Fara í efni

Fundargerð - Skýrsla stjórnar nóvember 2019

15.11.2019

Aðalfundur Eyþings 15. og 16. nóvember 2019

Skýrsla stjórnar starfsárið 2018-2019

Í stjórn Eyþings sitja Hilda Jana Gísladóttir formaður, Akureyri, Sóley Björk Stefánsdóttir, Akureyri, Kristján Þór Magnússon, Norðurþingi, Axel Grettisson, Hörgársveit, Helgi Héðinsson, Skútustaðahreppi, Katrín Sigurjónsdóttir, Dalvíkurbyggð, og Elías Pétursson, Langanesbyggð.

Stjórn hefur nú setið í eitt ár og er óhætt að segja að starfsárið hafi verið fremur þungt. Það skýrist einna helst af miklum breytingum meðal starfsmanna, vinnu við endurskipulagningu Eyþings og atvinnuþróunarfélaganna og vinnu við nýja sóknaráætlun Norðurlands eystra til næstu fimm ára. Einnig hafa almenningssamgöngur nú líkt og áður einnig sett svip á starfið. Verkefnin eru þó töluvert fleiri og verður farið yfir þau helstu hér á eftir.

Stjórnin hefur á starfsárinu haldið 17 bókaða stjórnarfundi og tekið til umræðu og afgreiðslu um 125 mál. Hér að neðan verður farið yfir helstu atriði í starfsemi Eyþings á liðnu starfsári. Vakin er athygli á að í fundargerðum stjórnar er að öllu jöfnu gerð ítarleg grein fyrir þeim málum sem eru til umfjöllunar.

Nefndir, ráð og starfshópar.
Stjórn Eyþings skipar eða tilnefnir fulltrúa í nokkrar nefndir. Skipunartími þeirra er all misjafn. 

Skólanefnd Framhaldsskólans á Laugum. Samkvæmt tilnefningu Eyþings voru skipaðir sem aðalmenn Dagbjört Jónsdóttir, Þingeyjarsveit og Bjarni Höskuldsson, Þingeyjarsveit og til vara Sigurður Böðvarsson, Mývatnssveit og Guðrún María Valgeirsdóttir, Mývatnssveit (293. fundur). 

Fjallskila- og markanefnd í Eyjafirði. Í nefndinni sitja Ólafur G. Vagnsson, Eyjafjarðarsveit, sem er formaður, Árni Sigurður Þórarinsson, Dalvíkurbyggð, og Þórarinn Ingi Pétursson, Grýtubakkahreppi (287. fundur).

Norðurslóðanet Íslands. Framkvæmdastjóri á seturétt sem áheyrnarfulltrúi á stjórnarfundum í samræmi við stofnskrá. Rétt er að minna á að stofnun Norðurslóðanetsins er fyrsta verkefnið sem ráðist var í á grunni sóknaráætlunar á Norðurlandi eystra árið 2012.

Vinnumarkaðsráð Norðurlands eystra. Eftirtaldir voru skipaðir: Gunnlaugur Stefánsson, Húsavík og Linda Margrét Sigurðardóttir, Eyjafjarðarsveit (varamaður) (267. fundur).

Verkefnisstjórnir í verkefninu „Brothættar byggðir“. Framkvæmdastjóri Eyþings situr í verkefnisstjórn Öxarfjarðar og sat einnig í verkefnisstjórn Raufarhafnar en því verkefni lauk formlega í janúar sl. Gunnar Gíslason, bæjarfulltrúi á Akureyri, situr í verkefnisstjórnum Grímseyjar og Hríseyjar (270. fundur). Vigdís Rún Jónsdóttir situr í stjórn brothættra byggða á Bakkafirði (326.fundur)

Samstarfsverkefni um bætta nýtingu orkuauðlinda. Félag um verkefnið fékk nafnið Eimur. Arnór Benónýsson var skipaður í stjórn verkefnisins. Eva Hrund Einarsdóttir skipuð varamaður (304. fundur). Sigurður Ingi Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs (279. fundur) og María Helena Tryggvadóttir, verkefnastjóri hjá Akureyrarstofu (317.fundur) voru skipuð í verkefnastjórn félagsins. Einn varamaður var skipaður frá hvoru atvinnuþróunarfélagi (279. fundur).

Starfshópur um úrgangsmál í tengslum við áhersluverkefni Eyþings og SSNV. Af hálfu Eyþings voru Kristján Þór Magnússon og Gunnar I. Birgisson skipaðir. Stjórn SSNV skipaði Einar E. Einarsson í starfshópinn.

