Fara í efni

Viðtöl við styrkþega

Hér fyrir neðan er hægt að lesa viðtöl við ýmsa styrkþega Uppbyggingarsjóðs Norðurlands eystra. Í hverjum mánuði birtum við viðtal við styrkþega í fréttabréfi SSNE en eftir útgáfu kemur það einnig hér á heimasíðu.

HÉRNA - staðbundin matvara

 
H É R N A - staðbundin matvara, hlaut styrk úr Uppbyggingasjóði 2020 en verkefnið leggur áherslu á sjálfbærni, vinnslu og nýtingu úr staðbundnu hráefni úr héraði, ásamt atvinnusköpun.

,,Ég vissi að maður gat leitað til það sem var Atvinnuþróunarfélagið en það var eitthvað sem maður fór aldrei í að gera. Svo sá ég að það var verið að auglýsa styrki úr Uppbyggingarsjóði og við ákváðum að prófa að sækja um. Þá fórum við að setja hugmyndina meira niður á blað, gera viðskiptaáætlun og fleira. Ráðgjafi hjá SSNE hjálpaði okkur töluvert að fylla þetta út og hvatti okkur áfram. Þegar við fengum styrkinn var það spark í rassinn til að koma okkur af stað og láta ekki hugmyndina renna út í sandinn. Mér hefði vaxið þetta í augum að gera þetta ein og það var gott að hafa aðgang að ráðgjafa", segir Elín Kristbjörg Sigurðardóttir annar eigandi Hérna. Með Elínu í þessu verkefni er Olga Hrund Hreiðarsdóttir en þær eru mágkonur.

 

Rekstur kaffihússins verður í sama húsnæði og hárgreiðslustofa Elínar. ,,Húsnæðið er ekkert svakalega stórt, en það mun bjóða upp á um það bil 20 sæti innandyra, en útisvæðið er stórt, snýr í suður og maður sleikir bara sólina þar á sumrin”, segir Elín. ,,Við viljum bjóða heima- og ferðamönnum upp á hollt hráefni og horfum til Hveravallar í Suður-Þingeyjarsýslu þar sem er ræktað grænmeti sem hentar vel fyrir okkar sýn og við leggjum áherslu á að nota grænmeti hér úr héraðinu en hugmyndin er að hafa þemað létt, ferskt og einfalt með spænsku og ítölsku ívafi.

,,Viðbrögð við verkefninu hafa verið mjög góð, en ég hitti marga í vinnunni minni á hárgreiðslustofunni og forvitin leynir sér ekki”.

Elín segir um að eftirspurn sé orðin allt önnur í dag en fyrir áratug síðan og talar um að allir hafi þörf fyrir að hittast á kaffihúsi í dag, sérstaklega eftir Covid og segir jafnframt að þær ætli ekki bara að fleyta rjómann yfir sumarið. ,,Við teljum að það sé svigrúm fyrir heilsársopnun og höfum bjartsýnina að leiðarljósi að fólk taki vel í það". Aðspurð segir Elín að þær sjá fyrir sér að geta verið með tvö til fjögur störf yfir sumarið sem þær geta ráðið í.

,,Við erum byrjaðar í framkvæmdum og breytingum og vonumst til að opna þegar líður á vor eða byrjun sumars. Við stefnum líka á að vera með Gallerí vegg, þar sem við getum boðið listafólki að hafa myndlista- eða ljósmyndasýningar á kaffihúsinu". Að sögn Elínar stefna þær á að gera eigin vörulínu og nýta hráefnin sem þær myndu fyrst og fremst nota sjálfar í eigin rekstri, en svo mögulega selt, en sú hugmynd er enn á frumstigi. ,,Fyrst og fremst horfum við til einfaldleika og hámarksnýtingu á hráefnum. Við erum í startholum með kynningarstarf en ætlum að vera áberandi á samfélagsmiðlum, með Facebook og Instagram”.

Við óskum Elínu og Olgu góðs gengis með framhaldið en hægt er að fylgjast með verkefninu á facebook og instagram.

