Fara í efni

Ársþing SSNE er hafið

,,Sameiginleg framtíðarsýn fyrir landshlutann er dýrmæt fyrir alla ákvarðanatöku og langtímaáætlanir…
,,Sameiginleg framtíðarsýn fyrir landshlutann er dýrmæt fyrir alla ákvarðanatöku og langtímaáætlanir sem unnar eru innan sveitarfélaganna. Svæðisskipulagi er ætlað að takast á við áskoranir líkt og sjálfbæra landnotkun og íbúðauppbyggingu." Sigurborg Ósk Haraldsdóttir flytur erindi sitt um möguleika svæðisskipulags á Norðurlandi eystra

Ársþing SSNE er hafið

Ársþing SSNE fer fram í Þingeyjarsveit í dag og á morgun. Þing SSNE fara með æðsta vald landshlutasamtakanna og þátttaka kjörinna fulltrúa því mikilvæg. Þingum SSNE er ætlað að tryggja lýðræðislega aðkomu allra aðildarsveitarfélaga að málefnum SSNE, vera vettvangur ákvarðanatöku um mikilsháttar málefni þeim og stjórn til leiðbeiningar í veigamiklum málum. Þing var sett í morgun með 92% mætingu fulltrúa.

Á dagskrá þingsins verður horft sérstaklega til áætlunargerðar og verða erindi um svæðisskipulag, áfangastaðaáætlun og sóknaráætlun. Í framhaldi af þeim erindum verður samtal um Sóknaráætlun Norðurlands eystra, en vinna er að hefjast um gerð nýrrar áætlunar sem mun gilda frá 2025 til 2030.

Auk hefðbundinna þingstarfa mun Heiða Björg Hilmisdóttir formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga ávarpa þingið sem og Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri á Norðurlandi eystra, Guðný Friðriksdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar á Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Arnheiður Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, Hólmfríður Sveinsdóttir, sérfræðingur í innviðaráðuneytinu, Helgi Þór Leifsson, framkvæmdastjóri klínískrar þjónustu á Sjúkrahúsinu á Akureyri og Ingibjörg Isaksen, fyrsti þingmaður Norðurlands eystra.

Hér má lesa árskýrslu 2023 en mikilvægt er að fara yfir farinn veg til að móta næstu skref.

Dagskrá þingsins í heild sinni og þinggögn má finna hér.

Getum við bætt síðuna?