Fagráð menningar - Menningarráð fyrir uppbyggingarsjóð (5 fulltrúar). Eftirtaldir voru skipaðir: Hulda Sif Hermannsdóttir formaður, Akureyri, Sólveig Elín Þórhallsdóttir, HA, Magnús G. Ólafsson, Fjallabyggð, Guðni Bragason, Norðurþingi og Líney Sigurðardóttir, Langanesbyggð (314. fundur). Varamenn: Guðrún Kristín Jóhannsdóttir, Norðurþingi, og Sigfús Karlsson, Akureyri (314. fundur).

Fagráð atvinnuþróunar og nýsköpunar fyrir uppbyggingarsjóð (5 fulltrúar). Eftirtaldir voru skipaðir: Eiríkur H. Hauksson formaður, Svalbarðsstrandarhreppi, Heiðrún Ólafsdóttir, Langanesbyggð, Eva Dereksdóttir, Akureyri, Margrét Víkingsdóttir, Dalvíkurbyggð og og Thomas Helmig, Norðurþingi (314. fundur). Varamenn: Sigríður Bjarnadóttir, Eyjafjarðarsveit og Elías Pétursson, Langanesbyggð (314. fundur).

Úthlutunarnefnd uppbyggingarsjóðs (5 fulltrúar). Eftirtaldir voru skipaðir: Eva Hrund Einarsdóttir formaður, Akureyri, Eiríkur H. Hauksson, Svalbarðsstrandarhreppi, Hulda Sif Hermannsdóttir, Akureyri, Tryggvi Finnsson, Norðurþingi og Dagbjört Bjarnadóttir, Skútustaðahreppi (314. fundur) Varamenn: Jóna Matthíasdóttir, Norðurþingi og Valdemar Þór Viðarsson, Dalvíkurbyggð (314. fundur).

Verkefnastjórn vegna mótunar safnastefnu Akureyrar. Vigdís Rún Jónsdóttir, verkefnastjóri menningarmála hjá Eyþingi, var tilnefnd í verkefnastjórn vegna mótunar safnastefnu Akureyrarbæjar (319. fundur).

Stýrihópur um endurskipulagningu landshlutasamtaka og atvinnuþróunarfélaga. Eftirtaldir voru skipaðir: Hilda Jana Gísladóttir, formaður stjórnar Eyþings, Katrín Sigurjónsdóttir, formaður stjórnar Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar og Elías Pétursson, formaður stjórnar Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga (Aukaaðalfundur 2019).

Stýrihópur um gerð nýrrar sóknaráætlunar Norðurlands eystra 2020-2024. Eftirtaldir voru skipaðir: Hilda Jana Gísladóttir, Akureyri, Helgi Héðinsson, Skútustaðahreppi, og Helga María Pétursdóttir, Eyþingi (323. fundur). Síðar var skipun hópsins breytt og voru eftirtaldir skipaðir: Helgi Héðinsson, Skútustaðahreppi, Sóley Björk Stefánsdóttir, Akureyri, og Arnór Benónýsson, Þingeyjarsveit. Tengiliður Eyþings vegna vinnunnar er Vigdís Rún Jónsdóttir (326. fundur).

Áheyrnarfulltrúi Eyþings í stjórn Markaðsstofu Norðurlands. Axel Grettisson, Hörgársveit, var tilnefndur sem áheyrnarfulltrúi í stjórn Markaðsstofu Norðurlands (326. fundur).

Fulltrúi Eyþings í verkefnastjórn Landsnets vegna Blöndulínu 3. Sóley Björk Stefánsdóttir, Akureyri, var tilnefnd í verkefnastjórn Landsnets vegna Blöndulínu 3 (326. fundur).

Helstu þættir í starfi Eyþings.

Hér verður gerð grein fyrir helstu þáttum í starfi Eyþings á starfsárinu og þeim verkefnum sem unnið hefur verið að frá síðasta aðalfundi án þess að um sé að ræða tæmandi lista.

