Fara í efni

Öll velkomin á Sæskrímslin 12. júní

Kynningarmynd Rutar Sigurðardóttur fyrir Sæskrímslin
Kynningarmynd Rutar Sigurðardóttur fyrir Sæskrímslin

Öll velkomin á Sæskrímslin 12. júní

Sæskrímslin eru nýtt íslenskt götuverk af stærri gerðinni sem byggja á íslenskum þjóðsagnaarfi. Sirkuslistahópurinn Hringleikur og leikgervastúdíóið Pilkington Props standa að verkinu ásamt MurMur Productions en verkið er hluti af Listahátíð í Reykjavík, sem einnig er meðframleiðandi verksins. Sæskrímsli, sprottin úr þjóðsagnaarfi Íslendinga, munu lifna við og birtast áhorfendum á hafnarbakkanum í formi stórra leikgerva sem vakin eru til lífs af íslensku sirkuslistafólki auk hóps ungmenna frá hverjum stað sem sýnt er á. Hafgúa tekur yfir togara, hópur fjörulalla leika lausum hala, skeljaskrímsli gengur um með hringlandi brynju sína og vökult auga hinnar risastóru sæskrímslamóður fylgist vel með.

,,Hvað er að gerast á hafnarbakkanum? Fréttir hafa borist af því að togari á veiðum rétt fyrir utan landgrunnið hafi fengið risavaxna og áður óþekkta lífveru í trollið. Skömmu síðar varð hann vélarvana og sendi út neyðarkall. Togarinn hefur nú verið dreginn í höfn. Á meðan beðið er eftir viðbrögðum vísindamanna við þessu furðufyrirbæri gefst almenningi einstakt tækifæri til þess að berja ferlíkið augum. Eru sæskrímsli úr þjóðsögum okkar komin fram í dagsljósið og hvaða skilaboð færa þau okkur“

Verkið er unnið í fjölbreyttu samstarfi við ólíka hópa. Við upphaf verksins var haldin Sæskrímslaráðstefna á Skrímslasetrinu á Bíldudal þar sem m.a. þjóðfræðingar og sjávarlíffræðingar veltu fyrir sér tilvist sæskrímsla. Börn víða um land voru þátttakendur í listrænni rannsókn og við undirbúning verkefnisins. Skrímslasmiðjur voru haldnar í völdum landshlutum í samstarfi við List fyrir alla þar sem börn, í samstarfi við listafólk og þjóðfræðinga, útfærðu hugmyndir um eiginleika og útlit skrímslanna. Hugmyndir barnanna voru svo nýttar beint inn í listræna úrvinnslu verksins. Slíkar smiðjur voru t.d. haldnar á Húsavík. Á hverjum stað taka ungmenni þátt í flutningi verksins þar sem þeim gefst færi á að kynnast möguleikum sirkuslista með sérstökum vinnusmiðjum fyrir sýninguna sjálfa.

Sýningin tekur um 40 mínútur. Aðgangur er ókeypis og verkið er að mestu flutt án orða svo það er aðgengilegt fyrir öll, óháð tungumáli.

Að sýningunni lokinni verður boðið upp á opna sirkussmiðju þar sem börn og fullorðnir geta spreytt sig í ýmiskonar sirkuslistum.

Það stefnir í ævintýralega góðan dag á Húsavík samkvæmt Húsavíkurstofu. Gestir hafnarinnar geta byrjað á því að skoða sæskrímsli úr héraði sem gengur undir nafninu Mánárdýrið í Safnahúsinu, Arctic Creatures sýninguna í Hvalasafninu, tekið þátt í sædýraskrímsla-grímugerð í Fab Lab Húsavíkur, notið matar og miðnæturopnunar í Sjóböðunum, svo eitthvað sé nefnt. 

Hér má finna facebook viðburð Sæskrímslanna: Sæskrímslin á Húsavík | Facebook
Hér má finna nánari upplýsingar um listræna stjórnendur, hönnun, leikgerð, þjóðfræðing, tónskáld, gervasmíði, flytjendur og fleiri aðstandendur: Sæskrímslin | Listahátíð í Reykjavík (listahatid.is)Getum við bætt síðuna?