Fara í efni

Glæðum Grímsey

Verkefnið í Grímsey hófst árið 2015 og verkefnisstjóri hóf störf í nóvember sama ár. Íbúaþing var haldið í Múla í Grímsey í byrjun maí 2016 og út frá niðurstöðum þess var unnin framtíðarsýn og markmið fyrir verkefnið. Þar völdu Grímseyingar líka nafn verkefnisins; Glæðum Grímsey.

Drög að stefnumótun kynnt fyrir íbúum á vel sóttum fundi í lok árs 2016. Verkefnið byggir í grunninn á þremur meginmarkmiðum og undir þeim eru svo skilgreind 34 tímasett starfsmarkmið.

Meginmarkmiðin eru:

  • Sterkur grunnatvinnuvegur
  • Þróttmikið og samheldið samfélag
  • Einstakur staður

Í mars 2020 tók Karen Nótt Halldórsdóttir við verkefnastjórn eftir Helgu Írisi og í byrjun ágúst 2021 tók Arna Björg Bjarnadóttir við verkefninu en það hefur verið framlengt til 2022. Karen Nótt Halldórsdóttir mun þó áfram vera innan handar sem fulltrúi íbúa í verkefnisstjórn.

Hægt er að hafa samband við Örnu Björg á arna@ssne.is 

Í verkefnisstjórn sitja:

  • Halla Björk Reynisdóttir – formaður verkefnisstjórnar, Akureyrarkaupstaður
  • Kristján Þ. Halldórsson – Byggðastofnun
  • Helga Harðardóttir - Byggðastofnun
  • Gunnar Gíslason – SSNE
  • Anna Lind Björnsdóttir – SSNE
  • Guðrún Inga Hannesdóttir – Fulltrúi íbúa
  • Jóhannes Henningsson – Fulltrúi íbúa

Verkefnastyrkir

Veittir eru verkefnastyrkir og stuðningur á vegum Brothættra byggða til þróunarverkefna og annarra samfélagseflandi verkefna á þeim svæðum sem taka þátt. Hér á síðunni má finna tengla á umsóknargögn og ítarupplýsingar um verkefnið.

Sem hluti af aðgerðum vegna veirufaraldurs hefur Alþingi samþykkt að veita aukalega 100 m.kr. til brothættra byggða á árinu 2020. Fyrir okkur þýðir þetta að fjármagn í styrktarsjóð (Frumkvæðissjóð - þessi "venjulegi") Glæðum Grímsey eykst um 8,5 milljónir og verður þ.a.l. 13,5 m. í allt. Öndvegissjóður Brothættra byggða er svo samkeppnissjóður þar sem vissar umsóknir í Frumkvæðissjóð (að hámarki tvær úr hverju byggðarlagi) gætu verið valdar til þess að fara fyrir sérstaka úthlutunarnefnd. Í ljósi þessara breytinga hefur umsóknarferstur í Frumkvæðissjóð (Glæðum Grímsey) verið framlengdur til 15. maí 2020.

Glæðum Grímsey framlengt til loka árs 2022

Á íbúafundi í Grímsey í júlí 2021 greindi Halla Björk Reynisdóttir, formaður verkefnisstjórnar og forseti bæjarstjórnar Akureyrarbæjar frá ákvörðun um framlengingu verkefnisins til loka árs 2022, í kjölfar samtals fulltrúa Akureyrarbæjar við stjórnvöld og samþykktar ríkisstjórnar þar að lútandi. Nánar var farið yfir helsta árangur verkefnisins til þessa og áherslur næstu mánaða. Í framhaldi af því var gerð grein fyrir stöðu markmiða í verkefnisáætlun og að því loknu skiptu íbúar sér í hópa til að ræða áherslur í vinnu næstu missera í framlengdu verkefni.

Byggðastofnun mun leggja verkefninu til fjármuni úr Brothættum byggðum líkt og verið hefur undanfarin ár til verkefnisstjórnunar og til að styrkja framfaraverkefni, auk þess sem Akureyrarbær og SSNE leggja verkefninu lið og annast umsýslu þess ásamt Byggðastofnun. Þáttur íbúa í Grímsey við að styrkja samfélagið með ýmsum framfaraverkefnum og dugnaði sínum vegur þó þyngst í verkefninu.