1.     Sóknaráætlun Norðurlands eystra.

Lang umfangsmesti þáttur í starfi Eyþings er vinna tengd sóknaráætlun landshlutans. Eins og flestum er kunnugt lýkur öðru sóknaráætlunartímabilinu um áramótin og hefur staðið yfir vinna við að móta nýja áætlun sem gildir næstu fimm árin. Framlag ríkisins til sóknaráætlunar árið 2019 var það sama og árið áður eða 125,9 m.kr. Þá leggja sveitarfélögin einnig fjármagn til sóknaráætlunar og nam framlagið 11,8 m.kr. á árinu. Framlag ríkisins verður lægra á næsta ári bæði til sóknaráætlana landshlutanna í heild og til sóknaráætlunar Norðurlands eystra, en það framlag lækkar um sjö m.kr. Þá má sjá fyrirhugaða lækkun á framlagi ríkisins til sóknaráætlana landshluta næstu árin í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Þetta þykir stjórn miður og vonar að ríkið muni ekki halda áfram að draga úr fjármunum til sóknaraáætlana enda hafi þær sannað gildi sitt fyrir landshlutana.

Í nýrri sóknaráætlun Norðurlands eystra, sem kynnt verður á aðalfundinum, er lögð áhersla á að skýra markmið áætlunarinnar og mælanlegra mælikvarða. Þar að auki var ákveðið í þessum landshluta líkt og öðrum að sækja fram í umhverfismálum auk atvinnu- og nýsköpunarmála og menningarmála. Stjórn telur því hiklaust að umhverfisráðuneytið ætti að huga að því að setja fjármuni til sóknaráætlana landshlutanna næstu árin, enda mikilvægt að samstarf ríkis, sveitarfélaga og almennings sé markvisst þegar kemur að jafn umfangsmiklu og mikilvægu verkefni og umhverfismálin eru.

Fjármagn sóknaráætlunar á árinu skiptist þannig að styrkir úr Uppbyggingarsjóði námu 80 m.kr. sem skiptust jafnt á milli menningarmála annars vegar og atvinnuþróunar og nýsköpunar hins vegar. Rúmum 48 m.kr. var síðan varið til áhersluverkefna og níu m.kr. í umsýslu líkt og heimild er fyrir í samningi. Í lok árs 2018 var töluverðum fjármunum sóknaráætlunar óráðstafað eða rúmlega 30 m.kr. og ákvað stjórn Eyþings að ráðstafa þeirri fjárhæð til áhersluverkefna. Stjórn leggur áherslu á að fjármunir til sóknaráætlunar flytjist sem minnst á milli ára og að þeim verði komið til vinnu á svæðinu með markvissum hætti. Með það fyrir sjónum og að bæta faglega umgjörð við eftirfylgni verkefna hefur stjórn samþykkt nýtt verklag sem finna má á heimasíðu Eyþings. Upplýsingar um verkefni sóknaráætlunar Norðurlands eystra má einnig finna á heimasíðu Eyþings.

Undanfarna mánuði hefur vinna við nýja sóknaráætlun Norðurlands eystra verið í fullum gangi og ákvað stjórn Eyþings að fá til liðs við sig ráðgjafafyrirtækið Capacent við mótun hennar. Í upphafi vinnunnar hittist fulltrúaráð Eyþings á Húsavík og fór yfir áhersluþætti svæðisins og í kjölfarið var haldinn íbúafundur í Hofi þar sem yfir 100 íbúar tóku þátt í hugarflugi um áherslur svæðisins. Stýrihópur sem stjórn skipaði ásamt starfsmönnum Eyþings og Capacent unnu síðan úr þeim hugmyndum sem fram komu á fundunum og að lokum voru drög að nýrri sóknaráætlun sett í samráðsgátt stjórnvalda til almennrar umsagnar. 

2.     Endurskipulagning Eyþings, AFE og AÞ.

Á aukaaðalfundi Eyþings sem haldinn var í apríl var samþykkt tillaga um endurskipulagningu Eyþings, Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar og Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga. Jafnframt var skipaður stýrihópur, með formönnum félaganna þriggja, vegna vinnunnar. Stýrihópurinn fékk til liðs við sig ráðgjafafyrirtækið Strategíu til að útfæra tillögu að stofnun nýs félags, þ.e. rekstrarform, stjórnskipulag og skipulag starfsstöðva. Mikil vinna hefur farið í mótun stofnsamþykkta, fjárhagsáætlun, jafnlaunastefnu, umgjörð stjórnar og starfsáætlun fyrir nýja félagið. Stýrihópurinn hefur lokið vinnunni og kemur tillaga þeirra til afgreiðslu á aðalfundinum.