*viðtal tekið vorið 2021 hefur einnig birst í 14.tbl fréttabréfs SSNE

 

 

Original north

 

Sigrún Vésteinsdóttir og Sigurður Birkir Sigurðsson

Verkefnið Original North hlaut styrk úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra árið 2019. Um er að ræða lítið fjölskyldu fyrirtæki sem staðsett er á Vaði í Þingeyjarsveit en það eru hjónin Sigrún Vésteinsdóttir og Sigurður Birkir Sigurðsson sem eru eigendur fyrirtækisins.

Tíðar heimsóknir erlendra gesta kveikjan á hugmyndinni
,,Það hafði lengi blundað sú hugmynd hjá okkur hjónum að búa til einhverskonar ferðaþjónustu á staðnum. Ástæðan var sú að við höfðum í nokkur skipti fengið erlenda gesti í heimsókn og voru þeir yfirleitt alveg heillaðir af svæðinu. Þessi hugmynd tók því að þróast og var ákveðið að við færum í samvinnu við Camp Boutique og myndum setja upp lúxustjaldgistingu á Norðurlandi líkt og er á Loftstöðum í Flóahreppi", segir Sigrún Vésteinsdóttir, eigandi Original North.

 

Að sögn Sigrúnar hefur svæðið upp á ýmislegt að bjóða og staðsetninginn er á margan hátt einsstök en tjöldin, sem eru sérstaklega hönnuð fyrir íslenskar aðstæður, eru staðsett rétt við bakka Skjálfandafljóts. Rétt sunnan við tjöldin er svo náttúruperlan Fossselsskógur, ásamt eyjunum Þingey og Skuldaþingsey sem voru sögufrægir þingstaðir til forna og Ullarfossi. Original North er hluti af Demantshringnum og er því stutt í margar af helstu nátttúruperlum svæðisins. „Við teljum að nú, sem aldrei fyrr, kunni fólk að meta náttúruna og það sem hún hefur upp á að bjóða. Það er eins og að fólk sé farið að skynja í auknum mæli þörfina fyrir því að tengjast náttúrunni með einhverjum hætti“, segir Sigrún.

Bjartsýn fyrir komandi sumri
,,Síðastliðið sumar var annað sumarið okkar með tjöldin og vissum við því ekkert á hverju við ættum von á". Aðspurð segir Sigrún heldur betur hafa ræst úr sumrinu 2020 þar sem Íslendingar tóku þeim afar vel og voru duglegir að bóka bæði tjaldgistingu og hjólaferðir. Að sögn Sigrúnar voru íslenskir ferðamenn til fyrirmyndar í alla staði og voru spenntir og ánægðir að prófa þennan óhefðbundna gistimöguleika á bökkum Skjálfandafljóts. ,,Við vonum að komandi sumar verði heldur betra en það síðasta og að með haustinu verðum við farin að sjá þó nokkra aukningu á erlendum ferðamönnum. Við erum því bara nokkuð bjartsýn fyrir komandi sumri og hausti", segir Sigrún að lokum.

Hægt er að finna frekari fréttir og upplýsingar um Original North - Camp Boutique HÉR

*viðtal tekið vorið 2021 og birt í 12.tbl fréttabréfs SSNE

 

Orgelkrakkar

 

Orgelkrakkar er verkefni þar sem þátttakendur fá tækifæri til að setja saman lítið, sérsmíðað orgel frá grunni og kynnast þannig uppbyggingu hljóðfærisins og hvernig hljómurinn í því myndast. Verkefnið hlaut styrk úr Uppbyggingasjóði árið 2021, en Sigrún Magna Þorsteinsdóttir, verkefnastjóri Orgelkrakka segir okkur hér meira um verkefnið.

Innblásturinn alla leið frá Stokkhólmi
,,Það var í raun fyrir um það bil einu og hálfu ári síðan að við vinkonurnar sem stöndum að þessu verkefni vorum staddar í Stokkhólmi og tókum þátt í vinnustofu sem hefur í grunninn sömu hugmyndafræði og Orgelkrakkar. Við kolféllum fyrir þessu og fórum strax að afla okkur upplýsinga hvernig væri hægt að gera svipað verkefni hér á landi. Okkur fannst þetta spennandi en verkefnið er einstakt sinnar tegundar á Íslandi”, segir Sigrún. Að sögn Sigrúnar hefur þessi hugmynd verið undirliggjandi hjá þeim í þónokkurn tíma en í dag starfa þær báðar við að kenna orgel þar sem fullorðnir eru yfirleitt nemendur. ,,Það er frábært hvað krakkar sem koma og sjá og taka þátt verða heilluð af þessu hljóðfæri og kynnast hinum ótal hljómheimum sem koma frá orgelinu, en markmiðið er auðvitað að kynna hljóðfærið sem slíkt og innviði þess”, segir Sigrún.

