Fara í efni

Fundargerð - Aukaþing SSNE - 10. desember 2021

10.12.2021

Aukaþing SSNE
Vefþing 10. desember 2021
Fundargerð (pdf skjal)

 

1. Þingsetning
Hilda Jana Gísladóttir, Formaður SSNE, setti fund kl. 8:34 og bauð fundarmenn velkomna fyrir hönd stjórnar.

1.1. Kosning fundarstjóra og tveggja ritara.
Formaður lagði til eftirfarandi starfsmenn fundarins:

Fundarstjóri:
• Finnur Yngvi Kristinsson.
Samþykkt samhljóða.

Fundarritarar:
• Ari Páll Pálsson.
Samþykkt samhljóða.

Finnur Yngvi þakkaði fyrir og tók við fundarstjórn. Hann gerði grein fyrir því að fundurinn væri tekinn upp og kynnti skipulag atkvæðagreiðslu og fyrirspurna á rafrænu þingi.

1.2. Kosning kjörnefndar.
Fundarstjóri kynnti eftirfarandi tillögu stjórnar um kjörnefnd fundarins:
• Sóley Björk Stefánsdóttir, formaður
• Helgi Héðinsson
Samþykkt samhljóða.

Fundarstjóri innti Sóleyju Björk, formann kjörnefndar, eftir upplýsingum um lögmæti fundarins. Sóley Björk upplýsti að 29 atkvæðisbærir fulltrúar væru mættir, og til þess að fundurinn væri lögmætur þyrfti 2/3 af fulltrúum. Atkvæðisbærir fulltrúar eru alls 40 og fundarstjóri lýsti fundinn lögmætan.

Fundarstjóri kallaði eftir athugasemdum við fundarboðun sem engar voru og lýsti þingið því lögmætt.

Hér má hlusta á upptöku.

2. Skýrsla um framvindu starfsáætlunar 2021.
Formaður SSNE, Hilda Jana Gísladóttir gerði grein fyrir framvindu starfsáætlunar yfirstandandi árs. Sjá glærur.

Formaður hóf mál sitt á að kynna stjórn og starfsfólk SSNE auk þess að rifja upp hlutverk samtakanna, sem hún sagði mikilvægt að gera reglulega. Áður en hún gerði grein fyrir einstökum verkefnum sem unnið hefur verið að á starfsárinu vakti hún athygli á upplýsingagjöf samtakanna sem hún sagði vera í góðum farvegi og vísaði á miðla þar sem starfsemin er kynnt. Sjá nánari umfjöllun.

Í lok máls síns talaði formaður um áskoranir sem við blasa en jafnframt tækifærin sem mikilvægt sé að nýta. Hún sagði mörg mikilvæg verkefni í gangi hjá SSNE og þakkaði framkvæmdastjóra sérstaklega fyrir gott starf á krefjandi tímum.

Hér má hlusta á upptöku.

3. Skýrsla um framvindu fjárhagsáætlunar 2021.
Framkvæmdastjóri SSNE, Eyþór Björnsson, flutti greinargerð um fjárhagsáætlanir yfirstandandi og komandi árs.

Hér má hlusta á upptöku.

4. Starfs- og fjárhagsáætlun úthlutunarnefndar Uppbyggingasjóðs.
Formaður úthlutunarnefndar, Katrín Sigurjónsdóttir, gerði grein fyrir tillögu að starfs- og fjárhagsáætlun úthlutunarnefndar Uppbyggingarsjóðs

Katrín gerði fyrst grein fyrir nefndarfundum og starfsháttum úthlutunarnefndar í umsóknarferli fyrir árið 2022. Í máli hennar kom m.a. fram að fjárhagsáætlun hefur breyst frá því hún var áður kynnt fyrir stjórn vegna færri umsókna en reiknað var með. Sjá greinargerð.

Fundarstjóri opnaði fyrir mælendaskrá.

Enginn tók til máls.

Hér má hlusta á upptöku.

5. Minjavernd og samspil við skipulagsmál.
Sædís Gunnarsdóttir, starfsmaður Minjastofnunar Íslands og minjavörður Norðurlands eystra flutti erindi um starfsemi stofnunarinnar. Sjá kynningu.

