengdar, sumar áætlanir með fjármagn (samgönguáætlun), en aðrar ekki og samráð um byggðaáætlun væri takmarkað.

Mikilvægt væri að hafa fullt umboð til áframhaldandi vinnu, þ.e. umboð stjórnarráðsins, umboð sveitarfélaga og umboð landshlutasamtaka. Hvað fyrsta atriðið snerti þá mætti vísa til samstarfsyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar, stefnumótunarskjalsins Ísland 2020 og ákvörðunar ríkisstjórnar í júní 2012 og fjárlagafrumvarps 2013. Þá stæðu yfir viðræður innan stjórnarráðsins um samspil byggðamála og sóknaráætlunar.

Varðandi annan þáttinn vísaði Hermann til 97. greinar sveitarstjórnarlaga þar sem m.a. kemur fram að sveitarfélögum er heimilt að starfa saman innan staðbundinna landshlutasamtaka og taka að sér starfsemi sem tengist hlutverki þeirra svo sem verkefni tengd byggðaþróun.

Hlutverk sveitarfélaga samkvæmt stefnumótunarskjalinu Ísland 2020 kveður á um að áætlanirnar leggi markmið Íslands 2020 til grundvallar, auk hugmynda og áherslna sem fyrir liggja eftir þjóðfundi landshluta og stefnumörkun landshlutasamtaka í kjölfar þeirra. Forgangsröðun einstakra verkefna á hverju svæði á að vera á hendi heimafólks þar sem skilgreindur verði sameiginlegur vettvangur sveitarstjórna og fulltrúa atvinnulífs og stofnana sem komi í stað hinna ýmsu stjórna og nefnda sem koma að málum í núverandi skipulagi.

Markmið verkefnisins er að einfalda og efla samskipti ríkis og sveitarfélaga og tryggja gagnsæi, hagkvæmni, hlutlægni og skilvirkni við úthlutun og umsýslu fjárveitinga úr ríkissjóði sem ekki fara til lögbundinna verkefna í landshlutum. Framtíðarsýnin er að þeir fjármunir sem Alþingi ráðstafar hverju sinni af fjárlögum til verkefna í einstökum landshlutum á sviði atvinnumála, byggða- og samfélagsþróunar byggi á sóknaráætlun hvers landshluta.

(HS lauk erindi sínu kl. 13:36).

 

 

3.      Sóknaráætlanir landshluta – nýtt verklag/valddreifing landshluta.

 

Hólmfríður Sveinsdóttir, verkefnisstjóri.

Hólmfríður byrjaði á að nefna markmið sóknaráætlana landshluta en þau væru: Efling sveitarstjórnarstigsins/valddreifing, einföldun og efling í samskiptum ríkis og sveitarfélaga og aukið samráð innan Stjórnarráðsins. Þá gerði hún grein fyrir umboðsferlinu, allt frá samstarfslýsingu ríkisstjórnarinnar í maí 2009 til samþykktar hennar um útfærslu sóknaráætlana í júní 2012. Einnig nefndi hún ítarlega umfjöllun á tveimur landsþingum Sambands íslenskra sveitarfélaga og samráð við landshlutasamtökin.

Þessu næst sagði Hólmfríður frá umsóknum til Stjórnarráðsins haustið 2011, en þær voru 57. Gert er ráð fyrir tæpum 500 mkr í þau 11 verkefni sem samþykkt hafa verið 2012-2015. Samþykkt hefur verið að veita fé til verkefna í öllum landshlutum og greindi Hólmfríður frá þeim. Þar af eru tvö á Norðurlandi eystra.

Næst sagði Hólmfríður frá útfærslu sóknaráætlana, sbr. samþykkt ríkisstjórnar frá 22. júní 2012, en þar segir m.a.: „Fjármunir sem Alþingi ráðstafar hverju sinni af fjárlögum til verkefna í einstökum landshlutum á sviði atvinnumála, byggða- og samfélagsþróunar byggi á sóknaráætlun hvers landshluta og renni um einn farveg, á grundvelli samnings, til miðlægs aðila í hverjum landshluta.“ og „Markmið verkefnisins er að einfalda og efla samskipti ríkis og sveitarfélaga og tryggja gagnsæi, hagkvæmni, hlutlægni og skilvirkni við úthlutun og umsýslu fjárveitinga úr ríkissjóði sem ekki fara til lögbundinna verkefna í landshlutum“. Hólmfríður gerði síðan nánari grein fyrir markmiðum sóknaráætlana, útfærslu þeirra og skipulagi.

Hólmfríður nefndi meðal annars ábyrgð landshlutasamtakanna, skapalón fyrir sóknaráætlanir og stöðugreiningu. Einnig samráðsvettvang og hvernig hann væri hugsaður. Fyrst um sinn yrðu helstu málaflokkarnir atvinnumál og nýsköpun, mennta- og menningarmál og markaðsmál. Þá nefndi hún „nýtt“ fjármagn, 400 m.kr. á ári til þriggja ára og „gamalt“ fjármagn, t.d. í vaxtar- og menningarsamningum.

Að lokum nefndi Hólmfríður næstu skref, hugsanlega löggjöf um sóknaráætlanir, sameiginlega sýn heimamanna, stefnumótun í einstökum málaflokkum og að eitt af meginmarkmiðum sóknaráætlana landshluta væri aukið samráð.  (HS lauk máli sínu kl. 14:03).

4.      Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Innra skipulag starfsemi.

 

Jón Óskar Pétursson, framkvæmdastjóri SSNV.

Jón Óskar byrjaði að greina frá nokkrum staðreyndum um Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, SSNV. Samtökin voru stofnuð 1992, eftir að Fjórðungssamband Norðlendinga var lagt niður. Íbúafjöldi á starfssvæðinu er nú um 7.300 og stærð þess er um 13 þúsund ferkílómetrar. Hlutverk SSNV er að vera þjónustu- og samstarfsvettvangur sveitarfélaganna á Norðurlandi vestra og starfa í samvinnu við önnur landshlutasamtök sveitarfélaga og Samband íslenskra sveitarfélaga, eftir því sem við verður komið. Þá fór hann yfir markmið SSNV.

Þessu næst rakti Jón Óskar sögu samstarfs sveitarfélaga á Norðurlandi vestra næstliðna áratugi. Iðnþróunarfélag Norðurlands vestra, síðar Atvinnuþróunarfélag Norðurlands vestra, varstofnað 1985. Sameinast var um málefni fatlaðra árið 1999 og málaflokkurinn hefur síðan verið rekinn undir hatti SSNV. Árið 2005 voru SSNV og Atvinnuþróunarfélag Norðurlands vestra sameinuð. Menningarráð Norðurlands vestra var stofnað 2007 og Vaxtarsamningur Norðurlands vestra árið 2008.

Starfsemi SSNV er nú þannig að starfsmenn eru 8 í 7,8 stöðugildum og skrifstofur eru á Hvammstanga, Blönduósi, Skagaströnd og Sauðárkróki. Viðfangsefnin eru daglegur rekstur oghagsmunagæsla fyrir sveitarfélögin, almenningssamgöngur, aðkoma að Markaðsstofu Norðurlands f.h. aðildarsveitarfélaga, SSNV-Atvinnuþróun og ráðgjöf, rekstur vaxtarsamnings, almenn viðskiptaráðgjöf til fyrirtækja, einstaklinga og stofnana og kynningar og markaðsmál. Þá annast samtökin rekstur byggðasamlags um þjónustu við fatlað fólk. Þjónustusvæðið í þeim málaflokki nær yfir starfssvæði SSNV auk Fjallabyggðar og Dalvíkurbyggðar. Einnig er annast um bókhald og fjármál Heilbrigðeftirlits Norðurlands vestra og Menningarráðs Norðurlands vestra.

Að lokum sýndi Jón Óskar skipurit SSNV og sagði frá því hvernig starfsemin væri fjármögnuð. Heildarvelta „samstæðunnar“ árið 2011 nam um 526 m.kr. Þar af greiddu sveitarfélögin um 119 mkr.  (JÓP lauk máli sínu kl. 14:25).

 

 

5.      Fyrirspurnir og umræður.

 

Guðný Sverrisdóttir sagði að þetta væri þriðji fundurinn þar sem rætt væri um sóknaráætlun 2020. Hún harmaði að ekki skyldi hafa orðið af þeim fundi sem samþykkt var að halda á aðalfundinum í fyrra, þ.e. um sóknaráætlun landshlutans. Þá fjallaði hún um tilurð verkefnisins 2020, en sveitarstjórnarmenn hefðu fengið það yfir sig. Þá velti hún fyrir sér stjórnsýslunni og hvort hér væri vísir að þriðja stjórnsýslustigi og hvort sveitarfélögin hefðu samþykkt valdaframsal. Ekki hefði verið litið á Eyþing sem rekstrarfélag, en ljóst væri að sveitarstjórnarmanna biðu miklar ákvarðanir. Trúlega mætti margt læra af SSNV um samvinnu sveitarfélaga.

Jón Hrói Finnsson sagði að fagna bæri auknu samráði innan stjórnarráðsins, en gagnrýndi það verklag sem hefur verið viðhaft við undirbúning sóknaráætlunar landshluta. Sveitarstjórnir hefðu ekki haft neina beina aðkomu að undirbúningnum og upplýsingar til þeirra væru afar takmarkaðar. Í því ljósi væri umboð Eyþings til að taka að sér þau verkefni sem um ræðir veikt. Hann lýsti því yfir að óásættanlegt væri að sveitarfélögin væru meðhöndluð sem „hagsmunaaðilar“ í verkefni sem snerist um samskipti stjórnarráðsins og sveitarstjórnarstigsins. Formlega aðkomu sveitarstjórna að verkefninu þyrfti að tryggja og upplýsingar til þeirra vegna sóknaráætlunar landshluta þyrftu að vera meiri. Hann lýsti áhyggjum af því að sóknaráætlun landshluta myndi leiða til þess að fjármunir til verkefna myndu skerðast. Þá spurði hann hvort ætlunin væri að fækka störfum í stjórnarráðinu samhliða því að verkefnin færast til sveitarfélaganna eða landshlutasamtaka þeirra og hve mörg störf myndu sparast.

Geir Kristinn Aðalsteinsson lýsti sig sammála flestu sem Guðný hefði sagt. Mikil vinna væri framundan og spurning um ráðstöfun fjármuna. Fram hefði komið að það hefði fallið í grýttan jarðveg að skipta 400 mkr. jafnt á milli samtaka sveitarfélaga og hann spurði hvar andstaðan væri fyrir því.