Markmið tillögunnar er fyrst og fremst að efla Norðurland eystra sem ákjósanlegan valkost til búsetu og atvinnu og að nýtt félag byggi á faglegum ávinningi, auknum slagkrafti, skilvirkari vinnu og auknum sóknarfærum til fagþekkingar innan stoðstofnana á svæðinu. Þá á nýtt félag að vera sterkur bakhjarl aðildarsveitarfélaga í sameiginlegum málum, stuðla að bættu mannlífi, öflugu menningarlífi og atvinnuþróun á svæðinu. Það er von og trú fulltrúa stýrihópsins, sem og stjórnar Eyþings, að sú tillaga sem liggur fyrir á fundinum nú sé metnaðarfull og til mikillar bótar fyrir svæðið í heild.

3.     Almenningssamgöngur.

Á starfsárinu sem er að líða hafa töluverðar breytingar orðið á rekstri almenningssamgangna á svæðinu. Akstursaðili Eyþings varð gjaldþrota og í kjölfarið voru gerðir samningar við SBANorðurleið, sem keyrir nú til Siglufjarðar og Egilsstaða, og Fjallasýn, sem keyrir nú til Húsavíkur.

Í desember 2018 framlengdi Eyþing samning við Vegagerðina, um almenningssamgöngur á svæðinu, um eitt ár með nokkrum skilmálum. Samningurinn rennur út um næstu áramót og mun Vegagerðin þá alfarið taka við rekstrinum.

Í endurskoðaðri fjárhagsáætlun vegna ársins 2019 er gert ráð fyrir ríflega 6,5 m.kr. tapi af rekstri almenningssamganga vegna gjaldtöku í Vaðlaheiðargöng. Í samningi við Vegagerðina kemur þó fram að Eyþing muni ekki bera aukinn kostnað vegna þessa, auk þess sem varnagli er sleginn í samninginn um breyttar forsendur, líkt og fækkun farþega og olíugjald.

Stjórn Eyþings hefur falið framkvæmdastjóra að fylgja eftir leiðréttingu í samræmi við breyttar forsendur. Gangi það eftir mun rekstur almenningssamgangna á árinu koma út á sléttu, að frádreginni umsýslu vegna vinnunnar, en kostnaður vegna þess fæst ekki bættur. Um síðustu áramót stóð skuld Eyþings við Vegagerðina, vegna almenningssamgangna, í 36 m.kr. og verður sú skuld lækkuð jafnt og þétt skv. samningi sem náðst hefur við Vegagerðina.

4.     Starfsmannamál.

Á aukaaðalfundi Eyþings var greint frá því að samningar við fyrrverandi framkvæmdastjóra hefðu ekki náðst. Þar sem trúnaðarbrestur var orðinn milli stjórnar og framkvæmdastjóra, sá stjórn að lokum engan annan kost í stöðunni en að segja upp ráðningarsamningi. Þar sem samningar náðust ekki og vegna eðli ráðningarsamningsins hefur fyrrum framkvæmdastjóri Eyþings ákveðið að láta reyna á lögmæti uppsagnarinnar fyrir dómstólum. 

Á starfsárinu sem er að líða hafa þrír starfsmenn sinnt starfi framkvæmdastjóra, nú síðast Helga María Pétursdóttir. Auk hennar starfar hjá Eyþingi, Vigdís Rún Jónsdóttir, verkefnastjóri menningarmála. Eyþing hefur verið undirmannað allt síðasta ár og hefur það haft töluverð áhrif á starfsemina. Bæði hafa framkvæmdastjóri og verkefnastjóri menningarmála tekið á sig aukin verkefni sem og formaður, stjórn og bókari félagsins.

5.     Menningarmál.

Megin viðfangsefni verkefnastjóra menningarmála eru ráðgjöf og eftirfylgni við menningarhluta Uppbyggingarsjóðs, auk samningagerðar og eftirfylgni áhersluverkefna innan sóknaráætlunar Norðurlands eystra. Á liðnu starfsári yfirfór verkefnastjóri verklagsreglur Uppbyggingarsjóðs og boðaði formenn fagráða og úthlutunarnefndar ásamt framkvæmdastjóra Eyþings og verkefnastjórum Uppbyggingarsjóðs á fund þar sem reglurnar voru yfirfarnar og síðar samþykktar af stjórn Eyþings. Í haust stóð verkefnastjóri síðan fyrir þeirri nýjung að prentaður yrði auglýsingabæklingur til kynningar á Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra sem var dreift í öll hús og fyrirtæki á svæðinu.