Sædís þakkaði fyrir að fá að kynna stofnunina sem orðið hefði til 2013 með sameiningu Fornleifaverndar ríkisins og Húsafriðunarnefndar ríkisins og starfaði eftir lögum um menningarminjar. Hlutverk hennar væri að stuðla að verndun menningarminja og tryggja að íslenskum menningararfi yrði skilað óspilltum til komandi kynslóða, sem Sædís sagði viðamikið verkefni þar sem menningarminjar væru úti um allt.

Hún sagði Minjastofnun nú vinna eftir nýsamþykktri stefnu, Menningararfurinn, stefna um varðveislu og aðgengi, sem starfsmenn stofnunarinnar hefði leitt vinnu við ásamt hópi fólks í greininni. Í framhaldi af því væri nú unnið að hliðarstefnu sem snéri að verndun fornleifa og byggingararfs.

Sædís sagði endurskoðun í gangi á friðlýsingaskrá fornleifa, sem verið hefði að mestu óbreytt frá útgáfu hennar um 1990, en flestar friðlýsingar fornleifa hefðu verið gerðar upp úr 1900.

Meðal verkefna sagði hún Minjastofnun sjá um allar leyfisveitingar og eftirlit með fornleifauppgreftri sem og friðun og friðlýsingar. Friðlýstar fornminjar sagði hún hafa 15 metra friðhelgi, sem gæti verið íþyngjandi og því mikilvægt við að vera í góðu samstarfi við framkvæmdaraðila.

Friðlýst hús, sagði hún sérstakan verndunarflokk sem lyti strangari reglum varðandi endurgerð og nýtingu en stofnunin reyndi að vera sveigjanleg varðandi breytingar á húsum, því það versta sem komið gæti fyrir hús væri að enginn geti notað það.

Sædís sagði gildistöku tók 100 ára reglunnar árið 2013 fela í sér að á hverju ári bættust sjálfkrafa við fjöldi minja, þ.á.m. tugir eða hundruð húsa sem nytu friðunar og 15 metra friðhelgi. Hún sagði umræðu hafa verið um að endurskoða regluna.

Þá vék Sædís að yngri minjum sem njóta ekki aldursfriðunar en er mikilvægt gæti verið að vernda. Gott dæmi væru herminjar, en einnig nefndi hún bensínstöðvar og sundlaugar. Hún taldi æskilegt að búa til sérflokk, því í dag væri eina leiðin að friða þær sem væri óþarflega íþyngjandi. Æskilegt væri að geta valið úr góð dæmi um sem minnisvarða um hverfandi menningu.

Hún sagði Minjastofnun sinna umsjón og eftirliti með öllum framkvæmdum, sjá um eftirlit, merkingar og verndun á friðlýstum fornminjum auk þess að sinna fræðslu og á reglulega fundi með ýmsum aðilum.

Umsagnir um skipulagsmál sagði Sædís vera meðal stærstu verkefna. Meðal mála sem til þess heyrðu væru byggingarleyfi, framkvæmdaleyfi, skógrækt, línu- og strenglagnir og endurheimt votlendis.

Sædís sagði Minjastofnun einnig hafa umsjón með sjóðum. Annars vegar væri húsfriðunarsjóður og hins vegar er fornminjasjóður, sem væri aðal styrktarsjóður fornleifarannsókna í landinu.

Í húsafriðunarsjóði væri undirflokkurinn verndarsvæði í byggð, sem hún sagði áhugavert verkefni sem sveitarfélög gætu farið í með styrk frá sjóðnum ef áhugi væri fyrir hendi. Á okkar svæði væru í þessu ferli Þormóðseyri á Siglufirði og innbærinn á Akureyri.

Sædís tók því næst dæmi um ýmis verkefni og áskoranir Minjastofnunar á svæðinu. Á Norðausturlandi væru í gangi tvö verkefn styrkt af landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum, annars vegar Gásakaupstaður og hins vegar Hofstaðir í Mývatnssveit. Þá væru 3-4 verkefni í gangi núna fjármögnuð í gegnum Byggðaáætlun.

Meðal áskorana nefndi hún áhuga ferðamanna á náttúruminjum og aukinn ágang því tengdan auk vaxandi áhrifa náttúruafla á menningarminjar af völdum loftlagsbreytinga, sem væri stærsta áskorunin í dag. Fjölmargar skráðar minjar væru að hverfa í sjó, en brýn þörf væri á frekari skráningu, og þá ógnaði hækkandi hitastig gömlu torfhúsunum okkar.

Fundarstjóri gaf orðið laust fyrir spurningar.