Sigurður Guðmundsson kvaðst hafa áhyggjur af lýðræðishallanum. 60% íbúanna á starfssvæði Eyþings byggju á Akureyri. Það sveitarfélag hefði þó aðeins einn mann af fimm í stjórn samtakanna og það þyrfti að ræða stjórnsýslu Eyþings og menningarsamningsins. Hann óskaði eftir umræðu um þessi atriði og lagði fram tillögu þar að lútandi.

Siggeir Stefánsson sagðist hafa allt aðrar áhyggjur en Sigurður, reyndar alveg þveröfugar og spurði hvernig færi fyrir litlu sveitarfélögunum. Hann taldi stóru sveitarfélögin hafa völdin og hvatti til frekari umræðu.

Bergur Elías Ágústsson kvaðst ánægður með umræðuna. Mörg mál væru flókin og snúin og gott væri að ræða þau.

Svanfríður Inga Jónasdóttir fundarstjóri sagðist líta svo á að Sigurður Guðmundsson hefði borið fram formlega tillögu um að ræða stjórnsýslu Eyþings og bar hana undir atkvæði.

Samþykkt samhljóða.

Bergur Elías Ágústsson sagði að þessi mál, þ.e. stjórnsýsla Eyþings o.fl. yrði til umræðu í öllum nefndum og ræða mætti þetta frekar við afgreiðslu á tillögum og ályktunum frá þeim, ef þurfa þætti.

Hólmfríður Sveinsdóttir sagði að hún væri tilbúin til að koma á fundi og gefa upplýsingar og leita samráðs. Ekki væri gerð krafa um að alls staðar yrði staðið eins að málum. Til tals hefði komið að skipta 200 m.kr. jafnt á landshlutasamtökin en hinum hlutanum eftir öðrum leiðum sem þó væri ekkert ákveðið um. Andstaðan við jafna skiptingu hefði m.a. komið frá höfuðborgarsvæðinu og Suðurlandi. Spurningunni um hvort starfsmönnum yrði fækkað í stjórnarráðinu og ráðið í staðinn til samtaka sveitarfélaga svaraði Hólmfríður á þá leið að ekki væri um mörg störf að ræða. Raunar væri hennar starf það eina fyrir utan að aðrir starfsmenn í stjórnsýslunni hefðu tímabundið bætt á sig verkefnum þessu tengt að hluta.

Hermann Sæmundsson taldi ekki að þriðja stjórnsýslustigið væri í uppsiglingu. Aukið samstarf og sameiningar sveitarfélaga væru einfaldlega vegna þess að það hefði verið hagkvæmt og það hefðu sveitarstjórnarmenn skynjað. Ekki mætti líta á sveitarstjórnarstigið sem hagsmunaaðila heldur til að veita íbúunum hagkvæma og góða þjónustu. (Þessum dagskrárlið lauk kl. 14:53).

 

Afgreiðsla kjörnefndar á kjörbréfum.

Halla Björk Reynisdóttir, formaður kjörnefndar gerði grein fyrir afgreiðslu kjörbréfa. Af 40 kjörgengum fulltrúum væru 36 mættir, þar af 6 varamenn. Hún sagði að kjörnefndin legði til að kjörbréf allra fulltrúanna yrðu samþykkt og var það gert samhljóða. Hún sagði að skrá yfir fulltrúa yrði færð í lok fundargerðar.  (HBR lauk sinni umfjöllun kl. 15:00).

 

Kaffihlé.

 

 

6.      Menningarráð.

            (skýrsla menningarráðs, fjárhagsáætlun og fyrirspurnir).

 

Þórgunnur Reykjalín Vigfúsdóttir formaður Menningarráðs Eyþings.

Í apríl 2011 var undirritaður nýr menningarsamningur til þriggja ára og í ágúst síðastliðnum var undirritaður viðaukasamningur þar sem Menningarráði Eyþings er falið að úthluta fjármagni sem áður var á safnliðum fjárlaga. Í ráðinu sitja sjö fulltrúar, þrír koma austan Vaðlaheiðar, þrír vestan hennar og einn fulltrúi er skipaður af Háskólanum á Akureyri. Það sem af er árinu hefur menningarráðið haldið fimm fundi. Líkt og á síðasta ári var ein úthlutun á árinu.

Í október 2011 auglýsti menningarráð verkefnastyrki til umsóknar fyrir árið 2012. Menningarfulltrúi fór um svæðið og hafði viðtalstíma á 14 stöðum. Alls bárust ráðinu 127 umsóknir um tæpar 75,3 milljónir króna. Heildarkostaður við verkefnin var áætlaður tæpar 254 milljónir króna. Menningarráðið úthlutaði rúmlega 21,5 milljónum til 72 verkefna. Frá upphafi hafa menningarráðinu borist 688 umsóknir. Úthlutað hefur verið tæpum 134 milljónum til 391 verkefnis.

Menningarráð Eyþings úthlutar styrkjum til afmarkaðra verkefna en hingað til hefur það ekki veitt rekstrar- eða stofnstyrki. Um það bil helmingur innsendra umsókna fá styrkloforð hjá ráðinu. Sjóðurinn sem menningarráðið hefur yfir að ráða er samkeppnissjóður. Þegar sótt er um í samkeppnissjóð skipta gæði verkefna máli og að þau séu vel útfærð, umsóknir vandaðar og verkefnin falli að reglum ráðsins. Menningarráðið er fagráð og metur umsóknirnar. Mikilvægt er að fulltrúar í ráðinu hafi faglega þekkingu og að sveitarfélögin hafi það í huga þegar skipað er í menningarráð.

Á árinu var fjármagn af safnliðum fjárlaga flutt til lögbundinna sjóða, menningarsamninga og til ráðuneyta ásamt verkefnum sem þar voru. Við þessar breytingar voru verkefni á svæðinu sem ekki eiga aðgang í opinbera sjóði flutt til Menningarráðs Eyþings með viðaukasamningi við menningarsamninginn. Undirritun samningsins dróst þar sem upphafleg drög frá ráðuneytinu hljóðuðu upp á rúmlega 43% niðurskurð til þeirra verkefna sem flytja átti til menningarráðsins. Töldu stjórnir Eyþings og menningarráðs það ekki ásættanlegt og fóru fulltrúar þeirra á tvo fundi í ráðuneytinu vegna málsins.

Að þeim loknum voru tvö verkefni flutt frá menningarráðinu og stóð þá eftir um 17% niðurskurður á þau verkefni sem sátu eftir. Fulltrúar stjórnar Eyþings og menningarráðs töldu að ekki væri hægt að komast lengra í samningaviðræðum að þessu sinni og var viðaukasamningur til tveggja ára undirritaður í ágúst. Er það verkefni næsta árs að vinna að því að auka aftur fjármagn til stofn- og rekstrarstyrkja á svæðinu.

Menningarráðið auglýsti stofn- og rekstrarstyrki í lok ágúst. Umsóknarfrestur var til og með 20. september. Verður úthlutun þessa fjármagns fyrsta verk nýs menningarráðs.

Heildarframlag sveitarfélaga til samningsins 2012 eru 10,6 milljónir og ríkisins 26,2 milljónir. Sveitarfélögin á svæðinu leggja hlutfallslega jafnt til samningsins. Framlög sveitarfélagana árið 2012 námu 365 kr. á íbúa. Að auki eru 12,4 milljónir sem fluttar voru til Menningarráðs Eyþings af safnliðum fjárlaga ásamt verkefnum. Sveitarfélögin leggja ekki til mótframlag með fjármagni í viðaukasamningi.

Í menningarsamningi við ríkið er kveðið á um að menningarráð skuli setja fram stefnu og áætlun um hvernig það hyggst starfa að markmiðum samningsins. Menningarráðið réði dr. Hauk F. Hannesson listrekstrarfræðing til verkefnisins og var lokið við gerð stefnunnar í byrjun ársins. Hana má finna á heimasíðu Eyþings. Leiðarljós í stefnu ráðsins eru „Samstarf – sérstaða – tengsl“.

Markmið ráðsins til samningsloka eru:

·         Efla samstarf á sviði menningarmála á svæðinu.

·         Stuðla að nýsköpun og fjölbreytni í menningu og menningartengdri ferðaþjónustu.

·         Fjölga atvinnutækifærum á sviði menningar og lista.

·         Menningarstarfssemi styðji við ferðaþjónustu og ferðaþjónusta styðji við menningar-starfssemi.

Í tengslum við sóknaráætlun 2020 óskaði stjórn Eyþings eftir því við menningarráðið að leggja drög að stefnu í menningarmálum fyrir sveitarfélögin í Eyþingi. Samhliða gerð stefnu fyrir starfssemi ráðsins hefur verið unnið að fyrrgreindri stefnu sem byggir á grunni stefnu menningarráðs. Menningarráð óskaði eftir aðkomu sveitarfélaganna á svæðinu í bréfi sem þeim var sent í júní sl. Einungis fimm sveitarfélög hafa orðið við beiðni menningarráðs. Nýju menningarráði bíður sú vinna að ljúka við stefnuna. Fráfarandi menningarráð hvetur nýtt ráð til að halda verkefninu áfram og fylgja þeim meginlínum sem koma fram í svörum sveitarfélaganna.

Í lok síðasta árs kom Erik Bugge menningarfulltrúi Vesterålen í norður Noregi í heimsókn. Hann hafði áhuga á að kynna sér menningarstarf á starfssvæði Eyþings. Heimsóknin var vel heppnuð og vakti hún áhuga hans á svæðinu. Í upphafi ársins var Menningarráði Eyþings boðið að taka þátt í samstarfs- og tengslaneti Menningarráðs Austurlands, Menningarráðsins í Vesterålen og Menningarráðs Donnegal á Írlandi. Menningarfulltrúa var boðið til Vesterålen í byrjun árs til að kynna sér samstarfið og funda með fulltrúum fyrrnefndra aðila. Skemmst er frá því að segja að áhugavert er að koma á tengslum milli þessara svæða og nú þegar eru verkefni hér á svæðinu komin með tengsl við verkefni í Noregi og munu þau verða fleiri á næsta ári.