 

Aukin menning og fjölbreytileiki fyrir minni staði
,,Með lítilli fyrirhöfn getum við aukið menningu og fjölbreytileika fyrir minni staði, þannig að ég tel að samfélagsleg áhrif þessa verkefnis séu alveg mjög mikilvæg”, segir Sigrún. ,,Styrkurinn sem við fengum úr Uppbyggingarsjóði skiptir sköpum fyrir verkefni sem þetta, því hefðum við ekki fengið styrk hefðum við ekki getað farið af stað”. Eins og er, er verkefnið aðallega hugsað fyrir börn, þar sem upp eru settar litlar vinnustofur og hægt að vinna mismunandi verkefni í hópum samtímis.

Sigrún segir að orgelið sem framleitt er í Hollandi hafi komið til landsins í október í pörtum og því fylgja leiðbeiningar og teikningar hvernig á að setja það saman. ,,Börnin sjá svo um að smíða hljóðfærið og hjálpast að við að setja það saman með okkar hjálp. Einn hópur setur til dæmis saman pípurnar, annar smíðar rammann osfrv, svo spilum við á það og tökum það svo saman í sundur. Orgelið er því hægt að nota aftur og aftur í sama tilgangi”.

Að sögn Sigrúnar hefur það fengið góð viðbrögð frá almenningi og hafa kollegar verkefnastjóranna einnig sýnt verkefninu áhuga.

Hægt er að fræðast meira um verkefnið á Facebook síðu Orgelhússins

*viðtal tekið vorið 2021 og einnig aðgengilegt í 13. tbl. fréttabréfs SSNE. 

 

Allra veðra von - nýsirkussýning

Verkefnið Allra veðra von er nýsirkussýning sem íslenska sirkusfélagið Hringleikur hefur verið að sýna og þróa og hlaut það styrk úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra 2020. Eyrún Ævarsdóttir úr leikhópnum sagði okkur nánar frá verkefninu.


Allra veðra von

Veður og umhverfi á hverjum sýningarstað fær virkt hlutverk í sýningunni
,,Við í sirkushópnum Hringleik vorum að leita leiða til að sýna og þróa frekar sirkuslistir á Íslandi. Sköpunar- og sýningarrými sem henta sirkuslistum, sérstaklega fyrir loftfimleika og akróbatík, eru því miður af skornum skammti á Íslandi. Okkur datt þá í hug að láta reyna á að setja upp sýningu utandyra, þar sem er nóg pláss, en þurfum þá að sjálfsögðu að takast á við íslenska raunveruleikann sem felst í veðrinu og þar kviknaði hugmyndin að sirkussýningu sem fjallar um veðrið. Veðrið og umhverfið á hverjum sýningarstað fær virkt hlutverk í sýningunni og það sem okkur finnst mest spennandi við þetta verkefni er að sýninguna má setja upp hvar sem er á landinu, óháð aðstöðu fyrir hefðbundið leikhús", segir Eyrún.

Aðspurð segir Eyrún að tilgangur verkefnisins sé annars vegar að kynna áhorfendum á öllum aldri víðsvegar um landið fyrir sirkuslistum og þá sérstaklega nýsirkus, með sirkussýningum og námskeiðum og hins vegar að búa til áhrifaríka upplifun sem er sambland menningarviðburðar og útivistar, sem hvetur fólk til að velta fyrir sér sambandi okkar við náttúruna. ,,Við vonum svo sannarlega að þetta verkefni opni á umræður og vangaveltur um hvernig við getum lifað með veðrinu og náttúrunni. Veðrið hefur mjög mikil áhrif á okkur hérna á Íslandi og núverandi framtíðarsýn bendir til þess að það muni aukast frekar, og því finnst okkur mjög mikilvægt að taka upp jákvæða umræðu um viðhorf til náttúrunnar gegnum listir og skapandi starf og hvernig við tengjumst náttúrunni á persónulegan og skapandi hátt”, segir Eyrún.