Þingfulltrúar tóku til máls og báru upp spurningar.

Hér má hlusta á upptöku.

6. Árangursmat Sóknaráætlunar.
Rebekka Kristín Garðarsdóttir verkefnastjóri hjá SSNE kynnti vinnu við árangursmat Sóknaráætlunar Norðurlands eystra og gerði grein fyrir þeim gögnum og verkfærum sem matið byggir á. Sjá kynningu.

Gögnin sagði hún einkum byggja á greiningarvinnu styrktra verkefna og könnunum til styrkþega, en einnig væri horft til starfsáætlunar SSNE og helstu verkefna starfsmanna.

Hún sagði að þau verkfæri sem við hefum til að ná markmiðum sóknaráætlunar væru annars vegar styrkir og hins vegar vinna starfsfólks SSNE, en í erindin sínu beindi hún einkum sjónum að greiningu verkefnastyrkja.

Við endurskoðun sóknaráætlunar hefðu verið settir fram mælikvarðar fyrir árangur sem við vildum ná á gildistíma sóknaráætlunar. Stöðumat mælanlegra markmiða færi fram tvisvar á gildistímanum, á miðju tímabili og að honum loknum. Hún sagði það markmið SSNE að koma upp mælaborði á vef samtakanna þar sem hægt yrði að fylgjast með árangrinum.

Heildarfjármagn styrkja, sem úthlutað hefur verið á Norðurlandi eystra 2020-2021 í gegnum Uppbyggingarsjóð, áhersluverkefni, Brothættar byggðir og sjóði stefnumótandi byggðaáætlunar, sagði Rebekka hafa verið um 414 milljónir. Þá væri ótalið fjármagn sem komið hefði inn á svæðið úr ýmsum öðrum sjóðum sem SSNE hefði aðstoðað fólk við að sækja um í.

Rebekka fór nánar yfir greiningu á styrkjafjármagni eftir sjóðum og verkefnum, og síðan ítarlega í greiningu á umsóknum og styrkjum Uppbyggingarsjóðs, sóknarhlutfall, árangurshlutfall og dreifingu eftir sveitarfélögum.

Í lok erindis síns vék Rebekka að greiningu á styrkjum Uppbyggingarsjóðs frá árinu 2020 með tilliti til þess hvaða markmið sóknaráætlunar þeir styddu við. Með því mætti sjá hvaða markmið sóknaráætlunar myndu ekki nást nema með sértækum verkefnum og þá hægt að forgangsraða störfum í takti við það.

Hér má hlusta á upptöku.

7. Ávörp gesta
Fundarstjóri kynnti 2. þingmann Norðausturkjördæmis, Njál Trausta Friðbertsson.

7.1. Njáll Trausti Friðbertsson
Njáll Trausti hóf mál sitt á að rifja upp óveðrið sem reið yfir í desember fyrir tveimur árum með þeim afleiðingum að flutningskerfi raforku í landinu brást með víðtækum afleiðingum. Í kjölfarið hefði verið gert mikið átak og skýrsla unnin á vegum ríkisins með tillögum um hvað mætti bæta í innviðum.

Hann fór yfir þær framkvæmdir sem verið hafa og fyrirhugaðar eru á svæðinu, samkeppnisforskotið sem það skapaði okkur og sagði mikilvægt að grípa þau tækifæri sem gæfust á svæðinu til atvinnusköpunar með grænni orku í framtíðinni. Hann kallaði einnig eftir meiri og dýpri umræðu um samspil vindorku og vatnsafls, sem gæti eflt mjög raforkukerfið og bætt nýtingu þess.

Njáll Trausti sagði það gríðarlegan styrk að vera orkuframleiðandi að grænni orku í þessu magni, nú þegar við horfðum inn í fjórðu iðnbyltinguna, sem í grunninn snérist um öflug fjarskipti og græna orku.

Hann vék næst að fjarskiptum og fór stuttlega yfir stöðuna í ljósleiðaravæðingu. Hann kvaðst ekki viss um að geta tekið undir að fjarskipti og netsamband væru talin til veikleika á svæðinu eins og gert er í SVÓT greiningu sóknarætlunar. Ísland væri efst í alþjóðlegum samanburði, Ísland ljóstengt væri komið víða, en helst væri úrbóta þörf í minni þéttbýlisstöðum og unnið væri að því að koma því í góðan farveg. Með nýjum sæstreng til Íslands á komandi ári sagði Njáll möguleikana aukast enn frekar.