Í samningi ríkisins við Eyþing kemur m.a. fram að hlutverk Menningarráðs Eyþings sé meðal annars að samræma aðgerðir á sviði menningarmála í Eyþingi og standa fyrir öflugu þróunarstarfi í menningarmálum og nýsköpun sem meðal annars styðji við menningartengda ferðaþjónustu. Menningarráð Eyþings undirbýr nú þróunarverkefni, á jaðarsvæðum Þingeyjarsýslna, sem miðar að því að gefa ungu fólki, menntuðu í menningu og listum, tækifæri til að koma í heimabyggð og vinna að öflugum menningarverkefnum. Verkefnið er yfirfært með leyfi menningarráðs Vesterålen og staðfært að jaðarsvæðum Þingeyjarsýslna. Reynsla Norðmanna af verkefninu er góð en á síðustu 12 árum hafa yfir 100 einstaklingar tekið þátt í verkefninu og um 25 hafa flutt aftur á svæðið til fastrar búsetu. Í byrjun mánaðarins var menningarfulltrúi Vesterålen staddur hér á landi og kynnti framkvæmd og árangur verkefnisins fyrir forsvarsmönnum sveitarfélaga og fulltrúum stofnana þar sem verkefnið mun vera keyrt sem tilraunaverkefni næstu tvö ár. Mikil jákvæðni einkenndi fundinn og munu fulltrúar menningarráðs, Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga og Menningarmiðstöðvar Þingeyinga halda áfram undirbúningi og mun verkefnið hefjast í upphafi næsta árs.

Leiðarljós í stefnu menningarráðs Eyþings eru - Samstarf, sérstaða og tengsl -. Menningarráðið leggur áherslu á samstarf og tengsl við stofnanir og tengslanet á svæðinu og utan svæðis sem gætu styrkt starf menningarráðs og aukið vægi menningar á svæðinu.

Menningarfulltrúi tekur þátt í samstarfsneti menningarfulltrúa landsbyggðarinnar. Hefur það starf verið með nokkuð hefðbundnum hætti á árinu. Þrír vinnufundir eru haldnir ár hvert, einn þeirra með formönnum menningarráðanna. Auk þess halda menningarfulltrúar mánaðarlega símafundi. Menningarfulltrúar vinna að sameiginlegum hagsmunamálum menningarráðanna og miðla upplýsingum og þekkingu milli svæðanna.

Samstarf menningarfulltrúa sveitarfélaganna og menningarfulltrúa Eyþings hefur verið með nokkuð hefðbundnum sniði á árinu. Hafa menningarfulltrúar haldið áfram að kynna sér menningarstarf á svæðinu með heimsóknum í sveitarfélög.

Í upphafi ársins fór menningarráðið í samstarf við fjölmiðlafræðideild Háskólans á Akureyri. Nemar á fyrsta ári gátu valið m.a. um að skrifa um menningarmál á starfssvæði Eyþings. Þeim nemendum sem völdu það var boðið á úthlutun ráðsins. Unnu þeir bæði stutt innlegg og yfirlitsgreinar um menningarstarf á svæðinu. Birtust þær m.a. á Landpóstinum sem er fréttavefur fjölmiðlafræðinema. Áhugavert er að þróa þetta samstarf enn frekar.

Auk þessa hefur menningarráð átt samstarf við fjölmarga aðila innan og utan svæðis. Menningarfulltrúi hefur sótt ýmsa fundi og ráðstefnur fyrir hönd ráðsins.

Helstu breytingar á fjárhagsáætlun ársins 2012 felast í auknum verkefnum menningarráðs. Áðurnefnt fjármagn sem flutt var af safnliðum fjárlaga kemur til úthlutunar á þessu ári. Aukinn kostnaður við stjórn menningarráðs kemur til af samningaviðræðum við ráðuneytið vegna flutnings fjármagnsins af safnliðum fjárlaga. Á árinu þurfti að endurnýja tölvubúnað menningarráðs en ekki var gert ráð fyrir því í fjárhagsáætlun 2012.

Fjárhagsáætlun menningarráðs er unnin út frá fyrirliggjandi samningi, almennir kostnaðarliðir eru unnir með hliðsjón af rekstri síðasta árs og yfirstandandi árs og út frá fyrirliggjandi áherslum menningarráðs árið 2013. Þeir liðir sem verða til hækkunar á áætluninni eru helstir: Fyrir liggur að meta framkvæmd núgildandi menningarsamnings og skal því lokið í ágúst 2013. Gert er ráð fyrir 550 þúsund kr. kostnaði við matið. Menningarráð tekur einnig frá 300.000.- kr. til að vinna nýja heimasíðu fyrir ráðið. Fyrir úthlutun 2013 verður lögð meiri áhersla á að auglýsa verkefnastyrki og rekstrar- og stofnstyrki. Hækkar því auglýsingaliður áætlunarinnar um 80.000.- kr.

 

Fundarstjóri lagði til að umfjöllun um fjárhagsáætlun menningarráðs yrði vísað til fjárhags- og stjórnsýslunefndar.

Samþykkt samhljóða.

 

 

7.      Ávörp gesta.

 

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra fagnaði því að geta verið á þessum fundi og skipst á skoðunum við fundarmenn. Það væri auðvelt þar sem flugsamgöngur væru góðar og í góða veðrinu hefði þetta verið fallegt útsýnisflug. Þá ræddi hann um Reykjavíkurflugvöll og þýðingu hans, samgöngur milli landshluta og einnig innan þeirra. Í samgönguáætlun væri gert ráð fyrir úttekt á flugsamgöngum. Eldsneytiskostnaður hefði hækkað mikið og einnig ýmis gjöld, enda hefði margt breyst við efnahagshrunið og gengisfall krónunnar síðla árs 2008.

Ögmundur fjallaði um hvernig verið væri að samþætta stjórnsýsluna og gera hana skilvirkari, m.a. með fækkun ráðuneyta. Hann tók undir það sjónarmið sem fram hefði komið í umræðum á fundinum, að sveitarfélögin væru ekki hagsmunaaðili heldur væru þau rétti vettvangurinn til að veita tiltekna þjónustu með hagkvæmum hætti. Nú væri sveitarstjórnarstigið með um þriðjung af útgjöldum hins opinbera og með tilfærslu á málefnum aldraðra færi hlutur sveitarfélaganna yfir 40% markið og enn mætti auka hlutdeild þeirra með fleiri verkefnum.

Að lokum sagði ráðherra frá starfi nefndar undir forystu Þorleifs Gunnlaugssonar, minntist á það sem verið væri að gera varðandi rafræna stjórnsýslu og þörfina fyrir að ríki og sveitarfélög sameinuðust um mikilvæg verkefni.  (ÖJ lauk máli sínu kl. 16:22).

Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga byrjaði á því að greina frá því sem væri efst á baugi hjá sambandinu um leið og hann þakkaði fyrir að vera boðið til fundarins. Nefna mætti stefnumörkunina fyrir árin 2011 til 2014, en starfsáætlun sambandsins 2012 byggði á henni. Þá væru hefðbundin verkefni á grundvelli samþykkta og hlutverks sambandsins.

Fjármálareglur komu næst til tals og að lögin leggðu línuna um þær með nánari útfærslu í reglugerð. Karl vék einnig að samstarfi við ríkið um nýsköpunarviðurkenningar og þróunarverkefni, aukna hagnýtingu rafrænnar stjórnsýslu og samstarfsverkefni með fjármálaráðuneyti um átak til að innleiða rafræna reikninga.

Karl ræddi skipulags- samgöngu- og umhverfismál, þ.e. landsskipulagsstefnu sem vinnu færi að ljúka við, sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga, vegalög og togstreitu vegna skipulagsmála. Einnig almenningssamgöngur og þátt landshlutasamtakanna í þeim. Hann nefndi frumvarp til laga um meðhöndlun úrgangs og landsáætlun þar að lútandi.

Næst gerði Karl skóla- og félagsmál að umtalsefni, t.d. framtíðarsýn í starfsemi leikskóla. Þar væri vöntun á fagmenntuðu fólki og mikil fækkun nemenda í greininni benti til þess að 5 ára háskólanám væri of langt. Hvað tónlistarskólana snerti væri brýnt að finna nýjan farveg í samstarfi ríkis og sveitarfélaga. Í félagsmálum þyrfti að ná samkomulagi um ýmis atriði. Nefndir væru að störfum, en mikill ágreiningur væri um tilfærslu á fjármagni samfara flutningi á verkefnum.

Kjaramálin sagði Karl að væru sífellt til umræðu, einnig lífeyrisskuldbindingar og endurskoðun á tekjustofnum sveitarfélaga. Hann ræddi stefnumörkun sambandsins um tekjur og endur-greiðslur og að sveitarfélögin þyrftu að fá réttláta hlutdeild í sköttum og gjöldum vegna ýmissa málaflokka. Einnig þyrfti að festa varanlega í sessi sérstakt 1.200 m.kr. framlag ríkisins til Jöfnunarsjóðs í stað aukaframlags og verja því til illa stæðra sveitarfélaga, enda væri engin fjárveiting til aukaframlags í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2013 og sagðist Karl líta á það sem alvarleg svik.

Að lokum fjallaði Karl um sóknaráætlanir landshlutanna, IPA aðstoð í byggðamálum, Brussel-skrifstofu Sambands íslenskra sveitarfélaga og bað fyrir kveðju frá stjórn og starfsmönnum sambandsins.  (KB lauk sinni tölu kl. 16:50).

 

Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra flutti kveðju þingmanna kjördæmisins. Hann ræddi ýmis verkefni sem unnið væri að, en margar erfiðar ákvarðanir hefði þurft að taka, eins og kunnugt væri, eftir það hrun í efnahagsmálum sem varð síðla árs 2008. Hann mótmælti Karli og taldi ekki rétt að ásaka ríkið um svik. Sagði að líta yrði á samskipti ríkis og sveitarfélaga í víðara samhengi og gæta sanngirni.

Almennt séð taldi ráðherra að sveitarfélög á Norðurlandi eystra væru sæmilega sett. Þetta væri síðasta Eyþing á þessu kjörtímabili og margt hefði áunnist í samskiptum ríkis og sveitarfélaga í tíð núverandi ríkisstjórnar. Það ætti einnig við um landshlutasamtökin sem væru sífellt að taka við fleiri verkefnum og leiða samstarf á ýmsum sviðum innan sinna starfssvæða.