 

Frumkvöðlar í sirkuslistum
Eyrún segir að sýningin sé nýsirkussýning og ein af þeim fyrstu sem framleiddar eru hér á landi. ,,Við viljum leggja mikið upp úr því að skoða hvaða farveg sirkuslistir geta fundið sér hér á Íslandi. Nýsirkus er listgrein þar sem sirkusgreinarnar, s.s. loftfimleikar, djöggl, jafnvægislistir eða akróbatík eru teknar út fyrir hefðbundinn atriðaramma og notaðar með listrænum hætti, til að tjá tilfinningar, sögu eða hugmyndir, eins og aðrar sviðslistir gera." Hópurinn er nú að skipuleggja heljarinnar sýningarferðalag um landið næsta sumar í samstarfi við Körnu Sigurðardóttur verkefnastjóra, en Allra veðra von hefur verið á ferðinni í júní, júlí og ágúst með sýningar í samvinnu við leikstjórann Agnesi Wild, búningahönnuðinn Evu Björgu Harðardóttur og tónlistarkonuna Sigrúnu Harðardóttur.

Sóknaráætlanir og sveitarfélög taka vel í verkefnið
Sóknaráætlanir og sveitarfélög hafa tekið verkefninu opnum örmum og er hópurinn með samstarfsaðila um allt land. Eyrún segir að hópurinn vonast til að verkefnið geti lagt grunn að eða styrkt virkt sirkusstarf sem víðast á landinu og að sirkussýningar og námskeið geti verið hluti af menningarflóru allra landshluta til frambúðar. ,,Stuðningur frá Uppbyggingasjóði hefur gert okkur kleift að framkvæma verkefnið með þeim hætti sem við óskuðum okkur, að koma með Allra veðra von á Norðarland eystra”, segir Eyrún.

Allra veðra von hlaut Grímuverðlaunin fyrir dans- og sviðshreyfingar ársins 2021 og við óskum hópnum til hamingju með það.
Nánari upplýsingar um Hringleik og hvað er í vændum hjá félaginu er að finna á www.hringleikur.is.

*viðtal tekið vorið 2021
Sjá einnig viðtalið í 18.tbl fréttabréfi SSNE

 

Barnabókmenntahátíð í Hofi

 Mynd: Auðunn Níelsson

Barnabókmenntahátíð, er tveggja daga hátíð þar sem barnabækur, börn og barnabókahöfundar eru í fyrirrúmi. Verkefnið fór fram í Hofi í apríl og var unnið í samstarfi við Menningarhúsið Hof, Barnabókasetur Íslands, Gilja- og Naustaskóla, réttindaskólum Unicef á Akureyri og Ungmennaráðs Akureyrar. Verkefnið hlaut styrk úr Uppbyggingarsjóði en starfsmaður SSNE fékk Kristínu Sóley Björnsdóttir, menningarstýru Hofs og verkefnastjóra Barnabókmenntahátíðarinnar til að segja okkur aðeins verkefninu.

 Ýta undir ímyndunarafl barnanna
,,Tilgangur hátíðarinnar er að ýta undir ímyndunarafl barnanna okkar sem alast upp í afar sjónrænum heimi í dag”, segir Kristín Sóley, verkefnastjóri. Að sögn Kristínar eru markmiðin fyrst og fremst þau að virkja börn til þátttöku og sköpunar og efla menningaruppeldi í landshlutanum. Auk þess að tengja saman kynslóðir, stofnanir, setur, einstaklinga og listafólk. Síðast en ekki síst að innleiða nýja listahátið í landshlutann þar sem barnabækur, ímyndunarafl og sköpun barna eru í aðalhlutverki.