Hann ræddi næst um stöðu mála í uppbyggingu á Akureyraflugvelli og vék einnig að flugvallarmálum í Reykjavík og stöðu innanlandsflugs.

Í lok máls síns vék Njáll stuttlega að stjórnarsáttmálanum og sagði endurreisn efnahagsins og ríkisfjármála vera stærsta verkefnið. Að endingu fagnaði hann því að unnið væri að samgöngustefnu SSNE. Mikilvægt væri að byggja upp gögn og þekkingu og setja fram af hálfu landshlutans í sameiginlegri stefnu.

Hér má hlusta á upptöku.

7.2. Umhverfismál SSNE
Fundarstjóri kynnti næst fjögur ávörp gesta sem öll snérust um umhverfismál og yrðu flutt hvert á fætur öðru.

7.2.1. Áskoranir sveitarfélaga í umhverfismálum.
Smári Jónas Lúðvíksson, umhverfisstjóri Norðurþings og tilvonandi verkefnastjóri umhverfismála SSNE flutti erindi um áskoranir sveitarfélaga í umhverfismálum. Sjá kynningu.

Hann sagði umhverfismálin stóran og víðfeðman málaflokk og oft erfitt að skilgreina ákveðin verkefni þar undir. Helstu áskoranir á döfinni væru m.a. úrgangsmál, orkuskipti og orkuframboð á svæðinu, svifryksmengun og veðurfarsbreytingar. Þá væri það áskorun að starfsfólk sveitarfélaga væri fátt, ekki alltaf sérhæft í umhverfismálum og sinnti oft mörgum öðrum verkefnum. Hann sagði sveitarfélög standa frammi fyrir auknum kvöðum frá löggjafanum í umhverfismálum sem þyrfti að bregðast við og spurninguna vera á hvaða grundvelli þau verkefni yrðu unnin. Vissulega gætu sveitarfélögin unnið þessi vinnu hvert fyrir sig, en gott væri að vera komin með samráðsgrundvöll um þennan málaflokk hjá SSNE.

Smári vék svo nánar að einstökum áskorunum. Svifryksmengun væri vandamál sem helst hefði komið upp á Akureyri en minna í fámennari byggðum sem hefðu heldur ekki forsendur til að meta hana því ekki væru mælar til staðar. Þetta kynni að breytast með veðurfarsbreytingum, sem væri önnur áskorun sem við þyrftum að takast á við. Það sem áður hefði talist öfgar í veðurfari væri að verða venjulegt.

Smári sagði orkuframboð mjög misjafnt milli svæða í landshlutanum, en að orka væri helsta forsenda atvinnuuppbyggingar og nú væri einnig verið að horfa vindorku. Orkuskipti sagði hann vera áskorun bæði í samgöngum og iðnaði. Í samgöngum væri t.d. staðsetning hleðslustöðva fyrir rafmagnsbíla á könnu sveitarfélaga. Orkuskipti í iðnaði taldi hann að yrðu meira á borði ríkisins, en mikilvægt að fylgjast með.

Stóra mál næstu ára sagði Smári vera úrgangsmál, þar sem ábyrgð sveitarfélaga væri mikil. Hann fór yfir mismunandi stöðu sveitarfélaga varðandi söfnun, losun og gjaldtöku, og vék síðan að nýjum lausnum sem væru í sjónmáli, s.s. líforkuver, hringrásarlausnir og stór brennslustöð.

Smári sagði brýnt að setja upp framtíðarsýn og fór því næst yfir atriði í nýjum lögum um úrgangsmál og tímalínu og úrlausnaratriði í undirbúningi fyrir gildistöku þeirra 1. janúar 2023.

Hér má hlusta á upptöku.

7.2.2. Úrgangsmál, svar við áskorunum og framtíðarpælingum
Eyrún Gígja Káradóttir, verkefnastjóri fræðslumála hjá Vistorku, greindi frá fjölbreyttu kynningarstarfi varðandi úrgangsmál. Sjá kynningu á heimasíðu Vistorku.

Í samstarfi við Moltu sagðist hún hafa verið beðin um að leiða hóp um skilgreiningu á hvað mætti fara í lífrænan úrgang, í samstarfi við Umhverfisstofnun. Hún sagði það t.d. algengan misskilning að lífplast mætti fara í lífrænan úrgang, en það brotnaði ekki niður hjá Moltu og til umræðu væri að breyta nafninu í matarleifar.