Steingrímur tók undir með innanríkisráðherra um mikilvægi Reykjavíkurflugvallar og tók dæmi af ferðalögum sínum með flugi og að vandséð væri hvernig hægt yrði að mæta á fundi og sinna skyldum víða um land ef flugsamgöngur yrðu ekki jafn góðar og raun bæri nú vitni.

Að lokum ítrekaði ráðherra þakkir fyrir að hafa haft tækifæri til að koma á fundinn og óskaði þingfulltrúum góðra starfa.  (SJS lauk máli sínu kl. 17:05).

 

 

Nefndastörf.

Pétur Þór Jónasson, framkvæmdastjóri Eyþings gerði grein fyrir nefndastörfum og hvar þau færu fram. Þrjár nefndir myndu starfa og fulltrúum hefði verið skipað í hverja nefnd. Búið væri að tala við formenn og undirbúa vinnuna eins og kostur væri.

Skipulag og aukin verkefni Eyþings, ásamt sóknaráætlun landshluta, yrðu tekin til umræðu í öllum þremur nefndum þingsins. Fjárhags- og stjórnsýslunefnd væri falið að álykta um málið að höfðu samráði við formenn annarra nefnda.

 

Fundarstjóri gerði grein fyrir tilteknum málum svo sem óvissuferð. Henni yrði seinkað frá boðaðri dagskrá til kl. 18:00 svo að nefndir hefðu tíma til að koma störfum sínum á skrið. Síðan yrði kvöldverður á fundarstað í Bergi kl 20:00. Veislustjórn í höndum heimamanna.

 

Nefndastörf hófust kl. 17:10.

 

 

Laugardagur 6. október.

 

 

8.      Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra.

            (skýrsla heilbrigðisnefndar, ársreikningur 2011, fjárhagsáætlun 2012 ásamt umræðum).

 

Alfreð Schiöth framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra flutti skýrsluna.

Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra hefur það markmið að vernda heilnæmt og ómengað umhverfi, fyrirbyggja sjúkdóma, eitranir og tjón af völdum matvæla, vegna þjónustustarfsemi og mengandi starfsemi. Þessu er framfylgt með almennri fræðslu, vöktun og rannsóknum, samvinnu við önnur yfirvöld og hagsmunaaðila, með eftirliti og eftirfylgni.

Lagagrunn heilbrigðisnefnda og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga er að finna í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998, lögum um matvæli nr. 93/1995 og lögum um tóbaksvarnir nr. 6/2002, öllum með síðari breytingum. Meginmarkmið laganna er að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi.

Umhverfisstofnun (www.ust.is) og Matvælastofnun (www.mast.is) samræma og hafa yfirumsjón með störfum helbrigðisnefnda. Á heimasíðum þessara stofnana er að finna margvíslegan fróðleik og fræðsluefni og einnig er þar greiður aðgangur að helstu lögum og reglum; flokkað undir mismunandi forsendum. Starfsemi heilbrigðisnefnda heyrir þannig undir tvö ráðuneyti; Umhverfis- og auðlindaráðuneytið og Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.

Alfreð nefndi nokkur verkefni yfirstandandi árs. Tók sem dæmi að gagnasöfnun um ástand vatns í kjölfar laga um stjórn vatnamála og rannsóknir HNE um ástand yfirborðsvatns og strandsjávar á undanförnum árum hefðu komið mjög að gagni.

Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra er samvinnuverkefni sveitarfélaga á Norðurlandi eystra og á vettvangi Eyþings er í gildi sérstakur samstarfssamningur milli sveitarfélaga, nema Fjallabyggðar, um heilbrigðiseftirlitið.

Heilbrigðisnefnd er skipuð á aðalfundi Eyþings að afloknum sveitarstjórnarkosningum. Fimm nefndarmenn eru tilnefndir af sveitarstjórnunum samkvæmt samstarfssamningi og einn fulltrúi er tilnefndur af samtökum atvinnurekenda á eftirlitssvæðinu. Uppbyggingin er þannig að heilbrigðiseftirlitinu er stjórnað af heilbrigðisnefnd.

Heilbrigðisnefnd er nú skipuð eftirfarandi:

Frá Akureyri:

Þórdís Rósa Sigurðardóttir, formaður, varamaður: Preben Pétursson.

Sigurjón Jóhannesson, varamaður: Jóna Jónsdóttir.

Frá öðrum sveitarfélögum við Eyjafjörð:

Birna Jóhannesdóttir, varamaður: Fjóla Stefánsdóttir.

Frá Norðurþingi:

Hafsteinn H. Gunnarsson, varamaður: Jón Helgi Björnsson

Frá öðrum sveitarfélögum í Þingeyjarsýslu:

Steinn Karlsson, varamaður: Steinþór Heiðarsson.

 

Fulltrúi samtaka atvinnurekenda:

Kristín Halldórsdóttir, varamaður: Sigurgeir Höskuldsson.

Auk þess situr Þórir V. Þórisson yfirlæknir Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri fundina sem áheyrnarfulltrúi.

Nefndin heldur að jafnaði 10 fundi á ári.

Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra hefur tvær starfsstöðvar. Á Akureyri með þremur starfs-mönnum og á Húsavík með einum starfsmanni. Starfsmennirnir hafa með sér samstarf og samráð og leysa hvern annan af eftir þörfum. Þeir veita umsagnir og ráðgjöf um mörg málefni, s.s. vegna skipulags, laga og reglusetningar.

Alfreð greindi síðan frá starfsemi (fyrirtækjum) sem eftirlitið nær til og starfsleyfi þarf fyrir, en þau eru nú um 1.200 á starfssvæði HNE.

Hann sagði að á þessum fundi lægi fyrir ársreikningur næstliðins árs og fjárhagsáætlun fyrir næsta ár ásamt áætlaðri skiptingu á milli sveitarfélaga og gjaldskrá. Fjárhagsáætlun 2013 var kynnt á fundi heilbrigðisnefndar þann 3. október síðastliðinn. Við gerð áætlunarinnar var miðað við forsendur Akureyrarbæjar um breytingar á milli ára. Áætlunin gerir ráð fyrir 3,94% hækkun á milli ára og að gjaldskrá hækki um sama hlutfall. Samningur er við Akureyrarbæ um umsjón með bókhaldi og fjárreiðum heilbrigðiseftirlitsins.

Helstu atriði úr ársreikningi 2011

Rekstrartekjur                             46.588 þ.kr.

Rekstrargjöld                                46.195 þ.kr.

Fjárhagsáætlun 2012 og 2013

Áætlun ársins 2012                     48.923 þ.kr.

Áætlun ársins 2012                     50.851 þ.kr.

Hækkun milli ára er því               1.928 þ.kr.        eða  3,94%.

 

Að öðru leyti vísaði Alfreð til gagna sem hann lagði fram.  (AS lauk máli sínu kl. 9:27)

 

Eiríkur Björn Björgvinsson spurði um fráveitumál og endurgreiðslur úr Fráveitusjóði. Einnig um heimagistingu og eftirlit með henni.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson spurði um atriði í ársreikningi og fjárfestingar.

Nokkrar umræður urðu um fráveituframkvæmdir og Fráveitusjóð.

Alfreð svaraði fram komnum spurningum og sagði að fjármagn vantaði í Fráveitusjóð, en þó hefði margt færst til betri vegar á næstliðnum árum. Eftirlit með heimagistingu væri erfitt, en reynt væri að framfylgja ákvæðum um leyfisveitingar og að starfsemi færi ekki fram án tilskilinna leyfa.

 

Fundarstjóri lagði til að umfjöllun um fjárhagsáætlun HNE yrði vísað til fjárhags- og stjórnsýslunefndar.

Samþykkt samhljóða.

 

 

 

 

 

 

 

9.      IPA hugmyndir á starfssvæði Eyþings.

 

Anna Margrét Guðjónadóttir, ráðgjafi hjá am ráðgjöf.

Fyrst greindi Anna Margrét frá IPA styrkjum, en þeir væru fjárhags- og faglegur stuðningur Evrópusambandsins við þau ríki sem sækja um aðild. Markmiðið væri að ríki yrðu virkir þátttakendur frá fyrsta degi ef til aðildar kæmi. Reiknað væri með að stuðningur við Ísland yrði 28 milljónir evra á tímabilinu 2011–2013, (4,5 milljarðar króna). Þá gerði hún grein fyrir svokallaðri IPA keðju.

Næst ræddi Anna Margrét hvernig undirbúningi hefði verið háttað á starfssvæði Eyþings með upphafsfundi í ágúst á Akureyri og síðan sérstökum fundum með nokkrum félögum, fyrirtækjum og stofnunum sem hún tilgreindi.

Hugmyndin er að efla „Norðurslóðanetið“, en áhersla verður lögð á öryggismál í víðtækum skilningi. Háskólinn á Akureyri verður væntanlega leiðandi aðili. Þá fjallaði Anna Margrét um flugklasann Air 66N en hann væri liður í að styrkja Norðurland, með vísan til sögu og menningar og náttúrunnar, enda væri áhersla í IPA áætlun m.a. lögð á ferðaþjónustu og lengingu ferðamannatímabilsins. Markaðsstofa Norðurlands verður aðalumsækjandi.

Tækninám á framhaldsstigi er einn af möguleikunum og það er eina umsóknin sem fer til félagsmálasjóðsins, (ESR). Verkmenntaskólinn á Akureyri leiðir þetta verkefni sem felst í að koma á framhaldsmenntun í tæknigreinum á Norðurlandi eystra. Eldsneytisframleiðsla úr úrgangi er eitt verkefnið, leitt af Norðurorku í samstarfi við AFE og fleiri.

Að lokum greindi Anna Margrét frá verkefni sem tengist mat og heilsuvörum. Hugmyndin væri að undirbúa ræktun og vinnslu á matvælum og íblöndunarefnum fyrir matvæli með nýtingu jarðhita í Þingeyjarsýslum. Þetta félli vel að þremur áherslum í IPA áætlun fyrir Ísland: „Hrein“ matvæli og vatn, fullvinnsla afurða og nýting endurnýjanlegrar vistvænnar orku, (vatnsafl, jarðhiti). Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga hefur leitt hópinn.  (AMG lauk máli sínu kl. 10:06).

 

 

10.   Almenningssamgöngur Norðurlandi eystra.

 

Ólafur Jakobsson, tæknifulltrúi (í nefnd Eyþings um almenningssamgöngur).

