Eyrarrósina 2025 hlýtur Sköpunarmiðstöðin!
Eyrarrósina 2025 hlýtur Sköpunarmiðstöðin!
Tuttugu ár eru nú liðin frá því að Eyrarrósin var veitt í fyrsta sinn, og hlaut Þjóðlagahátíðin á Siglufirði þann verðuga titil. Það var því afar viðeigandi að afhending Eyrarrósarinnar á þessu afmælisári hafi verið veitt á Siglufirði, auðvitað í blíðskaparveðri. Síðasti handhafi Eyrarrósarinnar var listakonan Alla Sigga og hennar merka starf í Alþýðuhúsinu. Opnaði hún hús sitt og garð og umvafði hátíðardaginn á sinn einstaka hátt.
Eyrarrósin er viðurkenning sem veitt er fyrir framúrskarandi menningarverkefni utan höfuðborgarsvæðisins og var það Hr. Björn Skúlason maki forseta og verndari
Eyrarrósarinnar veitti verðlaunin.
Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði hlaut verðlaunin að þessu sinni og skipar sér í hóp framúrskarandi verkefna sem hlotið hafa verðlaunin á síðustu 20 árum. Una B. Sigurðardóttir, stjórnarmaður og fyrrum framkvæmdastjóri Sköpunarmiðstöðvarinnar tók á móti viðurkenningunni og verðlaunafé að
upphæð kr. 2.500.000. Nýjum Eyrarrósarhafa er jafnframt boðið að standa að viðburði á Listahátíð 2026 og framleitt verður heimildamyndband um verkefnið.
,,Sköpunarmiðstöðin hefur búið í huga mínum og hjarta í yfir áratug. Í sameiningu höfum ég og maðurinn minn, Vincent Wood, borið þetta fjöregg í gegnum fárviðri og blíðu. Fjölmargt fólk hefur gengið okkur við hlið, ýmist langan eða skamman spöl, lagt mark sitt á verkið, stutt við og opnað dyr eða einfaldlega staðið með okkur brosandi í steypuryki og drullu og knúið hjólið áfram. Það er mér einstaklega ljúft að taka við þessari viðurkenningu fyrir hönd Sköpunarmiðstöðvarinnar og ég finn
fyrir djúpu þakklæti. Hún er blíður koss á þreytta kinn, orð sem hvetja og hönd sem hlýjar. Hjartans þakkir." segir Una. B. Sigurðardóttir, fyrrum framkvæmdastjóri Sköpunarmiðstöpvarinnar.
Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði er menningarsetur og vettvangur fyrir fjölbreyttar lista-, menningar- og nýsköpunnarstarfsemi sem auðgar menningarlíf svæðisins svo um munar. Sköpunarmiðstöðin er afar mikilvæg sínu svæði og er náttúrulegur vettvangur fyrir lifandi viðburði, bæði skipulagða og sjálfsprottna. Hún eykur þátttöku og aðgengi íbúa að listum og menningu og eflir menningarlæsi.
,,Sköpunarmiðstöðin tengir saman listafólk, samfélagið og stuð”
Í miðstöðinni eru rúmgóðar vinnustofur, smíðaverkstæði, keramíkstúdíó, fjölnota aðstaða með steindavinnslu og viðburðarrými. Hefur þessi góða aðstaða laðað til sín listafólk úr ýmsum greinum, bæði innlent og erlent. Listafólkið fær tíma og rými til að þróa hugmyndir og vinna að list sinni, kynna hugmyndir og halda sýningar.
Alþjóðlegt listafólk tengir Stöðvarfjörð við alþjóðasamfélagið og alþjóðlegt listalíf á einstakan hátt. Miðstöðin skipuleggur reglulega menningarviðburði og fjölbreytt
námskeið af ýmsu tagi í samstarfi við sveitarfélagið Fjarðabyggð. Með þessu er stuðlað að góðu aðgengi að tónlist, leiklist og myndlist á staðnum. Gott dæmi er verkefnið Upptakturinn á Austurlandi sem er gjaldfrjáls tónsmiðja fyrir ungmenni sem fá faglega reynslu af upptöku og þróun laga og tónlistar.
Þegar frystihúsið, stærsti vinnuveitandi Stöðvarfjarðar, hætti starfsemi um aldamótin, var framtíð hússins óviss. Þá tók sig saman hópur fólks og vann sjálfboðaliðastarf til að umbreyta húsinu í lifandi menningar- og samfélagsmiðstöð – sannkallað kraftaverk. Sköpunarmiðstöðin er hjarta samfélagsins og hefur skapað sameiningarstað í brothættri byggð og styrkt samfélagið með sjálfbærri starfsemi sem skilar ómetanlegu gildi til svæðisins. Sem skapandi klasi hýsir hún sjálfstæðar einingar eins og Studio Silo, Kvörn og Steinasafnsverkstæðið, auk þess að skapa umhverfi þar sem ný verkefni og fyrirtæki geta dafnað.
Í samstarfi við nærsamfélagið og Fjarðabyggð hefur miðstöðin þannig stutt við nýsköpun og atvinnuþróun í skapandi greinum. Sköpunarmiðstöðin er því mikilvægur drifkraftur í menningar- og samfélagsþróun Austurlands.
Eftir 15 ára þrotlausa vinnu hefur Sköpunarmiðstöðin nú verið viðurkennd sem fjórða menningarsetur Austurlands, ásamt Sláturhúsinu, Skaftfelli og Menningarstofu Fjarðabyggðar. Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði hefur sannarlega haft mikil áhrif á listalíf og menningarlandslag Austurlands.
Alls bárust 34 umsóknir um Eyrarrósina og hvatningarverðlaunin hvaðanæva af landinu.
„Valnefndin átti sannarlega krefjandi verk fyrir höndum við að fara yfir fjölmargar frambærilegar og metnaðarfullar umsóknir. Við á Íslandi erum rík af listafólki sem starfar víðsvegar um landið. Menningin og listsköpunin færir nærumhvefi sínu ferskan blæ og býr til nýjar tengingar milli fólks á Íslandi sem og á alþjóðlegum vettvangi. Sköpunarmiðstöðin er hjarta samfélagsins á Stöðvarfirði og afar mikilvægur samverustaður. Með framúrskarandi og framsækinni starfsemi styrkir hún samfélag sitt með sjálfbærri starfsemi sem hefur ómetanlegt gildi fyrir nærumhverfi sitt.” segir Lára Sóley Jóhannsdóttir, formaður valnefndar og listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík.
Hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar voru nú veitt í þriðja sinn.
Viðurkenningin er veitt þremur metnaðarfullum verkefnum sem þykja hafa listrænan slagkraft, jákvæð áhrif á nærsamfélagið og alla
burði til að festa sig í sessi. Hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar 2025 hlutu Gletta á Borgarfirði Eystri, Afhverju Ekki á Laugum, Þingeyjarsveit og Tankarnir á Raufarhöfn. Hljóta þau hvert um sig verðlaunafé að upphæð kr. 750.000 auk gjafakorts frá Icelandair að upphæð kr. 100.000. Nánar verður sagt frá verkefnunum síðar.
Eyrarrósin er samstarfsverkefni Listahátíðar í Reykjavík, Byggðastofnunar og Icelandair.
Nánari upplýsingar veitir Lára Sóley Jóhannsdóttir, formaður valnefndar og listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík, lara@artfest.is