Kristín segir að hugmyndin hafi fengið góðar viðtökur og bindur miklar vonir um framhald verkefnisins. ,,Hugmyndin kviknaði í kjölfar samstarfs okkar í Menningarhúsinu Hofi við Bókmenntahátíðina í Reykjavík, en við höfum tvisvar staðið fyrir dagskrá hér nyrðra í aðdraganda hennar og hún mælst afar vel fyrir. Þar sem hún átti að vera í apríl í ár kviknaði sú hugmynd að bæta barnabókmenntavinkli við dagskrá Bókmenntahátíðarinnar hér norðan heiða. Slá þar með tværi flugur í einu höggi og tengja viðburðinn við Barnamenningarhátiðina okkar hér á Akureyri um leið." Aðspurð um verkefnið á tímum Covid segir Kristín að vel hægt sé að finna lausnir og vinna með þær fjöldatakmarkanir sem eru í gildi hverju sinni. ,,Við erum orðin býsna sjóuð í því hér í Hofi og ég veit að kennarar og stjórnendur skólanna eru með meirapróf í lausnamiðaðri vinnu hvað sóttvarnir og fjöldatakmarkanir varðar”, segir Kristín.

Samfélagsleg áhrif verkefnisins mikil

Samfélagsáhrifin segir Kristín felast í því að veita ungu kynslóðinni tækifæri til menningarlegs uppeldis með því að bjóða þeim að hlusta á og hitta verðlaunaða og vinsæla barnabókarithöfunda, auk þess að gefa henni tækifæri til að vinna með þeim í listasmiðjunum. ,,Við vonumst einnig til þess að áhrif hátíðarinnar verði þau að unga kynslóðin finni að barnamenning sé aðgengileg, mikilvæg og skipti máli."

,,Með hátíðinni bjóðum við uppá vettvang þar sem unga kynslóðin getur átt stefnumót við reynsluríka rit- og myndhöfunda, hlustað á upplestur úr bókum, spurt höfunda gagnrýninna spurninga sem brenna á þeim, átt samtal við höfunda og aðra þátttakendur, kynnst hugarheimi rithöfunda og því hvernig hugmyndir verða að spennandi sögusviði með því að taka þátt í listasmiðjunum”, segir Kristín Sóley, verkefnastjóri.

Pastel ritröð

Flóra menningarhús hefur seinasta áratug staðið fyrir ólíkum sérverkefnum á menningarsviði hér á Norðurlandi, staðið að sýningum og viðburðarhaldi og rekið vinnustofur listamanna. Pastel varð til í samtali Flóru og nokkurra listamanna, þar sem fundið var þörf á meira samstarfi milli landshluta, listgreina og reynslustiga. Auk þess fannst þeim sárlega vanta tilraunakenndan og óformlegan vettvang fyrir slíkt samstarf hér norðan heiða. Pastel hófst haustið 2016 með undirbúningi á fimm bókverkum og viðburðum þeim tengdum og fyrstu verkin litu dagsins ljós vorið 2017.

Verkefnið Pastel ritröð hlaut styrk úr Uppbyggingarsjóði árið 2020. 

 

Hver er tilgangur, markmið og/eða innblástur verkefnisins?
Með Pastel þá leiðum við saman yngri og eldri listamenn, reyndari og óreyndari og hvetjum nýliða til áframhaldandi listsköpunar og þau reyndari til þess að stíga jafnvel út fyrir sinn þróaða vinnuramma. Við vöndum til en stjórnum minna hvert listaverkið leiðir mann. Þannig virkar Pastel ritröð bæði verkefnaskapandi fyrir einstaka listamenn, en einnig sem neisti inní grasrótarstarf lista og menningar hér á Norðurlandi. Um leið stuðlum við að kynningu á bókverkaforminu sem listformi.

Öll listaverkin okkar eru frumsköpun, það er verk sem ekki hafa áður verið flutt eða birt. Það sama gildir fyrir framlag listamanna okkar á viðburðum Pastel. Við vinnum einnig ötullega að því að tengja listafólk saman og einnig að kynna listamenn okkar fyrir almenningi og skapa flæði á milli þessara hópa. Viðburðir á vegum Pastel og upplýsingasíða verkefnisins www.pastel.is þjóna þessu flæði vel.

Fyrir hverja er verkefnið ætlað ?
Pastel ritröð tengir saman grasrót listamanna og stofnanir, leiðir saman ólíka listamenn úr röðum myndlistar, leikhúss, ritlistar og tónlistar, sem og almenning og listamenn. Bókverkin eru listaverk í smáritaformi, einföld og aðgengileg. Í verkunum blandast textar og myndefni saman í mismunandi vægi, allt eftir því hvaða jafnvægi og túlkunarmátur þjónar viðkomandi listamanni.