Fyrst sagði Ólafur frá tilurð nefndar á vegum Eyþings, en í henni eru auk hans, Sigurður Valur Ásbjarnarson, formaður og Hjálmar Bogi Hafliðason. Forsagan er sú að ríkisstjórnin vill efla almenningssamgöngur og eina raunhæfa leiðin til þess er talin vera að bæta þjónustuna og færa hana í hendur heimamanna. Stefnumótun ráðuneytis samgöngumála og Vegagerðarinnar var að taka upp viðræður við landshlutasamtökin um skipulegt samstarf. Hann sagði frá erindisbréfi nefndarinnar og að verkefni hennar væri hluti af sóknaráætlun fyrir landshlutann innan Íslands 2020.

Ólafur gerði nánari grein fyrir því sem nefndin fékk í fangið, en meginlínurnar voru þær að halda uppi almenningssamgöngum á þeim leiðum sem keyrt hefði verið á samkvæmt sérleyfum og sýndi mynd af leið 57, Reykjavík-Akureyri, sem væri samvinnuverkefni SSV, FV, SSNV og Eyþings. Þetta tengist samgöngum innan starfssvæðis Eyþings með tengingu Akureyri-Siglufjörður, sem búið er að bjóða út og Akureyri-Þórshöfn, sem einnig hefur verið boðin út. Þá er í framhaldinu reiknað með akstri til Egilsstaða og útboð á þeirri leið er í vinnslu.

Næst fjallaði Ólafur um samstarf við Strætó bs. um útboð, upplýsingakerfi, farmiðasölu og fleira, en Eyþing hefði tekið yfir umsjón og rekstur almenningssamgangna á Norðurlandi eystra samkvæmt samningi við Vegagerðina. Hann greindi frá reynslunni af leið 57, nefndi m.a. tölur um fjölda farþega og bæði jákvæðar og neikvæðar umsagnir þeirra.

Að lokum ræddi Ólafur um þróun leiða og hvaða svigrúm væri í breytingu á fjölda farþega, án þess að breyta einingarverði. Þá nefndi hann utanleiðastaði á leið 57, þ.e. Hvammstanga og Skagaströnd sem eru með pöntunarþjónustu. Einnig staði sem tengjast Siglufjarðar- og Þórshafnarleiðum, þ.e. Árskógssand, Grenivík, Aðaldalsflugvöll og Raufarhöfn.

Guðný Sverrisdóttir spurði um hvort skoðað hefði verið hvernig þjónustu á leggnum til Grenivíkur yrði háttað. Hún kvað sveitarstjórn Grýtubakkahrepps alltaf hafa stutt við framfaramál og nefndi t.d. Menntaskólann á Tröllaskaga og Vaðlaheiðargöng. Leitt væri ef nú fengist enginn stuðningur við almenningssamgöngur til Grenivíkur.

Kristján Möller þakkaði fyrir frumkvæði Eyþings í almenningssamgöngum og fór fáeinum orðum yfir aðkomu sína að þessum málaflokki sem samgönguráðherra. Þá velti hann fyrir sér leiðinni milli Akureyrar og Egilsstaða og hvernig tenging yrði við litlu staðina. Einnig spurði hann um samskiptin milli svæða og hvernig samstarfið yrði við SVA.

Svanfríður Inga Jónasdóttir spurði hvort komið hefði til greina að setja upp ferð frá Akureyri út Eyjafjörð snemma á morgnana. Einnig spurði hún um tengingu við ferjur, t.d. Hríseyjarferjuna.

Kristján Möller spurði um tengingu við flugvöllinn á Akureyri og taldi að hana þyrfti að bæta.

Olga Gísladóttir spurðist fyrir um skólaakstur og hugsanlega tengingu við almennings-samgöngur.

Ólafur varpaði aftur upp síðustu glærunni um þróun leiða og gerði nánari grein fyrir helstu atriðum. Með því svaraði hann fram komnum fyrirspurnum.

Hjálmar Bogi Hafliðason fjallaði um almenningssamgöngur í víðu samhengi og að þær tækju til landfræðilega ólíkra svæða. Spurði um samráð og fundi með Austlendingum og Sunnlendingum.

Ólafur flutti lokaorð.  (Þessum dagskrárlið lauk kl. 10:40).

 

 

11.   Skógarkerfill, bjarnarkló og fleiri umhverfismál.

 

Guðmundur Sigvaldason, sveitarstjóri (formaður nefndar Eyþings).

Aðalfundur Eyþings 2011 samþykkti að gerðar yrðu tillögur um aðgerðir til að stemma stigu við útbreiðslu skógarkerfils og bjarnarklóar á starfssvæðinu. Auk þess ákvað aðalfundurinn að samin skyldi greinargerð um mögulega aðkomu Eyþings, fyrir hönd aðildarsveitarfélaganna, að öðrum þáttum umhverfismála, s.s. málefnum sjálfbærrar þróunar, loftslagsmálum, norðurslóðamálum og umhverfismennt. Á fundi sínum 31. janúar 2012 skipaði stjórn Eyþings þau Bergþóru Kristjánsdóttir, líffræðing, Brynhildi Bjarnadóttur, skógvistfræðing, og Guðmund Sigvaldason, sveitarstjóra, í vinnuhóp til að semja ofangreindar tillögur um skógarkerfil og bjarnarkló og greinargerð um áðurnefnda þætti.

Plönturnar skógarkerfill og bjarnarkló teljast til svokallaðra „ágengra“ plantna. Bjarnarklóin hefur reyndar ekki enn formlega hlotið þá skilgreiningu. Ágengar plöntutegundir eru taldar valda óæskilegum breytingum á vistkerfum, þær eyða innlendum tegundum út og stuðla að einsleitni og eru taldar ógn við líffræðilega fjölbreytni.

Lagt er til að gerð verði langtímaáætlun um upprætingu skógarkerfils (og bjarnarklóar, eftir því sem við á) á starfssvæði Eyþings. Í áætluninni verði sett skýr og raunhæf markmið um aðgerðir og árangur. Þar þarf að koma fram hvað verkefninu er gefinn langur tími og hversu miklum fjármunum verði varið í það. Lagt er til að gerð áætlunarinnar verði fyrsta verk umhverfisfulltrúa Eyþings, sem verði ráðinn, m.a. með eftirfarandi starfssvið:

·           Umsjón með aðgerðum til að sporna gegn útbreiðslu ágengra plöntutegunda, s.s. skógarkerfils og bjarnarklóar á starfssvæðinu.

·           Halda utan um verkefni á sviði sjálfbærrar þróunar á svæðinu, s.s. umhverfisvottunarmál, úrgangsmál og almenningssamgöngur.

·           Vera tengiliður sveitarfélaganna við stofnanir sem sinna norðurslóðamálum svo og tengiliður sveitarfélaganna við viðkomandi erlenda aðila.

·           Hafa umsjón með verkefnum á sviði umhverfismenntar, þ.m.t. að sjá um úttektir vegna vottana „Grænfánans“.

Sjálfbær þróun hefur, um árabil, verið þungamiðja í stefnumótun flestra alþjóðlegra stofnana, svo og í stefnu íslenskra stjórnvalda. Hvert sveitarfélag á starfssvæði Eyþings er fulllítið (nema Akureyri) til að geta haldið uppi virku starfi að málefnum sjálfbærrar þróunar. Þess vegna er hætta á að stofnanir sveitarfélagsins, íbúar og fyrirtæki þess standi utan við þá umræðu og ráðstafanir, sem í gangi eru á hverjum tíma í þeim efnum.

Lagt er til að málefnum sjálfbærrar þróunar innan Eyþingssvæðis verði gert hátt undir höfði m.a. með því að:

·           Fram fari könnun á kostum og göllum þess að Eyþingssvæðið sækist eftir umhverfisvottun til að styrkja innviði sína, minnka kostnað og skapa sér jákvæða ímynd, t.d. skv. Earth Check kerfi.

·           Utanumhald um almenningssamgöngur á starfssvæðinu verði eitt verkefna umhverfis-fulltrúa, og stuðlað verði að því að þær geti eflst markvisst á komandi árum.

·           Núverandi og væntanleg stórfyrirtæki á svæðinu verði hvött til að leggja sig fram um að stuðla að sjálfbærri þróun eftir því sem í þeirra valdi er.

·           Litið verði á úrgang sem auðlind.

·           Stuðlað verði að kolefnisbindingu til hagsbóta fyrir fólk og fyrirtæki á svæðinu.

Umhverfisfulltrúi hafi samræmingarhlutverk milli svæða innan Eyþingssvæðisins og einstakra sveitarfélaga þegar kemur að úrgangsmálum og almenningssamgöngum, auk þess að vinna könnun um hugsanlega umsókn um umhverfisvottun fyrir svæðið.

Á starfssvæði Eyþings er mikið starf unnið á sviði norðurslóðamála. Lagt er til að á vettvangi Eyþings liggi ætíð fyrir grunnþekking á því sem er að gerast í norðurslóðamálum á svæðinu.

Kannað verði hvort raunhæft sé að aðild Akureyrarbæjar að samtökunum Northern Forum færist til Eyþings.

Á starfssvæði Eyþings eru alls 55 leikskólar, grunnskólar, framhaldsskólar og háskólar. Þar af hafa 33 skólar vottun Landverndar um góða frammistöðu í umhverfismálum og mega því flagga svonefndum „Grænfána“ eða hafa stöðuna „á grænni grein“. Lagt er til að leitað verði eftir samningi við Landvernd um að umhverfisfulltrúi Eyþings taki að sér, fyrir hönd samtakanna og í samstarfi við verkefnisstjóra „skóla á grænni grein“, tiltekna þætti í rekstri verkefnisins á starfssvæði samtakanna gegn þóknun.

 

 

 

Eftir yfirferð á tillögum gerði Guðmundur grein fyrir hugmynd að lauslegri áætlun um tekjur og gjöld vegna starfs umhverfisfulltrúa Eyþings, tölur í þ.kr.

Gjöld:

Launakostnaður                                   6.000

Skrifstofukostnaður                               400

Ferðakostnaður                                       600

Samtals                                                    7.000

Tekjur:

Framlög vegna skógarkerfils o.fl.      2.000

Framlög vegna Grænfánans               1.000

Almenn framlög sveitarfélaga            3.000

Af fjárhagsáætlun Eyþings                   1.000

Samtals                                                       7.000

 

Víðir Benediktsson spurði hvaða aðferð væri best til að tortíma skógarkerfli.

Guðmundur sagði að helstu ráðin væru að slá og stinga upp.

