Fara í efni
Framkvæmdasjóður ferðamannastaða

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða er í vörslu Ferðamálastofu. Samkvæmt lögum nr. 75/2011 um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða er markmið og hlutverk sjóðsins að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða og ferðamannaleiða um land allt og styðja með því við þróun ferðaþjónustu sem mikilvægrar og sjálfbærrar stoðar í íslensku atvinnulífi. Það er jafnframt markmið sjóðsins að stuðla að jafnari dreifingu ferðamanna um landið og styðja við svæðisbundna þróun.

Fyrir hverja?

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða fjármagnar framkvæmdir á ferðamannastöðum og ferðamannaleiðum í eigu eða umsjón sveitarfélaga og einkaaðila.

Til hvers?

Sjóðnum er heimilt að fjármagna framkvæmdir er snúa að:

  • Öryggi ferðamanna.
  • Náttúruvernd og uppbyggingu.
  • Viðhaldi og verndun mannvirkja og náttúru.
  • Fjármögnun undirbúnings- og hönnunarvinnu sem er nauðsynleg vegna áðurgreindra framkvæmda.

Hins vegar er sjóðnum ekki heimilt m.a. að:

  • Að bera rekstrarkostnað af mannvirkjum og vegna náttúruverndarsvæða eða annarra ferðamannastaða.
  • Að fjármagna framkvæmdir sem eru á landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru- og menningarsögulegum minjum.
  • Að veita fjármagni til verkefna sem þegar er lokið.

Fyrirhuguðu verkefni skal í umsókn lýst svo skilmerkilega að mögulegt sé að meta styrkhæfi þess.

Styrkur greiðist út í samræmi við lög og reglugerð sjóðsins og eru umsækjendur hvattir til að kynna sér reglurnar. Aðeins eru veittir styrkir til verkefna en ekki til staða eða aðila.

Mótframlag
Mótframlag styrkþega er að jafnaði 20% af styrkfjárhæð. Mótframlag getur verið í formi aðkeyptrar þjónustu, efnis og/eða vinnuframlags.

Varanlegar lausnir
Framkvæmdasjóður ferðamannastaða leggur áherslu á að veita styrki til varanlegra verkefna (langtímalausna) sem byggja á vandaðri hönnun. Að öllu jöfnu er ekki gert ráð fyrir að sjóðurinn veiti fjármagni til uppsetningar skyndilausna nema ef um undantekningartilvik er að ræða þar sem mjög brýna nauðsyn ber til og þá sem undanfara varanlegrar mannvirkjagerðar eða í kjölfar náttúruhamfara.

Mikilvægt að vanda umsóknir !

Væntanlegir umsækjendur eru hvattir til að kynna sér vel þau lög sem gilda um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða nr. 75/2011 og reglugerð nr. 782/2017 og vanda umsóknir sínar í hvívetna.

Nánari upplýsingar um umsóknaferlið er að finna hér:

Starfsfólk SSNE er boðið og búið til að veita aðstoð og leiðbeiningar við umsækjendur, við hvetjum ykkur til að vera snemma á ferðinni og hafa samband sem fyrst.

ALLAR NÁNARI UPPLÝSINGAR ERU HÉR

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða