Fara í efni

Saman gegn sóun í Hofi

Saman gegn sóun í Hofi

Þriðjudaginn 9. apríl síðastliðinn var haldinn fundur þar sem áhugasömum gafst færi á að fræðast um þau tækifæri sem liggja í bættri nýtingu og minni sóun og koma með tillögur að aðgerðum.
Fundurinn var vel sóttur og heppnaðist vel. Erindi fundarins voru einnig í streymi, sem hægt er að sjá hér.

Á fundinum fóru Þorbjörg Sandra Bakke og Jóhannes Bjarki Urbancic Tómasson, úr teymi "Saman gegn sóun" hjá Umhverfisstofnun, yfir úrgangsforvarnir, forsendur þess að búa ekki til óþarfa úrgang og hvernig hægt sé að huga meira að endurnotkun og viðgerðum sem eru grunnhugmyndir hringrásarhagkerfis.

Albertína Fr. Elíasdóttir framkvæmdastjóri SSNE hélt stutta tölu um mörg af þeim góðu fyrirtækjum og stofnunum á Norðurlandi eystra sem eru að gera góða hluti í úrgangsforvörnum og hvernig hringrásarhagkerfið er sýnilegt í deili- og skiptimörkuðum.

Hrönn Björgvinsdóttir frá Amtsbókasafninu fór yfir mikið af þeim góðu hlutum sem eru í gangi hjá Amtsbókasafninu og hvernig almenningsbókasöfnin geta orðið miðpunktur deilihagkerfis.

Arnar Snorrason frá Sæplast steig þá næstur upp og fór yfir hvernig Sæplast hefur verið í framleiðslu á endingargóðum endurnotanlegum plastílátum undir matvæli í 40 ár. Vörur Sæplast eru í notkun um alla Evrópu og víðar og er eitthvað sem allir Íslendingar þekkja. En körin sem notuð eru í fiskiðnaðinum eru endingargóð og geta verið í notkun fram á "táningsaldur". Þegar þau eru orðin slöpp er hægt að senda þau aftur til baka þar sem þau eru brotin niður og notuð sem hráefni í ný kör. Einnig var áhugavert að heyra um félagið iTUB en það er fyrirtæki sem sér um leigu á körum Sæplast til viðskiptavina á Norðurlöndum.

Eftir kynningar var síðan farið í umræður þar sem skipt var niður í hópa, teknar slido kannanir um áherslur og aðferðir sem munu nýtast við stefnumörkun Saman gegn sóun.

Getum við bætt síðuna?