 

 

Nefndastörf.  Hófust kl.10:54

 

 

Hádegisverður kl. 12:15

 

 

12.   Aðalfundarstörf.

            (Álit nefnda.  Afgreiðsla tillagna og ályktana, kosningar o.fl.).

 

Fundarstjóri tilkynnti að formenn nefnda myndu gera grein fyrir tillögum nefndanna.

12.1.  Tillögur nefnda.

Fjárhags- og stjórnsýslunefnd.

Í nefndinni sátu:

Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður

Þorbjörn Sigurðsson

Jóhann Ólafsson

Marinó Þorsteinsson (einnig í kjörnefnd)

Geir Kristinn Aðalsteinsson

Tryggvi Þór Gunnarsson

Jónas Vigfússon

Guðný Sverrisdóttir

Arnór Benónýsson

Guðrún María Valgeirsdóttir

Gunnlaugur Stefánsson

Olga Gísladóttir

Elfa Benediktsdóttir (einnig í kjörnefnd)

 

Formaður nefndarinnar þakkaði nefndarfólki fyrir málefnalega vinnu og gerði síðan grein fyrir niðurstöðum.

Ársreikningur 2011

Fjárhags- og stjórnsýslunefnd gerir ekki athugasemdir við ársreikninginn og leggur til við fundinn að hann verði samþykktur.

Endurskoðuð fjárhagsáætlun 2012

Fjárhags- og stjórnsýslunefnd gerir ekki athugasemdir við endurskoðaða fjárhagsáætlun Eyþings fyrir árið 2012 og leggur til að hún verði samþykkt.

Fjárhagsáætlun 2013

Fjárhags- og stjórnsýslunefnd gerir ekki athugasemdir við fjárhagsáætlun Eyþings fyrir árið 2013 og leggur til að hún verði samþykkt.

Endurskoðuð fjárhagsáætlun menningarráðs 2012

Fjárhags- og stjórnsýslunefnd gerir ekki athugasemdir við endurskoðaða fjárhagsáætlun menningarráðs fyrir árið 2012 og leggur til að hún verði samþykkt.

Fjárhagsáætlun menningarráðs 2013

Fjárhags- og stjórnsýslunefnd gerir ekki athugasemdir við tillögu að fjárhagsáætlun menningarráðs fyrir árið 2013 og leggur til að hún verði samþykkt.

 

Framangreindar tillögur um ársreikning og fjárhagsáætlanir voru bornar upp hver fyrir sig og allar samþykktar samhljóða.

 

Tillaga að lagabreytingu

Formaður gerði grein fyrir tillögu að breytingum á lögum Eyþings til samræmis við ný sveitarstjórnarlög.

Samþykkt samhljóða.

Skipulag Eyþings og sóknaráætlun landshlutans

Næst greindi formaður frá umræðum í nefndinni um Ísland 2020 og tillögu Sigurðar Guðmundssonar um sérstakar umræður um skipulag Eyþings. Niðurstaðan varð sú að í stað sérstaks dagskrárliðar til að ræða skipulag samtakanna og aukin verkefni yrði lögð fram eftirfarandi bókun:

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Dalvík dagana 5. og 6. október 2012, samþykkir að samtökin taki þátt í sóknaráætlun landshluta 2020. Stjórn Eyþings skal skipa 7 manna undirbúningshóp sem geri tillögu um framtíðaruppbyggingu verkefnisins, m.a. um samráðsvettvang. Ráðinn verði verkefnastjóri og tryggt verði fjármagn til þess.

Undirbúningshópnum verði ennfremur falið að vinna að því að kortleggja núverandi skipulag og verkefni samtakanna og stoðstofnana á vegum þeirra og aðildarsveitarfélaga. Hópnum verði falið að gera tillögu að stjórnskipulagi Eyþings. Boðað verði til fundar þar sem tillögur undirbúningshópsins verða lagðar fram.

Eftir smá orðaskipti og lagfæringu á orðalagi var tillagan samþykkt samhljóða.

 

 

Velferðar-, mennta- og menningarmálanefnd

 

Margrét Bjarnadóttir, formaður

Bjarkey Gunnarsdóttir

Björn Snorrason

Hanna Rósa Sveinsdóttir

Halla Björk Reynisdóttir (einnig í kjörnefnd)

Njáll Trausti Friðbertsson

Logi Már Einarsson

Leifur Guðmundsson

Eiríkur H. Hauksson

Fjóla V. Stefánsdóttir

Dagbjört Bjarnadóttir

Hjálmar Bogi Hafliðason

 

Formaður nefndarinnar þakkaði nefndarfólki fyrir samstarfið og gerði síðan grein fyrir niðurstöðum.

Umsóknir um IPA styrki

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Dalvík 5. og 6. október 2012, fagnar þeim möguleikum sem felast í IPA styrkjum. Fundurinn beinir því til stjórnar Eyþings að styðja við góð verkefni.

Mótun innanríkisstefnu

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Dalvík 5. og 6. október 2012, fagnar mótun innanríkisstefnu þar sem réttlæti, lýðræði og sterkir innviðir verði hafðir að leiðarljósi. Fundurinn beinir því til stjórnar Eyþings að taka virkan þátt í þessari stefnumótun í samráði við sveitarfélögin.

Menningarsamningar

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Dalvík 5. og 6. október 2012, lýsir ánægju sinni með núgildandi menningarsamninga og leggur áherslu á að þrátt fyrir fyrirhugaðar breytingar í tengslum við sóknaráætlun 2020 verði tryggt að fjármagn til menningarmála á starfssvæði Eyþings skerðist ekki. Fundurinn harmar þann niðurskurð sem varð til verkefna á starfssvæði Eyþings við flutning fjármagns af safnliðum fjárlaga og að við flutning hafi fjármagnið ekki fylgt þeim verkefnum sem flutt voru til menningarráðs. Fundurinn skorar á fulltrúa stjórnvalda að tryggja aukið fjármagn til stofn- og rekstarstyrkja á starfssvæði Eyþings.

Náttúruminjasafn Íslands

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Dalvík 5. og 6. október 2012, harmar þá stöðu sem Náttúruminjasafn Íslands býr við í dag. Víðs vegar um landið er hins vegar rekið metnaðarfullt safna- og sýningarstarf á sviði náttúruminja sem einboðið er að með samstarfi og faglegu utanumhaldi myndi netverk undir merkjum Náttúruminjasafns Íslands. Með því yrði sýningar- og fræðsluhlutverk safnsins í mun nánari tengslum við viðfang sitt – náttúru landsins – en með hefðbundnu sýningarhaldi í einu höfuðsafni. Skorar fundurinn á mennta- og menningarmála-ráðherra að taka til efnislegrar skoðunar hugmyndir af þessu tagi, sem m.a. er að finna í sérstakri greinargerð sem unnin var af Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga og Þekkingarneti Þingeyinga árið 2009 og sendar ráðherra án þess að efnisleg viðbrögð hafi borist.

Til máls tóku: Hjálmar Bogi Hafliðason, Logi Einarsson, Pétur Þór Jónasson, Jónas Vigfússon og Guðný Sverrisdóttir.

 

Byggðamál

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Dalvík 5. og 6. október 2012, leggur til að Byggðarstofnun flytjist til Innanríkisráðuneytisins þar sem byggðarmál eru nátengd sveitarstjórnarmálum. Mikilvægt er að þessir málaflokkar séu innan sama ráðuneytis.

Löggæsla og heilbrigðisþjónusta

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Dalvík 5. og 6. október 2012, beinir því til ríkisvaldsins að samhliða fjölgun ferðamanna og mikilli umferð á svæðinu verði þess gætt að löggæsla og nauðsynleg heilbrigðisþjónusta sé tryggð á svæðinu.

Staða Sjúkrahússins á Akureyri (FSA)

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Dalvík 5. og 6. október 2012, lýsir þungum áhyggjum af stöðu Sjúkrahússins á Akureyri (FSA) hvað varðar mönnun og tækjabúnað. Fundurinn ítrekar hlutverk sjúkrahússins sem þjónustustofnunnar fyrir Norður- og Austurland, þ.e. sérgreinasjúkrahús, kennslusjúkrahús og aðalvarasjúkrahús landsins. Fundurinn hvetur til heildrænnar úttektar og stefnumótunar á heilbrigðisþjónustu (heilsugæslu, sjúkrahúss- og bráðaþjónustu) á starfssvæði Eyþings og landinu öllu.

Bráðavandi FSA

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Dalvík 5. og 6. október 2012, skorar á velferðarráðherra og ríkisstjórn að leggja fjármagn til lausnar á þeim bráðavanda sem er í mönnun á sérfræðingum við FSA.

Dreifbýlis- lækningar og hjúkrun

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Dalvík 5. og 6. október 2012, hvetur til að sett verði á laggirnar nám í dreifbýlislækningum og hjúkrun í samvinnu við Heilbrigðisdeild Háskólans á Akureyri og heilbrigðisstofnanir á svæðinu.

Háskólinn á Akureyri

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Dalvík 5. og 6. október 2012, bendir á að Háskólinn á Akureyri hefur haft mikla þýðingu fyrir menntun á landsbyggðinni og hefur styrkt búsetu og atvinnulíf á svæði Eyþings. Fundurinn ítrekar mikilvægi Háskólans á Akureyri fyrir samfélagið á starfssvæði Eyþings í heild sinni.

Til máls tóku: Sigurður Guðmundsson, Dagbjört Jónsdóttir, Andrea Sigrún Hjálmsdóttir og Jónas Vigfússon.

 

Eftir nokkra óformlega umræðu og smávægilegar orðalagsbreytingar á tillögum nefndarinnar voru þær allar samþykktar samhljóða, eins og að framan greinir.

 

Atvinnu-, umhverfis- og samgöngumálanefnd

Í nefndinni sátu:

Jón Hrói Finnsson, formaður

Egill Rögnvaldsson

Kristján E. Hjartarson

Guðmundur Sigvaldason

Víðir Benediktsson

Sigurður Guðmundsson

Andrea Sigrún Hjálmsdóttir

Dagbjört Jónsdóttir

Bergur Elías Ágústsson

Siggeir Stefánsson

Formaður nefndarinnar þakkaði nefndarfólki fyrir samstarfið og gerði síðan grein fyrir niðurstöðum.