Bókverkin verða til nokkur samhliða, þótt hver listamaður fyrir sig vinni að eigin verki. Það eru svo nokkur verk sem líta dagsins ljós samtímis, 4-6 verk á ári. Við komum fram á viðburðum á þann hátt sem þjónar hverju og einu verki, sumir meira í formi hljóðs eða tónlistar, aðrir lesa eða fremja verkin munnlega. Við ferðumst um saman nokkur í hóp, stundum í hversdeginu eins og með upplestri í heitum potti sundlaugar, eða með viðburði á menningarvettvanginum Mengi í Reykjavík, nú eða þá í Sauðaneshúsi á Langanesi.

Felur verkefnið í sér jákvæð samfélagsleg ? Eykur verkefnið umhverfisvitund ?
Verkin hafa verið prentuð í svansvottaðri prentsmiðju í heimabyggð Pastel ritraðar á Akureyri. Eins erum við í góðu samstarfi við staðarhaldara, listamenn, grafískan hönnuð, ljósmyndara, upptökuaðila, gistihúsarekanda, vefhönnuð, veitingamenn og fleiri aðila, sem öll fá verkefni í tengslum við listsköpun okkar og viðburðarhald. Það fjármagn sem SSNE leggur til verkefnisins, auk þess sem Flóra leggur fram á móti, streymir allt út í samfélagið. Þessar upphæðir eru hver um sig ekki háar, en allt telur það. Auk jákvæðra umhverfislegra og hagrænna áhrifa, þá ýtir slíkt samstarf undir listsköpun og frekara samstarf skapandi aðila á svæðinu og skapar tengsl langt út fyrir það. Norðurland býr að öflugum menningarstofnunum, sem þarf að hlúa vel að. Við þurfum líka á kröftugu sjálfstætt starfandi listafólki að halda, sem starfar meira utan þessarra stofnanna en þó stundum innan þeirra líka. Þessir listamenn búa hér, vinna að eigin listsköpun og mynda óformlegan vettvang grasrótar fyrir tilraunir og tilurð nýjabrums í menningu okkar. Pastel ritröð undir hatti Flóru menningarhúss myndar einn vettvang listsköpunar og tengslamyndunar fyrir þennan hóp. Það skiptir líka máli að standa að listsköpun sem er ekki markaðsdrifin.

Hvernig viðbrögð hefur verkefnið verið að fá frá samfélaginu? 
Pastel hefur fengið alveg frábærar viðtökur og þær hafa hvatt okkur til áframhaldandi starfs. Það sýndi sig ekki eingöngu að þörfin var mikil hjá listafólkinu sjálfu fyrir slíkan samstarfsvettvang og verkagerð af þessum toga. Fjölmargir listamenn bæði hér fyrir norðan og einnig fyrir sunnan hafa áhuga á að taka þátt í Pastel. Almenningur hefur tekið Pastel fagnandi. Við höfum verið mjög ánægð með aðsókn á viðburði okkar og undirtektir fólks almennt afar góðar.

Hvernig hefur gengið að koma verkefninu af stað eða halda því gangandi á tímum Covid? Hefur þurft að aðlaga verkefnið sérstaklega á ný vegna takmarkana vegna Covid?
Seinasta ár reyndi töluvert á aðlögunarhæfni okkar, eins og margra annarra. Okkur tókst með tilfærslum og ýmsum breytingum á plönum og smá áherslubreytiingum að raungera fyrirætlanir okkar á árinu 2020. Það kostaði fyrirhöfn og vinna okkar varð þónokkuð meiri fyrir vikið, en það hafðist allt. Við lögðum áherslu á að færa okkur meira inn í netheima og til lengri tíma á það eftir að gera sig vel fyrir verkefnið í heild, samhliða listaverkasköpun og viðburðarhaldi. Á kófárinu mikla 2020 leit vefsíða verkefnisins dagsins ljós og átti faraldurinn sinn þátt í að ýta undir tilurð hennar. Öll okkar starfsemi á árinu 2021 er líka sett upp þannig að hægt verði að færa til og breyta ef þess þarf.