Í tengslum við ný lög um úrgangsmál ræddi hún um leiðir til að draga úr myndun sorps og sagði ýmsar þekktar leiðir til þess. Mikið úrval væri af umhverfisvænum vörum og áfyllingarvörum en vandamálið væri aðgengi að þeim, því enn sem komið væri fengjust þær einkum í sérverslunum.

Eyrún sagði það allra hag að draga úr almennum úrgangi og kvaðst telja að mjög stór hluti fólks vildi taka skref í rétta átt varðandi umhverfisvænan lífsstíl svo framarlega sem því fylgdi ekki aukin fyrirhöfn eða kostnaður. Hún sagðist því sjá sóknarfæri fyrir sveitarfélög í því að auka hvata til almennings og bæta aðgengi að umhverfisvænum vörum.

Hún vísað því næst á heimasíðu Vistorku, sem er uppsett sem aðgengileg fræðsla fyrir almenning. Hún sýndi margvíslegt efni sem þar er að finna og hvatti fólk til að nýta hana til fræðslu.

Að lokum lagði Eyrún áherslu á að dýrast væri að skila óflokkuðum úrgangi, bæði fyrir veskið og umhverfið, og það yrði enn dýrara með nýju lögunum sem miðuðu að því að hver og einn borgaði fyrir það magn sem hent væri. Hún fór yfir dæmi um hvernig draga mætti úr óflokkuðum úrgangi og benti í því sambandi á skólaverkefni um breyttar neysluvenjur.

Hér má hlusta á upptöku.

7.2.3. Landnýting - tækifæri sveitarfélaga í breyttri landnotkun til að mæta markmiðum Íslands
Hrefna Jóhannesdóttir og Pétur Halldórsson frá Skógræktinni fóru yfir tækifæri sveitarfélaga í breyttri landnotkun. Sjá kynningu.

Fyrst tók til máls Hrefna Jóhannesdóttir, skipulagsfulltrúi Skógræktarinnar og skógarbóndi. Hún sagði mikið að gerast í skógræktarmálum og að með stækkandi auðlind sköpuðust ný tækifæri. Hægt væri að ná fram umtalsverðum fjárhagslegum, umhverfislegum og samfélagslegum ágóða með skógrækt og þann ágóða mætti auka með aukinni útbreiðslu, skipulegri ræktun, umhirðu og úrvinnslu afurða.

Hrefna sagði eftirspurn lands til fjölbreyttra landnota vera að aukast og sagði sveitarfélögin í lykilstöðu til að vinna að markmiðum í loftslagsmálum með stefnumótun um framtíðarnotkun lands í sínum skipulagsáætlunum.

Hún fór því næst yfir vinnu við landsáætlun og landshlutaáætlanir í skógrækt sem ný skógræktarlög kveða á um. Landsáætlun væri ætlað að gefa heildaryfirsýn um stöðu og framtíð skógræktar í landinu, stefnu stjórnvalda og hvernig draga mætti fram sjálfbæran ávinning af aðgerðum í skógrækt. Hrefna lagði áherslu á að huga bæri að samfélagslegum og hagrænum þáttum ekki síður en hins umhverfislega þegar talað er um sjálfbærni. Í forgangi áætlunarinnar væri hlutverki skóga í að stemma stigu við hraðfara loftslagsbreytingum.

Pétur Halldórsson, kynningarstjóri Skógræktarinnar, tók við keflinu og fjallaði um kolefnismál og tækifæri þeim tengd. Hann kynnti fyrst gæðastaðalinn Skógarkolefni sem Skógræktin hefur þýtt og staðfært úr enskum staðli til þess að búa til vottaðar kolefniseiningar í skógrækt. Hann sagði slíkan staðal þurfa að standast alþjóðlegar kröfur og verið væri að þróa gæðaviðmið og staðla fyrir ábyrga kolefnisjöfnun í samráði við staðlaráð.

Pétur sagði slík verkefni beinast að valkvæða markaðinum, þ.e. þeim fyrirtækjum sem ekki eru á skyldubundnum kolefnismarkaði, s.s. stóriðja og millilandaflug. Hann sagði mikið að gerast í heiminum á þessum vettvangi, kerfið væri byrjað að virka eins og því væri ætlað og aukin eftirspurn væri eftir heimildum umfram það sem upphaflega hefði verið úthlutað á skyldubundnum markaði.