Aðgerðir gegn ágengum plöntum á starfssvæði Eyþings

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Dalvík 5. og 6. október 2012, lýsir áhyggjum sínum af vaxandi útbreiðslu ágengra plöntutegunda á borð við skógarkerfil og bjarnarkló. Aðalfundurinn kallar eftir áframhaldandi aðkomu ríkisvaldsins að þeirri varnarbaráttu sem sveitarfélögin heyja gegn þessum vágestum í íslenskri náttúru.

Hugmyndir um stöðu umhverfisfulltrúa

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Dalvík 5. og 6. október 2012, samþykkir að vísa framkominni greinargerð um skógarkerfil, bjarnarkló og fleiri umhverfismál til afgreiðslu hjá stjórn Eyþings. Aðalfundurinn telur að talsvert hagræði geti verið af því fyrir aðildarsveitarfélögin, að Eyþing vinni að þeim umhverfisþáttum sem ekki virða sveitarfélagamörk, svo sem samræmingu baráttunnar gegn ágengum jurtum og dýrum, úrgangsmála og öðrum þáttum sjálfbærrar þróunar.

Vaðlaheiðargöng

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Dalvík 5. og 6. október 2012, fagnar því að loks hylli undir að framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng hefjist fyrir alvöru.

Stytting hringvegarins

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Dalvík 5. og 6. október 2012, leggur áherslu á nauðsyn þess að hringvegurinn verði styttur. Fyrir liggur að stytting hans stuðlar að auknu umferðaröryggi með fækkun slysa, er þjóðhagslega hagkvæm og að framkvæmdin þjónar því heildarhagsmunum íbúa og fyrirtækja í landinu.

Hálendisvegur

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Dalvík 5. og 6. október 2012, leggur til að teknar verði upp að nýju hugmyndir um hálendisveg yfir Kjöl.

Malarvegir í Langanesbyggð

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Dalvík 5. og 6. október 2012, fagnar þeim vegasamgöngubótum sem þegar eru orðnar og fyrirhugaðar eru í nánustu framtíð. Fundurinn telur ótækt að enn eigi eftir að byggja upp 27 km stofnvegarins á milli Bakkafjarðar og Þórshafnar og leggja á þá bundið slitlag. Kaflarnir eru slæmir malarkaflar sem skapa mikla slysahættu og standa í vegi fyrir eðlilegri atvinnuþróun innan Langanesbyggðar.

Til máls tóku: Jónas Vigfússon og Víðir Benediktsson.

Almenningssamgöngur

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Dalvík 5. og 6. október 2012, fagnar því skrefi sem tekið hefur verið varðandi almenningssamgöngur um Norðurland. Aðalfundurinn leggur áherslu á að stjórnvöld tryggi nægilegt fjármagn til að tryggja framgang verkefnisins til framtíðar.

Innanlandsflugið

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Dalvík 5. og 6. október 2012, leggst eindregið gegn því að miðstöð innanlandsflugs verði flutt úr Vatnsmýrinni. Flutningur flugvallarins myndi draga verulega úr aðgengi íbúa landsbyggðanna að heilbrigðisþjónustu, stjórnsýslu, viðskiptalífi og menningarlífi. Kostnaður við sjúkraflug mun aukast og öryggi sjúklinga minnka. Líkur eru á að flug myndi leggjast af til nokkurra staða. Flutningurinn myndi því hafa alvarleg áhrif á lífsgæði íbúa landsbyggðanna og auka verulega þann kostnað sem þeir bera.

Jafnframt leggst aðalfundurinn eindregið gegn áformum um að hætta stuðningi við flugsamgöngur til og frá Þórshöfn um áramótin 2013/2014. Flugsamgöngur til Þórshafnar, Vopnafjarðar, Húsavíkur og Grímseyjar eru ein af lífæðum samfélagsins sem nauðsynlegt er að standa vörð um.

Til máls tóku: Halla Björg Reynisdóttir, Eiríkur Hauksson, Siggeir Stefánsson og Pétur Þór Jónasson.

Yfirstjórn Vatnajökulsþjóðgarðs

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Dalvík 5. og 6. október 2012, ítrekar tillögur samtakanna um að yfirstjórn Vatnajökulsþjóðgarðs verði flutt frá Reykjavík heim í hérað og að svæðisráðunum verði falin stjórnun hans. Þannig yrði allt framkvæmdavald og fjárráð viðkomandi rekstrarsvæðis í héraði, sem er í samræmi við markmið er varða styrkingu byggðar og atvinnustarfsemi í nágrenni þjóðgarðsins.

Til máls tóku: Hjálmar Bogi Hafliðason, Guðrún María Valgeirsdóttir og Eiríkur Hauksson.

Nýting orkuauðlinda í Þingeyjarsýslum

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Dalvík 5. og 6. október 2012, leggur þunga áherslu á að stjórnvöld, í samvinnu við heimafólk, vinni áfram markvisst að undirbúningi nýtingar þeirrar orku sem er að finna á háhitasvæðum í Þingeyjarsýslum. Það er nauðsynlegt að leggja grunn að uppbyggingu nýrrar atvinnustarfsemi á svæðinu og skapa þannig forsendur góðra lífskjara íbúa og jákvæðrar byggðaþróunar.

Fráveitumál

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Dalvík 5. og 6. október 2012, telur mikilvægt að stuðningur ríkisins við fráveituframkvæmdir sveitarfélaga verði tryggður.

Til máls tóku: Jónas Vigfússon og Kristján E. Þórarinsson.

Jöfnun raforkukostnaðar

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Dalvík 5. og 6. október 2012, skorar á Alþingi að jafna að fullu raforkuverð til almennra notenda á landinu. Mikið vantar upp á að niðurgreiðslur skv. lögum nr. 98/2004 um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku standi undir markmiðum laganna.

Úrbætur vegna takmarkana í flutningsgetu á raforku:

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Dalvík 5. og 6. október 2012, lýsir yfir áhyggjum af því að takmörkuð flutningsgeta á rafmagni innan svæðisins geti haft þau áhrif að skekkja samkeppnisstöðu fyrirtækja á starfssvæði Eyþings. Flutningsgeta má ekki standa eðlilegri atvinnuþróun og atvinnuuppbyggingu fyrir þrifum. Samhliða þessu þarf að huga að öryggi í afhendingu á rafmagni en fyrirtæki á Norðurlandi hafa upplifað rafmagnsleysi í tvígang á árinu sem hefur haft veruleg áhrif á rekstur fyrirtækjanna.

Þá leggur fundurinn þunga áherslu á að þriggja fasa rafmagn verði í boði á öllu svæðinu.

Húshitunarkostnaður á köldum svæðum:

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Dalvík 5. og 6. október 2012, leggur þunga áherslu á að jöfnun húshitunarkostnaðar á landsvísu verði gert að forgangsmáli til að jafna búsetuskilyrði í landinu. Niðurgreiðslur á rafmagni til húshitunar hafa dregist saman og bilið á milli húshitunarkostnaðar á köldum svæðum og svæðum þar sem hitaveita er til staðar hefur breikkað verulega.

Þjónusta við norðurslóðir

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Dalvík 5. og 6. október 2012, styður við hugmyndir um uppbyggingu umskipunar- og þjónustuhafna á starfssvæði Eyþings vegna olíuleitar og námuvinnslu og fagnar því frumkvæði sem einstök aðildarsveitarfélög hafa sýnt.

Siggeir Stefánsson kom í pontu og gerði grein fyrir því sem gert hefði verið í þessum málum í Langanesbyggð. Hann taldi mikilvægt að ná þjónustu inn á Eyþingssvæðið og benti á að styst væri frá Drekasvæðinu til Langanesbyggðar og því væri eðlilegt að sveitarstjórn þar skoðaði vel þá möguleika sem væru fyrir hendi. Önnur þjónusta t.d. við Grænland sem m.a. hefði verið til umræðu í Fjallabyggð væri annars eðlis og þetta þyrfti ekkert að rekast á.

Einnig tóku til máls Svanfríður Inga Jónasdóttir og Logi Már Einarsson.

Bætur vegna búsifja af völdum óveðursins í byrjun september

Aðalfundur Eyþings, haldinn á Dalvík 5. og 6. október 2012, fagnar því að ríkisvaldið hefur lofað að tryggja bændum bætur vegna þess tjóns sem þeir urðu fyrir vegna óveðursins sem gekk yfir Norðurland í byrjun september.

Til máls tóku: Dagbjört Bjarnadóttir, Guðrún María Valgeirsdóttir Jónas Vigfússon og Guðmundur Baldvin Guðmundsson.

 

Eftir nokkra óformlega umræðu og smávægilegar orðalagsbreytingar á tillögum nefndarinnar voru þær allar samþykktar samhljóða, eins og að framan greinir, nema tillagan um hugmyndir um stöðu umhverfisfulltrúa, en þar var eitt mótatkvæði.

 

 

12.2.  Tillögur frá Kjörnefnd.

Í nefndinni sátu:

Halla Björk Reynisdóttir, Akureyri, formaður, (einnig í velferðar-, mennta- og menningarmála-nefnd).

Marinó Þorsteinsson, Dalvíkurbyggð, (einnig í fjárhags- og stjórnsýslunefnd).

Elfa Benediktsdóttir, Svalbarðshreppi, (einnig í fjárhags- og stjórnsýslunefnd).

 

Formaður nefndarinnar, Halla Björk Reynisdóttir, þakkaði nefndarfólki fyrir samstarfið og gerði síðan grein fyrir niðurstöðum.

 

Kosning í menningarráð Eyþings.

Tillaga kjörnefndar er að 2012 til 2014 verði menningarráð skipað eftirtöldum:

Aðalmenn:

Arnór Benónýsson, Þingeyjarsveit

Logi Einarsson, Akureyri

Hanna Rósa Sveinsdóttir, Hörgársveit

Hildur Stefánsdóttir, Svalbarðshreppi

Bjarni Valdimarsson, Dalvíkurbyggð

Þórgunnur Reykjalín, Norðurþingi

Varamenn í sömu röð:

Erna Þórarinsdóttir, Skútustaðahreppi

Andrea Hjálmsdóttir, Akureyri

Bryndís Símonardóttir, Eyjafjarðarsveit

Sigríður Jóhannesdóttir, Langanesbyggð

Bjarkey Gunnarsdóttir, Fjallabyggð

Hjálmar Bogi Hafliðason, Norðurþingi

Samþykkt samhljóða.

 

Val á endurskoðanda til eins árs.

