Fara í efni

Mikilvægt að koma orkumálum við Langanes í betri farveg

Starfshópurinn ásamt sveitarstjórnarfulltrúum við Font, Langanesi.
Starfshópurinn ásamt sveitarstjórnarfulltrúum við Font, Langanesi.

Mikilvægt að koma orkumálum við Langanes í betri farveg

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- og auðlindaráðherra, kynnti í dag skýrslu starfshóps sem ráðuneytið skipaði á síðasta ári til að vinna aðgerðir sem heyra undir málefnasvið ráðuneytisins og stuðlað geta að því að efla samfélagið á Langanesi. Starfshópurinn var skipaður þeim Njáli Trausta Friðbertssyni, sem var formaður hópsins, Berglindi Hörpu Svavarsdóttur og Steingrími J. Sigfússyni.

Er það mat starfshópsins að forgangsmál sé að stórauka flutningsgetu á raforku til Þórshafnar og nágrennis og að beinast liggi við að slíkt verði gert með nýrri og öflugri raflínu frá Öxarfirði til Þórshafnar, sem yrði hluti af flutningskerfi Landsnets.

Í skýrslu sinni leggur hópurinn enn fremur til að ráðuneytið vinni áfram tillögur um friðlýsingarkosti á utanverðu Langanesi og að stofnaður verði þjóðgarður í sátt við íbúa og hagsmunaaðila. Samhliða verði unnið að uppbyggingu innviða og m.a. horft til þess að koma upp starfstöð í náttúrurannsóknum, sem er í samræmi við tillögur nefndar fulltrúa fimm ráðherra um málefni byggðarinnar við Bakkaflóa frá árinu 2018.

Þá leggur starfshópurinn til aðgerðir til þess að styðja við græna atvinnuuppbyggingu á svæðinu, að stutt verði við jarðhitaleit á svæðinu og að skoðaðir verði möguleikar á orkuöflun á svæðinu í samstarfi við orkufyrirtæki.

Á fundi með sveitarstjórnarfólki Langanesbyggðar og þingmönnum kjördæmisins sagði Guðlaugur Þór stefnu ráðuneytisins skýra, og að hann sem ráðherra styddi þessar tillögur heilshugar: „Ég fagna tillögum starfshópsins, sem sýna enn og aftur mikilvægi þess að orkumálum okkar verði komið í betri farveg. Skýrslunni verður fylgt eftir og er eitt af mínum næstu verkum að heimsækja svæðið og ræða við heimafólk um þessi mál.“

Skýrsla starfshóps um eflingu samfélagsins á Langanesi á málefnasviði umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins

Getum við bætt síðuna?