Hann sagði venjuleg fyrirtæki enn sem komið er ekki þurfa að eiga losunareiningar en það kynni að breytast í framtíðinni. Þá sagði hann aukna eftirspurn einnig stafa af þrýstingi frá neytendum, sem í auknum mæli létu sér kolefnisspor varða í viðskiptum sínum. Því næst gerði hann grein fyrir leið fyrirtækja að kolefnishlutleysi.

Pétur sagði skilja að þessu nýi veruleiki vefðist fyrir mörgum, en í einfaldaðri mynd snérist kerfið um að fyrirtæki þyrftu að eiga fyrir kolefnislosun sinni og tók svo dæmi um hvernig kerfið virkar. Hann vék næst að tækifærum Íslandi til kolefnisbindingar með skógrækt og lagði áherslu á mikilvægi vottunar.

Hann sagði að með hliðsjón af eftirspurn gæti árleg gróðursetning plantna margaldast á næstu árum og í því fælust tækifæri fyrir Norðausturland.

Hér má hlusta á upptöku.

7.2.4. Framtíð í loftlagsmálum og orkuskipti
Ottó Elíasson, rannsóknar og þróunarstjóri Eims og formaður fagráðs umhverfismála SSNE flutti erindi um framtíð í loftslagsmálum og orkuskipti. Sjá kynningu.

Hann beindi sjónum að loftslagsmálum í landshlutanum með hliðsjón af skuldbindingum Íslands í alþjóðlegu samstarfi til lengri tíma. Hann sagði heildarlosun Íslands samkvæmt loftslagsbókhaldi vera um 14 milljónir tonna, sem miðað við íbúafjölda væri með því hæsta sem gerðist í heiminum. Þar vægi þyngst losun frá landi (10 m.t) en því næst kæmi iðnaður (2 m.t). Um þessa flokka sagði hann enn sem komið er sérstök kerfi, en á beinni ábyrgð Íslands væri samfélagslosun sem samanstæði af flokkunum Orku/samgöngum, Landbúnaði og Úrgangi. Hann sagði þó miklar líkur á að landnotkun kæmi inn í beina bókhaldið með auknum þunga á næstu árum.

Ottó sagði gróf mat sitt á hlut Norðurlands eystra í heildarlosun Íslands vera um 2,4 m.t. sem fyrst og fremst væri vegna landnotkunar. Samfélagslosun landshlutans áætlaði hann að væri um 270 kílótonn. Til þess að uppfylla skuldbindingar stjórnvalda um samdrátt í samfélagslosun fyrir árið 2030 þyrftum við því að skera niður um 130 kílótonn í okkar landshluta. Hann sagði ríka áherslu þurfa að leggja á orkuskipti sem vega þyngst í samfélagslosun, ekki síst í ljósi markmiða um kolefnishlutleysi árið 2040.

Ottó benti á að í nýjum stjórnarsáttmála kæmi fram að stjórnvöld myndu setja losunarmarkmið í samráði við sveitarfélög og atvinnulíf, og því væri mikilvægt að huga strax að því hvernig við hyggðumst ná okkar markmiðum og hvernig nýta mætti það ferli til jákvæðrar uppbyggingar á svæðinu.

Næst fór Ottó yfir helstu aðgerðir í hverjum flokki og vék síðan að því hvar helstu tækifærin lægju. Hann sagði stóru tækifærin til loftslagsaðgerða í landshlutanum liggja í bættri landnýtingu. Hér væri mikið land, verð á kolefniseiningum færi hækkandi og í því fælust tækifæri fyrir sveitarfélög því þetta gæti orðið langtímaatvinnuvegur og skapað tekjur.

Um orkuskipti sagði Ottó að til þess að standa við skuldbindingar þyrfti væntanlega að auka orkuvinnslu og bæta flutningskerfi, en mikilvægt væri að huga því hvernig við gætum nýtt ferlið til jákvæðrar uppbyggingar fyrir svæðin. Í landbúnaði sagði hann tækifæri felast í bættri nýtingu lífræns úrgangs til áburðar, aukinni innlendri grænmetisframleiðslu og matvælaframleiðslu. Í úrgangsmálum hefði verið rætt um líforkuver og lífrænan úrgang, en einnig gætu falist tækifæri í svarvatnslausnum við skipulag nýrra íbúabyggða.

