Fara í efni

Fundargerð - Stjórn Eyþings - 26.08.2015

14.09.2015

Árið 2015, miðvikudaginn 26. ágúst, kom stjórn Eyþings saman til fundar í Ráðhúsinu  við Ingveldartorg á Dalvík. Mætt voru Logi Már Einarsson formaður, Arnór Benónýsson í síma, Bjarni Theodór Bjarnason, Hilma Steinarsdóttir og Sif Jóhannesdóttir. Gunnar Gíslason mætti í stað Evu Hrundar Einarsdóttur sem boðaði forföll. Jón Stefánsson boðaði einnig forföll sem og varamaður hans. Einnig var framkvæmdastjóri, Pétur Þór Jónasson, mættur.

Fundur hófst kl. 14:10.

Þetta gerðist helst.

  1. Skipun í vinnuhóp um stöðu og framtíð framhaldsskólanna á norðaustursvæði.

Vísað er til bréfs frá mennta- og menningarmálráðuneytinu, dags. 10. júní , og tölvupóst frá ráðuneytinu frá 2. júlí þar sem óskað er eftir að Eyþing tilnefni tvo fulltrúa. Einnig vísað til umfjöllunar í 268. og 29. fundargerð stjórnar. Stjórnin samþykkti tilnefningar í tölvupóstum. Eftirtaldir voru tilnefndir:

Laufey Petrea Magnúsdóttir, Mosateigi 6, Akureyri.

Halldór Valdimarsson, Garðarsbraut 37, Húsavík.

  1. Aðalfundur 2015.

Framkvæmdastjóri hefur átt fund með forsvarsmönnum Hörgársveitar vegna undirbúnings fundarins.

Samþykkt var að halda fundinn 9. og 10. október. Fundarstaður verður Félagsheimilið Hlíðarbæ og Gistiheimilið Skjaldarvík mun annast veitingar auk þess sem þar geta fundarmenn pantað gistingu.

Rætt var um áherslur fundarins og leggur stjórnin til að eftirtalin málefni verði sérstaklega tekin til umræðu: Sóknaráætlun, málefni framhaldsskólanna, staða Háskólans á Akureyri og almenningssamgöngur. Þá greindi Arnór frá því að hann ætlaði að leggja fram  tillögu um nýtt hlutverk menningarráðs og stefndi að því að kynna hana á næsta fundi stjórnar.

  1. Sóknaráætlun.

(a)     Sóknaráætlun 2015 – 2019 (stefnuskjal), dags. 1. júlí 2015.

Áætlunin var lögð fram og rædd. Næsta skref er að útfæra nánar leiðir að þeim markmiðum sem sett eru fram í áætluninni. Fram komu efasemdir um að heppilegt væri að kalla saman jafn stóran samráðsvettvang eins og stefnt var að og bent á að mjög víðtækt samráð hefði verið í formi svæðafundanna. Framkvæmastjóra falið að skoða útfærslu á mun minni samráðvettvangs og ræða við verkefnisstjóra stýrihóps Stjórnarráðsins. 

(b)     Verkefni um millilandaflug – Norðurland – hlið inn í landið.

Áþekkt áhersluverkefni (sama heiti) var í Sóknaráætlun Norðurlands eystra 2013, en ekki reyndist þá mögulegt að koma því í framkvæmd. Ónýtt fjármagn (15.000.000 kr.) var flutt í nýjan samning 2015 – 2019. Verkefnið hefur nú verið endurskilgreint og var ný verkefnislýsing lögð fram. Verkefnið verður unnið á vegum flugklasans Air 66N sem vistaður er hjá Markaðsstofu Norðurlands.

Stjórnin samþykkir að endurúthluta 15 mkr. til verkefnisins.

 

(c)      Áhersluverkefni.

Framkvæmdastjóri fór yfir nokkrar hugmyndir sem fram hafa komið. Stjórnin hefur þegar samþykkt (268. fundur) að leggja 10,6 mkr. í ár til að halda úti starfi menningarfulltrúa til að sinna þróun og ráðgjöf í menningarmálum.

Þá leggur stjórnin til að unnið verði með eftirfarandi verkefnishugmyndir:

Skapandi skólastarf, grunngerð og mannauð í menningarmálum, fuglaskoðunarverkefnið Birding Iceland og loks matartengda ferðaþjónustu. Fram komu grófar hugmyndir um skiptingu styrkupphæðar.

Framkvæmdastjóra var falið að ganga frá verkefnisskilgreiningum í samráði við væntanlega framkvæmdaaðila verkefna. Gunnar og Logi munu útfæra nánar verkefnishugmyndina að skapandi skólastarfi,

(d)     Fundargerðir stýrihóps, 12. – 13. fundur.

Lagðar fram.

(e)      Fundur með fulltrúum stýrihóps um framkvæmd samnings um sóknaráætlun.

Stýrihópurinn mun eiga fundi á næstu vikum með stjórnum og framkvæmdastjórum allra landshlutasamtaka og þeim sem annast hafa umsýslu uppbyggingarsjóðanna. Framkvæmdastjóra falið að hafa samband við fulltrúa stýrihópsins um hentugan fundartíma.

(f)      Lög um byggðaþróun og sóknaráætlanir, nr. 69/2015.

Lögð fram.

  1. Almenningssamgöngur.

(a)     Sölustaðir.

Lagt var fram yfirlit um sölustaði miða fyrir strætó. Bætt hefur verið úr miðasölu á Akureyri en miðar eru nú seldir í Hofi, auk bensínstöðvanna. Hilma tók að sér að skoða lausn á miðasölumálum á Þórshöfn.

(b)     Rekstraryfirlit 2015.

Lagt var fram yfirlit um fyrstu sjö mánuði ársins. Reksturinn er í grófum dráttum í samræmi við áætlun.

Framkvæmdastjóra falið að ítreka beiðni frá því sl. vor um fund með innanríkisráðherra um stöðuna í almenningssamgöngum, ásamt því að ræða við framkvæmdastjóra SSV um framhaldsviðræður varðandi uppgjör á leið 57 (Akureyri – Reykjavík).

 

  1. Bréf frá Ferðamálastofu, dags. 7. ágúst, um breytt fyrirkomulag við samningsgerð hvað varðar svæðisbundið samstarf á sviði ferðamála.

Lagðar voru fram athugasemdir framkvæmdastjóra Markaðsstofu Norðurlands við þær hugmyndir sem kynntar eru í bréfinu.

Upplýst var að framkvæmdastjóri Fjórðungssambands Vestfirðinga, sem leiðir samstarf landshlutasamtakanna, hefur óskað eftir fundi með innanríkisráðherra til að fara yfir málið. Stjórnin samþykkir að bíða þess fundar.

 

  1. Erindi frá Byggðastofnun, dags. 18. ágúst, um skipan fulltrúa í verkefnisstjórnir í verkefninu „Brothættar byggðir“.

Stjórnin samþykkir að skipa eftirtalda:

Pétur Þór Jónasson í verkefnisstjórnir Raufarhafnar og Kópaskers.

Gunnar Gíslason í verkefnisstjórnir Grímseyjar og Hríseyjar.

  1. Fundaáætlun fyrir ágúst – desember.

Eftifarandi fundaáætlun var samþykkt:

  • Mánudag 14.9. á Þórshöfn
  • Föstudag 9.10. (í tengslum við aðalfund)
  • Miðvikudag 21.10.
  • Miðvikudag 18.11.
  • Miðvikudag 16.12.

 Fundi slitið kl. 16:30.

Pétur Þór Jónasson ritaði fundargerð.

Getum við bætt síðuna?