Fara í efni

Pistill framkvæmdastjóra - mars 2024

Pistill framkvæmdastjóra - mars 2024

Marsmánuður flaug svo sannarlega hratt hjá okkur, enda fjölmargt um að vera hjá okkur þrátt fyrir að mánuðurinn hafi verið í styttra lagi vegna páskahátíðarinnar. Það má segja að mánuðurinn hafi einkennst af nýsköpun og frumkvöðlakrafti, en hann byrjaði með Krubbi á Húsavík sem sýndi vel hvernig stoðkerfi atvinnulífsins og starfandi fyrirtæki geta unnið saman að nýjum lausnum og bættri nýtingu hráefna. Starfsfólk SSNE mætti til Cannes í Frakklandi ásamt fulltrúum annarra landshlutasamtaka, Íslandsstofu og fleiri til að kynna fjárfestingatækifæri á Íslandi, og okkar fólk þá auðvitað að kynna sérstaklega Norðurland eystra og tækifærin sem hér eru – en þau eru fjölmörg. Rétt fyrir páskafríið var það svo Fjárfestahátíð Norðanáttarinnar á Siglufirði sem haldin var í þriðja skipti, en þar komu saman fjárfestar og frumkvöðlar víðsvegar frá. Það má með sanni segja að hún hafi heppnast vel og voru sérstaklega áhugaverðar panelumræður um mikilvægi þess að taka frumkvæði og forystu þegar kemur að atvinnumálum og nýsköpun og því að sveitarfélög og svæði marki sér stefnu og fylgi þeim eftir þegar kemur að verðmætasköpun.

Það er einmitt það sem einkennir svolítið árið framundan hjá okkur- stefnumörkun til framtíðar en á þessu ári verður unnin ný Sóknaráætlun fyrir Norðurland eystra. Sú vinna verður formlega sett af stað á ársþingi SSNE sem haldið verður í Þingeyjarsveit 18.-19. apríl næstkomandi, en strax í lok sumars verða haldnar opnar vinnustofur í öllum sveitarfélögunum innan SSNE þar sem öllum áhugasömum gefst tækifæri til að taka þátt í mótun framtíðarsýnar fyrir landshlutann í heild og þar með hafa áhrif á áherslur og starfsemi samtakanna til næstu ára. Ég vona svo sannarlega að sem flest taki þátt í vinnunni framundan, en það verða fjölmörg tækifæri til að hafa áhrif á stefnuna á næstu mánuðum.

Eitt af því sem við settum af stað líka í mars er samráðsvettvangur atvinnulífs – ég vil ljúka þessum pistli á að minna á að það er alltaf hægt að skrá sig þar til leiks og vonandi sjá flest þau sem hafa áhuga á eða eru þátttakendur í atvinnulífinu tækifæri í því að taka þátt í samtalinu um þennan magnaða landshluta. Það styttist í fyrsta samráðsfundinn þannig að það er um að gera að drífa í að skrá sig!

Þrátt fyrir að vetur konungur hafi minnt ansi rækilega á sig í lok mánaðarins má með sanni segja að það sé vor í lofti og fjölmargt framundan hjá okkur á næstunni. Ég hvet ykkur að lokum að fylgjast með heimasíðunni okkar en þar má alltaf finna nýjustu fréttir af starfseminni og áhugaverðum viðburðum, auk þess sem allar helstu umsóknardagsetningar eru ávallt í viðburðadagatalinu okkar.

Með vorkveðjum,

Albertína Friðbjörg,
Framkvæmdastjóri SSNE

Getum við bætt síðuna?