Fundarstjóri þakkaði framsögumönnum fyrir erindi sín og opnaði mælendaskrá.

Þingfulltrúar tóku til máls og framsögumenn sátu fyrir svörum.

Hér má hlusta á upptöku.

8. Áhersluverkefni 2022
Formaður SSNE, Hilda Jana Gísladóttir flutti inngang að umræðum um hugmyndir að áhersluverkefnum á komandi ári. Hún sagði áhersluverkefni tækifæri kjörinna fulltrúa til að taka ákvarðanir um verkefni sem helst gögnuðust landshlutanum öllum og að mikilvægt væri að horfa til þess hvaða verkefni færðu okkur nær markmiðum í áherslum sóknaráætlunar.

Hún deildi jafnframt þeirri skoðun sinni að vert væri að íhuga hvort æskileg væri að styðja áfram við verkefni sem þegar eru í gangi fremur en að kasta fleiri boltum á loft.

Hún gerði grein fyrir því að kynntar yrðu tillögur að áhersluverkefnum, en stjórn SSNE tæki endanlega ákvörðun um hvaða verkefni yrðu fyrir valinu. Stjórnin legði þó mikið upp úr kynningu á og samtali um framkomnar hugmyndir og viðhorfum þingfulltrúa. Í því skyni yrði á þinginu gerð rafræn könnun um hvaða verkefni þinggestir vildu helst sjá verða fyrir valinu.

8.1. Kynning á framkomnum hugmyndum
Verkefnastjórar SSNE, Elva Gunnlaugsdóttir, Silja Jóhannesdóttir, Rebekka Kristín Garðarsdóttir og Hildur Halldórsdóttir kynntu framkomnar hugmyndir að áhersluverkefnum. Sjá kynningu.

Hér má hlusta á upptöku.

8.2. Umræður og rafræn könnun
Fundarstjóri opnaði mælendaskrá.

Þingfulltrúar tóku til máls.

Fundarstjóri lokaði mælendaskrá.

Silja Jóhannesdóttir, verkefnastjóri hjá SSNE kynnti að því búnu könnun á viðhorfum þinggesta til fram kominna hugmynda um áhersluverkefni. Í ljósi þess að tímarammi könnunarinnar væri knappur hvatti Silja þingfulltrúa til að hafa samband við starfsmenn eftir þingið með ábendingar um fram komnar hugmyndir eða tillögur að nýjum verkefnum, því þeir byggju yfir þekkingu og reynslu sem gæti nýst vel í mótun verkefna.

Nokkrar umræður voru á meðan könnun stóð, en að henni lokinni gerði Silja grein fyrir helstu niðurstöðum könnunar og sagði að þeim yrði komið til stjórnar.

Hér má hlusta á upptöku.

9. Önnur mál
Engin málefni lágu fyrir undir þessum lið en fundarstjóri gaf orðið laust.

Sigurður Þór Guðmundsson tók til máls um ungmennaþing sem haldið var í Mývatnssveit. Hann sagðist eiga von á að sveitarfélögin fengju bráðum skýrslu um það með tillögum um framhald. Hann hvatti þingfulltrúa til að taka jákvætt í þær tillögur og sagði þetta fallegasta verkefni sem hann hefði komið að innan SSNE og þarna lægi framtíðin.

Fundarstjóri lokaði mælendaskrá.

10. Þingslit
Fundarstjóri þakkaði starfsfólki, þingmanni og öðrum framsögumönnum fyrir sitt framlag og óskaði eftir samþykki fundarins fyrir að fundarstjóri og ritari lykju við fundargerð að þingi loknu.

Engar athugasemdir bárust og fundarstjóri bauð formanni að slíta þingi.

Formaður SSNE, Hilda Jana Gísladóttir þakkaði fyrir góðan fund, hvatti fundargesti til að halda góðum samskiptum, nýta þau gögn sem fram hefðu komið og taka þau til umræðu í sveitarfélögunum. Þá sagðist hún binda miklar vonir við að við næðum að hittast á árþingi í apríl.

Hún þakkaði fundarstjóra, starfsfólki og fundargestum fyrir og hvatti til þess að vera í sambandi við stjórn eða starfsfólk.

Fundi slitið kl.12:30

Hér má hlusta á upptöku.

 

 

Getum við bætt síðuna?