Á árinu hefur verkefnastjóri menningarmála tekið að sér að kynna verkefni innan Stefnumótandi byggðaáætlunar til viðeiganda stofnana og hefur frá því í vor setið í verkefnastjórn vegna undirbúnings nýrrar safnastefnu fyrir Akureyrarbæ en gert er ráð fyrir að þeirri vinnu ljúki á árinu 2020. Verkefnastjóri vinnur nú ásamt fleiri aðilum í menningargeiranum að málþingi um menningu og byggðaþróun sem haldið verður í Hofi 4. desember nk. Auk þess hefur verkefnastjóri verið fenginn til samstarfs við Listasafnið á Akureyri og skrifaði m.a. inngangsorð fyrir sýninguna Vor og hélt fyrirlestur um samband trúar og lista í samtímanum á safninu.

Verkefnastjóri menningarmála hefur unnið náið með aðilum úr menningargeiranum á svæðinu og m.a. aðstoðað við umsóknargerð vegna C.1. verkefnis innan Brothættra byggða. Í sumar réði verkefnastjóri RHA til samstarfs við Eyþing til að vinna fýsileikakönnun um aukið samstarf eða sameingu safna á svæðinu. Verkefnið er liður innan stefnumótandi byggðaáætlunar nr. C.14. og nefnist Samstarf safna – ábyrgðasöfn.

6.     Framtíð landshlutasamtaka.

Hlutverk landshlutasamtaka hefur verið töluvert í umræðunni síðustu misseri og er nú að störfum starfshópur sem vinnur að breyttu hlutverki landshlutasamtakanna. Markmið starfshópsins er að skýra hlutverk landshlutasamtaka og sveitarfélaga og stöðu þeirra gagnvart annars vegar sveitarfélögum og hins vegar ríkinu. Niðurstaða starfshópsins liggur ekki fyrir og enn er óvíst hvenær þeirri vinnu lýkur.
Umræða um sameiningu sveitarfélaga og fyrirliggjandi frumvarp um eflingu sveitarstjórnarstigsins hefur haft nokkur áhrif á samstarf sveitarfélaganna, ekki síst í ljósi þess að Tjörneshreppur ákvað að segja sig bæði úr Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Eyþingi. Umræður og ólíkar skoðanir á því sem kallað er þriðja stjórnsýslustigið hefur einnig áhrif á samstarfið. Stjórn Eyþings gengur út frá því að Eyþing sé þjónustustofnun sveitarfélaga, sem vinni í þeirra þágu. 

7.     Ýmsir fundir og verkefni.

Framkvæmdastjóri, verkefnastjóri menningarmála og formaður hafa sótt ýmsa fundi og viðburði fyrir samtökin auk þeirra sem tengjast einstökum málum sem getið er hér í skýrslunni. 

Undir lok árs 2018 og sumarið 2019 fóru formaður og varaformaður til að mynda fund með fjárlaganefnd þar sem farið var yfir umsögn Eyþings um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun 2020-2024. Auk þess sóttu formaður og framkvæmdastjóri, í lok síðasta árs, fund með umhverfis- og samgöngunefnd þar sem farið var yfir umsögn Eyþings um tillögu til þingsályktunar um fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2019-2023 og samgönguáætlun fyrir árin 2019-2033.

Í janúar sl. var haldin ráðstefnan Samtal um stefnur ríkisins í landshlutanum á Hótel Örk í Hveragerði og sóttu formaður, framkvæmdastjóri og starfsmenn Eyþings þann fund. Tilgangur ráðstefnunnar var að ná heildstæðari árangri með samtali um stefnur ríkisins í landshlutanum. 

Í febrúar sl. sótti formaður síðan fund sem haldinn var með Stjórnstöð ferðamála, Ferðamálastofu og öðrum landshlutasamtökum í Varmahlíð. Á þeim fundi var farið yfir niðurstöður og framtíð verkefnis um áfangastaðastofur.

Á starfsárinu hafa verið haldnir tveir fundir með formönnum og framkvæmdastjórum landshlutasamtakanna sem formaður og framkvæmdastjóri Eyþings hafa sótt. Fyrri fundurinn var haldinn á Laugabakka og sá síðari í Reykjavík. Auk þess hafa formaður og framkvæmdastjóri farið á tvo samráðsfundi með stýrihópi Stjórnarráðsins um byggðamál og landshlutasamtökum.   

Í október sl. sótti framkvæmdastjóri ársfund Jöfnunarsjóðs í Reykjavík. Um miðjan nóvember skrifaði formaður síðan undir samning um nýja sóknaráætlun Norðurlands eystra 2020-2024.  

 - Stjórn Eyþings.

 

Getum við bætt síðuna?