Tillaga kjörnefndar er að endurskoðandi verði sá sami og verið hefur, KPMG, Akureyri, Arnar Árnason, löggiltur endurskoðandi, en að leitað verði tilboða í vinnu endurskoðanda fyrir næsta aðalfund.

Jón Hrói Finnsson óskaði eftir því sérstaklega að fært yrði til bókar að leitað verði tilboða í endurskoðun fyrir starfsemi Eyþings.

Hanna Rósa Sveinsdóttir las upp tillögu kjörnefndar frá síðasta aðalfundi þessa efnis, sem var samþykkt, en hafði ekki verið framfylgt.

Geir Kristinn Aðalsteinsson sagði að ósk hefði komið fram frá endurskoðanda um að annast endurskoðun fyrir Eyþing.

Jón Hrói lagði fram tillögu um að sami endurskoðandi yrði ráðinn tímabundið fram að auka aðalfundi og að stjórn Eyþings yrði falið að leita eftir tilboðum í endurskoðun fyrir samtökin.

Halla Björk sagði að kjörnefndin féllist á þetta og gerði það að sinni tillögu.

Samþykkt samhljóða.

 

Tillaga kjörnefndar er að 2012 til 2014 verði stjórn Eyþings skipað eftirtöldum:

Aðalmenn:

Geir Kristinn Aðalsteinsson, Akureyri

Guðný Sverrisdóttir, Grýtubakkahreppi

Sigurður Valur Ásbjarnarson, Fjallabyggð

Dagbjört Bjarnadóttir, Skútustaðahreppi

Gunnlaugur Stefánsson, Norðurþingi

Formaður: Geir Kristinn Aðalsteinsson

Varamenn í sömu röð:

Halla Björk Reynisdóttir, Akureyri

Jón Hrói Finnsson, Svalbarðsstrandarhreppi

Marinó Þorsteinsson, Dalvíkurbyggð

Siggeir Stefánsson, Langanesbyggð

Soffía Helgadóttir, Norðurþingi

Samþykkt samhljóða með lófaklappi.

 

Geir Kristinn fór í pontu og þakkaði fyrir traustið í formannskjörinu. Mörg stór verkefni biðu nýrrar stjórnar, m.a. samvinna við atvinnuþróunarfélögin á starfssvæði Eyþings og vinna við Ísland 2020 sem horfa bæri á sem tækifæri til góðra aðgerða. Hann þakkaði sérstaklega þeim sem nú hefðu gengið úr stjórn Eyþings, Bergi Elíasi og Hönnu Rósu, fyrir gott starf í þágu sveitarfélaganna á svæðinu.

12.3.  Ákvörðun um fundarstað næsta aðalfundar.

Guðný Sverrisdóttir, sveitarstjóri Grýtubakkahrepps kvaddi sér hljóðs. Hún sagðist hafa upplifað gamla tíma í óvissuferð gærkvöldsins þegar Víkurröst var skoðuð, m.a. ársfund Fjórðungssambands Norðlendinga haustið 1987. Síðan bauð hún til næsta aðalfundar Eyþings að ári á Grenivík.

12.4.  Önnur mál.

Fundarstjóri greindi frá því að síðdegis yrði listviðburður í Bergi og stóðréttir í Svarfaðardal, ef fundarmenn vildu njóta góða veðursins þar. Hann þakkaði fundarmönnum fyrir góða fundarsetu, þátttöku í nefndastörfum og gagnlega umræðu. Að síðustu þakkaði hann starfsmönnum fundarins og framkvæmdastjóra fyrir undirbúninginn, óskaði öllum viðstöddum góðrar heimferðar og sagði fundi slitið.  Þá var klukkan 14:56.

 

 

 

Fyrirlesarar:

Anna Margrét Guðjónsdóttir, ráðgjafi, am ráðgjöf.

Hermann Sæmundsson, skrifstofustjóri í innanríkisráðuneytinu.

Hólmfríður Sveinsdóttir, verkefnisstjóri, Byggðastofnun.

Jón Óskar Pétursson, framkvæmdastjóri, SSNV.

Ólafur Jakobsson, tæknifulltrúi hjá Akureyrarbæ.

Guðmundur Sigvaldason, sveitarstjóri Hörgárbyggð.

 

 

Gestir:

Arnheiður Jóhannsdóttir, verkefnisstjóri Markaðsstofu ferðamála á Norðurlandi.

Ásbjörn Björgvinsson, forstöðumaður Markaðsstofu ferðamála á Norðurlandi.

Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri Akureyri.

Hjalti Jóhannesson, framkvæmdastjóri RHA.

Höskuldur Þórhallsson, alþingismaður Norðausturkjördæmi.

Jóhannes Tómasson, upplýsingafulltrúi, innanríkisráðuneyti.

Jónína Rós Guðmundsdóttir, alþingismaður Norðausturkjördæmi.

Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Kristján L. Möller, alþingismaður Norðausturkjördæmi.

Kristján Þór Júlíusson, alþingismaður Norðausturkjördæmi.

Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri, innanríkisráðuneyti.

Reinhard Reynisson, framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga.

Sigmundur Ernir Rúnarsson, alþingismaður Norðausturkjördæmi.

Sigríður Jóhannesdóttir, skrifstofustjóri, Langanesbyggð.

Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra.

Tryggvi Þór Herbertsson, alþingismaður Norðausturkjördæmi.

Þorleifur Gunnlaugsson, formaður nefndar um rafræna stjórnsýslu.

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar.

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra.

 

 

Starfsmenn og embættismenn:

Alfreð Schiöth, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra.

Jóhann Ólafsson, fundarstjóri, Dalvíkurbyggð.

Svanfríður Inga Jónasdóttir, fundarstjóri, Dalvíkurbyggð.

Pétur Þór Jónasson, framkvæmdastjóri Eyþings.

Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, menningarfulltrúi Eyþings.

Þórgunnur Reykjalín Vigfúsdóttir, formaður Menningarráðs Eyþings.

Valtýr Sigurbjarnarson, ráðinn fundarritari.

 

 

 

Kjörnir fulltrúar á aðalfund Eyþings 2012

 

Sveitarfélag

 

Aðalfulltrúar

 

Varafulltrúar

Fjallabyggð

X

Bjarkey Gunnarsdóttir

X

Sigurður Hlöðversson

Fjallabyggð

X

Egill Rögnvaldsson

 

Guðmundur G. Sveinsson

Fjallabyggð

 

Sigurður Valur Ásbjarnarson

 

Ásdís Pálmadóttir

Fjallabyggð

X

Þorbjörn Sigurðsson

 

S. Guðrún Hauksdóttir

Dalvíkurbyggð

X

Björn Snorrason

 

 

Dalvíkurbyggð

X

Jóhann Ólafsson

 

Sveinn Torfason

Dalvíkurbyggð

X

Kristján E. Hjartarson

 

Heiða Hringsdóttir

Dalvíkurbyggð

X

Marinó Þorsteinsson

 

Guðmundur St. Jónsson

Hörgársveit

X

Guðmundur Sigvaldason

 

Axel Grettisson

Hörgársveit

X

Hanna Rósa Sveinsdóttir

 

Sunna Hlín Jóhannesdóttir

Akureyrarbær

X

Andrea Sigrún Hjálmsdóttir

 

Edward H. Huijbens

Akureyrarbær

X

Geir Kristinn Aðalsteinsson

 

Oddur Helgi Halldórsson

Akureyrarbær

X

Guðmundur B. Guðmundsson

 

Petrea Ósk Sigurðardóttir r

Akureyrarbær

X

Halla Björk Reynisdóttir

X

Víðir Benediktsson

Akureyrarbær

 

Hlín Bolladóttir

 

Inda Björk Gunnarsdóttir

Akureyrarbær

X

Logi Már Einarsson

 

Ragnar Sverrisson

Akureyrarbær

 

Ólafur Jónsson

X

Njáll Trausti Friðbertsson

Akureyrarbær

X

Tryggvi Þór Gunnarsson

 

Silja Dögg Baldursdóttir

Akureyrarbær

X

Sigurður Guðmundsson

 

Anna Hildur Guðmundsdóttir

Eyjafjarðarsveit

 

Arnar Árnason

 

Einar Gíslason

Eyjafjarðarsveit

X

Jónas Vigfússon

 

Kristín Kolbeinsdóttir

Eyjafjarðarsveit

X

Leifur Guðmundsson

 

 

Svalbarðsstrandarhreppur

X

Eiríkur Hauksson

 

Helga Kvam

Svalbarðsstrandarhreppur

X

Jón Hrói Finnsson

 

Guðmundur Bjarnason

Grýtubakkahreppur

X

Guðný Sverrisdóttir

X

Fjóla V. Stefánsdóttir

Grýtubakkahreppur

 

Jón Helgi Pétursson

 

Ásta Fönn Flosadóttir

Þingeyjarsveit

X

Arnór Benónýsson

 

Árni Pétur Hilmarsson

Þingeyjarsveit

X

Dagbjört Jónsdóttir

 

Ólína Arnkelsdóttir

Þingeyjarsveit

X

Margrét Bjarnadóttir

 

Friðrika Sigurgeirsdóttir

Skútustaðahreppur

X

Dagbjört Bjarnadóttir

 

Böðvar Pétursson

Skútustaðahreppur

X

Guðrún María Valgeirsdóttir

 

Friðrik Jakobsson

Norðurþing

X

Bergur Elías Ágústsson

 

Sigríður Valdimarsdóttir

Norðurþing

X

Hjálmar Bogi Hafliðason

 

Þráinn Guðni Gunnarsson

Norðurþing

 

Jón Helgi Björnsson

X

Gunnlaugur Stefánsson

Norðurþing

 

Jón Grímsson

 

Soffía Helgadóttir

Norðurþing

 

Trausti Aðalsteinsson

X

Olga Gísladóttir

Tjörneshreppur

 

Steinþór Heiðarsson

 

Eiður Árnason

Svalbarðshreppur

X

Elfa Benediktsdóttir

 

Sigurður Þór Guðmundsson

Langanesbyggð

 

Gunnólfur Lárusson

 

Ævar Rafn Marinósson

Langanesbyggð

X

Siggeir Stefánsson

 

Reimar Sigurjónsson

 

Rétt til setu á aðalfundinum 2012 áttu 40 fulltrúar frá 13 sveitarfélögum. Mættir voru 36, þar af voru 6 varamenn, sjá ofangreinda töflu.

Getum við bætt síðuna?