Hefur verkefnið tengingu við aðra starfsemi/verkefni ?
Við leggjum mikla áherslu á að vinna með fjölbreyttum hópi listafólks, staða og stofnanna og skapa þar með sem flestar tengingar. Þannig vinnum við jafnt með minna þekktu listafólki eins og til dæmis Karólínu Rós Ólafsdóttur upprennandi skáldi, en eins með þjóðþekktum listamönnum líkt og Megasi. Við höfum unnið með staðarhöldurum og stofnunum eins og Bókmenntahátíðar í Reykjavík, Hofi, A! gjörningahátíð, Listasafni Íslands, Mengi, Sauðanesi á Langanesi, frumkvöðlum á Sunnuhvoli í Bárðardal og Alþýðuhúsinu á Siglufirði.

Hvar/hvernig verður hægt að nálgast upplýsingar um verkefnið?
Best er að lesa sig til um Pastel ritröð og skoða verkin og listamenn okkar inn á síðu verkefnisins www.pastel.is. Þar er hægt að skoða aðeins inní hvert verkanna, en þau eru jú í millitíðinni orðin 25 talsins. Eins eru verkin aðgengileg í Hafnarhúsi Listasafns Reykjavíkur, á Listasafninu á Akureyri og í Flóru menningarhúsi, auk nokkurra bókasafna víðsvegar um landið.

Hvað er framundan? Hver eru næstu skref í ferli verkefnisins?
Við erum einmitt að vinna áfram í vefsíðu Pastel nú með vorinu. En svo eru í undirbúningi fimm ný verk frá Matthíasi Tryggva Haraldssyni tónlistamanni/leikritaskáldi, Móheiði Hlíf Geirlaugsdóttur skáldi/minjaverði, Árna Friðrikssyni leikritaskáldi/framhaldsskólakennara, Sesselju Ólafsdóttur ljóðskáldi/leikritahöfundi og Gerði Kristnýju rithöfundi. Framundan eru líka allnokkrir viðburðir á vegum Pastel.

 Eru einhver plön á að koma á laggirnar einhverju svipuðu verkefni í framhaldi af þessu?
Allt samstarfið og samræðurnar í tenglsum við Pastel hafa vissulega kveikt margar góðar hugmyndir. Við munum auðvitað vinna áfram að þróun Pastel og miðla þannig verkum fleiri listamanna út í samfélagið og stuðla þannig líka að því að hugmyndir og samstarf kvikni. Við höfum orðið vör við þörf á víðtækari vettvangi þeirra sem vinna sérstaklega að listsköpun með texta í blönduðum listformum og meiri kynningu á verkum þeirra. Það kemur vel til greina að Flóra menningarhús taki að sér að þjóna þeim breiðari hópi meðfram og í samstarfi við listafólk og samstarfsaðila Pastel.

Hver er þín upplifun/reynsla af umsóknarferli SSNE og úthlutun úr Uppbyggingasjóði?
Það hefur verið gott að leita til ráðgjafa menningarmála hjá SSNE, bæði hvað varðar umsóknir í sjóði SSNE, en líka varðandi áframhaldandi þróun á verkefnum. Það skiptir sköpum að hafa líka bakland hjá SSNE í þróun verkefna og eins í fjármögnun þeirra. Samræðurnar eru veigamiklar og fjárstuðningur SSNE skiptir sköpum.

Að lokum – getur þú sagt okkur stuttt frá því, hvaða máli það skiptir þig að fá stuðning frá Uppbyggingasjóði?
Kófið hefur kennt okkur að verkefni okkar þurfa að vera aðlögunarhæf og tilbúin að taka jafnvel hröðum breytingum í aðlögun að umbreytingum í umhverfinu. Auk þess sem þau í sjálfu sér eru kvik og í þróun. Slík lifandi verkefni þurfa um leið að vera jarðbundin og eiga gott bakland. Við sem berum ábyrgð á verkefnum af þessu tagi stöndum auðvitað í hringiðunni. Það skiptir hins vegar sköpum að búa að bakhjörlum eins og SSNE. Það skapast ákveðin samkennd og stundum samtal og samvinna milli okkar styrkþega SSNE og er það allt mikils virði. Sem styrkþegi uppbyggingarsjóðs er maður hluti af frjóum hópi raunsærra framkvæmdaðila, gott að finna þar líka þann kraft sem býr í fólkinu hérna og frábært að upplifa þann fjölbreytileika verkefna sem fólk er að vinna að. 

**viðtal tekið vorið 2021