Fara í efni

Uppbyggingarsjóður

Uppbyggingarsjóður er samkeppnissjóður og er hluti af Sóknaráætlun Norðurlands eystra. Sjóðurinn hefur það hlutverk að veita verkefnastyrki til menningarverkefna, atvinnuþróunar og nýsköpunar auk stofn- og rekstrarstyrkja til menningarmála. Sjóðurinn styrkir að jafnaði ekki meira en 50% af heildarkostnaði verkefna. Auglýsa skal opinberlega, minnst einu sinni á ári, eftir umsóknum um styrki til verkefna sem samræmast sóknaráætlun landshlutans. Stofnanir, opinber hlutafélög og samtök í meirihlutaeigu ríkis eða sveitarfélaga skulu að jafnaði ekki vera leiðandi aðili í verkefnum styrktum af uppbyggingarsjóði landshlutans.

Stjórn SSNE fer með yfirstjórn Uppbyggingarsjóðs Norðurlands eystra. Stjórnin skipar fagráð og úthlutunarnefnd Uppbyggingarsjóðs en í henni sitja formenn fagráða auk þriggja aðila skipuðum af stjórn SSNE. 

Fagráð

Fagráð eru nú tvö, á sviði menningar annars vegar og á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar hins vegar. Í hvoru fagráði sitja fimm manns og er formaður er skipaður sérstaklega. Hlutverk fagráðana er að leggja faglegt mat á umsóknir sem berast Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra um styrki á hvoru sviði og leggja tillögur um styrkvilyrði fyrir úthlutunarnefnd uppbyggingarsjóðs, sbr. 4. grein verklagsreglna hans.

Úthlutunarnefnd

Úthlutunarnefnd tekur við tillögum fagráða og gengur úr skugga um að farið sé að ákvæðum samnings um Sóknaráætlun Norðurlands eystra og verklagsreglna um úthlutun styrkja úr uppbyggingarsjóði, að byggt sé á markmiðum og áherslum sóknaráætlunar landshlutans hverju sinni og að úthlutanir séu innan fjárhagsramma samþykktum af stjórn SSNE. Kappkosta skal að hafa faglega heildarsýn að leiðarljósi.

Úthlutunarnefndin tekur svo ákvörðun um þau verkefni sem styrkt verða á grundvelli faglegs mats og tillagna að styrkhæfum verkefnum frá fagráði menningar og fagráði atvinnuþróunar og nýsköpunar.